LeitaVinsamlega sýnið biðlund
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantarLandfræðileg staðsetning


HeitiPaxspjald
MyndefniBiblíumynd
Ártal1300-1400

StaðurBreiðabólstaðarkirkja í Fljótshlíð
Annað staðarheitiKirkjan
ByggðaheitiFljótshlíð
Sveitarfélag 1950Fljótshlíðarhreppur
Núv. sveitarfélagRangárþing eystra
SýslaRangárvallasýsla
LandÍsland

GefandiSkúli Gíslason 1825-1888

Nánari upplýsingar

Númer2444/1883-293
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá, Munasafn
Stærð22,4 x 17,3 cm
EfniTönn
TækniÚtskurður

Lýsing

Frá Breiðabólsstaðar - kirkju í Fljótshlíð.  Myndspjald, st. 17,3 x 22,4 cm., með 4 myndum, útskornum og með upphleyptu verki, úr rostungstönn, um 5,9 x 8,9 cm. að st. hver, settar í hornin milli armanna á krossi útskornum með útskorinni, upphleyptri krossfestingarmynd af Kristi á, og fyrir ofan krossinn, milli tveggja efra myndanna, er mynd af Kristi upprisnum, konungi himins og jarðar, blessandi með hægri hendi og með ríkisepli í vinstri. Sú mynd er 2,6 x 8,3 cm. að st. Kristur stendur í boghvelfdu hliði, og aðalmyndirnar 4 eru í líkum hliðum með 3 bogum.  Á þeim er sýnd boðun Maríu, fæðing Jesú, krossburður og upprisan.  Á fyrri myndinni situr María við bænapúlt og er bók á því;  hún er í síðri kápu,sem fest er saman með borða brjósti.  Hár fellur á herðar.  Hendur lagðar saman til bænar. Gabríel stendur við hægri hlið henni og víkur sjer að henni: hann hefur veldisspíru í hægri hendi og heldur hinni upp til bendingar.  Hann er í síðum klæðum, en hefir sjerstakt fat spint um bak og herðar og framum brjóstið.  Heilagur andi situr í dúfu líki með útbreidda vængi á veldisspíru hans og ganga stafir eða geislar niður frá hálsi dúfunnar yfir höfuð Maríu.  - Á næstu mynd liggur sveinninn Jesús als nakinn á kápuskauti móður sinnar á gólfinu: krýpur hún hjá og tilbiður hann, og Jósef stendur yfir með blys í vinstri hendi, en heldur hinni hægri um horn nauts, sem vill frýnast í barnið: hests - eða asna - höfuð kemur og fram hjá nautshausnum.  Efst og á bakvið eru 2 englar á flugi og halda á löngum söngblöðum.  - Á 3. myndinni er Kristur í miðju með kross sinn, afarstóran; hann er í dragsíðum kyrtli og með þyrnisveig á  höfði.  Bandi er brugðið um mittið og heldur hermaður í það og leiðir Krist.  Hermaður er með toppmyndaðan hatt eða hjálm, barðamikinn, og hefir háfan kraga um hálsinn og totuskó lága á fótum.  Annar maður minni er fyrir aptan Krist og heldur um krossinn: hann hefur hettu mikla á höfði og um hálsin og niður á brjóst. Ef til vill á þessi að vera Símon frá Kyrene.  -Á 4. myndinni er fremst Kristur með krossmerktum og tvíklofinn fána á stöng og kross á efst.  Beggja vegna er hermaður, annar með stórt sverð með löngum meðalkafla og stór framhjalti og brynhetta upp um hálsinn og höfuðið, en hinn er með öxi mikla, snaghyrnda: báðir hafa þríhyrdan skjöld og barðastóra toppmyndaða hjálma á höfði.  Þar fyrir aptan er gröfin og enn aptur eru 2 englar og 2 konur: eiga sennilega að vera þær er til grafarinnar komu um morguninn.  Myndirnar eru ekki alls kostar illa skornar, en sýnilega er hjer um íslenzkt bændahandbragð að ræða og ekki erlenda list.  Af búningum hermannanna virðist mega ætla að þær sje ekki yngri en frá 14. öld.  Ef til vill eru þær gerðar eptir útlendum fyrirmyndum, svo sem hinum frönsku ferða - altaristöflum úr fílabeini.  Þær virðast hafa átt saman og myndað eina heild frá upphafi, en umgjörð sú, sem þær eru í nú, er mjög nýleg, gyltur listi, útlendur, 1,4 cm.að br.  Þær hafa ef til vill verið paxspjald.


Skáldað í tré (sýningarskrá):
Nokkuð er til af útskornum kirkjugripum frá miðöldum, þar á meðal lítil paxspjöld úr tönn og beini, með myndum af krossfestingu Krists og atriðum úr ævi hans.  Paxspjöldin gengu á milli fólks í messunni, kyssti fólk á þau og sagði prestur um leið:  „Pax tecum“ (friður sé með þér).   Þekktast er paxspjald frá Breiðabólsstað í Fljótshlíð, líklegast frá 14. öld.  
(Sett inn af Sigrúnu Blöndal, 6.1.2011)


Sýningartexti

Paxspjald, skorið úr rostungstönn með myndum af boðun Maríu, fæðingu Jesú, krossfestingu og upprisu, en í miðju að ofan er Kristur krossfestur og efst er hann sýndur upprisinn sem konungur himins og jarðar. - Paxspjöld voru látin ganga milli manna í messunni í kaþólskum sið og kysstu kirkjugestir á spjaldið en prestur sagði um leið: pax tecum, friður sé með þér, og þar af er nafnið. Frá Breiðabólstaðarkirkju í Fljótshlíð, frá 14. - 15. öld.
2444  

Paxspjald skorið úr rostungstönn með myndum af boðun Maríu, fæðingu Jesú, krossfesstingu og upprisu, Kristi á krossinum og Kristi upprisnum. Paxspjöld gengu milli kirkjugesta í messunni í kaþólskum sið sem kysstu þau og prestur sagði jafnframt pax tecum, friður sé með þér, og af því er nafnið. Íslenzkur skurður, frá 14.- 15. öld.

Spjaldtexti:
Paxspjöld gengu á milli fólks í messu og kyssti það á myndina um leið og prestur mælti á latínu: Pax tecum, Friður sé með þér. Þar af fengu spjöldin nafn sitt. Eitt úr rostungstönn frá Breiðabólstaðarkirkju.

Paxes. One made of walrus ivory (f), two of pine (g, h), and one of whalebone (i). The pax (=peace) was passed from person to person during the Mass: they kissed the pax,
and the priest spoke the words Pax tecum, (Peace be with you).


Heimildir

Kristján Eldjárn. „Paxspjald frá Breiðabólsstað“.   Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Reykjavík 1962. Þáttur nr. 21.
    Þór Magnússon.   Skáldað í tré.  Íslensk skurðlist úr Þjóðminjasafni.   Reykjavík, 2001.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana