LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFerming
Ártal2009
Spurningaskrá106 Fermingar og ungmennavígslur

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1995

Nánari upplýsingar

Númer2011-2-150
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið20.12.2011
TækniHljóðritun - Stafræn upptaka, Bókagerð - Skrift - TölvuskriftStafræn upptaka, Tölvuskrift

SG: Reykjavík 11. desember 2011, við erum stödd í (..1..), klukkan er 16 mínútur í eitt [eftir hádegi], viðtalið tekur Sigurbjörn Gíslason.

Þú byrjar kannski á því að kynna þig og segja svona örlítið frá þér.

 

SRG: Já, ég heiti (..2..) og ég er 16 ára gömul, og ég er í námi í Menntaskólanum við Sund.

 

SG: Já, hvaða ár fermdistu?

 

SRG: Tvöþúsund og.....

 

SG: 16 ára, 2008 er það ekki þá? [Þetta á að sjálfsögðu að vera 2009, reikningsskekkjan skrifast alfarið á rannsakanda]

 

SRG: Já 2008.

 

SG: Var undirbúningur eða námsskeið fyrir ferminguna?

 

SRG: Já

 

SG: Og þurftirðu að skrá þig sjálf einhversstaðar eða var haft samband við þig eða foreldra þína út af því?

 

SRG: Mig minnir að það hafi verið sent bara í pósti eða eitthvað þannig.

 

SG: Hver eða hverjir sáu um þennan undirbúning?

 

SRG: Prestarnir bara, í kirkjuni.

 

SG: Og hvar fór þetta fram?

 

SRG: Í kirkjunni.

 

SG: Í hverju var þessi undirbúningur fólginn?

 

SRG: Við vorum með bók, við vorum að fara í verkefni í henni og svo vorum við að læra einhver svona... Já, læra í bókinni [hlær]

 

SG: Manstu hvað þessi bók heitir?

 

SRG: Nei, trú eitthvað, ég man það ekki.

 

SG: Notuðu þið einhver fleiri námsgögn heldur en þessa bók?

 

SRG: Bara blöð með, þú veist, lögum eða einhverju þannig.

 

SG: Var ykkur skipt í hópa eða voru allir saman í einu?

 

SRG: Það var skipt í hópa og síðan vorum við líka saman að gera verkefnin og eitthvað.

 

SG: Var þér hjálpað eða hlýtt yfir heima?

 

SRG: Nei, eða, ef ég þurfti á því að halda þá hefði ég örugglega fengið það, en ég þurfti þess ekkert.

 

SG: Var eitthvað próf eða könnun?

 

SRG: Emm, já, eitthvað lítið svona könnun minnir mig.

 

SG: Og hvernig könnun var þetta? Um hvað var verið að spyrja?

 

SRG: Ég man það ekki....

 

SG: En hvað var það svona það helsta sem þú þurftir að kunna áður en þú fermdist?

 

SRG: Trúar þarna.... Man ekki hvað það heitir...

 

SG: Trúarjátningin?

 

SRG: Já trúarjátningin. Það var eiginlega bara það sem við þurftum að læra utanað.

 

SG: Enga sálma eða einhver biblíuvers eða eitthvað svoleiðis?

 

SRG: Uuu nei.... Nei, ekki sem ég man eftir

 

SG: Var ætlast til þess að þú mættir í messu í einhver ákveðin skipti áður en þú fermdist?

 

SRG: Já.

 

SG: Hvað margar?

 

SRG: Fimm eða tíu, ég man það ekki, einhversstaðar þar á milli.

 

SG: Hvernig var fylgst með mætingunni?

 

SRG: Ég veit það ekki...

 

SG: Þú hefur ekki fengið einhverja bók eða blað sem var skrifað á....?

 

SRG: Jú!! Við vorum með blað sem mætingin var skrifuð á og svo fórum við inn til prestsins eftir messuna og þá var skrifuð niður mæting. 

 

SG: Tók fjölskyldan þín þátt í fermingarundirbúningnum?

 

SRG: Já.

 

SG: Hvernig?

 

SRG: Mættu með mér í messu, og, jáh...

 

SG: Ok, var æft fyrir fermingarathöfnina?

 

SRG: Já, það var æft einu sinni daginn áður

 

SG: Hvernig fór það fram?

 

SRG: Bara hvernig við áttum að labba inn og hvað við ættum að gera og svona.

 

SG: Voru foreldrar viðstaddir?

 

SRG: Nei.

 

SG: Fékkstu ný föt fyrir ferminguna?

 

SRG: Já.

 

SG: Hvernig föt voru það?

 

SRG: Það var kjóll og skór.

 

SG: Valdirðu fötin sjálf [sími hringir] eða var þér sagt hvernig þau ættu að vera?

 

SRG: Ég vald fötin sjálf.

 

SG: Valdirðu fötin samkvæmt einhverri hefð eða var það bara tískan sem að réði málinu?

 

SRG: Það var tískan.

 

SG: Fannst þér það skipta miklu máli að fá ný föt áður en þú fermdist?

 

SRG: Jaaá, já eiginlega, það er gaman líka að eiga fermingarfötin sín, sem maður var í.

 

SG: Já, af hverju fannst þér það skipta svona miklu máli?

 

SRG: Ég veit það eiginlega ekki, bara, já....

 

SG: Nei nei, veistu hvað það er algengt að fermingarbörn fái ný föt?

 

SRG: Nei.

 

SG: En bara ef við tölum um þá sem fermdust með þér, veistu hversu algengt það var?

 

SRG: Já ég held að flestar stelpurnar allavega keypt sér ný föt, örugglega líka strákarnir.

 

SG: Hvernig voru fermingarsystkini þín klædd?

 

SRG: Em, bara í kjólum og strákarnir bara í jakkafötum.

 

SG: Varstu í fermingarkirtli?

 

SRG: Já.

 

SG: Hvað fannst þér um það?

 

SRG: Mér fannst það bara fínt, flott.

 

SG: Var einhver sem þú fermdist með sem var ekki í kirtli?

 

SRG: Nei. [Það heyrist afar illa hverju hún svarar, líklega hefur hún hvíslað því eða eitthvað í þá áttina]

 

SG: Stóð það kannski ekki bara til boða eða?

 

SRG: Ég bara veit það eiginlega ekki.

 

SG: Þú pældir kannski ekkert í því?

 

SRG: Nei.

 

SG: Geturðu sagt mér aðeins frá fermingarathöfninni, svona hvernig hún fór fram? Svona bara í aðalatriðum.

 

SRG: Við bara löbbuðum þarna inn í röðum og settumst niður í stólana og síðan fór presturinn með einhverja sálma og eitthvað og síðan fórum við öll upp að altarinu og hann gekk á milli.

 

SG: Þegar þið löbbuðuð inn, voru þið, var þetta, mætti kalla þetta skrúðgöngu eða eitthvað svoleiðis?

 

SRG: [...]

 

SG: Voru þið í einhverri fyrir fram ákveðinni röð eða...

 

SRG: Bara stafrófsröð.

 

SG: Stafrófsröð?

 

SRG: Já.

 

SG: Hver fór fremstur í þessari fylkingu?

 

SRG: Presturinn.

 

SG: Presturinn já. Fóru allir í kirkjuna?

 

SRG: Allir?

 

SG: Sem sagt allir í fjölskyldunni í kirkjuna?

 

SRG: Flestir alla veganna. Mamma og pabbi, amma og afi, síðan einhverar frænkur og frændur.

 

SG: Ok, voru teknar myndir á meðan að athöfninni stóð?

 

SRG: Nei, ég held ekki. Man það samt ekki alveg.

 

SG: Fórstu til ljósmyndara annað hvort á undan eða eftir athöfnina?

 

SRG: Nei. Hvorugt.

 

SG: Veistu hvort að fleiri hafi gert það sem að fermdust með þér?

 

SRG: Já, alveg margir sko.

 

SG: En var svo fermingarveisla?

 

SRG: Já.

 

SG: Geturðu sagt mér aðeins frá henni?

 

 SRG: Já, um, við bara borðuðum þarna öll saman [hlær], já.

 

SG: Já, ekkert meira en það?

 

SRG: Ég man þetta ekki alveg.

 

SG: Hverjum var boðið í veisluna?

 

SRG: Bara fjölskyldunni og vinum

 

SG: Var prestinum boðið?

 

SRG: Nei.

 

SG: Hvers vegna léstu ferma þig?

 

SRG: Um, bara út af trúnni.

 

SG: Já, og var það algjörlega þín ákvörðun eða vildu foreldrar þínir að...

 

SRG: Mín ákvörðun.

 

SG: Alveg þín ákvörðun?

 

SRG: Já.

 

SG: Hvað hafa margir í þinni fjölskyldu látið ferma sig? Þú veist, foreldrar, systkini, frænkur, frændur.

 

SRG: Ég veit ekki alveg hvað margir en flestir sko. Alla vega mamma og pabbi og systkini mín.

 

SG: Já. Veistu um einhvern fjölsk, sem sagt einhvern ættingja sem hefur ekki látið ferma sig.

 

SRG: Nei.

 

SG: En létu allir í þínum bekk ferma sig?

 

SRG: Nei, það fermdist einn, en það var reyndar borgaraleg, svona, ferming [...]

 

SG: Já sem sagt ein borgaraleg ferming.

 

SRG: Já.

 

SG: Og veistu af hverju hann vildi ekki fermast í kirkju?

 

SRG: Nei ég veit það ekki alveg.

 

SG: Hvort finnst þér að þú hafir, svona kannski fremur fermst af trúarlegum ástæðum eða vegna þess að það er siður og hefð og flest allir aðrir gerðu það?

 

SRG: Ég veit það ekki, örugglega líka bara siður, samt líka eitthvað tengt trúnni.

 

SG: Svona sambland bara?

 

SRG: Já.

 

SG: Og þín ferming var kirkjuleg?

 

SRG: Já.

 

SG: Hvaða trúfélagi tilheyrirðu?

 

SRG: Kristni.... Ha?

 

SG: Þjóðkirkjunni væntanlega?

 

SRG: Já.

 

SG: Hvað finnst þér svona um þína eigin fermingu, sem sagt hvað var skemmtilegast til dæmis?

 

SRG: Örugglega bara og allt í kringum þetta.

 

SG: Og var eitthvað sem þér þótti ekki skemmtilegt?

 

SRG: Nei.

 

SG: Hvaða máli skipta fermingargjafir? Sem sagt eru þær algjörlega ómissandi eða skipta þær ekki neinu máli?

 

SRG: Ég veit það eiginlega ekki, skipta ekkert eitthvað geðveikt miklu máli sko, finnst mér.

 

SG: En það er alltaf gaman að fá gjafir fyrir því er það ekki?

 

SRG: Jú.

 

SG: Hvað fékkstu í fermingargjöf?

 

SRG: Ég fékk ferð til útlanda, og peninga, og myndir og eitthvað....

 

SG: Og fannst þér þetta vera bara mátulegt sem þú fékkst eða var þetta of lítið eða of mikið?

 

SRG: Mér fannst þetta bara mjög fínt.

 

SG: Þú kvartar ekki?

 

SRG: Nei.

 

SG: Veistu hvað aðrir sem fermdust með þér fengu í gjafir?

 

SRG: Já, eitthvað um tölvur og, já, örugglega bara helst tölvur eða eitthvað sem margir fengu sko.

 

SG: Veistu til þess að einhver hafi fengi það sem mætti kalla stór gjafir?

 

SRG: Nei, eiginlega ekki.

 

SG: En hvað myndirðu halda að myndi teljast vera mjög stór fermingargjöf?

 

SRG: Ég veit það ekki.

 

SG: En, nei, þú veist þá kannski ekki hversu algengt það er að krakkar fái einhverjar virkilega stórar fermingargjafir?

 

SRG: Nei.

 

SG: Ef þú þyrftir að setja tölu á það, hvað myndirðu segja að væri mátulegt verð á fermingargjöf, ef við segjum bara frá foreldrum til barns?

 

SRG: Ég veit það ekki.... Ég veit það eiginlega ekki....

 

SG: Bara skjóta út í loftið hvað myndirðu halda?

 

SRG: Eitthvað um 100, meira en 100.000 alla veganna. Miklu meira.

 

SG: Það myndi þá vera stór gjöf, sem sagt yfir 100.000?

 

SRG: Jaaá, eða svona um 100.000.

 

SG: Hvað myndirðu segja að væri bara svona mátulegt?

 

SRG: Ég veit það ekki [flissar].

 

SG: Nei. hvað voru vinsælustu gjafirnar þegar þú fermdist?

 

SRG: Ég myndi segja að það hafi verið tölvur og útlandaferðir.

 

SG: Varðstu vör við að það væri einhver samkeppni eða svona einhver metingur um það hver fengi mest í fermingargjöf?

 

SRG: Nei, eiginlega ekki. Samt örugglega alltaf verið að spyrja hvað mikið, þú veist, af peningum maður fékk eða eitthvað þannig.

 

SG: Kannski þá meira svona einhver samanburður heldur en beinn metingur?

 

SRG: Já.

 

SG: Er eitthvað svona um fermingar almennt sem þig langar að segja, eitthvað sem ég hef gleymt eða eitthvað svoleiðis?

 

SRG: Nei, eiginlega ekki.

SG: Heyrðu þá held ég að ég þakki bara kærlega fyrir.

 

SRG: Takk. 

  

 

 

 

 

 

 

 


Kafli 1 af 7 - Undirbúningur

Hvers vegna gekkst þú undir fermingu/ungmennavígslu? Var það þín ákvörðun, vilji foreldra þinna, hefð eða hugsanlega eitthvað annað?
Hvort var þín ferming/ungmennavígsla kirkjuleg eða borgaraleg?
Hvaða trúfélagi eða söfnuði/hópi tilheyrir þú?
Hvað varstu gamall/gömul/gamalt þegar þú varst fermd/-ur/-t eða tókst ungmennavígslu?
Á hvaða tíma árs fór fermingin/ungmennavígslan fram? Hvað réði valinu á þessari tímasetningu?
Hvernig var undirbúningi fyrir fermingu/ungmennavígslu þína háttað? Hver annaðist t.d. fræðslu eða námskeið og hvar og hvenær var það haldið? Þurfti að skrá sig á það? Var hægt að velja um mismunandi leiðir í fræðslunni?
Hvaða námsefni eða námsgögn voru notuð?
Hvað þurfti að kunna utanbókar (sálma, ritningargreinar t.d.)? Var próf/ könnun, skrifleg eða munnleg? Er þér kunnugt um að einhverjir hafi þurft að endurtaka prófið?
Var ætlast til þess að þú mættir í messur eða á trúarsamkomur meðan á undirbúningi fermingar/ungmennavígslu stóð? Hvernig var fylgst með mætingunni?
Tók fjölskylda þín þátt í undirbúningnum? Á hvaða hátt, ef svo var?
Var æft fyrir fermingarathöfnina/ungmennavígsluna? Hvar og hvernig fór æfingin fram? Hverjir voru viðstaddir?

Kafli 2 af 7 - Fatnaður, útlit

Fékkst þú ný föt fyrir ferminguna/ungmennavígsluna? Hvernig föt? Voru þau valin samkvæmt ákveðinni hefð, eftir nýjustu tísku eða einhverju öðru? Hvað hafðir þú mikið að segja varðandi val á þessum fötum?
Gerðir þú einhverjar breytingar á útliti þínu fyrir ferminguna/ungmennavígsluna (brúnkumeðferð, hárgreiðsla, klipping, líkamsrækt t.d.)?
Hvaða máli skipti það fyrir þig að fá ný föt í tilefni af fermingunni/ungmennavígslunni?
Varst þú í kyrtli eða hliðstæðum klæðnaði við athöfnina? Hvað fannst þér um það? Var einhver sem ekki var í þannig klæðum?
Hversu algengt var að ungmennin væru með sálmabók við athöfnina og stúlkur með hanska?

Kafli 3 af 7 - Athöfnin

Getur þú sagt frá sjálfri fermingarathöfninni/ungmennavígslunni, hvar og hvernig hún fór fram?
Hverjir úr þinni fjölskyldu eða vinahópi komu á athöfnina? Voru einhverjar leiðbeiningar um hverjir máttu vera viðstaddir og ef svo er hvaða?
Voru teknar ljósmyndir/vídeómyndir meðan á athöfninni stóð eða á eftir henni? Hverjir tóku þessar myndir? Fórst þú til ljósmyndara í tengslum við ferminguna/ungmennavígsluna?
Voru einhverjir í þinni fjölskyldu eða skóla sem ekki létu ferma sig eða tóku ekki ungmennavígslu? Af hverju, ef svo er?
Hvaða breytingar hafa orðið á athöfninni frá því á þínum tíma, t.d. miðað við þín eigin börn?

Kafli 4 af 7 - Veisla

Var haldin veisla? Getur þú sagt frá henni? Hvaða veitingar voru t.d. á boðstólum, voru einhver skemmtiatriði, tónlist eða ræður? Hvert var þitt hlutverk?
Hvernig var staðið að undirbúningi á veislunni? Hvert var þitt hlutverk?
Hverjum var boðið í veisluna? Hvernig var staðið að vali á boðsgestum? Var prestinum eða þeim sem framkvæmdi athöfnina boðið? Hverjir mættu ekki af þeim sem boðið var í veisluna?
Þekktist að ekki væri haldin veisla? Í hvaða tilvikum helst?

Kafli 5 af 7 - Gjafir

Hvaða gjafir fékkst þú í tilefni af fermingunni/ungmennavígslunni?
Þekktir þú stórgjafir? Hvað telst vera stórgjöf og hversu algengar voru þær að þínu mati?
Voru gefnar sérstakar tegundir af gjöfum? Hvers konar gjafir, ef svo er? Hvað voru vinsælustu gjafirnar, og skipti máli af hvaða kyni ungmennið var?
Hvaða máli finnst þér að gjafirnar hafi skipt? Voru þær t.d. ómissandi, mikilvægar eða kannski alls ekki?
Fannst þér að það hafi verið einhver metingur eða samanburður um hver fengi mestar gjafir? Geturðu sagt frá þessu, ef svo er?
Fékkst þú heillaóskaskeyti eða kort? Vissir þú til þess að aðrir fengju þau? Var það algengt/sjaldgæft?

Kafli 6 af 7 - Viðhorf

Hvaða þýðingu hafði fermingin/ungmennavígslan fyrir þig? Hvert fannst þér t.d. vera inntak hennar og tilgangur? Hvort var hún þér fremur trúarleg eða veraldleg upplifun?
Hvernig líkaði þér við prestinn eða þann sem að sá um athöfnina? Hafði hann mikil/lítil áhrif á lífsviðhorf þitt, bæði þá og seinna á ævinni?
Hvað fannst þér um þína eigin fermingu/ungmennavígslu? Var hún þér minnisstæð? Hvað var ánægjulegast við hana? Var eitthvað sem var síður skemmtilegt? Hvað, ef svo er?
Varst þú litin/-nn/-ð öðrum augum eftir ferminguna/ungmennavígsluna? Hvernig lýsti það sér, ef svo var?
Hvaða aðrar breytingar urðu á lífi þínu eftir ferminguna/ungmennavígsluna? Fannst þér t.d. að þú stæðir á tímamótum?

Kafli 7 af 7 - Fermingarbarnamót

Hefur þú tekið þátt í fermingarbarnamóti? Hvenær fóru þau að tíðkast? Hvað er gert og af hvaða tilefni eru slík mót haldin?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana