Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar



Landfræðileg staðsetning


HeitiSverð
Ártal900-1000

StaðurKaldárhöfði
ByggðaheitiGrímsnes
Sveitarfélag 1950Grímsneshreppur
Núv. sveitarfélagGrímsnes- og Grafningshreppur
SýslaÁrnessýsla (8700) (Ísland)
LandÍsland

Nánari upplýsingar

Númer13535/1946-43-1
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá, Fundaskrá_Munir, Fundaskrá
Stærð92 cm
EfniJárn
TækniTækni,Málmsmíði

Lýsing

Sverð frá söguöld, mikið og gott, 91 cm að lengd og vantar ekkert á það, en oddurinn eða fremsti hluti brandsins er brotinn um þvert á tveimur stöðum, meðalkaflinn í tveimur og eftri hjöltin frá. Ástæða þessa er sú, að grjót hafði hrunið ofan á sverðið þar sem það fannst, en annars er það frábærlega vel varðveitt. Brandurinn er 75,5 cm langur, en 6,2 cm breiður neðst og heldur vel breiddinni fram eftir. Eggjarnar eru beinar og grunn lægð eftir báðum hliðum. Vegna ryðs er þess enginn kostur að sjá, hvort brandurinn hefur verið damaseraður, þótt það megi telja líklegt, en greinilega sjást merki slíðranna, og hafa þau verið úr leðri og tréþynnum innan undir. Hjölt og klót eru úr kopar og mjög lík og á sverðinu hjá Jan Petersen: De norske vikingesverd, bls. 127, mynd 104, enda er sverðið af O-gerð hans. Fremra hjaltið er þó alveg beint frá hlið séð, en breikkar til beggja enda, og séð ofan eða neðan frá er það sporöskjulagað; það er 10 cm langt, en fremur mjóslegið allt. Eftra hjaltið er í stíl við hitt, en aðeins 6,2 cm að l. og fremur bogið með aftursnúnum endum, ef nokkuð er. Klótið er með 5 tungum eins og á myndinni, sem þegar er til vitnað; hefur það verið fest með 2 járnnöglum aftan á eftra hjaltið, en er nú laust frá. Grafið er á hjöltin bæði (nál?), tiglanet á fremra hjalt, en umhverfis eftra hjalt er röð af sporöskjulöguðum myndum með litlu striki í (-). Ekki er sjáanlegt, að neitt hafi verið grafið á klótið, en silfrað hefur það verið og töluverð silfurmerki sjást einnig á báðum hjöltum, svo að þau virðast munu hafa verið silfruð á sínum tíma, en silfrið að miklu nuddað af, er sverðið var niður grafið. Meðalkaflinn er 10 cm langur, með tanga, sem á hafa verið lagðar trékinnar, en síðan vafið um þétt með tvinnuðum, grófum þræði, (ullar- eða hör-?). Hefur þetta síðan allt ryðrunnið. Á einum stað hefur festst við dálítil pjatla af einskeftum, fremur fíngerðum dúk, líklega ullardúk, en það er ekki víst. - Sverð þetta fannst í fornmannskumli hjá Úlfljótsvatni, í landi Kaldárhöfða, sbr. frásögn um fundaratburði í Morgunblaðinu 21. maí 1946, og skýrslu rannsakanda til safnsins. Þarna fannst fjöldi gripa, sem taldir verða hér á eftir. Lík mannsins hafði verið lagt með höfuð til vesturs, sverðið við hægri hlið þess, niður frá belti. Það var fært úr stað af vatninu, sem var að brjóta landið. Sverðið er frá fyrra hluta 10. aldar. Úr Hundrað ár í Þjóðminjasafni:  (Kristján Eldjárn) Fullvíst er, að á víkingaöld var mikið flutt af sverðum til Norðurlanda sunnan úr álfu. Margir brandarnir hafa verið smíðaðir í vopnasmiðjum í Rínarlöndum, enda bera þónokkrir áletruð nöfn vopnasmiða suður þar. Slík sverð voru kennd við Valland og kölluð völsk sverð. Kaldárhöfðasverðið minnir á, að ensk sverð voru einnig þekkt á Norðurlöndum. Margir þessir útlendu brandar voru smíðaðir af mikilli list, damaseraðir, það er soðnir saman af mörgum teinum , sem ýmist voru af stáli eða deigu járni, og fengu við það sitt af hvoru, hörku og sveigjanleik, auk þess bragandi leiftran í málmfletinum, sem þótti fögur og vígaleg. Margir þessir brandar hafa áreiðanlega verið grimmgóðir, harðir, fjaðurmagnaðir, stilltir. Og heima á Norðurlöndum voru menn ekki heldur í vandræðum að smíða sæmilega góða branda eins og járnsmíðatæknin var orðin. Á vorum dögum láta menn hugvit, tækni og fjármuni þjóna vopnasmíði á undan öðrum nauðsynjum. Hið sama gerðu fornmenn. Vopn þeirra sýna, hvað þeir gátu bezt í tæknilegri meðferð járns og stáls. (KG, 2011)

Sýningartexti

Sverð, sem fannst í kumli manns og ungs drengs, hjá Kaldárhöfða í Grímsnesi, sem grafnir höfðu verið í smábát ásamt veglegu haugfé. Hjölt og knappur eru úr bronsi og knappurinn með fimm tungum. Hjöltin eru skreytt með gröfnum sporbaugum og leifar af innfelldu silfri sjást á hjöltum og knappi svo og leifar af slíðrum úr tré utan á brandinum. Meðalkaflinn, handfangið, er sívafinn ullar- eða hörþræði. Gerðin er talin engilsaxnesk að uppruna og tímasett til fyrri hluta 10. aldar. 13535 Sverð, sem fannst í kumli manns og ungs drengs, hjá Kaldárhöfða í Grímsnesi, sem grafnir höfðu verið í smábát ásamt veglegu haugfé. Hjölt og knappur eru úr bronsi og knappurinn með fimm tungum. Hjöltin eru skreytt með gröfnum sporbaugum og leifar af innfelldu silfri sjást á hjöltum og knappi svo og leifar af slíðrum úr tré utan á brandinum. Meðalkaflinn, handfangið, er sívafinn ullar- eða hörþræði. Gerðin er talin engilsaxnesk að uppruna og tímasett til fyrri hluta 10. aldar. 13535 Spjaldtexti: Sverð frá lokum víkingaaldar. Það stærstaer úr kumli hjá Kaldárhöfða í Grímsnesi. Sword from the late Viking Age. The largest is from a grave in South Iceland.

Heimildir

Kristín Huld Sigurðardóttir: "Haugfé. Gripir úr heiðnum gröfum." Hlutavelta tímans. Menningararfur á Þjóðminjasafni. Reykjavík 2004, bls. 64-75, sverð bls. 70-71. Kristján Eldjárn. "Vopngöfgir Grímsnesingar." Gengið á reka. Akureyri 1948. Bls. 25-44. Kristján Eldjárn. Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Rvk. 1962. 83. þáttur. Kristján Eldjárn. Kuml og haugfé. Rvk. 2000. Bls. 87-91, 324-325.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana