47 Lifnaðarhættir í þéttbýli I. Uppvaxtarár
Nr. 7893
p1
A. Inngangur. 1. Bitrufjörður. Öll uppvaxtarár sín átti Bentína heima við Bitrufjörð og fluttist nokkuð á milli bæja, bæði vegna búsetu og skólagöngu. Ysti bærinn í firðinum var Skriðnesenni, þá var Bræðrabrekka, Hvítuhlíð, Gröf, Einfætingsgil, og svo Krossárbakki hinum megin árinnar. Þarna var farið yfir fjall og hinum megin þess var Óspakseyri, þá kom löng hlíð, Eyrarhlíð, svo bæirnir Snartatunga og Brunngil. Hinum megin fjarðarins voru Þórisstaðir og Þambaravellir, síðasti bærinn. Þarna var farið yfir háls, Stikluháls, yfir í Hrútafjörð. Þar sem niður kom var næst Skálólfsvík, svo Guðlaugsvík og bæirnir Borgir, Kolbeinsá og Stóra-Hvalsá. Þar bjó Steina, frænka Bentínu. Hinum megin við ána var svo Litla-Hvalsá. Margra þessara bæja er getið seinna í þessu viðtali. 2. Heimilisfólk á Krossárbakka, fyrri dvöl. Fram að 5 ára aldri dvaldist ég þarna. Þarna bjó ég ásamt mömmu, sem ég kallaði, Elísabetu Einarsdóttur, sem raunverulega var föðursystir mín og pabba sem ég kallaði, Helga Magnússyni, manninum hennar, en þau voru ekki gift. Hjá þeim var líka Halldóra Kristín dóttir þeirra, nokkrum árum eldri en ég.
p2
3. Flutningurinn frá Krossárbakka að Brekku. Ég var á Krossárbakka í lotu til 5 ára aldurs. Um þetta leyti sem ég var að verða 5 ára, þá trúlofaðist Dóra frænka. Hann hét Björn Guðlaugsson og var vetrarmaður á Óspakseyri, hjá Marinó Hafstein og frú Þórunni Hafstein. Marinó var bróðir Hannesar Hafstein. Þórunn var mikið elskuleg kona, mikil myndarmanneskja, lærð og menntuð, og sýslumannsfrú. Það munaði nú engu, en hún bar það ekki með stressi eða drambi. Hún var góð við okkur og bauð okkur á jólunum, okkur sem voru þarna á Krossárbakka. Ég varð 5 ára um haustið, þegar pabbi fór frá okkur. Ég vissi aldrei neitt um það hvernig stóð á því. Ég var aldrei látin vita. Það hefur nú verið gert af vorkunnsemi held ég, því þær vissu báðar hvað mér þótti vænt um hann. Ég man alltaf þennan morgun. Ég vissi það þó mér væri ekki sagt það. Það var svo margt sem ég vissi sem barn og þurfti ekki að segja mér. Ég vissi þar sem ég stóð á gólfinu í hráslagakulda, engin upphitun, þá veit ég það að pabbi er farinn. Ég stend með brjóstið fullt af sorg af því ég veit þetta. Dóra situr hnuggin á rúminu sínu. Björn var ekki kominn til að búa þar, hann var enn á Óspakseyri. Ég segi við Dóru: "Hvar er pabbi?" Hún ansar ekki. Dóru hefur verið þungt um hjarta. Hún var dóttir hans og á sinn máta eftirlætisbarn. Þau áttu annað barn saman sem þau misstu. Það brotnaði glugginn og engin upphitun var og barnið fékk lungnabólgu og dó. Ég fékk ekkert svar frá Dóru. Ég vissi að mamma var frammi í hlóðaeldhúsi og fór til hennar af því að ég fékk ekkert svar. Þá var mamma að grúska við eldinn. Hún fann ekkert nema eimyrju, það sem eftir er af deyjandi köggli, til að geta lífgað eldinn. Þetta voru vandræði með eldspýtur. Það varð að fela eldinn ef það var hægt. Ég man alltaf eftir þunga vaðmálspilsinu sem hún var í. Ég segi við hana: "Mamma, hvar er pabbi?" Hún ansar ekki. Þá gríp ég í pilsið hennar eins og börn gerðu þegar þeim var ekki veitt athygli og sagði aftur: "Mamma, hvar er
p3
pabbi?" "Ég veit það ekki, barnið mitt," segir hún og vildi ekkert segja meira. Með það er vissan fengin. Hann er farinn og ég veit það. Ég bara veikist. Tíminn hverfur hjá mér í margar vikur. Þetta hefur gerst seint á góu og ég veit ekkert fyrr en ég rís upp frá dauðum víst, og hef ekki hugmynd um tímann sem ég hef legið. Þá heyri ég að það er farið að tala um 14. maí. Ég skil ekkert hvað er hvað. Krossárbakki var hjáleiga frá Óspakseyri, svolítið kot og svo aumt að það gat enginn framfært fjölskyldu á þessu. Það voru svolitlar slægjur þó það væri góð beit fyrir fé. Ég heyri að það er staðráðið eitthvað í sambandi við burtför okkar mömmu. Ég skildi þetta eiginlega ekki. Einhvern veginn hafði dofnað sársaukinn mesti frá pabba við þetta tímabil sem hvarf mér. Það er mér ómögulegt að vita hvort ég hef verið meðvitundarlaus eða hvað. Ég hef ekki hugmynd um það. Það er svo undarlegt, en ég var svo ógurlega næm fyrir svona sálrænu sem snerti hugann. Ég þoldi allt mótlæti illa, það var svo mikil kvöl. Ég vildi heldur vera lamin heldur en að fá einhvern sálrænan sársauka. Ég veit ekki hvort mamma og pabbi hafa skilið til þess að Dóra og Björn gætu fengið einhvern verustað til að byrja búskap á, eða hvað. Veröldin var svo þröng á þessum árum. Það var hver einasta skonsa nýtt þótt það væri ekki við manna hæfi, bæði til fjalls og fjöru. Það var mikið talað um heiðabýlin í þá daga. Dóra og Björn settust að á Krossárbakka, náttúrulega með leyfi Marinós á Óspakseyri.
Svo kemur þessi eftirminnilegi 14. maí. Þá kemur gamall maður, með grátt sítt skegg ofan á bringu, á brúnskjóttum hesti og er að sækja mömmu. Hann átti heima á Bræðrabrekku. Þar voru tveir bæir á milli, Gröf og Hvítuhlíð. Þetta er við Bitrufjörð. Mér þykir svo gott að þessi dagur, 14. maí 1905, honum er lýst í bók sem við eigum. Og ég sjálf er margbúin að lýsa honum áður. Það var allt á kafi í fönn. Það sást ekki á dökkan díl nokkurs staðar á 14. maí. Ég er búin út, en ég átti engan klæðnað til að fara. Ég
p4
átti svolitla kápumynd sem hún Dóra blessunin saumaði. Hún saumaði alltaf ef eitthvað efni var til. Hún Dóra frænka mín vefur peysufatasjalinu sínu utan um mig, svo er ég rétt karlinum.
Hann sat þarna á hestbaki. En mamma varð að labba. Þarna varð hún að vaða fönnina og það var sums staðar í hné í síðu pilsi. Ég man alltaf hvað snjórinn var hátt á pilsinu og frostið var það mikið að pilsin voru orðin stíf. Ég kenndi svo í brjóst um hana.
Aldrei bauð hann henni að setjast á klárinn. Aldrei var stansað til að hvíla sig, heldur mátti hún labba þetta. Étg veit ekki hvað hún mamma var orðin gömul. Mér var aldrei sagt það og ég hafði ekki vit á því að spyrja um það. Ég skil ekki hvað hún gat komist í þessum ósköpum sem hún varð að ganga í gegnum. Við mamma fluttum bara tvær. Pabbi var farinn og Dóra og Björn tóku við Krossárbakka. Mamma hafði ekki fleiri börn, heldur hafði mig bara af illri nauðsyn. Úr því að pabbi, sem ég kallaði, fór, var mamma allslaus og umkomulaus með mig í eftirdragi. Þetta var á þeim árum sem konur áttu ekkert um að velja. Það voru ekki frystihúsin þá eða "kvennavinna" eins og nú er út og suður. Það var bara vinnumennskan og ekkert annað eða dauðinn, eða hreppurinn eins og það fór með fólkið. Mamma fór þarna með mig í eftirdragi og var uppálagt að fæða mig. En þetta litla kaup hennar átti að fara til að sjá fyrir þessum örfáu kindum sem hún átti og reyndi að halda í á uppvaxtarárum mínum. Hún reyndi alltaf að halda i 12 eða 14 kindur og á því sem þær gátu veitt urðum við að lifa. Oft var fæðið hjá mér ekki annað en þurrt brauð og vatn, þegar hún átti ekkert til að hafa við. Svona var skammturinn fyrir verkafólkið. Manni leiðist að segja frá þessu. 4. Heimilisfólkið á Brekku. Þegar við komum að Brekku var mér sagt að fara upp á loft til krakkanna, þau voru ekki úti að leika sér. En mamma
p5
fór ekkert upp. Það mun hafa viljað mér til að þar voru tvö börn á aldur við mig, alsystkini. Annað barnið varð seinna fermingarsystir mín og heitir Ingibjörg Guðmundsdóttir. Núna á hún heima á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi. Hún var vorbarn en ég var haustbarn. Bróðir hennar hét Guðmundur Guðmundsson. Þau voru þarna uppi að leika sér og ég kom þarna sem aðskotadýr. En það var ágætt, börnin voru góð við mig og tóku mér strax vel. Á Brekku var tvíbýli. Þessi gamli maður sem sótti okkur var eigandi jarðarinnar og hét Guðmundur Jónsson. Hann átti gamla konu sem var miklu eldri en hann. Hún átti víst jörðina og honum mun sennilega hafa verið skipað að eiga þessa konu sem ungum manni, því hún var efnuð. Svoleiðis var þetta svo oft þá. Hún hét Guðfinna og var gömul kona. Það var sagt að hún gengi með krabbamein í mörg ár. Hún hafði nú fótaburð, með lyklana sína þungu hangandi í svuntunni. Þær báru lyklana á sér þessar óðalsbóndakonur. Þetta voru þungir stórir heimasmíðaðir lyklar. Karlarnir smíðuðu þetta, það vantaði ekki. Þessi gamli maður, Guðmundur Jónsson, og gamla konan, Guðfinna, áttu engin börn en þau ólu upp Guðmund nokkurn Guðnason. Hann var giftur. Kona hans hét Steinþóra Andrésdóttir og var sunnan úr Saurbæ. Hún var ung kona, dugleg og myndarmanneskja. Þau áttu þessi börn, Ingibjörgu og Guðmund. Það voru því 3 Gumundar á bænum. Guðmundur og Steinþóra voru bláfátæk og voru til þess að gera nýfarin að taka saman og höfðu fengið einhvern part af Hlíð í Kollafirði fyrir norðan. En gamli maðurinn sagði að þau hefðu ekkert að gera með að fara með barnið nýfætt. Hann hefur langað til að eiga það, því hann átti ekkert barn. En hvernig sem það var þá tekur hann Guðmund litla að sér. Þetta hefur ábyggilega farið illa í Steinþóru. Svo hafa þau komið aftur að Brekku og fengu þarna annan enda baðstofunnar. Það var alveg aflokaður endi. Mér fannst þetta voða elskulegur bær, af viðbrigðunum við Krossárbakka.
p6
Steinþóra hafði eldavél hjá sér og svolítið búr niðri, sér fyrir sig og þarna bjuggu þau tvö með Ingibjörgu. Drengurinn, Guðmundur litli, fór aldrei nokkurn tíma til hennar. Þetta var allt svo einkennilegt. Hann var alltaf á hinu heimilinu hjá gamla manninum. Annað fósturbarn þeirra var Halldóra Kristín Magnúsdottir. Hún tók á móti okkur þegar við komum. Hún hét í höfuðið á sömu konu og Dóra frænka mín, sem varð eftir á Krossárbakka. Þessi Halldóra Kristín, sem látið var heita í höfuðið á, var systir Helga pabba. Halldóra Kristín kom með tevatn handa okkur. Það var svoleiðis búið til að það var blandað saman með undanrennu og vatni og soðið saman. Þetta var kallað tevatn og moli gefinn með.
Það var ekkert athugað að ég var svöng, en það var eins og það var. Þetta var um hádegi sem við komum. Hjá venjulegu fólki var tíðarandinn svoleiðis að morgunmatur var klukkan níu. Hjá verkafólki var einn bolli af kaffi fyrst og þar sem var sæmilegt að vera var grautur og slátur. Svo var enginn matur, bara kaffibolli á hádeginu þar sem það var til, og svo nónmatur klukkan þrjú. En við mamma gátum ekki alltaf veitt okkur þetta, það var svo langt frá því. Húsmóðirin á heimilunum skammtaði oftast nær ofan í heimilisfólkið en húsbændur borðuðu oftast nær annan mat heldur en verkafólkið. Ein vinnuhjú voru þarna á Brekku auk mömmu. Það voru hjón. Maðurinn var vinnumaður og hét Jón Jónsson. Hann var móðurbróðir þessarar Dóru, fósturdóttur Guðmundar gamla. Konan hans hét Jóhanna Jónsdóttir. Þau voru kölluð Jóka og Jónki. Þau voru þannig að þau töldust frekar börn en fullorðin. En aldrei hef ég séð eins mikla ást á milli nokkurra manneskja og þessara hjóna. Þau voru alltaf nýtrúlofuð og elskuðu hvort annað. Jónki var í fjósinu og úti við að hjálpa gamla manninum. Hann kvaddi Jóku heitum kossi þegar hann fór út og heilsaði henni líka með heitum kossi þegar hann kom inn. Svona var þetta. Bróðir hennar Dóru var þarna líka og hann hét Sigurjón, sjálfsagt vinnumaður og var eldri en Dóra. Þetta var heimilisfólkið.
p7
En það gat enginn hugsað um mig. Blessuð mamma mátti bara ekki vera að því, því það hvíldu öll eldhúsverk á henni. Ég veit að hún hafði nóg að gera og meira en það. 5. Flutningurinn frá Brekku að Krossárbakka. Ég hlakkaði mikið til þess að við færum frá Brekku og aftur heim að Krossárbakka. Ég sá reyndar mikið eftir börnunum og þau sáu eftir mér. Okkur börnunum þótti svo vænt hvert um annað, vorum voða samrýmd og féll ákaflega vel saman. Það voru engin önnur börn þarna, til að vaða neitt inn í þetta samfélag. Þetta ár þarna á Brekku, það verður að eiga það, að það var ekkert heimtað af mér að gera neitt. Ég var þarna á 6. ári. Enda getur barn á þessum aldri náttúrulega ekki mikið gert. Þetta fólk var allt fullorðið sem gat eitthvað gert, og það gerði það. Það var aldrei krafist neinnar vinnu af mér. Guðmundur var náttúrulega yngri, en Inga jafngömul. Inga þurfti ekkert að gera á sínu heimili og Guðmundur ekkert á sínu. Ég var þarna með þeim og var ósköp frjáls að því leyti með þeim. Það verður að eiga það. Ég var samt utanvelta við allt. Ég var í raun og veru ekki til. Það er ekki hægt að lýsa því öðruvísi. Ég fann ekki fyrir því að ég væri til, á neinn hátt. Ég bara velktist innan um, eiginlega áhyggjulaus sem saklaust barn. Ég átti ekki neitt, enga föður- eða móðurást. Ég veit það að mömmu þótti í raun og veru vænt um mig og langaði svo mikið til að mér mætti líða betur. Hún bara gat það ekki því henni leið illa sjálfri. Það skildi ég vel þó ég væri barn. Hun gat ekkert veitt mér, t.d. um veturinn þarna á Brekku. 6. Heimilisfólkið á Krossárbakka, seinni dvöl. Við mamma fluttum aftur að Krossárbakka. Þá var Dóra
p8
frænka farin að búa þar. Þau voru þarna, hún og Björn Gunnlaugsson, maðurinn hennar. Þau voru að byrja að eignast börnin og áttu orðið 3 þegar við fluttum að Hvítuhlíð. Hún gekk með fyrsta barnið árið sem við komum aftur. 7. Flutningurinn frá Krossárbakka að Hvítuhlíð. Dóra og Björn fengu leigða jörðina hjá Ólöfu í Hvítuhlíð. Ólöf var amma Dóru. Hun leigði þeim jörðina eftir að við mamma vorum búnar að vera nokkur ár á Krossárbakka hjá Dóru eftir að hafa verið þetta eina ár á Bræðrabrekku. Þau koma með 3 börn að Hvítuhlíð, Guðlaugu, Sveinsínu og Helga. Við mamma fylgdum svo með. Dóra mátti eiginlega ekkert missa mömmu þó hún væri nú orðin gömul kona. Mamma fékk að hafa þessar kindur sínar áfram og fæddi okkur báðar. Eftir að ég fór að sitja hjá, fæddi Dóra mig 2 daga, og 3. daginn fyrir ömmu sína og mamma hinn 4. Svona gekk þetta áfram. Hvítuhlíð var ákaflega góð jörð, sjávarjörð. Rauðmagann rak á land á vorin. Mávurinn dró hann upp. En það átti bara enginn neitt til að veiða hann í. Það var ekki hægt að fá net eða nokkurn hlut. Þetta var hörmung. Þetta var eitthvað sem gerði þetta, fátæktin svo mikil að geta ekkert keypt, eða ég veit ekki hvað. Karlinn á Brekku gat alltaf veitt. Fjörðurinn var fullur af fiski. Eins var þetta svona á Skriðnesenni, það var veitt þar. Og það var veitt á Óspakseyri veturinn sem ég var þar. Kristján, tengdasonur Ólafar á Hvítuhlíð, sem byggði bæinn, fór frá Hvítuhlíð. Ekki veit ég hvernig staðið hefur á því. Það hefur verið eitthvað. Kristján var löngu farinn þegar við komum að Hvítuhlíð. Hann var giftur Halldóru Kristínu Magnúsdóttur, dóttur Ólafar gömlu og systur Helga pabba, sem ég kallaði.
p9
8. Heimilisfólkið á Hvítuhlíð. Ólöf, móðir Helga pabba, tengdamóðir mömmu, bjó á sinni eignarjörð sem hét Hvítuhlíð. Þangað vildi hún ekki að mamma kæmi þegar þau voru að draga sig saman. Hún leigði jörðina öðrum, en var þarna sjálf sem nokkurs konar leigjandi og lifði af leigunni og því sem jörðin gaf af sér. Hún fékk smjör og allt slíkt sem leigueigandi. Hún hafði alltaf sérherbergi, sólríkt og gott. Það var ekkert nema það sem ég komst að seinna, að þangað fór pabbi sem ég kallaði, þegar hann fór frá okkur. Hann var einkasonur Ólafar. Auk þess átti hún tvær dætur, Halldóru Kristínu og Guðbjörgu. Það var látið mikið með Halldóru. Hún var myndarkona og giftist vel að þeirra dómi og varð þar af leiðandi mikið meiri manneskja heldur en Guðbjörg. En hún var fátæk og umkomulítil. Pabbi var ekki nógu duglegur að fá sér einhverja konu sem gamla konan hefði verið ánægð með. Þá hefði hann nefnilega fengið jörðina. Halldóra Kristín og Guðbjörg voru fluttar burt þegar við vorum þarna öll frá Krossárbakka. (Meira síðar um heimilisfólkið þarna).
p10
B. Foreldrar. Það er sérstakt með barn sem er þannig fyrirkomið eins og var hjá mér. Ég var aldrei hjá foreldrum mínum. Ég sá þau aldrei sem barn, nema föður minn þrisvar. Ég var flutt í poka frá Kleifum á Selströnd og að Hlíð í Kollafirði, hálfsmánaðar gömul. Það hafa sjálfsagt fleiri verið bornir í poka einhvern tíma. Það var ekkert annað til þá. Við vorum 9 systkinin sem fæddumst og ólumst ekki nokkurt þeirra upp hvað með öðru. Faðir minn vildi giftast að ég held endilega móður minni, en þá fékk hann enga svaramenn af því að hann hafði ekki fast land undir fótum. Hann var ekki búmaður. Heldurðu að aldarandinn hafi verið skemmtilegur? Hann var handverksmaður, smiður. Ég sá hann bara þrisvar. Ég var síðasta barnið sem hann eignaðist og var víst engin happagjöf. Mér var komið fyrir og það var systir hans sem ég ólst upp hjá og kallaði mömmu. Ég man að faðir minn færði mér alltaf eitthvað, en hann fékk mér það aldrei sjálfur, þessi þrjú skipti sem hann kom. Hann gaf með okkur öllum börnunum. Ég man að í eitt sinn sem hann kom færði hann mömmu nátttreyjuefni. Ég man enn hvernig efnið var. Það var dálítið loðið að innan, bómullarefni, og svolítið skárifflað að utan. Það var hvítt með bleikum fallegum kommum. Mér fannst þetta svo voðalegt fallegt. Hann færði mömmu þetta og spurði hvort hún gæti notað þetta í nátttreyju á stelpuna. Mamma tók við þessu frammi og sagði honum svo að setjast inn á rúm. Hún ætlaði að hita eitthvað. Hún var frammi við hlóðirnar og ég fór til hennar, voðaleg dauf í bragði. Ég vissi að hann hefði komið með eitthvað. Þá færir hún mér þetta samanbrotið og segir: "Vertu nú góð við hann föður þinn."
p11
Það átti sannarlega ekki að standa á því og ég hljóp í spretti inn. Þetta var á Krossárbakka, þar sem ég var þegar ég var lítil. Ég flýg upp um hálsinn á honum. Hann kastaði mér yfir á hitt rúmið. Það var móttakan sem ég fékk. Í þriðja sinnið sá ég hann aðeins. Þá var hann að vinna á Óspakseyri við að koma vatni inn í krana í skúrbyggingu sem var á bak við timburhús, sem fólkið bjó í. Honum tókst það, það var sama hvað hann gerði. Hann var svo laginn og duglegur. Hann verður að eiga það sem hann á. Ég sá hann aldrei framar. Mamma sem ég kallaði, tók mig litla, hálfsmánaðar gamla. Hún fékk alltaf kassa utan af biskví á hverju vori, sem í var sitt af hverju, m.a. kaffi, sykur, rúsínur, hveiti og fleira. Þetta var einhver partur af meðgjöfinni sem faðir minn sendi henni. Ég man að hún fékk þennan kassa á hverju vori. Hún var alltaf glöð þegar kassinn kom. Nú svo einn morguninn, í staðinn fyrir þessa morgungjöf, þá fær hún látið hans. Þá var hann dáinn. Þær fóru báðar að gráta. Mömmu, sem systur hans þótti vænt um hann. Þetta var eini bróðir hennar, en þau höfðu verið 4 systkinin. Dóra, dóttir mömmu, fór líka að gráta. Henni þótti vænt um hann líka. En ég með mína sorgarsögu, ég labba út í góða veðrið og út undir vegg og hugsa með mér að það sé nú leiðinlegt að geta ekkert þótt vænt um hann. Ég fékk ekki eitt einasta tár. Ég hefði ekki haft nokkuð af honum að segja, nema að ég sá hann þrisvar. Ég átti engin tár handa föður mínum, en það var eitthvað sem mig langaði til þess að eiga í honum. Mér fannst hann svo myndarlegur. En guði sé lof fyrir að það endaði með því að mér þótti ekki vænt um hann. Því að ef hann hefði verið mér góður, held ég að ég hefði orðið vitlaus af þrá að vera bara hjá honum. Að ég tali nú ekki um móður mína. Hana sá ég ekki fyrr en ég var orðin 15 ára gömul, í langferð. Hún bjó aldrei neins staðar, aumingja kerlingin. Þau foreldrar mínir fengu aldrei að giftast, því svaramennirnir fengust ekki. Faðir minn bjó ekki þótt hann ynni sig þreyttan og stæði við allar sínar skuldir og víst átti hann aura þegar hann dó. Hann
p12
gaf með öllum sínum börnum sem ekki dóu. Það dóu tveir drengir ungir, hálfbræður mínir. Eg sá ekkert af þessu fyrr en ég var fullorðin. Ég vissi ekki fyrr en ég var 8 ára gömul að ég átti lifandi móður. Við sátum eitt sinn saman á rúminu við mamma, og ég er að biðja hana um eitthvað. Hún hefur orðið eitthvað þreytt á því og ergileg og sagði: "Æi, kallaðu mig ekki mömmu." "Af hverju má ég ekki kalla þig mömmu?" segi ég. Þá segir hún: "Af því að ég er ekki mamma þín." Það var alveg eins og það kæmi kalt vatn framan í mig. Ég sit þarna á móti henni og er bara skelfd. "Nú ertu ekki mamma mín?" segi ég. "Nei," segir hún. "Nú hver er þá mamma mín, er hún lifandi?" "Já," segir hún. "Og hef ég aldrei séð hana?" spyr ég. "Nei," segir hún, "ég hef aldrei getað lofað þér að sjá hana, hún er það langt í burtu." Það voru engin farartæki þá nema fætur fólks. Hún eignaðist aldrei hest, hún var svo bláskínandi fátæk þessi kona. Þá segi ég að ég vildi fá að sjá móður mína. "Það er mér alveg ómögulegt," segir hún. "Ég væri löngu búin að því ef ég gæti og mig hefur oft langað til þess, en mér finnst nú að hún hefði getað spurt eftir þér." "Nú, hefur hún aldrei gert það?" spyr ég. "Nei, hún hefur aldrei gert það svo ég viti," segir hún. Elli póstur fór nú þarna um alltaf. Hann var duglegur, fór alltaf labbandi um. Póstarnir voru líftaug þjóðarinnar. Elli var óskaplega trúverðugur maður. Það mátti segja bara að hann væri eins og bréf, það mátti trúa honum. Hann var grandvar og samviskusamur. Hann var giftur systur Elísabetar mömmu. Ég var svo undarlega svekkt yfir þessu. Ég vildi fá að sjá hana móður mína. En það var gott að ég fékk það ekki. Það er ekki gott fyrir börn að mæta svona. Ég spurði hana þarna af hverju ég mætti ekki kalla hana mömmu og það var af þessu, þá komst ég að því að ég var þarna einhvern veginn óþurftarmanneskja, eða af illri nauðsyn. Ég skildi þetta ekki þá eins og ég skil það nú, og hún sagði að ef hún hefði haft nokkur ráð, þá hefði hún fyrir löngu verið búin að lofa mér að sjá hana, en segir að sér
p13
finnist að móðir mín hefði átt að hafa haft einhver ráð með að minnsta kosti spyrja eftir mér. Hún var í vinnu hjá öðrum alltaf, þá var ekkert annað en vinnumennska fyrir þá sem ekki gátu búið. En svo var það sem ég sat nú þarna hjá mömmu í vandræðum með mömmuleysið þá sagði ég við hana að ég yrði að fá að kalla hana mömmu, því ég fann hvað mér var það mikil lífsnauðsyn. Ég myndi bara deyja ef ég fengi það ekki. Ég yrði að fá að kalla hana mömmu. Hún þagði við því blessunin, og var í vandræðum með þetta allt. Mamma varð að hafa þetta að ég kallaði hana mömmu. Hún náttúrulega fann það og vissi að þetta var ósköp eðlilegt.
Þegar ég var lítil þá vissi ég náttúrulega ekkert um þennan burð á mér alla þessa leið. Mamma sagði mér þetta, hún Elísabet. Þá var ég orðin stálpuð og hafði vit á því að taka eftir. Þá sagði hún mér þetta að faðir minn hefði beðið Steinunni dóttur sína, sem þá var uppkomin, að koma mér fyrir einhvers staðar. Því móðir mín gat ekki haft mig og hafði annað barn sem hún sleppti aldrei. Svo skildu þau og þá tók önnur kona við eins og oft gerist núna. Þó það væru sjaldgæfir skilnaðir þá, þá voru þeir til. Fólki var oft þrúgað saman þó það vildi skilja og hefði ástæðu til þess. Þá komu hreppstjórarnir og prestarnir inn í þetta, því það vildi enginn hafa þetta því það gat snert hreppinn eitthvað. Það var ekki hjálpina þar að fá nema með endalausri ævikvöl. Enda sagði mamma það seinna við mig, því ég vissi það og fann það að það var af illri nauðsyn sem hún, eldri manneskjan, var að draga mig á eftir sér. Hún sagði mér það, sannleikann í því, þegar ég var komin á gelgjuskeiðið. Hann var sá að ef hún hefði ekki reynt að draga mig með sér þá hefði ég þurft að fara á hreppinn, því þá var faðir minn dáinn og engin meðgjöf. Þá hefði hún vitað hvað myndi bíða mín og ég hefði aldrei losnað við það. Ég man að hún sagði þessi orð: "Ég vissi það að þá áttirðu aldrei uppreisnarvon." Svona var nú aldarandinn þá og þessi öld nýbyrjuð. Það er ekki lengra síðan.
p14
Elísabet, sem ég kallaði mömmu, og Jón faðir minn, voru systkini.
Þau voru fjögur í allt og hinar tvær hétu Þuríður og Anna. Þuríður var kona Ella pósts. Það er raunasaga að segja frá því þegar Elísabet mamma var ung stúlka. Það var þannig að hún átti móðursystur sem hét Þórdís, og Björn hét maðurinn hennar. Þau bjuggu á Hlíð í Kollafirði. Mamma sagði mér þetta allt og ég heyrði þær mæðgurnar líka oft tala um þetta heima. En Hlíð í Kollafirði var jörð sem Einar afi átti, faðir Elísabetar og föður míns. Amma mín hét Anna. Ég sá þau afa minn og ömmu aldrei þótt þau hafi verið á lífi þegar ég var lítil. Ef ég hefði haft ástæðu til og getað komist, hefði ég séð eitthvað af þessu fólki, en það var ekki hægt. Mamma sagði okkur Dóru það að Anna amma mín, hafi gifst og búið með þessum Einari afa mínum, en hann var ekki betri við hana en það að hún fór frá honum og að Ósi. Hún fór þangað bara sem ráðskona og ætlaði að fara alveg frá honum. Hún var búin að vera þar í 3-4 ár og ætlaði alveg að hætta við Einar. Hann var alltaf að reyna að fá hana heim karlinn, en henni hefur hrosið hugur við því eins og ástandið var. Þá dreymdi hana það að hún mætti manni sem spurði hana að því hverju hún ætli að svara fyrir þær sálir sem henni sé ætlað að eiga með Einari manni sínum. Og hún fór heim og átti þrjú börn með honum. Hún var búin að eiga eitt með honum áður. Þetta voru faðir minn og tvær dætur. Þau voru búin að eiga sitt fyrsta barn á meðan þau bjuggu enn saman. Ég man bara ekki hver þeirra var elst. Hún fór og bjó með honum það sem eftir var. Það var tekið mark á draumum þá. Einar og Anna bjuggu sjálf á Selströndinni, en leigðu Þórdísi, systur ömmu, Hlíð í Kollafirði. Þórdís og Björn áttu 12 börn og það í mikilli skínandi fátækt. Mamma var svo 13. barnið. Hún var sett þangað sem fósturbarn til að borða upp landsskuldina því að þau gátu ekki borgað hana. Svona var tíðarandinn. Þau voru landsetar sem ekki gátu borgað, svo mamma var látin borða hana upp svo eitthvað fengist fyrir
p15
hana og ekki þyrfti að fæða hana á heimilinu. En afi var ekki í neinum vandræðum með að fæða fólkið sitt á sínu heimili. Sannleikurinn var þessi. Mamma sagði að hún myndi eftir því að einn daginn í hríðarbyl, þá var ekkert til nema aðeins svolítill dropi af mjólk. Það var ekkert annað en Þórdís bað börnin að liggja í rúminu og hreyfa sig ekki. Hún vissi það að það tók orku. Mamma sagði að Þórdís hefði verið svo yndisleg manneskja. Í gamla daga voru búnir til skór úr skæðaskinni sem kallað var, en það var af lömbum sem slátrað var heima, eða af einhverju öðru. Hún sagðist muna eftir þessum degi þegar Þórdis hefði sótt 2 eða 3 skeggla og steikt þá á hlóðinni og soðið til að gefa börnunum frekar en ekki neitt. Þau voru búin að vera svöng áður, en þessi dagur tók út yfir, ekkert til nema þessi smádropi úr kúnni. Hún hefur sjálfsagt staðið þó nokkuð geld með lækkandi mjólk því maður man það að það var kannski pottur í kúnni lengi áður en hún fór að bera og svo var hún alveg geld. Maður var í mjólkurleysi sjálfur alltaf meiri og minni tíma. Svo um kvöldið þá lygndi og þá var tunglskin úti. Þá var komið bjart og gott veður. Mamma sagðist alltaf muna eftir þessu kvöldi. Hann var trúaður maður þessi Björn og þau báðu víst ákaflega oft um guðlega hjálp í vandræðunum. Hún sagði að hann hafi sungið svo óskaplega vel, og hann tók sálmabókina og söng "Á hendur fel þú honum". Þegar hann er búinn, setur hann sálmabókina upp í hillu og lítur út um gluggann á skarsúðinni. Þá sér hann að sjórinn var orðinn rólegur og allt gott úti, nema allt á kafi í snjó. Þá sér hann að það er selur rétt fyrir framan. Hann var skytta og hún sagði að hann hefði oft fengið ýmislegt á byssuna sína. Hann tók rauða druslu úr kjól af einhverjum krakkanum og byssuna og fór ofan í fjöru og fékk selinn. Hún sagði að að hann hafði álitið að guð hefði sent þeim þetta. Hann trúði því og þar með bjargaðist þetta í þetta sinn, en hélt svo áfram svona alla vega. Svo er mamma Elísabet komin á 16. ár. Hún var hjá þessum hjónum alveg þangað til. Hún sagði að þessi fjölskylda
p16
hefði verið óskaplega vel gerð og þetta gott fólk.
Henni var minnisstætt að það var farið með hana alveg eins og hin börnin. Þá tekur fjölskyldan sig upp og fer til Ameríku. Mamma sagðist muna þegar skipið kom að Skeljavík, næstu vík við Hólmavík, og það var bátur sem fór á milli skips og lands. Þar stóð þessi fjölskylda tilbúin að fara, en þegar farið var að reikna út og skila farseðlunum þá vantaði fargjald fyrir einn. Enginn vildi vera eftir. Það stóð aldrei til að mamma færi, svo það var hvort sem er ekki farmiði fyrir hana. Guðbjörg var elst af börnunum, á 16 ári og jafngömul mömmu. Guðbjörg segist geta verið eftir svo hin geti farið og það varð úr. Þá fór mamma að Heydalsá, til Guðrúnar Zakaríasardóttur sem var náskyld henni. (Sjá m.a. mynd af henni í Strandamannaæviskrám, 1703-1953, þar stendur að hún sé d. 1926, 86 ára). Guðrún var dóttir Zakaríasar sem var sonur Einars Dannebrogsmanns. Skyldleiki minn við Einar Dannebrogsmann var þannig að það var Jón, faðir minn, Anna, móðir hans, Guðmundur, faðir hennar og svo Einar Dannebrogsmaður, faðir hans. Mér hefur alltaf þótt voðalega vænt um þennan karl, þó ég sæi hann aldrei náttúrulega. Dannebrogsmaður, það þótti nú ekki lítið í þá daga. Hann gaf öllum sem áttu bágt, en hann kenndi ekki í brjóst um latt fólk. Mamma var þarna hjá Guðrúnu þegar hún var á 16. ári og hún var ekki góð við hana. Það fyrsta sem hún var látin gera var að elda grasagraut. Mamma mín eignaðist aldrei neitt. Hún var alltaf jafn fátæk á meðan hún lifði og jafn einmana manneskja, með drösul á eftir sér - mig. Ég vissi vel að það var neyðarúrræði. Það var svo oft látið í ljós sem von var, það var ekki hægt annað. Ég átti engan að eins og hún sagði, nema hreppinn. Ég spurði hana að því þegar hún var að tala um bágindin með fæðið og klæðnaðinn, af hverju þetta væri svona. Þá sagði hún að það hafi ekki verið nein ráð eftir að faðir minn dó og hún missti meðgjöfina. Hann gaf með öllum sínum börnum á meðan hann lifði en ekkert þeirra ólst upp saman.
p17
C. Uppvaxtarár og æskuár. 1. Hús og heimili. Krossárbakki. Húsnæðið á Krossárbakka var ekki stórt. Þetta var þegar ég var þarna sem barn, fyrst með mömmu á meðan hún bjó, og síðan þegar við mamma bjuggum þarna hjá Dóru frænku, dóttur mömmu. (Sjá nánar bls. 1-4, 7-8 um á hvaða árum þetta var og hverjir voru í heimili). Útidyrahurðin var úr samanfelldum plönkum með klinku. Það var ekki hægt að læsa bænum. Það var bara klinka sem féll ofan í einhvers konar eyra. Maður lyfti því upp og þá fór það ofan í gadd, sem það stoppaði við svo það rynni ekki fram af. Þetta var kölluð klinka. Þar steig maður inn fyrir útidyraþröskuldinn og þá var smásvæði, um metri á hvern veg, fram að næsta þröskuldi. Þar á milli var mold. Síðan komu moldargöng og maður gekk inn þau. Til vinstri var baðstofan og trappan góða, þar sem "skrattinn kom í mig" (sjá frásögn af þessu atviki bls. 32) og til hægri voru búrdyr. Innst, langt inni, var hlóðareldhúsið. Þar á ská var síðan fjósið. Yfir baðstofunni var svo bara skarsúð og ekkert loft. Dóra varð að fá tunnu til að standa á svo hún gæti
p18
gert hreint. Hún var hreinlát og vildi hafa allt hreint. Baðstofan var þiljuð í hólf og gólf. Aðrir hlutar voru með moldarveggi. Trappan góða var meira að segja úr viði, þótt lítil væri. Hún var ekki lengri en svona 30 sm, bara svona svo hægt væri að stíga á hana. Hlóðarhúsið var með tveimur hlóðum. Önnur var stærri, þar var ýmislegt geymt þótt það væri nú ekki mikið til. Mamma eldaði þarna í hlóðunum á meðan hún bjó, þessi fáu ár. Baðstofan var tvær rúmlengdir. Það passaði alveg að öðrum megin voru tvö rúm og hinum megin eitt rúm. Seinna kom eldavél við gaflinn, þar sem annað rúm hefði getað verið. Það var þegar Dóra frænka mín fór að búa þar. Við mamma fluttum sem sagt aftur að Krossárbakka eftir þetta ár á Brekku. Þau voru þá komin þar, Dóra og maðurinn hennar, Björn Guðlaugsson. Þá voru þau nýgift og hún var ófrísk að fyrsta barninu. Við mamma settumst þarna að og í þetta pláss sem ekkert var. Við fengum annað rúmið næst dyrunum upp við tröppuna og Dóra og Björn sváfu svo inn af okkur. Mamma átti að heita lausakona og auðvitað mátti hún fæða mig og sig þótt hún væri komin til dóttur sinnar. Þá var ég komin á 7 ár. Baðstofan lak svo heiftarlega að ef það rigndi þá varð að nota hvern einasta kopp og kirnu og skinn til að láta á rúmin. Það rann fram af öllu saman. Verst var þegar verið var að vekja mig á miðjum nóttum og láta mig fara fram úr. Það var eitt sem ég skildi ekki. Það var eins og þetta blessaða fólk skildi ekki börnin nokkurn skapaðan hlut. Af hverju mátti ég ekki kúra undir sæng með hrosshúð eða kálfskinn ofan á mér? Ég varð að fara á fætur, allir voru á fótum á meðan rigndi. Dóra og Björn fengu voðalega bomsueldavél. Það var nú ekki hægt að fá það notalegasta þá. Hún var múruð. Ég man eftir því að það var fenginn maður til að gera þetta, sem hét Sturlaugur og var frá Snartatungu. Hann múraði þetta. Eldavélin var með stóran bakaraofn og hólfi undir honum.
p19
Halldóra frænka lék sér að því að baka smákökur og fínasta kaffibrauð í honum með því að láta undir bakaraofninn og hnitmiða hitann. Það hvorki brann hjá henni né var of lítill hiti. Það var t.d. líka vatnskassi á eldavélinni og það var alltaf hægt að hafa heitt vatn. Það voru tvö hringhólf á vélinni, hún var það stór. Þessi vél fluttist að Hvítuhlíð með henni (sjá frásagnir frá Hvítuhlíð, bls. 23 m.a.) og hún átti vélina á meðan hún lifði. Það voru margar myndarlegar konur þarna í Strandasýslunni. Sumar voru það af eðlislægð, aðrar lærðu t.d. á Kvennaskólanum á Blönduósi. Dóra fór ekkert í skóla, hún lærði bara hjá frú Þórunni Hafstein. Það var ábyggilega reglulegur kvennaskóli. Þórunn gerði líka svo margt fyrir Dóru. Bræðrabrekka. Það var mikill munur á Krossárbakka og Bræðrabrekku, þar sem við mamma vorum í eitt ár. (Sjá nánar um hvenær þetta var og hverjir voru í heimili, bls. 2-7).
Neðri hæð hússins: Það voru stærri dyr á Brekku en hafði verið á Krossárbakka og lengra á milli þröskulda. Þrep-skjöldur held ég að það hafi verið kallað þá en varð þröskuldur í letitali. Svo kom langur gangur. Fyrir innan innri þrepskjöldinn var hlóðarhús til hægri og til vinstri var skáli. Í skálanum smíðaði gamli maðurinn. Hann var víst ansi handlaginn. Þar var ris uppi yfir og stigi upp á geymsluloft. Þar var geymd ull og margt fleira sem ég sá aldrei. Við krakkarnir fórum aldrei þarna upp. Áfram heldur maður inn ganginn. Þar er ekkert meira hægra megin strax, en vinstra megin er búrið góða og þar var margt inni. Ég fékk aldrei leyfi til að fara inn í búrið en ég stalst einu sinni inn með Halldóru Kristínu þegar gamla
p20
konan var veik. Matvaran var geymd í búrinu. Það var svo margt inni í þessu búri, t.d. olíutunnur. Tunnurnar komu með olíu til landsins og voru brenndar að innan. Þær voru kolsvartar. Þetta var haft undir slátur, þar sem mikið var til af því. Þarna voru fjórar svona tunnur. Þær voru fullar af öllu mögulegu, en ég sá aldrei ofan í þær. En miðað við það sem maður sá á diskunum hjá fólkinu var þarna bæði blóðmör, lifrapylsa, lundabaggar, sulta og fleira. Það var margt fé þarna hjá karlinum. Þegar maður endaði ganginn voru eins og dyr inn í eldhúsið með draghurð. Það var hurð með snæri í gegnum hornið á henni. Á enda snærisins var grjót með einhvers konar höldu. Þegar maður opnaði hurðina, þurfti maður ekkert að skipta sér af henni og hún lokaðist. Þetta voru kallaðar draghurðir. Ef maður opnaði hana, þá gat maður smeygt sér með þilinu og upp í stigann. Gangurinn endaði inni í eldhúsi þar sem eldamaskínan var. Hún var stór og mikil. Inn úr eldhúsinu hægra megin voru dyr inn í búrið hennar Steinþóru heitinnar. Þar hafði hún sitt. Þar var nú ekkert ríkidæmi, en ég fór þar aldrei inn fyrir þröskuld. Ég sá stundum á borðið þegar það var hálfopið hjá henni. En vinstra megin þegar maður kom inn, voru aðrar dyr inn í lítið herbergi. Þar voru 2 rúm og borð til að drekka kaffi við. Þarna inni svaf Halldóra Kristín og svo ef einhver gestkomandi kom. Í eldhúsinu var eldavél á voðalega vondu gólfi. Það hafði einhvern tíma verið hlaðið grjótgólf. En smám saman höfðu lappirnar á fólkinu farið niður á milli og steinarnir gliðnað og þetta var ein hörmung að ganga þarna um. Loks var stiginn upp og hundarnir sváfu þar undir. Þeir hétu Tírus og Sídon. Ég vissi ekki þá hvernig stóð á þessum nöfnum, en þegar ég fór að lesa biblíusögurnar rak ég mig á þessi orð.
Efri hæð hússins: Þar sem upp kom á loftið var beint á móti Jóku minni þar sem hún svaf í dimmalimminu, blessuð
p21
gamla konan. Jóka var uppi og var bara á milli tveggja þilja. Plássið var ekki lengra. En það var aftur svolítið pláss við hliðina á loftgatinu hægra megin þegar maður fór upp, sem kallað var loftslá. Þar var ýmislegt látið til geymslu, stiginn var ekki það breiður. Þarna var Jóka mín með pínulítið borð, svo óttalega lítið. Jónki, maðurinn hennar, svaf þarna líka. Jóka var þarna í skotinu fyrir innan dyrnar, en fram að þeim voru tvær rúmlengdir. Sá endi baðstofunnar var ekki stærri. Inn af þar sem Jóka var komu dyr, og það var þar sem Steinþóra og Guðmundur Guðnason, maðurinn hennar, bjuggu og Inga dóttir þeirra. Baðstofan sjálf var svo í hinum endanum. Hún var með 6 rúðna stafnglugga og 4 rúðna hliðarglugga upp af rúminu hans Sigurjóns.
Þarna var leirrör til að hita. Þarna svaf hitt heimilisfólkið. Svona var bærinn á Brekku. Hann var hlýr og mér fannst hann skemmtilegur. Og vegna barnanna þarna fannst mér að ég ætti þarna yndisstundir. Sulturinn hafði ekki svo mikið að segja. Þótt ég sæi fólkið með þennan mat og mig langaði alveg óskaplega mikið í hann þegar ég sá hann, þá hugsaði ég ekkert meira um það.
Það hefur viljað mér til. Ég var ekkert að kvabba við mömmu að mig langaði í þennan mat. Nei, það gerði ég ekki, enda hefði það ekki verið til neins. Hún átti svo bágt hún mamma.
p22
Hvítuhlíð. Hann hét Kristján sá sem byggði bæinn, en ég man ekki föðurnafnið hans. Hann var kvæntur Halldóru Kristínu og var því tengdasonur gömlu konunnar, hennar Ólafar. (Sjá nánar um ættartengsl og heimilismenn á bls. 8-9, 24-26). Við flytjum svo öll að Hvítuhlíð. Þetta voru stórkostleg húsakynni samanborið við það sem var á Krossárbakka. Húsið var þannig byggt að það var alger andstaða við öll önnur hús sem maður sá á þessu tímabili.
Útivið: Hvítuhlíð var fallegur bær. Ég vildi að ég ætti mynd af honum, en mér hlotnaðist það aldrei. Það voru tvö ris á bænum. Þetta var ekki lítil hæð á þeim en þau voru jafnstór og jafnhá. Húsið var allt úr torfi utan að sjá, hlaðnir veggir, en svona vel einangrað og vel gert. Stofuþil voru úr við og pappa. Stofugluggarnir voru tveir. Dyrnar voru á miðju húsinu að framan. Aftan við var líka allt þiljað. Gaflarnir voru úr torfi, loðnir og grænir á sumrin. Fjórir áttstrendir gluggar voru á öllum göflunum. Yst á þakinu var torf. Undir þessu fyrsta þaki var tjörupappi, svartur og þéttur. Innan frá, uppi í risinu, þar var nú ekki panell, heldur sléttar fjalir fastar hver við aðra, samfelldar. Það var voða gott að þrífa þetta, þetta var svo slétt og fellt, allt og heflað. Það var svo mikil einangrun í þakinu að það kom aldrei dropi inn. Þetta gerði bæinn líka mikið hlýrri. Svona var bærinn utan frá og það var gríðarlega hátt upp á þakið, en unglingar voru klifurgjörn kvikindi og ég var lofthrædd. En ég var í vandræðum með hvar ég ætti að hafa skeljarnar mínar. Ég sat hjá upp á fjalli alla daga en á kvöldin, þegar verið var að mjólka, þá skutlaðist ég heim og ég náði því, dauðhrædd, að klifra um á kampana sem stóðu
p23
beggja megin út af. Þar náði ég handfangi í grasið og vatt mér upp fyrir. Það kom laut á milli risanna. Í miðjunni var eins og annað ris þvert, sjálfsagt til styrktar. Þarna hafði ég skeljarnar mínar sumrin sem ég var þarna. Hann Björn komst nú að því að ég var þarna, en hann varð ekkert vondur. Hann hefur kannski skilið að ég var í öðru krakki. Hann sagði að ég mætti ekki fara illa með þakið. Ég reyndi alltaf að fara ósköp léttilega yfir þetta allt og það sást aldrei á því svoleiðis að það væri neitt í gegn.
Kjallarinn: Það var sjaldgæft á þessum tíma að kjallarar væru á bæjunum en það var í Hvítuhlíð. Í kjallaranum hafði sementi verið slett í veggina til að slétta úr hleðslunni. Maður hafði aldrei séð sement fyrr en þarna. Það var svo gott að þrífa kjallarann í samanburði við eintóma moldarveggi. Það var svo vel gengið frá kjallaragluggunum líka og sementað í kringum þá. Þeir voru tveir, sitt hvorum megin við dyrnar. Þeir voru alveg niður við jörð og voru með járngrind fyrir úti til að taka á móti því versta sem gat safnast þarna að. Í kjallaranum var eldavélin. Það var allt mögulegt fleira þar. Þar var geymslan og allur matur, þ.e. allt súrmeti og saltað og fleira svoleiðis. Mjölið var reyndar geymt uppi í risi. Eldavélin eða maskínan var stór og múruð með vatnskassa. Þetta var dásamlegt. Ég man að hún var sett upp á Krossárbakka áður en við fórum þaðan. (Sjá bls 19). Þetta var sama vélin hennar Dóru, hún var bara tekin sundur og sett saman aftur að Hvítuhlíð.
Sturlaugur, sami maðurinn, var sóttur til að gera þetta. Okkur leið vel þarna hvað húsið snerti, en það vantaði bara betri upphitun heldur en eldavélin gaf. Það var þó munur að það var rörið upp úr henni og upp á hæðina. Þetta var mjótt rör sem gerði sitt gagn, þótt það væri ekki leirrör eins og sums staðar var. Þau hituðu svo vel. Nei,
p24
þau gátu einhvern veginn ekki komist yfir það. Ég veit ekki hvernig stóð á því, en það var þarna mjótt járnrör. Það var alltaf að kvikna í út frá því. Það var orðinn svo daglegur vani eiginlega að okkur var alveg hætt að standa nokkur ógn af því. Stundum var rörið blossandi rautt.
Jarðhæðin: Fyrst gekk maður upp trétröppur. Þær voru fimm eða sex. Þá kom inn í skúr sem kallaður var bíslag og var líka uppi yfir ganginum ofan í kjallarann. Þar voru fallega smíðaðir trérimlar. Maður gekk þá inn í forstofu. Þarna voru útidyr á forstofunni. Til vinstri voru stofudyr og inn af stofunni var svefnherbergi hjónanna. Til hægri voru herbergisdyr sem pabbi og Ólöf höfðu. Beint af augum voru dyr inn í salinn þar sem við sváfum og svo var stigi upp á loft í risið. Inni í forstofunni var innbyggður klæðaskápur fyrir góð föt sem mátti hengja upp í staðinn fyrir að láta ofan í kistur. Svo voru óhreinu fötin í skáp undir stiganum. Þetta fór vel. Hurðirnar voru með glerhúnum, rósrauðum. Ég man alltaf hvað það var gaman að taka á þeim. Þetta var svo vel gert og myndarlegt. Upp af kjallaranum kom ekki baðstofa með risi heldur bara herbergissalir. Það var stór baðstofa, þ.e.a.s. við kölluðum það baðstofu. Það var bara slétt loft og allt þiljað með panel. Þetta þekktist ekki annars staðar þarna í nágrenninu. Stofan var til vinstri. Þar voru 2 gluggar með 6 rúðum hvor. Hún var björt og sólrík og þar var hafður ofn. Dóra fékk sér hann. Hann var hár, rúmur metri og þungur. Fyrst var stöpull með einhverju þungu innan í, svo kom eldhólfið og svo puntið ofan á. Það var eins og ofninn væri með kórónu. Hann hitaði óskaplega vel og hélt vel í sér. Hjónin höfðu stofuna fyrir sig.
Þó það væri nú lítið í henni, þá var munur að hafa þetta til að bjóða inn í. Þarna voru allir hreppsfundir haldnir. Svefnherbergið var inn af stofunni. Þar sváfu hjónin, Dóra og Björn.
p25
Þessi salur sem við sváfum í, við mamma og börnin hennar Dóru, var allur panelþiljaður og með 2 vænum gluggum. Hann var með sléttu lofti eins og herbergi. Þetta þekktist ekki á þessum tíma. Þetta voru almennt alltaf baðstofur með súð. Þetta var fínt hús, bjart og fallegt. Allar þiljur voru úr panel og kjallarinn var góður. Seinustu árin á Krossárbakka, eftir að börnin komu hjá Dóru, missti ég holuna mína í rúminu fyrir ofan mömmui. Þetta var þegar annað barnið kom. Ég sá svo eftir holunni, þá varð ég að fara til fóta og þá var nú þröngt. Mamma var þrekin manneskja, barn fyrir ofan hana og ég til fóta. Í salnum á Hvítuhlíð fékk ég svo rúm ein og mamma annað. Börnin fengu rúm saman. Mamma hafði nú Helga hjá sér, yngsta drenginn frá Krossárbakka. Svo fæddist Halldór litli og Dóra hafði hann hjá sér. Dóra átti 6 börn í allt og dó af því sjötta. Fimmta barnið var á leiðinni árið sem við mamma þurftum að fara frá Hvítuhlíð. Að við mamma skyldum hafa þurft að fara frá Hvítuhlíð, bara af því að gamla konan skipti jörðinni og lét Einar hafa helming. Björn hafði haft hana alla áður. Ólöf lét barnabarn sitt, Einar Þórðarson, hafa helminginn á móti Birni og Dóru. Þá var ekkert húspláss fyrir okkar mömmu. Salurinn okkar var tekinn. Hann var þriggja rúma lengd, 3 rúmstæði og 1 á móti.
Svo var stigaopið og hægt að hafa eldavél. Einar og fjölskylda settu eldavél þarna þegar þau fluttu inn. Svo var það herbergið hans pabba sem var til hægri út úr forstofunni. Hann var farinn frá okkur sem heimilisfaðir löngu áður. Þarna inni var gamla konan líka, og pabbi hafði fengið sitt sæti þar eins og hafði áður þegar hann bjó hjá henni. Þau voru þarna sitt í hvoru rúminu. Þetta herbergi var ákaflega sólríkt og með stórum gluggum. Þegar maður kom inn úr dyrunum var kistan með þilinu sem eftir var frá dyrunum að glugganum, en borðið var á milli rúmsins hans pabba og kistunnar undir glugganum. Í kistunni geymdi gamla konan ýmist þurrmeti. Glugginn var stór á þeirra tíma mælikvarða, 6 rúðna glugga. Rúðurnar í þá daga voru auðvitað ekki glannalegar neitt. Það voru 6 rúður beggja megin. Þær
p26
voru tvöfaldar með lista á milli. Þetta voru því 12 rúður í allt í herberginu. Innanstokksmunirnir í þessu herbergi hans pabba voru aðallega rúm og borð. Pabbarúm var við vegginn og svo kom rúmið gömlu konunnar þvert á það til fóta. Það var svolítið skot og í því var kabyssa fyrir aftan fótagaflinn hennar. Þetta var ekkert rúm, þetta var eins og skúffa. Ólöf gamla var nú lítil. Þarna var voðalega hlýtt og gott því það var alltaf kveikt upp í kabyssunni. Hún hafði alltaf yl hjá sér. Svo var heimasmíðað borð þarna. Kristján hefur smíðað það (sá hinn sami og smíðaði húsið). Það var slétt og fellt, með 4 löppum og plötu og skúffa í því. Það var dálítið stórt. Þau höfðu líka hjá sér lampa sem hefur hlotið að hafa verið frá Kristjáni tengdasyni hennar. Þetta var hengilampi, voðalega skrautlegur með hvítum kúfli, kallað dreyfari. Glasið var víðara fyrir ofan kveikinn. Þá varð það svo vítt og bungaði út allt í kring. Svo mjókkaði það svolítið aftur. Fyrir bragðið myndaði ljósið meiri birtu. Þessi lampi hékk í loftinu og út frá kúplinum voru voðalega skrautleg puntujárn. Mig minnir að það hafi verið 4 grindur. Kúpullinn var festur bæði upp og ofan í olíukúpinn. Út kom stáss, allt í laufum og myndum. Þetta var puntið sem var í herberginu. Það var líka það eina nema að hafi kannski líka verið Vídalín-mynd hjá gömlu konunni. Þær elskuðu svo Vídalín, kerlingarnar.
Risið: Risið var mjög gott. Það var haft fyrir geymsluloft. Þar var svo þurrt og fínt. Mjölið var meðal annars geymt þarna. Ólöf hafði annað risið. Þar skreið ég stundum á maganum. Þar voru sjöstrendir gluggar úr þykku gleri. Þetta hafði maður aldrei séð áður. Þeir báru reyndar ekki góða birtu því glerið var svo þykkt. En þetta hefur verið kúnst frá Danmörku. Almennt var annars yfirleitt ekkert á veggjum hjá fólki, nema Jón Vídalín þar sem kerlingar áttu hann. Mamma átti
p27
hana ekki. Sumar áttu Hannes Hafstein og ennfremur Vilhjálm Þýskalandskeisara. Ég man eftir því þegar ég var barn, að ég stóð fyrir framan Hannes og Vilhjálm til skiptis, mér fannst þeir svo fallegir. Þó fannst mér nú Vilhjálmur eiginlega hafa yfirhöndina. Þessar myndir héngu ekki í Hvítuhlíð, ég sá þær annars staðar. Það voru yfirleitt ekki myndir eða skraut á veggjunum. Það þótti gott ef einhver átti spegil. Fátæka fólkið átti heldur ekki kommóðu þá. Dóra og mamma áttu báðar fatakistu með ávölu loki. Þar voru helst sparifötin geymd fyrir kirkjuferðirnar, það lítið það var. Snúrur voru ekki til nema úr vandræðum og klemmur voru ekki til hjá okkur. Við krakkarnir urðum að vaka til að þurrka þvottinn fyrir jólin þegar það kom fátækraþurrkur. Mamma sagði að það kæmi alltaf fátækraþurrkur, það brygðist ekki. Það hafði gert það þegar hún var barn. Hún hafði svo mikla trú á því. Það var líka oft einkennilegt, þurrkurinn kom þótt það sæist ekki nokkurt útlit fyrir að það yrði.
p28
2. Bernska. Bentína dvaldist aðallega á 3 bæjum á uppvaxtarárum sínum eins og þegar hefur komið fram, þ.e. á Krossárbakka, Bræðrabrekku, aftur á Krossárbakka og síðast á Hvítuhlíð. Þessa bernskuminningar sem hér fara á eftir eru frá öllum þessum stöðum. Megnið af frásögninni miðast þó við þetta ár sem þær mæðgur dvöldu á Bræðrabrekku, veturinn sem Bentína varð 5 ára. Þá var mamma hennar þar með hana í vinnumennsku í eitt ár. (H.R.) 1. Krossárbakki. Fyrstu minningarnar. Eitt af því fyrsta sem ég man eftir er þegar við bjuggum á Krossárbakka. Þá bjó mamma sem ég kallaði þar með manninum sínum sem hét Helgi Magnússon. Ég vissi ekki annað en að hann væri pabbi minn á þeim árum og datt ekkert annað í hug. Þau fengu samt aldrei að giftast fyrir móður hans Helga. Svona var lífið. Hún hét Ólöf þessi tengdamóðir mömmu og átti jörð, Hvítuhlíð. Helgi var eini sonurinn sem hún átti. Hún er löngu dáin núna gamla konan. Hún var eitthvað á móti mömmu. Ég kallaði Helga alltaf pabba og hann var mér fjarskalega góður. Mér þótti voðalega vænt um hann. Hann talaði við mig og lofaði mér að sjá litlu lömbin og leiddi mig á leiðinni. Þetta hefur svo mikið að segja fyrir börn. Ég var svo hamingjusöm. Ég man alltaf eftir einu tunglskinskvöldi. Ég var búin að taka eftir því við litla gluggann yfir rúminu okkar mömmu, að þá sá ég stundum mánann. Einu
p29
sinni var tunglskinskvöld og hún var að mjólka kúna. Það var innangengt í fjósið. Pabbi liggur afturábak í rúminu sínu á móti og var að hvíla sig og bíða eftir kvöldmatnum. Ég er uppi í rúminu hjá mömmu, alklædd, það var ekkert farið að hátta og er að góna út um gluggann til að vita hvort ég sæi mánann. Þá er hann bjartur þarna og ég er að hugsa um það hvar hann sé stundum þegar hann sjáist ekki. Ég var að hugsa um af hverju þetta sé ekki alltaf eins, því mér fannst að hann ætti alltaf að vera þarna yfir glugganum mínum. Svo lít ég við og sé pabba alveg á sama stað í rúminu sínu, útafliggjandi, og við að eiga hann þarna verð ég svo hamingjusöm í huganum. Þetta var svo dásamlegt, máninn var kominn þarna sem hann átti að vera og pabbi var þarna. Ég verð svo hamingjusöm að ég sting mér kollhnís og lendi í hörku fram á gólfið með bakið. Ég fann svo mikið til. Ég hljóðaði náttúrulega upp, það var svo mikill sársauki. Ég skall alveg fram af og á gólfið með bakið. Pabbi stökk fram úr rúminu og fór að hlynna að mér og spurði mig hvort mig kenndi mikið til. Svo spurði ég seinna hvernig það væri með tunglið, af hverju það væri ekki alltaf þarna á sama stað. Ég fékk nú lítil svör við því. Eitthvað var mér nú sagt. Ég var þankarík og var alltaf að hugsa um eitthvað sem mig langaði til að vita. Eitt sinn, um sumar, var ég að góna upp í himininn og sá stundum eins og móta fyrir mánanum. Ég spurði þá einu sinni gamla konu hvar tunglið væri á sumrin, hvort það sæist ekki alltaf á sumrin eins og á veturna. Nei, hún vissi ekkert um það. Svo spurði ég hana einu sinni hvernig það væri, hvort maður andaði ekki þegar maður svæfi. Nei. Svo var ég að hugsa um vonda karlinn, ekki vantaði hann. Ég gerði mér alltaf hugmyndir um vonda karlinn sem barn, sem betur fer var sú hugmynd ekki ljót. Hann var laglegur en voðalega kolgrímóttur. Það var von, því hann var alltaf í einhverju sóti og glóð, eins og manni hafði verið sagt. En hann var laglegur í andliti og alltaf eins og glottandi yfir vonsku syndugra manna, bæði mín og annarra, hlyti að vera. Svo spyr ég gömlu konuna hvort að skrattinn
p30
geti verið á bak við alla alltaf og verið bara einn. Þá segir hún: "O, hann hefur nóga útsendara." Og ég fékk ekkert annað svar. Mér fannst hann aldrei neitt leiðinlegur og mér þykir svo vænt um að hafa hugsað mér hann svona laglegan mann ef hann hefði þvegið sér í framan. Einu sinni var telpa hjá okkur á Krossárbakka sem var í heimilisvandræðum. Það var svona með þessi börn sem ekki áttu foreldra sem bjuggu eða sem ekki hugsuðu um þau. Hún var þarna um tíma og mamma var góð við hana eins og hún var við mig. Hún var ekki öðruvísi við neinn. Hún var góð kona hún Elísabet, bara svo óttalega illa sett í lífinu. Við stelpurnar vorum saman í rúminu þennan morgun, bara fyrir kulda. Það var engin upphitun. Mamma var að mjólka. Kýrin var til þess að gera nýborin. Pabbi var við gegningar. Við vitum ekki fyrri til, hurðin var víst opin, en kálfurinn kemur upp þessa einu tröppu og svona frískur að hann lætur sig hafa það og er kominn með lappirnar upp í rúm. Við urðum svo ofboðslega hræddar. Ég veinaði upp í loftið og ég held að ég hafi verið ennþá verri en Sigga. Hún var svolítið eldri. Pabbi kemur þarna alveg ofsalega mikið niðri fyrir að þetta skyldi koma fyrir, tók kálfinn og bar hann fram. Kálfurinn var voða fallegur, rauður með hvíta huppu. Trúarlíf. Mamma var voðalega trúuð manneskja og búin að kenna mér bænir. Ég vissi að ég ætti að biðja fyrir mér og allt það. Maður fór með bænirnar og alltof langar sumar. Ég man alltaf part úr einni sem var ábyggilega sem svarar um 2 blaðsíðum að lengd. Þetta hefur verið frá Gyðingatrúnni. Hluti úr henni hljóðaði einhvern veginn svona:
p31
Nú vil ég enn í nafni þínu náð ég Guð, sem léttir pínu mér að þinni hvílu halla heiðra þig fyrir gæsku alla þáða af þér á þessum degi því er skylt ég gleymi eigi og þá má ég aumur játa, angri vafinn, sitja og gráta því móðgað hef ég margfaldlega mildi þína guðdómlega.
Ég þarf nú ekki að fara lengra, enda man ég þetta heldur ekki allt. Ég átti að fara með þetta á kvöldin þegar ég var háttuð. Þegar ég var lítil á Krossárbakka hjá mömmu einni, þar sem þau voru bara tvö mamma og pabbi, þá söng hún svo mikið þegar hún var ein heima með mig. Hún var þá oft frammi í hlóðahúsi og söng. Hún var ákaflega gjörn á að syngja sálma, t.d. Ó, þá náð að eiga Jesúm. Það var uppáhaldssálmurinn hennar og það söng hún oft, og eins Á hendur fel þú honum. Ég man það, ég hef verið á þriðja árinu þegar hún fór að syngja sálmana. Þá fannst mér alltaf á þeim árum ég vera svo kunnug Jesú Kristi. Mér fannst ég hafa þekkt hann. Ég tregaði hann. Ég þoldi aldrei að heyra þessa sálma án þess að gráta og sneri mér alltaf undan svo mamma vissi það ekki. Þetta er voðalega undarlegt. Þess vegna hef ég jafnvel trú á því að maður fæðist oftar en einu sinni. Af hverju átti ég að trega hann svona? Ég vildi alltaf að hún væri að syngja þetta, því þá var ég alltaf með Jesú Kristi og fann hvað mér þótti innilega vænt um hann. Alltaf fór ég að gráta yfir því að hann skyldi ekki vera hjá mér þarna. Refsingar. Það var þessi litla trappa þarna á Krossárbakka. Hún á líka leiðinlegar endurminningar. Í þá daga var vöndurinn
p32
til, því miður. Það held ég að hefði nú aldrei átt að vera við börn. Það var einu sinni, ég gæti trúað að ég hafi verið þriggja ára. Ég var svo lítil. En ég stóð samt upp fyrir tröppunni. Það var moldargólf og trappan og svo baðstofugólfið. Það var þetta og ég man það að ég hafði farið farið fram í hlóðareldhús eitthvað að sniglast í kringum mömmu. Ég var eina barnið þá. Dóra frænka mín, sem þá var uppkomin, hefur verið hjá Óspakseyri hjá frú Þórunni Hafstein. Hún var mikið hjá henni og lærði mikið þar. Frú Þórunn kenndi stúlkum. Ég fór fram í eldhús til mömmu og svo rólega inn aftur, stend við tröppuna og horfi inn í baðstofuna. Þar var ekki gluggi, heldur klukka sem mamma hafði eignast. Hún var kölluð stundaklukka. Hún var trekkt og sló og það var voða mikið að gera með þessa klukku. Hún sló bæði á hálftíma og á heiltíma. Ég náði upp fyrir gólfhæðina með andlitið og virði fyrir mér klukkuna. Mér er þetta ógleymanlegt hvað mér fannst þetta dásamlegt. En hvað heldurðu að ég segi til að gefa hamingjunni útrás? Ég segi "andskotinn" og hef ekki hugmynd um hvað þetta orð þýðir. Auðvitað var enginn þarna til að kenna mér þetta nema fullorðna fólkið því það var ekkert barn komið þarna. En mamma heyrir þetta og tekur mig inn, klæðir mig bara nærri úr og lemur mig með vendi. Ég fékk held ég taugaáfall. Ég barðist svo um upp á líf og dauða. Blessunin, hvað fólk hefur nú haft lítið vit á hvernig það fór með börn andlega. En hún vildi lemja andskotann úr mér. Ég var komin með hann þarna. En hún vissi ekki hvað hún gat gert með þessu. Mig minnir að hún hafi sagt að ég ætti að kyssa á hendina á henni á eftir. Ég var náttúrulega bara saklaust barn og ég gerði það. Svo seinna, sjálfsagt hef ég gert eitthvað, nema þá kom það sama fyrir. Ég var dregin fram í hlóðahús. Ég man ekkert hvað ég hafði gert. Því þótt ég segi sjálf frá, þá var ég rólegt barn að eðlisfari og svo náttúrulega fæðið og aðhlynningin sem vantaði. Maður ólst upp við kulda og sult. Ég var því ekkert of frísk, en furðanlega samt. Ég var
p33
alltaf kirtlaveik, alltaf með bólgin augu og bólginn háls, sá aldrei fulla sjón því annað hvort voru hvarmarnir stokkbólgnir eða augnalokin. Svona var ævin. Maður fékk ekkert lýsi. Mamma sagði oft: "Ja, hún móðir þín, að hún skuli aldrei hafa hugsun á að senda þér pela af lýsi." Sigríður móðir mín var úr Eyjum á Ströndum. Þar var selaveiði. Og hún vissi það að lýsi megnaði að vera mótstöðuafl við kirtlaveiki. Það vissi það einhvern veginn. Ef ég vissi að ég hefði gert eitthvað af mér eða gerði eitthvað sem ég vissi að fullorðna fólkinu hefði fundist ég gera af mér, þá var ég ekkert að draga yfir það. En ég man ekki nokkurn hlut hvað ég hef gert og er dregin aftur fram í hlóðahús.
Þá var ég að hugsa á meðan hún var að ná leppunum utan af mér, að þetta verði nú ekki svo lengi. Ég sé búin að reyna þetta og ég ætli ekkert að láta í mér heyra og ekkert að hreyfa mig og gerði það. En ég kyssti ekki á hendina á henni. Þessi breyting varð. Svona var nú uppeldið á manni, ansi hnökrótt, skilningsleysið. Vöndurinn var aðalrefsingin þá, en bölvaði kinnhesturinn var líka til. Honum fékk ég mikið að kenna á. Það var ekki mamma heldur Dóra frænka mín sem gerði það. Mamma hefur aldrei slegið neinn kinnhest. Hann var reglulega vondur og vondur fyrir eyrun líka. Hún sló mig oft kinnhest og það af litlum orsökum. Þetta þótti eitthvað svo sjálfsagt, líka eftir að hún fór að eiga börnin. Dóra átti tvær telpur, hverja eftir aðra, byrjaði 17 ára og var búin að eiga þessar tvær innan við tvítugt. Ég var þá látin hjálpa henni eitthvað, því ég var þetta eldri. Ef þær ömbruðu eitthvað þá þótti svo sjálfsagt að beita kinnhestinum. Það var einhvern veginn þannig að ef krakkar orguðu var það alltaf barninu að kenna sem var að passa. Þetta var nú aldarandinn. Dóra blessunin gerði þetta þó hún væri nú reglulega góð manneskja. Mér þótti voðalega vænt um hana og henni þótti vænt um mig en hún tók mig ekki sem barnið sitt. Ég fann mikinn mun á því. Ég var áhorfandi á manneskju sem elskaði barn. Það þótti engum vænt um mig svoleiðis öll mín bernsku- og æskuár, nema helst pabba sem ég kallaði þessi ár sem hann
p34
var hjá okkur. En ég var nú aldrei lamin með vendi eftir þetta, aldrei eftir þessi tvö skipti. Ég sá það heldur ekki gert. Ég veit að Dóra gerði það aldrei við sín börn. Það var skellt í þau svona eitthvað bara. Ég sá hana heldur aldrei gefa þeim kinnhest, en ég fékk óslitna bölvaða kinnhesta og fann oft mikið til á eftir í eyrunum. Það sem krakkar unnu til til þess að þeim væru reknir kinnhestar var lítið. Það var kannski kvein í barni og Dóra mín gekk hjá og sagði hvort ég gæti ekki látið þau þegja. Það var ekki nema svona. Maður gerði ekkert af sér. Þó maður hefði kannski átt það til innra með sér ef það hefði verið ástæða til að geta gert af sér eitthvað, en maður kunni það bara ekki. Maður átti það ekki til og datt það ekki í hug, enda var enginn sem gerði það fyrir manni. Það var ekkert barn eða unglingur sem ég gat haft neitt eftir á Krossárbakka. Jólin. Einum jólum man ég vel eftir á Krossárbakka. Pabbi var að koma heim rétt fyrir jólin. Ég gleymi ekki þeirri nótt. Hann kemur heim inn úr frosti og kulda, eftir að hafa farið inn á Hólmavík. Þetta var rétt fyrir jólin þótt ekki væru farin að sjást nein tildrög þess. Hann kemur og mamma fór á fætur og kveikti eld fram í hlóðum til að ylja upp graut að gefa pabba svona köldum. Fólk var svo hrætt við lungnabólgu þegar menn komu heitir af göngu inn í svona helköld hús. Kuldinn var svo mikill að hann settist á rúmið mitt sem ég var háttuð og sofnuð í en ég vaknaði við þetta. Þá sá ég að vaðmálsjakkinn hans var að héla að utan út frá hitanum af honum sjálfum á móti kuldanum í húsinu. Það var eins og þoka á bakinu á honum. Ég skildi ekkert í þessari gufu sem myndaðist. Þetta var mamma svo hrædd við. Hann kom með myndabók og gaf mér, sem ábyggilega var nokkurs konar jólagjöf. Hún var dönsk og var náttúrlega með
p35
dönskum myndum, svo lifandis skelfing fallegum með kúm og skepnum og grösum og trjám sem maður hafði ekkert af að segja, flatlendi miklu. Svo voru myndir af dúkkum sem voru að hengja föt út á snúru. Þetta var svo mikill draumaheimur og mér þótti svo ógurlega vænt um þessa bók. Ég man að mamma bað mig þegar ég var sest upp og ætlaði að fara að skoða bókinna, að í guðsbænum að vera kyrra niðri undir í rúminu. Kuldinn var svo mikill þarna á Krossárbakka. Það var ekkert þar sem hét eldavél, bara hlóðir frammi í hlóðaeldhúsi. Árin á Krossárbakka. Ég man að ég var voða hamingjusöm á þessum árum þarna á Krossárbakka með sjálfri mér, af því að mér þótti svo vænt um þessa mömmu sem ég hélt mig eiga og pabba sem komst nær mér af því að hann talaði við mig. Mamma gerði voða lítið af því. Ég gat aldrei hjúfrað mig upp að mömmu eins og börn þurfa að gera og átt athvarf. Það vissi ég ekki hvað var. Þó að ég gerði það nú ekki við pabba þá átti ég athvarf hjá honum þessi ár til 5 ára aldurs. Ég gat talað við hann um það sem mér lá á hjarta, það lítið það var, og hann tók því svo vel. Ég man síðasta veturinn sem hann var, þá leiddi hann mig og lofaði mér með sér að sjá lömb sem hann átti. Þau voru nú ekki mörg. Ég man nú ekki samtalið, það hefur sjálfsagt ekki verið neitt gáfulegt en það var alltaf samtal. Þetta er svo nauðsynlegt fyrir börn. Þetta var heimur sem ég hrærðist í og leið svo vel. Þetta gat ég ekki við blessaða mömmu. Hún átti eitthvað bágt og ól með sjálfri sér allar sínar lífsraunir. Hún var alltaf þungt hugsandi. Ég álít að hver sem fer frá barni sem honum er trúað fyrir, honum þyki ekki nógu vænt um það. Ég held að það fari enginn frá barni sem honum þykir vænt um, ég gæti það ekki. Ég hefði ekki getað farið frá barni, hvort sem ég hefði átt það eða ekki. Ég er ekki að segja það að ég sé nein dáindismanneskja en ég bara er svona gerð. Kannski er það reynslan sem hefur kennt mér það líka. Mér finnst það bara svo
p36
sjálfsagt. Ég veit að þessum ömmubörnum mínum, það lítið sem ég hef kynnst þeim. Þessir tveir sem ég hef verið með frá fæðingu, þeir segja báðir að þeim finnist ég vera mamma sín en ekki mæður sínar, án þess að ég hafi viljað taka neina móðurást frá þeim. En þeim finnst þetta og mér þykir vænt um að heyra það. Mér þykir jafnvænt um þá og ekki síður. Svona finnst mér þetta eigi að vera. Þó að maður hafi ekki fingurgóm af skyldleika með barni þá hlýtur það að vera svona. Barn sem engan á að, hvar er það statt? Guð minn almáttugur, hvað aldarandinn gat verið kaldur þá. Það held ég að sé minna til núna.
p37
2. Bræðrabrekka. Matur. Ég vissi það að mamma átti að fæða mig og ég held að hún hafi átt að fæða sjálfa sig og hafi bara haft þessar fáu kindur á kaupinu sínu. Ég held það vegna þess að á haustin þegar búið var að sjóða slátur, þá átti hún aldrei neitt slátur. Hún bjó aldrei til neitt fyrir sig sjálfa, bara fyrir heimilið. Ég fékk bara brauð að borða og stundum graut. Mér þótti gott brauð og ég gat étið það ef svo slóst að ég fékk nóg af því. Ég fann ekki svo mikið til sultar, það var einkennilegt. Ég held að maður venjist þessu. Mér dettur í hug vannærðu börnin í Afríku sem verið er að sýna. Þau eru með magann sem ég var með á Krossárbakka, þennan úttútna maga. Ég man eftir því að Dóra sagði einu sinni: "Ég veit ekki hvernig maginn á henni Bentínu er að verða. Hann er allur að vaxa út." Þetta var bara af vannæringu. Þó hafði ég afl til að leika mér úti, bara ef ég fékk að fara út. Það var svo einkennilegt, ekkert lýsi og ekki nokkur hlutur til bætiefna.
Ef ég hefði fengið það hefði ég ekki verið svona. Ég var oft með eitthvað bólginn tanngarð, en það losnuðu þó ekki "tönnurnar". Foreldrar mínir hafa lagt til sín fræ af heilbrigðum líkama hlýtur að vera. Það er ekki orðið neitt áfall að minnast á þess háttar núna, þótt það væri ekki minnst á þess háttar þá. Það hefði nú þótt nokkuð gróft. Ekki vantaði samt klámið í þá daga, bara á annan hátt. Það var alltaf læst búrið á Brekku og ég man það að þegar ég fór að kynnast heimilislífinu þarna, barn er nú alltaf barn, þá vissi ég að inni í þessu búri hlaut að vera margt voðalega gott. Það sá ég á diskunum hjá þeim, en fékk
p38
sjálf ekkert af þeim mat. Ég elti gömlu konuna stundum þegar hún var að skammta. Ég var svo lítil þá. Ég þorði ekki að fara við hliðina á henni og hún var með hendurnar veifandi á bak við sig og sagði alltaf: "Geyið mitt, vertu ekki að þessu. Vertu ekki að elta mig." Hún vildi ekki að ég kæmi með henni. En hún var aldrei vond, náttúrulega ekkert góð heldur, en aldrei slæm. Svo þegar hún kom að búrhurðinni og ég æltaði að reyna að laumast inn, þá passaði hún sig með það að fara aðeins inn með og lokaði svo í rólegheitunum og læsti mig úti. Heldurðu að Guð hefði ekki launað henni ef hún hefði gefið mér slátursneið eða eitthvað sem ég fékk aldrei að smakka? Ég fékk aldrei leyfi til að fara inn í búrið en ég stalst einu sinni inn með Halldóru Kristínu, þegar gamla konan var veik. Það var þannig að það kom maður sem hét Jesper. Mér fannst það svo skrýtið að hann hét Jesper og var frá Asparvík, nöfnin voru svo skrýtin. Hún býður manninum inn. Dóra læsti ekki svona að sér búrinu eins og kerlingin gerði alltaf, svo ég fór á eftir henni. Guð minn góður, hvað mig langaði hræðilega í allt sem þar var. Hún tekur upp sviðasultu, hún tekur upp lundabagga, ósultaða sviðakjamma, slátur og brauð og smjör og allt var til. Þessu raðar hún á disk handa manninum. Ég fékk ekki einn einasta munnbita. Þetta var ekki af því að Dóra hafi verið nísk, bara hugsunarlaus. Þetta var 18 ára stúlka, feit og rjóð í andliti eins og blómarós og gat borðað allt þegar hún vildi. Hún gekk um eins og hún ætti þetta. En ég bað hana heldur einskis. Það gat ég ekki, enda hefði ég ekki mátt það. Það var bannað. Það var að betla. Að vera betlari var stórt orð. Nú, maðurinn fór og búrið lokaðist og gamla konan komst aftur á fætur.
p39
Trúarlíf á heimilinu. Eftir sláturtíðina var blessað guðhrædda níska fólkið farið að lesa kvöldhugvekjur. Það var Guðmundur gamli, aðalhúsbóndinn. Hann hafði nóg efni og hefði getað veitt mörgum gott og ekki síst munaðarlausum manneskjum eins og við vorum. Það var alltaf kveikt á lampa, 14 línu lampa sem hékk við stoðina hjá rúminu hennar Guðfinnu heitinnar, konunnar hans. En í skotinu hennar Jóku gömlu var kolamyrkur. Hún átti ekki einu sinni týru til að kveikja á. Hún var svona mikill munaðarleysingi. Hún sat í myrkrinu öll kvöldin. Hvernig hefur þessari manneskju liðið? Mamma kom yfirleitt aldrei upp til að hlusta, heldur var niðri í eldhúsi. Hún var þar að flóa mjólk handa fólkinu en sem ég fékk aldrei að smakka. Ég veit ekkert hvenig það át hana. Mig langaði ógurlega mikið í hana. Þarna niðri hafði hún hjá sér annaðhvort kolu eða týru. Týra var blekbytta með stút upp úr og kveikt á, en ekki neitt glas eða svoleiðis yfir. Þetta voru voðalega lítil og lág glös. Ég held hún hafi haft það til að sjá til, til að það syði ekki út úr. Það var nóg. Hvorki hún né aðrar voru vanar við skínandi birtu. Ég man að eitt kvöld fór ég niður til mömmu. Það var hlýrra þar og ég stoppaði við hliðina á henni og hún var að sjóða þessa mjólk. Það er skán ofan á pottinum og mig langaði svo ógurlega mikið í þessa skán. Það var einhver sleif sem hún hrærði í flóuðu mjólkinni með. Ég spyr mömmu hvort ég megi smakka þetta, því mig langaði svo ógurlega mikið í. Þá dregur hún blessunin skánina ofan af og lofar mér að njóta hennar. Í því kemur unga konan, hún Steinþóra, sem var í hinum endanum, sinna erinda. Ég man alltaf eftir henni eins og hún væri ljóslifandi, ákaflega grönn og spengileg. Hún var þunnleit, með voðalega dökkblá og stór augu. Mér fannst þau alltaf falleg, en hörð. Hún hefur haft
p40
nóg að gera með sín augu í lífsreynslunni. Hún átti búr þarna niðri. Henni verður svolítið starsýnt á hvað ég sé að gera, með sínum stóru, blikandi, köldu augum. Ég varð hálfhrædd, ég var að stela skáninni ofan af. Ég hrökklaðist upp þegar hún var farin inn í búr. Hún sagði ekki eitt einasta orð, skipti sér ekki af þessu, enda átti hún þetta ekki. Það varð ekkert meira um það, ég stal engu öðru og mamma ekki heldur. Ég fékk aldrei neitt af þessari mjólk þótt undarlegt megi heita. Ég gerði þetta aldrei aftur að fara niður til hennar og forvitnast um hvað hún væri að búa til eða elda. Eitt sinn sem oftar var gamli maðurinn að lesa hugvekjurnar. Karlinn sest á stól inn í enda þar sem hann átti heima og tekur stóra kompu. Þetta hefur sjálfsagt verið eftir Vídalín eða verið Péturshugvekjur. Ég hafði náttúrulega engan áhuga fyrir þessu. Ég var sest á rúmið okkar mömmu samt og karlinn sagði mér að hlusta á lesturinn. En mamma kom ekki upp. Hún kom aldrei upp að hlusta. Hún hefur engan áhuga haft fyrir guðsorðinu þar eins og henni hefur liðið. En Jóka mín sat í myrkrinu inni í sinni skonsu. Þá segir karlinn: "Heyrðu Bentína, segðu henni Jóku að koma og hlusta á lesturinn." Hann gat sent henni tóninn, þetta var allt í sömu baðstofunni. Hún var þarna rétt fyrir framan þilið. Ég fer í rólegheitum fram fyrir dyrnar. Jóka mín sat þarna í niðamyrkri og fékk aldrei týru. Hún átti ekki til nokkurn skapaðan hlut til að kveikja á. Hún átti ekkert til nema Jón. Hún elskaði hann. Hann sagði mér að kalla á Jóku til að koma og hlusta á lesturinn. Hann hefði átt að skammast sín. Ég laumast fram fyrir dyrastafinn og segi við Jóku: "Jóka, þú átt að koma að hlusta á lesturinn." "Nei," segir hún. Það fólst svo margt í þessu eina nei-i, svo mikið hatur, að ég varð hrædd. Allt var svo koldimmt í kringum hana og hún koldimm sjálf, blessunin í tötrunum og ógreidd. Ég veit ekki hvort hún greiddi sér nokkurn tíma. Þetta var svo mikil hörmung og þau áttu svo bágt þessar manneskjur. Ég segi við Guðmund: "Hún vill ekki koma." Hann fór svo að
p41
lesa en ég fór niður stigann og sagði við mömmu: "Mamma, er hún Jóka draugur?" Ég verð svona hrædd og held að hún sé draugur. Það var nú mikið talað um drauga þá. Það átti hver hreppur og stundum hvert heimili sinn einstaka draug. Það var ekki til öðruvísi. Þetta var nú ekki hollt fyrir börn heldur. Ég hélt þetta, að Jóka hlyti að vera draugur. "Nei, hvað ertu að segja barn, af hverju heldurðu það?" sagði mamma. Þá segi ég: "Hún vill ekki koma og hlusta á lesturinn." "Nee-i," segir mamma svona og ekkert annað. Hún gerði mér enga grein fyrir því að hún væri ekkert hissa á því. Það hefði nú verið betra að segja manni svolítið, upplýsa mann. Maður gerði sér sínar hugmyndir um hluti og vissi svo ekkert hvernig þetta var. Leikir og leikfélagar. Mér hefur alltaf þótt vænt um bæinn á Bræðrabrekku. Ég held að það hafi gert krakkarnir. Mér þótti svo vænt um þau og það tókst með okkur svo mikil vinátta, sérstaklega með okkur Guðmundi. Einu sinni fór Inga í ferðalag með mömmu sinni. Hún náttúrulega tók ekki Guðmund með. Það var eins og hún ætti hann ekki aumingja manneskjan. Ég man alltaf þennan dag sem það var von á Ingu heim. Við vorum að leika okkur á gólfinu og gamla konan, Guðfinna, sat á rúminu sínu og horfði á okkur og hafði bara ánægju af. Okkur féll svo vel. Við vorum með einhverjar smáskeljar og meyjarpoppur og vorum að raða voðalega fínt. Við vorum eiginlega eins og ein sál krakkarnir. Ég man að ég segi við Guðmund: "Nú fer Inga bráðum að koma." Gamla konan hefur víst heyrt vel. "Já," segir Guðmundur bróðir hennar, "mig langar bara ekkert til að hún komi. Mig langar mikið meira til þess að við séum bara tvö." Ég verð dálítið skelfd og lít á gömlu konuna. Hún kímir við sú gamla og skildi þetta aumingja kerlingin. Ég hélt nú að maður yrði skammaður, en nei, það var ekki. Svo kom aumingja Inga heim þennan dag, stjórnsöm og hugrökk eins
p42
og hún var alltaf. Þetta tókst allt vel og við fórum að leika okkur öll saman. Einn sunnudag um sumarið, man ég eftir því að ég leitaði mikið að börnunum og Dóru. Það var glaðasólskin. Dóra á Brekku átti harmonikku og spilaði oft á hana. Svo hverfur hún þennan sunnudag og harmonikkan líka. Mamma sagði að hún hefði farið með harmonikkuna. Ég hugsa að Dóra hafi beðið hana að segja ekki hvert hún ætlaði. Hún hefur bara ætlað að vera ein eitthvað úti í náttúrunni að spila. Það voru náttúrulega margar holur til að vera á. En ég var eirðarlaus, börnin voru farin og ég vissi ekki hvert. Karlinn sást ekki og gamla konan sat uppi á rúminu. Nema, ég æði þarna um og er að leita, sérstaklega að börnunum og Halldóru. Þá kom í mig svo voðalegur tregi til Dóru frænku minnar á Krossárbakka. Ég var að biðja til Guðs að hún kæmi nú. Það kom stundum í mig þessi tregi, sem undir niðri var alltaf frá því að pabbi fór, og að skilja við Dóru. Þetta var einhver eymdarháttur. Samt verð ég að segja að mér finnst að við mamma höfum borið þetta eins og hvern annan bagga, sín hvers vegar, hún sinn og ég minn. Dóra kom svo einhvern annan sunnudag um sumarið, ríðandi í söðli. Þá kom hún að finna okkur. Svona leið þetta nú og þegar börnin sáust aftur fórum við að leika okkur aftur og vera saman. Þetta var um veturinn. Inga var dálítið frökk að eðlisfari, frjáls og ólst upp við meira frelsi heldur en ég. Einu sinni kemur hún fram á rökkurkvöldi, líðandi degi í skammdeginu og segir við Guðmund bróður sinn: "Hann pabbi ætlar að lofa mér að sjá kindurnar í fjárhúsinu, kindina mína." Þetta var ósköp eðlilegt af barni sem átti kind og föður. "Ha," segir Guðmundur litli og segir við gamla manninn að Inga eigi að fara að sjá kindina sína. "Mig langar til þess að sjá mína kind," segir hann. Karlinn segir ekki neitt, ég var uppi. Ég átti enga kind.
Ég þegi og hugsa að ég hljóti nú að fá að fara líka. Ég þorði engan að biðja.
p43
Ég átti enga kind og leyfði mér ekki nokkurn hlut. Ég var utan við allt líf þannig. Hvernig sem það var, hvort þeir hafa hvíslast á, ég veit það ekki. Það var kolarökkur í baðstofunni og ég sá þá aðeins. Svo sé ég að karlinn laumast fram baðstofugólfið og ég með hendurnar fyrir aftan bak á eftir þeim. Karlinn leiðir Guðmund litla þegjandi út og ég er eftir í dimmunni. Enginn segir neitt. Ég átti ekki að vera þarna með. Það var alltof mikið og gott fyrir mig að fá að sjá í fjárhús. Ég settist bara, ég grét ekki einu sinni, bara settist og beið þangað til þeir komu aftur. Svona var nú þetta.
Ég fékk aldrei að fara nokkurn hlut með þessu fólki á Brekku, hvert sem það fór. Það fékk hesta og fór til kirkju og fór það sem það gat. Ég man ekki eftir að mamma færi nokkurn skapaðan hlut, þessi blessuð elska. Hún gerði bara sín verk. Hún mjólkaði, þvoði allt upp og gerði öll eldhúsverk. Halldóra var alveg laus við það. Hún skúraði baðstofugólfið, ég man það, og gerði það vel. Hún var dugleg við það sem hún gerði og var hraust stúlka. En hún var ákaflega frjáls og vel með hana farið, fósturdótturina. Það veit ég að mamma fann til með mér, sem aldrei fékk nokkurn hlut í samanburði við hin börnin, hvorki mat né neitt. Auðvitað hefur hún fundið þetta. Það er ekkert efamál. Ég fann það á henni einhvern veginn og vissi það þó ég væri barn, að hún leið fyrir þetta. Einn sunnudag segir hún þetta við mig, til að gera mér glatt og einhverja upplyftingu, en minntist aldrei á það að það væri af því að ég fengi aldrei að fara neitt: "Nú ætla ég af því að það er sunnudagur, þegar ég er búin að því sem ég þarf að gera í bili, að labba með þér leiðina út að Skriðnesenni og lofa þér að sjá ungana". Það var þegar fuglinn var búinn að unga út. Mér fannst mikið til um þennan göngutúr sem hún gaf mér meðfram ströndinni. Mér fannst ströndin svo falleg og þar voru stakir steinar. Það er slétt grund langt út eftir á þessari leið á milli Skriðnesennis og
p44
Brekku. Þetta er við Bitrufjörð. Við fundum unga þarna. Þeir hafa sjálfsagt drepist í brimi. Það hlóðst svo mikið brim innan úr Húnaflóa. Hann er rostungur Húnaflóinn. Það var ýmislegt í rekanum sem við fundum, smáfallegar spýtur, steinar og skeljar. Mamma leyfði mér nú að eiga eitthvað smávegis af þessu. Svo kláraðist nú þessi ferð og annan göngutúr fórum við nú ekki þetta ár við mamma. Ég man eftir öðru skipti sem hún gladdi mig með því að koma með dauðan æðarunga upp á slána til mín til að gefa mér. En það var verst að hann var dáinn og ég gat ekki lífgað hann. Hún sagði mér einu sinni í sögu að þegar Jesús Kristur hafði verið barn, hafi hann verið að leika sér með öðrum börnum og verið svo góður við alla. Einu sinni hafði hann verið að leika sér og eitthvert barnið fundið dáinn fugl. Og börnunum hafi þótt verst að fuglinn var dáinn eins og mér fannst. Þá segir hún að Kristur hafi gefið fuglinum líf. Hann var náttúrulega almáttugur sem barn, eins og seinna, og fuglinn flaug. Hún sagði mér þetta einhvern tíma en hún hefur ábyggilega ekki mátt vera að því þegar hún rétti mér fuglinn. Það hefur verið áður. En ég var að óska þess að Kristur væri kominn og gæfi fuglinum líf. Samt þótti mér vænt um fuglinn. Mamma sagði að ég skyldi ekki eiga hann lengi af því að það sem væri dáið gæti skemmst fljótt. Ég man að ég átti ungann ekki lengi.
Það kemur vor og það hlýnar í veðri. Vorið var gott og fljótt farið að vinna á túnum. Það var mikið látið með Guðmund litla, Inga var barn sinna foreldra og ég sveimaði þarna eins og flugur gera. Svo er farið að tala um mó. Það var Inga. Hún var svo rösk og stjórnsöm og ef hún vissi um eitthvað hjá foreldrum sínum þá flaug hún með það fram. Ef henni gat hlotnast eitthvað sagði hún bróður sínum það og náttúrulega mér líka, hvað væri að gerast og hvað hún ætti að fá. Núna átti hún að fá að fara í móinn með pabba sínum. Þá segir Guðmundur: "Ég vil líka fá að fara í mó" og biður karlinn. Það var hljótt um það því "stráið" var þarna
p45
nálægt. Það var ekki gott að láta það heyra svona. Það gat verið varasamt, því það gat kannski langað líka. En vittu nú til, einn morguninn vakna ég við það, hrökk upp og allir eru farnir burt. En rúmið okkar mömmu var svolítið borðhorn. Á því var brauðbiti og ekkert annað. Það var enginn uppi. Gamla konan, hún Guðfinna, var ekki heima, ég hélt að hún hefði farið til læknis. Ég dembi mér í fötin og hugsa mér til að finna mömmu og hvar það sé þetta fólk. Ég sinni ekkert brauðbitanum og fer bara út á hlað. Á leiðinni út sé ég Jóku mína og hún er að kraka í hlóðunum frammi. Ég þori ekki að spyrja Jóku hvar fólkið sé því ég hélt alltaf að hún væri draugur (sjá bls. 41). Svo ég þýt bara út á hlað og stend þar með hendur fyrir aftan bak og hugsaði eitthvað. Þetta var einhver ávani. Ég virði fyrir mér útsýnið. Ég man vel að það var sólarlaust logn, enginn gustur, þokuloft og dumbungslegt. Ég bið í huganum, guð almátturur, hvar er fólkið? Það var mér lífsins ómögulegt að vita. Þá sé ég þarna og þar voru tveir hvítir blettir. Þar sem ég stóð þarna á hlaðinu fór ég að hugsa hvað þetta gæti verið. Það var snarbrött brekka frá bænum sem var þá, svo kom undirtún sem kallað var og svo fjaran. Frá fjörunni var sund út að skerinu sem var þurrt í þetta sinn. Nema ég kemst þurrum fótum fram og þá sé ég að þetta eru tveir blikar svona fallegir, sem ég ætlaði að reyna að ná í til að leika mér að. Ég hélt að þeir væru leikfang. Þeir fljúga upp. Ég var þá þarna dolfallin, einmana og í vandræðum. Ég fer að gráta og sest. Utan í skerinu er allt í blöðruþangi, sem maður sprengdi oft að gamni sínu. Ég settist ofan í þetta og var svo þvalkalt. Ég sofna og vakna svo við það að Jóhanna er að reyna að drösla mér upp í fangið á sér. Hún hefur sjálfsagt verið beðin að líta eftir mér. Hún átti svo bágt, þessi elsku hjartans kerling. Þetta var svo mikill fátæklingur og ýlustrá á jörðinni. Hún var aldrei með heilu sinni fyrir fátæktinni og umkomuleysinu. Hún átti bara þennan mann sem hún elskaði sem gat ekki veitt henni það sem
p46
hún þurfti og hún gat ekki unnið neitt að ráði sjálf. Hún var að drösla mér þarna upp og sjórinn er kominn það hátt að lappirnar á mér dragast í vatninu. Sjórinn var kominn langt upp eftir henni, því hún var svo lág og gild. Hún tautaði þarna yfir mér. Ég var hálfgrátandi og hálfsofandi, ísköld af skerinu og hún kemur mér þarna upp á land og segir að ég verði flengd ef ég geri þetta aftur. Hún leiðir mig alla leið heim að hlaði og segir mér að sneypast bara og fara ekki neitt aftur og gerði sig illa. Svo kemur fólkið. Ég hafði verið matarlaus allan daginn, sinnti aldrei um brauðsneiðina. Ég var svo vön því að það var ekkert nýtt. Fólkið kemur og þá sagði Jóka mömmu frá þessu. Það verður allt svo dularfullt og niðurdregið og mér fannst ég ekkert hafa gert af mér. Ég vissi ekki hvað ég átti að gera. Ég var bara barn og elti bara hlut sem ég hélt að væri gott að ná til að leika sér að og sofnaði svo út úr öllu saman. Af hverju mátti ég ekki deyja þarna bara? Ég hugsa að það hafi flætt yfir skerið, annars man ég ekkert eftir því hvernig þetta var. Það er talað svo lágt um kvöldið að maður heyrði varla að það væri nokkur lifandi í bænum. Ég var ekkert skömmuð, ekki nokkurn hlut, þótt ég hefði mátt búast við því kannski. Það þurfti lítið að vera til þess í þá daga. Svo kemur aftur morgunn. Þá komu þrír diskar upp á loft og okkur börnunum var skipað að vera uppi á lofti. Dóra kemur með einn fyrir Guðmund litla og mamma kemur með einn, aldrei slíku vant, og á honum er hvalsneið eins og hjá Guðmundi. Steinþóra kemur með disk fyrir sína dóttur. Það get ég sagt, að í þetta skipti sá ég ástaraugu í þessari manneskju til sonar síns, þó ég væri barn. Þarna var manneskja sem elskaði barnið sitt. Hún roðnaði og horfði bara á drenginn og beindi talinu að honum þó hún væri að segja Ingu frá þessu. Nú ættum við að vera góð börn og vera kyrr heima því fólkið ætlaði í móinn. Svo fer hún niður og þá kemur gamli maðurinn upp í miðjan stigann með voðalegri raust og segir: "Þið hreyfið ykkur ekki út úr bænum. Ef þið
p47
gerið það, verðið þið bara drepin." Við vissum ekki nokkurn hlut, vesalings börnin. Við máttum ekki hreyfa okkur út í góða veðrið. Svo fer fólkið allt, nema Steinþóra og hún segir: "Inga mín, ég ætla að lána þér skærin mín og gefa þér hérna blöð." Pabbi hennar var bókbindari og þau áttu svo mikið af blöðum. En ég átti engin skæri og mamma hafði sín skæri einhvers staðar. "Þarna eigið þið að vera róleg og ekki að hreyfa ykkur," segir Steinþóra. Við áttum að vera uppi allan daginn. Hvar áttum við að pissa og allt svoleiðis? Og þarna var enginn vatnssopi eða neitt. Við áttum að vera þarna í logni og brennandi sólskini. Baðstofan var svo góð. Hún var hlý, þótt þetta væri torfbær með skarsúð og það var hliðargluggi og gaflgluggi og því sól allan daginn. Við ætluðum alveg að kafna úr hita. Inga tekur upp á því þegar við erum að hugsa um hvað við eigum að gera okkur til gamans, að hún sækir skærin og blöð og fer að klippa út stelpur og búa til ýmislegt. Hún segir mér að gera það líka og færir mér skærin. Okkur leiddist þetta nú til lengdar og þá var að gera eitthvað nýtt. Þá segir hún: "Á ég ekki að klippa ykkur?" Þá var nú verið að láta hárið vaxa á telpum og þótti ekki lítið. Inga hafði ljómandi fallegt, ljóst, hrokkið hár sem náði niður á axlir. Það var nú lítill vöxtur í því, en fallegt. Guðmundur var ljóshærður með gullbjart hár og með fallegan koll með þéttu hári. Inga byrjar á bróður sínum. Hann varð svona eins og ekki þokkalega klipptur kindarhaus. Hún hraflaði úr höfðinu öllu allt í kring og var svo búin með hann. Svo klippir hún mig. Ég var með fléttustýru ofan á herðablöðin. Ekkert mátti nú missa. Þetta varð allt að hafa langt hár, hvernig sem það var nú hirt. Mér var aldrei greitt. Það var alveg viðburður. Mamma mátti ekkert vera að því. Það get ég sagt þér, og ég gerði það ekki sjálf í þá daga. Ég hafði ekkert vit á því og enga löngun til þess. Mér var nú ekki sama samt þegar öðrum börnum var þvegið og hlynnt að, þá langaði
p48
mig svo til þess að það væri gert líka við mig. Það var svo lítill aldursmunur á mér og þessum börnum. Það var enginn til að gera það. Nema Inga byrjar á fléttunni á mér og öðrum vanganum. Hinn vanginn var eftir og þá var hún orðin þreytt á því að halda á skærunum. Þá biður hún mig að klippa sig. Þá var hún með sitt fallega hár allt í kring og ég byrja að klippa í miðjunni og fremst á enninu og nokkuð breiða brún upp. Þá er komið kvöld. Þá heyrum við að gengið er um. Við flýtum okkur fram á slá og samviskan vissi ekki að við hefðum neitt gert af okkur. Ég stend þarna með annan vangann klipptan og stýrið út í loftið. Inga var eins og hún var og Guðmundur litli eins og kindarhöfuð. Þarna stöndum við á slánni og fólkið stansar í stiganum hvert á fætur öðru. Það var alveg stopp. Gamli maðurinn kemur upp og sest á rúmið og er alveg dolfallinn. Þar næst kemur Guðmundur Guðnason, faðir barnanna. Það sagði ekki neitt. Gamli maðurinn kallar til hans og segir: "Guðmundur, ég verð að biðja þig að klippa hann Guðmund, laga betur hausinn á honum." Hann kallar á hann inn til sín, talar ekkert við hann en fer samt notalegum höndum um hann. Þar næst var Inga kölluð inn og hann sagðist bara þurfa að klippa hana alveg því það væri búið að eyðileggja á henni hárið. Þá segir mamma blessunin: "Guðmundur, ég má til með að biðja þig að laga hausinn á henni Bentínu, bara að klippa hana." Hún var voðalega vandræðaleg, eins og lamin þúfa. "Komdu," segir hann við mig og þegar hann hefur náð tökum á hausnum á mér, segir hann að það ætti að rassskella okkur öll hvert með öðru. Látum það nú vera, það var ekki meira gert. Við vorum öll snoðklippt og okkur fannst þetta öllum svo voðalega gott. Okkur fannst vænt um að þurfa ekkert að eiga við hárið.
Um vorið veiddist voðalega mikið af rauðmaga. Hvernig sem á því stóð þá sá maður aldrei þennan rauðmaga. Okkur krökkunum voru gefnar sogskálarnar og fannst svo gaman að smella þeim á þilin. Það var á skúr sem var niður á
p49
tanganum, þar sem báturinn var. Báturinn gamla mannsins hét Sníkir. En þeir höfðu þessa skekktu saman, hann og Guðmundur Guðnason, fóstursonur hans og faðir barnanna. Þeir voru alltaf við þessar veiðar og veiddu mikið. Þeir áttu fullan hjall af rikling, feitum lúðurikling. Okkur börnin sárlangaði í þetta. Þau voru ekki svöng en ég var svöng. Það var hægt að pota fingrunum þarna á milli rimlanna og Guðmundur litli gerði það ekkert síður en við stelpurnar. Það var verið að reyta það sem maður gat komist í. En karlinn komst að þessu og skammaði okkur svo mikið og ef við gerðum þetta aftur þá færi allt í voða. Við þorðum aldrei að koma nálægt þessu meir. Það var líka ágætt að venja okkur ekki á stela. Hjallurinn var læstur. Það var ekki hægt að komast inn í hann. Ég man eftir einum morgni þegar þetta fólk át þennan rikling. Ég veit það að ef mamma hefði fengið bita á diskinn sinn hefði hann lent í mér. Mamma var svöng fyrir mig. Einu sinni kom hrúgaður diskur af rikling upp á loftið. Hann var fyrir gamla manninn og Guðmund litla. Efstir voru vænir riklingsbitar. Ég stóð bara fyrir framan karlinn með hendurnar fyrir aftan bak og tvísté og starði á riklinginn. Mig langaði svo að eitthvað af þessu færi ofan í mig. Karlinn sér þessa voðalegu stífu löngun í augunum á mér og réttir mér svona fingurstóran bita. Þetta var eini riklingurinn sem ég smakkaði af þessum ósköpum sem voru til þarna. Það ber ekki allt upp á sama daginn. Guð hjálpi þeim sem geta haft hungraðar munaðarlausar manneskjur inni hjá sér.
Svo leið nú sumarið og ég man að einu sinni var verið að hirða í miklum þurrk og sólskini. Okkur Guðmund litla langaði svo að þykjast gera eitthvað og vantaði svo reipi. Okkur var sagt að við mættum ekki taka af fólkinu reipin sem átti að leggja á sátur. Svo Jónki skreppur frá og kom aftur með þrjú svolítil reipi fyrir börn og sagði okkur að leika okkur með þetta. Ég var alveg hissa
p50
en hann hefur gert þetta fyrir Guðmund. Hann var í svo miklu aðhaldi hjá honum. Við undum okkur eitthvað við þetta eins og gengur með börn.
Það var vatnsmylla þarna. Karlinn hefur sjálfsagt verið grúskari. Hann bjó til myllu yfir bæjarlækinn og hún malaði kornið fyrir heimilið þegar óx í læknum. Við krakkarnir vorum voða mikið að frýnast þarna í, en maður mátti það ekki þegar myllan var í gangi. Það var stórhættulegt. Ég heyrði einu sinni mjög fallegt ljóð um myllu. Lagið var svo fallegt.
Ég sat og sá í myllu við sorgir allar laus, :/: hve hraðar hjólin gengu og hvernig vatnið gaus :/: ... o.s.frv.
Dóra frænka söng þetta svo oft fyrir börnin sín. Einu sinni vorum við að leika okkur þarna. Það hafði minnkað eitthvað í læknum og við komumst upp í mylluskriflið. Hún gisnaði nú svo þegar ekki var nóg í læknum. Við vorum vakandi og sofandi þarna í og var ekki bannað að vera þar nema þegar var verið að mala. Nú ég ríf mig svona hastarlega í lófann á einhverjum óhefluðum rafti sem var þarna inni. Hann tætir lófann og ég fer að skæla. Það voru tárin sem hjálpuðu til alls. Ég fór til mömmu, en hún átti ekkert til að rífa úr og segir mér að fara upp á loft til hennar Guðfinnu og athuga hvort hún eigi einhverja ræmu til að binda um þetta. Ég varð eitthvað svo hrædd við þetta. Ég var svo hrædd við blóð og fer organdi upp og ný úr augunum. Guðfinna situr á rúminu sínu og segir: "Hvað er að þér, geyið mitt?" Hún var aldrei vond við mig. Það var enginn vondur við mig þarna. Ég settist á kistil sem hún hafði við rúmið sitt. Hún reif mjallahvíta og hreina ræmu og vafði yfir þetta. Hún kunni nú ekki að búa um þetta og þvoði þetta ekkert upp eða neitt. Þetta storknaði bara svona í lófanum. Þá segir gamla konan: "Jæja, núna er ég búin að hjálpa þér
p51
með þetta. Núna áttu að sitja hérna hjá mér og prjóna." Þá hafði ég aldrei lært að taka lykkju og var með hendina svona. Hún vildi endilega að ég sæti þarna. Það gerði ekkert til þótt ég væri svöng og fengi ekkert að borða nema það sem mamma gat veitt mér. "Þú átt ekki alltaf að vera úti að leika þér," segir hún, "þú átt að setjast hérna hjá mér og vera róleg og prjóna." Ég veit að andlitið á mér hefur verið ein gribba. Ég er viss um það. En ég þorði ekki að segja neitt. Ég hafði svo mikla andúð á henni, en var undir einhverju áhrifavaldi. Ég fann að ef ég væri lengi þarna þá yrði ég föst í einhverju. Svo ég lumpast upp og tek svo stjórann niður og settist aldrei þarna aftur. Þetta greri svo eins og allir góðir hlutir og það varð ekkert meira úr þessu neitt.
Ég man alltaf eftir því að á hverju einasta kvöldi fékk karlinn sér vatn í vaskafat, handklæði og poka. Poki var ekki alls staðar til. Hann kom með þetta upp á baðstofuloftið og lét það á litla borðið sem var þar við fótagaflinn á rúminu okkar mömmu. Svo kallaði hann á Guðmund litla og fór að þvo honum í framan. Ég settist við rúmið á móti og var ekki lengri en það að ég gat dinglað fótunum. Þarna hékk ég ógreidd og óþvegin og dinglaði fótunum og óskaði eftir að mér væri þvegið líka í framan. Ég gerði það ekki sjálf. Eitt skiptið sem karlinn er að þvo honum, segir Guðmundur, og ég veit ekki hvernig hefur getað skeð að barni dytti slíkt í hug: "Við Bentína ætlum að gifta okkur þegar við verðum stór." Þetta var barn á fimmta ári. Þá segir gamli maðurinn: "Jæja, geyin mín, látið þið þá verða af því." Hann fékk nefnilega ekki að eiga einhverja unga stúlku sem hann elskaði, var mér sagt. En þessi gamla kona var rík, átti Brekku og foreldrarnir réðu giftingunni. Þetta minnti mig á giftinguna hennar Dóru frænku minnar á Krossárbakka. Það var veturinn síðasta áður en pabbi fór. Dóra var sjálfs síns manneskja á Einfætingsgili með
p52
tengdamóður sinni og Björn, kærastinn, hefur verið vetrarmaður á Óspakseyri. Dóra býður okkur öllum frá Krossárbakka til sín í svolitla veislu. Þetta var annaðhvort í sambandi við trúlofunina hennar eða giftinguna. Ég hlakkaði þessi lifandis ósköp til að fara. Þetta var svo mikil tilbreyting. Nema ég man það að mamma kemur með mér og ég held að pabbi hafi komið líka. Hann fór ekki fyrr en seinni partinn þennan vetur. Við komum að Einfætingsgili og Guðríður, móðir Björns og tengdamóðir Dóru, situr á rúminu sem hún svaf í. Hún er svo óánægð með Dóru. Dóra bjó til pönnukökur og átti til bláberjasultu sem hún hafði búið til um sumarið. Hún lærði svo margt af henni frú Þórunni Hafstein. Mig minnir að það hafi ekki verið annað en pönnukökur á boðstólum, þó getur verið að það hafi verið jólakaka. Nema kerlingin vill ekki þiggja pönnukökurnar og kaffið, ekki með nokkru lifandi móti. Heldurðu að þetta hafi nú verið skemmtilegt? Þetta eyðilagði svo allt fyrir mér sem barni, að ég missti allt yndi af þessu. Allt var eins. Hvernig Dóru leið ætla ég ekki að ímynda mér. Mamma gerði sér þetta að góðu þótt hún væri ekki ánægð með Björn. Það vissi ég vel þó ég væri barn. Björn drakk töluvert mikið og þeir Marinó Hafstein báðir. En Björn var duglegur maður og hirti vel það sem hann átti að gera. Það fór nú svona, mér fannst svo mikill skuggi og mér fannst allt dimma. Við mamma þáðum þetta auðvitað og borðuðum með bestu lyst, en ég man bara eftir þessum voðalega skugga. Svo ég komi aftur að því þar sem Guðmundur litli sagði þetta, að við ætluðum að gifta okkur þegar við yrðum stór, þá varð ég svo skefld. Hvernig leyfði hann sér að segja svona? Nú yrði maður skammaður og jafnvel laminn. Lappirnar á mér stoppa og ég verð svo ógurlega kvíðandi og er að hugsa um hvort hann grípi ekki strax til sennilega að lemja mig, það hljóti að vera. Mér datt ekki annað í hug, mér fannst þetta svo óguðlegt. Ég skildi ekkert í þessu heldur. Það var enginn að tala um giftingar, ekki staf. Guðmundur gerði aldrei neitt af sér. Það er óhætt að
p53
segja að við gerðum aldrei neitt af okkur þessi börn. Ég held að það hafi einu sinni viljað til hjá Ingu að hún braut eitthvað óvart. En við Guðmundur urðum svo hrædd, án þess að við hefðum gert neitt. Við vissum vel að við vorum saklaus en héldum bæði að okkur yrði kennt um þetta. En það var nú ekki gert. Guðmundur gamli skammaði okkur ekki, jafnvel þótt Inga hefði kannski sagt það. Inga átti það til og börn áttu það til sem áttu einhvern að að verja sjálft sig. Þetta er til alls staðar í lífinu og maður gat alltaf búist við því. Ég sit þarna skelfingu lostin yfir hvað muni nú koma út úr þessu og hugsa að hann hlífi líklegast drengnum og böndin berist því að mér. Ég var elst, það lítið það var, án þess að mér dytti nokkuð svona lagað í hug. Ég var búin að fá nóg af þessari trúlofun hennar Dóru með pönnukökunum. Svo stekk ég niður stigann og út á hlað, horfi beint á móti kvöldsólinni og er að hugsa um helvíska giftinguna, hvernig þetta fari og hvað hún eiginlega sé. Ég er að hugsa um þetta, þegar við verðum orðin stór, að hann hafði sagt að við skyldum gera þetta þegar við værum orðin stór. Þá hugsa ég að það sé svo langt þangað til að við verðum stór og að gifting sé bara pönnukökur sem enginn vilji. Svona var hugsanahátturinn og tilbúningurinn með sjálfri mér. Giftingin var það versta plan sem gæti komið fyrir, pönnukökur sem einstaka manneskjur vildu ekki éta og með það fór ég inn aftur og hugsaði ekki meira um giftingu. Guðmundur litli lifði ekki til þess að við yrðum nokkurn tíma hjón. Sú vinátta sem myndast milli barna sem alast upp saman getur enst um alla ævi. Við vorum bara saman þetta eina ár, en börnin fengu þó að finna mig einu sinni á ári eftir þetta. Og einu sinni á ári fékk ég að fara og finna þau. En það var hlutur sem ekki borgaði sig vegna þess að ég tregaði þau svo mikið, því ég hafði ekkert barn til að leika mér við þegar við fórum aftur á Krossárbakka. Þau voru alltaf saman til dauðans, enda var ekki ýkja langt í það. Um haustið, frostaveturinn mikla, fórst báturinn frá Brekku og þar voru þeir feðgarnir um borð, Guðmundur Guðnason og
p54
Guðmundur litli, en hann var þá uppkominn, og Bjarni Björnsson formaðurinn. Inga varð fermingarsystir mín seinna. Þá var ég komin að Hvítuhlíð. Mér þótti alltaf vænt um þau og þykir vænt um Ingu enn þann dag í dag. Jólahaldið. Ég hlakkaði til jólanna, því þessi ár í fátæktinni hjá mömmu á Krossárbakka þá fann maður alltaf til jóla á einhvern hátt. Það voru sungnir jólasálmar og alltaf eitthvað gert. Hún bakaði hveitibrauð í hlóðum, svo gott og fallegt. Maður vissi að það voru jól og það var eitthvað sem maður gat hlakkað til. Ég gerði lítið af því að koma til Jóku minnar, því ég var hrædd við hana. Ég skildi ekkert í þessu myrkri sem umkringdi hana alltaf og hvað hún var alltaf dimm og heiftug. Manneskjan var svo fátæk og illa stödd og var algerlega munaðarlaus þótt hún væri að vinna og strita. Þegar jólin fóru að nálgast var farið að baka. Steinþóra var í sínum enda. Hún var myndarkona í höndunum. Hún var 27 ára þegar þetta var, það sá ég í Strandamannabókinni seinna. Hún átti frítt standandi maskínu uppi hjá sér og þar var alltaf nógur hiti. En maður naut þess náttúrulega ekki. Enda var nú alltaf ylur á Bræðrabrekku út úr leirrörinu. Steinþóra bakaði fyrir sig. Hún var fátæk kona, en átti kú sem þó mjólkaði víst lítið. Þessi stúlka sem ólst upp hjá þeim á Brekku, Halldóra Kristín, alnafna Dóru frænku, var myndarstúlka. Hún bakaði niðri. Ég sá að það var jólakaka í fullri skúffu og var hægt að baka í stóru maskínunni. Þetta var ákaflega fallegt að sjá en ég fékk ekki einn einasta kökubita af þessu. Það var góð bökunarlykt hjá Dóru, af jólaköku og kleinum. Mamma var við eldinn líka að hjálpa til við þennan mat sem þetta fólk át. En ég varð að vera á öðru fæði hjá blessaðri mömmu sem ekkert átti til. Þetta er svo lýgilegt, en ég væri ekki að segja það ef það væri lýgi. Það veit Guð.
p55
Halldóra þreif líka húsið, fór yfir það allt. Hún var þrifin og dugleg stúlka, 18 ára gömul. Þetta var þrifaheimili. Bærinn var allur svo hreinlegur og vinalegur. Mér hefur alltaf þótt vænt um bæinn. Það var aðfangadagskvöldið á Brekku. Guðfinna, aldrei þessu vant, biður mig að hjálpa sér að bera upp diskana fyrir fólkið. Ég er að hlakka til þessi lifandis skelfing. Nú hljóti ég að mega eiga von á jólamat eða einhverju fyrir það að hjálpa til við að bera. Ég man hvað ég var glöð með þetta og ber upp diskana. Ég fór upp með einn í einu, öllum var skammtað, nema mömmu. Af því þykist ég líka vita að hún hafi hlotið að hafa fætt sig sjálf eins og mig. Nú fékk hún engan disk og ég fékk engan disk. Ég bar upp allt fyrir hina, m.a. einn fyrir húsmóðurina sjálfa, gömlu konuna. Hún var sjálf inni í búrinu en ég mátti koma að dyrastafnum, ekki inn í búrið. Hún rétti mér diskana og sagði: "Geyið mitt, farðu nú með þennan inn og passaðu nú að það fari ekki neitt út af honum." Ég gerði þetta með samviskusemi og hlakkaði til. Ég man hvað ég var létt á fæti og komst með allt upp stigann með samviskusemi. Svo með síðasta diskinn sagði hún:
"Nú ertu búin" og lokaði búrinu og fór upp. Ég fékk ekki neitt, ekki munnbita. Þá fann mamma til, það get ég sagt þér. Það var orðið heilagt og búið að lesa guðspjallið. Hann passaði það og það var farið að borða góða matinn hver á sínum diski og ég sat þarna allslaus. Það er ljótt að segja þetta, en það er satt. Mamma sest upp um stund, svo fer hún niður aftur. Ég fór á eftir henni. Hún hefur átt hveitilögg einhvers staðar sem hún hefur fengið um haustið og ætlað sér að búa til eitthvað úr. Hún er komin þangað sem eldað var og fór að eiga við eld. Líklega hefur hún ætlað að búa til pönnukökur, en átti enga mjólk eða neitt. Í því kemur Steinþóra niður, stoppar og segir: "Elísabet, hvað ætlarðu að fara að gera, veistu ekki að það er orðið heilagt?" Þetta er ógleymanlegt. "Ég ætla að reyna að búa til pönnukökur, ef ég get komið því á pönnuna, fyrir hana Bentínu," segir hún.
p56
"Hvað er þetta manneskja?" segir Steinþóra, "hættu þessu. Gerðu það fyrir mín orð." Hún fór upp og kom, aftur með hrokaðan disk af sneiddri jólaköku eins og komst á hann. Þessi fátæka kona, þetta verður hún að fá. Þetta var heil varða á diskinum, ég er viss um að hún hefur skorið niður heila jólaköku og Guð launi henni það. Þetta dugði okkur yfir jólin. Það þurfti ekki að leggja neitt til ríka fólkið og gerði það heldur ekki. Guðmundur var efnaður á þeirra tíma mælikvarða. Hann átti jörðina og var mikill veiðimaður. Sníkir hét báturinn hans. Hann bar mikið að landi. En hverjir höfðu gott af því það má Guð vita. Svona gekk þetta til. Nú, það var ekkert við að vera þetta kvöld nema ég fór að hugsa að Jóka mín hafði alltaf verið í myrkrinu eftir að fór að dimma, en nú var komið ljós hjá henni. Þá hugsaði ég að líklega væri hún ekki eins dimm vera og ég hélt þar sem hún hefði ljós. Því draugarnir væru víst ekkert gefnir fyrir ljós (sjá bls. 41, 45). Þá fór ég til hennar, því í raun og veru þótti mér vænt um hana og hún var eins og engill í framan með þetta hvíta langa kerti. Það var eins og hún væri í himnaríki. Hún hafði eignast kerti og gat haft ljós. Hvernig hefur ævi þessa fólks verið þegar yfir kom, ætli því hafi ekki verið gefið ljós? Hún var svo uppblásin af hamingju og ég naut þessarar hamingju með henni. Við sátum þarna og horfðum báðar á ljósið, vesalingarnir þarna, og nutum þess að vera sælar. Ég átti ekkert kerti. Páskarnir. Eitthvað hefur verið haldið upp á páskana líka, en maður hugsaði ekkert út í það. Ég fékk alveg nóg af þessum jólum. Mér datt ekki í hug að vera að reyna að grennslast eftir því. Ég bara svaf eins og ég gat. Ég man alltaf eftir þessu, þetta hefur hlotið að hafa verið á páskum frekar en á sumardaginn fyrsta. Mamma kom upp og vakti mig, því hún fór alltaf snemma upp náttúrulega, var vinnukona og færði mér kleinu,
p57
grjótharða. Hún var svo grjóthörð að hún var eins og bein. Þessi blessuð elska gerði þetta úr mjölhnefa sem hún átti, en enga mjólk og ekkert ger. Hún sagði mér það sjálf, þess vegna væru þær svona harðar, en þær voru steiktar. Ég vann á þessu náttúrulega, hafði ágætar tennur.
p58
3. Hvítuhlíð. Samskipti við fólkið á heimilinu. Mamma reyndi að veita mér það sem hún gat, hún var bara svo illa sett. Á vorin var alltaf smalað vikulega. Ég var yfir lömbunum þarna alla daga, eitthvað frá því ég bara gat hreyft mig. Ég var að líta eftir að lömbin kæmust á spena. Einu sinni kem ég úr smalamennskunni og mamma blessunin segir mér að fara upp í risið.
Hún hafði fengið svolítinn reyktan magál fyrir eitthvert viðvik fyrir aðra, prjón eða eitthvað slíkt og hún hafði sett hann þar. Þau voru ekkert svöng börnin hennar Dóru. Þau áttu nóg að borða eftir að þau komu að Hvítuhlíð. Mamma átti það hins vegar ekki, en þó betra þar en áður. Það var nú svo þó að þetta væri dóttir hennar, þá átti hún að sjá um sig og mig. Þannig var aldarandinn. Mamma lætur mig fara upp á loft og lætur mig fá brauðsneið og biður mig að borða magálinn með. Ég held hún hafi ekki smakkað hann sjálf. Í annað skipti, það var ekki þetta vor, þá keypti hún pund af púðursykri. Annars var brauðið oftast þurrt hjá okkur. Við áttum ekkert viðbit þegar komið var fram á miðjan vetur. Þá urðum við að borða brauðið þurrt, eða með graut ef hann var, annars bara með vatni. Enn annað skipti segir mamma við mig: "Líttu undir lokið á kistunni þinni." Ég man alltaf eftir þessum ljúfu orðum. Þá er þar bók, myndabók með sögum. Næst þar á eftir, það var ekki sama árið, þá segir mamma mér að það hafi komið bóksali og segir: "Ég keypti þetta til að geta glatt þig, ég veit þig langar svo til að lesa. Því keypti ég eina bók." Þetta var bókin "Kristur, frelsari vor". Hana las ég mikið.
p59
Ég var stundum kölluð útispjót þarna heima. Það var gömul kona þarna sem var dálítið kvöld í svörum. Þegar illa lá á henni bitnaði það oft á þeim sem minnimáttar voru. Þetta var Guðríður, móðir hans Björns, tengdamóðir hennar Dóru, sú sem ekki vildi pönnukökurnar (sjá bls. 51-53). Hún kallaði mig oft útispjót og flökkupilsu. Mér sárnaði þetta oft. Mamma vissi þetta, en sagði ekki neitt. Ég var einu sinni send með konu til að fylgja henni á milli bæja, frá Hvítuhlíð og að Brekku. Konan hét Kristín og var þá orðin ráðskona á Brekku, gamla konan var dáin. Þegar ég kem aftur, þá segir hún: "Þú ert nú meiri flökkupilsan." Mamma sat þá á rúminu sínu með stillinguna og góðmennskuna og þegar konan fór eitthvað frá, segi ég: "Mamma, af hverju kallar hún mig flökkupilsu? Ég var beðin um að fara þetta." "Já, barnið mitt, við skulum láta þetta eiga sig," sagði hún. Það var alltaf svona hjá mömmu, hún vildi aldrei gera illt úr neinu. Enda hafði hún engar taugar til þess, ég veit það hún var svo slæm fyrir hjartanu. Lestrarefni. Ólöf í Hvítuhlíð hafði annað risið þar í húsinu. Þar skreið ég oft um, því ég var svo ógurlega gefin fyrir bækur. Hún var gamalmenni og gat ekki farið upp á loft. Yfirleitt lét hún mig upp á slána og bað mig að laga til fyrir sig. Ég gerði það. Ég þekkti enga óvild í mínu hjarta til fólks á þeim árum þó ég finndi það að ég væri skilin eftir með allt mögulegt. Það kom aldrei nein afbrýðisemi eða öfund í mig. Ég lofa bara Guð fyrir þetta. Ætli börn séu ekki yfirleitt svona? Ég átti engan félagsskap sem gat hrært neitt í mér, ég hélt bara að þetta tilheyrði mér og að ég ætti að vera svona. Ég átti ekki neitt og hafði ekki heimtingu á neinu og átti ekki ímynd um að ég ætti neitt. Ég hugsaði svona. Svo fæ ég lánaðan Ívar hlújárn. Það var nú þykk bók. Blessuð elsku mamma, sem þráði svo að heyra sögur, gat ekki
p60
lesið sjálf og mátti ekki vera að því. Hún hafði engin augu til þess heldur. Hún átti þessa bók eftir guðfræðinginn Lúther, Munzter, og var að reyna að kíkja í hana á sunnudögum og hátíðisdögum. Þegar mamma var sest með Munzter í kjöltuna og var komin í það skársta, þá voru komin jól. En hún sá mig með þessa stóru bók um Ívar hlújárn og segir: "Æi, þú ættir að lesa sögu fyrir mig." Þá var hún að spinna. Þetta kvikindi sem var læs 7 ára, gerir það ekki. Ég vissi það að ef ég læsi hana upphátt myndi ég ekki njóta þess eins vel sjálf. Svona er maður strax eigingjarn, þetta var í mér. Ég naut þess ekki að lesa nema að lesa í hljóði. Svo ég skríð með bókina upp á rykuga loftið, það var nú aldrei þvegið, og leggst út við þetta þykka gler sem lagði ekki nema hálfa dagsbirtu af. Þarna las ég Ívar hlújárn á maganum nokkuð margar stundir, stalst til þess. Ég átti nú að snúast líka. Ég kláraði bókina þarna og hef alltaf iðrast þess að hafa ekki lesið fyrir mömmu. Þessi blessuð elska, sem gat ekki lesið sjálf og mátti ekki vera að því. Hún fékk aldrei gleraugu. En hún hugsaði um mig og reyndi að fá bækur fyrir mig svo ég yrði ekki síðri en önnur börn og færi ekki á mis við allt.
Ég veit ekki hvernig hún gat komist yfir námsbækurnar handa mér. Jólin. Ég man alltaf eftir einum jólum á Hvítuhlíð. Það var mikill bylur og frost þennan tíma fyrir jólin. Við krakkarnir sjáum að Dóra leggur þvott í bleyti og það er ekki farið að gera neitt. Þá var hitinn í kjallaranum ekki meiri en það að það er farið að glitta í frost ofan á þvottinum. Hann var stór kjallarinn undir öllu húsinu. Okkur krökkunum leist nú ekki á og förum að tala um það hvort það skyldu kannski engin jól verða haldin núna. Mórinn kom gaddfreðinn inn, sem Björn var að bera í húsið. Svo legg ég í það að spyrja Dóru hvort það verði ekkert haldið upp á
p61
jólin núna. "Jú, ég ætla að reyna að gera það ef ég get þvegið þvottinn minn og fengið hann þurran," segir Dóra. Svo fer ég til mömmu eftir þetta samtal og fer að lýsa því hvernig þetta verð kannski. Þá segir mamma: "Kvíð þú engu, barnið mitt, það kemur fátækraþerrir." Hún var alveg viss í sinni sök. "Það hefur aldrei brugðist," sagði hún. Ég fór mikið rólegri niður til krakkanna. Það kemur að því að Dóra fer að ylja pottinn sinn á maskínunni og fer að þvo. Þá var eftir að þurrka. Þremur dögum fyrir jól kemur svo fátækraþurrkurinn. Þá vekur Dóra okkur tímanlega og biður okkur að passa fyrir sig þvottinn, að hann fari ekki af snúrunum. Hún átti engar klemmur. Hún bað okkur að vaka yfir honum og ef eitthvað fyki, að taka það upp. Það kom þessi indæli góði blástur. Við vorum eins og þeytispjöld og þetta lánaðist allt. Við fengum þetta allt þurrt að mestu leyti. Það sem ekki varð gott, var hengt upp í kringum eldavélina. Svo fór Dóra að baka. Hún reyndi alltaf að eignast hveiti og svoleiðis fyrir jólin. Svo fengum við af þessu hjá henni við mamma. Áður en jólin sem komu var hreinsað og þvegið, skipt á rúmunum og við böðuðum okkur upp úr bala.
p62
3. Skólaganga. Bentína var í farskóla í fjóra vetur, nokkrar vikur í senn. Hún sótti kennslu á eftirtalda bæi: 1. Stóru-Hvalsá í Hrútafirði. 2. Ljúfustaði í Tungusveit. 3. Einfætingsgil við Bitrufjörð. 4. Skriðnesenni við Bitrufjörð.
Áður en að skólamálunum kemur, segir Bentína frá þeim lærdóm sem hún fékk fyrir skólagönguna.
Ég var læs áður en ég var 7 ára. Það á ég Steinunni, dóttur mömmu og systur Dóru, að þakka. Hún var part úr vetri þarna á Krossárbakka, eftir að ég kom aftur frá Bræðrabrekku. Það var nú aldrei borinn fyrir mann stafur þar þennan vetur sem ég var þar. Þá greip mig svona hastarlega löngunin í að verða læs að það var alveg lýgilegt. Steinunn hafði engan frið fyrir mér. Ég varð alveg fljúgandi læs á þessum eina vetri. Mamma fékk einhvers staðar lánað svo yndislegt kver með myndum og öllu tilheyrandi. Þetta var þykk bók. Ég vissi aldrei hver átti hana. Þetta gerði sitt gagn og Steinunn hafði gaman af að kenna mér. Hún andaði aldrei á móti mér þó það væri bara liðin svolítil stund og ég væri komin aftur með kverið. Heldurðu að það hefði ekki verið hægt að kenna þessu barni eitthvað? Það var bara ekki nokkur aðstaða til þess. Það lagði enginn í það þá þar sem ég átti engan að sem gat veitt neitt.
p63
1. Farskólinn að Stóru-Hvalsá í Hrútafirði. Þegar ég var níu ára þá kom farskóli í sveitina. Hann var á bæjunum í kring. Það áttu bara svo margir börn þarna í Bitrunni.
Allir áttu börn sem gátu átt börn og flestir gátu nú átt þau. Dóra frænka var byrjuð. Mörg börn voru á Einfætingsgili. Þau urðu 15 hjá henni í restina, en þá var hún nú flutt suður að Hjarðarhorni. Í Tungu voru mörg börn, á Þambárvöllum voru börn, á Skriðnesenni voru börn, nema þau voru uppvaxin og búin að vera í skólanum. Nú í Gröf voru börn en þau fóru aldrei í farskólann.
Einar í Gröf var tvígiftur. Hún hét Rakel fyrri konan og hún dó frá ungum börnum, eins og Dóra frnæka mín. Ég man bara hvað hún var falleg. Svo eignaðist Einar aðra konu og hún hét Jensína og var ljósmóðirin þarna. Þau hafa sjálfsagt kennt þessum krökkum sem hjá þeim voru. Þau áttu engin börn saman, Jensína var orðin það fullorðin. Gústa var jafngömul mér og var fermingarsystir okkar Ingu á Bræðrabrekku. Hún varð frú á Vatnsleysu í Biskupstungum. Hún er ekkja þar núna. Svo kom farkennari og þá voru vandræðin að koma mér fyrir, troða mér niður einhvers staðar í alla þessa hópa. Mömmu langaði svo til að ég lærði. Mamma fékk aldrei að læra að skrifa, en fékk að læra að lesa og þess naut hún. Henni fannst alveg lífsspursmál að ég fengi að læra það sem börn voru að læra þá á mínum aldri. Það má Guð launa henni, að það gerði hún eftir því sem hún gat, í allri sinni fátækt. Faðir minn gaf með mér þangað til ég var 9 ára, þá dó hann. Þá missti hún það, en fór vel með það og dró undan. Hafi það verið aurar, þá eyddi hún því ekki heldur setti það á sjóð, það lítið það var. Svo var það þennan vetur að það var verið að tala um það að reyna að koma mér á skóla. Það var ekkert laust styttra en alla leið að Stóru-Hvalsá í Hrútafirði. Kennarinn kom í Bitruna, en ég gat ekki fengið pláss þar. Það var svo þröngt. Mamma hafði engin ráð nema að biðja konu sem hét
p64
Guðbjörg, systir Ólafar heitinnar í Hvítuhlíð og bjó á Hvalsá. Hún skrifaði henni og bað hana hvort hún gæti lofað mér að vera mánuð. Hún gerði það blessunin, þótt hún gætti nú bágt með það. Þá var að koma mér þangað. Þá varð Dóra að ganga í því að biðja pabba (Helga) sem löngu, löngu var nú farinn frá okkur að hjálpa til. Eiginlega átti hann að gera þetta. Hann tók mig litla. Mömmu fannst það. Þau fengu nú aldrei að giftast, en henni fannst að hann ætti eitthvað að sjá um mig eins og hún, því faðir minn eiginlegi var dáinn. Móðirin hugsaði ekkert um mig og gat náttúrulega ekki neitt. Hún vann fyrir krakka sem hún var með. Pabbi gerði það svo, hann kom og sótti mig. Ég var þá orðin afvön honum svoleiðis og ég grét ekki, þó að ég vissi það að ég yrði ekki hjá honum. Ég var ógurlega hamingjusöm þar sem ég gisti á leiðinni og hann var líka. Mér þótti svo hræðilega vænt um hann pabba. Þetta er voðalega vont að þurfa að skilja við foreldra sína. Ég hef oft hugsað um það. Ég var ein hamingja að fá að vera þarna. Svo var það ekki nema þessi eini sólarhringur.
Daginn eftir fórum við að Hvalsá. Þar var ég í mánuð. Mér fannst ógurlega gaman að vera á skóla. Guðbjörg, þessi gamla kona, var alltaf góð við mig. Hún lofaði mér að sofa fyrir ofan sig. Kennslukonan hét Guðbjrög líka og hún var ennþá betri. Hún var Þorsteinsdóttir og frá Hrafnagili. Lifandis skelfing voru þessir kennarar góðar manneskjur sem ég lenti hjá. Ég var bara þetta eina sinn á Hvalsá. Þetta var langt að komast og engin leið að eiga við það að fara þangað aftur. Það voru ung pör þarna sem þurftu að fá herbergisendann sem Guðbjörg kenndi í. Við vorum þarna nokkuð mörg. Hún kenndi okkur stelpunum handavinnu líka. Það var ísaumur í stramma. Það gekk mikið meira ofan í mig það sem ég gat lesið heldur en handavinnan. Mér tókst aldrei almennilega að sauma fluguna í strammann. Það var gotneskt letur í þessu, tvöfalt, bæði upphafsstafir og litlir stafir. Ég kláraði þetta allt og átti klútinn lengi.
p65
Aðrar námsgreinar þennan vetur minnir mig að hafi verið lestur, skrift, reikningur og biblíusögur. Það var búið að kenna mér að lesa, en samt vorum við alltaf látin lesa upphátt til að fá góðan framburð á lestrinum. Okkur var kennt að lesa. Manni var sagt að taka mark á kommum og punktum. Þá átti að stoppa. Svo var fleira sem okkur var sagt að taka eftir í lestri, þannig að börnin lærðu að lesa nokkuð vel. Þeim var ætlað að lesa sögur fyrir fólk og meira að segja ætlað að verða svo læs að þau gætu lesið húslestra. Þó að Steina frnæka kenndi mér að lesa, þá tók hún þessu nú ekki fram. En það gerði kennslukonan Guðbjörg. Hún hefur verið menntuð manneskja. Ég var líka með skrifbækur. Það versta var á meðan maður hafði ekki forskriftarbækur, áður en koparstungan kom til. Þá var skriftin alltaf misjöfn. Dóra frænka gaf mér fyrst forskrift meðan ég var heima. Mömmu var svo umhugað um að ég fengi að læra að skrifa því hún fékk ekki að læra það. En að fá svona forskrift frá hinum og þessum gerði svo mikla villu fyrir mér. Mér hefur fundist að ég hafi eiginlega aldrei náð almennilegri forskrift, aldrei náð almennilegum tökum á skriftinni. Ef ég hefði fengið að læra kopastunguna þá hefði ég ábyggilega fengið að skrifa vel. Hun var svo guðdómlega falleg koparstungan. Það voru fullar bækur af þessu, en ekki fyrr en ég var komin undir fermingu. Það var nú sama. Þó ég hafi ekki verið með nein ósköp af kennslugreinum til að byrja með var ég náttúrulega með kverið og biblíusögurnar. Það mátti ekki vanta. Maður varð að gjöra svo vel að læra þetta utanað. Það kostaði nú ekkert annað. Ég held að ég hafi kvatt báðar Guðbjargirnar með tárum. Mér þótti vænt um þær báðar. Það var verið gott við mann þarna, en heimilisbragurinn var dálítið skrýtinn.
p66
ATHUGA VERÐUR, AÐ EF EITTHVAÐ VERÐUR VITNAÐ TIL ÞESSA KAFLA UM FARSKÓLANN Á LJÚFUSTÖÐUM Í TUNGUSVEIT ER SKILYRÐI AÐ ÖLLUM NÖFNUM SÉ SLEPPT.
2. Farskólinn að Ljúfustöðum í Tungusveit. Næsta vetur fór ég að Ljúfustöðum í Tungusveit með sama kennara, Guðbjörgu. Þarna á Ljúfustöðum voru tvær telpur. Oddný var jafngömul mér. Mamma sagði það oft að okkur hlyti að falla vel, því við værum jafngmlar, þegar hún gat nú troðið mér þarna á þennan bæ. En Stefanía var yngri og myndi vera kallað frekt barn nú á tímum. Hun var ákafleg hraustleg, alveg eftirmyndin hennar mömmu sinnar.
Hún hét Hersilía og hann hét Bjarni, maðurinn hennar. Þau voru ung hjón og bjuggu á Ljúfustöðum. Þarna voru líka húshjón og þau hétu Guðjón og Guðbjörg. Guðjón vann hjá hjónunum og hafði mat. Þau áttu dreng. En Guðbjörg var sjálfs síns manneskja þarna. Þetta var fólkið á heimilinu. Það var engin vandalaus manneskja önnur en þau. Hersilía vann svo mikið sjálf. Ég og Oddný erum þarna 10 ára, og svo komu börn að á daginn til að læra, bæði frá Steinadal og Litla-Fjarðarhorni. Ég man sérstaklega eftir einum. Hann hét Ágúst. Mér var borgið með Guðbjörgu sem kennara þarna á Ljúfustöðum. Við það get ég lofað Guð. Á meðan ég var þar sá hún um mig á alla kanta og ég fékk að sofa hjá henni. Hún var í svo fallegum fötum, náttkjól og svo hrein. Hún var svo mikið góð og elskuleg menneskja. Við þvoðum okkur alltaf upp úr ísköldu vatni á hverjum einasta morgni. Hún kenndi mér þetta allt. Guðbjörg greiddi mér líka og ég man hvernig hún fléttaði mig. Það var fléttað í einn flétting og svo var aftur fléttað í annan að ofan.
Mikið fannst mér þetta nú óttalega leiðinlegt, hver fléttingurinn upp af öðrum. Þetta
p67
var alveg strekkt upp. Við Guðbjörg fórum táhreinar ofan í stofuna og það var kynnt upp til að það væri hægt að vera þarna. Það var gefið að borða þrisvar á dag. Á morgnana kom grautur og 4 og 5 smáir diskar. Ég man alltaf eftir því. Við vorum þarna tvær við borðið og það voru svo margir litlir diskar. Það voru 3 þunnar sneiðar á hverjum diski og hver átti að eiga eina sneið. Það voru 3 blóðmörssneiðar á einum, 3 lifrarpylsusneiðar á öðrum og kannski 3 lundabaggasneiðar á þeim þriðja. Ef það voru svona slátursneiðar, var ekkert brauð. Þá var þetta bara með grautnum.
Hann var ekkert of mikill. Mig langaði svo ósköp mikið í þriðju sneiðina alltaf, en át hana ekki. Og ég segi einu sinni við Guðbjörgu: "Eigum við að skilja þessa einu sneið eftir á öllum diskunum?" "Já, við skulum gera það," segir Guðbjörg með stillingu en alvörusvip. Svona var þetta og við fórum eiginlega strax að hlakka til nónmatarins klukkan þrjú á daginn. Þetta var klukkan níu. Svo var byrjað að kenna og um hádegisbil fengum við kaffisopa og mola. Ég var orðin óttalega svöng á nóni. Hvernig heldurðu að kennslukonunni hafi liðið? Hún var fullorðin kona, en henni leið kannski ekki verr en mér, unglingi sem var að vaxa.
Hún kvartaði aldrei. Það var regla á kennslustundunum. Okkur var sett fyrir fyrsta daginn, áttum að læra það og skila þessu svo að morgninum. Við áttum að standa upp hvert barn og fara með það sem maður kunni. Mér fannst gaman að standa upp því ég reyndi alltaf að kunna. Það stóð kannski í sumum en suma langaði til að herða sig og láta ekki standa í sér. Það var misjafnt eftir því hvernig börnum gekk að læra. Það var ekki allt lystugt, sérstaklega ekki í kverinu. Svo voru frímínúturnar. Hún gaf okkur alltaf vissan tíma svona um miðjan daginn. Þetta var um hálftími sem við máttum ösla úti.
Einu sinni gerði svo mikinn byl að það lamdi saman í skafla og það skíðafært. Allir fóru út á skíði og allir áttu skíði nema ég. Auðvitað átti ég það ekki frekar en annað. Ég stend þarna eins og álfur og lá
p68
við gráti, mig langaði svo til að læra þetta. Mamma var oft að tala um hvernig hún ætti að eignast tunnustafi fyrir mig. Ég vissi ekki hvað ég ætti að gera og ég vissi að það yrði hlegið að mér að standa þarna og allir brunuðu niður. Enginn kenndi í brjós um mig nema einn drengur sem dró sig út úr hópnum. Hann var frá Steinadal og heitir Ágúst Kristjánsson og er lifandi enn og býr í Reykjavík. Við vorum jafngömul, bæði 10 ára. Hann kemur til mín þar sem ég stend þarna og hann var ekkert feiminn við það þótt strákar mættu lítið tala við stelpur þegar komið var fram á þessi ár. Það byrjaði þá strax, stríðnin og vitleysan. Hann spyr mig hvort ég eigi engin skíði. "Nei," segi ég, "ég hef aldrei átt skíði." Þá segir Ágúst: "Heyrðu, ég á önnur skíði heima, þau eru bara dálítið minni en þessi. Ég skal bara biðja mömmu að lána mér þau. Ég er viss um að hún gerir það." "Það væri nú gaman," sagði ég. Og það gerði hann, kom með skíðin. Svo stundum þessa sunnudaga sem ég var þarna, hvort að stelpurnar hafa verið eitthvað lystugar líka eða kannski svangar, nema Stefanía með alla stjórnsemina öslar fram í búr. Þær áttu sína dúkkuna hvor og vildu alltaf vera að skíra þær á sunnudögum og hafa messu. Þetta var ágætt nema ég átti enga dúkku og gat verið áhorfandi og áheyrandi að þessu og átti að taka þátt í þessu með þeim. Þá þurfti líka að halda skírnarveislu. Þá var að fara fram til mömmu sinnar og það kostaði mikinn hávaða og fá sína slátursneiðina fyrir hvora okkar. Þær skildu mig aldrei eftir stelpurnar. Það skulu þær fá að eiga. Ég fékk alltaf slátursneið líka þegar búið var að ná þessu í gegn. Stefanía hafði mikið fyrir þessu. Oddný sagði aldrei neitt, hún var svo lík pabba sínum, hann var svo mikið góðmenni. En þær voru svo líkar mæðgurnar, höfðu báðar svo hátt. Einu sinni fékk hún hvalsneið í staðinn fyrir slátursneið. Dúkkurnar voru skírðar á þessum sunnudögum sem til voru, hvað þær hétu man ég ekki. Nema Stefanía var alltaf sjálf presturinn, Oddný hélt undir skírn og ég varð að syngja. Maður kunni margt að
p69
syngja þá, Ólafur reið með björgum fram, Stóð ég út í tunglsljósi og margt fleira. Það mátti allt syngja þótt verið væri að skíra.
Svo komu endalokin á þessu. Þetta gekk allt þokkalega á meðan Guðbjörg var, en svo þurfti hún að fara að Steinadal til að kenna þar. Þangað fóru stelpurnar, að ég skyldi ekki hafa haft rænu á að fara þangað líka, þótt ég hefði ekkert leyfi til þess og ekkert beðið um það. Ég efast um að Guðrún í Steinadal hefði rekið mig burt. Ég gat ekki farið heim sjálf, því það var yfir fjall að fara, yfir Bitruháls ofan í Krossárbakka. Því ég var í Krossárdalnum þegar þetta var, ekki nema 10 ára. Svo fer hún Guðbjörg kennari eitt sunnudagskvöld af stað með stelpurnar. Það var gott veður um kvöldið og búið að vera gott. Þetta hefur sennilega verið á þorranum, sem ég var þarna. Þá kveður Guðbjörg okkur og Hersilía stendur í dyrunum. Þá segir Guðbjörg við mig og lítur um leið til Hersilíu: "Nú held ég að þér leiðist, auminginn." Hersilía skælbrosir. Svo fara þær allar. Auðvitað leiddist mér, en ég vissi þá ekki hvað mér ætti eftir að leiðast mikið. Um nóttina gerir voðalegan byl og ég verð svo kvíðandi og hrædd um að ég þurfi að vera þarna lengi. Nema það gerir svo mikinn þreifandi byl, dagurinn byrjar með byl og ofsa. Ég veit ekki hvað ég á að gera af mér fyrst skólinn var búinn og nú geti ég varla verið þarna lengur og megi heldur ekki vera þarna lengur. Ég hafi ekkert leyfi til þess og sé bara aðskotadýr. Svo ég fer ofan í kalda stofuna þar sem kennslan fór fram á daginn og þar voru ekkert nema gaddfreðnir gluggar. Þá kemur hún Hersilía eftir útiverkin og stikar inn. Ég stend við gluggann og vona að ég geti þítt með gómnum til að sjá út og var með bæn í huga um að veðrið skánaði svo ég kæmist heim og þyrfti ekki að vera lengi þarna upp á aðra komin. Ég fann hvernig allt var. Hún stikar um þar sem ég var og lítur hornauga til mín. Tárin runnu niður á maga. Ég var bara að óska eftir að hún gæti
p70
sagt mér að veðrið myndi batna. Það hefði verið svo mikill styrkur. Nei, þakka þér fyrir, ég var bara óþurft sem ekkert átti að vera þarna. Svo veit ég ekki hvað ég á að taka til bragðs. Nema ég fer upp þegar hún var farin. Þar situr Guðbjörg, kona húsmannsins, með barnið sitt. Þá hugsa ég að ég skuli nú fara til hennar og vita hvort hún segi mér ekki eitthvað sem gæti glatt mig. Ég var nú feiminn krakki og uppburðarlítil. Maður var nú ekki vanur að opna huga sinn fyrir neinum. Ég staldra við og hún snýr baki í mig. Mér er svo minnisstæður þessi dagur. Ég þori ekki að segja neitt og hún segir ekki neitt. Ég bara skæli og skæli. Hún segir ekki nokkurn hlut. Það er ekki talað orð við mig allan daginn frekar en ég væri ekki til. En hún gaf mér að borða hún Hersilía. Ég fer þarna sneypt aftur niður, ramba svona um alein og veit ekki hvað ég á að gera af mér. Þessi dagur líður náttúrulega eins og aðrir dagar og ég skæli miig í svefn um kvöldið. Svo er komið bjart veður með frosti daginn eftir og óskaplegt fannfergi. Þá fékk hún málið. "Jæja, það er einhver að koma þarna, sem er sjálfsagt að sækja þig." Ég flýtti mér svo mikið að taka saman dótið mitt, hvað maður gat verið fljótur. Hann hét Hjálmar sá sem kom að sækja mig, var hálfgerður vesalingur að sumu leyti. En mamma gat ekki fengið neinn annan til að fara þessa ferð um hávetur til að ná í mig, svo hún bað hann. En hann Hjalli þoldi varla að fara svona yfir fjöll. Hann var svo heilsulítill, ég held að hann hafi verið sullaveikur. Hann var nú kominn þarna samt og þegar hann er kominn þá ljómar hún öll eins og sól sem brýst gegnum ofviðri. Það er ekkert nema umhyggja en hann sá hverig ég var. Ég var nefnilega bólgin í framan. Það er ábyggilegt að Hjálmar sá það. Ég held það hafi legið við að hann færi að gráta sjálfur. Hann kom með prjónahyrnu og vefur henni utan um mig alla. Svo lögðum við af stað. Aumingja Hjalli, voðalega mikill um sig, því hann gekk með þessa veiki. En þetta var svo gott í sér og tilfinninganæmur. Ó, hvað fæturnir voru fegnir þegar þeir fóru niður
p71
þessar tröppur. Svo komum við að Stóru-Fjarðarhorni, það er fyrir fjarðarbotninum. Litla-Fjarðarhorn er nær Ljúfustöðum, en hitt hinum megin við fjarðarbotninn undir Bitruhálsi. Við komum að Stóra-Fjarðarhorni og Hjalli ráðfærir sig við Sigurð húsbóndann, hvort við ættum að fara í kring og fyrir Stiga sem kallaður var, eða hvort við ættum að leggja á fjallið. Veðrið var gott og það var bjart og hreinviðri og leit ekki út fyrir neitt. Ég finn það núna hvað þetta hefur verið varasamt fyrir gamlan mann og heilsulítinn. Hvað þurfti að verða til að við yrðum úti? Sigurður sagði honum að við skyldum passa það að vera alltaf með símanum, alla leið yfir fjallið. Það var lengri leið, því síminn lá ekki þar sem vegurinn lá, en það var ófærð. Ég var svo ansi góð að labba þá, létt á fæti. Þegar við komumst ofan af brúninni hinum megin þá var farið að líða að kvöldi, þá sáum við aðeins svarta pílu upp úr bænum á Krossárbakka. Það var járnrörið, allt annað var hvítt. Mikið var þetta mikið gleðiefni að komast inn í hlýjuna. Þá yljaði vélin og gott var að komast heim til mömmu og hátta ofan í holuna sína, þó hún væri til fóta. Svona var þetta, mér er þessi dagur svo minnisstæður. Mörgum, mörgum árum seinna, en þá var ég komin yfir tvítugt, þá kem ég að Bæ í Króksfirði. Þar var frænka mín. Ég fór þangað sem gestur. Þar er Guðbjörg, þessi kona húsmannsins á Ljúfustöðum sem ég ætlaði að mælast til að huggaði mig þarna í rokinu og ósköpunum í óveðrinu. Þar er hún komin sem vinnukona og orðin ekkja. Ég segi við hana: "Nei, ekki datt mér í hug að sjá þig hérna." Þá var ég komin yfir tvítugt og orðin vanari í heiminum en þarna á Ljúfustöðum. "Manstu nokkuð eftir mér, þegar ég var á Ljúfustöðum?" segi ég. "Já, ég man það," segir hún. "Og manstu eftir deginum góða, bylnum, þegar Guðbjörg fór kvöldið áður að Steinadal með stelpurnar og ég átti eftir að komast heim?" spyr ég. "Já, ég man eftir honum," segir Guðbjörg. "En þú manst líklega ekki eftir því að það stóð stelpukrakki við rúmgaflinn og þú snerir einatt bakinu að rúmgaflinum þegar
p72
ég stóð þarna? Ég var grátandi stelpukrakki og var að vonast til að þú segðir eitthvert hlýlegt orð." "Ég þorði það ekki," segir hún. Hersilía var nú ekki uppi, en hún var svona hrædd við hana.
3. Farskólinn að Einfætingsgili við Bitrufjörð. Næsta vetur komst ég á farskóla á Einfætingsgili í Bitrufirði. Guðrún og Zakarías, sem þar áttu heima, áttu 15 börn. Náttúrulega gat hún það ekki þótt hún gerði það. Þetta var næstseinasta veturinn minn í skóla. Einfætingsgil var stutt frá Krossárbakka, bara hinum megin við ána. En ég var flutt að Hvítuhlíð þegar þetta var. En ég mátti aldrei leika mér við börnin þar á meðan ég bjó á Krossárbakka. Það var ekki það að fólkið barnanna bannaði það, heldur bannaði mamma það. Það er nú það sem ég skil ekki, einn krakki svona, og börnin hinum megin vildu að ég kæmi. Það var tvennt þarna jafngamalt mér. Dísa, ein dóttir hennar, spurði mig meira að segja þegar við vorum orðnar fullorðnar, hún er nú gömul kona í Djúpadal, hvernig hefði staðið á þessu að ég hefði aldrei viljað leika við þau. Ég sagði henni að ég hefði ekkert ráðið því, mamma hefði alltaf bannað mér það. Það er ljótt að segja það, ég átti sennilega aldrei að verða til. Það var hvergi pláss fyrir mig í veröldinni. Þó var eins og ég mætti aldrei vera nema í sjónmáli. Það var alltaf eitthvað verið að snúa mér. Það var svo fáliðað að ég varð alltaf að vera til taks, sækja vatn, sækja eldivið, fara þetta og hitt. Ég var líkari snúningsvél. Ég stalst samt oft til að leika mér. Það var eiginlega skárst á meðan ég sat hjá. Ekki beint á meðan ég var yfir fénu, því það var svo óhagvant þarna þegar það kom að Hvítuhlíð. Þar undi sér ekki nokkur skepna. Það var svona, ég mátti bara vera áhorfandi.
Það var að leika sér, þessi hópur á Einfætingsgili, eins og krakkar gera á milli
p73
þess sem það þurfti eitthvað að gera. En orsökin til þess að ég fór þarna í skóla var náttúrulega sú að mig vantaði lærdóm og við vissum að það átti að vera skóli þarna.
Mamma var búin að biðja fyrir mig á Gili, en hún þar gat það ekki blessunin. Hún var búin að taka stráka frá Snartartungu. Þetta voru bræðrabörn. Bróðir húsbóndans í Snartartungu var bróðir húsbóndans á (Einfætings)Gili og þriðji bróðirinn var í Gröf. Og þetta voru allt frændur mínir, allt af þessum hóp. Svoleiðis var að mamma fékk neitun, en ég var send af einhverjum ástæðum fram að Gröf frá Hvítuhlíð. Ég man ekkert erindið, en þegar ég kem þangað þá er krakkahópur á túninu að leika sér, bæði stelpurnar í Gröf, Gústa og Stína og krakkarnir á Gili. Ég vissi nú aldrei hvernig á því stóð að það var þarna allt. Dísa var þar líka, sem nú er í Djúpadal, elsta barnið þeirra hjónanna á Gili. Strákarnir í Tungu voru þarna, Hjörleifur og Einar, sem seinna varð prestur. Ég var með bólgin augu af kirtlaveiki og var náttúrulega ekkert nein fegurðardrottning í aðsigi þarna, ekkert of feit, en látum það nú vera, þær eiga víst að vera grannar. Ég gat ekkert gert að því hvernig ég var í augunum, þau voru alltaf stokkbólgin. Nema þeir fara að gera grín að mér, sérstaklega Einar og Hjörleifur, bræðurnir. Það var ekki Óli á Gili, bróðir Dísu. Nema ég fór að gráta og hljóp bara heim. Því er ég þakklát sjálfri mér. Ég hljóp í þetta sinnið heim og sagði hvað hefði gerst. Því var ég ekki vön. Ég vildi ekki að aðrir fengju neitt illt fyrir mig. Ég segi þeim þetta heima og það hafa ekki liðið nema kannski tveir tímar, þá kom Dísa á Gili alla leið að Hvítuhlíð og segist vera send af mömmu sinni og hún vilji að ég komi á farskólann á Gili. Þá hafði Dísa sagt frá þessu. Dísa var alltaf svo voðalega góð við mig, ég sem var svo mikið yngri en hún. Hún gat alltaf tekið mig eins og ég væri á aldur við hana. Ég skil það bara ekki. Það var svo stórt í Dóru minni að hún ætlaði ekki að þiggja þetta, en það var ekki Dóra sem þurft að læra, það var ég. Ég sagði mömmu að ég vildi fara, mér væri alveg sama
p74
þótt þau stríddu mér, ég vildi bara fara. Mamma vildi það, og ég fór. Þarna var gott að vera. Sá kennari sem ég hafði þar var kona og hún hét Jóhanna Gottfreðlína Gottfreðsdóttir. Hún var elskuleg. Það var hún sem kunni koparstunguna og þurfti þess vegna ekki að hafa koparstungubækurnar. Hún skrifaði svo óskaplega vel. Mér finnst það svo mikið lán að geta minnst þessara elskulegu kennara sem ég hafði. Mér fannst óskaplega gaman að læra. Mér fannst Íslandssagan þó leiðinlegust. Sú sem ég lærði var svo leiðinleg. Ég tók mig til seinna, eftir að ég var flutt til Bíldudals (eftir 1940) og las Íslandssögu. Ég fann Íslandssögubók niðri í fjöru, þreif hana upp og hún var allt öðruvísi. Hana las ég alla og fannst gaman að henni. Mér þótti gaman að læra flest nema kverið. Það var svo ósköp leiðinlegt blessað kverið, þ.e.a.s. það sem var af mannahöndum gjört. Látum vera ritningargreinarnar. Ég ætla að segja þér eina klausu úr kverinu. Hana kann ég enn, hún var svo óskiljanleg að ég gat ekki annað en munað hana. Ég var að reyna að finna út hvernig ég ætti að taka hana. Alveg er ég nú hissa að menn, karlmenn hafa það verið, hafi getað látið þetta frá sér fara og ætla börnum skilningslaust að ganga í gegnum þetta og vita ekki einu sinni hvað það var sem var meint með öllum hlutum.
Það var eins og þessi grein. Þetta voru svartar greinar sem kallaðar voru ritningargreinar, en þær voru ekki úr Biblíunni, bara af mannahöndum gjörðar. Þessi er svona: "Ég trúi að Guð hafi skapað mig og allar skepnur, hafi gefið mér líkama, sál, augu og eyru og alla limi og skynsemi og öll skilningarvit og haldi því við enn. Auk þess klæði og skæði (ég var nefnilega oftast skólaus), hús og heimili, konu og börn, (hvað átti ég að gera með konu og börn??) akurfénað og öll gæði og sjái mér ríkulega fyrir
p75
öllum þörfum og fæðslu þessa líkama míns. Verndi mig gegn allri hættu og varðveiti mig frá öllu illu". (Svo endaði þetta einhvern veginn svona). Ég var þarna í algerri varðveislu. Þetta hljóðaði víst upp á mig í varðveislu og með allsnægtir af öllu, þótt ég vissi nú ekki hvað sumt væri. Það vissi ég ekki fyrr en löngu seinna. Að hafa akurfénað og öll gæði, það hljóðaði nú ekki upp á ævina mína sem búin var að vera. Þetta var mótsagnakennt. Og að ég skyldi eiga konu og börn. Þetta voru nú bara karlarnir. Kvenfólkið kom bara ekkert þarna inn í. Þetta var svona.
4. Farskólinn að Skriðnesenni við Bitrufjörð. Seinasta veturinn minn á farskóla var ég á Enni, eða Skriðnesenni við Bitrufjörð. Þar var gott að vera. Kennarinn minn hét Rögnvaldur Sturlaugsson. Hann var góður og það var gott að vera á Enni. Þar var nóg að borða og allt fínt og vandað og gott fólk. Þá var ég komin með fyrir löngu síðan bæði landafræði, náttúrusögu, skólaljóð, Íslandssögu og kverið. Skólaljóðin og náttúrusagan runnu ofan í mig. Við vorum einu sinni látin gera stíl, einhverja ferðasögu. Ég ferðaðist eitthvað sem ég hafði aldrei farið, alla leið suður í Reykjavík, fór með Faxaflóa. Nema kennarinn segir: "Ja, mér finnst þú vera orðin nokkuð vel að þér í landafræðinni." Það fannst mér nú gott.
p76
4. Atvinna heimildarmanns á uppvaxtarárum. Krossárbakki. Erfiðleikaárin mín sem krakka byrjuðu árið eftir að við komum frá Brekku og aftur að Krossárbakka. Þá varð ég að fara að sitja hjá. Þá var ég 7 ára gömul. Ég sat hjá sumar eftir sumar til fermingaraldurs, fyrst á Krossárbakka á meðan við vorum þar og síðan á Hvituhlíð. Þá var ég orðin svo vön því að sitja hjá að ég vildi helst ekki hætta. Þá kom heyvinnan til og ég óskaði ekkert eftir henni. Ég var á Krossárbakka þangað til ég komst á 11. ár og ætla ég að segja frá þvi þegar ég sat þar hjá. Þetta var alveg við Krossá, Krossárbakkamegin. Ég varð oft dálítið hrædd við ána. Hún var óhemja stundum þegar hún var að ryðja sig á vorin. Ég man eftir að eitt vorið, að Dóra kallaði: "Nei, komdu nú út, Benna og sjáðu ána, hún ætlar að fara að ryðja sig." Þetta var í hörkuleysingum. Það var mikilfengleg sjón. Það var stór grund upp af ánni sem kölluð var Eyri. Hún fyllti það allt af jökum og steinum. Áin eyðilagði nú grundina því það barst svo mikið upp á hana. Það var ekkert hægt að gera við því. Mamma átti þvottaklettinn sinn þarna. Hún breiddi fötin alltaf á klett sem stóð fastur við ána. Hann var svo jarðfastur að hann breyttist aldrei neitt og margsniðinn. Þar þurrkaði hún alltaf sinn þvott. Ég sat hjá og fór með mínar kindur fram með ánni lengra fram í dalinn. Guð minn góður, hvað mér þótti þetta voðalegt, hundlaus og úrlaus og réði ekkert við þessar skepnur. Hinum megin var Einfætingsgil. Þar bjuggu hjón og mörg börn þeirra. Hún hét Guðrún og hann Zakarías. Þetta var frændfólk mitt. Herdís, dóttir þeirra, er enn í Djúpadal og er
p77
að verða 100 ára. Hún sat hjá með bróður sínum. Þau voru þá tvö og það var allt annað. Ég var úrlaus og átti að fara heim með mínar kindur þegar hún fór með sínar. Það var nú tík þarna á bænum sem hét Snotra, en ég kunni ekkert með hund að fara. Ég hafði með mér brauð og mjólk á pela. Það var lítil mjólkin þarna og Dóra átti það sem var. Mamma átti enga mjólk, hún lét kúna sína til þeirra. En af því að ég sat nú hjá þá hefur Dóra lagt þetta til, því ég gat ekki farið neitt heim á daginn að fá mér neitt. Ég varð að hafa þetta með mér. Utan um þetta nesti hafði ég blað. Björn fékk alltaf sent vestur-íslenska blaðið Heimskringlu. Hann þekkti fólk sem hafði flutt til Ameríku. Þatta var vafið utan um brauðið mitt. Ég vissi ekki hvað ég átti að gera mér til dægrastyttingar með skepnunum á milli þess sem ég var að fara fyrir þær. Aldrei þorði ég nú að sleppa þeim langt frá hver annarri. Ég var svo hrædd að missa þær. Þá einu sinni fann ég kvæði og mér dettur í hug að ég skuli læra hvert einasta kvæði og vísu sem sé í blöðunum utan um brauðið. Nema hvað, ég sit nú og er að virða þetta fyrir mér í byrjun blaðsins. Ég var læs og skildi megnið af því sem þarna stóð. Þó var sumt sem ég átti ekki alveg hægt með að skilja. Því eins og Kristmann Guðmundsson sagði, þá séu það varla yfir 40 orð sem húsmæður hafi þurft að nota, hvað þá 7 ára gamalt barn. Nema kvæðið hef ég alltaf kunnað síðan. Það var 3 erindi. Það var kveðið um Ísland frá Vesturheimi.
p78
Þú fjallavengið fríða þú frelsisbjarta sveit, þín búsæl blessuð síða, þig bestu fóstru ég veit. Við hneigjum hægt með lotning vor höfuð fyrir þér, þú fagra daladrottning, þín dáð vor sómi er.
Við byggðum bæi lága þín brjóstin hlýju við, en allt þitt helga og háa var hugsjónanna mið. Og bláar fjallabrúnir oss bentu himins til, en æskan risti rúnir og réði allt í vil.
Af fornum frænda háttum við fjölmenntum á þing og lítið Lögberg áttum með lautum allt í kring. Vér unnum eið að byggja, upp unga Garðars ey, og bein voru láta liggja und litlu Gleym mér ei.
Þetta hef ég aldrei lesið síðan ég var 7 ára gömul. Ég þurfti þess ekki, en ég hef alltaf verið að hugsa um að skrifa þetta upp til að eiga það. Ég skildi nú ekki allt sem í þessu var, en þó var furða hvað ég skildi. Ég vissi að Garðars ey var Ísland og þingið var þetta sem kom saman. Ég fer yfir þetta aftur núna. "Þú fjallavengið fríða, þú frelsisbjarta sveit". Það var Ísland náttúrulega. "þín búsæl blessuð síða, þig bestu fóstru ég
p79
veit. Við hneigjum hægt með lotning, vor höfuð fyrir þér. Þú fagra fjalladrottning, þín dáð voru sómi." "Við byggðum bæi lága, þín brjóstin hlýju við, en allt þitt helga og háa, var hugsjónanna mið". Nú var ég ekki vitlausari en það, að ég þóttist vita að þetta snerti framtíðina. "Og bláar fjallabrúnir, oss bentu himins til". Ég bara leit upp til fjallanna og fór að virða fyrir mér hvernig þau væru. "En æskan risti rúnir og réði allt í vil". "Af fornum frænda háttum, við fjölmenntum á þing og lítið Lögberg áttum...", það vissi ég líka "...með lautum allt í kring". Ég var nú ekki alveg viss um hvað það var. "Vér unnum eið að byggja, upp unga Garðars ey, og bein voru láta liggja, und litlu Gleym mér ei". Þessi Gleim mér ei voru blóm. Það sagði mamma mér seinna. Það þóttist ég vita að væri lagt á leiðin. Svona var nú þetta, ég lærði aldrei meira. Ég hætti við að læra öll kvæði sem kæmu í blaðinu. Mér fannst þetta þungt. En það slapp ekki svo fljótt úr höfðinu á mér og er ekki farið enn. Ég hef stundum farið með þetta með sjálfri mér.
Þetta var allt yfir sumartímann. Sjö ára gömul gerði ég ekkert á veturna nema að hjálpa Dóru að passa börnin. Ég sótti vatn og eldivið og mokaði undan kúnum í fjósinu. Þetta var á Krossárbakka. Það var 1911 sem við fórum þaðan endanlega. Vatnsból var ekki til þarna nema mýrardrög. Það hefur nú verið meiri viðbjóðurinn þetta vatn. Það var meira að segja öskuhaugur sem lak þarna niður í kelduna, þar sem maður var að reyna að ná í vatn þegar erfitt var að komast ofan í Krossá. Að vetrinum fór allt í svell og þá þurfti að fá vatn í keldunni. Það var enginn brunnur. Björn reyndi nú oft að ná í vatn í Krossá þegar hann gat. Hann hafði vakir þar. Það þurfti vatn fyrir skepnurnar. Einu sinni fékk hann 3 silunga í fötuna. Hugsaðu þér það nú, fjörðurinn var fullur af fiski, áin full af silungi, en enginn gat veitt neitt. Hann var enginn
p80
veiðimaður og fátæktin mikil. Mamma var oft að tala um það hvort það væri ekki reynandi að spinna tog. Það gerðu sumir, en hún gat ekki komist yfir allt. Hún varð að spinna það sem hún komst yfir, kemba og prjóna. Allt var gert í höndum. Það var nú kominn lopi að Ólafsdal, hjá blessuðum Torfa frænda mínum. Það brann allt. Ég sá eina lopakringlu hjá mömmu þaðan. Mikið lifandis ósköp fannst henni himinninn vera kominn nálægt, en allt fór og varð að engu. Eins og hann Torfi var duglegur og mikill framkvæmdamaður.