LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu


Landfræðileg staðsetning


HeitiPíanó
Ártal1871

StaðurHúsið, Assistentahúsið
Annað staðarheitiEyrargata 50

Nánari upplýsingar

NúmerBÁ-561
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá
EfniStál
TækniTækni,Trésmíði,Hljóðfærasmíði

Lýsing

"Hljóðfæri (píanó) hið gamla þekkta hljóðfæri úr Kaupmannshúsinu á Eyrarbakka frá dögum Guðmundar kaupmanns Thorgrímsen. Frá því var lengi talið að söngmennt hefði breiðst út um Árnessýslu. Hljóðfærið var komið í vanhirðu Kaupmannshúsinu um 1930 er húsið var orðið mannlaust og yfirgefið. Fékk Páll Ísólfsson það þá og lét gera það í stand. Átti hann það síðan lengi, gaf það svo Einari syni sínum en af honum var það keypt í safnið fyrir kr. 8000.00 eftir matsverði þriggja manna, Þjóðminjavarðar, Hróbjartar kaupmanns Bjarnasonar og Skúla Helgasonar." (Aðfangabók, bls. 60).

Af gerðinni Hornung og Möller, svonefnd taffel-píanó. Samkvæmt upplýsingum í píanóinu var það smíðað í janúar 1871. Með útskorinni fjöl að ofan sem gert var við í desember árið 1993 af Eyvindi Erlendssyni en fjölin hafði skemmst og verið klastrað saman áður. Píanóið var gert upp af Guðmundi Stefánssyni hljóðfærasmið árið 1995 fyrir 150.000 krónur.

Um píanóið er þessi kafli í bókinni Húsið á Eyrarbakka eftir Lýð Pálsson safnstjóra (2014):

Píanóið í Húsinu

Píanóið sem nú er í Húsinu er af gerðinni Hornung og Möller smíðað í janúar 1871 samkvæmt raðnúmeri í botni gripsins. Það er taffel-píanó sem eru minni en venjuleg píanó eða forte-píanó. Hvort píanóið var keypt sérstaklega fyrir Eyrarbakkakaupmann eða Eyrarbakkafaktor er ekki vitað. Píanóið er vissulega sá gripur sem sjá má á ljósmynd kaupmannsfrúarinnar á Eyrarbakka Oline Lefolii úr stássstofunni um aldamótin 1900. Heimildir geta píanós í Húsinu fyrir 1860 svo að þetta var ekki fyrsta píanóið sem kom í Húsið á Eyrarbakka.

Dótturdóttir Sylvíu og Guðmundar Thorgrímsens var Guðmunda Nielsen. Hún bjó næstum alla sína ævi í Húsinu og kenndi mörgum að spila á hljóðfæri: orgel og píanó. Eldri Eyrbekkingar kalla hljóðfærið enn í dag píanó Guðmundu Nielsen.

Eftir að hin stóra verslun á Eyrarbakka lagðist af á þriðja áratug 20. aldar fór Húsið í vanhirðu. Ýmsir leigðu í Húsinu en píanóið flutti ekki með síðustu faktorunum. Það varð eftir. Um 1930 átti Páll Ísólfsson leið um Eyrarbakka á leið til æskustöðva sinna á Stokkseyri. Hann kom í Húsið sem þá var mannlaust og sá þar kunningja sinn, píanóið, á sínum gamla stað. Hann lyfti upp lokinu á því og sá að þar var komið músarhreiður.[i] Páll Ísólfsson keypti píanóið skömmu eftir þetta og lék Einar sonur hans á það á sínum uppvaxtarárum.

Árið 1957 bauð Einar Byggðasafni Árnesinga hljóðfærið til kaups. Um þau kaup eru til miklar sögur enda var erfitt um vik fyrir fyrsta safnvörð Byggðasafns Árnesinga, Skúla Helgason, að ráðast í kaup á safngrip. Allir áttu þá að gefa á safnið. En um síðir var hljóðfærið keypt og á 8.000 krónur sem þá þótti hátt verð. Árnesingafélagið í Reykjavík hljóp undir bagga. Píanóið var á sýningu Byggðasafns Árnesinga á Selfossi árin 1964 til 1994. Þá var tekin ákvörðun um flutning sýningarhalds safnsins frá Selfossi í Húsið á Eyrarbakka, þetta fornfræga hús.

Píanóið kom aftur í Húsið sumarið 1995 þegar það var opnað almenningi til sýnis sem safn. Það fór á sinn gamla stað í stássstofunni.[i]  Aðfangabók Byggðasafns Árnesinga. Einnig: „Hljóðfæri „Hússins“ á Eyrarbakka“ Suðurland 12. 4. 1958, bls. 2. Sjá einnig: Skúli Helgason: „Raunasaga úr Byggðasafni“ Dagskráin 28. júní 2001, bls. 6.

Þetta aðfang er í Byggðasafni Árnesinga. Fjöldi færslna hjá safninu var í árslok 2022 sem hér segir: Fornleifar 916, safnmunir 7.418, ljósmyndir 6.788. Í þessum tölum eru safnmunir Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka og Tónminjaseturs Íslands.

Söfnun muna til Byggðasafns Árnesinga hófst árið 1953. Safnkosturinn er að stærstum hluta skráður í Sarp.

Allar leiðréttingar og viðbótarupplýsingar eru vel þegnar.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.