Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu


Landfræðileg staðsetning


HeitiÞiljubrot, úr bústað
Ártal1400-1500

StaðurBjarnastaðahlíð
ByggðaheitiVesturdalur
Sveitarfélag 1950Lýtingsstaðahreppur
Núv. sveitarfélagSkagafjörður
SýslaSkagafjarðarsýsla (5700) (Ísland)
LandÍsland

Nánari upplýsingar

Númer8891-e/1924-5
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá, Munasafn
Stærð158,5 x 27,5 cm
EfniGreni
TækniTækni,Útskurður

Lýsing

Úr aðfangabók:
Þiljur úr greni, alls 13 brot, flest ósamstæð. Þau eru úr árepti á skemmu í Bjarnastaðarhlíð, en sagt er að þau hafi verið fyrrum í skála í Flatatungu, og eru á þeim bæ enn nokkrar þiljur, með samskonar útskurði. Allar eru þiljurnar heflaðar eða skafnar sljettar á þeirri hlið, sem inn hefur snúið, en hin hliðin er fúin og hefur nú verið límborin. Brotið er af endunum á öllum, en sumar halda enn sinni fullu breidd. Þær hafa verið felldar saman lárjettar, plægðar í rendur, þannig að burst er á hinni efri, en sýling í hinni neðri ( tákn eins og stafn á húsi, AEG. ). Á sljettu hliðinni á þeim öllum er útskurður, hluti af stærri mynd, en engin myndin er heil: hefurtekið yfir fleiri þiljur. Myndirnar hafa verið aðgreindar með strikum. Þær eru skornar mjög grunt í og líkjast lauslegum teikningum. Þær eru gerðar af list, eru sýnilega eptir sama teiknara.  „a.“ Lítið brot, mesta l. 63 cm., mesta br. 12,5: er úr efri hluta þilju. Á því eru myndir af 2 persónum og hönd ( fingur ) af þriðju. Persónurnar lúta dálítið til vinstri og rjetta fram hendurnar. Sjer neðri hluta höfuðs og niðurundir mitti. Báðar á kyrtlum með höfuðsmátt, sem gengur í sýling niður á brjóstið, og ermum, sem ná að eins fram yfir olnbogana. Yzt við hægri enda eru 2 þverstrik, af umgjörð þeim megin.  „b.“ Lítið brot, l. 52,5, br. um 18 cm. Hægra megin á því er persóna, sem líkist þeim sem eru á a.: gæti þetta brot verið af vinstri enda á „a.“  Fyrir framan þessa persónu er stórt og afskaplegt höfuð, svo sem á skurðgoði eða óvætti: sjer beint framaná andlitið. „c.“ Lítið brot, l. 54, br. 16,5 cm. Efst á því eru mannsfætur naktir, koma niður úr kyrtli, en personan hefur legið eða kropið og snúið til hægri. Fyrir neðan eru 2 strik, úr umgjörð þeim megin. „d.“ Lítið brot, l. 68, br. 15,5 cm. Á því eru 3 persónur og hönd af 4. Snúa til hægri og rjetta fram hendurnar. Líkar og þær sem eru á „a.“ og „b.“     „e.“ Stórt brot, l. 158,5, br. full, 27,5.  Fremst vinstra megin á því er sitjandi maður. Fyrir aptan hann sjást hendur og hendleggir, manns, sem tekur á hægri öxl þess er situr. Eru kyrtilermar framum miðjan framhandlegg á þeim  apt(a)ri. Sá sem situr snýr sjer nokkuð fram efst og höfðinu jafnvel dálítið aptur, en rjettir fram ( til hægri) báðar hendur sínar. Fyrir framan hann sjer hinn 3., höfuð hans og hendur: tekur hann hinni vinstri fyrir ofan hnje á vinstra fæti þess er situr, og snýr höfðinu að honum. Hægri höndin er útrjett eða teygð út til hægri og heldur 4. maðurinn um handlegginn fremst, með hægri hendi sinni útrjettri: vinstri hendinni lyftir hann nokkuð upp á móts við höfuð sitt: sjer framan  á höfuð hans og brjóst: hann snýr höfðinu nokkuð til hægri, að manni, hinum 5., sem er þeim megin við hann, snýr kroppnum að honum og rjettir fram  báðar  hendur sínar að honum eða þeim er situr, en höfðinu snýr hann dálítið aptur og gín þeim megin, yzt hægra megin á fjölinni, afarmikill ormur yfir hann eða til vinstri. Fyrir ofan þessar myndir, einkum 3. og 4. manninn eru ofarlega á fjölinni nokkrir drættir, líklega neðri hluti af myndum, sem annars hafa verið á næstu þilju fyrir ofan. Þessi mynd virðist kunna að eiga að sýna það, þegar spámaðurinn Jónas ljet kasta sjer í sjóinn og stórfiskurinn kom og svelgdi hann ( Jónas 1.11 og 2. 1 ). „f.“ Annað stórt brot, l. 172,5, br. 26. Fremst á vinstri enda sjest upprjettur handleggur á manni og nokkuð að hlið hans niðurundan. Því næst er, um alt miðbik fjalarinnar myndir af 3 stórfiskum: er hinn neðsti miklu stærri en hinir tveir: sjest af honum haus og sporður. Er á gininu eitthvað, sem nú sjest að eins lítið af á þessari fjöl, en hefur víst verið maður, sbr. „e“ og „j.“ Hinir stórfiskarnir eru með langri trjónu framúr hausnum eins og andarnefja, einkum hinn aptari, og lafir sem hreifi út úr kjaftinum. Þrjú umgjörðarstrik eru þversum nokkru fyrir aptan miðja fjöl og er hún auð fyrir aptan þau. Hjer mun hafa verið sýnt, hversu stórfiskurinn gleypti Jónas spámann. „g.“ Stórt brot, l. 139,5, br. 24,5 cm. Á því eru hlutar af 2 myndum og eru 3 umgjörðarstrik á milli. Á fremri myndinni sjást 9 - 10 persónur, höfuðið eitt á flestum, en efri hluti líkamans á 3-4 og eru allar naktar: hárið er sítt og virðast myndirnar vera kvenmyndir. Tvær taka annari hendi í hárið á öðrum tveim og halda þar höndunum út til beggja hliða: þær tvær eru í miðið.  Á apt(a)ri myndinni eru mannsandlit eða hausar einir, ónákvæmlega skornir, en allir að heita má eins: eru þetta 3 raðir lárjettar og 6 í hverri, en raunar eru nú öptustu hausarnir horfnir á neðri röðunum: hefur þar brotnað af.  Neðsti hluti þessarar myndar er á fremri endanum á „h.“ Þar er 1 röð af hausum og er sú röð öll, 7 hausar: eru umgjörðarstrik við báða enda og fyrir neðan. Þá er þessi hausmynd valra heil: vantar líklega ofanaf henni. „h.“ er að l. 149 og br. 27 cm. Á aptari endanum er neðri hluti annarar myndar og sjást á henni  fætur 5 manna, upp á mið læri, allir naktir. Vantar af hægri enda. Allur neðri hluti þessarar þilju er alauður. Er strik fyrir neðan myndirnar og milli þeirra, auk sjálfra umgerðarstrikanna um þær ( tákn, tvö strik löng langsum og tvö stutt lóðrétt strik upp á endanum  og þrjú lóðrétt strik upp í miðju, AEG, ). „i.“ er stutt brot, l. 39,5: br. 22 cm. Neðst á því sjást efri hlutar 3 andlita og fyrir aptan þau sjest á önnur 3 höfuð. Þar fyrir ofan eru 2 umgjörðarstrik. Fyrir ofan þau sjást hlutar af einhverju úr mynd sem þar hefur tekið við. „j.“ er stórt brot, l. 114, br. 23 cm. Á því er sama kvikindið eða ormurinn sem á „e.“ : sbr. og „f.“ Hefst hann enn úr  hafsins bylgjum og spýr nú manninum: lafir allur efri hluti mannsins útúr gini ormsins eða stórfiskjarins: höfuð og handleggir hanga niður. Ormurinn er í bugum og upp úr hausnum er horn. Þrjú umgjörðarstrik eru þarna hægra megin. Bendir þessi mynd enn á að hjer hafi verið skorin saga Jónasar spámanns, sbr. „e.“ og „f.“: en varla eru allar myndirnar úr henni. „k.“ Lítið brot, l. 56, br. 26,5 cm. Á því eru myndir af 2 persónum, karlmanni og kvenmanni: sjer höfuð og niður á brjóst á báðum. Bæði eru í kyrtli og trefill eða dúkur er á höfði konunnar: lafir kögur miður um herðarnar. Maðurinn lyftir upp fyrir framan sig, um leið og hann víkur sjer að henni báðum höndunum, en hún snýr sjer beint fram og víkur höfðinu nokkuð undan, en heldur höndum sínum með útrjettum fingrunum, upp fyrir framan brjóstið. Yzt vinstra megin á fjölinni er hluti af mynd, líklega 3. persónunni. Fyrir ofan þessar mannamyndir eru 3 umgjörðarstrik lárjett. Þar fyrir ofan sjest óljóst votta fyrir hluta af mynd ( fæti ? )  og yzt vinstra megin umjgörðarstrika af horni á mynd, sem þar hefur verið fyrir ofan og framan.  „l.“ er lítið brot, 76 cm. að l. og 13 að br. Á því sjást að ein 4 boglínur, líklega neðanaf einhverri mynd,  sem þar hefur verið fyrir ofan. „m.“ Stórt brot, l. 161,5, br. 25 cm. Efst á því , innan umgjörðarstrika, sjást óljóst neðstu hlutar af þrem myndum, mannafætur o. fl.   Víða á þessum fjölum eru göt eptir gilda trjenagla , sem þeim hefur verið fest með á stafi, sem hafa verið á bak við : götin eru um 1,5 - 2,5 cm. að þverm. Sum virðast sett reglulega: í 2 eru bútar af nöglunum enn, á „f.“ og „j.“              Um þessar fornu þiljur er getið í Kr. Kålunds Bidrag til en hist.-topograf. Beskrivelse af Ísland, II. b., bls. 71, Árb. Fornfjel. 1888 - 92, bls. 80 ( þær sem eru í Flatatungu og fylgir við Árb. Fornlfjel. 98, bls. 23 ( en þar er raunar rangt skýrt frá, að þær hafi þá verið keyptur til safnsins). Þiljurnar munu að vísu vera úr skála þeim er segir í sögu Þórðar hroða að hann hefði smíðað í Flatartungu. Hefur höfundi sögunnar verið kunnugt um þær, en vitanlega er þar með engin sönnun fyrir því að Þórður hafi gert það hús, sem þær eru úr, nje að það hús hafi verið tekið ofan er Egill byskup Eyjólfsson var á Hólum, 1331 - 41. Að svo komnu er erfitt að ákveða með vissu aldur þessara fjala: má vera að eitthvað megi frekar ráða af þeim sem enn eru í Flatatungu. Varla eru þær yngri en frá 15. öld.

Íslensk kirkjulist  (Þóra Kristjánsdóttir):
   Hér verður í lokin tekið dæmi um listaverk sem á sér ekki líka annars staðar á Norðurlöndum.  Það eru leifar af mikilli dómsdagsmynd sem fræðimenn telja nu að hafi prýtt dómkirkjuna á Hólum í tíð Jóns biskups Ögmundssonar.   Varðveist hafa 13 fjalir eða myndbútar sem lengi ollu mönnum heilabrotum.   Þeir komu til safnins frá Bjarnastaðahlíð í Skagafirði árið 1924, voru þar síðast í árefti á skemmu [...].   Selma Jónsdóttir færði rök fyrir því árið 1961 að fjalirnar væru hluti af stórri býsanskri dómsdagsmynd.  Hún taldi að myndin hefði upprunalega verið í sögufrægum skála Þórðar hreðu í sömu sveit, en þess veglega skála er oft getið í fornum heimildum.  Selma taldi helst að fyrirmyndin hefði borist með ermskum biskupum til  Íslands á 11. öld.
Kristján Eldjárn varpaði fyrstur manna fram þeirri hugmynd að svo stór mynd hefði varla getað verið í veraldlegum skála og taldi að trúlegra væri að hún hefði upphaflega verið í stórri kirkju, og þá helst í dómkirkjunni á Hólum.  Hörður Ágústsson hefur nýlega birt heila bók um fjalirnar frá Bjarnastaðahlíð og um fjalirnar frá Flatatungu, þar sem hann færir rök að því að þessi stóra dómsdagsmynd, 9 m breið og 2,2 m á hæð hafi prýtt dómkirkju Jóns Ögmundssonar á Hólum í upphafi 12. aldar.
   Fyrirmynd dómsdagsmyndarinnar vefst enn fyrir mönnum, ekkert samanburðarefni fyrirfinnst í Noregi, en reynt hefur verið að rekja sporin til klaustursins á Cassinofjalli eða frá Lundi yfir á Gotland og alla leið austur í Kænugarð eða Miklagarð.   Erfitt er að bera saman við stíl mögulegra fyrirmynda því að grunnlínurnar eru einar eftir á íslensku fjölunum, en þær hafa í öndverðu verið málaðar.  Frekari rannsóknir gætu varpað skýrara ljósi á þessa skemmtilegu gátu og um leið fyllt upp í þá óljósu mynd sem við nú höfum af tengslum Íslendinga við umheiminn fyrir þúsund árum.
(Sett inn af Sigrúnu Blöndal, 12.1.2011)

„ICELANDIC ECCLESIASTICAL ART IN THE MIDDLE AGES.“   Church and Art (Þóra Kristjánsdóttir):
... a work of art that has no parallel  elsewhere in the Nordic world.   This is the remains of a great depiction of the Last Judgement, which scholars now believe was in the cathedral at Hólar in the time of Jón Ögmundsson the Holy.  Thirteen boards or fragments have survived, and they were long an enigma.  They came to the National Museum from Bjarnastaðahlíð in Skagafjörður in 1924, where their last function was as purlins in the roof of a shed.   In 1961, Selma Jónsdóttir proposed the theory that the boards were part of a large Byzantine Last Judgement.  She believed that the picture had originally been in the famous hall of Þórður hreða, in the same region, which was often mentioned in the old sources.   Selma suggested that the origin of the concept might be traced to bishops from the Byzantine area, possibly Armenian, in the 11th century.   Kristján Eldjárn was the first to suggest that a picture of this size would hardly have been found in a secular building, and thought it more likely to have been located in a large church, probably the cathedral of Hólar.   Hörður Ágústsson has recently published a book on the boards from Bjarnastaðahlíð and Flatatunga, in which he argues that this large Last Judgement , nine metres across and 2.2 metres high, was located in the cathedral of Jón Ögmundsson at Hólar in the early 12th century.
(sbl, 24.1.2011)


Heimildir

Á efsta degi. Bysönsk dómsdagsmynd frá Hólum. Ritstjórar Ágústa Kristófersdóttir og Karen Þóra Sigurkarlsdóttir. Reykjavík, 2007.
Guðrún Sveinsdóttir. „Gamlir dagar í Bjarnastaðahlíð.“ Skagfirðingabók. Ársrit Sögufélags Skagfirðinga IV. Reykjavík 1969, bls. 191.
Hannes Pétursson. „Brot úr sögu Flatatungufjala.“ Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1977. Reykjavík 1978, bls. 117-123.
Hörður Ágústsson. Dómsdagur og helgir menn á Hólum. Reykjavík 1989.
Kristján Eldjárn.„Dómsdagur í austrænum anda“. Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Reykjavík 1962, nr. 61.
Selma Jónsdóttir. Byzönzk dómsdagsmynd í Flatatungu. Reykjavík 1959.
Sveinbjörn Rafnsson. „Ný heimild um Bjarnastaðahlíðarfjalirnar.“ Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1978. Reykjavík 1979, bls. 79-107.
Þóra Kristjánsdóttir.  „Íslensk kirkjulist.“  Kirkja og kirkjuskrúð.  (Ritstjórar Lilja Árnadóttir, Ketil Kiran).   Reykjavík, 1997.
Þóra Kristjánsdóttir.   „Icelandic ecclesiastical Art in the middle ages“.   Church and Art.  (Editors: Lilja Árnadóttir, Ketil Kiran).  Reykjavík, 1997.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana