LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiCOVID-19, Farsótt
Ártal2020
Spurningaskrá128 Lífið á dögum kórónaveirunnar

ByggðaheitiKópavogur
Sveitarfélag 1950Kópavogshreppur
Núv. sveitarfélagKópavogsbær
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1982

Nánari upplýsingar

Númer2020-1-250
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið3.4.2020/16.4.2020
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 8 - Upplýsingar um faraldurinn

Hvenær og hvernig fréttir þú fyrst af kórónavírusnum (COVID-19)? Hvar hefur þú helst sótt þér upplýsingar um veirufaraldurinn?

Ég frétti fyrst af faraldrinum þegar fréttir fóru að berast frá Kína (Wuhan) um útbreiðslu kórónaveiru, það hefur þá verið í janúar 2020. Þá starfaði ég í mötuneyti Landsnets og innan fyrirtækisins voru þessar fregnir teknar gríðarlega alvarlega. Veiran var því ekki enn skráð í Evrópu þegar búið var að grípa til ráðstafana innan Landsnets, til dæmis var sprittstöðvum fjölgað verulega og veggspjöld með hvatningum um mikilvægi handþvottar sett upp.

Þar sem ég starfaði um árabil við blaðamennsku var áhugi minn á heimsfaraldri eðlilega mikill. Fyrir utan að fylgjast með fréttum úr íslenskum fjölmiðlum sótti ég mér einnig fróðleik og fréttir úr erlendum miðlum, heimasíðum sóttvarnaembætta, samfélagsmiðlum o.s.frv.

Þá vildi svo til að í janúar keypti ég áskrift að vikutímaritinu New Yorker þannig að hálfs mánaðarlega bárust mér nokkuð ítarlegar frásagnir skrifaðar á þeim stað heimsins (eins og staðan er þegar þetta er skrifað (apríl 2020)) sem hefur orðið úti. Því má segja að ég hafi verið með alla anga úti þegar kom að því að viða að mér upplýsingum um COVID-19.


Hvernig finnst þér að til hafi tekist við að upplýsa almenning um faraldurinn? Treystir þú upplýsingum frá stjórnvöldum og fjölmiðlum?

Að mínu viti tókst vel að upplýsa almenning um faraldurinn. Daglegir upplýsingafundir með almannavörnum, sóttvarnalækni og landlækni þar sem fjölmiðlum var gefinn kostur á að spyrja verður eflaust fyrirmynd þegar kemur að upplýsingagjöf til almennings vegna óvissuástands í framtíðinni. Ég treysti sjálfur upplýsingum frá stjórnvöldum og fjölmiðlum fyllilega. Að því sögðu skipti að sjálfsögðu máli að beita gagnrýnni hugsun á allar upplýsingar og sannreyna eftir fremsta mætti, til að mynda með samanburði á milli landa og fleira í þeim dúr.Kafli 2 af 8 - Viðhorf og líðan

Segðu frá því hvernig að þér leið og hvernig að þú brást við þegar veiran byrjaði að gera vart við sig hér á landi og á heimsvísu. Hefur líðan þín eða upplifun breyst í takt við stóraukna útbreiðslu veirunnar?

Ég er rólyndismaður og yfirvegaður þannig að líðan mín breyttist lítið þegar veiran fór á flug. Að sjálfsögðu fylgdist ég grannt með en faraldurinn hafði ekki áhrif á liðan mína, hvorki í byrjun eða eftir að útbreiðsla jókst.


Hefur faraldurinn haft áhrif á andlega líðan þína eða þinna nánustu? Ert þú t.d. hrædd(ur) eða óróleg(ur)? Hvaða ráð hefur þú til að takast á við þetta, ef svo er?

Faraldurinn hefur ekki haft áhrif á andlega líðan mína. Á heimilinu eru tveir fullorðnir, tólf ára strákur og smáhundur. Þá er kona mín barnshafandi. Eðlilega þurfti því að passa upp á að strákurinn héldi ró sinni og gekk það vel. Kona mín var einnig afskaplega róleg yfir ástandinu en það sem hafði áhrif á hennar andlegu líðan voru takmarkanir á fæðingardeild, þ.e. möguleikinn á því að ég fengi ekki að vera með henni fyrir og eftir fæðingu. Sökum þessa skoðuðum við alla möguleika og ákváðum að fæða heima. Þegar þetta er skrifað (apríl 2020) þá stendur enn til að fæða heima en óvíst er hvort breyting verður á, þar sem takmörkunum á fæðingardeild kann að verða létt.

Ekkert okkar hefur verið hrætt eða órólegt vegna COVID-19. Strákurinn hefur haldið áfram að fara í skóla og hitta félaga sína úti. Aftur á móti hefur hann þurft að þrífa sig vel í hvert skipti sem hann kemur inn og eru sérstök inniföt notuð heima og önnur til útiveru.

Við höfum því tekist á við þetta með aukinni varkárni. Heimsóknum hefur fækkað til muna en við veigrum okkur ekki við búðarferðir og jafnvel ferðir í verslunarmiðstöðvar. Handþvottur og sprittun, snerta ekki andlit.


Hefur lífsviðhorf þitt og trúarlíf hugsanlega breyst eftir að kórónaveiran gerði vart við sig með jafn afdrífaríkum hætti og raun ber vitni? Hvernig, ef svo er?

Nei. Ég er ótrúaður og það hefur ekki breyst. Hef ekki merkt neinar breytingar á öðrum fjölskyldumeðlimum.


Hvernig mundir þú lýsa andrúmsloftinu í þjóðfélaginu eftir að faraldurinn fór af stað?

Í kringum mig ríkja rólegheit. Fáir hafa veikst og enginn alvarlega. Þeir sem eru í áhættuhóp fara sérstaklega varlega.

Þar sem hundur er á heimilinu er farið í nokkrar gönguferðir á degi hverjum og auðséð er að mun fleiri eru úti við en áður, þ.e. í gönguferðum, skokki, hjólatúrum, en kannski má rekja það að einhverju leyti rekja til þess að sundlaugar og líkamsræktarstöðvar eru lokaðar auk þess sem íþróttastarf liggur niðri. Að mínu viti er fólk jákvæðara og heilsar frekar á göngustígum en áður, en heldur að sjálfsögðu góðri fjarlægð. Grímur og annað slíkt sést ekki. Ekki er að merkja neina hræðslu eða slíkt, hvorki í þessum göngutúrum eða í verslunarferðum. Þjóðfélagið er einfaldlega hægara og allir sýna því skilning.


Hvað finnst þér um að mega ekki lengur heilsa fólki með handarbandi eða að taka utan um það?

Auðvelt er að aðlagast því að heilsa ekki með handabandi. Og á meðan ég má taka utan um konuna mína þá er ég í góðum málum.Kafli 3 af 8 - Samskipti og einkalíf

Hver eru helstu áhrif faraldursins á fjölskyldu- eða einkalíf þitt? Hvaða áhrif hefur hann t.d. haft á umgengni þína við annað fólk, tómstundir, ferðalög, þátttöku í félagsstarfi o.fl.? Hafa samskipti í gegnum tölvu að einhverju leyti komið í staðinn? Hvernig, ef svo er?

Þar sem ég hef frá marsmánuði unnið heima hafði faraldurinn ekki áhrif á starf mitt. Konan mín er snyrtifræðingur og þurfti að draga sig í hlé, kom þar til blanda af erfiðleikum vegna óléttu og faraldurinn, og skólastarf og íþróttastarf nánast lagðist af þannig að strákurinn er einnig heima. Fjölskyldulífið tók því töluvert miklum breytingum á stuttum tíma sem fólst í því að við vorum öll mjög mikið heima. Reyndist faraldurinn því mikið happaspor fyrir fjölskylduhundinn sem hefur fengið mjög mikla athygli og ást.

Annars hefur þetta verið góður tími hjá fjölskyldunni. Samverustundir eru margar og góðar, eldamennska vandaðri og góð rútína á flestum dögum. Suma daga hefur þurft að setja upp dagskrá fyrir strákinn, s.s. heimilisstörf, heimanám, útihlaup og styrktaræfingar, en oftar en ekki hefur hann getað haft ofan fyrir sér sjálfur. Samskipt hans við vini hafa að miklu leyti færst yfir í tölvu, sérstaklega í marsmánuði, en með hækkandi sól hefur útiveran tekið yfir.

Hvað vinnu mína áhrærir þá hafa fundir færst yfir í tölvuna og síma. Það hefur reynst afskaplega vel og ábyggilega eitthvað sem ég á eftir að tileinka mér meira í framtíðinni. Fjarfundabúnaður verður líklega meira áberandi eftir þetta tímabil.

Ekkert hefur verið um ferðalög og heimsóknir minnkað mikið og breyst. Minna um matarboð en kaffiboðum fjölgað þar sem vel er sprittað og fjarlægð meiri en áður.


Átt þú eða hefur þú átt ættingja eða vini á sjúkrastofnum sem þú hefur ekki fengið að heimsækja eftir að faraldurinn braust út? Hvernig hefur heimsóknarbannið haft áhrif á þig og fjölskyldu þína?

Bæði ég og konan eigum ömmu á sjúkrastofnun sem við höfum ekki fengið að hitta. Við höfum því notað símann meira til að hafa samskipti. Þá eru fjölskyldumeðlimir í áhættuhópi og heimsóknum því fækkað og varúðarráðstafanir hafðar þegar heimsóknir hafa farið fram.


Hefur þú eða einhver þér nákomin(n) veikst af COVID-19 veirunni? Viltu segja frá því hvernig reynsla það er?

Engin mér nákominn hefur veikst. Aftur á móti átti ég tveggja manna fund snemma í mars með manni sem þá var nýkominn heim frá London. Þá var ekki búið að gera kröfur um að ferðalangar frá Bretlandi færu í sóttkví við heimkomuna. Viku síðar kom í ljós að náinn ferðafélagi mannsins hafði smitast í London og fór því fundarmaðurinn einnig í rannsókn. Nokkrum dögum síðar lá niðurstaða fyrir og reyndist fundarmaðurinn einnig smitaður. Var hann þá byrjaður að hósta en var að mestu laus við hita og voru einkenni afar væg.

Ég hafði samband við heilbrigðisstarfsfólk vegna þessa en ekki var talin ástæða til þess að ég færi í rannsókn og talið líklegast að maðurinn hefði ekki verið farinn að smita þegar við funduðum. Aftur á móti átti þessi sami maður fleiri fundi og fór meðal annars í kaffiboð með nokkrum eldri mönnum sem svo allir fengu veiruna.

Við heimilisfólkið fylgdumst vel með einkennum og hitamældum okkur en ekkert okkar fékk nein einkenni.


Þarft þú að vera heima vegna þess að þú ert í sóttkví, skólinn lokaður, vinnustaður þinn lokaður eða hálflokaður eða af öðrum ástæðum? Hvað gerir þú helst á daginn, ef svo er? Segðu frá því hvernig það er að vinna heima, ef það er inni í myndinni.

Ætli ég verði ekki að vísa til fyrra svars.

Þar sem ég hef frá marsmánuði unnið heima hafði faraldurinn ekki áhrif á starf mitt. Konan mín er snyrtifræðingur og þurfti að draga sig í hlé, kom þar til blanda af erfiðleikum vegna óléttu og faraldurinn, og skólastarf og íþróttastarf nánast lagðist af þannig að strákurinn er einnig heima. Fjölskyldulífið tók því töluvert miklum breytingum á stuttum tíma sem fólst í því að við vorum öll mjög mikið heima. Reyndist faraldurinn því mikið happaspor fyrir fjölskylduhundinn sem hefur fengið mjög mikla athygli og ást.

Annars hefur þetta verið góður tími hjá fjölskyldunni. Samverustundir eru margar og góðar, eldamennska vandaðri og góð rútína á flestum dögum. Suma daga hefur þurft að setja upp dagskrá fyrir strákinn, s.s. heimilisstörf, heimanám, útihlaup og styrktaræfingar, en oftar en ekki hefur hann getað haft ofan fyrir sér sjálfur. Samskipt hans við vini hafa að miklu leyti færst yfir í tölvu, sérstaklega í marsmánuði, en með hækkandi sól hefur útiveran tekið yfir.

Hvað vinnu mína áhrærir þá hafa fundir færst yfir í tölvuna og síma. Það hefur reynst afskaplega vel og ábyggilega eitthvað sem ég á eftir að tileinka mér meira í framtíðinni. Fjarfundabúnaður verður líklega meira áberandi eftir þetta tímabil.

Hefðbundinn dagur er á þessa leið:

Vakna á milli klukkan 8.30-9 (Aldrei við vekjaraklukku!)

Morgunverkin kl. 9-10 (Sturta, morgunmatur, blöðin o.s.frv.)

Tölvuvinna kl. 10-12

Hádegismatur kl. 12-13

Vinna kl. 13-14

Daglegur upplýsingafundur kl. 14-15

Vinna eða útréttingar kl. 15-18

Kvöldmatur kl. 18-20 (Undirbúningur, eldun, borðhald)

Lestur eða sjónvarp kl. 20-22

Upp í rúm kl. 22 (Meira sjónvarp/lestur eða bara yndisstund þar)

Kafli 4 af 8 - COVID-19 og börn

Hver eru helstu áhrif faraldursins á börn að þínu mati? Hafa þau börn sem þú þekkir verið frædd um hann og ef svo er með hvaða hætti?

Mér sýnist faraldurinn ekki hafa mikil áhrif á börnin. Þau fá auðvitað allar fréttir beint í æð en ég hef ekki merkt á mínum strák, vinum hans, og öðrum börnum innan fjölskyldunnar að það sé nokkur hræðsla. Áhrifin eru auðvitað meiri innivera og lítið sem ekkert um að vinir fái að koma í heimsókn inn til hvers annars. En það hefur einnig orðið til þess að þau fara út á hverjum degi. Það er meiri hvatning til að fara út og hitta vinina, í verra veðri.

Rýmri tölvutími og erfiðara að halda svefntíma á réttum stað vegna þess að skólinn er ekki að hefjast klukkan 8.

Þau fá sínar upplýsingar frá foreldrum og fréttum aðallega. Minna í skólanum sem er ekki nema ein klukkustund á dag og tíminn því nýttur í lærdóm eingöngu.Kafli 5 af 8 - Breyttar neysluvenjur?

Hvaða áhrif hefur faraldurinn haft á neysluvenjur þínar? Hefur þú verslað meira en venjulega eða öðruvísi vörur og ef svo er, hvað aðallega? Fæst allt í búðunum sem þú þarft á að halda? Getur þú sagt frá því hvernig það er að fara út og versla?

Við höfum keypt meira inn til heimilisins en ekki aðrar vörur en venjulega. Kannski erum við líka bara að kaupa meira vegna þess að við erum meira heima við og borðum því meiri mat heima en áður. Við erum með fjórar matvöruverslanir í næsta nágrenni (í göngufjarlægð) og aldrei þurft að fara á milli vegna þess að einhverja tiltekna vöru vantaði. Kannski erum við ekki nógu framandi í matarinnkaupum.

Það er lítill munur á því að fara í verslunarleiðangur. Nú sprittar fólk sig og kerru sína áður en það gengur inn, eða er með hanska, og svo reynir maður auðvitað að halda fjarlægð við næsta mann. En það er enginn með grímur og það heyrir til undantekninga að virt hafi verið tilmæli um að einn frá hverju heimili eigi að versla. Þetta eru oft heilu fjölskyldurnar. Við höfum farið tvö ef um stórinnkaup er að ræða en annars skýst ég einn.

Við höfum fundið fyrir því að vöruverð hefur hækkað töluvert. Það er auðvitað hvimleitt þegar innkaupin eru stærri.

Í stuttu þá hefur faraldurinn ekki breytt miklu þegar kemur að neysluvenjum.Kafli 6 af 8 - Vinnustaðurinn

Getur þú lýst því hvaða áhrif faraldurinn hefur á vinnustað þinn, ef að þú stundar vinnu?

Eins og áður hefur komið fram þá starfaði ég hjá Landsneti þegar faraldursins varð fyrst vart, leysti þá af í mötuneyti. Sá samningur rann út í lok febrúar og hóf ég þá störf hjá útgáfufyrirtæki sem verktaki, í starfi sem ég vinn heima.

Þannig að ef við byrjum á Landsneti þá voru gríðarlega miklar breytingar þar. Snemma var mötuneytinu gjörbreytt, skammtað á diska í stað þess að fólk fengi sér sjálft. Allt sem fólk notaði sameiginlega var fjarlægt, s.s. olíur, sósur, salt og pipar. Þá var deildaskipt og fengu aðeins einstaka deildir að koma á sama tíma í mat. Lokað var fyrir heimsóknir inn í húsið og þeim gert að vinna heima sem það gátu.

Í mars var svo gripið til enn harðari aðgerða en ég kann því miður ekki að greina frá þeim.

Útgáfufyrirtækið er lítið og byggt upp af verktökum þannig að áhrifin voru lítil. Minna um að funda á skrifstofunni og frekar í síma.Kafli 7 af 8 - Eftir faraldurinn

Hvaða breytingar á siðum, vanabundinni hegðun eða íslensku þjóðlífi gæti faraldurinn hugsanlega haft í för með sér? Sérð þú eitthvað jákvætt eða neikvætt í spilunum og þá hvað, ef svo er?

Það er engum mögulegt að ráða í framtíðina og eflaust fáum til gagns að reyna kreista fram einhvern spádóm. Líkast til mun vaxa upp úr grasi kynslóð afar meðvituð um mikilvægi handþvottar. Hver veit nema það kunni að fækka alls kyns öðrum sýkingum. En ég á ekki von á að minna verði um handabönd og faðmlög eða yfirleitt að miklar breytingar verði á háttum Íslendinga. Þeir kannski fara að meta betur þau lífsgæði sem felast í að geta um frjálst höfuð strokið, nýtt sér sundlaugar, líkamsræktarstöðvar, skemmtistaði og öldurhús. Hver veit nema Íslendingar átti sig á því hversu litið þarf að gerast til þess að heimurinn lokist, opin samfélög breytist í eftirlitssamfélög og hversu mikilvægt það er að standa vörð um lýðræði og einstaklingsfrelsi. Svo er önnur spurning hvort það breyti eitthvað hegðun, siðum og íslensku þjóðlífi. Ég efast um það.Kafli 8 af 8 - Sögusagnir og orðrómur

Töluvert hefur verið um orðróm og ýmsar sögusagnir eða flökkusögur, jafnvel brandara, í kringum kórónaveirufaraldurinn og er oft erfitt að greina í sundur hvað er satt og hvað ekki. Með þinni hjálp vill Þjóðminjasafnið gera tilraun til að safna einhverju af þessu efni og varðveita til framtíðar. Segðu frá því sem þér er kunnugt um í þessu sambandi og hvernig þér hafa borist upplýsingar um það.

Því miður þá get ég engu við bætt.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana