LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiCOVID-19, Farsótt
Ártal2020
Spurningaskrá128 Lífið á dögum kórónaveirunnar

ByggðaheitiSelfoss
Sveitarfélag 1950Selfosshreppur
Núv. sveitarfélagSveitarfélagið Árborg
SýslaÁrnessýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1951

Nánari upplýsingar

Númer2020-1-639
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið3.4.2020/20.4.2021
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 8 - Upplýsingar um faraldurinn

Hvenær og hvernig fréttir þú fyrst af kórónavírusnum (COVID-19)? Hvar hefur þú helst sótt þér upplýsingar um veirufaraldurinn?

Í ríkisútvarpinu.Á ruv.is


Hvernig finnst þér að til hafi tekist við að upplýsa almenning um faraldurinn? Treystir þú upplýsingum frá stjórnvöldum og fjölmiðlum?

Ég held að ansi margir nenni ekki að fylgjast með fréttum af faraldrinum.Já, ég treysti þríeykinu og Kára.Kafli 2 af 8 - Viðhorf og líðan

Segðu frá því hvernig að þér leið og hvernig að þú brást við þegar veiran byrjaði að gera vart við sig hér á landi og á heimsvísu. Hefur líðan þín eða upplifun breyst í takt við stóraukna útbreiðslu veirunnar?

Fyrst í stað ætlaði ég að hunsa þessa "flensu" eins og ég hef gert við allar flensur fram að þessari. Smátt og smátt gerði ég mér grein fyrir því að nú yrði ég að setja mig inn í þessar aðstæður og fór að fylgjast með daglegum upplýsingafundum Almannavarna. Þá var búið að halda fjóra eða fimm fundi.


Hefur faraldurinn haft áhrif á andlega líðan þína eða þinna nánustu? Ert þú t.d. hrædd(ur) eða óróleg(ur)? Hvaða ráð hefur þú til að takast á við þetta, ef svo er?

Nei, mér finnst mér ekki líða almennt verr andlega vegna Covid. En mér finnst oft erfitt að fara út í búð vegna fólks sem ekki virðir almennar reglur um almannavarnir, sem þó er búið að tyggja í okkur, nú þegar þetta er ritað, í meira en ár.Já, ég verð stundum þreytt á óviðkomandi fólki sem vill svo oft koma óþarflega nærri mér: "ég ætla bara aðeins", "við erum nú með grímu", segir fólk gjarnan.Þó svo að það að fara í búðina, apótekið og bókasafnið sé eina upplyftingin sem ég hef, þá er ég ósköp fegin þegar sonur minn fer í búðina fyrir mig. En það er ekki oft sem hann kemur því við. Hann býr klukkutíma keyrslu frá mér frá mér og er bíllaus.Já, mér finnst töluvert álag við það að afla mér nauðsynja, en er búin að finna út þann tíma dagsins þegar minnst umferð er á hverjum stað. Ef mér finnast of margir á staðnum þegar ég kem að, þá sný ég bara frá og kem seinna. En það er auðvelt fyrir mig, því ég er komin á eftirlaun og hef bíl.Sama hátt við hef ég við sundið. En ég hef daglega stundað sund í ein 40 ár og finnst vanta ansi mikið þegar lokað er. En ég verð að segja að ansi oft sé ég fólk í sundi hunsa almannareglur, en það er samt ekki almennt. Helst karlar sem komnir eru yfir miðjan aldur. En það er nú sá hópur sem maður hefur nú þurft að víkja fyrir í sundi alla tíð: löngu fyrir alla Covid.


Hefur lífsviðhorf þitt og trúarlíf hugsanlega breyst eftir að kórónaveiran gerði vart við sig með jafn afdrífaríkum hætti og raun ber vitni? Hvernig, ef svo er?

Ekki almennt séð.Það sem hefur mest síast inn hjá mér er hvað fólk er breyskt: Það fer á barinn þó að staðurinn sé fullur af fólki og Covid sé í fullum gangi, það fer til útlanda, það fer í sumarbústaðinn þó það sé beðið um að vera heima þótt það sé varað við því að sjúkrahúsin geti illa sinnt því ef slys ber að höndum, það fer að sjá gosið þó það sé beðið um að gera það ekki. - Það gengur á glóandi hrauninu!


Hvernig mundir þú lýsa andrúmsloftinu í þjóðfélaginu eftir að faraldurinn fór af stað?

Ah!


Hvað finnst þér um að mega ekki lengur heilsa fólki með handarbandi eða að taka utan um það?

Mér finnst allt í lagi að sleppa handarbandinu. En mér finnst erfiðara að geta ekki heilsað með faðmlagi og kossi þeim sem standa mér næst.Kafli 3 af 8 - Samskipti og einkalíf

Hver eru helstu áhrif faraldursins á fjölskyldu- eða einkalíf þitt? Hvaða áhrif hefur hann t.d. haft á umgengni þína við annað fólk, tómstundir, ferðalög, þátttöku í félagsstarfi o.fl.? Hafa samskipti í gegnum tölvu að einhverju leyti komið í staðinn? Hvernig, ef svo er?

Ég er mjög vel sett hvað varðar mína nánustu. Ég bý í sama húsi og dóttir mín og tengdasonur, og börn þeirra fimm. Já, fimm: á aldrinum 5 - 19 ára. Og þeim megin hefur strax frá verið mikil áhersla á að passa upp á ömmu, þ.e. mig. Og þar fylgir engin faðmlög, nema það yngsta. Og það er nú víst að verða búið mál, nú þegar börnin eru líka farin að veikjast. Og það verður erfitt að koma litla greyinu í skilning um það að nú getum við ekki kúrt lengur saman eða spilað.Eldri barnabörn halda tveggja metra regluna við ömmuna sína, snerta ekkert inni hjá mér og ég snerti ekkert inni hjá þeim. En það er alltaf áhættan með snertifletina með þann yngsta. Þó hann þvoi hendur áður en að við förum að spila þá á hann það auðvitað til að snerta munninn og ...Ekkert félagslíf. Var boðið í fermingaveislu í mars (2021), sem hafði veriö frestað í heilt ár. Ég ákvað að fara ekki. Tveimur dögum seinna blossaði upp heljarstór sýking. En veislugestir sluppu reyndar allir.Samskipti í gegnum tölvu hafa ekki gagnast mér. Nú er ég og tvær vinkonur mínar búnar að koma okkur upp tækni við að hittast heima hjá hverri annarri. Snertum ekkert nema kaffibollann og höldum fjarlægð. Það var ákveðinn léttir fólginn í því þegar við komum þessu á. Ég hitti þær í sitt hvoru lagi svo það er komin meiri tilbreytni í lífið og tilveruna.


Átt þú eða hefur þú átt ættingja eða vini á sjúkrastofnum sem þú hefur ekki fengið að heimsækja eftir að faraldurinn braust út? Hvernig hefur heimsóknarbannið haft áhrif á þig og fjölskyldu þína?

Nei. ekki á sjúkrastofnun. En eina gamla frænku á ég sem ég heimsótti vikulega en hún býr í þjónustuíbúð í Rvk og fólk var beðið að koma ekki í heimsókn. Nú hef ég ekki séð hana í rúmt ár, en hún er 88 ára. Eina fólkið sem hún hefur séð er nær sjötugur sonur hennar sem sér um innkaupin fyrir hana. Og hún á 1 dóttur og 1dótturdóttur, sem hún fór nú aðeins að hitta í fyrrasumar en ekkert núna síðan í haustfárinu. Hún er því afskaplega mikið ein.


Hefur þú eða einhver þér nákomin(n) veikst af COVID-19 veirunni? Viltu segja frá því hvernig reynsla það er?

Já, 23 ára sonarsonur minn, sem ég ól upp. Hann er reyndar farinn að búa. Og blessunarlega slapp hann mjög vel. Hann var hundveikur í þrjá daga. en alltaf bara til svona fimm á daginn. Þá brá af honum, en vaknaði hundveikur daginn eftir. Hann var svona allt í allt að afgreiða veiruna á rúmri viku. Og hefur ekki haft nein eftirköst. Hann smitaðist af sambýliskonu sinni, sem smitaðist af samstarfskonu sinni á leikskólanum sem hún vinnur á.


Þarft þú að vera heima vegna þess að þú ert í sóttkví, skólinn lokaður, vinnustaður þinn lokaður eða hálflokaður eða af öðrum ástæðum? Hvað gerir þú helst á daginn, ef svo er? Segðu frá því hvernig það er að vinna heima, ef það er inni í myndinni.

Ég er komin á eftirlaun svo Covid hefur haft bein áhrif á rútínu heimilisins að öðru leiti en hvað félagsskap varðar.En börn og barnabörn sem búa í sama húsi og ég (innangengt) hafa þurft að bregðast við ýmsu, bæði í skóla og á vinnustað.Kafli 4 af 8 - COVID-19 og börn

Hver eru helstu áhrif faraldursins á börn að þínu mati? Hafa þau börn sem þú þekkir verið frædd um hann og ef svo er með hvaða hætti?

Það sem helst virðist " bögga" mín barnabörn (á aldrinum 11 og 13 ára), er að komast ekki á íþróttaæfingar og viðburði áður tengda þeim. Ekkert annað virðist ergja þá mikið. Eldri táningana hefur menntaskólagangan verið erfið. Og nú er svo komið að sá sem á auðveldar með að læra ætlar að bíða með námið þar til hann getur mætt í tíma. Hann treystir sér ekki í stærðfræðina í fjarnámi, sem annars gekk vel í lesfögunum.Kafli 5 af 8 - Breyttar neysluvenjur?

Hvaða áhrif hefur faraldurinn haft á neysluvenjur þínar? Hefur þú verslað meira en venjulega eða öðruvísi vörur og ef svo er, hvað aðallega? Fæst allt í búðunum sem þú þarft á að halda? Getur þú sagt frá því hvernig það er að fara út og versla?

Nei. ég held að neysluvenjur mínar hafi ekki breyst mikið. Og ég hef aldeilis verslað meira en fyrir Covid. Já. allt fæst í búðunum sem ég þarf á að halda. Það er frekar stressandi að fara út að versla. Ég var, að ég held búin að lýsa því hér að framan að nokkru leyti.Kafli 6 af 8 - Vinnustaðurinn

Getur þú lýst því hvaða áhrif faraldurinn hefur á vinnustað þinn, ef að þú stundar vinnu?

Kafli 7 af 8 - Eftir faraldurinn

Hvaða breytingar á siðum, vanabundinni hegðun eða íslensku þjóðlífi gæti faraldurinn hugsanlega haft í för með sér? Sérð þú eitthvað jákvætt eða neikvætt í spilunum og þá hvað, ef svo er?

Hræddust er ég að við munum ekkert læra af þessum faraldri. Sbr. áðurnefndan breyskleika okkar mannanna.Kafli 8 af 8 - Sögusagnir og orðrómur

Töluvert hefur verið um orðróm og ýmsar sögusagnir eða flökkusögur, jafnvel brandara, í kringum kórónaveirufaraldurinn og er oft erfitt að greina í sundur hvað er satt og hvað ekki. Með þinni hjálp vill Þjóðminjasafnið gera tilraun til að safna einhverju af þessu efni og varðveita til framtíðar. Segðu frá því sem þér er kunnugt um í þessu sambandi og hvernig þér hafa borist upplýsingar um það.

Er orðin svo langþreytt á svona vitleysu og hef ekki lagt eyrun við nógu vel til að geta svarað af einhverju viti. Vonandi verða margir aðrir til þess.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana