LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiCOVID-19, Farsótt
Ártal2020
Spurningaskrá128 Lífið á dögum kórónaveirunnar

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1961

Nánari upplýsingar

Númer2020-1-629
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið3.4.2020/24.11.2020
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 8 - Upplýsingar um faraldurinn

Hvenær og hvernig fréttir þú fyrst af kórónavírusnum (COVID-19)? Hvar hefur þú helst sótt þér upplýsingar um veirufaraldurinn?

Ég frétti af nýrri veiru í Kína um jólaleytið 2019 í gegnum fjölmiðla. Síðan hef ég sótt mér upplýsingar í fjölmiðla bæði íslenska og erlenda, samfélagsmiðla, sérstakar Covid upplýsingasíður bæði covid.is og erlendar síður og fengið senda tölvupósta.


Hvernig finnst þér að til hafi tekist við að upplýsa almenning um faraldurinn? Treystir þú upplýsingum frá stjórnvöldum og fjölmiðlum?

Upplýsingar til almennings hafa verið miklar. Flestar upplýsingar til almennings hafa verið yfirvegaðar, amk hér á landi en þó borið á einhliða hræðsluáróðri til að ná fram hlýðni við sóttvarnarreglur. Slíkt er væntanlega nauðsynlegt. Já ég treysti upplýsingum frá sóttvarnarteymi Landlæknis embættisins.Kafli 2 af 8 - Viðhorf og líðan

Segðu frá því hvernig að þér leið og hvernig að þú brást við þegar veiran byrjaði að gera vart við sig hér á landi og á heimsvísu. Hefur líðan þín eða upplifun breyst í takt við stóraukna útbreiðslu veirunnar?

Í upphafi gerði ég mér ekki grein fyrir hve viðamikil þessi faraldur yrði í lífi okkar en það kom í ljós á nokkrum vikum. Líðan mín er góð en með tímanum hef ég vanist nýjum reglum og aðlagað mig og starf mitt og líf að sóttvarnarreglum.


Hefur faraldurinn haft áhrif á andlega líðan þína eða þinna nánustu? Ert þú t.d. hrædd(ur) eða óróleg(ur)? Hvaða ráð hefur þú til að takast á við þetta, ef svo er?

Áhrif faraldursins á andlega líðan mína eru hverfandi. Ég lifi góðu lífi og tel mig tilbúna til að taka því sem að höndum ber. Ein manneskja náin mér varð kvíðin fyrir að hún myndi ef til vill bera sjúkdóminn óafvitandi inn á sinn vinnustað, enda vinnur hún á hjúkrunarheimili, en hún hefur líka vanist reglunum og telur sig nú geta stjórnað því betur hvort hún smitast.


Hefur lífsviðhorf þitt og trúarlíf hugsanlega breyst eftir að kórónaveiran gerði vart við sig með jafn afdrífaríkum hætti og raun ber vitni? Hvernig, ef svo er?

Ég held ekki að lífsviðhorf mitt hafi breyst við kórónaveiruna. Ef til vill hef ég áttað mig betur á hvað einfalt reglusamt líf er mér dýrmætt, en áður.


Hvernig mundir þú lýsa andrúmsloftinu í þjóðfélaginu eftir að faraldurinn fór af stað?

Ró með pirring og tortryggni í bland.


Hvað finnst þér um að mega ekki lengur heilsa fólki með handarbandi eða að taka utan um það?

Ég hef líklega alla tíð verið frekar snertifælin svo ég var fljót að venjast þessum reglum.Kafli 3 af 8 - Samskipti og einkalíf

Hver eru helstu áhrif faraldursins á fjölskyldu- eða einkalíf þitt? Hvaða áhrif hefur hann t.d. haft á umgengni þína við annað fólk, tómstundir, ferðalög, þátttöku í félagsstarfi o.fl.? Hafa samskipti í gegnum tölvu að einhverju leyti komið í staðinn? Hvernig, ef svo er?

Faraldurinn hefur einfaldað líf mitt. Ég ferðast mun minna til útlanda, vinn heldur meira, hitti færra fólk í einu, sæki fundi á netinu í meira mæli en áður en það besta hefur verið að fá tækifæri til að vinna heima 3 vikur alls með nokkurra vikna millibili. Ég hef takmarkað félagslega umgengni mína við nánustu fjölskyldu og þegar faraldurinn hefur rénað á milli versnana, þá fáeina vini í senn.


Átt þú eða hefur þú átt ættingja eða vini á sjúkrastofnum sem þú hefur ekki fengið að heimsækja eftir að faraldurinn braust út? Hvernig hefur heimsóknarbannið haft áhrif á þig og fjölskyldu þína?

Ég er svo heppin að eiga ekki ættingja eða vini á sjúkrastofnunum.


Hefur þú eða einhver þér nákomin(n) veikst af COVID-19 veirunni? Viltu segja frá því hvernig reynsla það er?

Enginn mér nákominn hefur veikst á Covid 19. Samstarfsfólk hefur veikst og komist klakklaust í gegnum það.


Þarft þú að vera heima vegna þess að þú ert í sóttkví, skólinn lokaður, vinnustaður þinn lokaður eða hálflokaður eða af öðrum ástæðum? Hvað gerir þú helst á daginn, ef svo er? Segðu frá því hvernig það er að vinna heima, ef það er inni í myndinni.

Ég fór í tveggja vikna frí í ágúst. Heimsótti dóttur mína í Noregi í viku og var í sóttkví allan tímann og kom síðan heim í viku sóttkví hér. Ég hef unnið að heiman, þeas í gegnum tölvutengingu en því er ég ekki óvön. Það sem var nýtt var að vera heila viku í senn í svona heimavinnu sem gaf mér langþráða hvíld og tengingu við heimilið mitt.Kafli 4 af 8 - COVID-19 og börn

Hver eru helstu áhrif faraldursins á börn að þínu mati? Hafa þau börn sem þú þekkir verið frædd um hann og ef svo er með hvaða hætti?

Mér sýnast nútíma börn vera æðrulausar verur og taka vel þeirri fræðslu sem þau fá. Sorglegt er það náttúrulega fyrir börn sem ekki búa við öryggi á heimlinu að komast ekki í skóla og erfitt fyrir unglinga á aldri sem krefst samfélags við jafnaldra, að fá ekki þá félagslegu þjálfun sem þroski þeirra krefst.Kafli 5 af 8 - Breyttar neysluvenjur?

Hvaða áhrif hefur faraldurinn haft á neysluvenjur þínar? Hefur þú verslað meira en venjulega eða öðruvísi vörur og ef svo er, hvað aðallega? Fæst allt í búðunum sem þú þarft á að halda? Getur þú sagt frá því hvernig það er að fara út og versla?

Ég bý með sambýlismanni mínum og við þurfum ekki að versla mikið. Við höfum smærri og færri matarveislur svo það dregur úr verslun hjá okkur líka. Grímur trufla mig ekki en ég hef snúið frá verslun vegna biðraðar, það hentar mér illa að standa í biðröð.Kafli 6 af 8 - Vinnustaðurinn

Getur þú lýst því hvaða áhrif faraldurinn hefur á vinnustað þinn, ef að þú stundar vinnu?

Ég vinn í heilbrigðiskerfinu. Við þurftum í vor að rifja upp sóttvarnarklæðnað, sóttvarnar atferli og í raun umturna öllu okkar starfi. Haustið hefur boðið upp á næstu umferð af því sama en nú erum við orðin vanari.Kafli 7 af 8 - Eftir faraldurinn

Hvaða breytingar á siðum, vanabundinni hegðun eða íslensku þjóðlífi gæti faraldurinn hugsanlega haft í för með sér? Sérð þú eitthvað jákvætt eða neikvætt í spilunum og þá hvað, ef svo er?

Ég er hrædd við tortryggnina. Hrædd um að óttinn við að næsti maður beri með sér eitthvað sem þarf að forðast festist í vitund fólks. Handabönd gætu lagst af, það væri breyting. Faðmlög íslenskra kvenna voru, að mínu mati, komin út í öfgar og máttu minnka. Að standa í biðröð virðumst við hafa lært, en hvort það endist á eftir að koma í ljós.Kafli 8 af 8 - Sögusagnir og orðrómur

Töluvert hefur verið um orðróm og ýmsar sögusagnir eða flökkusögur, jafnvel brandara, í kringum kórónaveirufaraldurinn og er oft erfitt að greina í sundur hvað er satt og hvað ekki. Með þinni hjálp vill Þjóðminjasafnið gera tilraun til að safna einhverju af þessu efni og varðveita til framtíðar. Segðu frá því sem þér er kunnugt um í þessu sambandi og hvernig þér hafa borist upplýsingar um það.

Orðrómur um langdregin áhrif veirunnar kom áður en næg reynsla var komin af veirunni til að hægt væri að nota orðið langdregið. Skemmtilegt hefur verið að fylgjast með almenningi átta sig á tölfræðilegum hugtökum eins og áhættu.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana