LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFerming
Ártal2000-2011
Spurningaskrá106 Fermingar og ungmennavígslur

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1961

Nánari upplýsingar

Númer2011-2-151
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið20.12.2011
TækniHljóðritun - Stafræn upptaka, Bókagerð - Skrift - TölvuskriftStafræn upptaka, Tölvuskrift

SG: Reykjavík 11. desember 2011, klukkan er 15 mínútur yfir 12, við erum stödd í .... Viðtalið tekur Sigurbjörn Gíslason. Þú byrjar kannski á því að kynna þig og segja svona örlítið frá sjálfri þér.

SBB: Ég heiti ... dóttir og er leikskólakennari að mennt og ég á 3 börn og er gift kona.

SG: Hvaða hugmyndir hefurðu um ferminguna, svona inntak hennar og tilgang?

SBB: Ja mér finnst, auðvitað þú ákveður að skíra börnin þín en þú, það eru börnin sem taka ákvörðun um það hvort þau vilja láta ferma sig, þannig að mér finnst þetta svolítið barnanna að ákveða en að sjálfsögðu þurfa þau stuðning og umræður við foreldra.

SG: Hugsarðu mikið um ferminguna eða kannski bara alls ekkert?

SBB: Meinarðu dags daglega?

SG: Ja svona um þennan tilgang og inntak og...

SBB: Jú, eða tilganginn kannski en ég hugsa kannski ekkert mikið um ferminguna, ekki svona, auðvitað þegar ég var að ferma börnin mín þá hefur verið meiri hugsun í kringum þetta.

SG: Hversvegna fermdust þín börn?

SBB: Ja þau tóku sjálf ákvörðun um það að staðfesta skírnina.

SG: Það var sem sagt algjörlega þeirra ákvörðun?

SBB: Já og auðvitað er það þjóðfélagið líka sem hafði áhrif á þau, vinirnir og annað, en það var alfarið þeirra ákvörðun, auðvitað spurðum við þau hvort þau ætluðu að fermast en þau ákváðu það.

SG: Heldurðu að það hafi þá verið eitthvað sambland af, kannski, trú og hefð [...]?

SBB: Auðvitað held ég að hefðin hafi meira að segja heldur en trúin, þau eiga náttúrulega sína barnatrú, en ég held að hefðin hafi mikið að segja líka.

SG: Og það hafa öll þín börn fermst er það ekki?

SBB: Jú.

SG: Eru einhverjir í þinni nánustu fjölskyldu sem hafa ekki fermst?

SBB: Nei, ekki svo ég vitiþ

SG: Létu allir í bekkjum barnanna þinna ferma sig?
SBB: Ég held það, ég samt, eitthvað rámar mig nú í að það hafi einhver börn sem hafi ekki látið ferma sig. Ekkert sem eru vinir barnanna minna.

SG: Veistu af hverju það var í þeim tilfellum?

SBB: Nei, ég veit það í raun og veru ekki, ég held að það hafi nú bara verið það að þeirra ákvörðun, ég held að það hafi ekki verið trúarlegs eðlis.

SG: Var ferming þinna barna kirkjuleg eða borgaraleg?

SBB: Kirkjuleg.

SG: Og hjá hvaða trúfélagi?

SBB: Kristinni kirkju.... Hvað meinarðu?

SG: Þjóðkirkjunni?

SBB: Þjóðkirkjunni já, já.

SG: Var eitthvað sem að var sérstaklega ánægjulegt við fermingu barna þinna?

SBB: Þetta var bara allt voðalega gaman, það var náttúrulega, mér fannst sérstaklega ánægjuleg, hérna, þegar yngsta barnið gekk til prests. Það var svona meira lifandi og þetta var svona svolítið gert til, eða sem sagt til að höfða til þeirra, þetta var ekki allt bara lært á bókina eða þurft að mæta á ákveðnum tíma í, bara til að fara í gegnum biblíuna heldur var þetta, sko, þetta var svona meira skapandi, meiri gleði, meiri leikur. Mér fannst það mjög áberandi og en fermingin sjálf var ekkert öðruvísi en hjá hinum börnunum.

SG: En var eitthvað sem þú hefðir viljað vera án í sambandi við þessar fermingar?

SBB: Kostnaðurinn. [hlær] Nei þetta er mitt val þannig að, nei nei, ég held, þetta var allt saman voðalega skemmtilegt og, en auðvitað, þetta kostar peninga.

SG: Hvaða máli skipta fermingargjafir að þínu mati?

SBB: Í raun og veru ættu þær ekki að skipta neinu máli, en þær gera það hjá krökkunum alveg, sko, það er það sem þau hugsa mjög mikið um og mér finnst það komið út í mikla öfga. En auðvitað er voða gaman að gleðja með gjöf, en eins og ég segi þá finnst mér það komið út fyrir öll velsemismörk.

SG: Hvað gáfu þið ykkar börnum í fermingargjöf?

SBB: [Hugsar] Ég man að yngsta fékk pening upp í fótboltaferð. Hvað fengu hin? [Hugsar] Veistu, ég hreinlega, ég bara man hvað við gáfum, ég held að við höfum gefið Guðjóni mublur. Veistu ég man það ekki.
SG: Reyndu þið að gefa þeim svipaða stærð, sem sagt svipað að verðgildi?

SBB: Já við gerðum það.

SG: Reynduð að hafa þetta svona svipað?

SBB: Já.

SG: Eru fermingarbörnum gefnar sérstakar tegundir af gjöfum? Hefurðu tekið eftir því?

SBB: Ég held það bara fari eftir því hvað er í gangi í þjóðfélaginu hverju sinni, nú eru náttúrulega tölvur mjög algeng fermingargjöf. Ætli það verði ekki Iphone-ar í ár, eða ég veit það ekki, Ipad-ar. Ég held að hérna, jú ég held þetta sé svona ákveðið sem svona stór hluti fær, ákveðnar, eins og þetta tölvur, stundum voru þetta húsgögn og þegar ég fermdist þá voru það úr.

SG: Græjur þegar ég fermdist. Já þú heldur að þetta fylgi bara svona einhverjum [...] Tískustraumum?

SBB: Já ég held það.

SG: Veistu til þess, eða þekkirðu til einhverra stórgjafa?

SBB: Já, ég meina, ég hef alveg heyrt að börn eru að fá, eins og svona fótboltaferðir, ég meina þetta eru 150-200.000 krónur. Það kalla ég stórgjöf, ég meina sumir eru að fá, ég veit til þess að einum sem fékk hest, það er, jú jú ég veit það er til.

SG: Hvað myndirðu telja að væri, hversu algengt þetta væri?

SBB: Ég held að þetta sé algengara en maður heldur, ég held að hérna, börn eru að fá rosalega stórar og flottar gjafir.

SG: Ef þú þyrftir að setja tölu á það, hvað myndirðu segja að teldist vera stórgjöf?

SBB: Ja. 50 [þúsund] og yfir finnst mér stórgjöf.

SG: Hvað voru vinsælustu, manstu hvað voru vinsælustu gjafirnar þegar þin börn fermdust? Ja ef við tölum bara um þá yngstu.

SBB: Fótboltaferðir, af því að hún tengist mikið fótboltanum, og líka, það voru tölvur líka.

SG: Hefurðu orðið vör við að það sé metingur eða samkeppni um það hver fær mest í fermingargjöf?

SBB: Já það er það. Það er ótrúlega mikið.

SG: Og hvernig lýsir þetta sér?
SBB: Ja það, krakkar eru að bera sig saman, ég held kannski að þeir sem að eru ekki í þessum pakka, að fá sem sagt þessar stóru gjafir, þau eru ekkert að leggja orð í belg, þau segja sem minnst og jafn vel búa til sögur til að fylgja straumnum. Þannig að ég held að það sé ótrúlega mikill metingur í krökkum.

SG: Heldurðu að það sé þá hreinn og beinn metingur frekar en einhverskonar samanburður?

SBB: Nei ég veit það kannski ekki, ég hugsa að þetta sé bæði og, kannski meiri samanburður. Maður hefur samt alveg heyrt að krakkar eru að gera lítið úr þeim sem fengu minna.

SG: Við skulum fara aðeins yfir í ferminguna sjálfa hjá yngstu stelpunni þinni. Var undirbúningur eða námsskeið fyrir ferminguna?

SBB: Fyrir okkur?

SG: Nei, sem sagt fyrir hana?

SBB: Já já.

SG: Manstu hvort hún þurfti að skrá sig sérstaklega eða var haft samband beint við ykkur?

SBB: Ég held hún hafi skráð sig sjálf, það var ekki haft samband við okkur, held ég. Ég held að hún hafi skráð sig bara, ég held að það hafi verið þannig. Við alla vega sóttum ekki um neitt fyrir hana.

SG: Hverjir sáu um þennan fermingarundirbúning?

SBB: Það var presturinn og æskulýðsfélagið, djákninn sem, eða guðfræðinemi sem var í skólanum, nei í kirkjunni.

SG: Hvar fór þetta fram?

SBB: Þetta fór fram í kirkjunni.

SG: Allt saman?

SBB: Já.

SG: Í hverju var þessi undirbúningur fólginn?

SBB: Þetta var ýmislegt, þetta var hérna, það var sem sagt, þau fóru til prests bara til að fara í gegnum biblíuna og annað sem, sem sagt, snéri að fermingum, boðskapnum, og svo var þeim gefin kostur á að setja sig í ákveðna hópa, það var sem sagt tónlistarhópur, ævintýrahópur og ýmsir svona hópar sem að var þá guðfræðinemi með og var þá tengt þessari athöfn, eða já, þessum boðskap. Það fannst mér rosalega skemmtilegt, þetta var eitthvað sem ég upplifði hjá henni sem henni fannst ofsalega gaman og spennandi, í staðin fyrir, eins og með hin, þau þurftu bara, það var, hjá Guðjóni var sko, þau voru bara í skólanum, það var bara alltaf einu sinni í viku en þetta var svona meira lifandi og meira svona höfðað til þeirra.

SG: Hvaða námsefni eða námsgögn voru notuð?

SBB: Það var náttúrulega nýja testamentið og.... Einhver bók sem ég man ekki hvað heitir, einhver, ég bara man það ekki.

SG: Líf með Jesú, getur það ekki verið.

SBB: Jú.

SG: Var henni hjálpað eða hlýtt yfir heima? Eða þeim öllum?

SBB: Ja, jú það var náttúrulega bara það sem hún átti að læra utan að og það sem náttúrulega, þau tóku einhverja könnun eða eitthvað svoleiðis, þannig að hérna, jú jú, henni var alveg, þú veist, við tókum alveg virkan þátt í öllum undirbúning með henni.

SG: Voru það sem sagt þið hjónin sem sáuð um það?

SBB: Já, bæði sem sagt námsefnið og líka kirkjuferðir og annað.

SG: Já þú segir, hún þurfti að taka einhverja könnun?

SBB: Það var einhver könnun sem þau tóku.

SG: Ein eða fleiri?

SBB: Nei ég held það hafi bara verið ein.

SG: Hvað var það svona það helsta sem hún þurfti að kunna?

SBB: Það var náttúrulega trúar játningin og faðirvorið, og hérna, boðorðin og svo einhverjar ritningargreinar.

SG: Manstu hvaða greinar það áttu að vera? Hvaða vers?

SBB: Nei, ég man það ekki.

SG: Var ætlast til þess að hún mætti í messu í einhver ákveðin skipti á meðan þessum undirbúningi stóð?

SBB: Já, ég man ekki hvort það voru 10 skipti eða, en það var samt ekki merkt við, það var sem sagt bara höfðað til samvisku þeirra.

SG: Já já.
SBB: Þannig að hérna, ég held það hafi svona verið, nei hvaða vitleysa, jú víst það var merkt við. Þau voru með einhverja ákveðna bók sem þau fengu stimpil í, alveg rétt.

SG: Tóku foreldrarnir einhvern þátt í þessum undirbúningi?

SBB: Í kirkjunni eða messunum?

SG: Já sem sagt þessum undirbúningi, þessum undirbúningi undir ferminguna sjálfa?

SBB: Nei, ja ekkert nema jú það var námsskeið í kirkjunni.

SG: Fyrir foreldra?

SBB: Fyrir foreldra já, það var hjá þeim öllum.

SG: Ok, hvernig fór það fram?

SBB: Þetta voru einhverjar 2 kvöldstundir þar sem að foreldrar hittust og það var rætt um ferminguna og undirbúninginn og námsefnið og kirkjuferðir og annað. Og svo voru einhverjar uppákomur á þessum kvöldum, einhver tónlistaratriði og svona eitthvað til að trekkja foreldra líka til að koma.

SG: Fermdust þín börn öll í sömu kirkjunni?

SBB: Nei.

SG: Þannig að þetta var bara eins í öllum tilfellunum.

SBB: Já, en svona mismunandi uppsett sko. Mér fannst þetta svona skemmtilegast hjá Guðjóni, það var hérna, það voru 3 skipti og þá voru það 3 kirkjur sem unnu saman, Grensás-, Langholts- og Laugarnes-. Og þetta var sem sagt svona á trúarlegum nótum til að byrja með og svo voru einhverjar uppákomur, tónlistaratriði, leiklistaratriði eða eitthvað sem og kom og var líka á þessum kvöldum.

SG: En sem sagt í öllum 3 tilfellunum voru, tóku foreldrarnir beinan þátt í undirbúningi barnanna?

SBB: Já.

SG: Var æft fyrir fermingarathöfnina?

SBB: Já.

SG: Hvar og hvernig fór þessi æfing fram?

SBB: Hún fór fram í kirkjunni og þau, þetta var bara, sem sagt, þau æfðu sig að ganga upp að altari, setjast...

SG: Og vori foreldrarnir viðstaddir?

SBB: Nei, ég man ekki hvernig það var með Svövu Rós, hún mætti ekki. Hún var í einhverri fótboltaferð [bæði hlæja]. Eða hvort hún var úti, nei ég man það ekki, ég man bara að hún komst ekki á þessa æfingu, eflaust út af einhverju fótbolta tengdu. En hjá hinum voru foreldrar ekki viðstaddir.

SG: Fengu þín börn ný föt fyrir ferminguna?

SBB: Já.

SG: Hvernig föt voru það?

SBB: Þær fengu kjóla og hann fékk jakkaföt, eða já, nei, íslenska búninginn. Og nýja skó.

SG: Var það eitthvað sem þau völdu sjálf eða var þeim sagt til hvernig það ætti að vera?

SBB: Þau völdu alfarið sjálf.

SG: Voru þessi föt valin samkvæmt einhverri ákveðinni hefð eða fylgdi það tískustraumum?

SBB: Þau fylgdu tískustraumum.

SG: Finnst þér það skipta máli að börn fái ný föt fyrir fermingardaginn?

SBB: Nei mér finnst það ekki skipta máli að þau fái NÝ föt, en mér finnst að þau eigi að vera í snyrtilegum fötum. Mér finnst það ekki skipta máli hvort þetta sé nýtt eða ekki.

SG: Nei.

SBB. En mér finnst nú aðallega að þau séu í einhverju sem að, í fyrsta lagi þau séu ánægð með sjálf og að þetta sé snyrtilegt.

SG: Hversu algengt er það að fermingarbörn fái ný föt?

SBB: Ég held það sé mjög algengt. Ég held, nánast, eða svona kannski, ég get ekki sagt að það séu öll börn sem fái ný föt fyrir fermingu en það eru ansi mörg, en ég held að hin fái þá frá einhverjum öðrum eða, og mér finnst sjálfsagt að ef það er hægt að láta þetta ganga á milli þá finnst mér það sjálfsagður hlutur.

SG: Hvernig voru fermingarsystkini þinna barna klædd?

SBB: Bara svipað og hún, það var allt í svona svipuðu, eða þau, svipað og þau segi ég. Þau fylgdu held ég bara svona öll tískustraumnum held ég.

SG: Bara það sem var í gangi á þeim tíma?

SBB: Já.

SG: Voru þín börn í fermingarkirtlum?

SBB: Já.

SG: Hvað finnst þér um kirtlana?

SBB: Mér finnst þetta bara svo sem skemmtileg hefð. Mér finnst svo sem ekkert að því að þau séu, mér finnst líka bara gaman að sjá að þau eru öll eins þegar maður horfir yfir þau, og hérna, já mér finnst þetta bara skemmtileg hefð að hafa þetta.

SG: Voru einhverjir sem fermdust með þínum börnum sem voru ekki í kirtli.

SBB: Nei.

SG. Geturðu sagt mér frá athöfninni sjálfri, svona í aðalatriðum, hvernig hún fór fram? Ef við bara tölum um þessa síðustu.

SBB: Þetta var bara svona hefðbundin ferming, það var náttúrulega bara, þau komu gangandi inn kirkjugólfið og setjast á stóla sem eru fyrir framan altarið, og síðan voru þau nokkur kölluð upp í einu eftir að presturinn var búinn að tala og flytja fermingarræðu og þegar var búið að kalla þau öll upp að þá, svo eftir það var altarisganga. Og það var bara með svipuðu sniði það komu nokkur upp í einu og foreldrar þeirra og aðstandendur með.

SG: Var, það sem að kannski mætti kalla skrúðgöngu, fermingarbarna inn í kirkjuna?

SBB: Já.

SG: Hver var fremstur? Manstu það?

SBB: Nei ætli það hafi ekki verið sá sem var stærstur, ég held það hafi verið þannig.

SG: Presturinn hefur ekki farið...?

SBB: Jú presturinn var náttúrulega fremstur að sjálfsögðu, en hérna, og svo komu þau bara held ég eftir stærð.

SG: Fóru allir í kirkjuna í þinni fjölskyldu?

SBB: Já. Og afar og ömmur líka.
SG: En það hafa væntanlega verið fleirum en þeim sem fóru í kirkjuna boðið í veislu, var það ekki?

SBB: Jú jú jú. Það var fullt af fólki boðið í veislu.

SG: Voru teknar myndir á meðan á athöfninni stóð?

SBB: Nei, það mátti ekki.

SG: Mátti ekki taka myndir í kirkjunni?

SBB: Nei. Eftir athöfn mátti taka myndir.

SG: Já, en ekki á meðan athöfninni sjálfri stóð?

SBB: Nei.

SG: En fóru þið svo til ljósmyndara?

SBB: Nei, við fórum ekki til ljósmyndara.

SG: Í engu tilfellana?

SBB: Jú, með tvö eldri. Hitt er eftir [hlær]

SG: Hvort var það gert á undan athöfninni eða eftir á?

SBB: Það var gert á undan.

SG: Í báðum tilfellunum?

SBB: Já.

SG: Veistu hvort fleiri af fermingarsystkinum barna þinna hafi farið í sérstaka myndatöku?

SBB: Já, eða ég veit ekki til þess en mér þykir líklegt að einhver hafi farið.

SG: Og það var svo veisla?

SBB: Mmm.

SG: Geturðu sagt mér eitthvað aðeins frá henni? Þessari síðustu það er að segja.

SBB: Já Það var hérna, við leigðum sal út í bæ, og það var í kringum 90 manns og það var hérna, allt heima tilbúið sem var á boðstólnum. Og svo var bara, já, afskaplega látlaus veisla, fólk kom bara þarna og borðaði og gladdist með fermingarbarninu og fór svo. Þetta var svo sem ekki, jú við vorum með smá uppákomu, það komu þarna strákar og sungu... Hún ætlaði nú reyndar að spila á þverflautu sem hún guggnaði svo á. Við vorum svona aðeins að reyna að brjóta þetta upp, það var þarna smá söngatriði. Þetta var ósköp bara látlaus og skemmtileg veisla.

SG: Hverjum var boðið í veisluna?

SBB: Bara nánustu ættingjum. Það var sem sagt, systkinum foreldra, systkinabörnum, ömmum og öfum og örfáum vinum.

SG: Var prestinum boðið?

SBB: Nei.

SG: Er eitthvað svona um fermingar og fermingarveislur almennt sem þú villt koma á framfæri, sem ég hef ekki haft rænu á að spyrja þig að?

SBB: Nei ég held ekki, mér finnst reyndar þetta kannski orðið að meira kappsmál að hafa þetta sem stærst og flottast, það kannski gleymist meira trúin og allt það í kringum ferminguna, ganga meira út á veislur og gjafir heldur en sjálfan boðskapinn og trúna.

SG: Efnishyggjan komin framyfir trúna?

SBB: Já mér finnst það. En mér finnst þetta vera eitthvað sem börnin eiga að velja sjálf, foreldrar eiga ekki að hafa áhrif á það. En auðvitað, ef þú sem foreldri er fermdur eða fermd þá kannski hefur það ósjálfráð áhrif. En ég held að, ég hefði ekki sett pressu á mitt barn hef það hefði ekki viljað fermast. Mér finnst það bara val.

SG: Þá þakka ég bara kærlega fyrir.

SBB: Já það var nú lítið.

 


Kafli 1 af 7 - Undirbúningur

Hvers vegna gekkst þú undir fermingu/ungmennavígslu? Var það þín ákvörðun, vilji foreldra þinna, hefð eða hugsanlega eitthvað annað?
Hvort var þín ferming/ungmennavígsla kirkjuleg eða borgaraleg?
Hvaða trúfélagi eða söfnuði/hópi tilheyrir þú?
Hvað varstu gamall/gömul/gamalt þegar þú varst fermd/-ur/-t eða tókst ungmennavígslu?
Á hvaða tíma árs fór fermingin/ungmennavígslan fram? Hvað réði valinu á þessari tímasetningu?
Hvernig var undirbúningi fyrir fermingu/ungmennavígslu þína háttað? Hver annaðist t.d. fræðslu eða námskeið og hvar og hvenær var það haldið? Þurfti að skrá sig á það? Var hægt að velja um mismunandi leiðir í fræðslunni?
Hvaða námsefni eða námsgögn voru notuð?
Hvað þurfti að kunna utanbókar (sálma, ritningargreinar t.d.)? Var próf/ könnun, skrifleg eða munnleg? Er þér kunnugt um að einhverjir hafi þurft að endurtaka prófið?
Var ætlast til þess að þú mættir í messur eða á trúarsamkomur meðan á undirbúningi fermingar/ungmennavígslu stóð? Hvernig var fylgst með mætingunni?
Tók fjölskylda þín þátt í undirbúningnum? Á hvaða hátt, ef svo var?
Var æft fyrir fermingarathöfnina/ungmennavígsluna? Hvar og hvernig fór æfingin fram? Hverjir voru viðstaddir?

Kafli 2 af 7 - Fatnaður, útlit

Fékkst þú ný föt fyrir ferminguna/ungmennavígsluna? Hvernig föt? Voru þau valin samkvæmt ákveðinni hefð, eftir nýjustu tísku eða einhverju öðru? Hvað hafðir þú mikið að segja varðandi val á þessum fötum?
Gerðir þú einhverjar breytingar á útliti þínu fyrir ferminguna/ungmennavígsluna (brúnkumeðferð, hárgreiðsla, klipping, líkamsrækt t.d.)?
Hvaða máli skipti það fyrir þig að fá ný föt í tilefni af fermingunni/ungmennavígslunni?
Varst þú í kyrtli eða hliðstæðum klæðnaði við athöfnina? Hvað fannst þér um það? Var einhver sem ekki var í þannig klæðum?
Hversu algengt var að ungmennin væru með sálmabók við athöfnina og stúlkur með hanska?

Kafli 3 af 7 - Athöfnin

Getur þú sagt frá sjálfri fermingarathöfninni/ungmennavígslunni, hvar og hvernig hún fór fram?
Hverjir úr þinni fjölskyldu eða vinahópi komu á athöfnina? Voru einhverjar leiðbeiningar um hverjir máttu vera viðstaddir og ef svo er hvaða?
Voru teknar ljósmyndir/vídeómyndir meðan á athöfninni stóð eða á eftir henni? Hverjir tóku þessar myndir? Fórst þú til ljósmyndara í tengslum við ferminguna/ungmennavígsluna?
Voru einhverjir í þinni fjölskyldu eða skóla sem ekki létu ferma sig eða tóku ekki ungmennavígslu? Af hverju, ef svo er?
Hvaða breytingar hafa orðið á athöfninni frá því á þínum tíma, t.d. miðað við þín eigin börn?

Kafli 4 af 7 - Veisla

Var haldin veisla? Getur þú sagt frá henni? Hvaða veitingar voru t.d. á boðstólum, voru einhver skemmtiatriði, tónlist eða ræður? Hvert var þitt hlutverk?
Hvernig var staðið að undirbúningi á veislunni? Hvert var þitt hlutverk?
Hverjum var boðið í veisluna? Hvernig var staðið að vali á boðsgestum? Var prestinum eða þeim sem framkvæmdi athöfnina boðið? Hverjir mættu ekki af þeim sem boðið var í veisluna?
Þekktist að ekki væri haldin veisla? Í hvaða tilvikum helst?

Kafli 5 af 7 - Gjafir

Hvaða gjafir fékkst þú í tilefni af fermingunni/ungmennavígslunni?
Þekktir þú stórgjafir? Hvað telst vera stórgjöf og hversu algengar voru þær að þínu mati?
Voru gefnar sérstakar tegundir af gjöfum? Hvers konar gjafir, ef svo er? Hvað voru vinsælustu gjafirnar, og skipti máli af hvaða kyni ungmennið var?
Hvaða máli finnst þér að gjafirnar hafi skipt? Voru þær t.d. ómissandi, mikilvægar eða kannski alls ekki?
Fannst þér að það hafi verið einhver metingur eða samanburður um hver fengi mestar gjafir? Geturðu sagt frá þessu, ef svo er?
Fékkst þú heillaóskaskeyti eða kort? Vissir þú til þess að aðrir fengju þau? Var það algengt/sjaldgæft?

Kafli 6 af 7 - Viðhorf

Hvaða þýðingu hafði fermingin/ungmennavígslan fyrir þig? Hvert fannst þér t.d. vera inntak hennar og tilgangur? Hvort var hún þér fremur trúarleg eða veraldleg upplifun?
Hvernig líkaði þér við prestinn eða þann sem að sá um athöfnina? Hafði hann mikil/lítil áhrif á lífsviðhorf þitt, bæði þá og seinna á ævinni?
Hvað fannst þér um þína eigin fermingu/ungmennavígslu? Var hún þér minnisstæð? Hvað var ánægjulegast við hana? Var eitthvað sem var síður skemmtilegt? Hvað, ef svo er?
Varst þú litin/-nn/-ð öðrum augum eftir ferminguna/ungmennavígsluna? Hvernig lýsti það sér, ef svo var?
Hvaða aðrar breytingar urðu á lífi þínu eftir ferminguna/ungmennavígsluna? Fannst þér t.d. að þú stæðir á tímamótum?

Kafli 7 af 7 - Fermingarbarnamót

Hefur þú tekið þátt í fermingarbarnamóti? Hvenær fóru þau að tíðkast? Hvað er gert og af hvaða tilefni eru slík mót haldin?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana