Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar



Landfræðileg staðsetning


HeitiHelgidómaskrín
Ártal1100-1300

StaðurValþjófsstaður 1
ByggðaheitiFljótsdalur
Sveitarfélag 1950Fljótsdalshreppur
Núv. sveitarfélagFljótsdalshreppur
SýslaN-Múlasýsla
LandÍsland

Nánari upplýsingar

Númer3612/1891-91
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá, Munasafn
Stærð31 x 33,5 cm
EfniBeyki, Kopar
TækniTrésmíði

Lýsing

Úr aðfangabók:
 Guðskista eða skrín löguð sem hús eða kirkja, hún er 12 þuml. á hæð, og á lengd að neðan 13 þuml. en á breidd 4 7/12 þuml. Þakið er hátt og ákaflega bratt, og stendr þakskeggið mjög út, og gaflarnir að ofan tilsvarandi, hliðarnar hallast heldr inn, þannig að húsið er mjóst upp við þakskeggið; alt í kring að neðan eru útskot mikil sem hallar útaf, og svo há að það er nær 1/3 af hæð hliðarinnar uppundir þak; þessi útskot eru öll með portum í hríngbogastíl og súlum á milli, og eru 12 port á hverri hlið, en mismunað hefir að hafa nema 2. á hverjum gafli, enda er húslögun þessi mjó í samanburði við hæð og lengd, öðrumegin er brotið neðan af portunum. Guðskistan er gerð úr tré eða beyki og negld með trénöglum, það er alt ófúið, hún hefir öll verið lögð utan með eirþinnum sem alt hefir verið með drifnu verki, eða með upphleyptum myndum og rósum, og alt þetta verið svo vel gylt, að gyllíngin heldr sér mjög svo enn á því sem sést nema þar sem mest hefir mætt á, eða sliti, og víða hafa verið greyptir inn steinar til príðis, þessi hlutr hefir því verið vandaðr í fyrstu; en því er ver, að nú er alt þetta að mestu brotið af, en til allrar lukku er þó svo mikið eptir, að verkið verðr séð og stíllinn í þessu, og þaraf má með vissu ákveða aldr þessa hlutar að nokkru leyti.  Á annari hliðinni á þakinu er eptir stór spilda af þessari gyltu eirleggíngu með því áðrtalda verki; í miðjunni er Kristr á krossinum en höfuðið brotið af, og Johannes og Marja til hliðanna, til beggja hliða við þetta eru súlur, og þar fyrir utan öðrumegin er hríngr, og þar innaní vængjað dýr (griffon) [á spássíu: ljón, merki Markúsar (MÞ)], hinumegin er brotið af og að ofan, um líkama Krists er sveipuð blæja alt niðrum kné og hángir hornið niðr öðru megin, að ofan sést og hvar henni er knýtt saman og hanga endarnir niðr.  Jóhannes og Marja eru í kyrtlum eða kuflum sem eru mjög í fellíngum, hún sýnist hafa belti um sig, myndirnar eru fornlegar.  Fyrir neðan alt þetta liggr ræma eptir allri þakröndinni, þará eru upphleyptar greinir þýblaðaðar, og hér hafa verið inngreyptir 3 stórir steinar sem allir eru burtu; hinumegin á þakröndinni, er og eptir slík ræma með bugum og blöðum niðrúr, allstaðar þrýblaðað.  Á öðrum gaflinum að ofanverðu er og eirleggíngin eptir, þar neðan til hefir verið greyptr stór steinn sem er burtu, þar uppaf gengr sem uppmjó turnspíra með sem smátýglum utan, og lítill knappr ofaná, utanmeð er sem rammi með snúníngum að neðan, en einfaldir laufaviðarstrengir til beggja hliða. Á útskotinu að neðan á annari hliðinni, heldr eirleggíngin sér alveg, hún er öll útgrafin bæði að ofan og framan með snúníngum á súlunum, og bogum yfir portunum, alt er þetta vel gjört; á hinum gaflinum sést og farið eptir slíkann stein sem á þeim fyrtalda, á gaflinum að neðan sést votta fyrir mynd af dyrum með boga yfir.  Hvergi hefir guðskistan verið til að opna, en neðan á botninum er op sem feld hefir verið fyrir loka, og hefir offrið  verið hér inn látið og henni þá snúið við því útskotin mynda sem umgjörð að neðan, og líklega þannig verið gengið með hana um kirkju, og einnig hefir offrið verið látið hér falla út, þá það skyldi taka úr henni.  Guðskista þessi er frá því Romanska tímabili, og þar að auki hefir hún á sér þau kénnimerki sem sýna að hún er ekki yngri en frá síðari hluta 13 aldar, eða nær frá henni miðri, en þarámóti getr hún verið miklu eldri, eins og t.d. róðukrossinn nr. 788 Skýrsla forngripasafnsins, sem þar er talinn að vera frá 13. öld, sem nokkuð er óákveðið um svo merkan grip, en hann er um 100 árum eldri, eða frá um eða miðju 12. aldar.  Það mun óhætt að ætla, að Guðskista þessi muni smíðuð hér á landi, þar sem hið mikla og skrautlega Þorláksskrín var hér smíðað.  Við höfum fáar húsamyndir hér frá fornöld, en þetta gefr þó nokkra bendíngu um lögun á kirkju, í Bestiarius er og mynd af húsi eða kirkju, en hann er frá því nær um 1200, og á Valþjófsstaðahurðinni sést og framan á bust af húsi eða kirkju það er líklegt að þetta sé sem líkast kirkju, þar sem á annað borð farið var að líkja þar eptir; slík skrín höfðu vanalega lögun sem hús, sjá Worsaae Nordiske Oldsager 1859 nr. 526 og 524, sjá og Oskar Montelius Sveriges Hednatid, samt Medlertid Stokh. 1877 nr. 526, en engin þessara hefir útskot að neðan.  Guðskista þessi hefir geimst í kirkjunni Valþjófsstað í Fljótsdal, og fékk eg hana þar 1890 er eg kom þar, en hún kom ekki til safnsins fyrri en í haust, og hefir líklega þessi hlutr verið þar á Sturlúnga tíð, það hefir sérstaka þíðíngu fyrir oss, að hafa hluti frá því tímabili sem vorar merku sögur lýsa svo nákvæmlega, enda mun þessi hlutr sá eini þesskyns gripr, sem nú er til hér á landi, því mér er orðið nokkuð kunnugt um slíkt.

Kirkja og kirkjuskrúð (Lilja Árnadóttir):
Helgiskrín
Skrín þetta hefur í upphafi verið afar vandað.  Það er húslaga eins og títt var um slík skrín, gert úr fjölum sem hafa  verið klæddar látúnsþynnum.  Neðsti hluti skrínsins er súlnaraðir með boghliðum milli súlnanna.   Látúnsþynna er ennþá kringum súlnaröðina framan á skríninu og er í hana grafið skraut.  Með brún á þaki skrínsins neðst er látúnsþynna með jurtaskrauti.  Í þá þynnu að framan eru þrjú egglaga göt þar sem hafa verið greyptir steinar.  Framan á þaki skrínsins eru leifar af krossfestingarmynd.  Vantar ofan á róðuna en bæði María og Jóhannes eru heilleg.  Tákn Markúsar guðspjallamanns, ljónið, er grafið í koparþynnuna og vafalaust hafa tákn hinna þriggja verið á skríninu líka, en allar eru þær horfnar nú.  
Þannig vantar mikið á að skrínið haldi sinni upphaflegu reisn en það er annað tveggja helgiskrína frá Íslandi sem varðveist hafa.
(Sett inn af Sigrúnu Blöndal, 19.1.2011)

Church and art (Lilja Árnadóttir):
Reliquary
This reliquary was originally of fine quality.  It is in the shape of a house, as was common for such reliquaries, made of wooden boards covered with sheets of brass.   The lowest part of the shrine is an arcade.   On the front of the reliquary the brass covering, with engraved ornamentation, remains intact around the arches.   On the front edge of the reliquary´s roof is a strip of brass with plant motifs.   In the covering of the front are three oval gaps which originally contained stones.   On the front of the roof are remnants of a crucifixion; the top of the cross is missing, but the Virgin Mary and St. John are intact.    The symbol of Mark the Evangelist, a lion, is engraved in the brass, and no doubt the reliquary originally bore the symbols of the other three also, but these are lost.   Thus the reliquary, one of two extant reliquaries from Iceland, is far from its original splendour.
(sbl, 25.1.2011)


Sýningartexti

Helgidómaskrín, húslaga hirsla úr bækiviði til að geyma í helga dóma, úr kirkjunni á Valþjófsstað í Fljótsdal, frá 13. öld. Skrínið hefur verið klætt drifnum látúnsþynnum með myndum úr Biblíunni, sem flestar eru af nú, sjá má þó krossfestingu Krists með Maríu og Jóhannes hjá krossinum, svo og vængjað ljón, merki Markúsar guðpjallamanns. Dýrir steinar hafa verið felldir í skrautið. Slík skrín sjást víða nefnd í máldögum íslenskra kirkna á miðöldum. Hinn helgi dómur í skríninu gat verið brot af beini eða klæðum dýrlings. Eftir siðaskipti voru flest slík skrín eyðilögð. Þetta skrín er hugsanlega gert hér á landi, en hér voru smíðuð skrín á miðöldum og hafa þau verið af þessari gerð. Mesti dýrgripur í kirkju hérlendis var skrín Þorláks helga í Skálholti, sem Páll Jónsson Skálholtsbiskup lét Þorstein skrínsmið gera og kostaði 480 kýrverð. Það stóð yfir háaltari dómkirkjunnar og var til fram yfir 1800, þá rúið skrauti sínu.
3612

Helgidómaskrín frá 13. öld, hugsanlega íslensk smíð. Það stóð á altari kirkjunnar með helgum dómi, beini eða hluta af klæðum dýrlings. Á þessu skríni hafa verið látúnsþynnur með myndum úr Biblíunni, sem nú eru af að mestu, enda voru flestir slíkir helgigripir eyðilagðir eftir siðaskiptin 1550.

Spjaldtexti:


Heimildir

Kristján Eldjárn. Íslenzk list frá fyrri öldum. Reykjavík, 1957.
   Lilja Árnadóttir.  Kirkja og kirkjuskrúð.  (Ritstjórar Lilja Árnadóttir, Ketil Kiran).    Reykjavík, 1997:  bls. 115.
    Lilja Árnadóttir.  Church and art..  (Editors: Lilja Árnadóttir, Ketil Kiran).    Reykjavík, 1997:  bls. 115.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana