LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiLaufabrauð, Laufabrauðsgerð
Ártal2020
Spurningaskrá130 Laufabrauðshefðir

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 0

Nánari upplýsingar

Númer2020-3-133
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið4.12.2020/14.12.2020
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 7 - Æska og ungdómsár

Gerði fjölskylda þín laufabrauð á æskuárum þínum? Ef svo er, hverjir á heimilinu tóku þátt? Komu aðrir að laufabrauðsgerðinni en heimilisfólkið? Hverjir, ef svo er?

Ég er alin upp við laufabrauðsgerð. Þegar ég man fyrst eftir fórum við til ömmu og afa þar sem föðursystkini mín einhver komu að laufabrauðsgerðinni. Það hefur alla tíð verið tilhlökkun að gera laufabrauðið og okkur fannst þetta alltaf gaman. Laufabrauðsgerðin var ekki einskorðuð við helgar eins og er núna hjá minni fjölskyldu og eitthvert árið vorum við ekki komin í jólafrí þegar það var drifið í þessu. Þegar við systkinin komum úr skólanum var búið að skera nánast allt og vorum við heldur leið yfir því. Þannig að næsta ár á eftir fórum við systkinin fram á að við fjölskyldan gerðum laufabrauðið heima hjá okkur. Mamma bjó til degið og flatti út síðan voru kökurnar lagðar á milli laka sem breidd voru á borð og bekki. Allir tóku þátt í útskurðinum líka pabbi sem þó var ekki mikið í eldhúsinu. Við vorum með sérstaka litla hnífa sem mér var sagt að væru af spítalanum en veit ekki hvort það er rétt. Hnífana fengum við lánaða hjá ömmu og afa og þeir gengu á milli húsa.


Fór laufabrauðsgerð sem þú tókst þátt í eingöngu fram á heimili þínu eða á fleiri stöðum? Hvaða stöðum?
Hvar og hvernig kynntust foreldrar þínir þessari hefð? Nefndu einnig sveitarfélag og hvort það var í þéttbýli eða til sveita.

Mamma er úr Hafnarfirði og hún ólst ekki upp við laufabrauðsgerð. Hún lærði handtökin af tengdamóður sinni, ömmu minni sem reyndar var upphaflega líka úr Hafnarfirðinum. Siðnum kynntust þær báðar í Eyjafirðinum þar sem þær bjuggu og búa. Föðurafi minn hefur væntanlega verið alin upp við laufabrauðshefðina sem hefur verið sterk í Eyjafirðinum og ég held að laufabrauð sé enn gert nánast á hverjum bæ hérna í framfirðinum (Eyjafjarðarsveit).


Var laufabrauðið sem þú þekktir í æsku svipað því sem kallað er laufabrauð í dag? Ef ekki, gætir þú lýst brauðinu sem kallað var laufabrauð í þínu ungdæmi?

Kafli 2 af 7 - Þínar laufabrauðshefðir

Ef að þú komst ekki að gerð laufabrauðs í æsku en tókst þátt í henni seinna á ævinni, hvaðan og hvenær kom hún inn í líf þitt?
Býrð þú til laufabrauð í dag? Gerir þú það með fleiri en einum hópi, ef svo er? Hvaða hópum?

Ég geri laufabrauð á hverju ári með systkinum mínum og móður minni. Við reynum að vera snemma í því oftast í lok nóvember í kringum fyrsta sunnudag í aðventu. Yfirleitt alltaf á laugardegi. Síðustu tvo áratugina höfum við hist hjá bróður mínum og fjölskyldu hans höfum verið nálægt 20 manns þau skipti sem systir okkar sem býr á öðru landshorni hefur komið til að taka þátt. Dagurinn er mjög vel skipulagður.


Kemur þú að gerð laufabrauðs á hverju ári eða hefur þú hugsanlega tekið pásu um lengri eða skemmri tíma? Hvers vegna?
Er sérstakur dagur og tími tekinn frá fyrir laufabrauðið? Hvernig er hann valinn? Er gert laufabrauð á öðrum tímum árs en fyrir jólin? Ef svo er, hvenær og við hvaða tækifæri?
Hvaða hugmyndir hefur þú um útbreiðslu laufabrauðs í dag? Finnst þér að hún hafi farið vaxandi eða minnkandi á síðustu 20-30 árum eða stendur hún kannski í stað?
Hvaða áhrif hefur COVID-19 á laufabrauðsgerð þína? Koma vídeó-símtöl á netinu, eins og t.d. á Facebook, hugsanlega við sögu? Getur þú sagt frá þessu, ef svo er?

Eins og áður kom fram þá erum við talsvert fjölmennur hópur sem kemur að laufabrauðsgerðinni. Í ár 2020 erum við of mörg til að koma saman öll þannig að laufabrauðið var gert í tvennu lagi og leið hálfur mánuður á milli. Reyndar spilaði líka inní að dóttir mín var í prófum í HA þannig að það hentaði henni að laufabrauðsgerðin frestaðist. Við hjálpuðumst samt að því að fletja út systkinin, ég og bróðir minn og systir. Við gerðum því laufabrauð heima hjá okkur hjónunum í fyrsta skipti og vorum 10 saman.Kafli 3 af 7 - Deig

Eru einhverjir sem halda utan um daginn eða sjá til þess að nóg sé af öllum áhöldum og öðru sem til þarf? Hverjir, ef svo er?

Mágkona mín passar hnífana og smjörpappírinn sem við notum sem og pressuna og geymir á milli ára. Við reynum svo að eiga nóg af feiti og þess háttar. Þetta er svona samsafn frá þremur heimilum af brettum og bökkum. Við eigum þrjú skurðarhjól og eitt af þeim er fínt. Bróðir minn og systir eiga líka laufabrauðshjól. Mamma á svo hringformið sem við notum til að skera eftir því kökurnar þurfa að vera af réttri stærð! Það er gert með kleinujárni eða pizzahjóli.


Búið þið til deig sjálf eða kaupið þið það tilbúið og fletjið út? Kaupið þið útflattar kökur?

Við búum til degið og lengi vel flöttum við út á höndum. Ég og mamma gerðum það og markmiðið var að sjá munstrið í eldhúsbekknum í gegn um degið. Svo þunnt á það að vera. Núorðið nýtum við okkur að hafa aðgang að vélknúinni útflattningarvél sem flýtir talsvert fyrir. Við systkinin þrjú stundum fjögur sjáum um að fletja út og því er lokið áður en við byrjum að skera. Kökurnar eru lagðar í bunka með smjörpappír á milli. 20 í stafla.


Hvaða korntegundir eða hugsanlega blöndu af þeim notið þið í deigið? Hvaða önnur hráefni eru notuð?

Uppskriftin sem við notum er upphaflega ættuð úr Mývatnssveit og fékk mamma hana þegar hún vann á Kristnesspítala en ráðskonan í eldhúsinu var frá Stöng í Mývatnssveit. Ég held að hún sé varla nokkuð leyndarmál. 1 kg hveiti5 dl mjólk rúmir70 g smjör3/4 tsk lyftiduft1/3 tsk hjartasalt1 tsk salt1 eggSmjörið er brætt og mjólkin sett út í. Mjólkin er hituð snarpheit (að suðu segir mamma, ég miða við að það sé aðeins farið að rjúka úr henni). Þurrefnin eru sett í skál. Vökvanum blandað samanvið ásamt egginu. Hnoðað í hrærivél og síðan á borði. Vegna þess að ég flet út í vél hnoða ég deigið mjög vel bæði í hrærivélinni og á borði. Ef ég væri að fletja út á mundi ég setja rúmlega 5 dl mjólk og hafa deigið aðeins blautara. Ég geri núna úr tveimur kílóum af hveiti. Mágkona mín gerir líka úr tveimur kílóum og mamma úr einu. Þetta hefur verið örlítið breytilegt milli ára. Deiginu er svo pakkað inn í plastfilmu og geymt yfir nótt.


Hverjir búa til deigið? Þekkist kynja- eða verkaskipting við að hnoða og fletja deigið? Segðu frá því, ef svo er.

Kafli 4 af 7 - Útskurður

Hvaða áhöld og annan útbúnað notar þú við laufabrauðsskurðinn? Segðu frá því og hvaða hlutverki þau gegna.
Eiga eldri áhöldin sér sögu? Hafa einhver þeirra t.d. erfst á milli kynslóða? Hvaða áhöld, ef svo er? Hver átti þau fyrst?

Við eigum tvö laufabrauðsjárn sem við fengum frá tengdamóður minni. Ég þekki ekki sögu þeirra og þau eru ekki eins en hafa bæði gljáfægða trékúlu á endanum. Þriðja járnið það fíngerða fengum við að gjöf, það er í pappaöskju merkt Ægir og er keypt í Jólagarðinum í Eyjafjarðarsveit. Til að fletta notum við járn í stóra dúkanhífa sem eru trapisulaga og vafðir með heftiplástri á öðrum endanum til að maður skeri sig nú ekki. Þessir hnífar eru í krukku sem er geymd milli ára og stundum lánuð í önnur hús.


Hvaða munstur skerð þú helst út? Ber útskurðurinn eða munstrin sem þú notar einhver heiti? Hvaða heiti? Er eitthvað sem þér finnst að eigi ekki að skera út í laufabrauð? Hvað og hvers vegna, ef svo er?

Ég reyni að skera upphafsstafinn í nöfnum allra í fjölskyldunni og nota þá járn til þess. Svo er líka gaman að gera fríhendis. Stjörnur finnst mér skemmtilegar og symmetrísk form. Þrjú strik eru sígild og tilbrigði við þrjú strik eru margskonar. Letispor eru litlir þríhyrningar gerðir fríhendis. Líkir "músaslóðum" Vetrarsólin er alltaf falleg, kerti, tré og greinar. Það eru margir listamenn í fjölskyldunni sem gera kirkjur, hús, jötur, jólakveðjur og fleira fallegt. Ég hef aldrei velt því fyrir mér hvort það sé eitthvað sem ekki á að skera út í laufabrauð, það væri þá einna helst að ég reyni að forðast að skera úr kökunum, því það á ekkert að fara forgörðum af þessu dýrmæta deigi. Ég a.m.k. ímynda mér að það sé hugsunin.


Hvað ræður því helst hvað þú skerð út? Skipta hefðir máli í þessu sambandi eða hvaðan færð þú hugmyndirnar? Vilt þú nostra við útskurðinn, gera flókin mynstur eða vera fljótur vegna þess að það eru margar kökur sem þarf að skera út?
Er eitthvað sem þér finnst skemmtilegra eða leiðinlegra að skera út en annað? Hvað, ef svo er? Eða er þetta kannski alveg hlutlaust?
Hvað skera aðrir út í þínum hópi? Er það á einhvern hátt frábrugðið því sem þú gerir?
Hver kenndi þér að skera út? Hefur þú kennt einhverjum útskurð? Hverjum?
Hverjir sjá um að skera út? Geta allir tekið þátt, börn líka?

Það koma allir að útskurðinum, í fjölskyldunni hafa menn mismikinn áhuga á þessum skreytingum og gera mismargar kökur en allir eitthvað. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn var tveggja ára í fyrra og prófaði aðeins að fletta og aftur í ár þegar viðkomandi er orðin þriggja ára og það er allt glæsilegt sem kemur út úr því. Þannig færist þessi kunnátta og munstrin milli kynslóða.Kafli 5 af 7 - Steiking

Hvaða áhöld og annað sem til þarf er notað við steikinguna? Segðu frá þeim og hvaða hlutverki þau gegna.

Við notum víðan pott undir feitina, grilltöng til að snúa kökunum og lítinn tréhlemm til að pressa kökurnar örlítið eftir steikingu. Við erum inni í eldhúsi við steikinguna. Viftan bara gengur og það þarf að stoppa reglulega til að láta feitina hitna.


Hafa orðið einhverjar breytingar á því hvaða útbúnaður er notaður? Hvaða breytingar, ef svo er?

Grilltöngin hefur tekið við af steikargaffli og fiskispaða.


Upp úr hverju er brauðið steikt og hve lengi? Hvað eru búnar til margar kökur? Er afskurðurinn steiktur?

Núorðið steikjum við upp úr djúpsteikingarfeiti. Afskurðurinn kallast ruður og er steiktur í lokin.


Er laufabrauðið pressað eftir að búið er að steikja það? Með hverju er pressað? Ef að það er ekki pressað, hvað er gert við brauðið þegar það kemur upp úr pottinum?

Við notum lítinn tréhlemm úr krossviði með tréhnapp í miðju og skreyttur með brennipenna. Hlemmurinn er klæddur með álpappír, Kökurnar eru lagðar á eldhúspappír og pressaðar létt, síðan lagðar til hliðar meðan þær kólna smávegis. Kökunum er síðan staflað tuttugu í hvern stafla.


Segðu frá því hvernig brauðinu er pakkað inn og gengið frá því til geymslu.

Laufabrauðskökurnar eru geymdar í opnum plastpokum í pappakassa í svalri geymslu.


Eftir hvaða reglum er laufabrauðinu skipt á milli fólks? Hvað fá menn venjulega margar kökur í sinn hlut?

Eins og kemur fram hérna á undan gerum við stórfjölskyldan laufabrauð úr fjórum og hálfu kílói af hveiti og úr hverju kílói er hægt að gera svona milli 40 og 60 kökur (segjum fimmtíu hér) þá er þetta að nálægt 250 kökur. Ég fæ þá ca 100 kökur sem skiptast á þrjú heimili. Bróðir minn og hans fjölskylda aðrar hundrað og mamma og systir mín 50.


Hvað tekur vinnan við laufabrauðið langan tíma, frá upphafi til enda?

Deigið er gert kvöldið áður og tekur innan við klukkutíma. Byrjum svo að skera út upp úr hádegi, svona um eitt leytið. Það er þá venjulega búið að steikja fyrir kvöldmat.


Hverjir sjá um að steikja og ganga frá kökunum? Er kynja- eða verkaskipting við þetta? Getur þú sagt frá því?

Núorðið sjá maðurinn minn og mágur hans bróðir minn um steikinguna. En það hefur verið breytilegt og ekki einskorðað við karlmennina í fjölskyldunni. Þetta hefur lent á þeim sem hafa minnst úthald í laufabrauðsskurðinum sjálfum.Kafli 6 af 7 - Neysla

Laufabrauð er mest borðað um jólin, eins og allir þekkja, en hvenær er byrjað að smakka á því?

Við tökum laufabrauðið oftast fram á aðfangadag. Síðan er verið að maula á því öll jólin.


Með hverju þykir þér best að borða laufabrauð?

Laufabrauðið er það þunnt að við smyrjum það ekki en það er haft með öllum mat en líka borðað eins og snakk en alltaf eintómt.


Borðar þú, eða fólk sem þú þekkir, laufabrauð með einhverju sem talist gæti óhefðbundið meðlæti? Ef svo er, hvað er hér helst um að ræða?

Við höfum ekki verið með neina tilbreytingu í sambandi við laufabrauðsgerðina. Þekki til að laufabrauðið sé stráð flórsykri eða salti en við gerum það ekki.


Hvernig kökur þykja ykkur bestar? Nefnið hráefni o.fl.

Okkur þykir auðvitað okkar bestar. Tengdamóðir mín sigtaði rúgmjöl í laufabrauðið og það var líka mjög gott.


Hvað endist þinn laufabrauðsskammtur lengi? Hvað er gert við afganginn frá jólunum?

Á meðan við þurftum að taka með okkur trog á Þorrablót var gott að eiga afgang en fínt er að þetta sé búið svona um það bil þegar jólin renna sitt skeið.


Hvenær og hvernig er afskurðarins neytt? Hvaða heiti þekkir þú á honum?

Afskurðurinn heitir ruður og er borðaður strax.


Kaupir þú tilbúið laufabrauð í búðum eða bakaríum? Frá hvaða aðila er besta brauðið að þínu mati?

Hef ekki keypt laufabrauð tilbúið en smakkað á hlaðborðum.Kafli 7 af 7 - Upplifun af laufabrauðsgerð

Hver er tilgangur þess að búa til laufabrauð, annar en hinn praktíski svo að segja? Hvaða þýðingu hefur þessi hefð fyrir þig?

Ég persónulega er mikið fyrir hefðir. Laufabrauðsgerðin markar fyrir mér upphaf jólaundirbúningsins. En hefðir taka auðvitað breytingum eins og annað á lífsleiðinni og það er ekkert meitlað í stein í þessu frekar en öðru. Laufabrauðið er líka sögu- og menningarlegt fyrirbæri og minnir okkur alltaf á, þó fallegt sé, fátæktina og allsleysið sem það sprettur úr. Þess vegna er svo mikilvægt að þessi hefð hverfi ekki sem ég reikna nú ekki með meðan.


Getur þú sagt frá laufabrauðsgerð? Þetta geta verið minningabrot, þín upplifun, hvort og með hvaða hætti hefðin hefur breyst, hvað er jákvætt, hvað er neikvætt eða annað sem kemur upp í hugann.

Það er spurt um kynjaskiptingu. Fyrir utan það að konurnar í fjölskyldunni hafa búið til deigið er verkaskipting fljótandi. Það er einmitt þetta að laufabrauðsgerðin er eitthvað sem allir geta tekið þátt í sem gerir þetta svo skemmtilegt. Það er líka ekki bara verið að keppast við að skera út laufabrauðskökur. Það er spjallað, hlustað og sungið með jólalögum. Drukkið kaffi og malt og appelsín og maulað á konfekti og smákökum. Horft á jólamynd, núorðið Love actually. Einu sinni borðuðum við gjarnan heitt hangikjöt eftir laufabrauðsgerðina en núorðið er pantað austurlenskt takeaway.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana