LeitaVinsamlega sýnið biðlund
HeitiRúmábreiða
TitillRiddarateppi
Ártal1690-1720

LandÍsland

Nánari upplýsingar

Númer800/1870-50
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá, Munasafn
Stærð159 x 128 cm
EfniUllargarn
TækniTækni,Textíltækni,Saumur,Útsaumur,Gamli krosssaumurinn

Lýsing

7 Úr aðfangabók:
Keyptur gripur: kross-saums-ábreiða; hún er með gulum grunni, að ofanverðu eru margir smáhríngar með örn, hirti og dúfum innan í. Á þeim endanum, sem snýr að fótagaflinum, eru og margir hríngar með rósum, örn, dúfum og ljóni innan í; til hliðanna eru þrísettir laufaviðar-bekkir, mestmegnis gjörðir í býzönskum stíl; til beggja hliða eru og þrír hálfir átthyrníngar með hjörtum innan í, sem standa upp við hríslur, gerðar í sama stíl. Innan í miðjunni eru 6 átthyrníngar með þrennskonar manna myndum innan í, og eru tvisvar þær sömu. Innan í einum átthyrníngnum er myndaður maður, sem situr á stóli með háfum stólbrúðum, fyrir framan hann er borð með sex fótum og dúk á. Hann hefir húfu eða hatt á höfði, uppmjófan með litlu barði, með líku lagi og á sumum riddurunum á stólnum Nr. 443. Hann hefir klofið skegg, og er í einhneptri treyju eða stakk, ermalausum (?), því ermarnar eru rauðar, en stakkurinn grænn; samt er litina lítið að marka, því hestarnir eru bæði rauðir og grænir og bláir. Þar utan yfir ber hann spánska kápu með kraga, bláa að lit. Þar fyrir neðan í næsta átthyrníng er maður sitjandi á hesti; hann er í stuttri treyju grænni að lit einhneptri, sem nær nokkuð niður fyrir mittið, og slær sér þar út, ermarnar eru uppvíðar og rauðar að lit. 1) Hann hefir mjög víðar brækur, sem að eins ná niður að hné (,,stuttvíðar"), sokka og uppháfa skó á fótum; hann hefir hatt á höfði með fjöðrum vinstra megin og með barði, sem er uppbrett allt í kríng, hattbandið er skrautlegt. Hann heldur á atgeir í vinstri hendi; á hestinum er beizli með snoppu-ól og staungum, og tvöföldum taumum (?). Á reiðanum er stór bóla með tveimur breiðum spælum út frá á hvorja hlið. Á eptir manninum flýgur haukur; ofan við vinstri öxl mannsins er eins og hjarta, með eins og krossi upp úr, sem mun eiga að tákna ást og trú? - Í næsta átthyrníng þar fyrir neðan er og maður á hestbaki, hann hefir hatt eða húfu á höfði með fjöðrum, og skrautlegu tvílitu bandi um að neðan. Hann hefir síðan einhneptan stakk eða kápu, sem er ermalaus og með víðum handvegum, 2) sokka og uppháfa skó á fótum; beizlið er eins og á hinum, en með einföldum taumum. Við söðulinn er brjóstgjörð, með þremur skúfum niður úr á hvorja hlið; reiðinn er með stórri bólu á ólinni, sem gengur aptur eptir miðri lendinni: auk þessarar ólar, þá gengur ein ól neðarlega úr söðulboganum og aptur fyrir lær hestsins, og svo í söðulbogann hinum megin. Þessar ólar sameinast og haldast uppi af 5 þverólum, sem gánga yfir þvera lendina, og sem enda allar í doppum eða skúfum, sem lafa lengst ofan á lær hestinum. Maðurinn heldur á öxi snaghyrndri í vinstri hendi, bak við hana sést stjarna, og leggur með krókum útúr í líkíng af akkeri, hjarta með akkeriskrossi uppúr, og dúfu, sem mun eiga að tákna von, trú, stöðuga ást og sakleysi. Þessi sami hestbúnaður, sem sést á þessum myndum, er og sýndur á fleirum íslenzkum myndum frá 16. öld; hann tíðkaðist hérumbil eins á 15., 14. og 13. öld hér og í Norvegi, nema hvað ólin var opt ein þvert yfir hestlendina á 13. og 14. öld, í staðinn fyrir að þær eru hér fimm. Beri maður saman búníngana á þessari ábreiðu við búníngana á stólnum Nr. 443, þá sér maður, að hvorttveggja er hérumbil frá sama tíma; samt mun ábreiðan vera heldur ýngri. Hattarnir og húfurnar eru sýndar með snúnum og marglitum viðhafnarböndum, eða settum með silfurbúnaði, sem líka sést á fleirum myndum og í kvæðum frá því tímabili, sbr. ,,Kvæði útaf einum tilburð", kveðið af síra Ólafi Jónssyni á Söndum, 1696 [rétt: 1560]-1627, 10. vísu, það er um barn, sem fæddist vanskapað:                  
,,Kríngum þess höfuð sérhver sá                  
sett með tindum, það líkjast má                  
við hofmóð og hattbönd manna,                    
veldur því dramb, sem veikir þá,                  
vols það hlýtur guð banna."  
Þetta lítur bæði til karlmanns-hattbandanna og djásnanna, sem konur báru á 16. og 17. öld, með tindum eða oddum upp úr, 3) sjá Nr. 402 hér á undan. Treyjurnar eru hérumbil eins og sjást á fleirum myndum frá 16. öld, sem eru öldúngis samsvarandi. Brækurnar eru og eins, nema á þessari ábreiðu sjást engir geirar skornir úr brókunum á lærunum allt í kríng, eins og á stólnum. Aptur á móti sést það á öðrum myndum frá 16. öld, sem sýna berlega, að það hefir þá verið siður hér á landi; en sumar af þeim myndum eru líka með óútskornum brókum á lærunum, eins og á þessari ábreiðu. 4) Þessi siður hefir haldizt að eins með litlum breytíngum fram undir 1640, 5) og mér virðist það vera sami búníngur, sem Hallgrímur Pétursson lýsir í Oflátúngakvæði, þar sem hann segir:                    
,,Ber á höndum breytta hanzka,                    
buxur fernar klæddur á,                    
með knappatreyju og kjólinn franska,                    
klæðin trú' eg hyli sá,                    
sést um hálsinn silkið danska                    
svarðar Heimdals lagður der.                    

margur heldur mikið af sér
". 6)  
,,Fernar buxur"  get eg ekki skilið á annan hátt, en að fyrst sé taldar nærbrækur, síðan þraungar leistabrækur þar utan yfir, sem voru með áföstum sokkunum við, og sem heyrðu til spánska búníngnum; síðan stuttar og víðar lín- eða silki-brækur, sem náðu ofan undir kné, og allra yzt þær svörtu eða dökku spánsku brækur, með útskornum geirum allt í kríng á lærinu, sem þær hvítu stuttu lín- eða silkibrækur fylltu út í, og sem sáust í gegnum geirana, sem skornir voru úr þeim (fjórðu). Eg get eigi betur séð, en að knappatreyjurnar, 7) sem Hallgrímur talar hér um, sé einmitt þær fyr umgetnu spánsku, eða ef til vill réttara sagt hollenzku treyjur, sem voru opt, auk þess að þær voru einhnepptar á brjóstinu, með smáum hnapparöðum framan á endilaungum ermunum; því í olbogabótinni var opt skorinn úr þeim stór geiri, og skein þar í hvítt lín,sem mun hafa mátt hneppa saman með þessum hnöppum til hlífðar líninu. Af þessum óþarfahnöppum munu þessar treyjur hafa fengið nafn, líkt og ,,hnappahjúpur" um og eptir 1700, 8) og  ,,hnappafrakkarnir" kvennfólksins um 1830. Lagði hatturinn eða
der
, sem Hallgrímur talar hér um, mun og vera þeir fyr umgetnu hattar með skrautböndunum, eða þá hattar með borðalögðum röndum á börðunum allt í kríng. Þannig hefir maður aðalkarlmanns-búníngana frá 16. öld, saumaða, skorna og dregna á skinn.    
1) Það getur verið, að hér sé sýnd einskonar ermalaus vesti, sem hétu ,,treyjur", og sem tíðkuðust á fyrra hluta 17. aldar, áður en frönsku síðkjólarnir komu upp (og líklega síðari hluta 16. aldar), sem bæði Björn á Skarðsá getur um sem ,,þriðja klæði", og eins Páll Vídalín: Fornyrði Lögb. 555 og 35-36.  Þær lögðust af um 1670, en komu upp aptur líkar 1680-90, en hétu þá útlendu nafni ,,vesti". Orsökin til þess, að þessi ermalausu klæði hétu treyjur, er sú, að allar ermalausar kyrtils-tegundir allt frá 11. öld til 1670 hétu treyjur. Undir þessum ermalausu treyjum báru menn opt hér á landi á 17. öld rauðar peisur, og sáust rauðar ermarnar út undan, líkt og sýnt er á þessari mynd; þær virðast opt að hafa verið reimaðar saman á brjóstinu, sbr. ,,eitt kvæði, hvernig ýngismenn hrósa sér fyrir stúlkum":                    
,,Tinhnapparnir treyju hrósa,                  
tapa þeir aldrei litnum ljósa,  
undir peisa rauð sem rósa          
reimar gegnum stínga.                  
því kom eg híngað.                  
ullar skyrta, ef allt skal glósa,                  
sú aldrei lætur falla á sig.              
heiðurs vífið, hvernig lízt þér á mig".

sbr. kvæði, eignað síra Steffáni Ólafssyni í Vallanesi 1640 [rétt: 1618]-1688 (Ljóðmæli bls. 34-46):                        
,,Af þessu mengi                      
vill þegn ei lengi                    
sér þéna brauð,                    
svo verk ei sprengi                      
sig gipta gengur                    
í grönnum auð,                      
með kjól og hengi [þ.e. sverðfetill]                    
sem bríngan bauð,                    
í buxurnar strengist                      
peisan rauð".  
Nær orðið ,,treyj" hefir skipt um merkíng hér á landi er enn óvíst; getið er um kvenntreyju (sem ætíð munu hafa verið með ermum) í þulu frá dögum Brynjólfs biskups (+1674) sjá Nr. 759.  
2) Þessir stakkar sjást alveg eins á öðrum myndum frá 16. öld, og með víðum handvegum, og leggjast barmarnir útá, einkum að ofan; engin belti eru girt utan að þeim. Hvað þessar yfirhafnir hafa þá heitið, er mér ekki ljóst.    
3) sjá vísu úr ,,Hugsjón" um djásn við Nr. 788. Að djásnin hafi verið algeng á heldri konum á 16. öld sést ennfremur af bréfum. Kristín, dóttir Gottskálks biskups grimma, fékk í bekkjargjöf djásn gyllt af silfri, er vóg 4 merkur, er hún giptist Þorvarði lögmanni hérumbil 1508.  
  Á kertastiku á Grenjaðarstað eru grafin tvö merki á skildinum; á efra merkinu er biskupsmítur og tveir lyklar lagðir í kross, hjálm-merkið er heill björn, og tvö vísundarhorn, utan við merkið eru stafirnir
H.G.T.S
.   [þ.e. herra, Gísli, Thorláks, son]; - á neðra merkið er grafið djásn með sex laufum uppúr að framan, það er breiðast að framan en mjókkar aptur; ofaná því stendur einhyrníngur. Neðan við djásnið eru stafirnir.
R.J.D.
[þ.e. Ragnheiður Jónsdóttir, frú Gísla biskups], og er djásnið hér látið samsvara hjálminum með hjálmmerkinu yfir hans skjaldarmerki; sbr. Kötludraum 25.vísu:                  
,,Mig bað hún Alvör,                  
að eg eiga skyldi                  
hnossir slíkar,                  
ef eg hafa girntist:                  
hrínginn rauða                  
og höfuðgull mikið,                  
fíngurgull fjögur                  
og fagran linda".  

Einnig í Háttalykli Lopts ríka (frá 1410-20):  
         
,,grannur vöxtur, gullverpt enni á henni,              
gult hár linar hrygðar fari sáru,              
sólbjört augu svala kælu báli              
á snotri reikar eik, hún er mín leika".  

Orðið djásn er líklega komið af gríska orðinu  
diadema.

4) Á tveimur myndunum á stólnum eru að eins skornar 6-7 rákir niður eptir brókunum allt í kríng, það mun eiga að tákna borða, sem opt var haft á spánskum brókum í staðinn fyrir geirana.  
5) sbr. mynd af Daða bónda Bjarnasyni á Skarði  +1643.  
6) sbr. kvæðið Ýngismanna hrósun:  
               
,,Þrennar buxur þar fyrir neðan,                  
þegiðu frá eg segi á meðan,                  
allt frá mitti og ofan héðan                  
undir hverjum pýngja.                  

því kom eg híngað.
                 
hefi eg búníng hvergi léðan,                  
hirði eg ekki að dára þig.                    
heiðursvífið, hvernig lízt þér á mig ?"
7) í útgáfunum er ,,knappa" og ,,treyju" skilið sundur, sem mér finnst þó ólíklegt að sé rétt.  
8) Þ.e. Franski kjóllinn eða rokkurinn með mörgu óþarfahnöppunum á brjóstinu, vasalokunum og uppslögunum; sbr Viðurstygð drambseminnar eptir síra Þorlák Þórarinsson:                    
,,gapandi hnappahjúpur                    
hrjóstugu þénar brjósti".  
sbr. vísu úr ,,Stúdenta-spegli" við Nr. 369, frá 1747 - 1753 (eða frá dögum Ólafs biskups Gíslasonar).

Úr Íslenskur útsaumur:  (Elsa E. Guðjónsson)
   „Í Þjóðminjasafni Íslands eru fimm rúmábreiður og hlutar af að minnsta kosti tveimur í viðbót, unnar algjörlega með gamla krosssaumnum.  Auk þess er vitað um tvær í einkaeign, aðra  erlendis [...].   Ábreiður þessar eru frá 17., 18. og öndverðri 19. öld, og eru á þremur þeirra nöfn eða fangamörk ásamt ártölum,hið elsta 1705, hið yngsta 1811 [...].   Ábreiðurnar eru misstjórar, um 150 - 175 cm á lengd og um 100 - 130 cm á breidd.   Þær eru saumaðar með mislitu ullarbandi - ein með svolitlu silki að auk - í tvist ýmist með venjulegri einskeftuvend eða jafavend, og er grunnefnið alveg hulið útsaumi.  Á flestum ábreiðunum kemur fyrir hin dæmigerða íslenska munsturgerð sem áður var lýst, þar sem yfirborðinu er skipt í reiti.  Á þeim mörgum er einnig annað einkenni sem þær eiga sammerkt með nokkrum refilsaumsklæðanna frá miðöldum, sem sé fölgulur grunnur.   Dæmi um þetta hvort tveggja er „riddarateppið“ sem svo er oft nefnt af gestum Þjóðminjasafnsins vegna munstursins í því miðju:  átthyrndra umgerða með myndum af riddurum og hefðarmönnum [...].   Ekki er vitað um uppruna þessarar ábreiðu, en hún hefur verið talin frá 17. öld, þó svo að klæðatískan sem fram kemur á myndunum sé frá seinni hluta 16. aldar.
(Sett inn af Sigrúnu Blöndal, 25.10.2010)


Sýningartexti

Rúmábreiða, saumuð með fléttusaumi eða „gamla krosssaumnum“ svonefnda. Myndirnar eru af riddurum með axir og atgeira, hjartardýrum í skógi og hefðarmönum við borð, en í reitunum umhverfis eru fuglar og smærri dýr. Myndirnar eiga sér sumar uppruna í riddarasögum miðalda og er ábreiðan því oft nefnd „riddarateppið.“ Einnig er hinn alkunni akantusteinungur áberandi, sem þekktastur er úr tréskurði. Frá um 1800.
800

Rúmábreiða, saumuð með fléttusaumi eða „gamla krosssaumnum“ svonefnda. Myndirnar eru af riddurum með axir og atgeira, hjartardýrum í skógi og hefðarmönum við borð, en í reitunum umhverfis eru fuglar og smærri dýr. Myndirnar eiga sér sumar uppruna í riddarasögum miðalda og er ábreiðan því oft nefnd "riddarateppið." Einnig er hinn alkunni akantusteinungur áberandi, sem þekktastur er úr tréskurði. Frá um 1800.
800


Heimildir

Elsa E. Guðjónsson. Íslenskur útsaumur. Reykjavík 1985.
    Elsa E. Guðjónsson.  Íslenskur útsaumur.  Kópavogur, 2003; bls. 28 - 31.
    Kristján Eldjárn. „Krosssaumsábreiða.“ Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Reykjavík 1962, 8. þáttur.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana