LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiCOVID-19, Farsótt
Ártal2020
Spurningaskrá128 Lífið á dögum kórónaveirunnar

Sveitarfélag 1950Seltjarnarneshreppur
Núv. sveitarfélagSeltjarnarneskaupstaður
SýslaGullbringusýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1966

Nánari upplýsingar

Númer2020-1-248
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið3.4.2020/16.4.2020
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 8 - Upplýsingar um faraldurinn

Hvenær og hvernig fréttir þú fyrst af kórónavírusnum (COVID-19)? Hvar hefur þú helst sótt þér upplýsingar um veirufaraldurinn?

Ég sá fyrst fréttir af veiru sem hefði valdið hættulegum lungnasjúkdómi í Kína í fjölmiðlum snemma í janúar. Þá þegar höfðu vaknað áhyggjur af því að veiran gæti breiðst út um heimsbyggðina en fréttir voru þó óljósar og boðuðu engan veginn þær hamfarir sem síðar urðu. Ég hef fylgst nokkuð náið með fréttum síðan, fyrst og fremst á vefnum. Hef bæði skoðað almennar fréttasíður og svo sérstakar fréttasíður eins og covid.is og covid.hi.is. Þá hef ég sérstaklega kynnt mér skrif um efnahagsáhrif faraldursins og í því skyni skoðað bæði fræðigreinar og skýrslur frá ýmsum alþjóðastofnunum.


Hvernig finnst þér að til hafi tekist við að upplýsa almenning um faraldurinn? Treystir þú upplýsingum frá stjórnvöldum og fjölmiðlum?

Mér finnst það hafa tekist vel. Hef ekki séð annað en að reynt hafi verið að miðla réttum upplýsingum og hvorki að fegra stöðuna né að hræða almenning. Upplýsingagjöfin hefur verið skipuleg og skýr, þótt smátíma hafi tekið að koma talnaefni um fjölda smita o.fl. í skýrt og aðgengilegt form. Þá hafa daglegir upplýsingafundir gengið vel og þeir sem þar hafa verið í aðalhlutverki hafa staðið sig frábærlega, verið skýr, trúverðug og komið nauðsynlegum skilaboðum á framfæri. Ég treysti upplýsingum frá stjórnvöldum og flestum fjölmiðlum. Hef þó meiri fyrirvara á fréttum sem birtast á tilteknum miðlum en öðrum. Hef enga ástæðu til að efast um fréttir RÚV um faraldurinn t.d.Kafli 2 af 8 - Viðhorf og líðan

Segðu frá því hvernig að þér leið og hvernig að þú brást við þegar veiran byrjaði að gera vart við sig hér á landi og á heimsvísu. Hefur líðan þín eða upplifun breyst í takt við stóraukna útbreiðslu veirunnar?

Ég hef ekki fyllst ótta en er vissulega áhyggjufullur. Hef áhyggjur af samfélaginu, efnahagslífinu og mínum nánustu. Ljóst er að höggið verður þungt. Þegar þetta er skrifað (16. apríl) eru komnar nokkrar vísbendingar um að það versta kunni að vera yfirstaðið á Íslandi, þótt fullnaðarsigur á veirunni náist vart fyrr en bóluefni er komið og búið að bólusetja stóran hluta mannkyns. Það er fagnaðarefni og líka fréttir um að stjórnvöld telji að hægt verði að slaka aðeins á aðgerðum sem gripið var til, svo sem samkomubanni. Það kallar þó fram áhyggjur af annarri bylgju smita en í ljósi þess að fara á varlega er þó hægt að vona að faraldurinn blossi ekki upp að nýju á Íslandi, eða í nágrannalöndunum sem íhuga svipaðar breytingar. Staðan í öðrum löndum er mismunandi, sums staðar enn mjög slæm og jafnvel versnandi, annars staðar svipuð eða jafnvel betri en á Íslandi. Þessar fréttir draga úr áhyggjum af áhrifum faraldursins á heilsu og dánartíðni en efnahagslífið er enn í mjög djúpri lægð og sér ekki fyrir endann á henni.


Hefur faraldurinn haft áhrif á andlega líðan þína eða þinna nánustu? Ert þú t.d. hrædd(ur) eða óróleg(ur)? Hvaða ráð hefur þú til að takast á við þetta, ef svo er?

Það hafa allir áhyggjur, ungir sem aldnir. Áhyggjurnar hafa þó aðeins dvínað eftir því sem myndin hefur skýrst og betur liggur fyrir hvað er að gerast og í hvað stefnir. Það þurfti töluverða lagni til að útskýra málið fyrir yngstu fjölskyldumeðlimunum, sem eru 13 ára, en almennt hefur það þó gengið furðuvel. Fjölskyldan stendur þétt saman og ræðir málin. Við höfum líka verið dugleg að hreyfa okkur saman, hvort sem það eru bara göngutúrar með hundinn eða fara út að skokka. Settum m.a.s. upp smáleikfimiaðstöðu í stofunni þar sem elsta dóttirin stýrir hörkuæfingum nokkrum sinnum í viku. Þetta er gott fyrir bæði sál og líkama. Reynum svo að halda heimilislífinu í föstum skorðum, m.a. gæta þess að unga fólkið snúi ekki sólarhringnum við þegar ekki er skóli. Foreldrarnir hafa báðir að mestu unnið heima síðan háskólum var lokað fyrir nemendum. Elsta barnið hefur tekið nokkrar vaktir á sambýli fyrir fatlaða en að öðru leyti höfum við mest verið heima. Farið í matvöruverslun 2-3 sinnum í vku og einstaka sinnum í lyfjabúð en ekki aðrar verslanir. Pantað heimsendingu nokkrum sinnum og sótt mat á veitingastaði u.þ.b. einu sinni í viku. Fjölskyldan er stór, foreldrar, fimm börn og eitt tengdabarn sem býr með okkur, svo að við erum ekki einmana þótt við séum mest heima. Hittum líka vini og vandamenn á netinu, m.a. í „fjartýjum“.


Hefur lífsviðhorf þitt og trúarlíf hugsanlega breyst eftir að kórónaveiran gerði vart við sig með jafn afdrífaríkum hætti og raun ber vitni? Hvernig, ef svo er?

Held að þetta hafi lítið breyst. Þó hefur skilningur á því að mannkyn hefur ekki náð stjórn á öllum helstu hættum sem að því kunna að steðja orðið skýrari. Fyrir faraldurinn leiddi ég lítt hugann að slíkum hamförum en var þó vel meðvitaður um ýmsar aðrar, svo sem fjármálakrísur eða náttúruhamfarir á við eldgos og jarðskjálfta. Þrátt fyrir allar heimsins framfarir getur mannkyn enn orðið fyrir þungu höggi af náttúrunnar hálfu - eða veitt sér það sjálft, með galinni uppbyggingu á fjármálakerfum eða stríðsrekstri, jafnvel nýrri heimsstyrjöld. Þessar hugsanir breyta kannski ekki lífsviðhorfinu en kenna ákveðna hógværð.


Hvernig mundir þú lýsa andrúmsloftinu í þjóðfélaginu eftir að faraldurinn fór af stað?

Það var mjög sérstakt. Blanda af ótta, jafnvel hræðslu, annars vegar og afneitun hins vegar. Staðan er ekki nema að litlu leyti sambærileg við síðustu krísuár, 2008-2010, því að ekki gætir reiði og tortryggni nú. Flestir virðast reyna að leggja sitt af mörkunum, þótt ekki hlýði allir Víði alltaf. Um skeið voru viðbrögðin aðeins of ofsakennd, sem leiddi m.a. til hamsturs á einhverjum nauðsynjum, svo sem salernispappír, en það róaðist fljótt. Nú ganga slík viðskipti nokkuð vel og flestir virða að mestu atriði eins og að halda 2 metra fjarlægð frá næsta manni. Það tók þó smátíma, í fyrstu voru enn einhverjir sem t.d. vildu anda ofan í hálsmálið á næsta manni fyrir framan í biðröðum við afgreiðslukassa.


Hvað finnst þér um að mega ekki lengur heilsa fólki með handarbandi eða að taka utan um það?

Sakna ekki handabandsins og get enn tekið utan um þá sem ég helst vil, þ.e. nánustu fjölskyldu enda búum við saman og enginn smitaður . Skil þó vel að það sé afar erfitt fyrir þá sem geta ekki tekið utan um fólk sem það vildi gjarnan knúsa.Kafli 3 af 8 - Samskipti og einkalíf

Hver eru helstu áhrif faraldursins á fjölskyldu- eða einkalíf þitt? Hvaða áhrif hefur hann t.d. haft á umgengni þína við annað fólk, tómstundir, ferðalög, þátttöku í félagsstarfi o.fl.? Hafa samskipti í gegnum tölvu að einhverju leyti komið í staðinn? Hvernig, ef svo er?

Fjölskyldulífið ber þess auðvitað merki að við erum saman undir einu þaki nánast allan sólarhringinn. Það hefur þó gengið furðuvel. Áhrifin á umgengni við annað fólk eru meiri. Maður hittir t.d. ekki vinnufélagana lengur, nema á fjarfundum. Börnin voru mjög virk í félagsstarfi fyrir faraldur, sérstaklega íþróttum, en það starf liggur allt niðri nú. Þau reyna að æfa sig heima í staðinn en það er mjög ólíkt því sem þau eiga að venjast. Það var talsverð breyting þegar grunnskólar opnuðu aftur því að nú hitta grunnskólanemarnir tveir a.m.k. vinina daglega og geta spjallað aðeins saman. Þau voru þó alltaf dugleg í alls konar samskiptum á samfélagsmiðlum. Það eru þeir sem eldri eru lika. Fjartý koma í stað veisluhalda og eru vissulega skárri en ekkert. Ferðalög eru engin milli landa og mjög lítil innanlands. Hluti fjölskyldunnar fór þó í helgarferð í sumarbústað í febrúar en hefðbundin páskaferð þangað féll niður - við hlýðum Víði! Vonandi getum við þó farið aftur fljótlega enda virðist ekki vera mælt gegn því. Vonumst líka til að geta ferðast eitthvað innanlands í sumar, bíðum eftir því að sú mynd skýrist.


Átt þú eða hefur þú átt ættingja eða vini á sjúkrastofnum sem þú hefur ekki fengið að heimsækja eftir að faraldurinn braust út? Hvernig hefur heimsóknarbannið haft áhrif á þig og fjölskyldu þína?

Við eigum enga vini eða ættingja í þeirri stöðu. Heimsóknarbann á sjúkrastofnanir hefur því ekki haft bein áhrif á okkur.


Hefur þú eða einhver þér nákomin(n) veikst af COVID-19 veirunni? Viltu segja frá því hvernig reynsla það er?

Hefur ekki gerst.


Þarft þú að vera heima vegna þess að þú ert í sóttkví, skólinn lokaður, vinnustaður þinn lokaður eða hálflokaður eða af öðrum ástæðum? Hvað gerir þú helst á daginn, ef svo er? Segðu frá því hvernig það er að vinna heima, ef það er inni í myndinni.

Vinnustaðurinn (Háskóli Íslands) er ekki lokaður mér en þar eru engir nemendur og engir fundir starfsmanna svo að ég hef unnið heima. Það er líka nánast nauðsynlegt með börnin heima. Þau eru orðin stálpuð og gætu því sjálfsagt bjargað sér sjálf að einhverju marki en til að halda reglu á heimilislífinu og t.d. tryggja að þau sinni náminu og snúi ekki sólarhringnum við er betra að foreldrar séu heima. Það dregur líka úr líkum á því að bera smit inn á heimilið. Þá er eitt barnanna fatlað og þarf stuðning við flestar daglegar athafnir og því þarf einhver að vera heima að sinna honum á meðan hann sækir ekki skóla og frístundaheimili. Það gengur nokkuð vel að vinna heima. Við tökum eitt barnaherbergið undir skrifstofu fyrir annað foreldrið á daginn og hitt foreldrið vinnur í stofunni eða í svefnherbergi. Þetta er ekki ákjósanleg aðstaða að öllu leyti en allt hefur bjargast. Sumt gengur betur en áður, m.a. fer enginn tími í ferðalög vegna funda!Kafli 4 af 8 - COVID-19 og börn

Hver eru helstu áhrif faraldursins á börn að þínu mati? Hafa þau börn sem þú þekkir verið frædd um hann og ef svo er með hvaða hætti?

Faraldurinn hefur talsverð áhrif á börn. Sérstaklega lokun skóla og frístundastarfs. Þá hafa okkar börn lítið leikið sér við jafnaldra sína undanfarnar vikur, til að lágmarka smithættu. Hafa þó farið nokkrum sinnum í fótbolta eða út að hjóla enda frekar litlar líkur á smiti við þær aðstæður. Við foreldrarnir höfum rætt faraldurinn ítarlega við öll börnin svo að þau hafa ágætan skilning á stöðunni. Fylgjast líka eitthvað með fréttum. Einhvers ótta gætti í fyrstu en verðum lítið vör við hann nú.Kafli 5 af 8 - Breyttar neysluvenjur?

Hvaða áhrif hefur faraldurinn haft á neysluvenjur þínar? Hefur þú verslað meira en venjulega eða öðruvísi vörur og ef svo er, hvað aðallega? Fæst allt í búðunum sem þú þarft á að halda? Getur þú sagt frá því hvernig það er að fara út og versla?

Neysluvenjurnar hafa aðallega breyst þannig að við förum eiginlega ekki í aðrar verslanir en matvöruverslanir og lyfjabúðir. Sáralítið hefur verið keypt af öðru, nema reyndar einn tölvuskjár, vegna fjarvinnu, og aðeins af íþróttavörum til að geta æft heima. Höfum ekki pantað heimsendingu á matvörum, nema kaffi, en reynum að fara sjaldan í matvörubúð, kaupa þá mikið í einu og fara þegar líklega er lítið að gera. Það gengur furðuvel að kaupa í matinn, allt er til og enginn troðningur lengur. Sendum alltaf einn út í búð núna en fyrir faraldur fóru börnin stundum með fullorðnum. Troðningurinn var reyndar ekki vandamál nema í örfáa daga, svo róaðist allt aftur. Örfáar vörur kláruðust, svo sem handspritt, en við náðum að kaupa það sem við þurftum og notum raunar lítið af sprittinu. Reynum frekar að nota sápu og vatn. Handþvottur hefur auðvitað aukist til muna. Kaupum núna mjög svipaðar vörur og áður. Það er kannski eitthvað meira bakað en við vorum raunar dugleg að baka, sérstaklega brauð, fyrir faraldur.Kafli 6 af 8 - Vinnustaðurinn

Getur þú lýst því hvaða áhrif faraldurinn hefur á vinnustað þinn, ef að þú stundar vinnu?

Vinnustaðurinn, Háskóli Íslands, hefur breyst mikið. Nemendur voru sendir heim og flestir kennarar fóru heim líka. Einhverjir vinna enn á skrifstofum sínum en það eru engir fyrirlestrar á staðnum, engir fundir og margt er lokað, svo sem íþróttahúsið, nemendaþjónusta o.fl. Kennslan hefur færst á netið. Það hefur gengið furðuvel, miðað við aðstæður, en á eftir að koma í ljós hve árangursrík kennslan hefur verið. Vitaskuld einhverjir byrjunarörðugleikar en allir yfirstíganlegir. Próf verða hins vegar erfið í framkvæmd svo að námsmat verður líklega frekar skrýtið og jafnvel ófullkomið.Þetta misseri, þ.e. vormisseri 2020, verður því skrýtið og hætta á að brottfall nemenda aukist eða þeir tefjist í námi. Vonandi verður ástandið orðið skárra í upphafi haustmisseris en þó er allt eins víst að kennsla geti ekki orðið að öllu leyti eins og fyrir faraldur þá, m.a. er hætt við að stærstu fyrirlestrarnir verði ekki í boði með hefðbundnu sniði. Það á þó eftir að koma í ljós. Rannsóknir halda að mestu áfram þótt áherslur breytist eitthvað, þ.e. margir reyni að rannsaka einhvern flöt á faraldrinum í stað þess sem þeir hefðu rannsakað ella. Ráðstefnur eru ekki haldnar, nema einhverjar tilraunir til halda þær í gegnum fjarfundabúnað.Kafli 7 af 8 - Eftir faraldurinn

Hvaða breytingar á siðum, vanabundinni hegðun eða íslensku þjóðlífi gæti faraldurinn hugsanlega haft í för með sér? Sérð þú eitthvað jákvætt eða neikvætt í spilunum og þá hvað, ef svo er?

Það á vitaskuld allt eftir að koma í ljós. Kannski hættum við handabandi að mestu - það er ekki stórtjón enda margar þjóðir sem nota það ekki með sama hætti og gert er í okkar heimshluta. Einnig er hugsanlegt að sú reynsla af fjarvinnu og fjarfundum sem fengist hefur verði til þess að eitthvað af því haldi áfram. Það er t.d. freistandi tilhugsun að hægt verði að draga úr ferðalögum, hvort heldur er innanbæjar eða lengra, til að fara á fundi. Slík þróun væri vitaskuld umhverfisvæn en gæti líka aukið framleiðni. Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott!Aðrar breytingar geta líka orðið. Rót og þrengingar geta bæði þjappað þjóðinni saman og grafið úr samstöðu, t.d. ef mikil reiði eða leit að sökudólgum brýst út. Vonandi gerist hið fyrra nú en það vitum við varla fyrr en eftir á.Kafli 8 af 8 - Sögusagnir og orðrómur

Töluvert hefur verið um orðróm og ýmsar sögusagnir eða flökkusögur, jafnvel brandara, í kringum kórónaveirufaraldurinn og er oft erfitt að greina í sundur hvað er satt og hvað ekki. Með þinni hjálp vill Þjóðminjasafnið gera tilraun til að safna einhverju af þessu efni og varðveita til framtíðar. Segðu frá því sem þér er kunnugt um í þessu sambandi og hvernig þér hafa borist upplýsingar um það.

Hef ekki heyrt mikið sem kalla mætti orðróm eða flökkusögur. Það er þó vissulega veruleg óvissa, jafnvel hjá þeim sem best þekkja til, um lykilþætti eins og útbreiðslu faraldursins, hve margir hafa þegar byggt upp ónæmi o.fl. Því er mat manna á stöðunni misjafnt, sumir eru svartsýnni en aðrir. Það er líka einhver ágreiningur um hve langt á að ganga í aðgerðum til að sigrast á veirunni. Sumir vilja ganga miklu lengra en gert er, aðrir vilja ganga skemur. Jafnvel hafa heyrst raddir í þá veru að þetta sé meira eða minna óþarft og skaðlegt upphlaup og verið sé að skaða efnahagslífið að óþarfa. Þær raddir eru þó ekki mjög háværar, a.m.k. ekki enn, en gætu orðið háværari ef íþyngjandi aðgerðir verða mjög langvarandi.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana