LeitaVinsamlega sýnið biðlund
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantarLandfræðileg staðsetning


HeitiMinningartafla
MyndefniFjölskylda, Sýslumaður
Ártal1768

StaðurKetilsstaðir 1
ByggðaheitiVellir
Sveitarfélag 1950Vallahreppur
Núv. sveitarfélagFljótsdalshérað
SýslaS-Múlasýsla
LandÍsland

Nánari upplýsingar

Númer12044/1936-146
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá, Munasafn
Stærð73 x 67 cm
EfniViður
TækniMálun

Lýsing

Minningartafla Péturs sýslumanns Þorsteinssonar og fjölskyldu hans, notuð sem altaristafla í kirkjunni á Ketisstöðum.  Taflan sjálf er olíumálverk á striga, 67 cm á breidd og 73 cm á hæð, í gylltum, strikuðum ramma, ca 3 cm breiðum.  Á málverkinu miðju er mynd að Kristi á krossinum, bein Adamas við fót krossins, en í baksýn sést Jerúsalem í fjarska.  Næstur kristi, til hægri handar honum, stendur Pétur sýslumaður, en út frá honum synir, hans, Guðmundur frumvaxta og Sigurður, barn að aldri.  Pétur er á grænum frakka og vesti, svörtum buxum, grænleitum sokkum og svörtum skóm með spennu.  Guðmundur er á rauðum frakka og vesti, en svartklæddur niðri um sig.  Sigurður er bláklæddur nema sokkarnir eru eins og á föður hans.  Allir hafa þeir feðgar hárkollur og hvítt traf um hálsinn.  Til vinstri handar kristi eru þær mæðgur, Þórunn, kona Péturs og dætur þeirra Björg og Hólmfríður, sem er á barnsaldri.  Þær eru allar eins klæddar, með háan og uppmjóan krókfald, rauðan kraga með gulum (gylltum) borða, svarta hempu, jafnsíða samfellunni, sem er rauð með 3 gulum borðum umhverfis neðst.  Uppslög hempuermanna eru með gulum borðum eins og kragarnir, og á hvorri ermi eru 7 ermahnappar með laufum.  Í hempunum eru 13 hempupör ógyllt, en fyrir ofan þau eru 4 hempuskildir gylltir, 2 á hvorum boðungi.  Allar hafa mæðgurnar trafaklúta um höfuðið, Þórunn rauðan, Björg gulan og Hólmfríður bláan.  Framan við krossinn liggja svo 6 ungbörn í reifum, mismunandi litum.  Eiga þau að tákna börn þau, er hjónin  hafa mist, ung.  Myndin er vel máluð og alveg óskemmd.  Hún er felld inn í tréskáp og hvílir að neðan á strikuðum lista, en neðan við hann er spjald með ljógræni marmaramálningu og áletrun með svörtu skrifletri.   Hún  hljóðar svo: In præfeæturæ Munklenfis triente boreali Toparcha Pegins, Petrus  Thorstenus hana Tabulan, gudillis. beatæg conjugis Thorunæ Gudmunds filiæ, nec non liberourm quatour vivaninum Gudmundi, Sigurdi, Börga et Holmfrydd, en infantinu defunctorum Sex etfigien (sic)filit, per Dn Kofodinn pingi curavit, saaravitgve sacello fuo Ketelftadenfi.  Havniæ MDCCLXLIX.  Eins og áletrunin segir, hfefur Pétur sýslumaður látið gera þessa töflu sjálfur.  Hann sigldi til Hafnar árið 1768 og hafði þá með sér Sigurð son sinn 9 ára gamalan, en Guðmundur var við nám í háskólanum, svo að feðgarnir allir hafa getað setið fyrir hjá málaraum.  Mæðgurnar hljóta hins vegar að vera málaðar eftir lýsingu. ( Sbr. Íslenska annála IV. 4 , bls. 397.  Sjá enn fremur brjóstmynd af Pétri sýslumanni, gerða eftir þessu málverki, framan við annál hans, Ketilstaðaannál). Skápurinn, sem málverkinu og áletrunarspjaldinu er komið fyrir í, er 110,5 cm á hæð að innanmáli.  Hann er rauðmálaður að innan en blár að utan.  Ofan á honum, við aftari brún, er brík allmikil, blámáluð með gylltum listum, en framan á hana er neglt veglegt toppstykki, gyllt og útskorið.  Í því miðju er lítill þríhyrningur, og er ritað Jahve á hebresku innan í hann, en umhverfis hann eru 6 bólstraðar eða kúfungar og 5 geislaknippi út frá.  Hefur þetta verið mjög skrautlegt.  Fyrir skápunum eru 2 vængjahurðir blámálaðar utan sem innan, en innan á þeim eru líka myndir sem koma í ljós, þegar skápurinn er opinn.  Á hurðinni til hægri er mynd af Jóhannesi skírara með krossstöng langa í hendi, og fylgir honum lamb.  Á hurðinni til vinstri er mynd af Móses með lagatöflurnar í vinstri hendi, en sprota í hægri.  Báðir standa í eins konar porti með boga yfir.  Framan á hurðinni eru 3 súlulíkingar með marglitri marmaramálningu, gylltum fótstöllum og gylltum íóniskum súluhöfðum, ein úti við brúnina til hvorrar handar og ein yfir smasekytunum milli hurðanna.  Ofan og neðan við hurðirnar eru svo loks sterklegir, strikaðir, gylltir listar.  Öll er minningartafla þessi vandað og gott verk og mjög vel varðveitt.  Frá Ketilstaðakirkju.

Úr Hundrað ár í Þjóðminjasafni:  (Kristján Eldjárn) 
Kofodius sá, sem myndina hefur gert, mun að líkindum vera Herman Koefoed (1743-1815), málari í Höfn. Hann er töluvert þekktur fyrir mannamyndir sínar, sérstaklega er honum hælt fyrir afbragðs kunnáttu í teikningu. Myndin frá Ketilsstöðum kemur vel heim við þá einkunn, sem honum er gefin. Hún er ágætlega teiknuð og sýnilega verk þjálfaðs málara, en mundi naumast vera talin mikið listaverk. 
(KG, 2011) 


Heimildir

Kristján Eldjárn. "Minningartafla Péturs sýslumanns." Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Reykjavík 1962, 75. þáttur.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana