LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiLaufabrauð, Laufabrauðsgerð
Ártal2021
Spurningaskrá130 Laufabrauðshefðir

ByggðaheitiVopnafjörður
Sveitarfélag 1950Vopnafjarðarhreppur
Núv. sveitarfélagVopnafjarðarhreppur
SýslaN-Múlasýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1944

Nánari upplýsingar

Númer2020-3-147
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið4.12.2020/30.3.2021
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 7 - Æska og ungdómsár

Gerði fjölskylda þín laufabrauð á æskuárum þínum? Ef svo er, hverjir á heimilinu tóku þátt? Komu aðrir að laufabrauðsgerðinni en heimilisfólkið? Hverjir, ef svo er?

Nei, þekktist ekki í mínum foreldrahúsum í vesturbæ Reykjavíkur.


Fór laufabrauðsgerð sem þú tókst þátt í eingöngu fram á heimili þínu eða á fleiri stöðum? Hvaða stöðum?
Hvar og hvernig kynntust foreldrar þínir þessari hefð? Nefndu einnig sveitarfélag og hvort það var í þéttbýli eða til sveita.
Var laufabrauðið sem þú þekktir í æsku svipað því sem kallað er laufabrauð í dag? Ef ekki, gætir þú lýst brauðinu sem kallað var laufabrauð í þínu ungdæmi?

Kafli 2 af 7 - Þínar laufabrauðshefðir

Ef að þú komst ekki að gerð laufabrauðs í æsku en tókst þátt í henni seinna á ævinni, hvaðan og hvenær kom hún inn í líf þitt?

1970 flutti ég að Refsstað í Vopnafirði og þar var venja að steikja laufabrauð. Tengdamóðir mín (fædd á Vopnafirði) sá um laufabrauðsgerðina í fyrstu en svo tók svilkona mín (úr Skagafirði) við um 1975.


Býrð þú til laufabrauð í dag? Gerir þú það með fleiri en einum hópi, ef svo er? Hvaða hópum?

Nei, ég kaupi steikt laufabrauð handa mínu heimili.


Kemur þú að gerð laufabrauðs á hverju ári eða hefur þú hugsanlega tekið pásu um lengri eða skemmri tíma? Hvers vegna?
Er sérstakur dagur og tími tekinn frá fyrir laufabrauðið? Hvernig er hann valinn? Er gert laufabrauð á öðrum tímum árs en fyrir jólin? Ef svo er, hvenær og við hvaða tækifæri?

Frá 1975 og til 2009 hittust hér í mínu eldhúsi svilkona mín, dætur hennar og fjölskyldur þeirra. Þegar hæst hóaði var þetta um 30 manns. Ungu konurnar sáu um að búa til deigið og fletja út, hitt liðið skar út, svilkona mín steikti svo brauðið. Ég sá svo um mat og stjórnun á barnaskaranum. Oft steiktar um 280 kökur. Við reyndum að baka ekki seinna en 15.des. Við gerðum aðeins laufabrauð fyrir jólin.


Hvaða hugmyndir hefur þú um útbreiðslu laufabrauðs í dag? Finnst þér að hún hafi farið vaxandi eða minnkandi á síðustu 20-30 árum eða stendur hún kannski í stað?

Fyrir svona 20 árum var töluverður uppgangur í laufabrauðsgerð, en þegar bakarar fóru að bjóða upp á ósteikt brauð og líka steikt hef ég grun um að laufabrauðssamkvæmi hafi lagst af, en þó eru einhverjir sem enn halda gömlum venjum.


Hvaða áhrif hefur COVID-19 á laufabrauðsgerð þína? Koma vídeó-símtöl á netinu, eins og t.d. á Facebook, hugsanlega við sögu? Getur þú sagt frá þessu, ef svo er?

Kafli 3 af 7 - Deig

Eru einhverjir sem halda utan um daginn eða sjá til þess að nóg sé af öllum áhöldum og öðru sem til þarf? Hverjir, ef svo er?

Húsmóðirin(ég) og elsta dóttir svilkonu minnar.


Búið þið til deig sjálf eða kaupið þið það tilbúið og fletjið út? Kaupið þið útflattar kökur?

Hér var deigið búið til frá grunni meðan laufabrauðsbakstur fór hér fram.


Hvaða korntegundir eða hugsanlega blöndu af þeim notið þið í deigið? Hvaða önnur hráefni eru notuð?

Í fyrstu notuðum við eingöngu hveiti, en síðan fórum við að nota heilhveiti og var það alls ráðandi frá aldamótum.


Hverjir búa til deigið? Þekkist kynja- eða verkaskipting við að hnoða og fletja deigið? Segðu frá því, ef svo er.

Það voru þær myndarlegustu sem bjuggu til deigið og flöttu það út.Kafli 4 af 7 - Útskurður

Hvaða áhöld og annan útbúnað notar þú við laufabrauðsskurðinn? Segðu frá því og hvaða hlutverki þau gegna.

Það þurfti að finna til skurðarbretti fyrir alla og svo góða hnífa með oddi. Fljótlega fórum við að nota laufabrauðsjárn ca.1980.


Eiga eldri áhöldin sér sögu? Hafa einhver þeirra t.d. erfst á milli kynslóða? Hvaða áhöld, ef svo er? Hver átti þau fyrst?

Nei.


Hvaða munstur skerð þú helst út? Ber útskurðurinn eða munstrin sem þú notar einhver heiti? Hvaða heiti? Er eitthvað sem þér finnst að eigi ekki að skera út í laufabrauð? Hvað og hvers vegna, ef svo er?

Greinar og jólatré voru vinsæl hér á bæ, enda lítið um snillinga.


Hvað ræður því helst hvað þú skerð út? Skipta hefðir máli í þessu sambandi eða hvaðan færð þú hugmyndirnar? Vilt þú nostra við útskurðinn, gera flókin mynstur eða vera fljótur vegna þess að það eru margar kökur sem þarf að skera út?

Hér snérist þetta aðallega um að hafa gaman saman, útlitið og listfengið skipti litlu máli, enda allt borðað á endanum.


Er eitthvað sem þér finnst skemmtilegra eða leiðinlegra að skera út en annað? Hvað, ef svo er? Eða er þetta kannski alveg hlutlaust?
Hvað skera aðrir út í þínum hópi? Er það á einhvern hátt frábrugðið því sem þú gerir?
Hver kenndi þér að skera út? Hefur þú kennt einhverjum útskurð? Hverjum?

Ég man ekki hver kenndi mér að skera út. Ég kenndi nokkrum tugum barna tengdum mínum bæ að skera út.


Hverjir sjá um að skera út? Geta allir tekið þátt, börn líka?

Það skáru allir út, en sérstaklega var lögð áhersla á að leyfa börnunum að skera út meðan þau höfðu áhuga, svo kláruðum við fullorðna fólkið verkið.Kafli 5 af 7 - Steiking

Hvaða áhöld og annað sem til þarf er notað við steikinguna? Segðu frá þeim og hvaða hlutverki þau gegna.

Það þurfti góðan þungann pott eða djúpa pönnu. Spaða/gaffal til að veiða kökurnar upp úr og svo voru þær lagðar á eldhúspappír og strokið yfir með sérstökum sléttum tréhlemmi. Það var gert til að fá þær sléttar og án þess að bólur mynduðust.


Hafa orðið einhverjar breytingar á því hvaða útbúnaður er notaður? Hvaða breytingar, ef svo er?
Upp úr hverju er brauðið steikt og hve lengi? Hvað eru búnar til margar kökur? Er afskurðurinn steiktur?

Við steiktum alltaf upp úr tólg og bökunarfeiti. (parafín) Reynt að hafa feitina passlega heita þannig að brauðið yrði gullið á litinn, ekki brennt og ekki náfölt. Afskurðurinn var alltaf steiktur og borðaður með smjöri. Stundum var afskurðurinn búinn um leið og gengið var frá því síðasta í eldhúsinu og búið að skipta kökum á milli heimila.


Er laufabrauðið pressað eftir að búið er að steikja það? Með hverju er pressað? Ef að það er ekki pressað, hvað er gert við brauðið þegar það kemur upp úr pottinum?

Áður leyst hvernig pressun fór fram.


Segðu frá því hvernig brauðinu er pakkað inn og gengið frá því til geymslu.

Flestir reyndu að koma með kökubauka, stór Mackintos voru vinsælir á seinni árum.


Eftir hvaða reglum er laufabrauðinu skipt á milli fólks? Hvað fá menn venjulega margar kökur í sinn hlut?

Það fór eftir stærð heimila hve margar kökur komu í hlut, 15-30 kökur á heimili. Einstaka fannst réttlátt að þeir fengju allar kökur sem þeir skáru út. En fengu í þess stað fyrirlestur frá húsmóður um öll hin verkin sem þurfti að vinna áður en skorið var út og reyndar á eftir líka.


Hvað tekur vinnan við laufabrauðið langan tíma, frá upphafi til enda?

Hér var reiknað með að þeir fyrstu kæmu fyrir hádegi og hnoðuðu og flöttu út það fyrsta. Svo var borðað um eittleytið og síðan haldið vel áfram. Oftast búið um fimmleytið að ganga frá öllu, drekka mikið kaffi og hlæja saman.


Hverjir sjá um að steikja og ganga frá kökunum? Er kynja- eða verkaskipting við þetta? Getur þú sagt frá því?

Svilkona mín (fædd 1930) sá um steikingu í 25 ár en sonur hennar tók svo við. Kynja-og verkaskipting var ekkert sérstakt vandamál.Kafli 6 af 7 - Neysla

Laufabrauð er mest borðað um jólin, eins og allir þekkja, en hvenær er byrjað að smakka á því?

Við geymdum brauðið venjulega ósnert þar til á jóladag.


Með hverju þykir þér best að borða laufabrauð?

Ómissandi með hangikjöti.


Borðar þú, eða fólk sem þú þekkir, laufabrauð með einhverju sem talist gæti óhefðbundið meðlæti? Ef svo er, hvað er hér helst um að ræða?

Á seinni árum virðist laufabrauð oft notað sem einskonar snakk.


Hvernig kökur þykja ykkur bestar? Nefnið hráefni o.fl.

Heilhveiti.


Hvað endist þinn laufabrauðsskammtur lengi? Hvað er gert við afganginn frá jólunum?

Reyndum að klára laufabrauðið um áramótin. Ef eitthvað var eftir gleymdist það oft og endaði sem hænsnamatur eins og smákökurnar sem komu í ljós um páska.


Hvenær og hvernig er afskurðarins neytt? Hvaða heiti þekkir þú á honum?
Kaupir þú tilbúið laufabrauð í búðum eða bakaríum? Frá hvaða aðila er besta brauðið að þínu mati?

Kaup oftast frá Kristjánsbakarí, en það skiptir ekki öllu máli fyrir mig/okkur.Kafli 7 af 7 - Upplifun af laufabrauðsgerð

Hver er tilgangur þess að búa til laufabrauð, annar en hinn praktíski svo að segja? Hvaða þýðingu hefur þessi hefð fyrir þig?

Það er nú ekki mikið praktískt við laufabrauðsgerð. Hægt að brauðfæða fjölskylduna á mun einfaldari hátt. Meðan hér var stundaður laufabrauðsbakstur var það að mestu fyrir samveruna og ánægjuna að tengja fjölskylduna saman fyrir jólin.


Getur þú sagt frá laufabrauðsgerð? Þetta geta verið minningabrot, þín upplifun, hvort og með hvaða hætti hefðin hefur breyst, hvað er jákvætt, hvað er neikvætt eða annað sem kemur upp í hugann.

Sem húsmóðir á fyrrverandi stóru heimili minnist ég þess hvað gaman var að fylgjast með krökkunum leika sér saman hér um allt hús. En því miður man ég líka hve óskaplega þreytt ég var síðustu árin og þess vegna hættu þessar stórsamkomur.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana