LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiLaufabrauð, Laufabrauðsgerð
Ártal2021
Spurningaskrá130 Laufabrauðshefðir

ByggðaheitiKópavogur
Sveitarfélag 1950Kópavogshreppur
Núv. sveitarfélagKópavogsbær
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1986

Nánari upplýsingar

Númer2020-3-144
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið4.12.2020/11.1.2021
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 7 - Æska og ungdómsár

Gerði fjölskylda þín laufabrauð á æskuárum þínum? Ef svo er, hverjir á heimilinu tóku þátt? Komu aðrir að laufabrauðsgerðinni en heimilisfólkið? Hverjir, ef svo er?

Fjölskyldan mín bjó ætíð til laufabrauð fyrir jólin. Ég fæddist í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu og nær allar fjölskyldur í sveitinni steiktu laufabrauð. Öll fjölskyldan kom að laufabrauðsgerðinni með einhverjum hætti, annað hvort með að fletja og steikja eða skera. Þegar ég var lítil gerðum við stundum laufabrauð með annarri fjölskyldu, en mest alla æsku mína voru það einna helst bara nánasta fjölskyldan þar sem við áttum ekki ættingja í nágrenninu, en þó voru vinir auðvitað velkomnir sem vildu taka þátt.


Fór laufabrauðsgerð sem þú tókst þátt í eingöngu fram á heimili þínu eða á fleiri stöðum? Hvaða stöðum?

Ég tók nánast bara þátt í laufabrauðsgerð í mínu heimahúsi, en það hefur komið fyrir í gegnum tíðina að ég hafi tekið þátt á öðrum heimilum.


Hvar og hvernig kynntust foreldrar þínir þessari hefð? Nefndu einnig sveitarfélag og hvort það var í þéttbýli eða til sveita.

Foreldrar mínir eru báður af suðaustur horninu og kynntust því ekki laufabrauðsgerð fyrr en þau fluttu norður á Lauga í Reykjadal, sem er lítið þorp í Suður-Þingeyjarsýslu. Þar bjuggu u.þ.b. 100 manns held ég, en það er kjarni fyrir sveitirnar í kring. Ég er síðan fædd þar og uppalin og við höfum steikt laufabrauð allar götur síðan.


Var laufabrauðið sem þú þekktir í æsku svipað því sem kallað er laufabrauð í dag? Ef ekki, gætir þú lýst brauðinu sem kallað var laufabrauð í þínu ungdæmi?

Þar sem að við gerum enn laufabrauð heima er það mjög líkt því sem ég ólst upp við. Við mamma höfum aðeins bætt við heilhveiti eða rúgmjöli í uppskriftina sem þýðir að kökurnar eru aðeins dekkri og stekkri, en ég ólst upp við hvítari kökur. Þær voru samt alltaf frekar gerðarlegar og við eltumst ekki við að þær væru næfurþunnar og náhvítar, því okkur þykja þær betri aðeins dekkri og nógu stökkar í sér til að hægt sé að smyrja þær með smöri. Okkur er illa við þessar búðarkeyptu sem molna við að litið sé á þær. Þær hafa að öðru leyti lítið breyst frá því ég var yngri, bara aðeins grófari.Kafli 2 af 7 - Þínar laufabrauðshefðir

Ef að þú komst ekki að gerð laufabrauðs í æsku en tókst þátt í henni seinna á ævinni, hvaðan og hvenær kom hún inn í líf þitt?

Hún hefur alltaf verið partur af mínu lífi, en ég fór að taka þátt í að búa til deigið og kökurnar á unglingsaldri.


Býrð þú til laufabrauð í dag? Gerir þú það með fleiri en einum hópi, ef svo er? Hvaða hópum?

Ég bý til laufabrauð í dag, og það er almennt helst nánasta fjölskylda. Við systkinin erum þrjú og makar okkar allra taka núna líka þátt en ekkert þeirra þekkti hefðina vel fyrir þó svo að eitt þeirra sé að norðan. Ég hef líka búið erlendis og allavega einu sinni bjó ég til laufabrauð í Bretlandi með einungis vinum sem höfðu aldrei skorið laufabrauð áður, erlendum sem og Íslendingum, sem var upplifun en gekk mjög vel. En almennt er það innsta fjölskylda sem býr til laufabrauð saman og kökur fara á öll þau heimili sem komu að gerð.


Kemur þú að gerð laufabrauðs á hverju ári eða hefur þú hugsanlega tekið pásu um lengri eða skemmri tíma? Hvers vegna?

Ég hef tekið pásu tvisvar sökum þess að búa erlendis. Eitt skiptið var ég án laufabrauðs, en annað skipti kom laufabrauðið í kökudalli til mín í Japan. Óbrotið!


Er sérstakur dagur og tími tekinn frá fyrir laufabrauðið? Hvernig er hann valinn? Er gert laufabrauð á öðrum tímum árs en fyrir jólin? Ef svo er, hvenær og við hvaða tækifæri?

Laufabrauðsdagurinn er mismunandi eftir ári og fer bara eftir því hvenær fjölskyldunni hentar best. Hann hefur verið eins snemma og í byrjun desember og eins seint og á þorláksmessu. Mismunandi eftir ári. Við reynum að gera nóg laufabrauð til að eiga afgang á Þorranum, og gerum því aðeins laufabrauð einu sinni á ári.


Hvaða hugmyndir hefur þú um útbreiðslu laufabrauðs í dag? Finnst þér að hún hafi farið vaxandi eða minnkandi á síðustu 20-30 árum eða stendur hún kannski í stað?

Ég hef hugsanlega aðeins vaxandi áhuga á laufabrauðsgerð, sérstaklega þar sem ég er held ég eina manneskjan sem ég þekki undir fertugu sem býr til laufabrauð frá grunni. Upprunalega var það þegar móðir mín var að lenda í vandræðum með hendurnar á sér og vildi hætta að fletja út, við reyndum búðarkeypt brauð ein jólin og það var alveg ómögulegt svo ég fór að taka að mér að gera það sjálf frá grunni. Mér finnst mikilvægt að halda þessu við, og ég fékk einnig aukinn áhuga á laufabrauðsgerð þegar ég bjó erlendis og bjóst við að þurfa að halda þessari hefð við alveg ein. Laufabrauð er alveg ofboðslega góður matur, ódýr og hátíðlegur, og því mjög mikilvægt að viðhalda honum. Ég býst við að steikja laufabrauð fram í rauðan dauðann.


Hvaða áhrif hefur COVID-19 á laufabrauðsgerð þína? Koma vídeó-símtöl á netinu, eins og t.d. á Facebook, hugsanlega við sögu? Getur þú sagt frá þessu, ef svo er?

COVID hafði ekki áhrif á laufabrauðsgerðina mína. Þar sem það er nánast einungis nánasta fjölskylda voru teknir frá tveir dagar og við vorum aldrei fleiri en 10, en laufabrauðskökurnar urðu mjög margar.Kafli 3 af 7 - Deig

Eru einhverjir sem halda utan um daginn eða sjá til þess að nóg sé af öllum áhöldum og öðru sem til þarf? Hverjir, ef svo er?

Mamma mín (64 ára) er enn sú sem býður heim í laufabrauð, og hún á alltaf sömu skurðarbrettin og vasahnífana sem voru til áður en ég fæddist. Pabbi minn er dáinn svo ég tek þátt í að passa að það sé örugglega til jólabland og sýróp til að dýfa afskurðinum í.


Búið þið til deig sjálf eða kaupið þið það tilbúið og fletjið út? Kaupið þið útflattar kökur?

Við búum til allt deig sjálfar og fletjum út.


Hvaða korntegundir eða hugsanlega blöndu af þeim notið þið í deigið? Hvaða önnur hráefni eru notuð?

Hvítt hveiti og í seinni tíð heilhveiti eða rúgmjöl við það, stundum hálft og hálft, stundum 75-25. Svo bara feiti til að steikja, við notuðum pálmafeiti í ár.


Hverjir búa til deigið? Þekkist kynja- eða verkaskipting við að hnoða og fletja deigið? Segðu frá því, ef svo er.

Við erum tvær sem búum til deigið og fletjum, og mennirnir og hinar konurnar skera. Ég veit ekki til þess að þetta sé endilega regla, en ég myndi ekki setja bræður mína í deigið. Hugsanlega þó manninn minn. En við erum bara ein fjölskylda, og hver sem vill læra má gera það.Kafli 4 af 7 - Útskurður

Hvaða áhöld og annan útbúnað notar þú við laufabrauðsskurðinn? Segðu frá því og hvaða hlutverki þau gegna.

Þegar deigið er tilbúið er það geymt í plastfilmu svo það þorni ekki. Síðan er það flatt með kökukefli og tvær skálar hafðar við höndina til að móta þær eftir, sú sem er "rétt" stærð og sú sem er minni ef ske kynni að erfitt reynist að ná deigbitanum í fulla stærð. Kleinujárn er notað til að skera í kringum yfirhvolfda skálina. Við skurðinn notum við alls konar vasahnífa sem sankast hafa að fjölskyldunni í gegnum árin, og brettin eru mörg og sum hver heimagerð. Við steikinguna er bara kleinupotturinn og stálspaði með götum, og kannski kjötgaffall til að halda á móti. Laufabrauðssvuntan er líka mjög mikilvæg.


Eiga eldri áhöldin sér sögu? Hafa einhver þeirra t.d. erfst á milli kynslóða? Hvaða áhöld, ef svo er? Hver átti þau fyrst?

Þar sem við erum fyrsta kynslóð í okkar fjölskyldu sem býr til laufabrauð að staðaldri eru engir erfðagripir, en þeir munu kannski einhverjir erfast til mín þegar móðirin fellur frá og það er þá helst vasahnífarnir og kleinuhjólið.


Hvaða munstur skerð þú helst út? Ber útskurðurinn eða munstrin sem þú notar einhver heiti? Hvaða heiti? Er eitthvað sem þér finnst að eigi ekki að skera út í laufabrauð? Hvað og hvers vegna, ef svo er?

Skurðurinn heitir ekkert sérstakt svo við vitum. Það er ekkert bannað, en mælst er til þess að fólk vandi sig. Ljót kaka hjá einum væri falleg kaka hjá öðrum, svo við reynum að vera jákvæð. Mér finnst gaman að skera út stjörnu eða kertastjaka, hús og ártöl koma líka stundum við sögu.


Hvað ræður því helst hvað þú skerð út? Skipta hefðir máli í þessu sambandi eða hvaðan færð þú hugmyndirnar? Vilt þú nostra við útskurðinn, gera flókin mynstur eða vera fljótur vegna þess að það eru margar kökur sem þarf að skera út?

Ég er ekkert sérlega góð í að skera út svo ég geri almennt eitthvað frekar augljóst en ekki ljótt. Það eru oft margar kökur sem eru að þorna mjög hratt og því mikilvægt að halda sig við efnið, og þau sem eru betri í útskurðinum mega þá nostra aðeins lengur við kökurnar sínar ef ég rumpa mínum af.


Er eitthvað sem þér finnst skemmtilegra eða leiðinlegra að skera út en annað? Hvað, ef svo er? Eða er þetta kannski alveg hlutlaust?

Hef enga skoðun á því.


Hvað skera aðrir út í þínum hópi? Er það á einhvern hátt frábrugðið því sem þú gerir?

Sumir búa til fallegar blúndur og dúllerí.


Hver kenndi þér að skera út? Hefur þú kennt einhverjum útskurð? Hverjum?

Foreldrar mínir og vinir þeirra, þótt ég muni í raun ekki eftir því. Ég kenndi einu sinni heilu afmælispartýi að skera út laufabrauð, og þar var enginn sem hafði gert það áður. Á afmæli rétt fyrir jólin og var að gera laufabrauð erlendis, og voru flestir gestir erlendir en meira að segja þeir íslensku höfðu aldrei skorið laufabrauð. Það gekk bara feiknavel, og var skurðarmeistari þess árs Norðmaður. Makinn minn er líka Breti og hann er orðinn mjög lunkinn við skurðinn. Við hjálpumst núna að við að kenna næstu kynslóðinni.


Hverjir sjá um að skera út? Geta allir tekið þátt, börn líka?

Allir fá að skera út, líka börn sem eru komin með þroska til þess að vilja sitja og dúlla sér og er treystandi fyrir hnífi. Sú yngsta í okkar flokki var fjögurra ára og skar aftur út fyrir þessi jól þá fimm ára.Kafli 5 af 7 - Steiking

Hvaða áhöld og annað sem til þarf er notað við steikinguna? Segðu frá þeim og hvaða hlutverki þau gegna.

Pottur, feiti, spaði og kjötgaffall. Þetta er allt frekar augljóst, en spaðinn og gaffallinn eru til að snúa kökunum og fjarlægja úr steikingarpottinum. Síðan höfum við notað eldhúspappír eða dagblöð til að þurrka og pressa örlítið, en við nennum almennt ekki að sjá til þess að kökurnar séu vel pressaðar svo hér er enginn þar til gerður pressuplatti til.


Hafa orðið einhverjar breytingar á því hvaða útbúnaður er notaður? Hvaða breytingar, ef svo er?

Voðalega lítill, og þá helst ef við erum ekki á sama heimili eða hlutir hafa skemmst.


Upp úr hverju er brauðið steikt og hve lengi? Hvað eru búnar til margar kökur? Er afskurðurinn steiktur?

Feiti. Hugsanlega notaði mamma mör hér áður fyrr, en í ár notuðum við pálmafeiti. Ekki nema kannski 10-20 sekúndur samtals í pottinum, en okkar eru aðeins dekkri en það sem þótti gott hér áður fyrr. Afskurður er steiktur og dýft í sýróp á laufabrauðsgerðardaginn, annars bara borðaður jafnt og þétt á aðventu og yfir jólin. Gerðar eru 30-80 kökur eftir þörfum hvert ár.


Er laufabrauðið pressað eftir að búið er að steikja það? Með hverju er pressað? Ef að það er ekki pressað, hvað er gert við brauðið þegar það kemur upp úr pottinum?

Brauðið er lítið pressað, okkur er sama þótt það sé ekki pressað og nennum ekki að eyða tíma í það endilega. Pressum þá bara með höndunum. Þegar brauðið kemur úr steikingu er það sett á eldhúspappír og eldhúspappír notaður til að "pressa það" sem er samt eiginlega meira til að ná af því olíunni. Síðan fer það bara í stafla.


Segðu frá því hvernig brauðinu er pakkað inn og gengið frá því til geymslu.

Við setjum það á pappabotn (útskorinn Cheerios pakka eða eitthvað tilfallandi sem er oft geymt milli ára) og í plastpoka.


Eftir hvaða reglum er laufabrauðinu skipt á milli fólks? Hvað fá menn venjulega margar kökur í sinn hlut?

Almennt hefur fólk hugmynd um hvað það vill margar kökur áður en við hefjum gerð, svo flestir fá ca það sem þeir pöntuðu.


Hvað tekur vinnan við laufabrauðið langan tíma, frá upphafi til enda?

Ofboðslega mismunandi, kannski svona 6-7 tíma á dag, en þá stundum tveir dagar á aðventu.


Hverjir sjá um að steikja og ganga frá kökunum? Er kynja- eða verkaskipting við þetta? Getur þú sagt frá því?

Almennt sömu konurnar og sáu um að búa til deig og fletja út, því hin hafa enn ekki lagt í að læra þetta.Kafli 6 af 7 - Neysla

Laufabrauð er mest borðað um jólin, eins og allir þekkja, en hvenær er byrjað að smakka á því?

Afskurðinn má borða fram að jólum en laufabrauðið sjálft er ekki borðað fyrr en á aðfangadag, nema það sé tilfallandi jólaboð fyrir það.


Með hverju þykir þér best að borða laufabrauð?

Smjöri. Laufabrauð er best með smjöri. Skiptir engu hver máltíðin er sem brauðið er með, enda er það bara gott sem máltíð eitt og sér!


Borðar þú, eða fólk sem þú þekkir, laufabrauð með einhverju sem talist gæti óhefðbundið meðlæti? Ef svo er, hvað er hér helst um að ræða?

Ekki tel ég það, við smyrjum með smjöri og dýfum í sýróp, en annars erum við ekki með meðlætishefðir á laufabrauði.


Hvernig kökur þykja ykkur bestar? Nefnið hráefni o.fl.

Hveiti og heilhveitikökur.


Hvað endist þinn laufabrauðsskammtur lengi? Hvað er gert við afganginn frá jólunum?

Ég myndi klára eins margar laufabrauðskökur og eru til á heimilinu yfir jólin, hjá mér er aldrei afgangur nema hann sé sérstaklega eyrnamerktur Þorranum.


Hvenær og hvernig er afskurðarins neytt? Hvaða heiti þekkir þú á honum?

Hans er neytt á laufabrauðsgerðardaginn með sýrópi, en annars er hann borðaður eintómur þegar hentar. Gott nesti og nasl milli mála.


Kaupir þú tilbúið laufabrauð í búðum eða bakaríum? Frá hvaða aðila er besta brauðið að þínu mati?

Nei. Aldrei. Hef enn ekki smakkað keypt brauð sem mér finnst merkilegt, en skal viðurkenna að ég hef ekki gefið því mikinn séns síðustu 10 árin. Það er aldrei jafn gott og hjá mér.Kafli 7 af 7 - Upplifun af laufabrauðsgerð

Hver er tilgangur þess að búa til laufabrauð, annar en hinn praktíski svo að segja? Hvaða þýðingu hefur þessi hefð fyrir þig?

Það er skemmtileg samverustund, og gaman að halda í hefðirnar. Að drekka jólabland og hlusta á Boney M á meðan maður sker laufabrauðsköku er ómissandi fyrir jólin. Þótt ég væri ein í útlöndum með erlendan maka myndi ég koma vinum og fjölskyldu á bragðið.


Getur þú sagt frá laufabrauðsgerð? Þetta geta verið minningabrot, þín upplifun, hvort og með hvaða hætti hefðin hefur breyst, hvað er jákvætt, hvað er neikvætt eða annað sem kemur upp í hugann.

Hjá okkur eru ekki kvaðir um að þurfa að mæta í laufabrauðsgerð, skera á ákveðinn hátt eða eitthvað þess háttar, svo ég tengi hana ekki við neitt neikvætt. Hún getur orðið örlítið kaotísk, en þannig er oft staðan þegar margir koma saman.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana