LeitaVinsamlega sýnið biðlund
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar

 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


HeitiSkauttreyja
Ártal1850-1900

StaðurSteinnes
ByggðaheitiÞing
Sveitarfélag 1950Sveinsstaðahreppur
Núv. sveitarfélagHúnavatnshreppur
SýslaA-Húnavatnssýsla
LandÍsland

Hlutinn gerðiSigurlaug Gunnarsdóttir, Ingibjörg Gunnarsdóttir
NotandiIngibjörg Guðmundsdóttir 1867-1916

Nánari upplýsingar

Númer7232/1916-171
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá, Munasafn
Stærð36,5 cm
EfniKlæði
TækniSaumur

Lýsing

Úr aðfangabók:
Skauttreyja úr svörtu klæði, fóðruð með þykku, bláu, hvítröndóttu ljerepti um bolinn og hvítu ljerepti í ermum, baldýruð dável um hálsinn og að framan með gullvír og silfurvír, lögð um handvegi og á öxlum og baki svörtum flujelsrósaborðum og silfurvírsstímum á jöðrum þeirra.  Fremst á ermum er svart flujel og vírstímur á efst.  Krækt upp í háls að framan.  L. í miðju baki 36,5 cm.; vídd að neðan 30 + (2x20) = 70 cm.  Innaná hálsmálið og ofanvið það er fest hvítu hálslíni, ryktu í fellingar.  Hálsmálið er 43 cm., en barmarnir 27,5 cm.  Sbr. lýsingar næstu nr.

Út Gersemar og þarfaþing:  (Texti eftir Elsu E. Guðjónsson)
„Skautbúningur er mesti viðhafnarbúningur íslenskra kvenna.  Hann dregur nafn af höfuðbúnaðinum sem við hann er borinn, skautinu, skautafaldinum, sem þó oftast er nefndur faldur.  
   Upphaf skautbúningsins má rekja til ársins 1857 þegar út kom löng gagnrýnin ritgerð um íslenska kvenbúninga eftir Sigurð Guðmundsson málara (1833-1874).  Setti hann þar fram tillögur um breytingar á eldra hátíðabúningi kvenna, faldbúningnum eins og hann var venjulega nefndur.  Féllu breytingartillögur þessar í góðan jarðveg; lét Sigurður enda ekki sitja við orðin tóm heldur hjálpaði konum um myndir, snið og munstur og sagði fyrir um hvernig búningurinn ætti að vera í öllum smáatriðum.  Var fyrsti skautbúningurinn borinn sem brúðarbúningur í Reykjavík þegar árið 1859.
  Rúmu hálfu ári síðar, 19. júní 1860, kom norðlensk kona, Sigurlaug Gunnarsdóttir, eiginkona Ólafs Sigurðssonar í Ási í Hegranesi, frænda Sigurðar, fyrst kvenna í Skagafirði fram í þessum nýja, breytta búningi.  Lýsir Ólafur þessum atburði í bréfi til Sigurðar tveimur dögum síðar.  Átti hann sér stað í brúðkaupi séra Davíðs Guðmundssonar, og virðist brúðguminn hafa fært Sigurlaugu tilbúinn fald að sunnan frá Sigurði.  En búninginn, þ.e. treyjuna og samfelluna, hafði hún unnið um veturinn að mestu eftir fyrirsögnum og uppdráttum Sigurðar í bréfum til Ólafs.  Eru bréf Ólafs flest í eigu Þjóðminjasafns Íslands, en uppdrættir og bréf Sigurðar glötuð nema teikning af stúlku í nýja búningnum - aðeins að hluta að vísu - sem Sigurður hafði sent Ólafi að hann mætti gera sér grein fyrir útliti hans.  Eitt þeirra munstra sem Sigurður kenndi við Býsans er neðan  á samfellunni, saumað með blómstursaumi með mislitu ullargarni, og einnig hefur varðveist í safninu útsaumuð klæðispjatla sem Sigurlaug sendi Sigurði með einu bréfi Ólafs, sem sýnishorn af saumnum (Þjms. 1990).  Einfaldur, ónafngreindur laufaviður er á ólögðum treyjubörmum, baldýraður með hvítum vírþræði.  Bæði treyja og samfella eru úr svörtu klæði.
  Þessi búningur Sigurlaugar sem kom til Þjóðminjasafnsins 1916 úr dánarbúi Ingibjargar Guðmundsdóttur (f 1867, g. 1916), konu Bjarna prests í Steinnesi, Pálssonar, er sá elsti með lagi Sigurðar sem enn er til svo vitað sé.  Ingibjörg hafði alist upp í Ási, og er því nærtækt að ætla að Sigurlaug hafi gefið henni búninginn, t.d. fyrir brúðarbúning.  Sigurlaug saumaði síðan fleiri búninga; einn þeirra 1864-1865, með tveimur blómabekkjum Sigurðar, baldýruðu hrútaberjalyngi á treyjubörmum og skatteraðri melasól á samfellu, hefur varðveist hjá fkomendum hennar.
  Sigurður hannaði einnig ermalausa yfirhöfn, möttul, við búninginn og útsaumsmunstur á hann.  Saumaði Sigurlaug möttla með báðum fyrrnefndum búningum, þann fyrr á árunum 1861-1862.  Hann er úr svörtu klæði og blómstursaumur eftir býsönskum uppdrætti Sigurðar er meðfram brúnum hans í sömu litbrigðum og á samfellunni
  Skautbúningnum fylgdu ennfremur skaut (faldhúfa), faldbæja og tvö koffur, en ekki belti.  Beltið með búningnum hér, vandað gyllt sprotabelti með kornsettu víravirki (Þjms. 1962:38), var einnig upprunalega í eigu skagfirskrar konu og er að líkindum ekki mikið yngra en búningur Sigurlaugar“
Munir nr. 7233 og 7234, samfella (pils) og möttull, eiga við treyjuna nr. 7232.
(Sett inn af Sigrúnu Blöndal, 25.8.2010)


Sýningartexti

Skauttreyja úr svörtu klæði, baldýruð um hálsinn og á jöðrunum að framan með gullvír og silfurvír og lögð svörtum flauelsrósaborðum og silfurvírsstímum á jöðrum. Fremst á ermum er svart flauel og vírstímur efst. Treyjan er hluti af skautbúningi sem systurnar Ingibjörg og Sigurlaug  Gunnarsdætur í Ási í Hegranesi saumuðu fyrir Ingibjörgu Pálsdóttur prestsfrú í Steinnesi eftir hugmyndum og teikningu Sigurðar málara Guðmundssonar og nefndur var nýi skautbúningurinn. Hann útrýmdi gamla skautbúningnum á skömmum tíma.
7232


Skauttreyja úr svörtu klæði, baldýruð um hálsinn og á jöðrunum að framan með gullvír og silfurvír og lögð svörtum flauelsrósaborðum og silfurvírsstímum á jöðrum. Fremst á ermum er svart flauel og vírstímur efst. Treyjan er hluti af  búningnum sem kom til eftir miðja 19. öld eftir hugmyndum og teikningu Sigurðar málara Guðmundssonar og nefndur var nýi skautbúningurinn. Hann útrýmndi gamla skautbúningnum á skömmum tíma.
7232

Spjaldtexti:
Skautbúningur Sigurlaugar í Ási frá 1860
Sigurður Guðmundsson málari hafði mikinn áhuga á öllu því sem laut að íslenskri þjóðmenningu. Hann setti fram hugmyndir að endurbættum hátíðarbúningi kvenna. Náði skautbúningurinn svonefndi vinsældum á skömmum tíma og gamli faldbúnin  gurinn hvarf skjótt. Fyrsti skautbúningurinn var borinn sem brúðarbúningur í Reykjavík haustið 1859.
Meginhlutar skautbúnings voru treyja og samfella úr svörtu klæði. Á treyjunni var gull- eða silfurbaldýring, en á samfellunni neðst útsaumsbekkur. Belti var um mittið, gjarnan sprotabelti. Á höfði var hvítur lágur króklaga skautafaldur (skaut) með samlitri faldblæju og faldhnút. Með faldinum var haft gyllt koffur eða spöng. Búningnum gat fylgt möttull, fremur síð ermalaus yfirhöfn. Sigurður hannaði einnig kyrtil, sem var einfaldari búningur en skautbúningur. Við kyrtilinn var borinn skautafaldur. Búningar Sigurðar eru notaðir enn í dag sem viðhafnarbúningar. Skautbúninginn saumaði sér Sigurlaug Gunnarsdóttir í Ási í Hegranesi vorið 1860 eftir leiðbeiningum Sigurðar málara. Búningurinn er úr svörtu klæði með einföldum baldýruðum laufaviði úr silfurþræði á treyjubörmunum, en neðan á samfellunni er blómstursaumaður bekkur sem Sigurður teiknaði. Þetta er elsti varðveitti skautbúningur sem um er vitað. Koffrið er smíðað af Sigurði Vigfússyni gullsmiði og síðar forstöðumanni Forngripasafnsins en beltið er eftir óþekktan smið.

Skautbúningur Costume from 1860
Sigurður Guðmundsson the Painter was keenly interested in all aspects of Icelandic culture. He wished to improve the artisticeducation and taste of his fellow Icelanders, and he proposed improvements to women’s festive costume. The festive costume skautbúningur rapidly became popular, and the old faldbúningur disappeared. The first skautbúningur was worn as a wedding dress in Reykjavík in the autumn of 1859.
The main components of the skautbúningur are a black broadcloth jacket and skirt. The jacket has gold or silver embroidery, and at the hem of the skirt is an embroidered border. A belt was worn around the waist, usually a pendant belt. A low, white headdress shaped somewhat like a Phrygian cap, skautafaldur, is worn on the head with a veil and headdress bow of the same colour. A gilded fillet was worn with the headdress. The costume was sometimes worn with a long cloak, möttull. Sigurður also designed a simpler, lighter, formal costume, the kirtle, kyrtill, which was worn with the same headdress as the skautbúningur. The costumes designed by Sigurður are still popular today as formal dress. This costume was made by Sigurlaug Gunnarsdóttir of Ás, Hegranes, North Iceland in 1860, following instructions from Sigurður the Painter. The costume is made of black broadclot


Heimildir

Elsa E. Guðjónsson. „Sigurður málari og íslenzki kvenbúningurinn.“ 19. júní. Reykjavík 1958, bls. 13-18.
Elsa E. Guðjónsson: Íslenzkir þjóðbúningar kvenna frá 16. öld til vorra daga. Reykjavík 1969, bls. 34-62.
Elsa E. Guðjónsson. Íslenskur útsaumur. Reykjavík 1985.
Elsa E. Guðjónsson. „Til gagns og fegurðar. Sitthvað um störf Sigurðar málara Guðmundssonar.“ Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands 1988, bls. 26-31.
Elsa E. Guðjónsson. „Skautbúningur Sigurlaugar í Ási.“ Gersemar og þarfaþing. Reykjavík 1994, bls. 118-119.
„Fyrsti kvenbúningurinn eftir teikningu Sigurðar málara.“ Tíminn. Sunnudagsblað. 30. júní 1973, 12:23:236 og forsíðumynd.
„Fyrsti skautbúningurinn saumaður eftir teikningu Sigurðar málara.“ Morgunblaðið, 6. ágúst 1982, bls. 48.
Guðmundur Ólafsson. „Sigurlaug Gunnarsdóttir í Ási í Hegranesi.“ Hlín, 12, 1928, bls. 90-96.
Guðrún Gísladóttir. Um íslenzkan faldbúning með myndum eptir Sigurð málara Guðmundsson. Kaupmannahöfn 1878.
„Hundrað ára kvenfélag í Skagafirði.“ Morgunblaðið, 26. júlí 1969, bls. 5.
„Leiðrétting.“ Morgunblaðið, 11. ágúst 1982, bls. 7.
Sigurður Guðmundsson. „Um kvennbúnínga á Íslandi að fornu og nýju.“ Ný félagsrit 17, 1857, bls. 1-53.
Sigurður Guðmundsson. „Skáldskaprinn og kvennbúníngrinn íslenzki.“ Þjóðólfr, 13, 14. nóvember 1860, bls. 9-10.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana