LeitaVinsamlega sýnið biðlund
HeitiMótmælaskilti
Ártal2008-2009

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland

GefandiBjörgvin Ingi Jónsson 1987-

Nánari upplýsingar

Númer2009-10-7
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá, Munasafn
Stærð105,9 x 62,1 cm
EfniMasonít, Viður
TækniMálun

Lýsing

Mótmælaskilti / kröfuspjald sem notað var við mótmælin í Reykjavík í kjölfar bankahrunsins í október 2008. Mótmælin stóðu fram í mars 2009. Á skiltinu stendur: VÉR MÓTMÆLUM ÖLL, og er þar vísað til hinna frægu orða frá þjóðfundinum í Reykjavík 9. ágúst árið 1851. Þar lagði danska stjórnin fram frumvarp þar sem réttindi Íslendinga yrðu nær engin. Að undirlagi Jóns Sigurðssonar lögðu íslensku fulltrúarnir fram annað frumvarp en konungsfulltrúa leist ekki á það og sleit fundi. Fundarmenn risu þá úr sætum og mæltu einum rómi: „Ver mótmælum allir!“ Þetta hefur síðan verið talinn einn mikilvægasti atburður í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.
 Skiltið er einfalt að gerð, skaftið er ferstrent, úr furu og um 2,5 cm breitt. Á það er skrúfuð þunn masonítplata með tveimur skrúfum, 62,1 cm breið og 32,4 cm há og er hún eilítið stærri en á hinum skiltunum nr. Þjms. 2009-10. Framhliðin er hvít og á henni er áletrunin í svörtum stöfum, máluð í gegnum skapalón. Áletrunin hefur lítillega flagnað af spjaldinu. Öll skiltin nr. Þjms. 2009-10 eru sömu gerðar en með mismundandi áletrunum / kröfum. Sérstakir mótmælafundir voru haldnir á Austurvelli hvern laugardag. Á þá mættu allt frá um 100 manns og upp í þúsundir manna í hvert skipti. Þessi skilti eru frá hópi sem kallar sig „Nýtt lýðveldi“. Hópurinn hefur staðið fyrir undirskriftasöfnun á netinu og á heimasíðu Nýs lýðveldis stendur: „Að þessari undirskriftasöfnun stendur hópur Íslendinga sem telur brýnt að hefjast nú þegar handa við að endurreisa traust í þjóðfélaginu og efla virðingu fyrir reglum lýðræðis og grundvallarstofnunum samfélagsins. Fólkið í landinu þráir nýtt upphaf og nýjar leikreglur ásamt endurreisn þeirra gilda sem þjóðin hefur um aldir lagt rækt við, gilda á borð við heiðarleika, samvinnu, ábyrgð og jöfnuð. við viljum með þessu framtaki mynda þverpólitíska breiðfylkingu um þau markmið sem koma fram í áskoruninni til forseta og Alþingis. Hópurinn er óháður öllum stjórnmálaframboðum og hagsmunaöflum.“ Fyrir samtökunum fóru Njörður P. Njarðvík, Tryggvi Gíslason, Birgir Björgvinsson og Kári Magnússon. Björgvin Ingi Jónsson, Skólavörðustíg 33 í Reykjavík, afhenti þessi sjö mótmælaskilti, en auk hans eru gefendur Birgir Björgvinsson, Andri Birgisson, Brynja Birgisdóttir, Daníel Árnason og Bjarni Þór Jónsson.


Heimildir

http://nyttlydveldi.is (skoðað 27.3.2009)

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana