LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu


Landfræðileg staðsetning


HeitiTafla, Teningur
Ártal900-1000

StaðurBaldursheimur 1
ByggðaheitiMývatnssveit
Sveitarfélag 1950Skútustaðahreppur
Núv. sveitarfélagSkútustaðahreppur
SýslaS-Þingeyjarsýsla
LandÍsland

GefandiJón Sigurðsson 1828-1889

Nánari upplýsingar

Númer1/1863-1
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá, Munir, Fundaskrá
Stærð3,1 x 1,8 cm
EfniBein
TækniBeinskurður
FinnandiJón Illugason

Lýsing

Heilt hnefatafl, fundið í karlmannskumli frá 10. öld hjá Baldursheimi í Mývatnssveit árið 1860. Í taflinu eru 24 töflur úr beini/tönn og á helmingur þeirra að hafa verið rauður en helmingurinn hvítur við fundinn, teningur er nefndist húnn, skorinn úr stórgripslegg og með deplum fyrir tölur á hliðum, og einnig að öllum líkum lítið mannslíkan úr hvalbeini (nr. Þjms. 6). Mannslíkanið mun vera hnefinn, sem liðin sóttust um á víxl, en lítið er annars vitað hvernig hnefatafl var leikið. Það mun hafa lagst af um 1200, er skáktafl barst til Norðurlanda og varð fljótt vinsælt.

[Stafrétt skráning Sigurðar Guðmundssonar frá 1863:]
[S. 37]
TENÍNGUR og 24 TAFLTÖFLUR. Töflurnar eru sumar af tönn og sumar af beini. Svo er að sjá, sem helmíngurinn af þeim hafi verið rauður, en hinn hvítur. Hola er neðan í þær allar, en að ofan eru sumar hnöttóttar, en sumar með háfan og hvassan odd. Það getur verið nokkuð vafasamt, hvaða tafl þetta sé. Kotrutafl getur það naumast verið, nema því að eins, að það hafi verið teflt allt öðruvísi en nú, því bæði eiga töflurnar í því að vera flatar, svo hverja megi leggja ofaná aðra, ella eru þær dræpar, og svo eiga þær að vera 30 að tölu, þar sem þessar eru að eins 24. Þó munu sumir erlendir nú tefla hana með 12(?) töflum, því að kotra með 12 töflum er farin að flytjast híngað í búðir. Enn fremur er það mjög óvíst, að kotra hafi verið kunn orðin á Norðurlöndum á 9. og 10. öld, sem þetta tafl er frá, en hún mun vera frakkneskur leikur, eins og tölunöfnin á teníngunum og eins nöfnin mor eða mar og jan benda til. Að vísu er [s. 38] tenínga snemma getið, t.a.m. í Ólafs sögu hins helga, kap. 89 (um 1019), en það sannar eigi að kotra hafi verið þekkt. Í Grágás er minnzt á verpla, sem kunnu að vera sama sem teníngar, en þó gæti vel hugsazt, að verplakast væri sama og keilukast, og hefði verið hafðir til þess smáir tunnulagaðir knettir (sbr. orðin bjórverplar og ölverplar). Í Sturlúngu (V, kap. 31) er getið um tenínga í sambandi við tölurnar daus og ás (um 1234), og s.st. (III, kap. 26) er getið um tafl (skáktafl) og kotru (um 1198), og s. st. (V, kap. 48) er og nefnd kvotra (um 1237). Í Biskupasögum (I, bls. 596) er enn getið kvotru á dögum Þórðar Sturlusonar (1165-1237). Eg ætla því, að kotru muni eigi getið í áreiðanlegum sögum fyrr en á 12. öld, en þó að hún (kvotra) sé nefnd í Karlamagnúsar sögu (bls. 470 og 486), þá sannar það eigi, að hún hafi fyr flutzt til Norðurlanda en hér er talið. Talan á þessum töflum frá Baldursheimi stæði heima, ef þær hefði verið hafðar í ofanfellíngartafl, en á því er hinn sami annmarki, að í því á að leggja hverja töflu ofaná aðra, sem nafnið sýnir, og væri þetta ofanfellíngartafls töflur, hefði fornmenn orðið að tefla það allt öðruvísi, sem þó er varla hægt. Í fornritum vorum er talað um tvennskonar töfl, en hér geta komið til greina, hnottafl eða hnettafl, og hnefatafl eða hneftafl. Í Gullþóris sögu (kap. 14) og Flateyjarbók (I, bls. 463) er getið um hnettafl, og í Krókarefs sögu (kap. 10) er getið um hnettafl af tönn. Af Grettis sögu (kap. 70) má sjá, að hnottaflstöflur hafa haft odd upp úr sér, eins og þessar 24 töflur, sem hér eru, því að þar segir, að Þorbjörn aungull tefldi eitt sinn ,,hnettafl; það var stórt halatafl“ Stjúpmóðir hans gekk þar hjá og yrtist við hann, unz þau reiddust bæði. Þá greip hún eina töfluna og kastaði að Þorbirni, og er svo að sjá, sem töfluhalinn hafi komið í augað, því að það lá úti á kinn. Í sögunni af [s. 39] Vilmundi viðutan (kap. 8) er talað um hala á hnefatöflu, er höfð var fyrir skotspón, og sýnir það, að þær töflur hafa og haft líkt lag, og hala eða odd uppúr. Nafnið hneftafl kemur fyrir í Ragnars sögu loðbrókar (kap. 16) og í Fornmanna sögum (IV, bls. 29, og II, bls. 271 - á þeim stað er og nefnt hneitafl neðanmáls). Í Friðþjófs sögu (kap. 3) er ýmist nefnt hnefatafl eða hnottafl, en þar á sjálfsagt að vera hnefatafl, sem síðar mun getið. Í gátum Gests hins blinda í Hervarar sögu er getið um bæði töflin. Þar er fyrst gáta um skáktafl, síðan um hnefatafl (25-26. er.) og síðast um hnottafl (31-32. er.). Í flestum útgáfum Hervarar sögu er nafnið hnefatafl tekið upp í textann í síðustu gátunni (31-32. er.), en útgáfa Stepháns Björnssonar tilfærir neðanmáls lestrarháttinn hnottafl, sem vafalaust er hinn eini rétti1, því að það er auðsætt af gátunni, að í henni er talað um allt annað tafl, en í gátunni um hnefann. - Í hnefataflsgátunni er talað um ,,brúðir“ eða ,,drósir“ (töflur), er vegi ,,drottinn“ sinn ,,vopnlausar“ (eða ,,vopnlausan“), og áttu hinar hvítu að vega gegn honum, en hinar dökkvu að verja hann. Þessi ,,drottinn“ eða konúngur er hnefinn, sem virðist hafa verið æðstur, líkt og konúngur í skáktafli, og mun hafa verið stærri en töflurnar sjálfar og öðruvísi lagaður. Þetta styrkist af Friðþjófs sögu (kap. 3); þar talar Friðþjófur um hnefa, er sýnir að hann hefir teflt hnefatafl, og miðar þó til Hríngs konúngs, og bendir það á konúngstign hnefans. Þar er og talað um ,,rauðar“ töflur, og kemur það vel heim við litinn á þeim, er hér er um að ræða. Vel gæti verið, að beinmyndin (nr. 6), sem fannst með tafli þessu, sé einmitt hnefi úr hnefatafli, því að öll líkindi eru til, að mannsmynd hafi verið á hnefanum. - Í gátunni um húnann í Hervarar sögu segir, að hann sé allur [s. 40] ,,járni urinn í kríng“, hafi ,,átta horn“ og ekki ,,höfuð“, og að því ,,dýri“ fylgi mjög margir (þ.e. nefnilega töflurnar). Að húninn sé allur í kring ,,járni urinn“ ætla eg að eins vera til að villa gátuna, og muni eiga að merkja, að hann sé sorfinn með þjöl að utan. Þar sem sagt er, að hann hafi ekki höfuð, en átta horn, þá virðist liggja nærri að álykta af því , að hann hafi verið í laginu sem teníngur, og að teníngur sá, sem fannst með töflum þessum, sé einmitt húni úr hnottafli, er jafnframt hafi verið hafður fyrir teníng. Teníngurinn er aflángur og mjög áþekkur ymsum, er fundizt hafa í Danmörku. Á hliðunum standa 3 og 6 andspænis og sömuleiðis 4 og 5, sem, ef það er lagt saman, hvort um sig myndar hina fornu helgitölu 9, en á endanum hafa staðið 1 og 2. Þess hefir áður verið getið, að teníngar sé nefndir nokkuð snemma hér á landi, þó að eigi sé getið um þá í sambandi við kotru fyr en á 12. og 13. öld. Að teníngur þessi sé eigi úr kotrutafli styrkist enn fremur af því, að hann fannst að eins einn, og optar hefir einn teníngur fundizt sér í útlöndum, enda bendir Guðmundar saga biskups (Biskupa sögur II, 177) á, að menn hafi stundum haft að eins einn teníng; af Fornmanna sögum (IV, bls. 210) má þó sjá, að menn hafa einnig haft tvo tenínga. Hefði teníngur verið notaður í hnefatafli, mundi þess vera getið í Hervarar sögu og Friðþjófs sögu, og er miklu eðlilegra að ímynda sér, að teníngur þessi hafi verið hafður fyrir húna í hnottafli, sem Hervarar saga bendir til, og áður var á drepið. Hnottaflið eða hnettaflið mun í rauninni vera hið sama tafl og vér nú köllum refskák, sem alls eru í 13 töflur með tóunni. Það mun draga nafn af því, að það hafi upprunalega verið teflt með hnotum, líkt og refskák hjá oss er opt tefld með kvörnum, enda eru töflur þessar frá Baldursheimi allsvipaðar hnotum í laginu. Húninn mun eiga að merkja bjarndýrshúna, enda segir í gátunni um hann, [s. 41] að hann drepi fé manna með fláræði. Nöfnin ,,húni“ og ,,fé“ hafa nú smásaman ílenzt eða breyzt, eptir því sem til hagar á Íslandi, í tóu og lömb, því hér er það einkum tóan, er bítur fé manna og helzt lömbin, enda er tóan oft kölluð dýr á Íslandi, svo sem húninn í Hervarar sögu, og þau lömb dýrbitin, er tóan bítur. Líkt mun standa á með danska taflið ,,hunden efter haren“, að það mun eiga ætt sína að rekja til hnottaflsins. - Það hefir áður verið sýnt, að bæði hnefataflstöflur og hnottaflstöflur hafi haft hala eða odd uppúr sér, sem þessar töflur. Ymsar slíkar halatöflur hafa fundizt erlendis, og kalla Danir bæði þær, og eins hinar, sem eru flatar og sléttar að ofan eins og kotrutöflur, dammtöflur eða ,,dambrikker“, en það get eg enganveginn álitið alls kostar rétt, því eins miklar líkur eru fyrir, að þær flötu og sléttu sé einmitt kotrutöflur. Það sést heldur enginn vottur til þess í íslenzkum bókum, svo að mér sé kunnugt, að fornmenn hafi þekkt tafl það, er Danir kalla ,,dam“, að minnsta kosti eigi með því nafni. Mönnum kynni að koma til hugar, að hnefatafl væri sama og ,,dammur“, eða svipað dammi, eða að dammur sé myndaður úr hnefatafli, með því að í dammi eru hafðar 24 töflur, svo sem virðist hafa verið í hnefatafli; en það þykir mér þó næsta óliklegt, því að ég veit eigi til, að í dammi sé nokkurstaðar í útlöndum hafður nokkur konúngur eða hnefi, sem hnefataflið þó er kennt við, og virðist því vera hið einkennilega í því, enda mundi hið upprunalega nafn á taflinu haldast einhverstaðar í útlöndum ef svo væri, en það hefi eg hvergi orðið var við. - Af því, sem sagt hefir verið, þykir mér sennilegast, að hér sé sameinað hnefatafl og hnottafl, og hafi þessar 24 töflur, 12 rauðar og 12 hvítar, verið nægilegar til að tefla með hvorttveggja, og sé þá beinmyndin (nr. 6) hnefinn og teníngurinn húnninn. Slíkar sameiníngar ymsra tafla munu hafa [s. 42] verið tíðar í fornöld. Í Krókarefs sögu er þess getið um sama taflið, að ,,það var bæði hnottafl og skáktafl“. Það er og algengt hjá oss, að töfl eru sameinuð, svo sem að hafa kotru innan í skáktaflsborði, en skákborð og refskák utaná, eða þá skákborð og mylnu (á dönsku: ,,tavl og mölle“. Í henni eru 18 töflur). Ef þessi ágizkan er rétt, þá höfum vér hér fullkomið hnefatafl og hnottafl, og vantar að eins borðið. Þá er eptir að vita, hvernig borðin hafi verið. Hnottaflsborðið ætla eg að muni hafa verið sem refskákarborð, af þeim ástæðum, sem áður eru færðar fyrir því, að hnottafl muni vera sama og refskák, en um hnefataflsborðið er allt óglöggvara. Í Víglundar sögu kap. 21 er getið um tafl með borði, sem hefir reiti, og sem teflt er með töflum, og hefir það að líkindum verið hneftafl, en reitir eru kallaðir á skákborði, og gæti menn því ímyndað sér, að þau hafi verið lík. Enn er að minnast á holurnar, sem eru neðan í hverri töflu, og hafa menn ímyndað sér, að þær hafi verið til þess, að töflurnar skyldi eigi færast úr stað, er víkíngar sátu að tafli á langskipum sínum í sjáfargángi, og hafi því hlotið að vera smátittir upp úr taflborðinu, er töflurnar hafi verið settar ofan á.

1) svo hefir einnig sagan í Fornaldar sögum Norðurl. I, 476. J.S.


Sýningartexti

Heilt hnefatafl, fundið í karlmannskumli frá 10. öld hjá Baldursheimi í Mývatnssveit árið 1860 og varð til þess að Forngripasafnið, síðar Þjóðminjasafn Íslands, var stofnað árið 1863. Í taflinu eru 24 töflur úr beini og á helmingur þeirra að hafa verið rauður en helmingurinn hvítur við fundinn, teningur er nefndist húnn, skorinn úr stórgripslegg og með deplum fyrir tölur á hliðum, og einnig að öllum líkum lítið mannslíkan úr hvalbeini, nr 6 í fundinum. Mannslíkanið mun vera hnefinn, sem liðin sóttust um á víxl, en lítið er annars vitað hvernig hnefatafl var leikið. Það mun hafa lagst af um 1200, er skáktafl barst til Norðurlanda og varð fljótt vinsælt.
1

Heilt hnefatafl, fundið í karlmannskumli frá 10. öld hjá Baldursheimi í Mývatnssveit á Norðurlandi árið 1860 og varð til þess að Forngripasafnið, síðar Þjóðminjasafn Íslands, var stofnað árið 1863. Í taflinu eru 24 töflur úr beini og á helmingur þeirra að hafa verið rauður en helmingurinn hvítur við fundinn, teningur er nefndist húnn, skorinn úr stórgripslegg og með deplum fyrir tölur á hliðum, og einnig að öllum líkum lítið mannslíkan úr hvalbeini, nr 6 í fundinum. Mannslíkanið mun vera hnefinn, sem liðin sóttust um á víxl, en lítið er annars vitað hvernig hnefatafl var leikið. Það mun hafa lagst af um 1200, er skáktafl barst til Norðurlanda og varð fljótt vinsælt.


Spjaldtexti:
Hneftafl, heilt og samstætt. Töflurnar eru 24 talsins og renndar úr tönn. Teningurinn er úr stórgripslegg og hnefinn úr hvalbeini, skorinn í mannsmynd. Sagt er að helmingur taflnanna hafi verið hvítur og helmingur rauður er þær fundust. Ekki er fullljóst hvernig hneftaflið forna var leikið nema hvað liðin sóttu og vörðu hnefann á víxl.

Hneftafl board game. It comprises 24 pieces, turned from marine mammal tooth. The die is cut from the leg bone of a cow or horse, and the hnefi or “king” is a carved, whalebone, man like figure. When the game was found, half the pieces are said to have been red, and half white. The rules of the old game are not known with any certainty, other than that both sides took turns in attacking and defending the king.


Heimildir

Aarbøger for nordisk Oldkyndighed og Historie 1882. Bls. 70-71.
Kristian Kålund: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island II. Kmh. 1879-82. Bls. 169. (Ísl. þýð.: Íslenskir sögustaðir I-IV. Rvk. 1984-86).
Barði Guðmundsson: Uppruni íslenzkrar skáldmenntar. Helgafell 1943. Bls. 155 o.áfr.
Daniel Bruun og Finnur Jónsson: ,,Dalvík-fundet.“ Aarbøger for nordisk Oldkyndighed og Historie 1910. Bls. 62-100, aðall. bls. 96 o.áfr.
S. Grieg: Gjermundbufunnet. Norske Oldfund VIII. Oslo 1947. Bls. 24 og 54.
Allan Fridell: ,,Den första båtgraven vid Valsgärde.“ Fornvännen 1930:4. Bls. 217-37.
Kristín Huld Sigurðardóttir: ,,Haugfé. Gripir úr heiðnum gröfum.“ Hlutavelta tímans. Menningararfur á Þjóðminjasafni. Rvk. 2004, bls. 64-75, tómstundagripir bls. 73.
Kristján Eldjárn: Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Rvk. 1994, bls. 1.
Kristján Eldjárn. Kuml og haugfé. Rvk. 2000, bls. 200-203, 415-21.
Kristján Eldjárn: ,,Þórslíkneskið svonefnda frá Eyrarlandi.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1982. Rvk. 1983. Bls. 62 - 75.
Jan Petersen: ,,Bretspillet i Norge i forhistorisk tid.“ Oldtiden IV. 1914. Bls. 75-92.
Haakon Shetelig: Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1937-39. Bls. 5-18.
Sigurður Guðmundsson: Skýrsla um Forngripasafn Íslands, I. Rvk. 1868. Bls. 5 - 51.
Þjóðólfur XIV, 70-71.
Kristján Eldjárn. Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Reykjavík 1963, nr. 1

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana