LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiFerming
Ártal2010
Spurningaskrá106 Fermingar og ungmennavígslur

Sveitarfélag 1950Akranes
Núv. sveitarfélagAkraneskaupstaður
SýslaBorgarfjarðarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1996

Nánari upplýsingar

Númer2011-2-144
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið14.12.2012/20.12.2011
TækniHljóðritun - Stafræn upptaka, Bókagerð - Skrift - TölvuskriftStafræn upptaka, Tölvuskrift

Akranesi 6. nóvember 2011.  Viðtalið tekur Sigurbjörn Gíslason.

 

SG: Þú byrjar kannski á því að kynna þig og segja svona örlítið frá sjálfum þér.

 

EGG: Já, ég heiti (...1...) og ég er 15 ára gamall, er í Grundaskóla á Akranesi, á ég að segja eitthvað meira?

 

SG: Hvenær fermdistu?

 

EGG: 28. mars 2010.

 

SG: Var undirbúningur eða námsskeið fyrir ferminguna?

 

EGG: Já

 

SG: Þurftirðu að skrá þig sérstaklega á námsskeiðið eða var hafa samband við þig eða foreldra

þína?

 

EGG: Það var sko, þarna [...] Maður náttúrulega þurfti að segja að maður ætlaði að fermast, og þá náttúrulega þurfti maður að skrá sig í fræðsluna fyrir það, þannig að [...]

 

SG: Já, þannig að þú þurftir að skrá þig?

 

EGG: Já mig minnir það.

 

SG: Hver eða hverjir sáu um fermingarundirbúninginn?

 

EGG: Kirkjan, aðallega.

 

SG: Hvar fór þetta fram?

 

EGG: Bara í skólanum.

 

SG: Bara í skólanum eða?

 

EGG: Já, náttúrulega líka sko, sem sagt, síðustu vikuna fyrir fermingu þá voru svona fermingar æfingar í kirkjunni.

 

SG: Í hverju var þessi undirbúningur fólginn?

 

EGG: Bara gera einhver svona verkefni upp úr nýja testamentinu og eitthvað svoleiðis.

 

SG: Hvernig verkefni?

EGG: Bara svona, þú veist, við fengum eitthvað svona, hérna, einhver svona blöð með svona, hérna, sem sagt, kapítula dóti einhverju og við áttum sem sagt að finna út hvað stóð þar og eitthvað svoleiðis. Það var svona voðalega mikið uppistaðan í því.

 

SG: Hvaða námsefni eða námsgögn voru notuð?

 

EGG: Hvað meinarðu.

 

SG: Nú, bara, hvaða bækur þið hafið notað, til dæmis.

 

EGG: Nýja testamentið og svo bók sem heitir eitthvað, bókin um Jesú minnir mig.

 

SG: Og eitthvað fleira?

 

EGG: Nei.

 

SG: Var ykkur skipt i hópa eða voru allir saman á sama tíma?

 

EGG: Okkur var skipt í hópa.

 

SG: Var þér hjálpað eða hlýtt yfir heima?

 

EGG: Neei, eða jú, bara svona með, þú veist, að læra trúarjátninguna og eitthvað svoleiðis sko.

 

SG: Hver sá um að hjálpa þér með það?

 

EGG: Bara mamma og pabbi, systkinin mín.

 

SG: Var próf eða einhverjar kannanir eða eitthvað svoleiðis úr námsefninu?

 

EGG: Já við fengum alltaf eftir hvern tíma eitthvað sem við áttum að gera upp úr þessari þarna, bókinni um Jesú. Og svo, þú veist, var þarna síðast fyrir fermingu, þá þurfti maður sem sagt að fara með trúarjátninguna og faðirvorið og fermingarbænina, fyrir, sem sagt, prestinn og, til að gá hvort að við kynnum þetta ekki örugglega.

 

SG: Þannig að, já, það sem þið þurftuð að kunna var þá faðirvorið og trúarjátningin?

 

EGG: Já og einhver fermingarbæn.

 

SG: Þurftirðu að kunna einhverja sálma eða ritningarvers?

 

EGG: Nei.

 

SG: Ekkert svoleiðis?

 

EGG: Nei.

SG: Var ætlast til þess að þú mættir í messu í einhver ákveðin skipti á meðan þessum undirbúningi stóð?

 

EGG: Já.

 

SG: Hvað mörg skipti?

 

EGG: Það var... Tvisvar fyrir áramót og tvisvar eftir áramót.

 

SG: Hvernig var fylgst með mætingunni?

 

EGG: Hvernig þá? Eða, þú veist, í hvað?

 

SG: Í messurnar?

 

EGG: Við fengum svona bók, og hérna, það var sem sagt alltaf í tímanum, sem sagt fermingarfræðslutímanum á eftir messuna þá fékk maður svona stimpil, að sem sagt maður, en samt sko presturinn hafði í rauninni engin, sem sagt, ekkert fyrri því að við hefðum actually mætt í messuna.

 

SG: Nei þannig að þið hefðuð fræðilega séð getað sleppt því að mæta í allar messurnar en bara sagt honum að þið hefðuð komið?

 

EGG: Já tæknilega séð.

 

SG: Ókei, tók fjölskyldan þín þátt í fermingarundirbúningnum?

 

EGG: Já.

 

SG: Hvernig?

 

EGG: Bara með svona [...] Þessu venjulega.

 

SG: Og hvað er þetta venjulega?

 

EGG: Ég, þú veist, bara skipuleggja, þú veist, til dæmis veisluna og eitthvað svoleiðis.

 

SG: Já ég á nú reyndar við undirbúninginn fyrir athöfnina sjálfa.

 

EGG: Jaaá já, nei ekkert svoleiðis sko.

 

SG: En, já, var æft fyrir fermingar athöfnina?

 

EGG: Já.

 

SG: Hvar og hvernig fór það fram?

EGG: Það var í kirkjunni og hérna, við sem sagt, við hérna komum og sem sagt okkur var sýnt hvernig við áttum að sitja, fyrir og eftir fermingu [...] og hérna, og hvernig þetta myndi fara allt fram og svo vorum við sem sagt látin fara upp að altarinu og, sem sagt, raða okkur eins og það færi fram. Og svo, hérna, var okkur sýnt hvernig við ættum að gera, til dæmis í altarisgöngunni, og svo var, þú veist, lesin upphafs- og lokabæn.

 

SG: Voru foreldrar viðstaddir þessar æfingar?

 

EGG: Nei.

 

SG: Fékkstu ný föt fyrir ferminguna?

 

EGG: Já.

 

SG: Hvernig föt?

 

EGG: Jakkaföt

 

SG: Valdirðu þau sjálfur eða var þér sagt hvernig þau ættu að vera?

 

EGG: Ég valdi þau sjálfur.

 

SG: Voru þau valin samkvæmt ákveðinni hefð eða nýjustu tísku?

 

EGG: Mér bara fundust þetta flottustu fötin þarna.

 

SG: Já, sem sagt meira eftir þínu höfði frekar en einhverjum...

 

EGG: Já.

 

SG: Einhverjum tískustraumum?

 

EGG: Já.

 

SG: Finnst þér það skipta máli að fá ný föt fyrir fermingardaginn?

 

EGG: Það skiptir svo sem engu máli þannig séð, en það bara svona, skapast þannig hefð.

 

SG: Já. Veistu hvað það er algengt að fermingarbörn fái ný föt?

 

EGG: Ha?

 

SG: Veistu hvað það er algengt að fermingarbörn fái ný föt fyrir ferminguna?

 

EGG: Ég held það sé algilt.

 

SG: Já. Veistu af hverju þetta er svona?

 

EGG: Nei...

 

SG: Hefurðu einhverja hugmynd um af hverju?

 

EGG: Nei, eiginlega ekki.

 

SG: Hvernig voru fermingarsystkini þín klædd?

 

EGG: Uuu, strákarnir voru í jakkafötum og stelpurnar voru í einhverjum kjólum.

 

SG: Allir strákarnir í jakkafötum?

 

EGG: Já.

 

SG: Varstu í fermingarkirtli?

 

EGG: Já.

 

SG: Hvað finnst þér um þessa kirtla?

 

EGG: Mér finnast þeir bara partur af þessu.

 

SG: Var einhver sem að þú fermdist með sem að var ekki í kirtli?

 

EGG: Nei.

 

SG: Það hefur kannski alls ekkert staðið til boða?

 

EGG: Nei.

 

SG: Geturðu sagt mér aðeins frá fermingarathöfninni? Hvernig hún fór fram?

 

EGG: Öö, við sem sagt löbbuðum inn í kirkjuna og settumst, svo var lesin upphafsbæn, sem að, það var einhver stelpa sem las hana og svo, sem sagt, voru strákarnir fermdir, svo var eitthvað aðeins á milli, svo voru stelpurnar fermdar svo var eitthvað aðeins á milli, svo var altarisganga minnir mig. Og já, þetta er held ég nokkurn veginn hvernig hún fór fram.

 

SG: Þegar þið genguð inn í kirkjuna, komu þið inn í svona einhverskonar skrúðgöngu?

 

EGG: Nei, við komum bara í, sem sagt, það var sko, presturinn var fremstur svo vorum við í tvöfaldri röð, sem sagt, stelpurnar voru vinstramegin og strákarnir hægramegin.

 

SG: Svona nokkurs konar skrúðganga?

 

EGG: Jaá, það má orða það þannig.

 

SG: Fóru allir í þinni fjölskyldu í kirkjuna?

 

EGG: Já.

 

SG: Hverjir... Eða já, sem sagt, hverjir voru?

 

EGG: Mamma og pabbi, og systkinin mín og svo hérna, amma og afi og amma.

 

SG: Voru teknar myndir á meðan að fermingarathöfninni stóð?

 

EGG: Já.

 

SG: En á eftir henni?

 

EGG: Já.

 

SG: Voru teknar einstaklingsmyndir eða hópmyndir?

 

EGG: Það var tekin hópmynd af, sem sagt, fermingarbörnunum.

 

SG: Hverjir tóku þessar myndir? Var einhver fjölskyldumeðlimur eða ljósmyndari?

 

EGG: Það var ljósmyndari.

 

SG: Máttu fjölskyldumeðlimir taka myndir í athöfninni sjálfri?

 

EGG: Já.

 

SG: Og var það gert?

 

EGG: Já.

 

SG: Fórstu til ljósmyndara á undan eða eftir fermingarathöfninni?

 

EGG: Eftir

 

SG: Veistu hvort að fleiri gerðu það?

 

EGG: Já, eflaust. Ég reyndar þekki nokkra sem fóru fyrir fermingu.

 

SG: Heldurðu að það hafi nánast allir farið í myndatöku eftir, eða einhversstaðar í kringum ferminguna?

 

EGG: Já mér finnst það mjög líklegt.

SG: Það var fermingarveisla var það ekki?

 

EGG: Jú jú.

 

SG: Viltu segja mér eitthvað frá henni?

 

EGG: Það var bara svona matur, eða svona hlaðborð, eitthvað, með svona smáréttum og svo voru kökur.

 

SG: Hverjum var boðið í veisluna?

 

EGG: Bara fjölskyldu og nokkrum vinum mínum.

 

SG: Þegar þú segir fjölskyldu, geturðu skýrt það eitthvað aðeins nánar?

 

EGG: Ööö...

 

SG: Voru dregin einhver mörk við einhverja...

 

EGG: Jaá...

 

SG: ... x marga ættliði í burtu?

 

EGG: Já, ég reyndar var ekki mikið, sem sagt, hafði lítið að gera með hverjum var boðið.

 

SG: Var prestinum boðið?

 

EGG: Nei.

 

SG: Hvers vegna léstu ferma þig?

 

EGG: Til  að staðfesta skýrnina.

 

SG: Var það alveg þín ákvörðun eða vildu foreldrar þínir það?

 

EGG: Ég vildi gera það.

 

SG: Alveg þín ákvörðun?

 

EGG: Já.

 

SG: Hvað hafa margir í þinni fjölskyldu látið ferma sig? Sem sagt, foreldrar, systkini, frændur, frænkur...?

 

EGG: Allir held ég.

 

SG: Þú veist ekki um neinn sem hefur ekki gert það?

 

EGG: Nei, það held ég ekki.

 

SG: Létu allir í þínum bekk ferma sig?

 

EGG: Nei, eða sem sagt, ekki sem sagt kirkjulega. Það voru, það var einn í bekknum mínum sem lét ferma sig borgaralega.

 

SG: Af hverju gerði hann það?

 

EGG: Vegna trúleysis held ég.

 

SG: Hvort finnst þér að þú hafir fermst frekar af trúarlegum ástæðum eða vegna þess að það var siður og að flestir aðrir gerðu það?

 

EGG: Trúarlegum ástæðum, eða svona sitt lítið af hvoru.

 

SG: En þín ferming var kirkjuleg, sem sagt?

 

EGG: Já.

 

SG: Hvaða trúfélagi tilheyrirðu?

 

EGG: Ég er bara, íslensku þjóðkirkjunni.

 

SG: Hvað finnst þér um þína eigin fermingu? Hvað var skemmtilegast við hana, var eitthvað sem var ekki skemmtilegt og hvað þá

 

EGG: Það var náttúrulega, sem sagt, til dæmis að fá gjafir, það var voðalega gaman, og hérna bara þú veist, vera í veislunni, það var voðalega gaman, vera svona miðpunktur athyglinnar. Svo var náttúrulega líka þessi undirbúningur, hann var voðalega leiðinlegur... Og já, þetta er svona held ég allt.

 

SG: Hvaða máli skipta fermingagjafir? Eru þær, sem sagt, algjörlega ómissandi og mjög mikilvægar eða skipta þær engu máli?

 

EGG: Ég bara... Þær náttúrulega, það náttúrulega er siður að gefa fermingarbarni eitthvað. En ég reyndar, það er náttúrulega engin þörf þannig séð.

 

SG: Nei. Hvað fékkst þú í fermingargjöf?

 

EGG: Uuu, aðallega peninga.

 

SG: Hversu mikið af þeim?

 

EGG: 220.000 krónur.

 

SG: Fannst þér það vera mátulegt, of lítið, of mikið?

 

EGG: Mér fannst það bara fínt sko.

 

SG: Veistu hvað aðrir af þínum bekkjarsystkinum eða fermingarsystkinum fengu í fermingargjöf?        

 

EGG: Ööö, margir vinir mínir fengu tölvu. Og svo fengu flestir bara peninga sko, að ég held.

 

SG: Veistu til þess að einhverjir hafi fengið það sem mætti kalla, stórgjafir? Einhverjar virkilega stórar, stóar og flottar fermingargjafir?

 

EGG: Já ég veit um einn sem að fékk krossara[1] og svo annar sem að sem sagt, fékk sem sagt, að hérna, að sem sagt, búið að borga fyrir hann bíl. Það er bara reddí þegar hann fær sem sagt bílpróf þá á hann bíl.

 

SG: Hvað myndi svona að þínu mati teljast vera stór gjöf?

 

EGG: Ööö, ég bara veit það ekki. Til dæmis bíll, mér finnst það mjög stór gjöf.

 

SG: Og eru svona stórar algengar svo þú vitir til?

 

EGG: Nei ég held ekki sko.

 

SG: Hvað, ef þú ættir að setja tölu á það, hvað þætti þér eðlileg upphæð að eyða í fermingargjöf? Eða mátuleg upphæð skulum við segja frekar?

 

EGG: Það náttúrulega fer eftir því hvað þú ert náinn fermingarbarninu.

 

SG: Segjum foreldri til dæmis?

 

EGG: Svona 50.000 krónur myndi ég segja.

 

SG: Og það væri bara mjög gott?

 

EGG: Já.

 

SG: Hverjar voru svona vinsælustu gjafirnar sem að krakkar voru að fá þegar þú fermdist?

 

EGG: Tölvur. Og hérna, já.

 

SG: Tölvur hafa verið vinsælastar?

 

EGG: Já ég er ekki frá því.

 

SG: Tókstu eftir því eða tókstu jafnvel þátt í einhverskonar samkeppni eða samanburði um það hver fengi mest í fermingargjöf?

 

EGG: Neei. Náttúrulega sko, þegar maður var að tala við vini sína og þeir kannski sögðu að þeir hefðu fengið 210.00 þá náttúrulega fór ég að monta mig af því að ég hefði fengið þú veist 10.000 krónum meira. Það var bara það sko.

 

SG: Kannski meira svona í gamni heldur en einhverju öðru?

 

EGG: Já.

 

SG: Þið hafið ekki verið að metast um það svona í einhverri alvöru?

 

EGG: Neei.

 

SG: Enginn svona að monta sig af því að hann hafi fengið mikið meira heldur en allir aðrir?

 

EGG: Það eru náttúrulega alltaf nokkrir svoleiðis en ég varð ekki var við það.

 

SG: Eitthvað svona um fermingu og svona í kringum það sem þú vilt bæta við? Svona almennt bara?

 

EGG: Nei ég held ekki.

 

SG: Þá þakka ég bara kærlega fyrir.

 

EGG: Já takk sömuleiðis.    

 

 

 

 

 

  

 [1] Torfærumótorhjól


Kafli 1 af 7 - Undirbúningur

Hvers vegna gekkst þú undir fermingu/ungmennavígslu? Var það þín ákvörðun, vilji foreldra þinna, hefð eða hugsanlega eitthvað annað?
Hvort var þín ferming/ungmennavígsla kirkjuleg eða borgaraleg?
Hvaða trúfélagi eða söfnuði/hópi tilheyrir þú?
Hvað varstu gamall/gömul/gamalt þegar þú varst fermd/-ur/-t eða tókst ungmennavígslu?
Á hvaða tíma árs fór fermingin/ungmennavígslan fram? Hvað réði valinu á þessari tímasetningu?
Hvernig var undirbúningi fyrir fermingu/ungmennavígslu þína háttað? Hver annaðist t.d. fræðslu eða námskeið og hvar og hvenær var það haldið? Þurfti að skrá sig á það? Var hægt að velja um mismunandi leiðir í fræðslunni?
Hvaða námsefni eða námsgögn voru notuð?
Hvað þurfti að kunna utanbókar (sálma, ritningargreinar t.d.)? Var próf/ könnun, skrifleg eða munnleg? Er þér kunnugt um að einhverjir hafi þurft að endurtaka prófið?
Var ætlast til þess að þú mættir í messur eða á trúarsamkomur meðan á undirbúningi fermingar/ungmennavígslu stóð? Hvernig var fylgst með mætingunni?
Tók fjölskylda þín þátt í undirbúningnum? Á hvaða hátt, ef svo var?
Var æft fyrir fermingarathöfnina/ungmennavígsluna? Hvar og hvernig fór æfingin fram? Hverjir voru viðstaddir?

Kafli 2 af 7 - Fatnaður, útlit

Fékkst þú ný föt fyrir ferminguna/ungmennavígsluna? Hvernig föt? Voru þau valin samkvæmt ákveðinni hefð, eftir nýjustu tísku eða einhverju öðru? Hvað hafðir þú mikið að segja varðandi val á þessum fötum?
Gerðir þú einhverjar breytingar á útliti þínu fyrir ferminguna/ungmennavígsluna (brúnkumeðferð, hárgreiðsla, klipping, líkamsrækt t.d.)?
Hvaða máli skipti það fyrir þig að fá ný föt í tilefni af fermingunni/ungmennavígslunni?
Varst þú í kyrtli eða hliðstæðum klæðnaði við athöfnina? Hvað fannst þér um það? Var einhver sem ekki var í þannig klæðum?
Hversu algengt var að ungmennin væru með sálmabók við athöfnina og stúlkur með hanska?

Kafli 3 af 7 - Athöfnin

Getur þú sagt frá sjálfri fermingarathöfninni/ungmennavígslunni, hvar og hvernig hún fór fram?
Hverjir úr þinni fjölskyldu eða vinahópi komu á athöfnina? Voru einhverjar leiðbeiningar um hverjir máttu vera viðstaddir og ef svo er hvaða?
Voru teknar ljósmyndir/vídeómyndir meðan á athöfninni stóð eða á eftir henni? Hverjir tóku þessar myndir? Fórst þú til ljósmyndara í tengslum við ferminguna/ungmennavígsluna?
Voru einhverjir í þinni fjölskyldu eða skóla sem ekki létu ferma sig eða tóku ekki ungmennavígslu? Af hverju, ef svo er?
Hvaða breytingar hafa orðið á athöfninni frá því á þínum tíma, t.d. miðað við þín eigin börn?

Kafli 4 af 7 - Veisla

Var haldin veisla? Getur þú sagt frá henni? Hvaða veitingar voru t.d. á boðstólum, voru einhver skemmtiatriði, tónlist eða ræður? Hvert var þitt hlutverk?
Hvernig var staðið að undirbúningi á veislunni? Hvert var þitt hlutverk?
Hverjum var boðið í veisluna? Hvernig var staðið að vali á boðsgestum? Var prestinum eða þeim sem framkvæmdi athöfnina boðið? Hverjir mættu ekki af þeim sem boðið var í veisluna?
Þekktist að ekki væri haldin veisla? Í hvaða tilvikum helst?

Kafli 5 af 7 - Gjafir

Hvaða gjafir fékkst þú í tilefni af fermingunni/ungmennavígslunni?
Þekktir þú stórgjafir? Hvað telst vera stórgjöf og hversu algengar voru þær að þínu mati?
Voru gefnar sérstakar tegundir af gjöfum? Hvers konar gjafir, ef svo er? Hvað voru vinsælustu gjafirnar, og skipti máli af hvaða kyni ungmennið var?
Hvaða máli finnst þér að gjafirnar hafi skipt? Voru þær t.d. ómissandi, mikilvægar eða kannski alls ekki?
Fannst þér að það hafi verið einhver metingur eða samanburður um hver fengi mestar gjafir? Geturðu sagt frá þessu, ef svo er?
Fékkst þú heillaóskaskeyti eða kort? Vissir þú til þess að aðrir fengju þau? Var það algengt/sjaldgæft?

Kafli 6 af 7 - Viðhorf

Hvaða þýðingu hafði fermingin/ungmennavígslan fyrir þig? Hvert fannst þér t.d. vera inntak hennar og tilgangur? Hvort var hún þér fremur trúarleg eða veraldleg upplifun?
Hvernig líkaði þér við prestinn eða þann sem að sá um athöfnina? Hafði hann mikil/lítil áhrif á lífsviðhorf þitt, bæði þá og seinna á ævinni?
Hvað fannst þér um þína eigin fermingu/ungmennavígslu? Var hún þér minnisstæð? Hvað var ánægjulegast við hana? Var eitthvað sem var síður skemmtilegt? Hvað, ef svo er?
Varst þú litin/-nn/-ð öðrum augum eftir ferminguna/ungmennavígsluna? Hvernig lýsti það sér, ef svo var?
Hvaða aðrar breytingar urðu á lífi þínu eftir ferminguna/ungmennavígsluna? Fannst þér t.d. að þú stæðir á tímamótum?

Kafli 7 af 7 - Fermingarbarnamót

Hefur þú tekið þátt í fermingarbarnamóti? Hvenær fóru þau að tíðkast? Hvað er gert og af hvaða tilefni eru slík mót haldin?

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana