LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiCOVID-19, Farsótt
Ártal2020
Spurningaskrá128 Lífið á dögum kórónaveirunnar

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Óþekkt / 2002

Nánari upplýsingar

Númer2020-1-627
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið3.4.2020/23.11.2020
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 8 - Upplýsingar um faraldurinn

Hvenær og hvernig fréttir þú fyrst af kórónavírusnum (COVID-19)? Hvar hefur þú helst sótt þér upplýsingar um veirufaraldurinn?

Ég heyrði fyrst um faraldurinn í janúar, held ég. Ég hef aðallega fylgst með fréttum á rúv og covid.is.


Hvernig finnst þér að til hafi tekist við að upplýsa almenning um faraldurinn? Treystir þú upplýsingum frá stjórnvöldum og fjölmiðlum?

Mér finnst hafa gengið ágætlega að upplýsa almenning og ég treysti þeim upplýsingum sem koma frá stjórnvöldum.Kafli 2 af 8 - Viðhorf og líðan

Segðu frá því hvernig að þér leið og hvernig að þú brást við þegar veiran byrjaði að gera vart við sig hér á landi og á heimsvísu. Hefur líðan þín eða upplifun breyst í takt við stóraukna útbreiðslu veirunnar?

Ég var ekki hissa þegar veiran kom fyrst til landsins, það hlaut að gerast. Ég var töluvert kvíðið þegar þetta gerðist, engu að síður, en tókst að hundsa kvíðann. Það kom upp smit í skólanum mínum í mars og einn af mínum nánustu vinum þurfti að fara í sóttkví. Ringulreiðin var algjör, ég frétti af þessu í pásu á milli tíma og þorði ekki að mæta aftur. Ég fór heima og var þar það sem eftir var dagsins. Síðan fékk ég meiri upplýsingar og vissi að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að ég væri sjálft smitað.


Hefur faraldurinn haft áhrif á andlega líðan þína eða þinna nánustu? Ert þú t.d. hrædd(ur) eða óróleg(ur)? Hvaða ráð hefur þú til að takast á við þetta, ef svo er?

Ég hef verið afskaplega þunglynt og kvíðið síðustu mánuði. Ég hef glímt við kvíða svo lengi sem ég man eftir mér, en hann er verri núna en hann hefur verið lengi. Einangrunin sem felst í því að fá ekki að mæta í skólann og hitta fólk hefur gert það að verkum að ég hef grafið upp fullt af vandamálum sem mér hafði tekist að gleyma. Vinum mínum líður líka mjög illa og ég hef verulegar áhyggjur af þeim. Ein þeirra er með heilsukvíða sem hefur bara færst í aukanna, og einn er fastur heima með transfóbískum foreldrum sínum þar sem hann er miskynjaður allan daginn alla daga. Ég hef misst allan metnað fyrir skólanum og hef enga athygli í að læra heima. Ég er að hitta sálfræðing sem er að hjálpa mér að vinna úr gömlum áföllum. Hún ráðlagði mér að einblína á andlega heilsu mína, sem ég hef reynt að gera með því að passa að fara út og hitta vini mína úti. Annars hef ég bara horft mikið á Netflix og étið nammi.


Hefur lífsviðhorf þitt og trúarlíf hugsanlega breyst eftir að kórónaveiran gerði vart við sig með jafn afdrífaríkum hætti og raun ber vitni? Hvernig, ef svo er?

Nei, ég held ekki.


Hvernig mundir þú lýsa andrúmsloftinu í þjóðfélaginu eftir að faraldurinn fór af stað?

Fyrst fannst mér allir vera vongóðir og fullir baráttuanda. Núna finnst mér allir vera bara frekar langþreyttir.


Hvað finnst þér um að mega ekki lengur heilsa fólki með handarbandi eða að taka utan um það?

Mér finnst mjög leiðinlegt að geta ekki knúsað nánustu vini mína, en mér finnst yndislegt að ekki sé ætlast til þess að ég taki utan um nánast ókunnugt fólk eða heilsi því með handabandi. Fyrstu vikurnar eftir að tvegga metra reglan var sett á voru dásamlegar.Kafli 3 af 8 - Samskipti og einkalíf

Hver eru helstu áhrif faraldursins á fjölskyldu- eða einkalíf þitt? Hvaða áhrif hefur hann t.d. haft á umgengni þína við annað fólk, tómstundir, ferðalög, þátttöku í félagsstarfi o.fl.? Hafa samskipti í gegnum tölvu að einhverju leyti komið í staðinn? Hvernig, ef svo er?

Ég hef ekki mætt í skólann síðan í október, og ekki fengið eðlilegan skóladag síðan í mars. Öll félagsstörf hafa fallið niður og samskipti mín við vini mína hafa orðið erfiðari vegna þess að við erum öll frekar viðkvæm fyrir út af faraldrinum. Samskipti í gegnum tölvu bæta ekki upp fyrir það sem við missum. Ég get ekki haldið athyglinni fyrir framan tölvuskjá í fimm klst á einum degi, og samskipti við vini mína verða bara erfiðari af því að það er svo auðvelt að misskilja. Netið er að sjálfsögðu betra en ekkert, en ég er orðið ansi þreytt á því að hanga fyrir framan tölvuna.


Átt þú eða hefur þú átt ættingja eða vini á sjúkrastofnum sem þú hefur ekki fengið að heimsækja eftir að faraldurinn braust út? Hvernig hefur heimsóknarbannið haft áhrif á þig og fjölskyldu þína?

Nei.


Hefur þú eða einhver þér nákomin(n) veikst af COVID-19 veirunni? Viltu segja frá því hvernig reynsla það er?

Frændi minn og frænka veiktust af covid í þriðju bylgjunni. Frændi minn er í góðu formi, en frænka mín er með erfðasjúkdóm sem setur hana í áhættuhóp. Þau voru saman í einangrun og voru dugleg að láta okkur vita hvernig þau hefðu það, en ég hafði samt töluverðar áhyggjur af frænku minni. Hún varð einu sinni mjög veik þegar ég var frekar lítið, en hún dó næstum því þá, og ég var mjög hrætt um að þetta yrði svona alvarlegt líka. Sem betur fer sýndi hvorugt þeirra mikil einkenni og þau löguðust bæði.


Þarft þú að vera heima vegna þess að þú ert í sóttkví, skólinn lokaður, vinnustaður þinn lokaður eða hálflokaður eða af öðrum ástæðum? Hvað gerir þú helst á daginn, ef svo er? Segðu frá því hvernig það er að vinna heima, ef það er inni í myndinni.

Ég er heima í skólanum. Mig langar rosa mikið að vera metnaðarfullt og vakna, fá mér morgunmat, klæða mig og svona fyrir skólann, en ég hef enga orku í það lengur. Ég er yfirleitt uppi í rúmi í fyrsta fjartíma, og færi mig svo inn í eldhús til að geta borðað morgunmat í öðrum tíma. Ég prjóna á meðan ég er í tímum til að halda athyglinni. Ef ég er í góðu skapi baka ég eða tek til þegar ég er í gati. Eins og staðan er núna er ég nokkuð eftirá og hef misst af nokkrum verkefnaskilum. Ég reyni að fara í einn göngutúr á dag, annars geri ég lítið annað en að horfa á Netflix. Ég hef reyndar sankað að mér plöntum eftir að faraldurinn hófst og á núna miklu fleiri en komast fyrir inni hjá mér.Kafli 4 af 8 - COVID-19 og börn

Hver eru helstu áhrif faraldursins á börn að þínu mati? Hafa þau börn sem þú þekkir verið frædd um hann og ef svo er með hvaða hætti?

Ég held að einangrunin hafi mest áhrif á eldri börn, annars veit ég ekki.Kafli 5 af 8 - Breyttar neysluvenjur?

Hvaða áhrif hefur faraldurinn haft á neysluvenjur þínar? Hefur þú verslað meira en venjulega eða öðruvísi vörur og ef svo er, hvað aðallega? Fæst allt í búðunum sem þú þarft á að halda? Getur þú sagt frá því hvernig það er að fara út og versla?

Ég hef keypt mér meira af mat úti núna en venjulega vegna þess að mig vantar afsökun til þess að fara út. Annars hafa þær ekkert breyst. Allt fæst sem ég þarf á að halda. Það er mjög spes að fara út í matvöruverslanir með grímuna og það allt. Passa að snerta ekki neitt nema það sem maður ætlar að kaupa og forðast annað fólk, reyna að vera ekki dónalegt þegar maður tekur tvö skref í burtu frá einhverri manneskju, en getur samt ekki brosað til viðkomandi út af grímunni.Kafli 6 af 8 - Vinnustaðurinn

Getur þú lýst því hvaða áhrif faraldurinn hefur á vinnustað þinn, ef að þú stundar vinnu?

Ég vinn ekki.Kafli 7 af 8 - Eftir faraldurinn

Hvaða breytingar á siðum, vanabundinni hegðun eða íslensku þjóðlífi gæti faraldurinn hugsanlega haft í för með sér? Sérð þú eitthvað jákvætt eða neikvætt í spilunum og þá hvað, ef svo er?

Ég ímynda mér að fólk verði meira heima þegar það er veikt eða slappt, í stað þess að mæta til vinnu í í skóla og smita aðra. Grímur verða líka kannski venjulegar og fólk getur verið með þær ef það er með kvef til að forðast að smita annað fólk.Kafli 8 af 8 - Sögusagnir og orðrómur

Töluvert hefur verið um orðróm og ýmsar sögusagnir eða flökkusögur, jafnvel brandara, í kringum kórónaveirufaraldurinn og er oft erfitt að greina í sundur hvað er satt og hvað ekki. Með þinni hjálp vill Þjóðminjasafnið gera tilraun til að safna einhverju af þessu efni og varðveita til framtíðar. Segðu frá því sem þér er kunnugt um í þessu sambandi og hvernig þér hafa borist upplýsingar um það.

Það er mjög skemmtilegt að fylgjast með covid gríni á netinu. Siðustu ár var djók að segjast ekki vera með "20 20 vision". Þetta byrjaði held ég árið 2015 sem "I hate it when people ask me where I see myself in five years. I don't have 20 20 vision". Þessi brandari þróaðist svo eitthvað og núna er fólk að grínast með hvernig ekkert okkar hafði "20 20 vision". Margir hafa líka fundið gamla pósta á netinu sem "sögðu fyrir um" faraldurinn.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana