LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiCOVID-19, Farsótt
Ártal2020
Spurningaskrá128 Lífið á dögum kórónaveirunnar

Sveitarfélag 1950Reykjavík
Núv. sveitarfélagReykjavík
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1982

Nánari upplýsingar

Númer2020-1-249
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið3.4.2020/16.4.2020
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 8 - Upplýsingar um faraldurinn

Hvenær og hvernig fréttir þú fyrst af kórónavírusnum (COVID-19)? Hvar hefur þú helst sótt þér upplýsingar um veirufaraldurinn?

Ég man eftir að hafa lesið um þetta í fréttum í janúar í Kína. Líklega helst af innlendum fréttamiðlum til að byrja með. Eftir því sem faraldurinn hefur ágerst hef ég haldið áfram að skoða innlendu miðlana, RÚV, visi.is, Fréttablaðið og mbl.is, stundum stundina.is. Ég hef oft fylgst með upplýsingafundunum kl 14. Hef horft á báða blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar. Stundum hlustað og horft á fréttir á RÚV. Suma daga hluta ég á morgunútvarpið á RÚV. Hef einnig lesið mikið af greinum í New York Times og The Atlantic, eitthvað í Guardian og Washington Post. Töluverðan fjölda af greinum eftir vísindafólk fyrir almenning um faraldurinn og líka lesið nokkrar vísindagreinar tengdar faraldrinum og vírusnum sjálfum.


Hvernig finnst þér að til hafi tekist við að upplýsa almenning um faraldurinn? Treystir þú upplýsingum frá stjórnvöldum og fjölmiðlum?

Alveg einstaklega vel. Heilt yfir hafa upplýsingar frá stjórnvöldum verið mjög skýrar og það hefur líka komið skýrt fram hvað stjórnvöld vita ekki. Það er mjög mikilvægt þegar svona ný ógn steðjar að. Mér hefur einnig fundist gott að það hefur alltaf verið skýrt að áherslur kunni að breytast eftir því sem á líður og nýjar upplýsingar koma fram. Allar ákvarðanir hafa verið vel rökstuddar og útskýrðar út frá þeirri vísindalegu þekkingu sem er til staðar.Kafli 2 af 8 - Viðhorf og líðan

Segðu frá því hvernig að þér leið og hvernig að þú brást við þegar veiran byrjaði að gera vart við sig hér á landi og á heimsvísu. Hefur líðan þín eða upplifun breyst í takt við stóraukna útbreiðslu veirunnar?

Ég hef verið frekar kvíðin og óróleg yfir þessu. Ég er ófrísk og það er ekki gaman að vera ófrísk í heimsfarsóttarástandi. Ég hef haft áhyggjur af mínum nánustu, ömmu og afa og öðrum sem ég þekki sem hafa undirliggjandi sjúkdóma. Ég hef reyndar líka mjög mikinn áhuga á farsóttum svo það hefur líka verið spennandi að fylgjast með þessu á ákveðin hátt en mjög sárt að sjá hversu illa hefur gengið að bregðast við t.d. á Ítalíu, Spáni og í New York.Ég bjó í New York í 3 ár, á þar góða vinkonu og bróðir minn var líka að vinna þar þegar faraldurinn braust út. Það var ekki gott að vita af þeim í ástandinu sem er þar núna. Bróðir minn fór svo til Hollands og það var strax auðveldara að vita af honum þar.Nú þegar farsóttin virðist vera í góðri rénun hér heima þá líður mér ögn betur. Verður gott þegar barnið kemst aftur á leikskólann alla daga. Þetta hefur verið svo mikið rask að lenda í þessu beint ofan í langt og erfitt verkfall. Hefur reynst mér mjög erfitt að halda uppi einhverjum afköstum í vinnu.


Hefur faraldurinn haft áhrif á andlega líðan þína eða þinna nánustu? Ert þú t.d. hrædd(ur) eða óróleg(ur)? Hvaða ráð hefur þú til að takast á við þetta, ef svo er?

Ég hef verið kvíðin og hrædd. Helstu leiðirnar til að takast á við þessa líðan er samvera með maka og barni. Við höfum dálítið verið að baka. Um páskana ákvaðum við að taka upp stórt Lego sett sem við höfðum átt óopnað lengi, Lego friends spítala og byggja það saman sem var róandi fjölskyldusamvera. Ég keypti og púslaði púsl með ýmsum myndum eftir listakonuna Fridu Kahlo sem var mjög róandi.Ég hef verið að lesa Discworld eftir Terry Pratchett, reyndi að lesa ýmsar bækur áður en ég datt niður á þær, engar aðrar bækur náðu að halda athyglinni.Í byrjun faraldursins hér heima reyndum við að passa að fara í sund reglulega fjölskyldan og á söfn um helgar, reyna að halda hlutum eins eðlilegum og hægt var eins lengi og það var mögulegt.Framan af var ég líka að fara í meðgöngusund 5 sinnum í viku sem var dásamlegt, gott að geta rætt þetta við aðrar konur í sömu stöðu.Ég hef líka verið duglegri að heyra í vinkonum og við höfum einu sinni haft saumaklúbb á Zoom sem var dásamlegt og mjög endurnærandi.


Hefur lífsviðhorf þitt og trúarlíf hugsanlega breyst eftir að kórónaveiran gerði vart við sig með jafn afdrífaríkum hætti og raun ber vitni? Hvernig, ef svo er?

Nei. Ég er ekki trúuð. Ég er sjálf vísindakona og hef verið alveg sérlega ánægð með hvernig sérfræðingar, læknar og vísindafólk hafa fengið að leiða viðbrögðin hérna heima. Held það hafi verið besta leiðin til að takast á við þetta erfiða vandamál. Það hefur líka verið traustvekjandi að sjá að samstarf virðist heilt á litið hafa gengið vel milli stofnana og hins pólitíska valds. Þau vandamál sem upp hafa komið hafa verið leyst og fólkið í forsvari hefur ekki verið hrætt við að viðurkenna þegar hlutir hafa ekki farið alveg eins og best var á kosið.


Hvernig mundir þú lýsa andrúmsloftinu í þjóðfélaginu eftir að faraldurinn fór af stað?

Ég get ekki sagt ég hafi áttað mig vel á því þar sem ég var að vinna heima og hitti helst bara mína nánustu fjölskyldu og framan af konur í meðgöngusundi. Fólk tók þessu mjög mis alvarlega, framan að var fannst mér stress í fólki vegna ættingja og vina sem voru erlendis og gekk illa að komast heim með minnkandi flugsamgöngum, hröðum landamæralokunum og svo framvegis.Hvað finnst þér um að mega ekki lengur heilsa fólki með handarbandi eða að taka utan um það?

Ég er mikið heima við, verandi ólétt svo ég hef lítið verið að hitta fólk. Þegar ég hef hitt fólk, sérstaklega áður en þrengstu hömlur voru settar var bara alveg sérstaklega afkáralegt að heilsa ekki almennilega. Ég fór t.d. í ísbíltúr með tveimur af bestu vinkonum mínum áður en mestu hömlur voru settar. Við fórum í sama bíl en snertumst ekki, pössuðum að sótthreinsa hendur og þurftum að passa vel fjarlægð á meðan við vorum inni í búðinni.Við höfum aðeins hitt nánustu ættinga í svona ganga/planheimsóknum, þá kemur enginn inn, enginn kyssir eða faðmar og við reynum að halda amk 2 m fjarlægð og hafa heimsóknirnar bara stuttar. Tilgangurinn er bara svona rétt að sjá fólk í eigin persónu. Þó að myndsímtölin séu frábær þá er hitt mikilvægt líka.Kafli 3 af 8 - Samskipti og einkalíf

Hver eru helstu áhrif faraldursins á fjölskyldu- eða einkalíf þitt? Hvaða áhrif hefur hann t.d. haft á umgengni þína við annað fólk, tómstundir, ferðalög, þátttöku í félagsstarfi o.fl.? Hafa samskipti í gegnum tölvu að einhverju leyti komið í staðinn? Hvernig, ef svo er?

Við höfum ekki hitt neinn í fjölskyldunni nema í svona bílaplans/gangaheimsóknum síðan hertar aðgerðir tóku gildi hér. Vorum einnig búin að minnka samgang mikið sérstaklega við ömmu og afa fyrir þann tíma.
Ég hætti að geta farið í meðgöngusund þegar sundlaugar lokuðu sem hefur verið mjög slæmt, ég er ófrísk og með mikla grindarverki. Sund er eina hreyfingin sem ég get stundað. Ég fór í sund á mánudagskvöldið í Laugardalslaug, seinasta daginn sem sundlaugar voru opnar.
Bara ég, maðurinn minn og dóttir mín koma hingað inn á heimilið.
Við reynum að vera duglega að hringja í ættingja og vini með myndsímtölum en það er auðvitað ekki það sama og að hittast í eigin persónu. Getur verið sérstaklega erfitt með ömmu og afa sem heyra ekki vel svo það er ekki alltaf gott að tala við þau í síma.
Dóttir mín er vön að vera mikið hjá ömmum sínum og öfum og að þau komi oft í heimsókn. Hún saknar þeirra mikið og talar oft um hvað hana langar í heimsókn.


Átt þú eða hefur þú átt ættingja eða vini á sjúkrastofnum sem þú hefur ekki fengið að heimsækja eftir að faraldurinn braust út? Hvernig hefur heimsóknarbannið haft áhrif á þig og fjölskyldu þína?

Nei.


Hefur þú eða einhver þér nákomin(n) veikst af COVID-19 veirunni? Viltu segja frá því hvernig reynsla það er?

Enginn nákominn en ég þekki nokkuð af fólki sem hefur veikst, sem betur fer engin alvarlega enn sem komið er. Meira að segja vægu tilfellin eru stressandi því þessi veikindi eru svo óútreiknanleg og geta verið langvinn.


Þarft þú að vera heima vegna þess að þú ert í sóttkví, skólinn lokaður, vinnustaður þinn lokaður eða hálflokaður eða af öðrum ástæðum? Hvað gerir þú helst á daginn, ef svo er? Segðu frá því hvernig það er að vinna heima, ef það er inni í myndinni.

Ég var að vinna að heiman áður en faraldurinn hófst. Hafði verið mjög mikið rask á daglega lífinu vegna verkfalls Eflingarstarfsfólks á leikskólum, ég held að það hafi verið tæpar tvær vikur sem dóttir mín fór "eðlilega" í leikskólann eftir að verkfalli lauk og þangað til takmarkanir voru settar vegna Covid19. Dóttir mín er bara í leikskólanum annan hvern dag. Það skiptir reyndar miklu máli, alveg ómissandi fyrir hana að fá að hitta vini sína og leika við önnur börn. Það er erfitt að vera 5 ára einkabarn og hafa bara mömmu og pabba til að leika við.
Vegna meðgöngutengdra kvilla er ég ekki mjög hress og get lítið farið með hana út að leika eða í einhver ærsl sem öll börn á þessum aldri þurfa, það bjargar því miklu að hún komist á leikskólann annan hvern dag.
Maðurinn minn er endurskoðandi svo þetta er mikill annatími hjá honum. Ekki hefur verið formlega lengt í neinum frestum hjá skattinum svo hann hefur verið að vinna meira en fulla vinnu allan tímann sem faraldurinn hefur staðið yfir sem er aukið álag fyrir mig.
Ég get lítið unnið heima þegar dóttir mín er heima, þó hún sé góð að dunda sér og horfa á sjónvarpið líða sjaldan meira en 20 mínútur þar sem þarf ekki að sinna henni að einhverju leiti svo það er erfitt að vera stöðugt trufluð við vinnu sem krefst mikillar einbeitningar.
Þegar við erum öll svona mikið meira heima eru heimilisstörfin líka meira íþyngjandi, það þarf að kaupa mikið inn, stanslaust verið að útbúa mat og elda og ganga frá eftir mat. Þarf líka að þrífa meira. Það er áberandi hvað við þurfum að kaupa mikið meira inn af mat í þessu ástandi.Kafli 4 af 8 - COVID-19 og börn

Hver eru helstu áhrif faraldursins á börn að þínu mati? Hafa þau börn sem þú þekkir verið frædd um hann og ef svo er með hvaða hætti?

Þetta hefur verið rætt á leikskóla dóttur minnar og þar var skoðaður bæklingur sem tekin var saman fyrir börn á leikskólaaldri. Ég skoðaði hann líka með henni. Endalaus handþvottur olli því að dóttir mín fékk exem á hendurnar svo við þurftum að kaupa karbamíðkrem og hanska fyrir hana að sofa með til að ná því niður.
Hún saknar þess að fara til vinna sinna að leika, saknar krakkanna sem eru ekki með henni í hóp á leikskólanum, saknar þess að heimsækja ömmur og afa, saknar þess að fara í sund, í húsdýragarðinn og bara allt þetta góða og skemmtilega sem við erum vön að geta gert.
Hún vildi framan af mikið fylgjast með fréttum en vill núna ekki heyra þær. Segir að það þurfi að vera fleiri fréttir sem eru ekki um veiruna.
Hún spyr reglulega spurninga um veiruna og hafði miklar áhyggjur af langömmum sínum og langafa að þau myndu veikjast. Henni fannst gott að vita að börn væru ekki í mikilli hættu á að veikjast (eins og held ég flestum, ég get eiginlega varla til þess hugsað hvernig ástandið væri í heiminum ef þessi veira herjaði illa á börn, þetta er alveg nógu erfitt samt).
Dóttir mín er að læra á fiðlu og núna eru fiðlutímarnir bara í gegnum tölvu. Fimleikar sem hún hefur verið í einu sinni í viku hafa fallið niður og hún saknar þeirra mjög mikið.Kafli 5 af 8 - Breyttar neysluvenjur?

Hvaða áhrif hefur faraldurinn haft á neysluvenjur þínar? Hefur þú verslað meira en venjulega eða öðruvísi vörur og ef svo er, hvað aðallega? Fæst allt í búðunum sem þú þarft á að halda? Getur þú sagt frá því hvernig það er að fara út og versla?

Mikið meiri innkaup, meira borðað heima, oftar eldaður kvöldmatur. Meira bakað heima. Við höfum yfirleitt fengið allt sem við höfum þurft að kaupa. Ég sá fyrst um að fara að versla og tók þá barnið með en eftir að reglur voru hertar gekk það ekki lengur. Ég var dugleg að spritta mig, kerruna og svona og reyndi að forðast að snerta andlitið. Við þvoum okkur alltaf um hendurnar um leið og við komum heim. Þvoum líka símana okkar.

Nú fer maðurinn minn í búðina, hann tekur stóra verslunarferð 1 sinni í viku, hefur ekki alltaf getað farið Bónus því þar hafa oft verið langar raðir. Hann fer svo 1-2 í viku og kaupir það sem upp á vantar.

Við höfum líka reynt að panta mat ca einu sinni í viku, bæði til að gera smá dagamun og til þess að gera okkar í því að halda veitingastöðum gangandi.

Í upphafi faraldursins bætti ég við perlusafnið, við keyptum nýtt spil (sem við höfum reyndar ekki enn haft andlegt þrek til að spila, það er eitthvað svo takmarkað pláss í heilanum þessa dagana).Kafli 6 af 8 - Vinnustaðurinn

Getur þú lýst því hvaða áhrif faraldurinn hefur á vinnustað þinn, ef að þú stundar vinnu?

Hef unnið heima frá í febrúar 2020 svo það á ekki við hjá mér.Kafli 7 af 8 - Eftir faraldurinn

Hvaða breytingar á siðum, vanabundinni hegðun eða íslensku þjóðlífi gæti faraldurinn hugsanlega haft í för með sér? Sérð þú eitthvað jákvætt eða neikvætt í spilunum og þá hvað, ef svo er?

Mér finnst erfitt að sjá það fyrir. Ég hugsa að amk á meðan ekki er til bóluefni verið minna um faðmlög og handabönd, sérstaklega við svona fjartengdara fólk. Ég hugsa að faðmlög, handabönd og kossar verði fljót að koma aftur fyrir fólk sem þekkist betur, nánustu fjölskyldu og svo framvegis. Líklega verður fólk almennt meðvitaðara um mikilvægi góðs og reglulegs handþvottar.
Það er bara svo margt óljóst í þessu enn sem komið er. Kannski verður heilbrigðiskerfið öflugra eftir þetta og betur fjármagnað.
Fjarfundir og myndsímtöl munu líklega verða algengari en koma aldrei í staðinn fyrir að fólk hittist í eigin persónu.
Ferðalög erlendis verða erfið væntanlega amk út þetta ár.Kafli 8 af 8 - Sögusagnir og orðrómur

Töluvert hefur verið um orðróm og ýmsar sögusagnir eða flökkusögur, jafnvel brandara, í kringum kórónaveirufaraldurinn og er oft erfitt að greina í sundur hvað er satt og hvað ekki. Með þinni hjálp vill Þjóðminjasafnið gera tilraun til að safna einhverju af þessu efni og varðveita til framtíðar. Segðu frá því sem þér er kunnugt um í þessu sambandi og hvernig þér hafa borist upplýsingar um það.

Ég verð að segja að mér kemur á óvart hvað hefur verið lítið um þetta. Ég hef aðeins séð á Facebook að fólk er að deila greinum frá svona hómópötum og þannig um bætiefni og slíkt sem á að koma að gagni til að styrkja ónæmiskerfið og svo framvegis en það hefur verið minna um það en ég hefði búist við. Kannski af því að ég er sjálf starfandi í vísindum sé ég slíkt minna, ég hef litla þolinmæði fyrir þvaðri í þessu ástandi og hef kurteislega bent fólki á ef það hefur verið að deila einhverju vafasömu.Ég hef aðeins orðið vör við xenófóbíu tengda þessu, fréttir um að þetta sé allt Kínverjum að kenna, allar tölur þaðan séu ómarktækar og svo framvegis en í raun ekki mikið. Ég held að almennt hafi þessi faraldur haft meiri áhrif á konur, sérstaklega þær sem eru með ung börn, finnst fleiri konur í kringum mig hafa þurft að minnka við sig vinnu en karlar. Líklega verður þetta smá bakslag fyrir atvinnuþátttöku kvenna og álagið vegna heimilisstarfanna fellur meira á þær.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana