LeitaVinsamlega sýnið biðlund
HeitiSverð
Ártal900-1000

StaðurHafurbjarnarstaðir
Sveitarfélag 1950Miðneshreppur
Núv. sveitarfélagSandgerðisbær
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland

GefandiSigurður Brynjúlfsson Sivertsen 1808-1887

Nánari upplýsingar

Númer559/1868-128
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá, Munir, Fundaskrá
Stærð81 cm
EfniSilfur
TækniSmelt

Lýsing

Úr aðfangabók:
Sverð silfursmelt með döggskó úr bronzi gylltum; hjöltin eru 4 2/8" 1) á lengd og breiðka lítið eitt til endanna, svo endarnir eru rúmur 1", en miðjan 5/8". Svo að segja öll hjöltin hafa verið þakin með silfri, sléttu um miðjuna, en í brúnirnar hafa verið smeltir ofan í járnið breiðir tvöfaldir snúníngar (eða fléttíngar?), sem liggja í beinni línu, en um miðjuna eptir endilaungu hjaltinu eru snúníngarnir lagðir í einskonar krákustíg ofan í járnið, en slétt silfur á milli snúnínganna; meðalkaflinn er 5 1/2" á lengd og rúmir 6/8" á breidd um miðjuna, en nokkuð breiðari til endanna, þar utan á hafa verið lagðar einskonar trékinnar, með tveimur rákum að endilaungu, og síðan er þar utan að allt vafið með snúnum og sléttum silfurþræði (vír), sem skiptist á í breiðum köflum. Efra hjaltið er eins lagað og hitt, en allt minna; það er 3" á lengd; aptan á því er stór hnappur, samsettur af samhliða þremur hnöppum, og er sá í miðjunni stærstur; allt efra hjaltið með hnöppunum hefir verið að mestu leyti hulið með sléttu silfri, og er víða þar á milli smelt inn í fléttíngum eða snúníngum úr silfri, er mynda einskonar hnúta-uppdrátt; á báða vegu, þar sem hnapparnir mætast, eru tveir silfursnúníngar. Brandurinn er 2 2/8" á breidd upp við hjöltin, og tvíeggjaður, hann virðist að hafa verið alveg sléttur og rákalaus, en þykkvastur í miðju, og þynnist jafnt út til beggja eggjanna. Döggskórinn er úr bronzi og hefir allur verið gylltur; hann er með gegnumhöggnu verki, á hann er myndaður ormur eða dreki, sem vindur sig í tvær bugður, að aptan hefir hann fót með kló og skrúflínu (spiral) á lærinu, og halann lagðan fram á milli fótanna. Utan um drekann vefja sig aptur tveir ormar, miklu minni og mjórri; allt þetta er mjög vel gjört. Sverðslíðrin hafa verið innst úr tré, síðan virðist hafa verið sett þar utan um gróft lérept eða strigi, með einskeptu vígindum (vend) og síðast leður? - Mikið vantar af fremra hluta brandsins, en sjálfur blóðrefillinn er innan í döggskónum, því sverðið hefir legið í slíðrunum.    
1) Merkið " ofan og aptan til við tölustafi merkir þumlúng.

 Úr Gersemar og þarfaþing: 22 - 23.  Texti eftir Kristínu Huld Sigurðardóttur.
Hafurbjarnarstaðasverðið er af svokallaðri S-gerð, þ.e. með beinum hjöltum, sem breikka til endanna og þrískiptum knappi.  Þessi tegund hefur fundist oft í Þrændalögum og Guðbrandsdal í Noregi en einnig í Englandi, Danmörku, Svíþjóð og svæðum í Austur-Evrópu þar sem sænskir víkingar fóru um.  Þessi gerð er talin vera frá 10.öld.  
„Í tengslum við rannsókn, sem gerð var á sverðum safnsins árið 1979, var sverðið röntgenmyndað og leiddi myndatakan í ljós leifar greyptrar málmskreytingar og ULFBERT- áletrunar ofarlega á brandinum.  Skreytingin hefst um 5,5, cm neðan við hjölt.  Áþekkar skreytingar eru á víkingasverðum frá Noregi, Finnlandi, Rússlandi og fleiri svæðum í Austur-Evrópu.  Ulfbert-áletranir hafa varðveist á bröndum sumra sverða sem varðveist hafa í Norður- og Austur-Evrópu og talin eru frá 9. -12. öld.  Uppruni brandanna er ókunnur.  Áletrun Hafurbjarnarstaðasverðsins hefst um 4, 0 cm neðan við hjöltin á gagnstæðri hlið brandsins við skreytinguna. ... Eftir uppgröftinn hófst málmtæring ...   Við það huldi ryð silfurskreytinguna þannig að einungis sáust silfurvírar sem vafið er utan um meðalkaflann.  Árið 1991 var sverðið forvarið.  Þá komu í ljós leifar skreytingar á hjöltum og þrískiptum knappinum.  Ekki er nægilegt eftir af henni til að hægt sé að ákvarða nákvæmlega hvernig upprunaleg skreyting var.  Þó sést að hjölt og knappur voru þakin silfri.  Á milli tungnanna þriggja sem mynda knappinn kom í ljós tvinnaður silfurvír.  Í knapp og efri og neðri hjölt hafa verið greyptir snúnir kopar- og silfurvírar sem mynda borða og hnútamynstur.  Það má glöggt ráða af leifunum sem varðveist hafa, þótt litlar séu, að skreytingin er dæmigerð fyrir Jalangursstíl 9. - 10. aldar rétt eins og sú á döggskónum.“     (Sett inn af Sigrúnu Blöndal, 11.8.2010)


Sýningartexti

Sverð frá 10. öld, úr kumlateig á Hafurbjarnarstöðum á Miðnesi, skammt norðan Sandgerðis. Sverðið hefur verið afarvandað, hjöltun silfurrekin, sverðsknappurinn þrískiptur og silfurvír vafið um meðalkaflann. Fremst á sverðsslíðrunum, sem hafa verið úr tré og smávegis leifar sjást af, er vandaður döggskór úr bronsi með gagnskornu verki, slöngulaga dýri í Jalangursstíl.
559

Sverð frá 10. öld, úr kumlateig nærri Sandgerði á Suð-Vesturlandi. Sverðið hefur verið afarvandað, hjöltin silfurrekin og knappurinn þrískiptur og fremst á slíðrunum, sem verið hafa úr tré og leifar sjást af, er vandaður döggskór úr bronsi með gagnskornu verki, slöngulaga dýri í Jalangursstíl.
559

Spjaldtexti:
Sverð frá lokum víkingaaldar  fannst í kumlateigi á Hafurbjarnarstöðum yst á Reykjanesi.

Sword from the late Viking Age is from a cluster of graves in the south west.


Heimildir

Kristín Huld Sigurðardóttir: „Haugfé. Gripir úr heiðnum gröfum.“ Hlutavelta tímans. Menningararfur á Þjóðminjasafni. Rvk. 2004, bls. 64-75, sverð 70-71.
Kristján Eldjárn: „Kumlateigur á Hafurbjarnarstöðum.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1943-1948. Rvk. bls. 108-122.
Sami: Kuml og haugfé. Rvk. 2000. Bls. 96, 324-325, 331-332.
Kristín Huld Sigurðardóttir: Gersemar og þarfaþing. Rvk. 1994. bls 22 - 23.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana