LeitaVinsamlega sýnið biðlund
HeitiHeykvísl, Heykvísl, á dráttarvél

LandÍsland

Nánari upplýsingar

AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá
EfniStál

Lýsing

Heykvísl eða vélkvísl sem notuð var til að safna heyi á vagna af túnum með dráttarvélum. Kvíslarnar voru ýmist sett framan á eða aftan á dráttarvélarnar. Með áhrifamestu heyskaparverkfærum hérlendis á 20. öld þar sem hægt var að safna heyinu hraðar saman og auðvelda (og fækka) handtökunum við verkið. Algengt var að fjarlægja annan hvern tind úr kvíslinni til að nota sem járnkarla en þessi kvísl er þó "fulltinduð". 


Sýningartexti

Heykvísl

Um miðbik sjötta áratug síðustu aldar barst heykvísl til landsins, þ.e. vélkvísl. Þá voru moksturtæki á dráttarvélar að ryðja sér til rúms en á þau voru kvíslarnar smíðaðar, þótt einnig mætti setja þær á þrítengibeisli dráttarvélar. 

Ýmis fyrirtæki tóku að bjóða heykvíslar en kvíslarnar frá Kverneland á Jaðri í Noregi urðu lang vinsælastar. Þar í landi voru þær nefndar 'silovans' (votheysskott) og ætlaðar til þess að aka á nýslegnu heyi af túni og heim í votheysgryfju. 

Hérlendis urðu kvíslarnar einkum þurrheysverkfæri, mest notaðar til þess að sæta þurrhey og hlaða heyi á vagna. Með heykvíslunum uxu vinnuafköst við heyskap verulega. 

Líklega komu heykvíslar á meira en 90% allra búa á Íslandi. Þær eru því meðal vinsælustu og áhrifamestu heyskapartækjum allra tíma hérlendis. Þess vegna er fulltrúi þeirra hér - að vísu fulltinduð, en margir kusu að fjarlægja annan hvern tind því þannig gekk kvíslin betur í og undir heyið. Heykvíslartindar þóttu líka ágætir sem "járnkarlar" o.fl. því í þeim er afar gott stál. 

Vinsældarskeið heykvíslanna stóð árin 1960 og langt fram undir 1990. Því lauk á því að kvíslarnar tóku að rogast með rúllubagga. 

Þetta aðfang er í Landbúnaðarsafni Íslands. Áætlað er að gripir safnsins séu nær 800, margir vænir að stærð, og undir sumum númerum leynast fleiri stakir gripir (dráttarvél fylgja t.d. handverkfæri sem fæst eru talin sérstaklega). Þorri gripanna hefur verið skráður í Excel-skjöl með helstu upplýsingum, en auk þess hefur um langt árabil verið færð rafræn dagbók safnsins sem einnig er eins konar aðfangabók. Nokkrir tugi gripa eru þegar skráðir í Sarp.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.