LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiCOVID-19, Farsótt
Ártal2020
Spurningaskrá128 Lífið á dögum kórónaveirunnar

Sveitarfélag 1950Bessastaðahreppur
Núv. sveitarfélagGarðabær
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1950

Nánari upplýsingar

Númer2020-1-640
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið3.4.2020/1.5.2021
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 8 - Upplýsingar um faraldurinn

Hvenær og hvernig fréttir þú fyrst af kórónavírusnum (COVID-19)? Hvar hefur þú helst sótt þér upplýsingar um veirufaraldurinn?

Heyrði fyrst um það í fréttum frá Kína. Ég hef helst sótt mér upplýsingar af vefnum, Covid.is, Ruv.is, Mbl.is og á erlendum fréttasíðum.


Hvernig finnst þér að til hafi tekist við að upplýsa almenning um faraldurinn? Treystir þú upplýsingum frá stjórnvöldum og fjölmiðlum?

Mér finnst að mjög vel hafi tekið að upplýsa almenning um faraldurinn og ég treysti vel upplýsingum frá stjórnvöldum vel og fjölmiðlum almennt.Kafli 2 af 8 - Viðhorf og líðan

Segðu frá því hvernig að þér leið og hvernig að þú brást við þegar veiran byrjaði að gera vart við sig hér á landi og á heimsvísu. Hefur líðan þín eða upplifun breyst í takt við stóraukna útbreiðslu veirunnar?

Fyrst fannst mér það óraunverulegt þegar ég heyrði um samkomubann. Á einum degi átti ég mig á alvarleika veirunnar og stoppaði að vinna og var ein heima í fimm vikur. Fór út í búð og búið. Hélt Zoom fundi með börnum og barnabörnum og einnig átti ég vinnufundi á Zoom. Fór 2x í heimsókn til sonar mínar, guðaði á gluggann og talaði við sonardætur mínar gegnum glerið. Fór í göngutúra daglega þessar fimm vikur sem ég hélt mig heima við. Er í saumaklúbb og við tókum hann á Zoom vikulega. Mjög skrítnir tímar.


Hefur faraldurinn haft áhrif á andlega líðan þína eða þinna nánustu? Ert þú t.d. hrædd(ur) eða óróleg(ur)? Hvaða ráð hefur þú til að takast á við þetta, ef svo er?

Faraldurinn hefur ekki haft áhrif á líðan mína eða minna nánustu. Þegar líða tók á sumarið 2020 var eins og faraldurinn væri búinn og lífið gekk sinn vanagang, en allt fór í sama farið aftur. Þvæ mér hendur mörgum sinnum á dag og spritta mig eftir að ég kem við almenna snertifleti.


Hefur lífsviðhorf þitt og trúarlíf hugsanlega breyst eftir að kórónaveiran gerði vart við sig með jafn afdrífaríkum hætti og raun ber vitni? Hvernig, ef svo er?

Lífsviðhorf mitt hefur ekki breyst á þann hátt að ég ákvað að fara á eftirlaun. Ég vona að samfélagið róist og njóti þess að vera til án þess að þurfa að ferðast um hálfan heiminn. Ég hef keypt minna, nánast engin föt, hef nýtt þau föt sem ég í skápnum, þá áttaði ég mig á þvi hvað ég á mikið af fötum sem ég nota lítið og kaupi almennt minna af öllu. Nýt betur samskipta við aðra, hringi meira í aðra og nota zoom til að hitta fólk sem er lengra í burtu.


Hvernig mundir þú lýsa andrúmsloftinu í þjóðfélaginu eftir að faraldurinn fór af stað?

Fólk var afslappaðra, náði að vinda ofan af sér, varð vinsamlegra, minna kaupæði, og naut þess að vera til án þess að það þurfti að kosta formúu. Fólk fór að njóta litlu hlutanna, náttúrunnar, göngutúra, lestur bóka og að hafa samband við aðra gegnum síma eða zoom.


Hvað finnst þér um að mega ekki lengur heilsa fólki með handarbandi eða að taka utan um það?

Mér finnst það allt í lagi.Kafli 3 af 8 - Samskipti og einkalíf

Hver eru helstu áhrif faraldursins á fjölskyldu- eða einkalíf þitt? Hvaða áhrif hefur hann t.d. haft á umgengni þína við annað fólk, tómstundir, ferðalög, þátttöku í félagsstarfi o.fl.? Hafa samskipti í gegnum tölvu að einhverju leyti komið í staðinn? Hvernig, ef svo er?

faraldurinn 2021 er öðruvísi hjá mér en 2020. Ég bý ein og 2020 var ég mikið ein heim, fór með fólki í göngutúra var það mesta sem ég hitti fólk, nema í gegnum síma og zoom eða facetime. Það hafði mikil áhrif á tómstundir mína, sem ekki var hægt að gera í gegnum tölvusamskipti. Verst þótti mér að komast ekki í sund. hitti vinkonur, börn og barnabörn á zoom nokkrum sinnum í viku. Hef aðeins einu sinni farið til útlanda á þessu ári og það var til að dveljast þar í sex mánuði. Áður fór ég 2-5 sinnum á ári í stuttar ferðir til útlanda. Ferðaðist um Ísland 2020 og fannst það yndislegt að vera laus við alla útlendu túristana, vera með landinu í fámennum en góðum félagsskap. Samskipti i gegnum tölvu hafa vissulega komið í staðinn fyrir þátttöku mína í ýmsum félagsstörfum. Er í frönskunámi sem ég tek á netinu og kennarinn er í Brussel. Einnig hef ég haft frönskukennara sem staðsettur var í Berlín. Þetta finnst mér snilldin ein.


Átt þú eða hefur þú átt ættingja eða vini á sjúkrastofnum sem þú hefur ekki fengið að heimsækja eftir að faraldurinn braust út? Hvernig hefur heimsóknarbannið haft áhrif á þig og fjölskyldu þína?

Átti systur í þjónustuíbúð sem ekki mátti heimsækja, hringdi oftar í hana og hitti hana á zoom.


Hefur þú eða einhver þér nákomin(n) veikst af COVID-19 veirunni? Viltu segja frá því hvernig reynsla það er?

Enginn mér nákominn hefur veikst af veirunni.


Þarft þú að vera heima vegna þess að þú ert í sóttkví, skólinn lokaður, vinnustaður þinn lokaður eða hálflokaður eða af öðrum ástæðum? Hvað gerir þú helst á daginn, ef svo er? Segðu frá því hvernig það er að vinna heima, ef það er inni í myndinni.

Ég var í sóttkví í fimm daga í mars 2021 eftir að ég kom heim frá útlöndum. Fór á eftirlaun 1. sept 2020 og flutti til Brussel og var þar í sex mánuði. Kom heim í mars 2021 aðallega til að fá sprautuna. Ég læri frönsku á netinu hjá Alliance francais í Brussel og finnst mér það snilldin ein. Ég fer í göngutúra, hitti vini, börnin mín og barnabörn. Gleymi stundum að það sé enn heimsfaraldur, en þegar ég var í Brussel gat maður ekki gleymt því.Kafli 4 af 8 - COVID-19 og börn

Hver eru helstu áhrif faraldursins á börn að þínu mati? Hafa þau börn sem þú þekkir verið frædd um hann og ef svo er með hvaða hætti?

Ég á tvö börn á Íslandi, 3ja og 7 ára og ég get ekki séð að faraldurinn hafi haft áhrif á þau. Þau fara út að leika sér við aðra krakka og hafa sótt skólann mest allan tímann. Ég á önnur tvö barnabörn í Brussel 10 og 18 ára og þar er mun verra ástand og þar get ég séð að að faraldurinn hafi áhrif á þau. Þau geta ekki hitt félaga eftir skóla eða farið út. Þau eru einmana og sakna frelsisins á Íslandi. Börnin hafa verið frædd um faraldurinn í skóla og á heimili. Þau eru meðvituð um að þvo vel á sér hendur og spritta sig þegar þau geta ekki þvegið hendur sínar.Kafli 5 af 8 - Breyttar neysluvenjur?

Hvaða áhrif hefur faraldurinn haft á neysluvenjur þínar? Hefur þú verslað meira en venjulega eða öðruvísi vörur og ef svo er, hvað aðallega? Fæst allt í búðunum sem þú þarft á að halda? Getur þú sagt frá því hvernig það er að fara út og versla?

Ég kaupi minna, reyni að kaupa íslenskt, búðirnar hafa alltaf átt þá vörur sem ég þarfnast og nægilegt vöruúrval er þar. Mér finnst ekkert öðruvísi að versla núna eða áður nema að ég þarf að setja upp grímu. Ég er meðvituð um að snerta ekki sameiginlega snertifleti og reyna að koma ekki við vörurnar nema þær sem ég ætla að kaupa. Að vísu í upphafi 2020 þá þvoði ég allt sem ég keypti eða sprittaði, en núna er ég afslappaðri gagnvart þessu.Kafli 6 af 8 - Vinnustaðurinn

Getur þú lýst því hvaða áhrif faraldurinn hefur á vinnustað þinn, ef að þú stundar vinnu?

Ég fór á eftirlaun á síðasta ári, og faraldurinn hafði reyndar áhrif á það að ég hætti að vinna, sem ég er mjög sátt við.Kafli 7 af 8 - Eftir faraldurinn

Hvaða breytingar á siðum, vanabundinni hegðun eða íslensku þjóðlífi gæti faraldurinn hugsanlega haft í för með sér? Sérð þú eitthvað jákvætt eða neikvætt í spilunum og þá hvað, ef svo er?

Mér finnst fólk rólegra, afslappaðra, jákvæðara og vona að það haldist.Kafli 8 af 8 - Sögusagnir og orðrómur

Töluvert hefur verið um orðróm og ýmsar sögusagnir eða flökkusögur, jafnvel brandara, í kringum kórónaveirufaraldurinn og er oft erfitt að greina í sundur hvað er satt og hvað ekki. Með þinni hjálp vill Þjóðminjasafnið gera tilraun til að safna einhverju af þessu efni og varðveita til framtíðar. Segðu frá því sem þér er kunnugt um í þessu sambandi og hvernig þér hafa borist upplýsingar um það.

Það voru Íslendingar sem voru í skíðaferðalagi í Austurríki sem báru veiruna með sér heim. Franskur ferðamaður kom af stað þriðju bylgjunni og pólverjar sem eru að koma frá Póllandi bera með sér veiruna og þeir þeirra sem sinna því ekki að fara í sóttkví, þeir valda því að veiran kemur sér vel fyrir á Íslandi og fólk heldur áfram að smitast.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana