Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar
  • Lýsingu vantar



Landfræðileg staðsetning


HeitiKirkjuhurð
TitillValþjófsstaðahurðin
Ártal1175-1200

StaðurValþjófsstaður 1
ByggðaheitiFljótsdalur
Sveitarfélag 1950Fljótsdalshreppur
Núv. sveitarfélagFljótsdalshreppur
SýslaN-Múlasýsla (7500) (Ísland)
LandÍsland

GefandiNationalmuseet Kaupmannahöfn

Nánari upplýsingar

Númer11009/1930-425
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá, Munasafn
Stærð206,5 x 97,5 cm
EfniFura
TækniTækni,Útskurður

Lýsing

Kirkjuhurðin forna frá Valþjófsstað. Gerist óþarft að lýsa henni hjer; vísast til þess, sem ritað hefir verið um hana áður, sjá Sv. Grundtvig, Gamle danske Folkeviser IV., 4. í viðauka við þjóðvísuna nr. 9, Aarb. f. nord. Old Kh. 1871, Ill. Tidende, X., 326, Kål., Isl. Beskriv., II., 226-31, nmgr., Isl. Fortidsl. 37-40 (= Aarb. f. nord. Oldkh. 1882, 93-96), Árb. Fornlfjel. 1884-85, 24-37 (B.M. Olsen) o. fl.; e. fr. myndar í Ljósm.-og prentm.-safninu, nr. [?], sem er nákvæmur uppdráttur eftir Magnús Petersen. - Til er áður í safninu máluð gipsafsteypa af hurðinni, er sýnir vel framhlið hennar, nr. 2190, og e. fr. eru til afsteypur af rúnasteininum á gröfinni, nr. 2133. - Rúnirnar virðast eiga að lesa þannig: [rúnir sem ekki er hægt að skrifa], þ.e. [Sé inn] ríkja kunung, hér grafinn [,e]r vá dreka þenna. Á undan og eftir orðunum ,,hér grafinn" virðast vera 4 óljósir smádeplar (ekki að eins 3), en annars engin aðgreiningarmerki sjáanleg nú; 1 depill virðist vera á eftir áletruninni. Fremstu 2 orðin vantar nú; hefur verið skotið þar inn nýjum renningi í hurðina, sem þau hafa verið; fyrri stafinn (rúnina) í 7. orð (,,er") vantar einnig nú; hefur horfið í sprungu á hurðinni. Hurðin hefur verið söguð sundur (og einnig sagað ofan-af henni) rjett neðan-við rúnasteininn og hafa rúnirnar stytst við það allar lítið eitt, - vantar því neðan af þeim. - Rúnina A(?) virðist ekki ástæða til að lesa sem o (eins og Winner áleit), heldur u; hún er stungin til að greina hana að frá [rún sem ekki er hægt að skrifa. SA.] í 8. orði, sem táknar v. - Orðmyndin ,,kunung" er allskostar eðlileg, og raunar upprunaleg, enda notuð í fornsænsku, kununger, sv. nýsv. kung; í fornsaxnesku og fornháþýzku er ritað kuning, sömuleiðis í engilsaxnesku, cuning; úr germönskum málum er þetta orð komið inn í finnsku, kuningas, litáisku, eins (kúningas), og fornslavnesku, kúnsgú. Orðið er leitt af konr (eða * kunr, sbr. sonr og sunr), er svarar til kuni- á fornháþýsku og cyne- á engilsaxnesku; upprunalega * kunja- í frumgermönsku. Sbr. El. Hellqwist, sv. etymol. ordb., s. v. - Rúnin [rún sem ekki er hægt að skrifa líkist k. SA.] í 6. orði er óvenjuleg, og á raunar engan rjett á sjer, en er sýnilega fyrir [ rún sem ekki er hægt að skrifa. SA]; rúnaristarinn hefur sennilega litið svo á, að hann gæti ekki vel komið innri kvistinum fyrir á sínum stað, en mætti þá setja hann á neðri endann og um leið snúa honum við, hafa hann eins og hann ætti að vera, ef sá endi sneri upp. Engin ástæða er til að ætla, að hann hafi viljað tákna v með þessari frábrugðnu rún (eins og Winner áleit).  8. orð er [ rúnir sem ekki er hægt að skrifa. SA.],  þ.e. ,,vá", ekki [rúnir sem ekki er hægt að skrifa.SA.] þ.e. ,,van(n)", eins og B.M. Ólsen áleit, að það kynni að vera; það gengur enginn kvistur út frá [rún lík einum SA] niður á við hægra megin; og ekki heldur sem hluti af bandrúninni, sem 9. orð byrjar með og sem lesin hefur verið R; þar er að eins eðlileg smárák í trjenu milli árhringja, á ská, og verður sams konar smáráka, samhliða, vart í næstu rúnum einnig, einkum hinni næstu á eftir, R, sem svo er og merkir 1 R, þ.e. ,,dr"; merking hennar er vafalaus, en hitt er raunar óvíst, hvort þessi bandrún hafi ekki verið stungin í fyrstu, þótt þess sjáist enginn vottur nú, eða hvort rúnaristarinn hafi af ásettu ráði haft hana óstungna, sem eðlilegt var á þeim tíma. 2. rún í 10., síðasta, orði; [rún], sem merkir opið e-hljóð, e eða öllu heldur æ   (frb. e ), er alls kostar eðlileg. - Belgurinn á 1. rún í sama orði, ([ún sem líkist O. SA.] er helzti neðarlega, einkum nú, eftir að dálítið hefur farið neðan af henni; þar fyrir er engin ástæða til að álíta, að hún merki annað en venjuleg þ - rún, þ (eins og Winner áleit þó). - Ritháttur orðanna þótti Winner benda til, að áletrunin væri frá 1. fjórðungi 13. aldar, væri hún íslenzk, en nokkru eldri, væri hún norsk, þ.e. frá síðari hluta, eða öllu heldur síðasta fjórðungi, 12. aldar. Otto Blom höfuðsmaður benti á það í ritgjörðum sínum í Aarb. f. nord. Oldkh.1867 og 1871, að á þeim tíma hefði tíðkast skildir með því lagi, sem sýnt er á hurðinni; myndin í Hortus deliciarum eftir Herrad von Landsperg, frá því um 1175 (sjá Aarb. 1871, bls. 232,3. mynd) sýnir t.a.m. þess háttar skjöld; og sumt í riddaramyndunum annað þótti Blom benda til, að hurðin eða þær væru fremur eldri en yngri. Sams konar skildir eru einnig sýndir á dyra-umbúningnum frá Hyllestad og e. fr. á skákmönnunum, sem fundust á Lewis á Suðureyjum, sbr. t.d. H. Fett, Norges kirker í middelalderen,102. mynd (á bls. 40), og Benskulptur og hornarbeider í Norge og på Island, bls. 33-34 og 2. bls. í myndunum aftan-við. Sjá enn fremur Sig. Grieg, Middelalderske byfund, bls. 324. Er dyra-umbúningurinn og skákmennirnir einnig frá síðasta fjórðungi 12. aldar. - Sem kunnugt er, segir frá því í 5. kap. Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar, sjá Bisk. v., I., 645, að Markús bóndi Gíslason á Saurbæ á Rauðasandi, sem var veginn 1196, hafi látið höggva góðan kirkjuvið í Noregi,  líkl. um 1180, gefið hann allan Sigmundi Ormssyni, og að sú kirkja, sem byggð var úr honum, hafi staðið á Valþjófsstöðum, er sagan var rituð, um 1220-25. ,,Svo lét hann bæ sinn húsa stórkostlega, at hans bær var svo húsaðr sem þeir er bezt vóru húsaðir í Vestfjörðum", segir e.fr. í sögunni, og að Markús hafi farið aftur til Noregs og látið enn höggva þar góðan kirkjuvið, ,,ok er hann kom út híngat, lét hann geyra kirkju göfugliga á Rauðasandi". Virðist því ekki ólíklegt, að þessi kirkjuhurð hafi fylgt þeim góða, tilhöggna kirkjuviði, sem Markús kom með í fyrra skifti og reist var á Valþjófsstöðum um 1180. Kirkjan sú á Valþjófsstöðum hefir vafalaust verið svo vönduð og velgerð, að ekki er að ætla, að hún hafi ekki staðið mestan hluta 13. aldar, en fremur ólíklegt, eftir öllum útskurðinum að dæma, að hurðin hafi þá fyrst verið gerð, er sú kirkja var ofan tekin og ný reist í hennar stað. Ekkert virðist mæla á móti því, að hurðin hafi fylgt kirkjuviðnum Markúsar útskorin (eins og Kål þykir ólíklegt); á henni er svipað verk og er t. d. á dyrastöfunum frá Hyllestad; virðist eðlilegra og sennilegra,  að hurðin hafi fylgt með, útskorin, en að farið hafi verið að smíða hurð fyrir kirkjuna nokkru eftir að kirkjan hafði verið reist (eins og Kål áleit) eða að skera hurðina út, þegar hún var orðin nokkura áratuga að aldri. - Ekkert virðist benda á, að hurðin sje smíðuð úr rekaviði. Hún virðist gerð úr góðri, norskri furu og af þaulvönum útskurðarmanni; virðast og meiri líkur til, að sá maður hafi sjeð meira fyrir sjer af riddaramennsku en ætlað verður um einn múlsýsling á ofanverðri 12. öld; og öllu meiri líkur eru einnig til þess, að norskum manni hafi á þeim tímum verið orðið hugstætt slíkt riddarasöguefni og það sem myndað er á hurðinni en íslenzkum kirkjusmiði. - Í miðri hurðinni er hinn forni og upprunalegi hringur; hann er úr járni og silfurrekinn, mjög líkur nr. 39, kirkjuhurðarhringnum frá Hofi í Vopnafirði. Eru þeir báðir mjög merkir gripir, sennilega eftir sama mann báðir, smíðaðir í Múlaþingi. Þeir munu vera frá sama tíma og hurðin, síðasta fjórðungi 12. aldar. Er þessi, sem er í hurðinni 18,2 cm. að þverm. (hinn 18,5), og að br. 3,7 (hinn 3,5), báðir kúptir að framan (ofan), en þessi þó heldur flatari en hinn; þykktin er um 8 mm. innst og um 3 yzt. Silfurskrautið hefir skiptst í ytri og innri bekk, en þeim hefir sennilega verið skipt hvorum um sig í tvent um miðju, þversum, bent á móti kengnum, sem hringurinn leikur í, svo að skrautverkið eða uppdrættirnir hafa verið 4; nú er hringurinn mjög slitinn neðst, silfurskrautið farið þar af. - Á nr. 39 hefir bekkjunum verið skipt til hliða einnig, með mjóum, skrautlegum þverbekk, svo að bekkjarbútarnir eru 8 á honum. Sömu gerðir eða uppdrættir eru á báðum, en ekki í sömu röð.  Kengurinn í hurðinni er einnig silfurrekinn að framan; hinn ekki; er ef til vill ekki upprunalegur. Skrautverkið er vitanlega í rómönskum stíl, beygjur og greinar eða blöð.
Skráð í Sarp 2: „H. 206,5; Br. 96,5-97,5 cm“

 

Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir, feb. 2014:

Eftirfarandi er bréf, ódagsett, ritað af Þorkeli Grímssyni, um litgreiningar á hurðinni:

„Valþjófsstaðahurð. Upprunaleg litskreyting hurðarinnar samkvæmt greiningu sem próf. Peter Paulsen, Stuttgart, hefur látið gera. Samkvæmt bréfum frá próf. Paulsen, dags. 2.5.1974 og 5.5.1974.
Neðri kringlan: Grunnur svartur.
Kringlótti hnappurinn í miðju: gult, rauður litur á klóm og leggjum drekans í kring. Þar sem hinn afturmjói sporður vindur sig og liggur um háls dýrinu framan við haus, er einnig rauður litur, en hann verður að skærum, eldrauðum lit á sporðbroddunum. Haus, fax og baklínur: dökkbrúnt. Kroppur: rauðbrúnt, vængirnir: ýmis stig af brúnum lit, og í smáfiðri er liturinn látinn ganga yfir til ljósrauðs og ljósblás.
Efri kringlan: Grunnur blár. dökkt í neðri helft, ljósara í efri helft.
Neðri helmingur kringlu: 
Drekinn: með sömu litum og eru á drekum neðri kringlu og tungan blóðrauð.
Ljónið: ljósbrúnt, með dökkbrúnum makka, haus rauðbrúnn, tungan blóðrauð.
Plantan sem líkist bagli: rauðbrúnn litur, en gull [gult?] og blátt þar sem dýpkar. Þannig er einnig málað tré það sem drekinn læsir sig um.
Fálkinn: ljósbrúnt, ljósrautt, og í smáfiðri nokkuð af bláu. Fuglinn virðist millitegund, sambland fálka og hrafns. Væri ef til vill rétt að sýna vængi og fiður með svörtum lit og bláum litum.
Hosur: ljósari rauður litur en er á kyrtli.
Skór: blátt.
Reiðtygi: eins og á hinni myndinni, málmsmíði með gulum lit, leður dökkrautt.
Fuglinn: eins og á hinni myndinni.
Stafkirkjan: svartur litur, ljósbrúnn og rauður skiptast á.
Grafarplata: dökkbrúnt, rúnirnar rauðar, krossinn svartur.
Ljón á grafarplötu: mjög dökkbrúnn makki, hali dökkbrúnn.
Hurðarflöturinn utan við kringlurnar var blár. Dökkblá gjörð lá umhverfis báðar kringlur.
Þorkell Grímsson.“

Í úttekt Valþjófsstaðakirkju (heimild: Kirkjustóll Valþjófsstaðar. Kirk. I.7.) frá 5.8.1829 kemur fram:

„Kyrkjuhurdina, sem var ordinn mióg hrórleg, og geingid ur lægi hefur Snikkari Jsfeldt med ærnu ómaki, endurbætt, hóggvid upp mikid af því bíldhöggvaraverki, sem á henni er, og málad hana sídann, svo vel sem hann hafdi Faung og Áhöld til. [...] (Mikil aðfjörð í heild á kirkjunni.)."

Úr biskupsvísitasíu Helga Thordersen, 31.7.1850:

„Fyrir portinu er gömul og merkil. hurð með ýmsum útskornum myndum á sem auðsjáanl. bera eþss merki að það er eptir fornmenn. Það vita menn með vissu að hurðin er gömul skálahurð frá skála hjer á staðnum sem mælt er að Þórður Hreða hafi (látið byggja) smíðað, á hurðinni er gamall og merkil. hringur með inn hleiptum silfur rósum, hún er með lömum skrá og lykli."


Church and art (Hjörleifur Stefánsson):
The oldest known picture of an Icelandic church is carved on the Valþjófsstaður door, believed to date from about 1200.  

The Valþjófsstaður door is made up of three pine planks which are tongued-and-grooved.  On the front of the door are two roundels, each 96 cm across, with carving.  The upper roundel shows three episodes of the story of a knight and a lion.   At the bottom, the knight is seen stabbing a dragon with his sword, so the lion escapes, owing his life to the knight.   The next picture shows the knight on horseback, with a hawk on the horse´s mane, with the lion following behind.   The last picture shows the lion grieving at the grave, and a church is visible in the background.   Below the lion, a runic inscription reads:  Behold the mighty king that slew the dragon, with the word here buried interpolated in the middle of the inscription.  In the lower roundel are four winged dragons.

The door was the church door of the church in Valþjófsstaður, Fljótsdalur, until 1859.  It is believed to have been originally half as tall again, and to have been part of a large stave church at Valþjófsstaður around 1200; it is believed to have been cut down long after the Reformation, when it was installed in a new turf church.  
(Sigrún Blöndal, 24. janúar 2011)


Sýningartexti

Kirkjuhurð úr furu með útskurði í rómönskum stíl, frá Valþjófsstað í Fljótsdal í Norður-Múlasýslu og talin frá um 1200. Ætlað er, að hurðin hafi verið þriðjungi hærri í öndverðu með þremur skornum hringum í stað tveggja nú. Í efri hringnum er myndasaga, hin elsta sem hér þekkist, og er fyrirmyndin í riddarasögum miðalda svo sem Konráðs sögu keisarasonar og Þiðriks sögu af Bern. Sést að neðan riddari þeysa fram á hesti sínum og leggur sverði gegn um dreka, sem hefur vafið hala sínum um fætur ljóns og ætlar að færa það ungum sínum til fæðu, sem sjást þrír í bæli sínu uppi til hægri. Að ofan er svo ljónið sýnt fylgja lífgjafa sínum eins og hundur og loks leggst það á gröf hans og syrgir hann látinn. Á myndunum sést veiðihaukur riddarans og fornleg stafkirkja að baki ljóninu, en á gröfinni er rúnaáletun: Sjá hinn ríka konung hér grafinn er vá dreka þennan. - Í neðri hringnum fléttast saman fjórir drekar og bítur hver í sporð sér. Hurðarhingurinn er úr járni og silfursleginn með laufamunstri. Hurðin var fyrir kirkju á Valþjófsstað til 1852 er hún var send til Danmerkur en kom aftur frá Þjóðsafninu þar sem gjöf 1930 á þúsund ára afmæli Alþingis ásamt mörgum fleiri forngripum. Hún er talin án efa skorin hér á landi og er nú einstæð, fleiri skornar hurðir kunna þó að hafa verið til því að svipaðir hringir hafa varðveist frá kirkjum á Austurlandi.
11009

Kirkjuhurð skorin í rómönskum stíl, frá kirkju á Valþjófsstað á Austurlandi, talin frá um 1200. Í efri hringinn er skorin riddarasaga, sést riddari þeysa fram og bjarga ljóni úr klóm dreka, en ofar sést hvernig það fylgir síðan lífgjafa sínum sem hundur og leggst loks á gröf hans og syrgir hann þar látinn. Í neðri hringnum sjást fjórir drekar og bítur hver í sporð sér, en talið er að upphaflega hafi þrír hringar verið í hurðinni. Hurðarhringurinn er úr járni og sleginn með silfurskrauti. Hurðin er án efa talin íslensk, hún var fyrir kirkjunni til 1852 en send þá til Danmerkur og kom aftur ásamt fleiri gripum sem gjöf árið 1930 á þúsund ára afmæli Alþingis.

Spjaldtexti:
Valþjófsstaðahurðin
Útskorin kirkjuhurð frá Valþjófsstað í Fljótsdal frá því um 1200. Hurðin, sem er með miklum útskurði í rómönskum stíl, er skorin út á Íslandi. Talið er að hún hafi upphaflega verið um þriðjungi hærri og hringirnir þá þrír. Á hurðinni er silfursleginn járnhringur með innlögðu rósamunstri.
Í efri hringnum er þekkt miðaldasaga í þremur þáttum. Neðst sést riddari á hesti sínum og flýgur veiðihaukur með. Riddarinn leggur sverði gegnum dreka sem vafið hefur halanum um ljón. Í næsta þætti, efst til vinstri, sést þakklátt ljónið fylgja lífgjafa sínum en veiðihaukurinn situr á makka hestsins. Í síðasta þætti, efst til hægri, liggur ljónið á gröf riddarans og syrgir hann. Í baksýn er lítil stafkirkja og á gröfinni er rúnaletur: Sjá inn ríkja konung hér grafinn er vá dreka þenna. Í neðri hringnum eru fjórir drekar sem vefjast saman í hnút.
Margar íslenskar miðaldakirkjur voru skreyttar útskurði. Búnaður þeirra og íburður bera vitni um auðlegð og völd eigendanna og sýna jafnframt tengsl Íslendinga við nágrannaþjóðir sínar. Valþjófsstaðahurðin er eina útskorna hurðin sem varðveist hefur. Hún var fyrir kirkjum á Valþjófsstað allt til 1851 þegar hún var flutt til Kaupmannahafnar. Árið 1930 skiluðu Danir hurðinni til baka ásamt fjölda annarra ómetanlegra gripa.

The Valþjófsstaður Door
The Valþjófsstaður door, a church door in the Romanesque style dating from about 1200 ad, is believed to be carved in Iceland. In its original form it is thought to have been one third taller, with three roundels. The door ring is inlaid with a silver rosette design.
The upper roundel depicts a well known medieval tale, Le Chevalier au Lion, in three episodes. At the bottom we see a knight with his hunting falcon. He ki


Heimildir

Sigurður Vigfússon. „Valþjófsstaðarhurðin“ Fjallkonan, 1887, 26 árg., s. 102-103
Björn M. Olsen. „Valþjófsstaðarhurðin.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1884-1885. Reykjavík 1885, bls. 24 - 38.
Hjörleifur Stefánsson.  „Medieval Icelandic Churches.“   Church and Art.   (Ritstjórar Lilja Árnadóttir, Ketil Kiran).  Reykjavík, 1997.
Kristján Eldjárn.   „Valþjófsstaðahurðin.“  Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Reykjavík 1962, 68. þáttur.
Magnús Már Ólafsson. „Andmæli við doktorsvörn í Osló.“ Saga. Tímarit Sögufélags 1970, VIII. Reykjavík 1970, bls. 248-263.
Peter Paulsen. Drachenkämpfer, Löwenritter und die Heinrichssage. Köln 1966.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana