LeitaVinsamlega sýnið biðlund
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantarLandfræðileg staðsetning


HeitiLegsteinn
Ártal1400-1500

StaðurKalmanstunga 1
ByggðaheitiHvítársíða
Sveitarfélag 1950Hvítársíðuhreppur
Núv. sveitarfélagBorgarbyggð
SýslaMýrasýsla
LandÍsland

GefandiKristófer Stefán Scheving Ólafsson 1898-1984

Nánari upplýsingar

Númer15015/1951-262
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá, Munasafn
EfniSteinategund
TækniSteinhögg

Lýsing

Langur baulusteinsdrangi, sexstrendur, en hefur brotnað í tvennt og um þvert. Rúnaáletrun er á tveimur er samliggjandi hliðum, vel skýr. Á báðum flötum er grópaður rammi um það, sem letrað er. Annað brotið, sem hér um ræðir og á er upphaf áletrunarinnar, er um 55 sm á lengd, hitt er liðlega 102 sm á lengd. Þegar fyrri línan hefur verið lesin, er gengið fyrir þann legsteinsendann, sem henni lýkur við og lesið frá þessum enda í næstu línu. Steinn þessi er ljósbrúnn utan, nokkuð holóttur og veðraður, gulleitur að sjá í sárin. Annar endi hans, sá, sem ber bæði upphaf áletrunarinnar og endi, er sléttur en skáhallur, hinn er óreglulega lagaður. Mesta rammahæð er um 8.6 sm.     Þetta er letrað: (rúnaletur sem tölvan ræður ekki við). Er skipt í línur milli (rúnaletur sem tölvan ræður ekki við). Skrifist þetta um, verður það þannig: + HER : HUILER : ION : GILS : SON : FINS : SONAR . LES : EINA : PATER . NOSTER . FIRIR . HANS . SAL. Hæð leturs og ramma er sæmilega jöfn.    Bilið milli h og r í fyrsta orði er all vænt, þó er það tæpast rúm fyrir nokkurn staf, ef litið er á stíl leturgrafarans. Skemmd vegna brotsins   aftan við  p-ið í pater veldur, að þar verður ekki séð fyllilega, hvað var á milli p og t, en þarna mun hafa verið a. Hér er vel greinilegur neðsti hluti slíks rúnastafs, þarna sér neðan á lóðréttan legg og má fastlega gera ráð fyrir, að um a sé að ræða. Krossinn framan við áletrunina er utan rammans. Fer kross þessi vel. Rúnasteinn þessi er ljómandi fallegur. Mesta þvermál minna brotsins er 23.6 sm, en hins stærra um 23.9 sm, og er það öll hæð. Sárin eru ekki mjög slæm.    Í útvarpserindi Kristjáns Eldjárns, óprentuðu: Um rúnir og rúnasteina, segir m.a.:    Árið 1812 var kirkja af tekin í Kalmanstungu og Kalmanstungusókn lögð frá Húsafelli til Gilsbakka. Hafði þá verið kirkja í Kalmanstungu langan aldur, og enn er þar hinn forni kirkjugarður. Fyrir skömmu voru unnin einhvers konar jarðabótastörf í garðinum, og komu þá fram nokkrir gamlir legsteinar, sem lítt eða ekki voru sýnilegir á yfirborði. Tveir þeirra voru sendir Þjóðminjasafninu, eins og skylt var og rétt að gera. Annar steinninn reyndist vera rúnasteinn, á hann er grafin áletrun með hinu ævaforna germanska letri, rúnum. Rifjuðust þá upp ummæli Jóns Ólafssonar frá Grunnavík, hins margfróða ritara Árna Magnússonar, þau er hann viðhefur í rúnafræði sinni eða Runologíu frá 1752: Sá djúplærði prófessor Antiquitatum Danicarum, sálugi assessor Arne Magnússon, kvaðst ei vita nokkurn stein með áhöggnum rúnum á Íslandi eldri en síðan anno 1300. Og var honum þó víðast kunnugt um landið af afspurn og yfirferð. Sá elzti steinn, er hann hefði þar séð, væri sá, er liggur í Kirkjugarðinum í Kalmanstungu (að mig minnir) og annan jafn gamlan eða litlu eldri. Hafði hann beggja þeirra letur uppteiknuð, sem ég sá hjá honum, og fleiri önnur: en eru nú eyðilögð með mörgu fleira, er hann átti af gömlum menjum, sem fortýndist allt í brunanum mikla, er yfir dundi stað þann 20. til 23 oktobris 1728... - hér er nú steinninn kominn alskapaður og ber þeim nú vitni Árna og Jóni ... Við sjáum þegar, að steinninn er úr pápískum sið. Jafnframt verður manni hugsað til rúnasteinsins sem liggur í kirkjugarðinum á Gilsbakka í sömu sveit og ber þessa áletrun: Hér hvílir Gils Jónsson Gilssonar. Steinarnir eru líkir og þeir eru enn tveir íslenzku rúnasteinarnir, þar sem talið er bæði föður- og afanafn hins grafna. Ættarmót steinanna er sterkt, en þó mannanafnanna enn sterkara, þar sem Kalmanstungumaður heitir Jón Gilsson Finnssonar, en Gilsbakkamaður Gils Jónsson Gilssonar. Þessir menn hljóta að hafa verið feðgar. Og ekki þarf lengi að leita í Fornbréfasafni til þess að komast á slóð þeirra. Þann 28. febr. 1398 selur Halldór nokkur Svarthöfðason Jóni Gilssyni jörðina Kalmanstungu, en Jón lætur á móti jarðirnar Sámsstaði, Skarðshamra og Klettstún, allar með tilgreindum merkjum, og fór þetta fram með samþykki kvenna þeirra. Þetta gerðist í Reykholti drottinsdaginn (þ.e. sunnudaginn) næsta á eftir cathedrationem Petri apostoli, eða 28. febr. 1398. Jón þessi Gilsson, sem þarna kaupir Kalmanstungu, var sonur Gils bónda Finnssonar að Hömrum í Reykjadal í Borgarfirði, og mun ætt hans nokkuð kunn. Sjálfur er maðurinn þó lítt kunnur, eins og margir menn á hans tíma, en við bréf kemur hann árið 1409, og talinn er hann hafa dáið 1429. En hvað sem því líður, þá er þetta maðurinn, sem Kalmanstungusteinninn hefur verið settur til minningar um, og því mun hann vera frá fyrsta þriðjungi 15. aldar. Gils Jónsson, sem grafinn var á Gilsbakka, hefur án efa verið sonur þessa Jóns, en víst mun hans hvergi getið í heimildum...    Sjá í þessu samb.: Bibliot. Arnamagnæana, vol. II. Anders Bæksted: Islands Runeindskrifter, Kh. 1942, bls. 106-108. Um umrædda menn má sjá á nokkrum stöðum í Fornbréfasafninu og í Safni til Sögu Íslands. Athuga þyrfti, hvort Gilsbakkasteinninn sé ekki yfir Gils Jónsson ráðsmann í Skálholti, sbr. vasabók Matthíasar Þórðarsonar hér á safninu og ívitnanir þar. Í vasabók þessa er vitnað hér á eftir. Ættliðalistinn vegna þessara manna, sem þar er, og umritunin á áletruninni á nr. 15016, eru á lausum miðum í bókinni. Miðarnir eru þrír. Þetta litla hefti geymir nær eingöngu legsteinalýsingar. Framan við þær er skrifað: Legsteinar o.fl. er jeg sá á ferð uppum Borgarfjörð í Ágúst 1903.


Heimildir

Kristján Eldjárn. "Rúnasteinn frá Kalmanstungu." Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Reykjavík 1962, 89. þáttur.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana