LeitaVinsamlega sýnið biðlund
ListamaðurLibia Castro 1970-, Ólafur Árni Ólafsson 1973-
VerkheitiStjórnarskrá Lýðveldisins Íslands
Ártal2008

GreinNýir miðlar - Hljóðverk
Stærð31,5 x 31,5 cm
Tímalengd00:40:
Eintak/Upplag1/1
EfnisinntakStjórnarskrá, Stjórnmál

Nánari upplýsingar

NúmerHb-1431
AðalskráMyndlist/Hönnun
UndirskráHeildarsafn

Aðferð Lakkplata
HöfundarétturLibia Castro 1970-, Ólafur Árni Ólafsson 1973-

Lýsing

Höfundar verksins eru Libia Castro og Ólafur Ólafsson. Upphaf þess má rekja til ársins 2007 er þau fengu til liðs við sig Karólínu Eiríksdóttur tónskáld og fóru þess á leit við hana að hún semdi tónverk við 81 grein stjórnarskrár Íslands. Jafnframt leituðu þau eftir samstarfi við Sjónvarpið um mitt síðasta ár um upptöku og útsendingu verksins. Verkið vekur spurningar um form og  hugtök á vettvangi myndlistar annars vegar og samstarf, mörk og blöndun listmiðla hins vegar. Sem heild rannsakar það ólík rými og merkingu þeirra í samfélagi okkar, um leið og það er innlegg í þá umræðu sem fram fer í þjóðfélaginu um stjórnarskrána sem undirstöðu þess. Þjóðin fær hér tækifæri til að kynna sér innihald þessa umdeilda skjals með gleraugum listarinnar, en einnig að velta fyrir sér formrænum og hugmyndalegum möguleikum listarinnar með gleraugum grunnlagasetningar samfélagsins. Þannig verður þjóðin þátttakandi fremur en áhorfandi í verki sem teygir sig út fyrir hinn hefðbundna vettvang listarinnar, ekki einungis í efnistökum, heldur einnig og ekki síst, í framkvæmd og framsetningu.

Eftir að ákveðið var að taka verkið til sýningar í Hafnarborg var tímasetning stjórnlagaþings fastsett og ákváðu listamenn og aðstandendur sýningarinnar að tengja hana við setningu stjórnlagaþings um miðjan febrúar. Þó aðstæður séu nú breyttar er verkið eftir sem áður, og jafnvel enn frekar, mikilvægt innlegg í umræðuna um eðli og inntak núverandi stjórnarskrár. Verkið var fyrst flutt á Akureyri árið 2008 þegar þetta grundvallarskjal samfélagsins var ekki í sömu eldlínu og nú er, en var listamönnunum þá þegar efniviður í þeirri viðleitni að afhjúpa og velta upp spurningum um innviði eða burðarvirki samfélagsins.
Tónlist Karólínu við þurran lagatexta stjórnarskrárinnar er einstök og hlaut tilnefningu til hinna íslensku tónlistarverðlauna árið 2008. Verkið er flutt af kammerkórnum Hymnodiu undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar ásamt einsöngvurunum Ingibjörgu Guðjónsdóttur sópran og Bergþóri Pálssyni baritón, Tinnu Þorsteinsdóttur píanóleikara og Gunnlaugi Torfa Stefánssyni kontrabassaleikara. Sýningarstjóri er Hanna Styrmisdóttir.

Libia Castro  og Ólafur Ólafsson hafa starfað saman frá árinu 1997 og eru þekkt fyrir verk sem einkennast af opnum og gagnrýnum vinnubrögðum  þar sem listamennirnir takast á við spurningar úr samtímanum, greina þær og setja fram í listrænni útfærslu. Þau fást einkum við þær breytingar sem orðið hafa á samfélögum í kjölfar vaxandi alþjóðavæðingar og menningarlegrar blöndunar, og þau flóknu tengsl sem af þessu spretta. Þau vinna ætíð saman og eru sem slík alltaf utanaðkomandi á einhvern hátt – Ólafur frá Hafnarfirði en Libia frá Madrid á Spáni. Þau hafa tekið þátt í fjölda sýninga og unnið verk í tengslum við virta sýningarstaði víða um heim m.a. Evróputvíæringinn Manifesta 7 árið 2008. Þau hafa verið valin til að vera fulltrúar Íslands á Tvíæringnum í Feneyjum 2011.

Karólína Eiríksdóttir hefur samið tónsmíðar af ýmsum toga, þar á meðal óperur, hljómsveitarverk, einleikskonserta, kammer- og einleiksverk, sönglagaflokka, kórtónlist og tölvutónlist. Af nýlegum verkum má nefna óperuna Skuggaleik, Konsert fyrir tvær flautur og hljómsveit, , tónlist við myndverk Ólafs og Libiu, Caregivers, Sýsl á víxl fyrir píanó og marimbu og Tríó samið í tilefni afmælis Tríós Reykjavíkur og frumflutt í Hafnarborg síðastliðið vor. (Fréttatilkynning frá Hafnarborg vegna sýningar og gjörnings Ólafs og Libiu Pérez de Castro 2011.)


Sýningartexti

„Libia Castro & Ólafur Ólafsson tóku fyrst að velta fyrir sér íslensku stjórnarskránni sem viðfangsefni árið 2007. Það má líta á það sem eðlilegt framhald af verkinu Ó, heilaga tímanna þúsund! (2005-2006) þar sem söngvari stendur á markaðstorgi og syngur endurskoðaða (afbyggða) útgáfu af íslenska þjóðsöngnum. Það má einnig líta á það sem eðlilegt framhald af verkum þeirra almennt; staðfastri viðleitni þeirra til að fara út fyrir hefðbundin, fagurfræðileg viðmið og leita nýrra leiða til að rannsaka og hreyfa við samfélaginu sem þau eru hluti af. Þau skilgreina verk sín meðal annars sem samfélagslega skúlptúra og vísa þar til hugmynda Josephs Beuys (1921-1986) sem taldi að hinn endanlegi tilgangur listarinnar væri lýðræðisvæðing samfélagsins. [1] Snar þáttur í þeim róttæku hugmyndum var umbreyting hins hefðbundna áhorfanda í þátttakanda.

 

Síðla árs 2007 fóru Libia & Ólafur þess á leit við Karólínu Eiríksdóttur að hún semdi tónverk þar sem allar greinar stjórnarskrárinnar væru sungnar. Afraksturinn er verk í eins konar kantötuformi þar sem skiptast á einsöngskaflar og kórkaflar. Í stað hefðbundinna, lýrískra söngtexta sem veita gjarnan innblástur við tónsmíðina, kemur hinn þurri og lítt stemmningsgefandi lagatexti. Það gaf Karólínu þó einmitt fjálsari hendur hvað varðar stíl og tónsmíðaðferðir. Blæbrigði tónlistarinnar undirstrika lagatextann með þeim hætti að það er óhjákvæmilegt að velta merkingu hans fyrir sér, jafnt hinni bókstaflegu merkingu textans, sem hinni táknrænu merkingu stjórnarskrárinnar sem slíkrar.”[1] Eleanor Heartney: Art Today, bls 403, Phaidon, 2008

(Hanna Styrmisdóttir, brot úr texta með sýningu Ólafs og Libiu í Hafnarborg, 2011)

„Libia Castro & Ólafur Ólafsson tóku fyrst að velta fyrir sér íslensku stjórnarskránni sem viðfangsefni árið 2007. Það má líta á það sem eðlilegt framhald af verkinu Ó, heilaga tímanna þúsund! (2005-2006) þar sem söngvari stendur á markaðstorgi og syngur endurskoðaða (afbyggða) útgáfu af íslenska þjóðsöngnum. Það má einnig líta á það sem eðlilegt framhald af verkum þeirra almennt; staðfastri viðleitni þeirra til að fara út fyrir hefðbundin, fagurfræðileg viðmið og leita nýrra leiða til að rannsaka og hreyfa við samfélaginu sem þau eru hluti af. Þau skilgreina verk sín meðal annars sem samfélagslega skúlptúra og vísa þar til hugmynda Josephs Beuys (1921-1986) sem taldi að hinn endanlegi tilgangur listarinnar væri lýðræðisvæðing samfélagsins. [1] Snar þáttur í þeim róttæku hugmyndum var umbreyting hins hefðbundna áhorfanda í þátttakanda.

 

Síðla árs 2007 fóru Libia & Ólafur þess á leit við Karólínu Eiríksdóttur að hún semdi tónverk þar sem allar greinar stjórnarskrárinnar væru sungnar. Afraksturinn er verk í eins konar kantötuformi þar sem skiptast á einsöngskaflar og kórkaflar. Í stað hefðbundinna, lýrískra söngtexta sem veita gjarnan innblástur við tónsmíðina, kemur hinn þurri og lítt stemmningsgefandi lagatexti. Það gaf Karólínu þó einmitt fjálsari hendur hvað varðar stíl og tónsmíðaðferðir. Blæbrigði tónlistarinnar undirstrika lagatextann með þeim hætti að það er óhjákvæmilegt að velta merkingu hans fyrir sér, jafnt hinni bókstaflegu merkingu textans, sem hinni táknrænu merkingu stjórnarskrárinnar sem slíkrar.”[1] Eleanor Heartney: Art Today, bls 403, Phaidon, 2008

(Hanna Styrmisdóttir, brot úr texta með sýningu Ólafs og Libiu í Hafnarborg, 2011)

Þetta listaverk er í safneign Hafnarborgar – menningar- og listastofnunar Hafnarfjarðar. Safneignin telur yfir 1500 verk, er þetta er skrifað. Í skráningunni er verkunum skipt í fjóra flokka sem eru: almenn listaverkaskrá, stofngjöf, verk Eiríks Smith og útilistaverk í Hafnarfirði. Ekki eru til birtingarhæfar ljósmyndir af öllum verkum, þó unnið sé að úrbætum í þeim efnum.

Afrit af safnkosti þeim er hér er birtur felur í sér höfundaréttarvarið efni en birtingin fer fram á grundvelli samningskvaðasamnings á milli Myndstefs og safnsins. Samningurinn veitir enn fremur leyfi til endurnotkunar verkanna til einkanota og í kennslu- eða í fræðsluskyni. Öll önnur endurbirting eða eintakagerð er óheimil. Ef spurningar vakna um forsendur samningskvaðasamningsins, eða ef einstaka höfundur vill ekki heimila notkun verka sinna undir ofangreindum skilmálum, skal hafa samband við Myndstef (myndstef@myndstef.is).


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.