LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiLaufabrauð, Laufabrauðsgerð
Ártal2020
Spurningaskrá130 Laufabrauðshefðir

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1954

Nánari upplýsingar

Númer2020-3-139
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið4.12.2020/25.12.2020
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 7 - Æska og ungdómsár

Gerði fjölskylda þín laufabrauð á æskuárum þínum? Ef svo er, hverjir á heimilinu tóku þátt? Komu aðrir að laufabrauðsgerðinni en heimilisfólkið? Hverjir, ef svo er?

Ég man eftir laufabrauðsgerð á heimilinu eftir að móðir mín, Theódóra Thorlacius (f. 1927 á Bakkafirði) tók saman við Ingólf Sigurðsson (f. 1929 í Reykjavík, d. 2018) og við mæðgur fluttumst á Skólavörðustíg 46 þar sem móðir Ingólfs (Dagmar Finnbjarnardóttir frá Hnífsdal) bjó fyrir ofan okkur. Hún gerði deigið en pabbi flatti út. Ég hef verið einhvers staðar á bilinu 6 til 12 ára og man ekki eftir skurðinum. Síðar þegar fjölskyldan hafði stækkað til muna og við vorum flutt á Lindarflöt 10 í Garðabæ man ég líka eftir einu tilviki að við bjuggum til laufabrauð. Í raun var þetta þó aldrei hefð á mínu bernskuheimili og ég man ekki eftir að hafa verið boðið upp á laufabrauð í öðrum húsum eða að laufabrauðsskurður og steiking væri hefð á öðrum heimilum á Skólavörðuholtinu eða á Flötunum í Garðabæ. Man heldur ekki eftir að skólafélagar mínir í barnaskóla, Kvennaskólanum í Reykjavík eða MR töluðu um slíkt.


Fór laufabrauðsgerð sem þú tókst þátt í eingöngu fram á heimili þínu eða á fleiri stöðum? Hvaða stöðum?

Sjá fyrra svar. Ég varð bara vör við laufabrauðsgerð á mínu heimili. Ég held ekki að móðir mín hafi alist upp við slíkt á Bakkafirði en amma Dagmar frá Hnífsdal þekkti þetta augljóslega. Okkur var alltaf boðið í hangikjöt til dóttur ömmu, Guðrúnar Kaldal og Jóns á Laugarásveginum og þar man ég ekki eftir að laufabrauð væri borið með.


Hvar og hvernig kynntust foreldrar þínir þessari hefð? Nefndu einnig sveitarfélag og hvort það var í þéttbýli eða til sveita.

Sjá fyrra svar.


Var laufabrauðið sem þú þekktir í æsku svipað því sem kallað er laufabrauð í dag? Ef ekki, gætir þú lýst brauðinu sem kallað var laufabrauð í þínu ungdæmi?

Já, ég held að þetta hafi verið ósköp svipað. Eftir stúdentspróf fór ég til nám í Berlin (1974). Þar komu Íslendingar saman á aðventu og skáru og steiktu laufabrauð. Ég gerði þetta heima hjá Jóni Ásgeiri Sigurðssyni og Þórunni Sigríði Þorgrímsdóttur leikmyndateiknara og að ég held bara einu sinni þegar Álfheiður Ingadóttir náttúrufræðingur var þar í heimsókn yfir jólahátíðina. Þegar ég svo heimkomin vorið 1979 stofnaði eigið heimili tók ég upp laufabrauðssiðinn. Ég var þá mikið í slagtogi við leikhúsfólk, m.a. í Alþýðuleikhúsinu og man að ég fékk uppskrift hjá Þórhildi Þorleifsdóttur leikstjóra og það var talsvert af rjóma í þeirri uppskrift sem ég á ekki lengur og man að það kom mér á óvart að þetta laufabrauð bragðaðist líkt og tekex. Held að ég hafi bara skorið og steikt laufabrauð einu sinni á þessum fimm árum sem við hjónin (eiginmaður Þjóðverji Thomas Aharenst)bjuggum á Íslandi en mögulega hef ég tekið þátt í skurði í öðrum húsum. Áðurnefnd Þórunn Sigríður var þá líka komin heim og þar kom fólk saman, gamlir Berlínarbúar, skáru laufabrauð og steiktu og supu vín!Kafli 2 af 7 - Þínar laufabrauðshefðir

Ef að þú komst ekki að gerð laufabrauðs í æsku en tókst þátt í henni seinna á ævinni, hvaðan og hvenær kom hún inn í líf þitt?

Eins og áður sagði kom laufabrauðsgerð aftur inn í líf mitt úti í Berlin, einhvern tíma á árunum 1974 - 1978 og hélt síðan áfram í þeim sama hópi, sem tengdist Þórunni Sigríði Þorgrímsdóttur og Álfheiði Ingadóttur eftir að ég kom heim 1979. Ég lét þá foreldra mína alltaf hafa nokkrar kökur. Árið 1984 flutti ég aftur til Berlínar og lifði þar þá fjölskyldulífi. Ég lagði nokkra áhrerslu á íslenskar hefðir og/eða mínar fjölskylduhefði þar. Reyndum að láta senda okkur hangikjöt og einu sinni kom maður maður með rjúpur handa okkur. Það var veisla. Ég man ekki eftir laufabrauðsgerð á þeim tíma en einhvern veginn finnst mér samt að við höfum reynt það einu sinni, fjölskyldan en eitthvað gekk það brösuglega og kom ekki aftur upp. Þegar ég svo flutti enn einu sinni aftur heim, nú einstæð með þrjá syni, þá finnst mér eins og laufabrauðsgerð hafi verið orðin fastur liður í jólaundirbúningi þeirra sem voru í kringum mig, menntuð millistétt, fjölmiðla -, lista- og uppeldisgeirinn.


Býrð þú til laufabrauð í dag? Gerir þú það með fleiri en einum hópi, ef svo er? Hvaða hópum?

Ég tók í framhaldi af þvi sem segir í fyrra svari upp þennan sið. Skar og steikti fyrst með öðrum, nokkrum sinnum með Þórunni Sigríði Þorgrímsdóttur sem áður hefur verið nefnd og síðar tók ég sem elsta systir af skarið þegar flest systkina minna voru komin heim frá námi með fjölskyldur sínar að bjóða í laufabrauðsgerð á aðventunni. Þá hafði ég í saumaklúbb sem ég og vinkona mín Helga Pálína Brynjólfsdóttir (1954) frá Ólafsfirði stofnuðum á fyrri hluta tíunda áratugarins með fjölda "stelpna" sem flestar voru ættaðar að norðan, Þuríður Jóhannsdóttir (1952 eða 1953) frá Dalvík, systurnar Hafstað (Steinunn 1954 og Ásdís 1952 - eða 1953) úr Skagafirði, Steinunn Hjartardóttir (1954) úr Svarfaðardal, Ingunn Ásdísardóttir (1953) frá Egilsstöðu, Maríanna Traustadóttir (1954 eða 1953) Ólafsfjörður og Akureyri, Sunnefa Hafsteinsdóttir (1956) frá Seltjarnarnesi og Guðlaug María Bjarnadóttir (1956) frá Akureyri. Laufabrauðsgerð var augljóslega sterk hefð hjá þessum konum flestum. Og þegar ég byrjaði á reglulegri laufabrauðsgerð með systkinum mínum á aðventunni þá fékk ég að vera í samfloti við Helgu Pálínu Brynjólfsdóttur sem pantaði útflattar kökur frá bakaríinu á Ólafsfirði. Ég bið hins vegar um að hafa mínar kökur án kúmens eins þær sem Helga Pálína fær. Undir árið 2000 kom Margrét Örnólfsdóttir inn í fjölskyldu mína og kom með sterka laufabrauðsgerð með sér. Hún mætti alltaf með fjölskyldu sína í laufabrauðsgerð hjá mér eins og flest systkina minna gerðu líka jafnvel þótt t.d. systir mín Hildur Ingólfsdóttir vildi ekki taka neinar kökur með sér. hún er gift Valdimar Jóni Björnssyni, ættaður úr Kópavogi. Þau Valdimar og Hildur virðast ekki hafa smitast af laufabrauðshefðinnni þótt þau byggju áravís fyrir norðan, fyrst á Siglufirði og síðan á Skagaströnd. Margrét Örnólfsdóttir (móðir Helga Jónsdóttir leikkona frá Akureyri) var hins vegar öflugur liðsmaður í laufabrauðsgerð og vitnaði mikið til afa síns Jóns (faðir Helgu og Arnars Jónssonar leikara) sem hefði skorið svo listavel. Laufabrauðsgerðin hefur í gegnum árin verið mikil samveru - og stemmningsstund með góðum mat, köldu borði eða heitri súpu, Allir skera, börn og fullorðnir og svo eru það yfirleitt strákarnir, karlmennirnir sem steikja.


Kemur þú að gerð laufabrauðs á hverju ári eða hefur þú hugsanlega tekið pásu um lengri eða skemmri tíma? Hvers vegna?

Síðustu árin efur þetta verið árlegur viðburður og nú hafa systkinabörnin, þeirra börn og makar bæst í hópinn. Þetta er risastór hópur, uppundir 50 manns en það koma aldrei allir og sumir kíkja bara við og skera eina eða tvær kökur án þess að taka með sér. Á Covid aðventu var laufbrauðssamveru aflýst og það var bara jólakúlan mín þetta árið sem kom saman og skar og steikti. Fékk að þessu sinni kökurnar í Björnsbakaríi. Þær eru ekki eins góðar og Ólafsfjarðarkökurnar sem þó eru kannski helst til sætar. Best þykir mér Tjarnar-uppskriftin (Tjörn í Svaraðardal) en þar er notað rúgmjöl með hveitinu og það gerir Ingunn Ásdísardóttir frá Egilsstöðum líka en hún notar ekki kúmen eins og Svarfdælingarnir.


Er sérstakur dagur og tími tekinn frá fyrir laufabrauðið? Hvernig er hann valinn? Er gert laufabrauð á öðrum tímum árs en fyrir jólin? Ef svo er, hvenær og við hvaða tækifæri?

Laufabrauð er í minni fjölskyldu skorið og steikt á aðventunni og reynt að hitta á laugar- eða sunnudag sem hentar sem flestum og fer alltaf fram heima hjá mér. Aðeins gert laufabrauð fyrir jól.


Hvaða hugmyndir hefur þú um útbreiðslu laufabrauðs í dag? Finnst þér að hún hafi farið vaxandi eða minnkandi á síðustu 20-30 árum eða stendur hún kannski í stað?

Mér finnst eins og laufabrauðshefðin hafi verið að eflast á síðustu 20 -30 árin rétt eins og þorrablóts og skötuhefðin!


Hvaða áhrif hefur COVID-19 á laufabrauðsgerð þína? Koma vídeó-símtöl á netinu, eins og t.d. á Facebook, hugsanlega við sögu? Getur þú sagt frá þessu, ef svo er?

Eins og fram kom hér að ofan var laufabrauðsgerðin í ár (2020) í smæsta hring. Skurður og steikning með stórfjölskyldunni aflýst. Ég gæti reyndar trúað að þetta yrði líka öðruvísi næsta ár og það ekki bara út af Covid heldur er stórfjölskyldan orðin svo stór, svo margar litlar fjölskyldur sem allar eru að skapa sér sínar eigin hefðir.Kafli 3 af 7 - Deig

Eru einhverjir sem halda utan um daginn eða sjá til þess að nóg sé af öllum áhöldum og öðru sem til þarf? Hverjir, ef svo er?

Í minni laufabrauðsgerð passar hver sitt. Þegar ég auglýsi á fjölskyldusíðu facebókarinnar þá minni ég fólk á að koma með eigin bretti, hnífa og skurðjárn, ef fólk á. Ég sé um palmín og eldhúspappír. Kökur býðst ég líka til að panta en sumir vilja hafa sínar. Margrét Örnólfsdóttir vill til að mynda aðeins kökur frá Kristjánsbakaríi á Ákureyri.


Búið þið til deig sjálf eða kaupið þið það tilbúið og fletjið út? Kaupið þið útflattar kökur?

Nei, eins og komið búum við ekki til deig heldur kaupum útflattar kökur.


Hvaða korntegundir eða hugsanlega blöndu af þeim notið þið í deigið? Hvaða önnur hráefni eru notuð?

Í mínum kökum er bara hveiti og kúmen sigtað frá. Mér þykja hins vegar rúgmjölskökur mjög góðar og hef stöku sinnum troðið mér inn í pöntun Tjarnarsystkina. Og eins og ég segi kökurnar frá Ólafsfirði eru í það sætasta, en allt í lagi.


Hverjir búa til deigið? Þekkist kynja- eða verkaskipting við að hnoða og fletja deigið? Segðu frá því, ef svo er.

Kafli 4 af 7 - Útskurður

Hvaða áhöld og annan útbúnað notar þú við laufabrauðsskurðinn? Segðu frá því og hvaða hlutverki þau gegna.

Bretti af ýmsum gerðum, litla beitta hnífa, járn sem sumir eiga. Ég lét gefa mér járn í jólagjöf fyrir nokkrum árum en valdi sjálf of fíngert járn sem reynist afleitlega! Alltaf þarf að minna á broddur vaffsins á járninu skuli vísa á skurðarmann - svo er að muna að pikka - gaflar á borðum sem og bollar með vatni til að festa útskorna brodda útflatt kökuna ef orðið er þurrt vegna þess að nostrað hefur verið lengi við skurðinn. Öll áhöld fyrir utan skurðjárnið líka notuð almennt.


Eiga eldri áhöldin sér sögu? Hafa einhver þeirra t.d. erfst á milli kynslóða? Hvaða áhöld, ef svo er? Hver átti þau fyrst?

Nei, ekkert svoleiðis hjá mér.


Hvaða munstur skerð þú helst út? Ber útskurðurinn eða munstrin sem þú notar einhver heiti? Hvaða heiti? Er eitthvað sem þér finnst að eigi ekki að skera út í laufabrauð? Hvað og hvers vegna, ef svo er?

Við skerum alls konar og í jólakassanum fyrsta, sem jafnaðarlega er einmitt tekinn fram í tengslum við laufabrauðsgerðina, leynist bæklingur með alls kyns mynstrum sem við skoðum alltaf og svo er alltaf einhver sem reynir sig við kirkju, Magga Örnólfs og hennar börn, einkum Hringur Oddson, eru áberandi best í kirkjunni. Svo er reynt að skera út orðið Jól og upphafsstafi þess sem sker. Stjörnur og skurðjárnsfléttur algengar, líka jólatré!


Hvað ræður því helst hvað þú skerð út? Skipta hefðir máli í þessu sambandi eða hvaðan færð þú hugmyndirnar? Vilt þú nostra við útskurðinn, gera flókin mynstur eða vera fljótur vegna þess að það eru margar kökur sem þarf að skera út?

Ekkert sérstakt ræður því hvað ég sker út, þetta er einhvern veginn í puttunum og við eigum yfirleitt auðvelt með að sjá hvaða fjölskylda á hvaða köku. ... jú, eftir því sem á líður verður útskurðurinn einfaldari þvi nú vill fólk fara að klára. Þetta er alveg fimm til átta tíma törn eftir þvi hvað við erum mörg.


Er eitthvað sem þér finnst skemmtilegra eða leiðinlegra að skera út en annað? Hvað, ef svo er? Eða er þetta kannski alveg hlutlaust?

Maður reynir bara að gera þetta fallega.


Hvað skera aðrir út í þínum hópi? Er það á einhvern hátt frábrugðið því sem þú gerir?

Þetta er allt mjög áþekkt en sumir eru lagnari en aðrir. Við hermum líka miskunnarlaust hvert eftir öðru!


Hver kenndi þér að skera út? Hefur þú kennt einhverjum útskurð? Hverjum?

Enginn sérstakur, pikkaði þetta einfaldlega upp í því kompaníi sem ég var hverju sinni og þannig heldur það áfram. Nei, ég hef ekki sérlega kennt neinum nema kannski yngstu börnunum aðeins!


Hverjir sjá um að skera út? Geta allir tekið þátt, börn líka?

Já, allir taka þátt!Kafli 5 af 7 - Steiking

Hvaða áhöld og annað sem til þarf er notað við steikinguna? Segðu frá þeim og hvaða hlutverki þau gegna.

Við notum yfirleitt stóran jarnpott, keyptur í Kúnigúnd fyrir rúmlega fjörutíu árum - lokið hentar vel til að pressa. Dagblöð undir en eldhúspappír næst kökunum við pressun. Tveir gafflar notaðir til að snúa kökunum við í olíunni. Prófuðum í ár í fyrst sinn að nota djúpa pönnu, það gekk vel en lokið af stóra pottinum áfram notað til að pressa.


Hafa orðið einhverjar breytingar á því hvaða útbúnaður er notaður? Hvaða breytingar, ef svo er?

... sjá hér að ofan með pönnuna!


Upp úr hverju er brauðið steikt og hve lengi? Hvað eru búnar til margar kökur? Er afskurðurinn steiktur?

Svið steikjum úr palmín eða einhverju álíka. Þetta eru yfirleitt 5 til 10 kökur á fjölskyldu. Ég er ekki viss um að laufabrauð sé svo vinsælt til átu eins og árið var. Enginn afskurður steiktur því hann fylgir ekki keyptum óskornum kökum!


Er laufabrauðið pressað eftir að búið er að steikja það? Með hverju er pressað? Ef að það er ekki pressað, hvað er gert við brauðið þegar það kemur upp úr pottinum?

Varðandi pressu sjá hér að ofan.


Segðu frá því hvernig brauðinu er pakkað inn og gengið frá því til geymslu.
Eftir hvaða reglum er laufabrauðinu skipt á milli fólks? Hvað fá menn venjulega margar kökur í sinn hlut?

Allir fá þær kökur sem þeir hafa skorið, þ.e. fjölskyldan og svo er rest skipt þannig að allir fái eitthvað!


Hvað tekur vinnan við laufabrauðið langan tíma, frá upphafi til enda?

Eins og kom fram hér að ofan er þetta yfirleitt 5 -8 tíma törn. Fólk kemur og fer, jólalög hljóma, stundum syngjum við líka sjálf og það er gaman.


Hverjir sjá um að steikja og ganga frá kökunum? Er kynja- eða verkaskipting við þetta? Getur þú sagt frá því?

Nei, þetta er allt frekar blandað hjá okkur - þó hafa karlmenn yfirleitt steikt en líka allur gangur á því!Kafli 6 af 7 - Neysla

Laufabrauð er mest borðað um jólin, eins og allir þekkja, en hvenær er byrjað að smakka á því?

Einu sinni mátti ekki borða jólasmákökurnar fyrr en á jólum og ekki heldur laufabrauðið en nú á tímum allsnægta er allt borðað öllum stundum!


Með hverju þykir þér best að borða laufabrauð?

... gott að hafa smjör með ef það er borðað sísvona en annars bara berrassað með hangikjöti etc.


Borðar þú, eða fólk sem þú þekkir, laufabrauð með einhverju sem talist gæti óhefðbundið meðlæti? Ef svo er, hvað er hér helst um að ræða?

Nei, og þó stundum fæ ég mér sýróp ofan á smjörið!Hvernig kökur þykja ykkur bestar? Nefnið hráefni o.fl.

... rúgmjölskökur, vel steiktar.


Hvað endist þinn laufabrauðsskammtur lengi? Hvað er gert við afganginn frá jólunum?

Það endist yfirleitt ágætlega, er með öðrum orðum ekki svo vinsælt. Gamanið felst aðallega í að búa það til. Oft er einhverjum kökum hent í safnhauginn!


Hvenær og hvernig er afskurðarins neytt? Hvaða heiti þekkir þú á honum?

Með vínglasi oft þegar upp á hann er boðið. Þekki ekki önnur heiti!


Kaupir þú tilbúið laufabrauð í búðum eða bakaríum? Frá hvaða aðila er besta brauðið að þínu mati?

Já, ég kaupi tilbúið en finnst ævinlega betra það sem gert er frá grunni. Eins og Svarfaðardalsdeigið og líka Egilsstaðadeigið.Kafli 7 af 7 - Upplifun af laufabrauðsgerð

Hver er tilgangur þess að búa til laufabrauð, annar en hinn praktíski svo að segja? Hvaða þýðingu hefur þessi hefð fyrir þig?

Skemmtunin og samveran eru mér mikilvægasti þátturinn í laufabrauðsgerðinni í dag!Getur þú sagt frá laufabrauðsgerð? Þetta geta verið minningabrot, þín upplifun, hvort og með hvaða hætti hefðin hefur breyst, hvað er jákvætt, hvað er neikvætt eða annað sem kemur upp í hugann.

Nú er ég orðin svo fjandi þreytt á þessum skrifum. Ég held að þetta komi allt fram í fyrri svörum..


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana