LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiCOVID-19, Farsótt
Ártal2020
Spurningaskrá128 Lífið á dögum kórónaveirunnar

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1999

Nánari upplýsingar

Númer2020-1-630
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið3.4.2020/24.11.2020
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 8 - Upplýsingar um faraldurinn

Hvenær og hvernig fréttir þú fyrst af kórónavírusnum (COVID-19)? Hvar hefur þú helst sótt þér upplýsingar um veirufaraldurinn?

Ég byrjaði fyrst að frétta af Covid-19 í gegnum innlenda og erlenda fréttamiðla og samfélagsmiðla um mánaðarmótin janúar-febrúar 2020. Þá virtist þetta vera mjög fjarlægt, mikil krísa fyrir flestalla Asíubúa en samt fannst mér ólíklegt að þetta næði til Íslands. Ég hef mest notað visir.is, covid.is og vefsíður stjórnarráðsins og embættis landlæknis til að fylgjast með þróun í smittölum dagsdaglega og fylgjast með tilslökunum eða herðingum sóttvarnaraðgerða hverju sinni.


Hvernig finnst þér að til hafi tekist við að upplýsa almenning um faraldurinn? Treystir þú upplýsingum frá stjórnvöldum og fjölmiðlum?

Mér finnst upplýsingamiðlun hafa gengið vel á Íslandi og ég treysti íslenskum stjórnvöldum og flestum áreiðanlegum íslenskum fjölmiðlum til að miðla réttum upplýsingum um faraldurinn (td. Fréttablaðið, Vísir, Mbl.is). Mér finnst mjög gott að heilbrigðisstarfsfólk og sérfræðingar og Almannavarnir séu fremst í upplýsingamiðluninni hérlendis frekar en stjórnmálafólk eins og sést í öðrum löndum. Td. upplifi ég að það sé staðan í Bandaríkjunum og þar hefur að mínu mati gengið hörmulega að upplýsa almenning um faraldurinn.Kafli 2 af 8 - Viðhorf og líðan

Segðu frá því hvernig að þér leið og hvernig að þú brást við þegar veiran byrjaði að gera vart við sig hér á landi og á heimsvísu. Hefur líðan þín eða upplifun breyst í takt við stóraukna útbreiðslu veirunnar?

Ég varð mikið meðvitaðari um sóttvarnir og vildi fylgja öllum leiðbeiningum um þær sem best þegar veiran náði til landsins fyrst. Mér fannst það aðeins kvíðavaldandi og ógnvekjandi en aðallega var ég hrædd um að bera veiruna í aðra frekar en að fá hana sjálf þar sem ég taldi að ég myndi mjög óliklega veikjast neitt alvarlega af því ég er ung og ekki með undirliggjandi sjúkdóm. Eftir því sem líður á faraldurinn koma sífellt út fleiri upplýsingar um að fólk td missi lyktar og bragðskyn í fleiri vikur eða mánuði eftir að greinast, finni lengi fyrir eftirköstum og takmarkaðri öndunargetu og sum endi í endurhæfingu og núna er nýlega verið að tala um möguleg áhrif Covid á heilastarfsemi, þar sem heilablóðföll og geðraskanir hafa sést fylgja Covid að einhverju leyti. Ég er því núna meira hrædd við hvaða afleiðingar ég myndi sjálf finna ef ég myndi fá Covid. Ég hræðist líka meira ástandið í öðrum löndum þar sem útbreiðsla smits er mjög stjórnlaus sumsstaðar eins og í Bandaríkjunum akkúrat núna, í 2. og 3. bylgjum.


Hefur faraldurinn haft áhrif á andlega líðan þína eða þinna nánustu? Ert þú t.d. hrædd(ur) eða óróleg(ur)? Hvaða ráð hefur þú til að takast á við þetta, ef svo er?

Ég hef fundið meiri kvíða og depurð á köflum. Ég er félagslega kvíðin þannig það að þurfa ekki að taka þátt í ýmsum félagslegum samkomum er bæði þægilegt af því ég er að sleppa við kvíðvænlegar aðstæður en á sama tíma veit ég að það að þurfa ekki að takast jafn mikið á við félagskvíðann styrkir hann bara. Ég hef líka verið kvíðnari varðandi námið mitt og vinnustaðurinn minn er að finna mikið fyrir áhrifum Covid svo það er kvíðavaldandi að vera mögulega að missa vinnunna. Ég hef reynt að halda mér aðeins virkri, fara eitthvað út úr húsi flesta daga, reyna að hreyfa mig heima þótt ég sé vön að hreyfa mig í líkamsræktarstöð, borða frekar hollt, og reyna líka að gefa mér meira svigrúm og vera blíð við mig sjálfa þar sem þetta eru mjög erfiðar og óhefðbundnar aðstæður og því skiljanlegt að vera ekki jafn afkastamikil og ég væri kannski venjulega.


Hefur lífsviðhorf þitt og trúarlíf hugsanlega breyst eftir að kórónaveiran gerði vart við sig með jafn afdrífaríkum hætti og raun ber vitni? Hvernig, ef svo er?

Trúarlífið mitt hefur ekki breyst en þetta sýnir manni að ýmsir hlutar tilverunnar manns sem maður taldi vera fasti geti horfið eða breyst á augnabliki.


Hvernig mundir þú lýsa andrúmsloftinu í þjóðfélaginu eftir að faraldurinn fór af stað?

Faraldurinn finnst mér valda langvinnri þreytu, streitu og meðfylgjandi pirringi í landanum almennt. Á sama tíma er fólk að reyna að sýna hvor öðru samstöðu og sýna samheldni sem er mjög fallegt, líkt og þegar allir settu bangsa út í glugga. Það vekur líka meiri samfélagslega heild og samheldni að margir hafa þurft að sýna sveigjanleika eða gjafmildi td. til að sinna eða komast til móts við fólk sem er í sóttkví eða einangrun.


Hvað finnst þér um að mega ekki lengur heilsa fólki með handarbandi eða að taka utan um það?

Mér finnst það ekki svo slæmt, líklega út af félagskvíðanum mínum. Mér hefur oft fundist erfitt að átta mig á hvenær og hvort sé æskilegt að heilsast með einhverri slíkri snertingu og svo að velja hvaða snerting sé viðeigandi hverju sinni, knús, handaband eða annað. Einnig finnst mér þetta alltaf hafa verið leiðinlega kynjað fyrirbæri, að ég sem kona á að knúsa öll möguleg skyldmenni og vinafólk en karlar taka í höndina á körlum og knúsa konur osfrv. Ég hef samt fólk í minni innstu búbblu eins og maka og fjölskyldu sem ég get knúsað svo ef ég hefði það ekki og mætti ekki knúsa neinn myndi mér kannski líða öðruvísi.Kafli 3 af 8 - Samskipti og einkalíf

Hver eru helstu áhrif faraldursins á fjölskyldu- eða einkalíf þitt? Hvaða áhrif hefur hann t.d. haft á umgengni þína við annað fólk, tómstundir, ferðalög, þátttöku í félagsstarfi o.fl.? Hafa samskipti í gegnum tölvu að einhverju leyti komið í staðinn? Hvernig, ef svo er?

Í venjulegum aðstæðum væri ég að mæta í Háskóla Íslands flesta virka daga á fyrirlestra, vinna verkefni oft þar í lesstofum eða matsal, mæta 2-3 í viku til vinnu sem þjónn og hitta systkini og ömmu og afa 1-2 í mánuði. Líklegast að fara niður í bæ um helgar nokkru sinnum í mánuði og hitta stærri hópa og ytri vinahópa í partýum eða heimahittingum. Líka fór ég reglulega í búðarferðir, labba hring í Kringlunni eða Smáralind og fá sér eitthvað að borða osfrv. Einnig fór ég uþb 1-2 sinnum út að borða í mánuði. Núna sinni ég öllum lærdómi heima, mæti til vinnu 1-2 daga sumar vikur, hitti ömmu og afa nánast ekkert, fer auðvitað ekkert niður í bæ að djamma, ég fer nánast bara í matvöruverslanir, kaupi tilbúinn mat bara á netinu og borða heima og versla allt annað á netinu, td föt, jólagjafir og snyrtivörur. Ég hitti bara systkini mín, mömmu, pabba, kærastann minn og innstu fjölskyldu hans og 4 bestu vinkonur mínar. Tölvusamskipti hafa 100% komið í stað annarra samskipta í skólanum en ég hef ekkert nýtt netsamskipti meira í félagsleg samskipti en ég gerði fyrir faraldurinn.


Átt þú eða hefur þú átt ættingja eða vini á sjúkrastofnum sem þú hefur ekki fengið að heimsækja eftir að faraldurinn braust út? Hvernig hefur heimsóknarbannið haft áhrif á þig og fjölskyldu þína?

Nei ég á enga ættingja eða vini á sjúkrastofnun sem ég væri að heimsækja, en ég heimsæki ekkert ömmu mína og afa sem búa í eigin íbúð. Á versta tímabili 1. bylgju hitti ég bara foreldra mína og kærasta minn en ekki systkini mín og börnin þeirra. Núna hitti ég þau sjaldnar en væri venjulega en hitti þau samt nokkru sinnum í mánuði.


Hefur þú eða einhver þér nákomin(n) veikst af COVID-19 veirunni? Viltu segja frá því hvernig reynsla það er?

Ég hef ekki greinst með covid og enginn náinn mér hefur greinst í bili en nokkur náin mér hafa lent í 7 daga sóttkví.


Þarft þú að vera heima vegna þess að þú ert í sóttkví, skólinn lokaður, vinnustaður þinn lokaður eða hálflokaður eða af öðrum ástæðum? Hvað gerir þú helst á daginn, ef svo er? Segðu frá því hvernig það er að vinna heima, ef það er inni í myndinni.

Já ég er heima og læri að heiman. Ég vakna um 9-10 og reyni að læra mest allan daginn, mæti í fjarfundartíma ef það eru einhver tími þann daginn. Ég vinn sem þjónn þannig ég vinn ekki að heiman. Vinnustaðurinn minn er með stytta opnunartíma og búinn að minnka mönnunina þar sem þau þurfa færra fólk út af mikilli fækkun í viðskiptavinum svo ég fæ talsvert færri vaktir en ég fékk fyrir faraldurinn.Kafli 4 af 8 - COVID-19 og börn

Hver eru helstu áhrif faraldursins á börn að þínu mati? Hafa þau börn sem þú þekkir verið frædd um hann og ef svo er með hvaða hætti?

Kafli 5 af 8 - Breyttar neysluvenjur?

Hvaða áhrif hefur faraldurinn haft á neysluvenjur þínar? Hefur þú verslað meira en venjulega eða öðruvísi vörur og ef svo er, hvað aðallega? Fæst allt í búðunum sem þú þarft á að halda? Getur þú sagt frá því hvernig það er að fara út og versla?

Ég hef tekið nokkur moment þar sem ég missi mig í að versla á netinu kannski til að fá einhverja útrás. Td. föt og snyrtivörur. Það er ekki ánægjulegt fyrir mig að fara út í búðirnar til að versla þessa hluti lengur þar sem ég vil bara koma mér sem fyrst út og versla þá frekar á netinu í rólegheitum. Mér finnst fólk oft vera of nálægt mér eða of margt inni í búðunum og því vil ég frekar sleppa því. Ég hef ekki lent í því að eitthvað sem mig vantar fáist ekki. Ég versla meira almennt snarl til að narta í yfir daginn og kannski óhollara en ég væri að gera í venjulegum aðstæðum.Kafli 6 af 8 - Vinnustaðurinn

Getur þú lýst því hvaða áhrif faraldurinn hefur á vinnustað þinn, ef að þú stundar vinnu?

Ég vinn sem þjónn á veitingastað. Viðskiptavinum hefur fækkað mikið á hápunktum beggja stærri bylgjanna, í fyrri bylgju var lokað í 6 vikur og núna í seinni bylgju er opnunartíminn styttur og mönnunin minni af því það þarf færra fólk til að sinna færri viðskiptavinum. Öllum þjónum, kokkum og uppvöskurum hefur í raun verið sagt upp en þau segjast vera að halda í vonina að geta á endanum endurráðið alla þegar þau klára uppsagnarfrestina sína. Ég er sjálf ekki á samning og vinn vaktavinnu svo ég fæ færri og styttri vaktir en ég hef fengið undanfarin 3 ár sem ég hef unnið þarna. Ég fæ 1-7 daga fyrirvara um hvort mér bjóðist vakt hverju sinni og fæ litlar upplýsingar frá vinnuveitandanum líklega af því þau vita ekkert betur hvernig staðan mun þróast.Kafli 7 af 8 - Eftir faraldurinn

Hvaða breytingar á siðum, vanabundinni hegðun eða íslensku þjóðlífi gæti faraldurinn hugsanlega haft í för með sér? Sérð þú eitthvað jákvætt eða neikvætt í spilunum og þá hvað, ef svo er?

Ég held að grímur verði meira norm ef fólk er slappt, ég held að sprittun og handþvottur verði líka álitið mikilvægara og fólk verði almennt meðvitaðara um hvernig smit dreifist. Ég held líka að óþarfa snertingar milli fólks eins og handaböndum muni kannski fækka. Ég held líka að það verði mikið meira tabú að hnerra eða hósta á almannafæri.Kafli 8 af 8 - Sögusagnir og orðrómur

Töluvert hefur verið um orðróm og ýmsar sögusagnir eða flökkusögur, jafnvel brandara, í kringum kórónaveirufaraldurinn og er oft erfitt að greina í sundur hvað er satt og hvað ekki. Með þinni hjálp vill Þjóðminjasafnið gera tilraun til að safna einhverju af þessu efni og varðveita til framtíðar. Segðu frá því sem þér er kunnugt um í þessu sambandi og hvernig þér hafa borist upplýsingar um það.

Ég hef heyrt að ýmis fæðubótaefni eigi að gera þig ólíklegari til að smitast (td d vítamín, lýsi osfrv), ég hef heyrt að sumt fólk trúir ekki að veiran sé til eða alvarlegari en hefðbundin flensa, að veiran hafi komið frá leðurblökum í Wuhan. Flest svona misáreiðanlegt heyri ég á samfélagsmiðlum.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana