LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiLaufabrauð, Laufabrauðsgerð
Ártal2020
Spurningaskrá130 Laufabrauðshefðir

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1984

Nánari upplýsingar

Númer2020-3-143
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið4.12.2020/7.1.2021
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 7 - Æska og ungdómsár

Gerði fjölskylda þín laufabrauð á æskuárum þínum? Ef svo er, hverjir á heimilinu tóku þátt? Komu aðrir að laufabrauðsgerðinni en heimilisfólkið? Hverjir, ef svo er?

Yfirleitt fóru tveir dagar á aðventunni í laufabrauðsgerð, annar hjá föðurforeldrum og hinn heima hjá okkur. Hjá ömmu og afa voru tvö heimili saman um laufabrauðsgerð, amma og afi og bróðir afa og kona hans. Þau tók öll þátt en auk þess komu við frá mínu heimili og hjálpuðum til við skurð, sem og dóttir afabróður míns. Þetta gátu verið allt að tuttugu manns. Amma var yfirleitt í eldhúsinu, fyrst að undirbúa kaffi fyrir alla og síðan við steikingu, ásamt eiginkonu afabróður. Hinir sátu í stofunni og skáru. Heima hjá okkur var síðan sami háttur: mamma og pabbi gerðu laufabrauð ásamt móðurforeldrum mínum en oftar en ekki komu föðurforeldrar mínir einnig og hjálpuðu við skurðinn. Við systkinin vorum fimm og tókum öll þátt á einhverju skeiði en elstu bræður mínir duttu út á unglingsárum. Fyrir kom að gesti bar óvænt að garði og settust þeir þá niður með nokkrar kökur einnig.


Fór laufabrauðsgerð sem þú tókst þátt í eingöngu fram á heimili þínu eða á fleiri stöðum? Hvaða stöðum?

Sjá svar að ofan: bæði á mínu heimili og heimili föðurforeldra eða einstaka sinnum heima hjá bróður afa.


Hvar og hvernig kynntust foreldrar þínir þessari hefð? Nefndu einnig sveitarfélag og hvort það var í þéttbýli eða til sveita.

Móðir mín ólst upp í Kópavogi en foreldrar hennar voru báðir úr Þingeyjarsýslu og vön laufabrauði því var gert laufabrauð á hennar heimili. Faðir minn ólst upp á Húsavík, þaðan var afi minn einnig en amma kom frá Hornströndum og hafði ekki gert laufabrauð fyrr en hún flutti til Húsavíkur. Ég man enda að hún forðaðist að skera margar kökur af því að henni fundust laufin klunnaleg hjá sér..


Var laufabrauðið sem þú þekktir í æsku svipað því sem kallað er laufabrauð í dag? Ef ekki, gætir þú lýst brauðinu sem kallað var laufabrauð í þínu ungdæmi?

Já, frá því að ég man eftir mér hefur laufabrauðið ekki breyst.Kafli 2 af 7 - Þínar laufabrauðshefðir

Ef að þú komst ekki að gerð laufabrauðs í æsku en tókst þátt í henni seinna á ævinni, hvaðan og hvenær kom hún inn í líf þitt?
Býrð þú til laufabrauð í dag? Gerir þú það með fleiri en einum hópi, ef svo er? Hvaða hópum?

Það fer eftir því hvar ég held jólin. Ég bý í Reykjavík en foreldrar mínir búa á Húsavík. Ef ég fer norður fyrir jól geri ég gjarnan laufabrauð heima hjá mömmu - ef hún er ekki búin að því áður en ég kem. Í Reykjavík hef ég nokkrum sinnum tekið þátt í laufabrauðsgerð, en ekki heima hjá mér. Nokkrum sinnum heima hjá föðursystur ásamt fleiri systkinum pabba en tvisvar hef ég gert laufabrauð heima hjá bróður mínum, ásamt mágkonu og bróður mágkonu minnar.


Kemur þú að gerð laufabrauðs á hverju ári eða hefur þú hugsanlega tekið pásu um lengri eða skemmri tíma? Hvers vegna?

Það hefur komið fyrir að ég er ekki á landinu um eða fyrir jól og missi þá af laufabrauðsgerð.


Er sérstakur dagur og tími tekinn frá fyrir laufabrauðið? Hvernig er hann valinn? Er gert laufabrauð á öðrum tímum árs en fyrir jólin? Ef svo er, hvenær og við hvaða tækifæri?

Yfirleitt er valinn hentugur laugardagur eða sunnudagur á aðventunni, ekki endilega sami dagurinn frá ári til árs. Í æsku var laufabrauðið oft gert snemma, jafnvel seinni part nóvember og markaði þannig upphaf jólaundirbúnings. Nú til dags fer það eftir hentisemi þeirra sem taka þátt en sennilega er fyrsta helgin í desember langalgengust. Fyrir síðustu jól gerðum við laufabrauð 19. desember því að mamma beið með að gera það þar til við nokkur systkinin vorum komin norður. Aldrei er gert laufabrauð á öðrum tíma árs.


Hvaða hugmyndir hefur þú um útbreiðslu laufabrauðs í dag? Finnst þér að hún hafi farið vaxandi eða minnkandi á síðustu 20-30 árum eða stendur hún kannski í stað?

Mín tilfinning er sú að laufabrauð sé að verða algengara á Suðvesturhorninu en að fáir þar hafi þekkt laufabrauð fyrir 20-30 árum. Þá var líklega ekki heldur hægt að kaupa tilbúnar steiktar kökur í búðum sem mögulega hefur kynnt brauðið fyrir fleirum. Ég geri mér þó ekki grein fyrir hvort fólk sem hefur enga tengingu við Norðurland hafi tekið upp á því að gera laufabrauð.


Hvaða áhrif hefur COVID-19 á laufabrauðsgerð þína? Koma vídeó-símtöl á netinu, eins og t.d. á Facebook, hugsanlega við sögu? Getur þú sagt frá þessu, ef svo er?

Engin áhrif, við vorum nógu fá sem tókum þátt í laufabrauðsgerð þetta árið. Endar er enginn í minni fjölskyldu þannig að þetta sé endilega mjög heilagt og það gerir yfirleitt ekki til þó að maður missi af eitt árið.Kafli 3 af 7 - Deig

Eru einhverjir sem halda utan um daginn eða sjá til þess að nóg sé af öllum áhöldum og öðru sem til þarf? Hverjir, ef svo er?

Hjá mömmu er það mamma. Þegar við höfum gert það sjálf hjá bróður mínum reynum við að koma öll með áhöld með okkur. Ég á sjálf tvo hnífa sérstaklega fyrir skurð.


Búið þið til deig sjálf eða kaupið þið það tilbúið og fletjið út? Kaupið þið útflattar kökur?

Við kaupum útflattar kökur og þannig hefur það verið síðan ég man eftir mér. Mamma flatti út sjálf þar til fyrir svona þrjátíu árum: þá voru börnin orðin fimm og hún gafst upp á að gera þetta sjálf. Um svipað leyti hætti amma að fletja út. Enda vorum við á hvoru heimili um sig að taka um 150 kökur.


Hvaða korntegundir eða hugsanlega blöndu af þeim notið þið í deigið? Hvaða önnur hráefni eru notuð?
Hverjir búa til deigið? Þekkist kynja- eða verkaskipting við að hnoða og fletja deigið? Segðu frá því, ef svo er.

Kafli 4 af 7 - Útskurður

Hvaða áhöld og annan útbúnað notar þú við laufabrauðsskurðinn? Segðu frá því og hvaða hlutverki þau gegna.

Það er mikilvægt að hafa gott og passlega stórt bretti, helst trébretti því að á plastinu renna þær stundum til. Ég er síðan vön að skera með mjög litlum hnífum sem eru í laginu eins og vasahnífar nema enn minni. Þessir hnífar voru til á heimili föðurforeldra minna og fyrir nokkrum árum eignaðist ég tvo mjög svipaða. Afi man ég skar alltaf með vasahnífnum sínum, dæmigerðum svissneskum vasahníf. Bróðir afa notaði hjól en enginn annar og ég held að það hafi verið afi sem ól það upp í okkur að það væri neðan okkar virðingar að nota hjól. Hef ég því aldrei notað hjól. Á okkar heimili var aldrei til hjól og hnífana fengum við yfirleitt að láni hjá ömmu og afa. Ef margir voru gátu litlir grænmetishnífar gengið.


Eiga eldri áhöldin sér sögu? Hafa einhver þeirra t.d. erfst á milli kynslóða? Hvaða áhöld, ef svo er? Hver átti þau fyrst?

Þessir hnífar frá ömmu og afa sem ég nefni að ofan eru vafalaust gamlir, að minnsta kosti eldri en ég, og eru nú í eigu pabba og munu sjálfsagt enda hjá mér. Ég veit hins vegar ekki hversu gamlir þeir eru en amma og afi eru bæði látin og ekki til frásagnar.


Hvaða munstur skerð þú helst út? Ber útskurðurinn eða munstrin sem þú notar einhver heiti? Hvaða heiti? Er eitthvað sem þér finnst að eigi ekki að skera út í laufabrauð? Hvað og hvers vegna, ef svo er?

Nokkrar kökur sker ég alltaf, það eru jólatré, kerti sem situr á grenigreinum, bókstafi þeirra sem eru viðstaddir og svo sker ég út 'jól' - síðan sker ég að mestu handahófskennd lauf í einhverskonar mynstur.


Hvað ræður því helst hvað þú skerð út? Skipta hefðir máli í þessu sambandi eða hvaðan færð þú hugmyndirnar? Vilt þú nostra við útskurðinn, gera flókin mynstur eða vera fljótur vegna þess að það eru margar kökur sem þarf að skera út?

Ég er yfirleitt ekki lengi að skera hverja köku enda er mikilvægt að þær þorni ekki um of. Ég er mjög föst í þeim mynstrum sem ég lærði sem barn og hef ekki uppfært mig mikið.


Er eitthvað sem þér finnst skemmtilegra eða leiðinlegra að skera út en annað? Hvað, ef svo er? Eða er þetta kannski alveg hlutlaust?

Það er áskorun að ná 'fullkomnu' jólatréi svo yfirleitt geri ég nokkur svoleiðis þar til ég er ánægð: það er líklega uppáhalds mynstrið.


Hvað skera aðrir út í þínum hópi? Er það á einhvern hátt frábrugðið því sem þú gerir?

Eftir að afi dó eru fáir í kringum mig sérlega listrænir í skurði og fáar kökur sem standa mikið upp úr.


Hver kenndi þér að skera út? Hefur þú kennt einhverjum útskurð? Hverjum?

Föðurafi minn kenndi mér og held ég öllum systkinunum: það var bara ákveðin hefð þegar barn hafði náð ákveðnum aldri þá tók afi að sér kennsluna. Hann sá einnig um að rifja upp hjá manni milli ára fyrstu árin. Ég hef kennt bróðurbörnum mínum að skera.


Hverjir sjá um að skera út? Geta allir tekið þátt, börn líka?

Já, yfirleitt var enginn sem ekki skar eitthvað en amma og mamma skáru yfirleitt minnst af því að þær sáu um steikinguna og kaffið. Og börn skáru um leið og þau höfðu aldur til en ég man ekki alveg hve gamall maður þurfti að vera til að mega skera, líklega 5-6 ára og fyrst var það oft þannig að einhver skar fyrir barnið og síðan fékk það að fletta. Núna gerum við yfirleitt miklu færri kökur en í gamla daga og þá klára allir að skera saman áður en er steikt.Kafli 5 af 7 - Steiking

Hvaða áhöld og annað sem til þarf er notað við steikinguna? Segðu frá þeim og hvaða hlutverki þau gegna.

Góður pottur er mikilvægur: stundum höfum við notað sérstaka hellu líka: man ekki hvort það hafi alltaf verið þannig. Steikargafflar tveir eru notaðir til að veiða kökurnar upp úr pottinum og þær síðan lagðar á eldhúspappír. Ég tók aldrei þátt í steikingu hjá ömmu og afa og veit ekki hvaða áhöld voru notuð þar.


Hafa orðið einhverjar breytingar á því hvaða útbúnaður er notaður? Hvaða breytingar, ef svo er?

Ekki svo ég muni nema að fyrir nokkrum árum keypti mamma nýja hellu sérstaklega fyrir steikingu.


Upp úr hverju er brauðið steikt og hve lengi? Hvað eru búnar til margar kökur? Er afskurðurinn steiktur?

Ég er ekki alveg með það á hreinu hvernig það hefur verið en síðast notaði mamma plöntufeiti. Ég held að tólg hafi ekki verið notuð um nokkuð skeið. Brauðið er steikt í einhverjar sekúndur eða þar til réttur litur er kominn á það, svona gullið en ekki dökkt. Afskurðurinn er alltaf steiktur og borðaður samstundis. Í gamla daga steikti amma alltaf afskurðina fyrst, þegar við vorum enn að skera og kom svo með þá inn í stofu. Hjá mömmu voru þeir yfirleitt borðaðir með kvöldmatnum en þar er hefð að borða heitt hangikjöt á laufabrauðsdegi.


Er laufabrauðið pressað eftir að búið er að steikja það? Með hverju er pressað? Ef að það er ekki pressað, hvað er gert við brauðið þegar það kemur upp úr pottinum?

Hjá mömmu er til laufabrauðspressa sem ég bjó til í smíðum í barnaskóla fyrir svona 25 árum og er enn í notkun. Ég man hins vegar ekki hvað var notað sem pressu fyrir það. Þess vegna eru yfirleitt tveir í steikingu, einn steikir og hinn pressar. Á síðari árum hef ég yfirleitt pressað meðan mamma steikir.


Segðu frá því hvernig brauðinu er pakkað inn og gengið frá því til geymslu.

Því er raðað í nokkra stafla og þeir settir ofan í pappakassa með eldhúspappír ofan og neðan við stafla og síðan er kassinn geymdur í bílskúrnum eða þvottahúsinu þar sem er kaldara. Amma gerði svipað en setti oft lak eða gömul rúmföt ofan á staflana og geymdi það síðan í búrinu sem var nokkuð kalt.


Eftir hvaða reglum er laufabrauðinu skipt á milli fólks? Hvað fá menn venjulega margar kökur í sinn hlut?

Ef fleira en eitt heimii eru saman um laufabrauðsgerð ákveður hvert heimili fyrirfram hve margar kökur eru keyptar og síðan er skipt samkvæmt því eftir steikingu. Fjöldi er bæði persónubundinn og eftir stærð heimilis. Fyrir okkar 7 manna heimili í gamla daga voru gerðar 100-120 kökur. Þessi jólin gerðum við 50 hjá mömmu og vorum sex í mat yfir jólin: þær kláruðust fyrir áramót. Þegar ég hef gert sjálf með bróður mínum reiknum við yfirleitt um 10 kökur á mann.


Hvað tekur vinnan við laufabrauðið langan tíma, frá upphafi til enda?

Það fer auðvitað eftir fjölda, bæði hve margir skera og hve margar kökurnar eru. Fyrir jólin vorum við fjögur með 50 kökur og sennilega vorum við 1-2 klst að skera og 40-60 mín að steikja: mestur tími steikingarinnar fór í bið því að við misstum oft niður hitann á feitinni.


Hverjir sjá um að steikja og ganga frá kökunum? Er kynja- eða verkaskipting við þetta? Getur þú sagt frá því?

Hef komið inn á það hér áður að hér áður fyrr sáu konurnar mest um steikingu, sérstaklega hjá ömmu og afa. Afi gerði aldrei neitt nema skera og kenna skurð og segja sögur. Heima hjá mér voru það ýmist mamma og móðuramma eða mamma og pabbi sem steiktu. Allir tóku þátt í skurði en sumir voru þó latari við það en aðrir en held að það hafi ekki verið kynjaskipt.Kafli 6 af 7 - Neysla

Laufabrauð er mest borðað um jólin, eins og allir þekkja, en hvenær er byrjað að smakka á því?

Í æsku var það mjög strangt að ekki mætti borða laufabrauð fyrr en á aðfangadag. Það tók á því að oft var það gert mjög snemma og því liðu kannski nokkrar vikur þar til mátti smakka á því. Þessar reglur hafa aðeins losnað á síðari árum, það þykir allt í lagi að narta í það fyrir jól en það er alls ekki borið á borð fyrr en á jólum.


Með hverju þykir þér best að borða laufabrauð?

Margir í kringum mig borða miklu meira laufabrauð en ég, með öllum máltíðum yfir jólin og líka sem snakk. Á aðfangadag borða ég yfirleitt rjúpu og vil helst hafa laufabrauð með þeim: það passar sérstaklega vel með sósunni. Mér finnst það hins vegar algerlega ómissandi á jóladag með hangikjöti. Þá finnst mér ágætt að narta aðeins í það með glasi af malt og appelsínu. Að öðru leyti gæti ég alveg sleppt því að borða laufabrauð en ef það er á borðinu fæ ég mér alltaf smá.


Borðar þú, eða fólk sem þú þekkir, laufabrauð með einhverju sem talist gæti óhefðbundið meðlæti? Ef svo er, hvað er hér helst um að ræða?

Ég hef heyrt um ýmislegt: laufabrauð með smjöri, laufabrauð með mysingi og laufabrauð með tómatsósu er það sem ég man í augnablikinu. Ekkert af þessu hef ég prófað og enginn í minni fjölskyldu borðar eitthvað óhefðbundið með laufabrauði.


Hvernig kökur þykja ykkur bestar? Nefnið hráefni o.fl.

Mín fjölskylda er mjög hefðbundin með hvítar hveitikökur. Höfum aldrei verið með heilhveiti eða kúmen eða þ.h.


Hvað endist þinn laufabrauðsskammtur lengi? Hvað er gert við afganginn frá jólunum?

Man ekki til þess að laufabrauð hafi enst mikið fram yfir áramót - ekki nema ef einn kassi hefur gleymst einhvers staðar.


Hvenær og hvernig er afskurðarins neytt? Hvaða heiti þekkir þú á honum?

Þetta er þegar komið fram í einhverju svari: hann er borðaður samstundis. Afskurður er eina heitið sem ég þekki.


Kaupir þú tilbúið laufabrauð í búðum eða bakaríum? Frá hvaða aðila er besta brauðið að þínu mati?

Hef mjög sjaldan gert það, einu sinni fyrir vini þegar ég var að fara til útlanda fyrir jól. Þá keypti ég að mig minnir Kristjáns. Þekki þessar tegundir annars illa.Kafli 7 af 7 - Upplifun af laufabrauðsgerð

Hver er tilgangur þess að búa til laufabrauð, annar en hinn praktíski svo að segja? Hvaða þýðingu hefur þessi hefð fyrir þig?

Það er að mínu mati mjög notalegt að fjölskyldan - eða hluti hennar - komi saman til að gera laufabrauð. Sem fyrr segir er þetta oft snemma á aðventunni og stundum sér maður ekki fólkið sitt að neinu viti aftur fyrr en um jólin. Það eru ekki margar hefðir sem krefjast þess að allir setjist niður saman í stofunni til að gera eitthvað annað en að horfa á sjónvarpið eða borða saman. Við laufabrauðsskurðinn er ekkert annað að gera en spjalla og á venjulegu ári (ekki covid-ári) eru slíkar samverustundir kannski ekkert sérstaklega margar. Eðli laufabrauðsgerðarinnar er þannig að það er mjög erfitt að gera þetta einn og þess vegna er þetta hin besta átylla til þess að hóa saman fólki. Vegna þess er líka oft gert aðeins meira úr deginum, eitthvað gott með kaffinu eða góður matur að steikingu lokinni. Fyrir síðustu jól höfðum við til dæmis vöfflur með kaffinu. Í gamla daga þegar við gerðum miklu fleiri kökur var líka ekki nauðsynlegt að sitja allan tímann heldur mátti fólk koma og fara sem gerði daginn oft mjög líflegan.


Getur þú sagt frá laufabrauðsgerð? Þetta geta verið minningabrot, þín upplifun, hvort og með hvaða hætti hefðin hefur breyst, hvað er jákvætt, hvað er neikvætt eða annað sem kemur upp í hugann.

Líkt og margar jólahefðir er laufabrauðsgerðin auðvitað mjög nostalgísk og hefur þess vegna lítið breyst. Með árunum hafa raunar margar jólahefðir frá því að ég var barn lagst niður hjá mér, til dæmis smákökubakstur en mér finnst smákökur ekkert góðar og ég er ekki hlynnt því að halda við hefðum bara hefðanna vegna. Mér finnst annað gilda um laufabrauðið vegna þess að mér finnst það gott og ómissandi með jólamatnum, sem og vegna þessarar samverustundar sem ég nefni hér að ofan. Líkt og um margar hefðir er erfitt að nefna ákveðin minningarbrot því að hver laufabrauðsgerð rennur saman við aðra, frá ári til árs. Þessu fylgir því meira eins konar minningaandrúmsloft frá því að allir komu saman, jólaplata var sett á fóninn og mallaði í rólegheitum undir skvaldri. Þrátt fyrir að margir hafi verið saman komnir man ég ekki eftir miklum látum eða hamagangi heldur fremur rólegu spjalli sem allir tóku þátt í, bæði ungir og aldnir. Yfirleitt er andrúmsloftið frekar létt hvort sem er þegar mín fjölskylda kemur saman og því auðvelt að gera þennan dag ljúfan. Meðan bæði föður- og móðurforeldrar voru á lífi komu þau öll til okkar þegar laufabrauðið var gert heima hjá okkur og mér fannst alltaf dálítið gaman þegar ég hafði þau öll á einum stað. Fram að unglingsaldri var langamma mín líka með. Afar mínir voru skólabræður og mér fannst mjög gaman að hlusta á þá spjalla saman. Ég tengi þennan dag mjög sterkt við föðurafa minn sem kenndi mér að skera og skar yfirleitt manna mest sjálfur. Við gerðum líka oft grín að móðurafa mínum sem tók í nefið og það var alltaf brandarinn hvort hann myndi missa nokkur korn í kökurnar sínar. Hann sagði sjálfur að það hefði oft gerst hjá pappa hans, langafa mínum. Í stórum atriðum hefur laufabrauðsgerðin ekki breyst mikið nema að fólk er horfið á braut og aðrir komnir í staðinn. Oftast nær erum við þó mun færri sem komum saman en var í æsku. Við erum til dæmis sjaldan öll systkinin fimm saman og misjafnt hvort mamma og/eða pabbi er með, og hversu mörg tengda- og barnabörn mæta. En enn er jólaplata sett á fóninn, gömlu hnífarnir dregnir fram og sömu mynstrin skorin frá ári til árs.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana