Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu


Landfræðileg staðsetning


HeitiPaxspjald
MyndefniKrossfestingin
Ártal1450-1550

StaðurGröf
ByggðaheitiYtrihreppur
Sveitarfélag 1950Hrunamannahreppur
Núv. sveitarfélagHrunamannahreppur
SýslaÁrnessýsla
LandÍsland

GefandiEyrún Guðjónsdóttir 1907-1999

Nánari upplýsingar

Númer1971-112
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá, Munasafn
Stærð22 x 16 x 1,2 cm
EfniHvalbein

Lýsing

Úr aðfangabók:
Fornlegt paxspjald úr hvalbeini.  Slétt á bakhlið en að framan er skorin á það krossfestingarmynd.  Kristur ber þyrnikórónu og einfalt lendaklæði.  Til hvorrar hliðar við krossinn standa María og Jóhannes.  Þau er bæði með geislabauga og í skósíðum kyrtlum.  Um myndina er tvístrikaður rammi.  Gat hefur verið í gegnum miðjan ramman efst, eflaust til að hengja það upp, en nú er þar komið skarð vegna slits.  Gefandi, Eyrún Guðjónsdóttir, eignaðist spjaldið eftir móður sína, Guðrúnu Erlendsdóttur, en nú veit enginn hvaðan hún fékk það.  Guðrún var fædd á Brjánsstöðum í Grímsnesi árið 1863 og bjó í Miðfelli og Gröf í Hrunamannahreppi.  Dætur hennar muna að hún var vön að geyma spjaldið undir koddanum sínum.
Spjaldið getur vart verið yngra en frá 18. öld og meiri líkur á að það sé frá kaþólskri tíð, en eldra en frá 14. öld getur það ekki verið.  (Sjá árbók Hins Íslenska Fornleifafélags árið 1970, grein eftir Gísla Gestsson, bls. 28-30)

Úr Gersemar og þarfaþing:  (Texti eftir Berglaugu Skúladóttur)
   „Fornlegt spjald úr hvalbeini er skráð í bækur safnsins 29. nóv. árið 1971.  ... Myndin er lágt upphleypt, álíka og brúnir spjaldsins sem mynda ramma þess.  Spjaldið er 22 cm á hæð.  Það er ekki nákvæmlega skorið því breidd þess neðst er 15 cm en efst er það 16 cm.   Krossmarkið er ekki á miðju, auk þess hallast það lítið eitt.   Armar krossins eru mislangir, 4,7 cm og 5,2 cm og ekki heldur jafnþykkir.
    Á krossinum er Kristur með þyrnikórónu og einfalt lendaklæði sem víxlast framan á líkamanum.  Fætur eru samhliða nema hvað hægri il liggur á vinstri rist en fætur eru negldir á krosstréð með einum nagla.  Kristur er annaðhvort hárlaus eða mjög stutthærður og með stuttklippt hökuskegg, rakaður í kringum munninn.   Sitt til hvorrar hliðar við krossinn standa María og Jóhannes.  Þau eru bæði í skósíðum klæðum og með geislabauga.
   María stendur til hægri handar Kristi.  Hún er í skikkju sem tekin er saman undir hökunni og virðist með áfastri hettu.  Undir skikkjunni sést kyrtill en þó er þetta óljóst því klæðin renna nokkuð saman á myndinni.  María leggur saman hendur á brjósti.
   Jóhannes er líkt klæddur og María.  Erfitt er að greina hvort kyrtill hans er hettulaus.   Ef svo er sést á hár Jóhannesi, stuttklipt.  Skegg hans er eins og á Kristi nema enn styttra.  Það er athyglisvert að Jóhannes heldur ekki á bók svo sem venja er til.
   Það var Emil Ásgeirsson í Gröf í Hrunamannahreppi sem kom með spjaldið til safnsins.  Kona hans Eyrún Guðjónsdóttir, eignaðist það eftir móður sína, Guðrúnu Erlendsdóttur, en nú veit enginn hvaðan hún fékk það.   Guðrún var fædd á Brjánsstöðum í Grímsnesi árið 1864 og bjó í Miðfelli og Gröf í Hrunamannahreppi.  ...
    Þessi stutta saga spjaldsins, sem þekkt er, dugir lítið til að ákvarða aldur þess.  Yfirbragð þess bendir til mun hærri aldurs en frá síðari hluta 19. aldar. Þess bera að gæta að spjaldið er viðvaningslega skorið og því lítið að marka stíl þess.
    Líklega er þetta paxspjald. Það er lítil tafla sem prestur kyssti á við tiltekinn áfanga í katólskri messu. Síðan var taflan borin um svo allur söfnuðurinn gæti kysst á hana og um leið var sagt:  „Pax vobiscum“ eða friður sé með yður.  
    Paxspjöldin eru þekkt á Norðurlöndum frá síðmiðöldum og á Englandi frá miðri 13. öld.  Á Íslandi sést talað um þau frá miðri 14. öld.  Paxspjöld voru gerð úr ýmsum efnum: tré, málmi, beini eða skinni og voru oft með krossfestingarmynd.
    Sé spjaldið frá Gröf borið sman við aðrar Kristsmyndir í Þjóðminjasafni, flestar frá katólskri tíð, kemur í ljós að fótastaða Krists er svipuð mörgum þeirra. Líklega vegna þess að myndskerarnir ráða ekki við að sýna eðlilega krosslagða fætur.  Sama má segja um kórónuna sem minnir fremur á snúinn kaðal en þyrnigjörð. Slíkar kórónur eru á nokkrum Kristsmyndum í safninu.  Mikill svipur er með hvalbeinsspjaldinu og öðru spjaldi á safninu, nr 2444, frá Breiðabólstað í Fljótshlíð, sem talið er frá um 1400 og skorið í tönn.  Það sem greinir spjaldið fyrst og fremst frá öðrum Kristsmyndum er skeggtíska Krists og Jóhannesar.
    Varla getur spjald þetta verið yngra en frá 18. öld en meiri líkur til að það sé frá katólskri tíð.  Eldra en frá 14. öld getur það samt tæplega  verið.
(Sett inn af Sigrúnu Blöndal, 10.9.2010)


Heimildir

Berglaug Skúladóttir. „Krossfesting á hvalbeinsspjaldi.“ Gersemar og þarfaþing. Reykjavík 1994, bls. 228-229.
Gísli Gestsson. „Hvalbeinsspjald með krossfesstingarmynd.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1970. Reykjavík 1970, bls. 28-30.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana