LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


HeitiFramköllunarrammi
Ártal1850-1901

StaðurTeigarhorn
ByggðaheitiBerufjörður
Sveitarfélag 1950Búlandshreppur
Núv. sveitarfélagDjúpavogshreppur
SýslaS-Múlasýsla
LandÍsland

Nánari upplýsingar

Númer1981-73
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá, Munasafn
Stærð47,5 x 25,5 x 7 cm
EfniGler
TækniGlergerð

Lýsing

Úr aðfangabók:
Framköllunarrammi með gleri á annarri hlið. Á hinni hliðinni eru þrjú laus viðarspjöld sem hvert um sig hefur hnúð í miðju fyrir handfang. Spjöldunum er síðan þrýst niður og lokað af með aflöngum viðarkubbum sem leika á hjörum en á þeim neðanverðum eru aflangar fjaðrir. Filma og pappír eru sett undir spjöldin þannig að þau snúi að glerinu og síðan er ramminn settur í sólarljósið þar sem myndin framkallast hægt og rólega. Í þessari tegund af kössum er hægt að framkalla þrjár myndir.
Keypt ásamt fleiri munum úr ljósmyndabúnaði Nicoline Weywadt og Hansínu Björnsdóttur af Kristjáni Jónssyni frá Teigarhorni.

Úr Gersemar og þarfaþing: (Texti eftir Ingu Láru Baldvinsdóttur)
„Bærinn Teigarhorn við Berufjörð skipar sérstakan sess í sögu íslenskrar ljósmyndunar. Þar störfuðu tveir ljósmyndarar, þær Nicoline Weywadt, sem hóf störf við ljósmyndum 1872, fyrst kvenna á Íslandi og systurdóttir hennar, Hansína Björnsdóttir, en hún tók við þegar Nicoline hætti um 1902. Frá þeim, Nicoline og Hansínu, er komið einstætt safn, ekki aðeins af myndum og ljósmyndaplötum, heldur einnig af áhöldum tengdum iðn þeirra. Sambærilegt safn tækja og búnaður hefur ekki varðveist frá neinum öðrum ljósmyndara hér á landi frá þessu tímaskeiði.
Þjóðminjasafnið keypti plötusafn frá Teigarhorni árið 1981. Í því voru útimyndaplötur þeirra Nicoline og Hansínu, ómetanlegar sögulegar myndir frá Austurlandi og mannamyndaplötur Hansínu og Nicoline, en kjarninn úr mannamyndaplötum Nicoline hafði verið keyptur til safnins árið 1943. Með í kaupunum árið 1981 fylgdu margvíslegir munir tengdir ljósmyndastofurekstri á Teigarhorni. Kjarni þeirra mun vera frá starfsárum Nicoline, en Hansína tók eðlilega viðþeim búnaði þegar hún hóf störf og jók við hann. Hér verðum nokkrum þessara gripa gerð frekari skila.
Við upphaf ljósmyndunar var tökutími ljósmynda langur, lengri en svo að menn ættu auðvelt með að sitja kyrrir meðan á töku stóð. Til að tryggja að menn hreyfðu ekki höfuðið var útbúið áhald, sem hnakki fyrirsætunnar var skorðaður í og hefur þetta áhald verið nefnt hnakkajárn á íslensku. Slík hnakkaján hafa verið nauðsynlegur hluti af búnaði allra ljósmyndara á Íslandi. Eina hnakkajárnið, sem vitað er um hérlendis er í safninu frá Teigarhorni. Það mun aðallega hafa verið í notkun á ljósmyndastofu Nicoline fyrsta hálfa annan áratuginn, sem hún starfaði, frá 1872 til 1888.
Árið 1888 hóf Nicoline að taka myndir með nýrri tækni, með þurrum plötum, sem kröfðust skemmri tökutíma. Eftir það hefur þörfin fyrir hnakkajárnið minnkað að minnsta kosti yfir sumartímann, meðan birtan var næg, en skammdegið gerði ljósmyndurum hér erfitt fyrir.
Máluð baktjöld þóttu snemma nauðsynlegur hluti af útbúnaði ljósmyndara. Á þeim var ýmist reynt að líkja eftir glæstum híbýlum eða rómantísku landslagi. Eftir að Hansína hafði fullnumað sig í ljósmyndum í Kaupmannahöfn um aldamótin flutti hún málað baktjald með sér heim, en slíkt tjald mun ekki hafa verið notað fyrr á Teigarhorni. Baktjaldið er þýskrar gerðar. Baktjöld voru í almennri notkun hérlendis, enda þótt margir ljósmyndarar hafi gripið til annarra lausna eins og peysufatasjala, hvíts dúks eða segls, ef baktjald var ekki handbært og veggþil eða húsgafl þóttu ekki nægilega fínn bakgrunnur.
Búnaður til að vinna ljósmyndir eftir að töku myndarinnar var lokið samanstóð af ýmsum hlutum. Meðal þess sem varðveist hefur af þeim toga frá Teigarhorni eru framköllunarrammar af ýmsum stærðum, en í þá var settur ljósmyndapappír ásamt ljósmyndaplötu, fyrirrennara filmunnar, og sólarljósið látið um að framkalla myndina. Þá má nefna vinnuborð úr myrkraherbergi auk bakka og efnaglasa, þannig að unnt er að endurskapa myrkraherbergið við myndstofuna á nokkuð heildstæðan hátt.
(Sett inn af Sigrúnu Blöndal, 13.9.2010)

Sýningartexti

Framköllunarrammi með gleri á annarri hlið til framköllunar ljósmynda á svokallaðan dagspappír. Var þá myndaplata og pappír sett í rammann og látið framkallast við dagsbirtu. Hægt var að framkalla þrjár myndir samtímis. Frá ljósmyndunarbúnaði Nicoline Weywadt á Teigarhorni við Djúpavog, sem lærði ljósmyndun fyrst íslenskra kvenna um 1870 og tók myndir þar eystra. Síðar notaði frænka hennar, Hansína Björnsdóttir á Teigarhorni, sem lærði af Nicoline, þennan búnað.
1981:73

Framköllunarrammi með gleri á annarri hlið til framköllunar ljósmynda á svokallaðan dagspappír. Var þá myndaplata og pappír sett í rammann og látið framkallast við dagsbirtu. Hægt var að framkalla þrjár myndir samtímis. Frá ljósmyndunarbúnaði Nicoline Weywadt á Teigarhorni við Djúpavog, sem lærði ljósmyndun fyrst íslenskra kvenna um 1870 og tók myndir þar eystra. Síðar notaði frænka hennar, Hansína Björnsdóttir á Teigarhorni, sem lærði af Nicoline, þennan búnað.
1981:73

Spjaldtexti:
Framköllunarbúnaður á vinnuborði. Framköllunarrammar.

Developing equipment. Developing frames.

Heimildir

Inga Lára Baldvinsdóttir. „Ljósmyndaáhöld frá Teigarhorni.“ Gersemar og þarfaþing. Reykjavík 1994, bls. 248-249.
„Myndasafn frá Teigarhorni.“ Þjóðminjasafn Íslands, sýningarskrá 1982.
Inga Lára Baldvinsdóttir: „Ljósmyndarar á Íslandi.“

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana