Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar



Landfræðileg staðsetning


HeitiAltarisklæði
Ártal1400-1500

StaðurDraflastaðir
ByggðaheitiFnjóskadalur
Sveitarfélag 1950Hálshreppur
Núv. sveitarfélagÞingeyjarsveit
SýslaS-Þingeyjarsýsla (6600) (Ísland)
LandÍsland

GefandiSigurður Jónsson 1842-1898

Nánari upplýsingar

Númer3924/1893-134
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá, Munasafn
Stærð109 x 117 cm
EfniStrigi, Ull
TækniTækni,Textíltækni,Saumur,Útsaumur

Lýsing

Úr aðfangabók:
Altarisklæði, 1,05 m. að hæð og 1,12 m. að breidd, alt útsaumað og mjög fornlegt; aðalliturinn er gulur, en hitt er alt með ýmsum litum og litskiptingin mjög fjölbreytt.  Meðfram jöðrunum alt umhverfis er mjór bekkur, að ofan og neðan leggjarósir og á hliðunum blöð og ýmislegt annað flúr.  Innan í bekknum er klæðinu skipt með bláum bugum niður í 9 reiti og eru hverjir 3 reitir saman í röð yfir um þvert klæðið, en rósir eru í bilum þeim, er verða þar í milli; í hverjum reit eru 2 - 4 mannamyndir, alls 22; í miðreitnum í annarri röð er mynd af konu með kórónu á höfði og heldur hún á ungbarni, en til beggja hliða standa englar að blása í hljóðpípur; þessi mynd sýnist eiga að tákna Maríu með sveininn Jesúm nýfæddan; í öðrum reitnum í fyrstu röðinni er og mynduð kona, er heldur á ungbarni, og í þriðja reitnum eru og 2 konur, er halda á ungbarni milli sín; þessar myndir munu og eiga að tákna einhver atriði í æfi Jesú; aðrar myndir á klæðinu sýnast flestar eiga að tákna karlmenn; sumar þeirra eru ef til vill postulamyndir eða annarra helgra manna; má að líkindum með samanburði finna merkingar flestra þeirra. Altarisklæði þetta er eflaust frá kaþólskri tíð og er nú farið að trosna sumstaðar á jöðrunum og í miðjunni eru á því göt og rifur á 5 stöðum; það er saumað í striga með ullargarni og sýnist bæði efnið, litirnir og verkið vera íslenzkt.***

Úr Hundrað ár í Þjóðminjasafni:  (Kristján Eldjárn)
Í reitunum eru helgimyndir, svo sem sjálfsagt er, en ekki víkja þær allar að sögu einhvers tiltekins helgimanns, eins og helzt hefði mátt vænta, heldur virðist efni þeirra sótt í ritninguna og helgisögur sitt á hvað, en ekki er alveg ljóst um allar myndirnar, hvað þær tákna. Í reitunum eru þessar myndir: 1. Jóhannes skírari og óþekktur biskup. 2. María með barnið og heilög Katrín. 3. Anna og María með barnið. 4. Andrés og Páll postular. 5. María með barnið, krýnd í hásæti. 6. Jóhannes postuli og Pétur postuli. 7. Tveir óþekktir dýrlingar. 8. Tveir óþekktir biskupar, gætu verið hinir helgu biskupar vorir, Jón og Þorlákur. 9. Heilög Dórótea og heilög Katrín. Draflastaðakirkja var helguð Pétri postula, en ekki virðast þessar helgimyndir klæðisins vera tileinkaðar honum öðrum fremur.  
(Sett inn af Kára Gunnlaugssyni, 02.09.2010)


Úr Íslensku útsaumur: (Texti eftir Elsu E. Guðjónsson)
Altarisklæðið frá Draflastöðum í Fnjóskadal er saumað með refilsaum og steypilykkju.
Í Árnasafni í Kaupmannahöfn er til svokölluð Teiknibók.   Myndir í henni eru frá 14. og 15. öld og virðast hafa verið hugsaðar sem uppdrættir ætlaðir fyrir útsaum.   Frá 15. öld er dæmi um „fjórar samstæðar myndir af sköpun heims á einu blaði bókarinnar, en þær eru umluktar hyrndum ferbogum og stílfærðu rósaskrauti er komið fyrir milli boganna með líkum hætti og sjá má á refilsaumuðu altarisklæði frá Draflastöðum ...“.    
„Með tilkomu prentlistarinnar var einnig farið að nota prentaðar myndir sem fyrirmyndir við útsaum, svo sem sjá má í augljósum tengslum nokkurra erlendra prentmynda frá því snemma á 16. öld við uppdrætti tveggja útsaumsklæða, annars frá öðrum fjórðungi sömu aldar,   [...].  Á því fyrra, altarisklæðinu frá Draflastöðum [...], er í miðju mynd af Maríu mey og Jesúbarninu í hásæti milli tveggja engla.  Líkist sú mynd mjög tréristu er prentuð var í Niðarósbænabókina, Breviarium Nidrosiense, í París 1519, ... .  [...]
„Klæðið , sem er úr hörlérefti, sennilega hvítu í upphafi, er þakið refilsaumi, en útlínur eru flestar með stypilykkju.  Saumað er í með mislitu ullarbandi og svolitlu af hvítu og bláu língarni.  Litirnar í útsaumsverkinu, aðallega afbrigði af bláu og grænu, ásamt rauðu og hvítu á fölgulum grunni, eru dæmigerðir fyrir mikið af íslenskum útsaumi bæði frá miðöldum og seinni tímum.“
(Sett inn af Sigrúnu Blöndal, 21.10.2010)

 


Heimildir

Elsa E. Guðjónsson. „Skyldleiki erlendra prentmynda við nokkrar íslenskar helgimyndir.“ Gripla III. Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Rit 18. Reykjavík 1979, bls. 71-84.
Elsa E. Guðjónsson. A Study to Determine the Place of Icelandic Mediaeval Couched Embroidery in European Needlework. Óprentað. 1961.
Kristján Eldjárn. Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Reykjavík 1962, 32. þáttur.
Elsa E. Guðjónsson. „Hannyrðir Helgu Sigurðardóttur?“, Árbók hins íslenzka fornleifafélags.
Elsa E. Guðjónsson.  Íslensku útsaumur.  Kópavogi, 2003; bls. 14 - 17.
Elsa E. Guðjónsson.  „ Íslensk kirkjuklæði á miðöldum.“  Kirkja og kirkjuskrúð. (Ritstjórar Lilja Árnadóttir, Ketil Kiran).  Reykjavík, 1997.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana