Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFjallagras
Spurningaskrá25 Fjallagrös

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1904

Nánari upplýsingar

Númer2681/1972-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.5.1972
Nr. 2681

p1
Tegundir fjallagrasa.
Aðeins ein tegund grasa var notuð á heimili mínu, hin
hreinræktuðu fjallagrös. Ekki öðrum tegundum grasa blandað
saman. Ein tegund grasa líktist allmjög fjallagrösum og er nefnd
"kræða". En hún var ekki tínd með, ætíð sneitt hjá henni. Að
lit er kræðan dekkri en fjallagrös og smærri vexti og harðari
viðkomu.
Grasaland.
Þá fræfærnalömbin voru rekin til fjalla eða heiða var oft farið í
grasatekju um leið. Þá brást ei að fólk finndi ekki góð
grasaleiti, og þá farið ár eftir ár á sömu leitin. Fólk leitaði
uns það fann góðar grasabreiður, hélt hópinn, því oft kom þokan,
hinn mikli meinvættur smalanna og þá reið á að halda hópinn.
Best var að tína í rekjuvotri jörð. Þá voru grösin úttútnuð og
mjúk viðkomu, en í þurrk hörð viðkomu. Gott grasaland var
staðurinn nefndur er mest grösin fundust á.

p2
Grasatekja.
Ekki heyrði ég að fjallagrasatekja væri metin til hlunninda, t.d.
í sambandi við kaup, sölu eða ábúð. Grösin voru að jafnaði sótt
til fjalla og heiða og öllum leyfilegt að tína að vild.
Notagildi.
Fjallagrös voru talin mjög holl fæða. Aðallega voru þau notuð
til grautargerðar, með rúgi og bankabyggi og þóttu heilnæm fæða.
Einnig soðin til drykkjar í vatni og til lækninga við
brjóstveiki, og þóttu hafa í sér fólginn mikinn lækningamátt.
Grasafjall.
Að fara til grasa, var nefnt. Þá farið í grasaleit. Grasaveður
þótti gott ef vott var á jörð. Stundu var legið við 2-3
sólarhringa. Ef stutt var til grasatekju var farið heiman að að
morgni og heim aftur að kvöldi.
Fararbúnaður.
Fararbúnaður fór eftir því hvort stutt var farið eða langt. Ætti
að liggja við svo sem 2-3 sólarhringa var farið með tjald, nesti
og hitunartæki. Strigapoka hafði hver sér við hlið að tína í.

p3
Grasaferð.
Að jafnaði var farið til grasa fyrir slátt, í 12.-13. viku
sumars. Hver margir fóru, var farið eftir fólksfjölda á
heimilunum og þá venjulega fullorðið fólk. Stundum var slegið
saman af fleiri bæjum og nefndist þá hópurinn grasafólk. Hefi
áður minnst á að best þótti að tína grösin þá dögg var á jörðu.
Fólk var mismunandi fljótt að tína grös, en auðvitað þótti sá
bestur er mest tíndi. Hve fólk var lengi fór eftir
heimilisástæðum og veðurlagi. Einn réð yfir hópnum að líta eftir
að allt færi vel fram og að enginn týndist. Var sá nefndur
fararstjóri. Allir á heimilinu urðu fegnir er grasafólkið kom
aftur heim og tekið vel á móti því, enda það þreytt og fegið að
njóta hvíldar eftir langt ferðalag og oft lítinn svefn.
Að tína grös.
Flestir munu hafa tekið daginn mjög snemma meðan dögg var á
jörðu. Fólkið dreyfði sér um móa, melabörð og slakka að leita að
sem bestu grasabreiðunum. Yrðu miklar samfelldar breiður á leið
sumra, kallaði það hvað til annars. Tínupokinn dreginn við
hliðina. Fólkið vanalega á hnjánum við tínsluna. Svo var losað
úr pokunum

p4
í aðra er hækka tók. Var það þægilegra. Sumir vor mjög fljótir
að tína, aðrir hægfara.
Frágangur og flutningur.
Til heimflutnings var vel troðið í pokana, bundið fyrir þá og
þeir svo bundnir í bagga og þeir svo fluttir heim á
reiðingshestum. Grösin létt í sér og hestarnir fúsir að brokka
með þau heim. Þar sem farið var gangandi í grasalandið var
pokinn oft borinn heim á bakinu að kvöldi, stundum reiddur fyrir
framan sig á hnakknefinu.
Þurrkun, geymsla, hreinsun.
Strax og grösin eru komin heim eru þau breidd til þerris, oftast
undir hússtafna móti sólu. Er þau voru orðin þurr voru þau tekin
og hrist. Þá þyrluðust úr þeim sinustrá, mosi og allskonar rusl
(kusk). Eftir að búið var að þurrka þau voru þau geymd í hreinum
pokum á þurrum stöðum, s.s. skemmuloftum o.s.frv.

p5
Grasajárn, grasabretti.
Þau áhöld er notuð voru við söxun fjallagrasa eða skurð nefndust
grasajárn og grasastokkur. Grösin voru þvegin úr mörgum vötnum
þar til kusk hætti að koma ofan á vatnið. Svo voru þau tekin
blaut og lögð í grasastokkinn og söxuð með grasajárninu, ekkert
ólíkt þá tóbak var skorið á fjöl. Járnið beit vel og söxuðust
þau furðu fljótt í sundur. Þetta var gert á eldhúsgólfinu framan
við hlóðirnar. Þau grös er notuð voru í slátur voru ekki söxuð,
en suðu hleypt upp á þeim áður. Ekki vissi ég til þess að
fjallagrös hafi verið möluð með korni í kornmyllu.
Fjallagrös til matar.
Fjallagrösin voru notuð við grautargerð með bankabyggi og möluðum
rúgi. Voru þá jafnan söxuð áður á grasastokknum og tekin úr
honum upp í pottinn er var yfir hlóðunum. Er suðan kom upp var
ýmist möluðu bygginu eða rúgmjölinu, er áður hafði verið
handmalað í kvörninni, er stóð í einu eldhúshorninu,

p6
kastað út á það mikið er þurfa þótti, og soðið þar til gott
þótti, saltað og rennt í trog eða trébyttur og borið inn í búr.
Er grauturinn var orðinn kaldur var hann hnausþykkur, skammtaður
í skálar og súrt skyr, velþykkt, hrært saman við (hræringur) og
mjólk til útáláts. Vanalegast borðað í kvöldmat og þótti
herramannsmatur. Stundum var bankabyggið soðið ómalað með
grösunum og þótti mjög gott. Þarna var framborin bæði holl og
góð fæða.
Fjallagrös í slátur.
Til sláturgerðar voru grösin vel hreinsuð sem áður segir, og væri
allmikið látið í blóðið mátti draga af mjölinu og þannig urðu
búdrýgindi að þeim, fyrir utan að slátrið varð stinnt og
bragðgott. Ekki voru grös notuð í lifrarpylsu það ég þekkti til.

p7
Brauð.
Fjallagrös voru soðin og notuð til brauðgerðar, aðallega í
pottbrauð. Brauðin urðu sæt og fallega rauð og voru hreinasta
lostæti, en lítið var deigið af mjölinu í brauðin. Að hleypa
grös þekkti ég ekki en að sjóða grös í mjólk var lystugur og
góður matur.
Grasamjólk.
Var þá ofurlítið af sykri sett út í grasamjólkina til smekkbætis.
Stundum var mjólkin soðin með grösunum þar til hún var rauð,
stundum ekki.
Grasavatn, grasate.
Grasavatn var stundum haft í kaffisstað og þótti mjög góður
drykkur með kandís eða púðursykri. Nú eru grasagrautar feldir
niður því miður, en grasamjólk er enn á borðum hjá þeim er unna
grösum.
Fjallagrös til lækninga.
Fjallagrös þóttu mjög góð lyf við hósta og hæsi og
brjóstþyngslum. Voru þau tekin og tínd vel, þvegin og soðin í
hálftíma til klukkutíma með kandís út í, tekin og látin á flösku
og gefin þeim sjúka að drekka, svo heitt sem hann þoldi. Enn í
dag sýð

p8
ég oft grasate, vel sterkt, og reynist vel við hósta og
brjóstþyngslum.
Í móðuharðindunum voru það oft fjallagrösin og dropinn úr kúnni
er hélt lífinu í mörgum barnahópnum er ísalög lágu fyrir landi og
enginn kornhnefi var til í bænum. Ein sögn er til um það að
ekkja með barnahóp í lágu hreysi fram til fjalla, hélt lífinu í
börnum sínum með því að fara út í fjóstóftina daglega og koma
þaðan með væna visk af töðu er hún bar í svuntu sinni. Saxaði
hún töðuna vel og sauð í potti og gaf börnunum seyðið að drekka
og litu þau vel út er voraði, og undruðust allir er sáu þau og
heyrðu um á hverju þau höfðu lifað. Já, grösin okkar íslensku
búa yfir mögnuðum kyngikrafti er við mennirnir ættum að gefa
meiri gaum að en gert er.

p9
Rissmynd af grasajárni. Breidd grasastokksins fór mjög eftir
breidd grasajárnsins.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana