Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar



Landfræðileg staðsetning


HeitiFjöl, óþ. hlutv., Fjöl, útskorin
Ártal1000-1100

StaðurGaulverjabær
ByggðaheitiFlói
Sveitarfélag 1950Gaulverjabæjarhreppur
Núv. sveitarfélagFlóahreppur
SýslaÁrnessýsla (8700) (Ísland)
LandÍsland

GefandiGuðjón Sigurðsson

Nánari upplýsingar

Númer1974-217
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá, Munasafn
Stærð68,3 x 17,9 x 3,6 cm
EfniFura
TækniTækni,Útskurður
FinnandiGuðjón Sigurðsson

Lýsing

Úr aðfangabók:
Fjöl útskorin Hringaríkisstíl öðrum megin, framhlið.  Varðandi lýsingu á fjölinni er vísað til greinar Þórs Magnússonar í Árbók fornleifafélagsins 1974 bls. 63-73.  Fjöl þessi fannst vorið 1974 um 50 m norðaustan kirkjunnar, en í október 1973 var farið með jarðýtu þarna yfir sem verið höfðu tóftir, líklega af fjósi.  Gefandi fann fjölina en afhenti hana þeim Margréti Hermannsdóttur, Guðrúnu Sveinbjarnardóttur og Helga Þorlákssyni er þau voru á ferð þarna fyrir austan en þau komu henni til safnsins.

Úr Gersemar og þarfaþing:  (Texti eftir Margréti Hermanns-Auðardóttur)
   „Vorið 1974 fannst fjöl með Hringaríkisútskurði í Gaulverjabæ í Flóa, ekki langt þaðan sem gamalt útihús hafði verið rifið árinu áður.  Fjölin er 68,3 cm há þar sem hún er lengst og breiðust er hún 17,9 cm, en þykktin er frá 2,7 til 3,6.cm.  Fjölin er brotin til hliðanna og úr henni ofarlega hefur upphaflega verið tekið U-laga stykki.  Efri hluti fjalarinnar virðist hafa verið bogalaga og fylgt jaðri úrskurðarins en úrskurðarmynstrið hefur haldið áfram til hliðanna og sennilega einnig fyrir ofan U-laga úrtakið.  Ekki er vitað með neinni vissu hvaða hlutverki fjölin hefur upphaflega gegnt, en hún gæti verið hluti úr innréttingu eða jafnvel húsgagni.
   Skreytilist norrænna manna einkennist allt frá fimmtu öld að okkar tímatali fram á þá ellefu af ýmsum dýrastílum sem þróuðust hver fram af öðrum.  Sumir fræðimenn hafa talið að norrænu dýrastílarnir hafi upphaflega orðið til fyrir áhrif frá skreytilist skýþa og sarmata, en fleiri hallast þó að því að þeir hafi orðið fyrir áhrifum frá síðklassískri skreytilist í Mið-Evrópu.  Hringaríkisstíllinn tilheyrir lokaskeiði dýrastílanna og hefur verið tímasettur til 11.aldar, en þessa stíls gætti einnig allnokkuð á Englandi.  Frumþættir Hringaríkisstílsins eru dýr og jurtaskrautverk sem slyngjast og fléttast saman líkt og vafteinungar, en þó alltaf eftir ákveðnu kerfi.  Jurtaskrautverkið er einkennandi fyrir Hringaríkisstílinn hvort heldur það er til komið vegna austurlenskra áhrifa eða frá síðklassískri skreytihefð.
   Blómaskeið Hringaríkisstílsins liggur á mörkum heiðni og kristni og ber því upp á sama tíma og kristni var lögtekin á Norðurlöndum.  Hringaríkisstíllinn er til marks um það að norræn skreytihefð lagar sig að kristnum menningaráhrifum.  Á fjölum frá Flatatungu eru auk Hringaríkisútskurðar myndir af helgum mönnum, en nú er talið að fjalirnar hafi upphaflega þjónað sem myndgrunnur í kór í kirkju, og þá jafnvel í Hóladómkirkju.  Útskurðurinn frá Flatatungu væri þá nokkru yngri en útskurðurinn á fjölinni frá Gaulverjabæ, en hann er talinn vera á mörkum Jalangurs- og Hringaríkisstíls eða frá fyrri hluta 11. aldar líkt og útskurðurinn á fjölunum frá Möðrufelli og Hólum í Eyjafirði.
   Tréskurður í Hringaríkisstíl er nánast eingöngu þekktur af fjölum og fjalabútum sem fundist hafa hér á landi.  Varðveislu fjalanna má þakka því að hér var allur nothæfur viður endurnýttur til hins ýtrasta.  Stílfræðilega séð brúar íslenski Hringaríkisútskurðurinn bilið á milli tréskurðarins í skipsfundinum fræga að Gaukstöðum og útskurðarins á timburkirkjunni í Úrnesi í Noregi.
   Sléttu fletirnir milli útskurðarlínanna hafa trúlega verið málaðir og flétturnar þá hafðar í mismunandi litum.  Kirkjur eða hýbýli með máluðum Hringaríkisútskurði hafa verið glæsileg ásýndar.  Íslenskur Hringaríkisútskurður ber því vitni að við áttum í eina tíð útskurðarmeistara sem voru engir eftirbátar erlendra meistara.  Hringaríkisútskurður líkt og varðveitt miðaldarit eru ekki verk manna sem bjuggu við sult og seyru, heldur eru þau til marks um töluverða velmegun og frjótt menningarstig á evrópska vísu hér á landi á fyrri hluta miðalda.“
(Skráð af Sigrúnu Blöndal, 8.9.2010)

Á minjaslóð:
Þar er grein ÞM úr Árbók Hins íslenzka fornleifafélags frá 1974.  Þar er fjölinni lýst nánar og auk þess vangaveltur um útskurðinn og sögu fjalarinnar.
(Sett inn af Sigrúnu Blöndal, 5.1.2011)


Heimildir

Hörður Ágústsson. Dómsdagur og helgir menn á Hólum. Reykjavík, 1989.
Margrét Hermanns-Auðardóttir. „Hringaríkisstíll frá Gaulverjabæ.“ Gersemar og þarfaþing. Reykjavík 1994, bls. 234-235.
Þór Magnússon. „Hringaríkisútskurður frá Gaulverjabæ.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1974. Reykjavík 1974, bls. 63 - 74.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana