Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFjallagras
Spurningaskrá25 Fjallagrös

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1898

Nánari upplýsingar

Númer2586/1972-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1972
Nr. 2586

p1
Heitið fjallagrös var notað sem heildarnafn yfir fjallagrös
yfirleitt. Fjallagrös voru aðallega skæðagrös, stór og þykk og
svo smátoppar kölluð kræða. Þau voru smá og varla, eða minna
tekin ef nóg var til af stærri grösunum. Þó var allt tínt ef
lítið var af grösum. Samt voru stóru grösin, skæðagrösin í
mestum metum, þó var öllu blandað saman í tínupokanum.
Grasaland nefndist yfirleitt land þar sem fjallagrös fundust og
voru tekin. Ekki man ég eftir neinu örnefni sem varð til vegna
grasatínslu, ekki heldur hve langur tími liði milli þess sem tína
mátti grös, eða hægt var að tína grös aftur þar sem áður hafði
verið svo til fulltínt.
Grasatekja, svo nefndust þau hlunnindi jarða ef fjallagrös uxu í
landi þeirra og var metið til hlunninda. Hvort það var tekið með
við sölu jarða eða leigu, veit ég ekki. En leyfi mun hafa þurft
að fá hjá landeiganda sem þar átti upprekstur ef tekin voru þar
grös sem nokkru nam, og þá sennilega greitt eitthvert gjald
fyrir. Þó er ég þessu ókunnugur.

p2
Notagildi.
Þegar rætt var um notagildi fjallagrasa til matar var þeim ætíð
jafnað móti rúgi eða rúgmjöli. Mig minnir að vel troðinn
tunnupoki af þurrum fjallagrösum væri metinn á móti tunnu af rúgi
eða rúgmjöli. Ég held ef verslað var með fjallagrös þá væri
þetta lagt að jöfnu. Stundum voru fjallagrös notuð til gjafa.
Grasafjall, að fara til grasa.
Það var ýmist nefnt að fara til grasa eða fara á grasafjall. Að
fara á grasafjall, þýddi að farið var í útilegu með tjald og
viðleguútbúnað. Grasaveður var gott ef súld var eða blautt á.
Grösin sáust betur ef blautt var á, og grasafólk varð síður
sárhent ef grösin voru blaut. Mikið verra var að tína þau ef
þurrt var á, þessvegna voru fjallagrösin oftast tínd á nóttunni
og sofið á daginn.
Fararbúnaður.
Ég þekki ekki til fararbúnaðar, því frá heimili föður míns var
ætíð farið til grasa á kvöldin og komið heim að morgni. Þetta
var á Hrafnagili í Laxárdal ytri.

p3
Tínupokar voru frekar stuttir strigapokar og fest band í opið sem
síðan var smeygt yfir hálsinn og voru grösin látin í hann
jafnóðum og þau voru tínd. Þetta var haft svo til þess hægt væri
að tína með báðum höndum ef mikil grös voru fyrir hendi, þá
fylgdist pokinn með af bandinu sem smeygt var yfir hálsinn.
Hafði maður svo vinstri höndina til að halda í sundur opinu á
tínupokanum svo þægilegra væri að láta grösin í pokann með þeirri
hendinni sem tínt var með. Grasapokinn sem grösin voru borin í
heim var hjá okkur, sem grösuðum bara einn og einn dag í einu,
bara hálftunnupokar sem vel var troðið í, og stundum látið í
tínupokann ef öll grösin komust ekki í annan pokann.

p4
Grasaferð.
Að jafnaði var farið fyrir slátt til grasa, og samheiti á fólki
sem fór til grasa var grasafólk. Oftast var að fólk samlagaði
sig til að fara á grasafjall af fleiri bæjum. Sumir miðuðu við
það að fá ársforða, það t.d. gerðu foreldrar mínir, en aðrir bara
til að fá sér dálitla búbót. Best þótti að fara þegar rekja var
eins og áður er sagt. Hef lýst því á bls. 3 þegar farið var til
grasa að kvöldi, ekki morgni. Foringi enginn þar ég þekkti til.
Að tína grös.
Það var venja að byrja tínslu að kvöldi, en ljúka að morgni
dagleg. Grasafólkið dreifði oftast mikið úr sér ef nógu stórt
var grasalandið. Oftast var stóð fólk hálfbogið við tínsluna en
þó krupu margir við það þegar bakverkurinn var orðinn mikill.
Tínupokinn ýmist dreginn eða borinn, bundinn upp um háls með
dálítið góðu bandi. Hver losaði í sinn poka til heimflutnings og
bar hver sinn grasapoka, því ekki var langt heim með grösin þar
sem ég var. Það þótti ekki taka því að flytja á hestum. Ekki
veit ég hvað mikið af fjallagrösum þótti hæfilegt dagsverk.

p5
Frágangur og flutningur.
Það get ég ekki sagt um þar sem ég var aldrei í viðlegu við grös,
en hef lýst því hér áður á síðasta blaði hvernig flutt voru
fjallagrös, sem flutt voru heim daglega.
Þurrkun, geymsla, hreinsun.
Þar sem ég þekkti til voru fjallagrösin þurrkuð úti í logni og
sterku sólskini, því ef þau voru geymd blaut, vildu þau mygla.
Hreinsun fór þannig fram að meðan þau voru þurrkuð, voru þau
hrist upp (vinsuð), síðan látin þurr í poka og geymd á þurrum
stað þar til þau voru notuð. Þá voru þau tínd og hreinsuð
jafnóðum og þau voru notuð til matar.
Grasajárn og grasabretti.
Grasajárn og grasastokkur hétu áhöld þau sem höfð voru til að
saxa grös með og fór söxun fram í eldhúsi eða búri. Aðra aðferð
þekkti ég ekki við söxun, en oft voru notuð ósöxuð grös, bæði í
brauð (pottbrauð) og slátur. Ekki vissi ég til þess að þau væru
möluð með korni.

p6
Fjallagrös til matar.
Fjallagrös voru mikið notuð í grauta, söxuð, og rúgmjöli kastað
út á svona til helminga. Soðin í 2 klst áður en útákastið var
látið, síðan soðið 1 klst til viðbótar. Alls 3 stundir.
Grauturinn varð þykkur þegar hann kólnaði. Grasagrautur,
hræringur þótti mjög saðsamur og gefinn bæði heitur og kaldur með
súrmjólk eða skyri og mjólk út á. Oftast borðað að hausti og
vetri og álit manna var að hann væri mjög hollur og saðsamur og
þótti öllum góður.
Fjallagrös í slátur.
Fjallagrös voru notuð jöfnum höndum í slátur sem átti að geyma
eða eyða eftir hendinni, bæði blóðmör og lifrarpylsu og þar sem
voru nóg fjallagrös til voru þau notuð ýmist til þriðjunga eða
helminga, þar sem lítil geta var á að kaupa rúgmjöl.
Fjallagrasaslátur þótti mér og fleirum mun betra en slátur úr
tómu rúgmjöli og pottbrauð með fjallagrösum í þótti sælgæti.
Brauð: Fjallagrös voru líka mikið notuð í brauð, bæði pottbrauð
og flatbrauð. Í hlutföllum oftast 1/3 af fjallagrösum minnir
mig. Að hleypa grös þekkti ég ekki til. Grasamjólk: Soðin var
dágóð visk af grösum í mjólk (undanrennu), magn eftir því hvað
margir áttu að borða. Þetta síðan sopið

p7
heitt, þegar búið var að sjóða það í 1 klst.
Grasavatn, grasate. Stundum var það notað í kaffisstað, en
flestum kaffikerlingum og körlum mun hafa þótt það lítið til
hressingar, og bragðið ekki við kaffismekk eða komist í samjöfnuð
við það. Þætti fjallagrasa í nútíma matseld treysti ég mér ekki
til að gera skil, því lítt er ég lærður í matreiðslu.
Fjallagrös til lækninga.
Ekki þekkti ég til að fjallagrös væru notuð til annarra lækninga
en við kvefi eða hæsi. Þá var tekinn góður hnefi af fjallagrösum
og látið í dálítinn pott ásamt vatni og svo var kandíssykur
látinn saman við þetta, sem síðan var soðið í sem næst 1 klst.
Seyðinu síðan hellt af í könnu eða flösku, síðan var þetta
drukkið t.d. 3svar til 4 sinnum á dag og batnaði kvef og hæsi
oftast örugglega af þessu lyfi, ef þetta var gert fljótlega eftir
að vart var við veikina.
Fjallagrös í máli og sögum.
Þar veit ég ekkert eða man. Því miður.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana