LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiLaufabrauð, Laufabrauðsgerð
Ártal2020
Spurningaskrá130 Laufabrauðshefðir

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1974

Nánari upplýsingar

Númer2020-3-142
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið4.12.2020/5.1.2020
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 7 - Æska og ungdómsár

Gerði fjölskylda þín laufabrauð á æskuárum þínum? Ef svo er, hverjir á heimilinu tóku þátt? Komu aðrir að laufabrauðsgerðinni en heimilisfólkið? Hverjir, ef svo er?

Já fjölskyldan hefur tekið laufabrauð fyrir jólin svo langt sem ég man. Þegar ég var barn var þetta gert undir stjórn móðurömmu minnar. Hún var fædd árið 1905 og hafði gert laufabrauð alla sína tíð. Uppskriftin sem var notuð kom frá ömmu og er hún í alla staði hefðbundin laufabrauðs uppskrift nema að kúmen er soðið í mjólkinni og sigtað frá áður en mjólkin er hrært við. Þetta var amma og yngri börnin hennar sem tóku laufabrauð saman og börnin þeirra og síðan ein frænka okkar sem var á sama aldri og mamma og bróðir hennar og með börn á sama aldri. Eldri börn ömmu voru sjálfar ömmur þegar þetta er og gerðu laufabrauð með sínu fólki. Það kom oft fyrir að vinkonur mömmu voru með. Eftir að amma dó í kringum aldarmótin tók mamma við keflinu og hóaði saman börnum og systkinabörnum í laufabrauðsgerðina og er það ennþá gert í dag. Sami hópurinn hefur s.s. gert laufabrauð saman í yfir 40 ár. Allir taka þátt í laufabrauðgerðinni, þeir eldri kenna þeim yngri og um leið eru sagðar sögur frá fyrri svona samkomum, sögur af ömmu og afa sagðar og þekkingu um þau deilt áfram.


Fór laufabrauðsgerð sem þú tókst þátt í eingöngu fram á heimili þínu eða á fleiri stöðum? Hvaða stöðum?

Laufabrauðsgerðin fór á milli heimila þegar ég var ung, frá ömmu fyrir til móðurbróður míns og frá honum yfir til mömmu. En síðustu 20 árin hefur móðir mín haft þennan dag hjá sér.


Hvar og hvernig kynntust foreldrar þínir þessari hefð? Nefndu einnig sveitarfélag og hvort það var í þéttbýli eða til sveita.

Móðir mín er alin upp við laufabrauðsgerð í Hrísey í Eyjafirði. Var tekið laufabrauð í fjölskyldum bæði afa og ömmu en þau eru fædd rétt eftir aldarmótin 1900. Laufabrauðshefðin hefur síðan fylgt okkur til Reykjavíkur síðast líðin 35 ár. Afi og amma eru alin upp við Eyjafjörðin, í Hrísey og Árskógsströnd og var laufabrauðsgerð fyrir jólin hluti af þeirra uppeldi.


Var laufabrauðið sem þú þekktir í æsku svipað því sem kallað er laufabrauð í dag? Ef ekki, gætir þú lýst brauðinu sem kallað var laufabrauð í þínu ungdæmi?

já það er ekki mikill munur á, sama uppskrift nema hvað það getur enginn flatt út eins þunnar kökur og amma gerði. Það var best ef hægt var að lesa blaðið í gegnum kökurnar ósteiktar.Kafli 2 af 7 - Þínar laufabrauðshefðir

Ef að þú komst ekki að gerð laufabrauðs í æsku en tókst þátt í henni seinna á ævinni, hvaðan og hvenær kom hún inn í líf þitt?
Býrð þú til laufabrauð í dag? Gerir þú það með fleiri en einum hópi, ef svo er? Hvaða hópum?

Já laufabrauðsgerð er hluti af aðventunni í minni fjölskyldu. Við gerum það saman nokkur systkinabörn með börnunum okkar og móður minni sem er í hlutverki ömmunnar.


Kemur þú að gerð laufabrauðs á hverju ári eða hefur þú hugsanlega tekið pásu um lengri eða skemmri tíma? Hvers vegna?

Það hefur aldrei fallið niður laufabrauðsgerð - hún var með öðru sniði í ár 2020 og í minni hóp en áður. En laufabrauð er alltaf gert.


Er sérstakur dagur og tími tekinn frá fyrir laufabrauðið? Hvernig er hann valinn? Er gert laufabrauð á öðrum tímum árs en fyrir jólin? Ef svo er, hvenær og við hvaða tækifæri?

Já að er reynt að halda sér við fyrstu helgina í desember fyrir laufabrauðsgerðina nú í seinni tíð. En áður var það yfirleitt nær jólum og þá þegar fjölskyldan var komin norður til að taka þátt í þessu með þeim sem bjuggu fyrir norðan. Laufabrauð er ekki bakað á öðrum árstíma, en það er oft teknar frá nokkrar kökur sem eru geymdar til þorrans - ég man meira eftir því hér áður.


Hvaða hugmyndir hefur þú um útbreiðslu laufabrauðs í dag? Finnst þér að hún hafi farið vaxandi eða minnkandi á síðustu 20-30 árum eða stendur hún kannski í stað?

Ég er ekki viss, fólkið í kringum mig er mikið laufabrauðsfólk og kemur ýmist úr Eyjafirði eða Skagafirði þar sem þessi hefð er nokkuð sterk ennþá.


Hvaða áhrif hefur COVID-19 á laufabrauðsgerð þína? Koma vídeó-símtöl á netinu, eins og t.d. á Facebook, hugsanlega við sögu? Getur þú sagt frá þessu, ef svo er?

Covid hafði mikil áhrif - nokkrir tóku ekki laufabrauð þetta árið úr hópnum. Við tókum okkur örfá saman og steiktum 40 kökur sem voru keyptar útflattar frá Kristjáns bakarí, við vorum heldur leynt með okkar plott og þorðum ekki að segja neinum frá. Vissum að þetta var miserfitt fyrir fjölskyldur að sleppa eða breyta hefðinni.Kafli 3 af 7 - Deig

Eru einhverjir sem halda utan um daginn eða sjá til þess að nóg sé af öllum áhöldum og öðru sem til þarf? Hverjir, ef svo er?

Já amman (þ.e. móðir mín) heldur utan um daginn og bíður heim. Laufabrauðsjárn og skurðarbretti kemur hver fjölskylda með, en svo blandast þetta í einn haug á borðinu á meðan á útskurði stendur. síðustu ár höfum við samið við bakarí um að fletja út fyrir okkur svo nú þarf ekki lengur að byrja fyrir allar aldir. Það var mjög jákvæð breyting.


Búið þið til deig sjálf eða kaupið þið það tilbúið og fletjið út? Kaupið þið útflattar kökur?

Við höfum búið til deigið sjálf eftir uppskrift úr Eyjafirðinum frá ömmu minni. En líklega er það að deyja út og verða tilbúnar kökur keyptar næst.


Hvaða korntegundir eða hugsanlega blöndu af þeim notið þið í deigið? Hvaða önnur hráefni eru notuð?

Það er notað hveiti og í það er hnoðað smjör, sykur, salt, mjólk, hjartasalt og lyftiduft. Kúmen soðið í mjólkinni og sigtað frá.


Hverjir búa til deigið? Þekkist kynja- eða verkaskipting við að hnoða og fletja deigið? Segðu frá því, ef svo er.

Ættmæðurnar hafa hingað til búið til deigið. Það hefur verið vaktaskipting á því hver fletur út. yfirleitt tveir í einu og höfum við fullorðna fólkið skipt því á mili okkar í gegnum árin. Unglingar fá að prófa og læra af þeim eldri. En það er yfirleitt þegar búið er að fletja mest út þá fá þeir sem vilja prófa að krípa í kökukeflið. Síðan eru alltaf bara þrír í steikingunni og mjög skýr verkaskipting á milli þeirra. Setja ofan í, steikja og taka upp, pressa og ráða í stafla.Kafli 4 af 7 - Útskurður

Hvaða áhöld og annan útbúnað notar þú við laufabrauðsskurðinn? Segðu frá því og hvaða hlutverki þau gegna.

Við útskurð er notað laufabrauðsjárn - þetta hefðbundna sem býr til laufin sem flett er upp. Það er til eitt lítið járn sem gerir minni lauf og er það líka nýtt. Eins skerum við út nokkur munstur með hníf. Krökkum er kennt að skera lauf með hníf og sagðar sögur af langafa þeirra á meðan sem var mikill listamaður þegar kom að laufabrauðs útskurði.


Eiga eldri áhöldin sér sögu? Hafa einhver þeirra t.d. erfst á milli kynslóða? Hvaða áhöld, ef svo er? Hver átti þau fyrst?

Laufabrauðsjárnin eru flest frá seinni hluta síðustu aldar og voru keypt inn til núverandi eigenda þeirra. Eldri hlutir voru til hér áður en erfðust til annarra barna í fjölskylduhópnum. Til eru sögur af vasahnífum og laufabrauðsjárnum sem hafa gengið á milli manna. Þessara hluta er gætt mjög vel í fjölskyldunni og vitað hvar þeir eru.


Hvaða munstur skerð þú helst út? Ber útskurðurinn eða munstrin sem þú notar einhver heiti? Hvaða heiti? Er eitthvað sem þér finnst að eigi ekki að skera út í laufabrauð? Hvað og hvers vegna, ef svo er?

Ég sker út stjörnur og kerti eins vetrarrós og síðan starfi barnanna. Það er alltaf vinsælt að taka friðarmerkið og eins stafi íþróttafélaga og slíkt. Við reynum að byrja á einhverju einföldu þegar við byrjum fyrstu kökurnar hverju sinni - þrjár mislangar rendur eða það sem kallað er kertaskreyting. Síðan eftir því sem keppnisskapið tekur völdin fara kökurnar að flækjast. Þá eru búnar til kirkjur og flóknar jólarósir og litla laufabrauðsjárnið mundað.


Hvað ræður því helst hvað þú skerð út? Skipta hefðir máli í þessu sambandi eða hvaðan færð þú hugmyndirnar? Vilt þú nostra við útskurðinn, gera flókin mynstur eða vera fljótur vegna þess að það eru margar kökur sem þarf að skera út?

Þetta er mjög mismunandi eftir tímum, þegar ég var með lítil börn voru munstur einfaldari. Eftir því sem maður hefur meiri tíma leggur maður meiri metnað í útskurðinn. Það myndast oft stemmning að reyna ná einhverju mjög vel og förum við þá í hópnum að gera sömu munstrin en með okkar útfærslu. En þegar skera þarf 150 kökur þá er oftar en ekki bara reynt að vinna sæmilega hratt en vel.


Er eitthvað sem þér finnst skemmtilegra eða leiðinlegra að skera út en annað? Hvað, ef svo er? Eða er þetta kannski alveg hlutlaust?

Það er alltaf gaman að skera út með hníf og búa til eitthvað nýtt. En reynslan hefur kennt manni að flókin mynstur steikjast ekki endilega vel. Svo maður reynir að halda sig við eitthvað sem hangir saman.


Hvað skera aðrir út í þínum hópi? Er það á einhvern hátt frábrugðið því sem þú gerir?

Það er mjög aldursbundið hvað er skorið út - unglingarnir leika sér að því að gera eitthvað aðeins til að ögra fullorðnafólkinu og gleyma því að við vorum þarna líka einu sinni. Minni börnin eru mjög metnaðarfull og vilja fá uppáhalds teiknimyndahetjuna sína. En við reynum að beina öllum inn á brautir sem við ráðum við og getum steikt skammlaust. Þetta er mikið rósir, kerti og stafir.


Hver kenndi þér að skera út? Hefur þú kennt einhverjum útskurð? Hverjum?

Amma kenndi mér að skera út og mamma, ég hef tekið mín þrjú börn og kennt þeim. Eins hef ég fengið frænkur og frændur í fangið og farið í gegnum helsta með þeim. Þetta tekur ekki alltaf einn dag að síast inn heldur nokkur ár og deilum við þessu með okkur foreldrarnir að miðla áfram til barnanna okkar og systkinabarna.


Hverjir sjá um að skera út? Geta allir tekið þátt, börn líka?

Allir sem vilja fá að skera út. Börnin eru alltaf velkomin og er þeim gefinn extra tími til að læra.Kafli 5 af 7 - Steiking

Hvaða áhöld og annað sem til þarf er notað við steikinguna? Segðu frá þeim og hvaða hlutverki þau gegna.

Það var hér áður alveg sérpottur sem notaður var við steikingu og stórir gafflar og hlemmur til að pressa.


Hafa orðið einhverjar breytingar á því hvaða útbúnaður er notaður? Hvaða breytingar, ef svo er?

já við höfum skipt út pottinum fyrir grennri pönnu sem er mun þægilegri í notkun. Annað heldur sér.


Upp úr hverju er brauðið steikt og hve lengi? Hvað eru búnar til margar kökur? Er afskurðurinn steiktur?

Við steikjum upp úr palmin olíu og eru yfirleitt steiktar um 150 kökur á hverju ári. Þetta var í kringum 500 kökur þegar mest var. En hefur aðeins dregist saman. Afskurðurinn er steiktur og borðaður í lokin á laufabrauðsdeginum öllum til mikillar gleði. Hann er aðeins saltaður og smakkast sem mesta lostæti.


Er laufabrauðið pressað eftir að búið er að steikja það? Með hverju er pressað? Ef að það er ekki pressað, hvað er gert við brauðið þegar það kemur upp úr pottinum?

Já laufabrauðið er pressa og er notaður sérstakur laufabrauðshlemmur til þess. Það er mikið vandaverk og fá ekki allir að taka það hlutverk að sér.


Segðu frá því hvernig brauðinu er pakkað inn og gengið frá því til geymslu.

Brauðinu er raðað saman í 10-12 köku stafla og settir í tinbox eða járnbox.


Eftir hvaða reglum er laufabrauðinu skipt á milli fólks? Hvað fá menn venjulega margar kökur í sinn hlut?

Hver fjölskylda fær þær kökur sem það skar út eða allaveganna þann fjölda sem það óskaði eftir. Þetta fer eftir stærð fjölskyldu frá 20 kökum og upp í 50 kökur á fjölskyldu.


Hvað tekur vinnan við laufabrauðið langan tíma, frá upphafi til enda?

Þetta var einn dagur hér áður fyrr frá því snemma á morgnanna og fram að kvöldmat, er núna milli 6-7 tímar.


Hverjir sjá um að steikja og ganga frá kökunum? Er kynja- eða verkaskipting við þetta? Getur þú sagt frá því?

Það erum við systkinin sem sjáum um það núna. Það er ekki kynjaskipt en verkskipt. Við höfum dottið inn í hlutverkin að einn steikir, einn setur ofan í pottinn og einn sér um að pressa. Við getum öll tekið að okkar þessi verk.Kafli 6 af 7 - Neysla

Laufabrauð er mest borðað um jólin, eins og allir þekkja, en hvenær er byrjað að smakka á því?

Það er byrjað að borða það á þorláksmessu með hangikjötinu.


Með hverju þykir þér best að borða laufabrauð?

Það er eiginlega best eintómt sem nasl með góðri bók.


Borðar þú, eða fólk sem þú þekkir, laufabrauð með einhverju sem talist gæti óhefðbundið meðlæti? Ef svo er, hvað er hér helst um að ræða?

Það var alltaf boðin magáll með laufabrauði hér í denn og vill pabbi það. En það er sá eini sem eftir er hjá okkur í svoleiðis hefð.


Hvernig kökur þykja ykkur bestar? Nefnið hráefni o.fl.

Okkar kökur með kúmen keimnum.


Hvað endist þinn laufabrauðsskammtur lengi? Hvað er gert við afganginn frá jólunum?

Venjulega er allt laufabrauð búið fyrir þrettándann. Ef það er afgangur þá er hann geymdur til þorra.


Hvenær og hvernig er afskurðarins neytt? Hvaða heiti þekkir þú á honum?

Afskurðurinn er kallaður afskurður og er hann borðaður um leið og hann er steiktur.


Kaupir þú tilbúið laufabrauð í búðum eða bakaríum? Frá hvaða aðila er besta brauðið að þínu mati?

Nei helst ekki.Kafli 7 af 7 - Upplifun af laufabrauðsgerð

Hver er tilgangur þess að búa til laufabrauð, annar en hinn praktíski svo að segja? Hvaða þýðingu hefur þessi hefð fyrir þig?

Þetta er hefð sem maður vill geyma, bæði í vöðvaminninu og eins sem matarhefð í fjölskyldunni. Þetta eru að stærslum hluta tilfinningar en síðan finnst okkur laufabrauðið ómissandi yfir jólin. Það er bókarnaslið okkar hér á heimilinu.


Getur þú sagt frá laufabrauðsgerð? Þetta geta verið minningabrot, þín upplifun, hvort og með hvaða hætti hefðin hefur breyst, hvað er jákvætt, hvað er neikvætt eða annað sem kemur upp í hugann.

Laufabrauðsgerðin er uppfull af góðum minningum, Þetta er dagur sem fjölskyldan kemur saman. Börnin læra sögur af þeim sem eldri eru og það má segja að þessi hefð sé bæði að miðla þekkingu en líka minningum og tilfinningum. Við deildum sögum af foreldrum okkar til barnanna okkar, af ömmu og afa og þannig geymast þessar minningar áfram í ættinni. Þetta er jákvæður dagur sem gerir okkur öll jöfn í þeirri sameiginlegu reynslu sem laufabrauðsgerðin er fyrir okkur.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana