LeitaVinsamlega sýnið biðlund
HeitiHálsmen, Skartgripur, Víravirkisblóm
Ártal1946-1973

StaðurKúludalsá 2
Sveitarfélag 1950Innri-Akraneshreppur
Núv. sveitarfélagHvalfjarðarsveit
SýslaBorgarfjarðarsýsla
LandÍsland

Hlutinn gerðiKristófer Pétursson

Nánari upplýsingar

NúmerR-8475
AðalskráMunur
UndirskráAlmenn munaskrá
Stærð6,3 x 3,8 cm
EfniSilfur
TækniSilfursmíði

Lýsing

Hálsmen úr víravirki smíðað af Kristófer Péturssyni silfursmiði á Kúludalsá. Menið er tvö sex blaða blóm úr víravirki fest saman, kringum sex blaða grind skreyttri tvinnuðum vír. Af blóminu hangir lauf úr víravirki og tveir stafir ofnir tvinnuðum vír líkt og grindin. Önnur hlið hálsmensins er kornsett en ekki hin.

Þetta hálsmen er að mörgu leiti óvenjulegt, enda Kristófer þekktur fyrir að hafa þróað sinn eigin stíl og því eru gripir hans mjög auðþekktir. Hálsmenið er blómalaga sem er hefðbundið fyrir íslenskt víravirki, en grindin í kringum blómið er mjög óvenjuleg. Vírinn í hálsmeninu er snittur – það er að segja, hann hefur verið settur í gegnum snittbakka sem gefur honum tennta áferð. Þetta er mjög einkennandi fyrir íslenskt víravirki. En það sem er óvenjulegt er að það hefur verið gert bæði fyrir grindarvírinn (vírinn sem myndar grindina í blómunum) og líka við innbeygjurnar (vírinn sem settur er inn í grindina til að búa til mynstur). Venjulega eru bara innbeygjurnar snittar.

Það að snitta vír gefur honum meira yfirborð til þess að endurvarpa ljósi. Slíkir gripir virðast því skína meira en gripir þar sem það hefur ekki verið gert. Tvinnaður vír í grindinni kringum sjálft blómið og á stöfunum tveimur sem hanga af henni gerir stíl Kristófers enn auðþekkjanlegri. Mynd er til af mjög svipuðu hálsmeni í tímaritinu Hugur og Hönd frá 1973 og hjá Þjóðminjasafninu (nr. Skg-2037). Því er líklegt að hann hafi smíðað nokkur í þessum stíl.

Kristófer lærði fyrst að smíða silfur 1908 og smíðaði í hjáverkum fram til 1946, þegar hann flutti frá Stóru-Borg í Húnaþingi til Kúludalsár á Akranesi. Eftir það stundaði hann smíðina að fullum krafti. Ekki er ljóst nákvæmlega hvenær þetta hálsmen var smíðað, en líklega eftir að hann lagði silfursmíði fyrir sig að fullu. Þetta er augljóslega meistarasmíð, og myndin af Skg-2037 var tekin 1969. En Kristófer var hættur að smíða 1973.


Heimildir

Hugur og Hönd, Hagleiksmenn í Húnaþingi: Spjallað við Kristófer Pétursson. 1973.

Íslensk víravirki í víðara samhengi, lokaritgerð við HÍ 2017, https://skemman.is/handle/1946/26733

Þetta aðfang er í Skógasafni. Heildarfjöldi gripa í safninu er um 15.000. Um 10.000 gripir hafa verið skráðir í Sarp sem er um 70% safnkostsins. Um er að ræða fullnaðar-skráningu án mynda og upplýsinga um geymslustað. Jafnframt er ætlunin að skrá geymslustað og ljósmynda gripi og setja inn í Sarp. Það er ærið verk og ræðst af fjárhagsstöðu safnsins. Um 5.000 ljósmyndir hafa verið handskráðar.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.