LeitaVinsamlega sýnið biðlund
ListamaðurGuðjón R Sigurðsson 1903-1991
VerkheitiNafnlaus

GreinTréskurður
Stærð57,5 x 20 x 20 cm

Nánari upplýsingar

NúmerMMH-575
AðalskráMyndlist/Hönnun
UndirskráListasafn Hornafjarðar

EfniViður
Aðferð Tálgun

Lýsing

Guðjón Runólfsson (tók sér ættarnafnið Sigurðsson og notaði það) fæddist á Hömrum í Mýrarhreppi í Austur-Skaftafellssýslu. Nokkrum vikum eftir að hann fæddist fóru foreldrar hans, Runólfur Sigurðsson frá Svínafelli í Öræfum og Steinunn Jónsdóttir frá Odda á Mýrum, til Vesturheims með þrjú börn sín, en skildu hann eftir í fóstri hjá ömmu sinni og afa, Guðnýju Benediktsdóttur og Jóni Bjarnasyni, sem þá bjuggu á Odda á Mýrum. Síðar dvaldi hann hjá Ingunni móðursystur sinni og eiginmanni hennar, Einari Sigjóni Þorvarðarsyni, á Brunnhól á Mýrum, þar sem hann ólst að mestu leyti upp.

Tvítugum að aldri barst honum bréf frá föður sínum þar sem hann hvatti son sinn til að flytja til Kanada, sem hann og gerði. Þó hann hafi aðeins dvalið hjá föður sínum í skamma hríð bjó hann í Kanada í 56 ár. Árið 1961 flutti hann til frændfólks síns á Höfn í Hornafirði og fór að vinna við trésmíðar, við að setja verksmiðjugler í glugga og við lagfæringar á byggingum. Árið 1973 fluttist hann búferlum frá Höfn að Fagurhólsmýri í Öræfum. Þar undir hömrunum kom hann fyrir litlu húsi sem hann hafði reist á Höfn og átti þar heima allt til æviloka.

Í Öræfunum hóf hann að tálga og smíða leikföng fyrir börn og vinafólk - dúkkuhús fyrir stelpur og rugguhesta fyrir stráka - ásamt því að búa til smíðamuni eins og kistla og gestabækur. Í kjölfarið tálgaði hann út viðarstyttur sem voru einfaldar í sniðum og einkenndust ýmist af fjörlegum litum og breiðum pensilstrokum, eða hreinum við þar sem lögð var meiri áhersla á smáatriði, svo sem klæðaburð og andlitsdrætti.

Stytturnar gaf hann kunningjum sínum, eða seldi ferðamönnum í Kaupfélagi Austur-Skaftfellinga í Öræfum. Útskurður Guðjóns á körlum og kerlingum, fjallkonum, dýrum og jólasveinum varð vinsæll meðal listunnenda og í dag prýða styttur hans heimili og söfn víðsvegar um landið og tilheyra tvímælalaust sögu næfrar myndlistar á Íslandi.

(Úr sýningarskrá frá Tálgað undir Hömrum 2019 í Svavarssafni, sýningarstjóri Þórgunnur Þórisdóttir)

Þetta aðfang er frá Menningarmiðstöð Hornafjarðar.

 

Þessi gripur er staðsettur í húsnæði Hornafjarðarsafna á Höfn. Safnkostur Hornafjarðarsafna eru gripir sem bæði eru manngerðir sem og náttúrugripir en einnig ljósmyndir og skjöl. Fjöldi skráðra gripa í SARP eru um 300 en áætlað er að allir skráðir munir verði í SARPI í framtíðinni, einnig skjöl og ljósmyndir. Sú vinna hófst í september 2015. 


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.