LeitaVinsamlega sýnið biðlund
HeitiSverð
Ártal1250-1300

ByggðaheitiSkjaldbreiður
Sveitarfélag 1950Þingvallahreppur
Núv. sveitarfélagBláskógabyggð
SýslaÁrnessýsla
LandÍsland

Nánari upplýsingar

Númer2982/1887-101
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá, Fundaskrá, Lausafundir
Stærð81 x 15 cm
EfniJárn
TækniMálmsmíði
FinnandiVernharður Guðmundsson

Lýsing

Sverð úr stáli, það er getið var í lýsingunni af nr. 2904.  Það er eineggjað, brandurinn 65,6 cm. að l. og 3,6 cm. að br. mest, við neðra hjaltið; bogið í bakkann inn að egginni á öllum kaflanum, sem efri er, 48 cm. l., þá er bakkinn beinn úr því fram að oddi, nema 2 - 3 cm. fremst. Eggin er öll nokkurn vegin jafnbogin, mest þó fremst. Þyktin á bakkanum er 0,8 cm. við fremra hjaltið, en fer jafnt minkandi fram í oddinn og til eggjarinnar.  L. fremra hjaltsins er 14,7 cm.; það er 2,1 - 2,2 cm. að br. upp af brandinum, og 1,5 - 1,9 að þ. þar, en gengur beint út og er ferstrent, að ofan 0,6 - 1 cm. að þverm., en að neðan grennra yzt, sjálfsagt eytt af ryði, því að alt er sverðið mjög ryðjetið.  Á fráhverfunni eru leifar af handbjörg á fremra hjaltinu, apturbeygður járnkrókur, ferstrendur við hjaltið en síðan flatur, br. mest 1,4 cm., og gengur 3 cm. út frá hjaltinu.  Meðalkaflinn er beinn og svo sem íholur á fráhverfunni, með 3 naglagötum, eptir naglana, sem kinnarnar hafa verið negldar á með.  Hinn fremsti þeirra er kyr en í gatinu; það er pípunagli úr eiri, 1,7 cm. að l. Milli gatanna eru 3,2 og 2,9 cm., en milli hjaltanna eru 12,7 cm., í miðju, en apturhjaltið er bogamyndað apturávið í miðju og verður það 1 cm. að br., en neðst er það mest 2, og gengur niður í smátotu eða horn neðst og aptast; verður þar 3,8 að l. mest og að þ. 2 mest, að ofan; flatt að aptan.   Hjöltin eru soðin á sverðið og alt ein samfeld heild.  Sverðið er heilt að sjá, nema hvað kinnar  vantar, og handbjörg að nokkru leyti.  Meðalkaflinn er 3 - 3,3 cm. að br. og 4 - 8 mm. að þ. í randirnar.  Apturhjaltið hefur sennilega ekki tekið neitt að ráði útfyrir kinnarnar og getur naumast hjalt heitið. -  ,,Sverð þetta er mjög liðlega smíðað, bakkinn þykkur uppi við hjöltun, en smá-mjókkar fram, og er oddhvast.  Það er ekki þungt (636 gr.).  Járnið, eða samsuðan, í sverði þessu sýnist vera mjög seigt, því það er furða hvað sverðið er enn stint, t.d. að framan, þar sem það er þó orðið svo þunt.  Járnið í því er og bjartleitt (kynbjart).  Það er seighart að finna, en vera má, að ryðið hafi nokkuð deyft það. 1)  Sverð þetta er (nær) alveg af sömu gerð og lagi eins og bæði sverðið nr.120, skýrsla Forngripasafnsins I (bls. 83 - 84), 2)  er fanst 1864, og sverðið er fanst á Gafli í Svartárdal (rjett: Svínadal) 1875 (nr. 1095), nema það síðast talda hefir engin veruleg hjöltu, nema spaðann, er gengur út úr hliðinni, eins og hin bæði hafa; en þessi 2 eru miklu meira ryðbrunnin, og brotið framanaf báðum.  (Sbr. nú enn fremur nr. 5185, sem er eins og nr.120).  - Samkvæmt laginu á hjöltunum á sverði þessu o. fl. hygg eg það muni vera frá síðari hluta 13. aldar, en getur þó jafnvel verið frá Sturlunga-tíð, sbr. Skýrslu Forngripasafnsins I., bls. 83 - 84.  - Eins og segir hjer að framan (sjá 6. marts) hefir látúnshólkurinn, sem var utanum sverðið uppi við hjöltun, líklega verið af umgerðinni, og hinn, sá mjói, gæti hafa verið döggskórinn.  Þó er ýmislegt, sem bendir á, að þeir kynnu að vera yngri en sverðið, og settir á það síðar, sem vel getur verið.   - Leifarnar af hnífblaðinu eru gamlar sem sverðið.  - Eins og segir hjer að framan (sjá 6. marts) fann Vernharður Guðmundsson í Haga í Grímsnesi sverð þetta í fyrra haust, 1886;  það fanst austnorður af Skjaldbreið, en í norðvestur frá Hlöðufelli; er þetta rjett í austur af Lambahlíðum, sem eru norðuraf Skjaldbreið; þetta var nær norðurvið Jökulkrók, sem kallaður er.  Sverðið lá ofanjarðar, alveg bert, í flagi millum tveggja barða.  Þar var moldarborinn sandur, nokkuð rauðleitur að lit.  Árni (Guðmundsson) á Þóroddsstöðum var hjer fjallaforingi, og ætlaði hann að reiða sverðið suður að tjaldstað þeirra; skildi þá Vernharður við hann.  En það er frá Árna að segja, að nokkru eptir að þeir skildu fór hann af baki í hraunlaut einni og áði þar um stund, en það er skamt yfir sögu að fara: hann skildi þar eptir sverðið í ógáti og kom sverðlaus heim að tjaldstað, en hólkunum og leifunum af hnífblaðinu hjeldu þeir eptir.  Þannig sagði Vernharður mjer.  - Í fyrra vetur kom Vernharður hingað suður, sagði mjer frá þessu og afhenti þá síðast töldu hluti.  Þar sem nú svona hafði til tekist, hvatti jeg hann til að gjöra tilraun til að leita að sverðinu á næstkomandi hausti.  Tók hann sjer þá ferð á hendur nú í haust með Árna, sem enn var þar í fjallgöngum.  Voru þeir þá svo heppnir, að finna sverðið í þeirri sömu laut, sem Árni hafði skilið það eptir í, og var það með sömu ummerkjum.  Þetta var suðaustur af Skjaldbreið, en í suðvestur af Hlöðufelli.  Jeg skal bæta því við, að sverðið fanst í byrjuninni norðuraf þeim svo kallaða Skessubásavegi, er liggur efst úr Byskupstungum, nær í norðvestur, og svo upp á milli Skjaldbreiðar og Hlöðufells, og þá nær í norður, á Kaldadalsveg; þannig er hann sýndur á Íslands stóra korti.  - Þetta sverð hefir líklega einhvern veginn týnst á förnum vegi, því engin veruleg sönnun er fyrir, að hjer upp frá hafi verið bygð.  Að vísu er á Hlöðuvöllum, er liggja sunnanundir Hlöðufelli, mikið graslendi, og fagurt á sumrum, að sagt er; og í Bárðarsögu Snæfellsáss er talað um Eiríksstaði undir Skjaldbreið, en hún er landvættasaga og því ekki að marka í þessu efni" (S.V.).  

1)   Það er víst, að stál, eða hert járn, sem lengi liggur í jörðu og ryðbrennur mjög, dignar. (S.V.).  
2)   Í lýsingunni á þessu sverði segir, bls.83,: ,,Eptir því endilaungu gengur hryggur."  Þetta er þó ekki rjett athugað, því þar er enginn hryggur, heldur er sverðið slegið jafnt fram frá bakka til eggjar. (S.V.).  


Sýningartexti

Eineggja sverð, sax, er fannst norðaustur af Skjaldbreið og mun frá miðöldum.
2982

Eineggja sverð, frá 13-14. öld.

Spjaldtexti:
Eineggja sverð frá miðöldum. Hið aftara fundið hjá Skógum í Fnjóskadal en hitt hjá Skjaldbreið.

Single-edged swords.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana