LeitaVinsamlega sýnið biðlund
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantarLandfræðileg staðsetning


HeitiRóðukross
Ártal1200-1300

StaðurDraflastaðir
ByggðaheitiFnjóskadalur
Sveitarfélag 1950Hálshreppur
Núv. sveitarfélagÞingeyjarsveit
SýslaS-Þingeyjarsýsla
LandÍsland

Nánari upplýsingar

Númer788/1870-38
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá, Munasafn
EfniEik
TækniSmelt

Lýsing

Úr aðfangabók:
Keyptur gripur: róðukross emeleraður frá Draflastöðum, úr eik, allur lagður að ofan með gylltum kopar, gröfnum mest með fjögra og átta blaða rósum, og sjást holur í koparinn eptir 34 smáa og stóra steina, sem hafa verið greyptir inn í hann og sem hafa verið viljandi teknir burt; Upprunalega hafa þeir verið alls 47 að minnsta kosti. Kristsmyndin er úr kopar, gyllt, dúkurinn, sem tekur frá miðju ofan á kné, er emaleraður með bláu og hvítu, þannig, að fellíngarnar á klæðinu myndast af bláa litnum; fæturnir liggja samhliða (en eigi krosslagðir) eins og optast er títt á elztu krossmörkum eða róðukrossum. Um höfuðið er regluleg kóróna með tveim liljum til hliðanna, en kross yfir miðju enninu, sem geislastafur gengur niður frá ofan að enninu; inn í augun er greyptur blár og rauður steinn, þeir virðast að vera harðir; yfirskriptin er með latínustöfum:  
IhS
, og aptur þar fyrir neðan
I H S
öfugt, emalerað með bláu. Vinstra megin á þverálmunni krossins er mynd af helgri konu, hún er berhöfðuð með möttul, sem er emaleraður með bláu, og í kyrtli, sem er með hálfermum, og er ber framhandleggurinn og hálsmálið virðist að vera ferhyrnt. Kyrtillinn er emaleraður með grænu.1) Á hverju hún heldur í hendinni, er eigi hægt að lýsa, það er aflángur ferhyrníngur með stóru skarði í annað neðra hornið. Myndina á hina þverálmuna vantar. Að ofanverðu á krossinum er mynd af karlmanni, sem höfuðið er brotið af, hann er og í kyrtli hálfermuðum, emaleruðum með grænu og í möttli, emaleruðum með bláu. Í hægri hendi heldur hann á einhverju, sem er líkast í laginu laungum þríhyrníngi.
  Að neðanverðu hefir verið alveg eins mynd, karlmanns mynd í sama búníngi; á henni er höfuðið heilt, hann hefir lángt hár, klofið í miðju, og snöggt skegg. Sú mynd hefir síðar verið sett á hægri álmuna á krossinum. Neðan á krossinn vantar töluvert, svo eigi er hægt að sjá, hvort krossinn hefir heldur verið gerður til að hánga, eða hann hefir verið með undirstöðu (stétt), gerður til að standa á altari, eða með laungu handfángi niður af, eins og tíðkaðist á krossum þeim, sem voru bornir í processíum og fyrir líkum, ,,upphafkrossar“ (upphaldskrossar?) og ,,líkakrossar“. Eg ætla samt helzt hann sé af altari, af því hvað hann er skrautlegur. Hann er af líkri gerð og Nr. 396 og 397 í bók eptir  
J.J.A.Worsaae: ,,Det kongelige Museum for nordiske Oldsager i Kjöbenhavn, 1854„
.  Eg ætla, að hann sé eigi ýngri en frá 13. öld. 2)    
1) Samskonar kyrtil, með framvíðum hálfermum eða ,,skautermum", eins og hér er sýndur á þessari helgu mey, báru konur hér á landi á 13. og 14. öld, og jafnvel fyr, sem bæði sést af sögum og myndum (sjá Nr. 680), og miklar líkur eru fyrir, að konur hafi borið þesskonar kyrtla (þó samhliða öðrum kyrtlum) á 15. öld eða jafnvel fram á 16. öld? - Það lítur svo út, sem konur hafi haft beran framhandlegg og kyrtil með hálfermum fyrir brúðar-búníng, þegar kvæðið ,,Hugsjón" var ort, því annars væri varla svo til orða tekið að segja, að brúðguminn lagði trúlofunarhrínginn (= armhríng) umkríng hennar ljósa arm, þ.e. beran arminn.              
,,Brullaupsklæði hann brúði gaf,                
og bað hana vel að geyma,                
sætur stóð þar ilmur af,                
innsigli mitt líka haf                
og mundu mig á meðan eg dvel heima.                      
Djásnið herlegt höfuðið á                      
hennar setja gjörði,              
leipturs af því ljósi brá,                
lista vænn var gripur sá,                
óríkur má enginn kaupa verði. 1)
                   
Trúlofunar trygða hríng                
tærði hann sinni brúði,                  
á ljósan arm og lagði um kríng,                  
líka var það stoltar þíng,                  
og kostulegastur kvennmanns allur skrúði".  
Höfundur þessa kvæðis er mér ókunnur, og nær það er ort, en lagið er katólskt, sbr.                  
,,Bið eg María bjargi mér                
burt úr öllum nauðum“.  
sbr. það sem stendur í gamalli þulu, sem varla er ýngri en frá 15. öld, þegar maður íhugar þá búnínga, sem í henni eru nefndir:                  
,,Eg vildi eg ætti                  
góðan [ætti eg gjarðajór] 2),                  
sessuna búna                  
og söðulinn þarmeð,                  
beizli og brjóstgjörð,                  
(á)breiðuna væna,                  
kirtilinn rauðan                  
og kápuna brúna,                  
geðslegan borða                  
og gull undir ermum;                  
Skrautið og skartið                  
skýli það henni;                  
breitt var það belti,                
brá hún því um sig;                  
settleg og siðleg                
kunni hún að ríða                  
falda grundin fríða,                  
fást mun hennar blíða,                  
og við skulum ríða                  
til tíða“.  
Hér er miðað til þeirra framvíðu hálferma, því gull-armhríngurinn gat vel sézt þó hann væri að nokkru leyti undir þeim, en aptur á móti var tilgángslítið að óska sér að eiga gull undir laungum og framþraungum ermum, því það sást ekki, og konur munu sjaldan hafa borið armhrínga undir þeim; en aptur á móti höfðu konur ,,stúkur", eða þraungvar lausa-ermar fram undan þeim víðu, sem þær drógu yfir beran framhandlegginn (og sjálfsagt um leið yfir armhrínginn) ef kalt var veður.  
2) í máldögum frá 14. öld er víða talað um smelta krossa, og eins um krossa með líkneskjum á, 3-5 en ei fleiri það eg man; þeir voru 3-5 við flestar kirkjur, eða 1 á hverju altari. Þó kemur fyrir, að þeir voru 4 á einu altari. Ölturin voru tíðast 3 í hverri kirkju, og 5 í klaustur-og dómkirkjunum, eða jafnvel fleiri.    
[Neðanmálsgreinar í neðanmálsgreininni SA.]    
1) sjá Nr. 800 hér á eptir.  
2) Þessi hendíng er eitthvað skökk, þar ætti að vera:   ,,góðan, fráan gjarða mar“, eða því um líkt.
[Sumir hafa svo upphafið:                
,,Eg vilda eg ætti mér                
góðan hest að ríða,                  
sessuna saumaða,                
söðulinn gylltan o.s.frv. J.S.]

Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir, nóv. 2009:
Í skýrslu sem séra Sigurður Árnason, prestur í Hálsi í Fnjóskadal, skrifaði fornleifanefnd árið 1818 stendur um eftirfarandi grip:

„I Draflastada Kyrkiu [...] á Bita i Kórnum stendur Kross, med máludu Blick bylæti, ecke osköddudu[.]“


Sýningartexti

Altariskross með smeltu verki, gerður í borginni Limoges í Frakklandi í upphafi 13. aldar, en þar var háþróuð smeltiðja á miðöldum. Krossinn hefur verið alklæddur gylltum eitþynnum og hálfeðalsteinar felldir í grópir, sem nú eru brott ásamt miklu af skrautinu. Á örmum krossins beggja vegna róðunnar hafa verið myndir Maríu og Jóhannesar en myndir helgra manna efst og neðst. Krossinn hefur staðið á ferhyrndum stalli með smeltum myndum umhverfis. Úr Draflastaðakirkju í Fnjóskadal.
788

Altariskross með smeltu verki, gerður í borginni Limoges í Frakklandi þar sem var háþróuð smeltiðja á miðöldum. Frá upphafi 13. aldar, úr Draflastaðakirkju á Norðurlandi.


Heimildir

Erla B. Hohler.   „Helgiskrín“.   Kirkja og kirkjuskrúð.   (Ritstjórar Lilja Árnadóttir, Ketil Kiran).   Reykjavík, 1997.
Matthías Þórðarson. „Róðukrossar með rómanskri gerð.Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1919. Reykjavík, bls. 30 - 37.
Þór Magnússon. „Limoges-verk á Íslandi.“ Yrkja, afmælisrit Vigdísar Finnbogadóttur. Reykjavík 1990.
Frásögur um fornaldarleifar 1817-1823. Sveinbjörn Rafnsson bjó til prentunar. Reykjavík, Stofnun Árna Magnússonar 1983, bls. 597.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana