LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFerming
Ártal2000-2011
Spurningaskrá106 Fermingar og ungmennavígslur

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1963

Nánari upplýsingar

Númer2011-2-149
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið20.12.2011
TækniHljóðritun - Stafræn upptaka, Bókagerð - Skrift - TölvuskriftStafræn upptaka, Tölvuskrift

TDG: Reykjavík, 11. desember 2011. Viðmælandi er (..1..). Safnari er Tryggvi Dór Gíslason. Viðfangsefni er fermingar. Byrja á að spyrja þig um aldur og uppruna.

 

VTT: Já ég er fædd 1963, 48 ára gömul. Ég er fædd í Reykjavík en alin upp, ja svona að mestu leyti í Borgarfirði.

 

TDG: Einmitt. Hvaða hugmyndir hefur þú um ferminguna, inngang hennar og tilgang?

 

VTT: Já. Þetta er náttúrulega, sem sagt, trúarathöfn og þarna eru börnin eða ungmennin að ganga í kristinna manna tölu ef svo er hægt að segja, staðfesta skírnina. Og já.

 

TDG: Hugsarðu mikið um ferminguna, lítið eða kannski ekki neitt?

 

VTT: Svona almennt?

 

TDG: Já.

 

VTT: Eitthvað, já. Já mér finnst hún skipta máli.

 

TDG: Hvað hefur þú fermt mörg börn?

 

VTT: Tvö börn.

 

TDG: Hvers vegna fermdust þau?

 

VTT: Þau ákváðu það sjálf að fermast.

 

TDG: Veistu ástæðuna á bak við?

 

VTT: Ja þau, sem sagt, þeim fannst það rétt trúarlega séð að fermast.

 

TDG: Og það var alfarið þeirra ákvörðun?

 

VTT: Alfarið þeirra ákvörðun.

 

TDG: Hvort finnst þér að, eða heldurðu að þín börn hafi frekar fermst af trúarlegum ástæðum eða vegna hefðarinnar?

 

VTT: Bæði og, held ég. Ég hugsa að það spili svona álíka sterkt inn, bæði hefðin og trúin.

 

TDG: Og bæði þín börn eru fermd.

 

VTT: Þau eru fermd já.

 

TDG: Í þinni fjölskyldu, hafa, hafa allir látið ferma sig þar eða veistu um einhverja sem eru ófermdir.

 

VTT: Í minni nánustu fjölskyldu hafa allir látið ferma sig já.

 

TDG: En utan þess, veistu um einhverja...

 

VTT: Já ég veit um... Nei ég reyndar veit ekki um neinn sem ekki hefur látið ferma sig, ég veit um manneskju sem hefur sem sagt tekið borgaralega fermingu...

 

TDG: Já.

 

VTT: ...en það er dóttir konu sem ég þekki, hún er ekki í fjölskyldunni.

 

TDG: Einmitt.

 

VTT: Og ég einmitt nefndi það við börnin mín hvort þau vildu kynna sér það líka en, þau kusu að láta ferma sig í kirkju.

 

TDG: Já. Létu öll börn sem voru í sama bekk og og börnin þín ferma sig, veistu það?

 

VTT: Ég held það já, ég veit ekki annað. Veit ekki annað. En jú hins... það eru hérna börnin við hliðina á okkur þau sem sagt eru ekki fermd. Þau eru í, ég veit ekki alveg hvaða söfnuði það er en, það eru jafnaldrar krakkanna minna sko.

 

TDG: Já já. Já þau er í einhverju trúfélagi þá sem að... ?

 

VTT: Já eitthvað, eitthvað hvítasunnu, eða ég þekki ekki alveg...

 

TDG: Nei. Og já, fermingin.. fermingarnar voru kirkjulegar?

 

VTT: Kirkjulegar já.

 

TDG: Hjá hvaða trúfélagi?

 

VTT: Í kirkjunni okkar, sem sagt, lútersku kirkjunni...

 

TDG: Þjóðkirkjunni?

 

VTT: Þjóðkirkjunni já [hlær] þjóðkirkjunni já.

 

TDG: Var eitthvað sem var sérstaklega ánægjulegt við fermingu barnanna þinna?

 

VTT: Mér fannst þetta óskaplega hátíðleg stund, alveg, og þegar þau lás... völdu sér hérna... orð til að lesa, sem sagt, og það kallaði fram miklar tilfinningar hjá  mömmu.

 

TDG: Var eitthvað sem var síður skemmtilegt eða þú hefðir viljað vera án?

 

VTT: Við ferminguna?

 

TDG: Já.

 

VTT: Nei.

 

TDG: Hvaða máli skipta fermingargjafir að þínu mati?

 

VTT: Mér finnst þær nú ekki skipta mjög miklu máli. En þær spila samt mikla rullu í fermingunni.

 

TDG: Einmitt. Hvað gáfuð þið ykkar börnum í fermingargjöf?

 

VTT: Við gáfum Agli golfsett, þá var hann að æfa golf. Og hvað gáfum við Sólveigu? Bara hreinlega man það ekki.

 

TDG: Nei. Var leitast við að gefa þeim fyrir svipaða upphæð eða skipti það minna máli kannski?

 

VTT: Við vorum svo sem ekkert að velta okkur beint upp úr því. Ég, veistu ég bara man það ekki.

 

TDG: Nei. Það hefur þá frekar verið...

 

VTT: ...eitthvað sem að höfðaði til þeirra, sem sagt já [spyrill talar ofan í] þau langaði í, eitthvað sem nýttist þeim.

 

TDG: Já. Eru fermingarbörnum gefnar sérstakar tegundir af gjöfum?

 

VTT: Það er algengt að gefa peninga. Mjög algengt, kannski sérstaklega strákum hefur mér fundist.

 

TDG: Já.

 

VTT: Það er auðveldara að finna eitthvað fyrir stelpur, lítinn skartgrip eða eitthvað svoleiðis.

 

TDG: Nú langar mig að spyrja aðeins um stórgjafir svokallaðar. Hvað telur þú vera stórgjöf og hversu algengar telurðu þær vera?

 

VTT: Ertu þá að meina.. stórgjöf, hvað meinarðu með stórgjöf?

 

TDG: Ja, það er svona, það sem að, svona einhver dýr, mikil gjöf.

 

VTT: Já. Sko mér finnst kannski foreldrar gefa stórgjöf í fermingargjöf, svo kannski í brúðargjöf.

 

TDG: Já.

 

VTT: En jólagjafir finnast mér svona, eða mín persónulega skoðun er sú að maður svona  er ekkert að missa sig í, reyna að hafa það innan skynsemismarka að minnsta kosti.

 

TDG: Hvað telur þú vera mátuleg gjöf, fermingargjöf og kannski þá einhver upphæð?

 

VTT: Ertu að meina svona almennt?

 

TDG: Já eða eða sko, bæði kannski hvað þér finnst stórgjöf kosta minnst eða, og svo kannski hvað er mátulegt í almennar fermingargjafir.

 

VTT: Sko, við höfum mjög oft verið að gefa fimm þúsund krónur, það er nú búið að vera ansi lengi sú, það er nú sennilega svona að detta upp í tíu, svona hjá skyldmennum. Mér finnst stór gjöf, ég man að við gáfum, sem sagt golfsettið kostaði um áttatíu þúsund og það var, okkur fannst það mjög stór gjöf. En öðrum fannst það kannski ekkert mjög..

 

TDG: Nei.

 

VTT: En svona, kannski svolítið afstætt hvað fólki finnst stórt og hvað ekki.

 

TDG: Akkúrat. Þegar börnin þín fermdust hverjar voru vinsælustu gjafirnar?

 

VTT: Þá? Sko, Egill fékk mjög mikið af peningum, alveg. Sólveig fékk minna af peningum en hún fékk meira af svona smáhlutum, skartgripum og þessháttar.

 

TDG: Hefurðu orðið vör við að það sé einhver metingur eða samkeppni um hver fengi mest í fermingargjöf?

 

VTT: Já, ég held að það sé svolítið á milli krakkann, þeir séu svolítið að tala sig saman, „hvað fékkst þú mikinn pening?“ Já.

 

TDG: Og það sé þá einhver öfund og..?

 

VTT: Ég hugsa það, sé svona pínu metingur, hver á ríkasta afann eða, eða svoleiðis.

 

TDG: Akkúrat. Nú snúum við okkur svolítið að fermingunni sjálfri. Var undir búningur eða námskeið fyrir fermingarnar?

 

VTT: Fyrir börnin?

 

TDG: Já.

 

VTT: Já já. Þau gengu til prestsins heilan vetur, byrjuðu að hausti fermdust svo að vori.

 

TDG: Og þurfti að skrá þau á það námskeið eða var haft samband við ykkur eða?

 

VTT: Við fengum örugglega bréf, bara þess efnis að sem sagt ef þau, já, ef þau vildu fermast að þá væri þetta, þyrfti að ganga til prestsins. Ég man það ekki bara hreinlega.

 

TDG: Nei. Það hefur ekki verið þannig að það hefur verið gert ráð fyrir því, að þú hafir þurft að taka fram ef þau ætluðu ekki að fermast?

 

VTT: Jú líklega sko, líklega var bara gert ráð fyrir því.

 

TDG: Já.

 

VTT: Svo man ég að við þurftum að borga einhver gjöld sko, sem sagt, fyrir fræðsluna, kaupa bók. Svo náttúrulega þurfti að borga fyrir kirtil og svo framvegis. Þannig að þetta var svona [hlær]

 

TDG: Ekkert ókeypis

 

VTT: Ekkert ókeypis.

 

TDG: Hver eða hverjir sáu um þennan fermingarundirbúning?

 

VTT: Það var sóknarpresturinn í kirkjunni okkar [Seljakirkju], og aðstoðarpresturinn þar.

 

TDG: Hvar fór undirbúningurinn fram?

 

VTT: Hann fór fram í kirkjunni. Eitthvað í skólanum.

 

TDG: Já.

 

VTT: Já.

 

TDG: Í hverju var undirbúningurinn fólginn?

 

VTT: Þau voru þarna með bók sem heitir Líf með Jesú, voru með hana. Og svo, já, svo fóru þau nú einhvern tímann í ferðalag öll saman. Og svo, sem sagt, þau þurftu að mæta í ákveðið margar messur um veturinn, fengu það skjalfest að þau hefðu mætt. Og foreldrar, það var ætlast til að foreldrar kæmu eitthvað með þeim líka.

 

TDG: Var börnunum hjálpað eða hlýtt yfir heima?

 

VTT: Við vorum að æfa okkur með trúarjátninguna og svona eitt og annað, já.

 

TDG: Hver sá þá um það?

 

VTT: Það var ég.

 

TDG: Var eitthvað próf eða könnun hjá þeim?

 

VTT: Já ég held það nú. Já, það var eitthvað próf.

 

TDG: Hvað var það helsta sem þurfti að kunna?

 

VTT: Það voru einhverjar svona kristinfræðistaðreyndir, held ég.

 

TDG: Þurfti að kunna sálma og ritningarvers?

 

VTT: Já þau þurftu nú að læra einhvern sálm, já og ritningarvers já.

 

TDG: Þú manst ekki hvað það var?

 

VTT: Nei. Ég man það ekki.

 

TDG: Þú nefndir áðan að það hafi verið ætlast til þess að börnin mættu í messu í ákveðin skipti.

 

VTT: Mhm.

 

TDG: Manstu hvað mörg skipti?

 

VTT: Mig minnir að það hafi verið tíu skipti.

 

TDG: Í allt?

 

VTT: Já, yfir veturinn.

 

TDG: Hvernig var fylgst með þeirri mætingu?

 

VTT: Það, þau fengu, voru með litla bók eða blað, það var merkt við sko, að þau hefðu mætt.

 

TDG: Og tóku, tóku þið foreldrarnir einhvern þátt í þessum fermingarundirbúningi?

 

VTT: Já já, við fórum með þeim í messu og, gerðum það mjög samviskusamlega.

 

TDG: Fóruð þið alltaf með þeim þá eða?

 

VTT: Ekki alveg alltaf, en svona, mjög oft sko. Það var nú ekki óskað nærveru okkar alltaf.

 

TDG: Nei. Var æft fyrir fermingarathöfnina?

 

VTT: Já, þau æfðu þarna, hittust í kirkjunni, örugglega deginum áður eða eitthvað, ég man nú ekki alveg, og sem sagt, æfðu hvernig þau kæmu inn og allt þetta.

 

TDG: Voru foreldrar viðstaddir það?

 

VTT: Nei.

 

TDG: Fengu börnin ný föt fyrir ferminguna?

 

VTT: Já.

 

TDG: Hvernig föt?

 

VTT: Hún fékk kjól og hann fékk jakkaföt, já.

 

TDG: Þau völdu fötin alveg sjálf eða var þeim sagt svona hvernig þau ættu að vera?

 

VTT: Nei nei, þau völdu það alveg sjálf.

 

TDG: Og voru fötin valin samkvæmt einhverri ákveðinni hefð eða tísku?

 

VTT: Kannski jakkafötin hjá Agli, en skórnir þóttu svolítið sérstakir. Hann valdi þá alfarið sjálfur.

 

TDG: Skórn... já hvernig skór voru það?

 

VTT: Hann var í Converse strigaskóm.

 

TDG: Já.

 

VTT: Við fín jakkaföt.

 

TDG: Voru, voru fleiri svoleiðis?

 

VTT: Ekki, ekki það árið en svo hef ég séð þetta mjög..

 

TDG: Já. Hann hefur komið þessu af stað kannski...

 

VTT: 2005 var það.

 

TDG: Fannst þér það skipta máli að börnin fengju ný föt á fermingardaginn?

 

VTT: Já, mér fannst það.

 

TDG: Af hverju?

 

VTT: Af því að þetta var algjörlega þeirra dagur og ég vildi að þau fengju að njóta sín, líða bæði vel að innan og utan.

 

TDG: Einmitt. Hversu algengt heldurðu að það sé að fermingarbörn fái ný föt?

 

VTT: Ég hugsa að það sé mjög algengt.

 

TDG: Veistu hvernig fermingarsystkin barnanna voru klædd?

 

VTT: Það sem ég þekki til voru þau bara svipað klædd sko, þær í kjólum yfirleitt og þeir í jakkafötum eða buxum og jakka.

 

TDG: Voru þau í fermingarkirtli?

 

VTT: Já.

 

TDG: Hvað fannst þér um það?

 

VTT: Mér fannst það bara, allt í lagi sko. Ég spáði ekkert þannig í það.

 

TDG: Voru allir í fermingarkirtli eða voru einhverjir sem var...?

 

VTT: Það voru allir í fermingarkirtli.

 

TDG: Geturðu sagt frá fermingarathöfninni í aðalatriðum, hvernig hún fór fram?

 

VTT: Já, þau sem sagt, gengu þarna inn og, í ákveðinni röð og svo var, hélt presturinn náttúrulega ræðu og síðan fermdi hann hvert og eitt einasta barn og þau lásu sitt ritningarorð. Og að fermingarathöfn lokinni þá kom ljósmyndari og myndaði, sem sagt allan hópinn saman með prestinum. Þetta var mjög svipað í bæði skiptin, sami prestur og...

 

TDG: Var þá svona, byrjaði athöfnin þá á svona skrúðgöngu fermingarbarnanna inn kirkjuna?

 

VTT: Já þau komu öll, gengu öll saman inn.

 

TDG: Presturinn fremstur?

 

VTT: Já. Eða aftastur. Sennilega bara aftastur.

 

TDG: Já já. Og var altarisganga?

 

VTT: Já það var altarisganga, já. Og svo er mjög skemmtileg hefð hérna í kirkjunni okkar, að fermingarbörnin, sem sagt leika svolítið stórt hlutverk í hérna, aðfangadagsm.. eða messunni á aðfangadag. Þá, sem sagt, þau sem vilja að þau, sem sagt, ganga saman inn og halda á kertum og, og eru svona partur af messuhaldinu. Og bæði börnin mín tóku þátt í því, að minni ósk og ég grét á bekknum. Mér fannst það svo hátíðlegt og fallegt.

 

TDG: Já. Fóru, hverjir úr fjölskyldunni ykkar fóru í kirkjuna?

 

VTT: Það vorum við foreldrarnir og ömmurnar og afarnir. Það var sem sagt beðið um að það væru ekki of margir frá hverju barni upp á, sem sagt, að það kæmust allir fyrir.

 

TDG: Einmitt.

 

VTT: Já.

 

TDG: Já og svo hefur verið haldin veisla þar sem að miklu fleirum var boðið?

 

VTT: Já.

 

TDG: Varðandi myndatöku í athöfninni, þú nefndir að það hafi komið ljósmyndari...

 

VTT: Já.

 

TDG: ...en teknar myndir á meðan athöfninni stóð?

 

VTT: Já.

 

TDG: Hverjir voru í því?

 

VTT: Það voru bara foreldrar að taka af börnunum sínum sko..

 

TDG: Já, það hefur ekki verið ljósmyndari í því?

 

VTT: Nei, nei.

 

TDG: En fóru börnin til ljósmyndara á undan eða eftir athöfninni?

 

VTT: Já, bæði fóru þau á undan, já.

 

TDG: Og hvernig myndatökur voru það?

 

VTT: Það var á ljósmyndastofu, fyrir þau bæði, og svo voru myndirnar tilbúnar í fermingunni.

 

TDG: Já. Já já. Veistu hvort, veistu hversu algengt þetta er?

 

VTT: Að þau fari til ljósmyndara?

 

TDG: Já.

 

VTT: Ég hugsa að það sé nú frekar algengt. Já ég reikna með því.

 

TDG: Hvað geturðu sagt mér frá fermingarveislunni?

 

VTT: Aðra ferminga..  eða sem sagt fermingarveisluna héldum við hérna heima og hina vorum við með í litlum sal úti í bæ. Og það voru svona um það bil 50 manns í hvorri veislu, eða á milli 50 og 60.

 

TDG: Hvað var, hvað buðuð þið upp á?

 

VTT: Við buðum upp á, í fyrri veislunni var kaffi og kökur og brauð og þessháttar, að ósk fermingarbarnsins, hann vildi hafa kökuveislu. Og svo voru smáréttir og svo kaka á eftir hjá stelpunni, hún kaus að hafa það þannig.

 

TDG: Hverjum var boðið í veisluna?

 

VTT: Það var sem sagt systkinum okkar hjóna og systkinabörnum, og svo ömmu og afa, og örfáum vinum okkar. Og svo komu örfáir vinir þeirra líka. En við fórum ekkert langt út fyrir í að bjóða.

 

TDG: Var prestinum boðið?

 

VTT: Nei.

 

TDG: Í hvorugt skiptið?

 

VTT: Í hvorugt skiptið.

 

TDG: Já. Er eitthvað fleira sem þú vilt koma á framfæri í sambandi við fermingar.

 

VTT: Já, kannski það að fólk þarf svolítið að gá að sér að missa sig ekki í stress og vitleysu fyrir þennan dag, vegna þess að þetta er, á ekkert að vera meira heldur en bara góð afmælisveisla ef maður hugsar það þannig. Fólk missir sig í alls konar smáatriði og vitleysu, sem er algjör óþarfi, kostar bara peninga, stress og streitu. Fólk þarf bara að vera svolítið jarðbundið og skynsamt. Það eru alveg jafn góðar veislur, þannig.

 

TDG: Það held ég. Við ljúkum þessu hérna, takk kærlega.

 

VTT: Takk.


Kafli 1 af 7 - Undirbúningur

Hvers vegna gekkst þú undir fermingu/ungmennavígslu? Var það þín ákvörðun, vilji foreldra þinna, hefð eða hugsanlega eitthvað annað?
Hvort var þín ferming/ungmennavígsla kirkjuleg eða borgaraleg?
Hvaða trúfélagi eða söfnuði/hópi tilheyrir þú?
Hvað varstu gamall/gömul/gamalt þegar þú varst fermd/-ur/-t eða tókst ungmennavígslu?
Á hvaða tíma árs fór fermingin/ungmennavígslan fram? Hvað réði valinu á þessari tímasetningu?
Hvernig var undirbúningi fyrir fermingu/ungmennavígslu þína háttað? Hver annaðist t.d. fræðslu eða námskeið og hvar og hvenær var það haldið? Þurfti að skrá sig á það? Var hægt að velja um mismunandi leiðir í fræðslunni?
Hvaða námsefni eða námsgögn voru notuð?
Hvað þurfti að kunna utanbókar (sálma, ritningargreinar t.d.)? Var próf/ könnun, skrifleg eða munnleg? Er þér kunnugt um að einhverjir hafi þurft að endurtaka prófið?
Var ætlast til þess að þú mættir í messur eða á trúarsamkomur meðan á undirbúningi fermingar/ungmennavígslu stóð? Hvernig var fylgst með mætingunni?
Tók fjölskylda þín þátt í undirbúningnum? Á hvaða hátt, ef svo var?
Var æft fyrir fermingarathöfnina/ungmennavígsluna? Hvar og hvernig fór æfingin fram? Hverjir voru viðstaddir?

Kafli 2 af 7 - Fatnaður, útlit

Fékkst þú ný föt fyrir ferminguna/ungmennavígsluna? Hvernig föt? Voru þau valin samkvæmt ákveðinni hefð, eftir nýjustu tísku eða einhverju öðru? Hvað hafðir þú mikið að segja varðandi val á þessum fötum?
Gerðir þú einhverjar breytingar á útliti þínu fyrir ferminguna/ungmennavígsluna (brúnkumeðferð, hárgreiðsla, klipping, líkamsrækt t.d.)?
Hvaða máli skipti það fyrir þig að fá ný föt í tilefni af fermingunni/ungmennavígslunni?
Varst þú í kyrtli eða hliðstæðum klæðnaði við athöfnina? Hvað fannst þér um það? Var einhver sem ekki var í þannig klæðum?
Hversu algengt var að ungmennin væru með sálmabók við athöfnina og stúlkur með hanska?

Kafli 3 af 7 - Athöfnin

Getur þú sagt frá sjálfri fermingarathöfninni/ungmennavígslunni, hvar og hvernig hún fór fram?
Hverjir úr þinni fjölskyldu eða vinahópi komu á athöfnina? Voru einhverjar leiðbeiningar um hverjir máttu vera viðstaddir og ef svo er hvaða?
Voru teknar ljósmyndir/vídeómyndir meðan á athöfninni stóð eða á eftir henni? Hverjir tóku þessar myndir? Fórst þú til ljósmyndara í tengslum við ferminguna/ungmennavígsluna?
Voru einhverjir í þinni fjölskyldu eða skóla sem ekki létu ferma sig eða tóku ekki ungmennavígslu? Af hverju, ef svo er?
Hvaða breytingar hafa orðið á athöfninni frá því á þínum tíma, t.d. miðað við þín eigin börn?

Kafli 4 af 7 - Veisla

Var haldin veisla? Getur þú sagt frá henni? Hvaða veitingar voru t.d. á boðstólum, voru einhver skemmtiatriði, tónlist eða ræður? Hvert var þitt hlutverk?
Hvernig var staðið að undirbúningi á veislunni? Hvert var þitt hlutverk?
Hverjum var boðið í veisluna? Hvernig var staðið að vali á boðsgestum? Var prestinum eða þeim sem framkvæmdi athöfnina boðið? Hverjir mættu ekki af þeim sem boðið var í veisluna?
Þekktist að ekki væri haldin veisla? Í hvaða tilvikum helst?

Kafli 5 af 7 - Gjafir

Hvaða gjafir fékkst þú í tilefni af fermingunni/ungmennavígslunni?
Þekktir þú stórgjafir? Hvað telst vera stórgjöf og hversu algengar voru þær að þínu mati?
Voru gefnar sérstakar tegundir af gjöfum? Hvers konar gjafir, ef svo er? Hvað voru vinsælustu gjafirnar, og skipti máli af hvaða kyni ungmennið var?
Hvaða máli finnst þér að gjafirnar hafi skipt? Voru þær t.d. ómissandi, mikilvægar eða kannski alls ekki?
Fannst þér að það hafi verið einhver metingur eða samanburður um hver fengi mestar gjafir? Geturðu sagt frá þessu, ef svo er?
Fékkst þú heillaóskaskeyti eða kort? Vissir þú til þess að aðrir fengju þau? Var það algengt/sjaldgæft?

Kafli 6 af 7 - Viðhorf

Hvaða þýðingu hafði fermingin/ungmennavígslan fyrir þig? Hvert fannst þér t.d. vera inntak hennar og tilgangur? Hvort var hún þér fremur trúarleg eða veraldleg upplifun?
Hvernig líkaði þér við prestinn eða þann sem að sá um athöfnina? Hafði hann mikil/lítil áhrif á lífsviðhorf þitt, bæði þá og seinna á ævinni?
Hvað fannst þér um þína eigin fermingu/ungmennavígslu? Var hún þér minnisstæð? Hvað var ánægjulegast við hana? Var eitthvað sem var síður skemmtilegt? Hvað, ef svo er?
Varst þú litin/-nn/-ð öðrum augum eftir ferminguna/ungmennavígsluna? Hvernig lýsti það sér, ef svo var?
Hvaða aðrar breytingar urðu á lífi þínu eftir ferminguna/ungmennavígsluna? Fannst þér t.d. að þú stæðir á tímamótum?

Kafli 7 af 7 - Fermingarbarnamót

Hefur þú tekið þátt í fermingarbarnamóti? Hvenær fóru þau að tíðkast? Hvað er gert og af hvaða tilefni eru slík mót haldin?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana