126 Eurovision-hefðir
Kafli 1 af 7 - Fyrir daga beinnar útsendingar
Í hve miklum mæli fylgdist þú með söngvakeppninni áður en farið var að senda hana beint út á Íslandi?
Ég fylgdist stundum með söngvakeppninni.
Var haldið upp á keppnina í þá daga? Hvernig, ef svo var?
Ég held að það hafi ekkert verið sérstaklega mikið gert úr keppninni þarna, allavega ekki á mínu heimili.
Kafli 2 af 7 - Áhorf í beinni útsendingu
Hverju breytti það fyrir þig að farið var að senda söngvakeppnina út beint?
Það varð meira spennandi að vita til þess að maður væri að horfa á beina útsendingu.
Hve mikið hefur þú fylgst með keppninni í gegnum tíðina? Er fylgst með öll kvöldin?
Ég hef nánast alltaf fylgst með henni eftir að farið var að senda út beint og núorðið reyni ég að horfa öll kvöldin. Ef ég missi hins vegar af einhverju þá er það ekki neitt sem ég trega mikið...
Hve löngu fyrir keppnina er byrjað að fylgjast með? En eftir keppnina? Fylgist þú t.d. með kynningu á keppendum eða þáttum þar sem spekingar spá fyrir um úrslitin?
Ég fylgist með fréttum af keppninni áður en hún er haldin og horfi stundum á þætti þar sem spáð er fyrir um úrslit. Eftir að keppninni lýkur fylgist ég hins vegar ekkert með neinu í tengslum við hana.
Nokkur undanfarin ár hefur íslenska úrslitakeppnin verið send beint út frá Háskólabíó, hefur þú farið og ef svo er hvernig upplifun er það?
Nei, hef aldrei farið.
Kafli 3 af 7 - Keppnin í heimahúsum
Lítur þú hugsanlega á sönglagakeppnina sem hátíð og ef svo er af hverju? Á það við einhvern sérstakan dag keppninnar fremur en annan? Hvaða dag?
Ég lít á sönglagakeppnina fyrst og fremst sem gott sjónvarpsefni og skemmtilega afþreyingu, það er gaman að heyra lög frá hinum mismunandi löndum og heyra sungið á mismunandi tungumálum. Aðaldagurinn í mínum huga er einfaldlega sjálfur lokadagurinn, þar sem úrslitin ráðast.
Margir eru með Evrovision-partí eða -boð í heimahúsum, hvenær manst þú fyrst eftir að farið var að halda þau? Hefur þú sjálf(ur) haldið þannig partí eða tekið þátt í þeim? Hverjum er boðið?
Ég hef aðeins einu sinni haldið partý vegna Evrovision og það var í fyrsta skiptið sem Ísland tók þátt, 1986. Þá var ég búsett á Spáni ásamt fjölskyldu minni, við vorum mjög spennt fyrir þessu og í félagi við íslenska vini okkar sem þá voru líka búsettir í sömu borg var ákveðið að halda partý. Þangað var boðið spænskum vinum og var veislan haldin í íbúð sem vinir okkar voru með á leigu. Þar var ekkert sjónvarp en við leigðum sjónvarp (eins og tíðkaðist talsvert í þessari borg á þessum tíma) og gerðum auðvitað ráð fyrir að sigra í keppninni. Mikil spenna var í loftinu en þegar að stundinni kom reyndist sjónvarpið ekki virka svo partýið var haldið án þess að við gætum horft á keppnina! Mjög skemmtilegt partý en við fréttum svo löngu seinna, líklega með bréfum að heiman í hvaða sæti Ísland hafði lent.Hins vegar skapaðist sú hefð í nokkur ár að dóttir mín bauð vinkonum sínum heim þegar keppnin var haldin, þetta hefur líklega verið á árunum 1991 til 1996-7. Ég var þá líka heima og fylgdist með keppninni óbeint.
Ef að þú heldur ekki boð eða partí, hvers vegna gerir þú það ekki?
Mér finnst bara fínt að horfa á keppnina með öðrum fjölskyldumeðlimum eða ein, finnst engin ástæða til að gera meira úr kvöldinu en það.
Kannast þú við að fólk skreyti hýbýli sín að utan eða innan í tilefni af keppninni? Hvernig skreytingar eru þetta, ef svo er? Hve lengi hafa þannig skreytingar tíðkast?
Þekki það í raun ekkert af eigin raun en veit af fólki sem hefur verið að skreyta hjá sér.
Er farið í leiki (hvaða leiki), spurningakeppni eða sungið (hvað er spurt um og hvaða lög eru helst sungin)?
Þekki heldur ekki til þess.
Þekkir þú að veðjað sé um hvaða lag vinnur og hvað er í verðlaun? Ef svo er, segðu frá því hvernig þetta gengur fyrir sig.
Ekki hjá fólki sem ég þekki, aðeins á mínum vinnustað, sjá síðar.
Kannast þú við að höfð séu þemu í Eurovision-partíum? Hvaða þemu ef svo er? En að fólk klæðist búningum og þá hvernig búningum?
Ekki hugmynd um slíkt hjá fólki sem ég þekki.
Hvaða veitingum (mat og drykk) manst þú eftir að boðið hafi verið upp á?
Hef ekki verið í svona veislum nema á mínum vinnustað þar sem keyptar hafa verið sérstaklega skreyttar kökur undanfarin tvö ár, í ár var t.d. kaka skreytt með mynd af Hatara og kaffistofan skreytt með svörtum blöðrum og lakkrísreimum!
Hvort er haldið meira upp á íslensku forkeppnina eða alþjóðlegu keppnina að þínu mati? Eru haldin partí í tilefni af báðum keppnunum og hvaða munur er á þeim, ef einhver? Hve lengi stendur gleðin eftir að keppninni lýkur?
Ég held að núorðið sé svipað mikið fylgst með forkeppninni og hinni alþjóðlegu en hef á tilfinningunni að partý séu aðallega haldin í tengslum við aðalkeppnina og þá sér í lagi ef Ísland hefur komist áfram. Hjá þeim sem ég þekki lýkur gleðinni strax eftir að keppnin er búin.
Kafli 4 af 7 - Partí á skemmtistöðum
Hefur þú farið í Eurovision-partí á börum eða skemmtistöðum? Hvaða stöðum? Hvað er gert í þessum partíum?
Nei, hef aldrei farið.
Hvaða skemmtikröftum manst þú eftir sem komið hafa fram? Áttu þér einhvern uppáhalds skemmtikraft?
Páll Óskar tengi ég alltaf við Evrovision, hann hefur oft verið með ball í tengslum við keppnina. Ég á engan uppáhalds skemmtikraft, finnst mjög margt áhugavert og skemmtilegt fólk í tónlistarlífinu hér á Íslandi.
Kannast þú við And-Eurovision-partí? Hvar hafa þau verið haldin og hvað er gert? Hefur þú mætt? Þekkjast slík partí í heimahúsum?
Kannast ekki við slík partý.
Kafli 5 af 7 - Eurovision á vinnustöðum
Er fylgst með söngvakeppninni á vinnustöðum? Hvernig, ef svo er?
Já, það er heilmikið rætt um keppnina á mínum vinnustað, spáð í spilin, rætt um lög og flytjendur o.s.frv.
Veðja vinnufélagar um hvaða lag vinnur? Hvernig ganga þessi veðmál fyrir sig,ef svo er, og hvað er í verðlaun?
Á mínum vinnustað hefur undanfarin tvö ár verið blásið til veðmála, fólk hefur þá giskað á hvaða lag sigrar í keppninni annars vegar og í hvaða sæti Ísland lendir hins vegar. Þeir sem taka þátt kaupa eitthvað (hvað sem er bara) fyrir 500 kr. og leggja í púkk, svo eru veitt fyrstu, önnur og þriðju verðlaun fyrir hversu nálægt réttum úrslitum fólk er.
Getur þú sagt frá Eurovision hefðum á leikskólum?
Ég er leikskólakennari og fylgist þannig vel með því hvernig börn líta á keppnina. Á mínum vinnustað (og þar sem ég vann áður) hefur tíðkast að láta eiginlega börnin ráða ferðinni hvað varðar áhuga og umfang umfjöllunar, það er mjög misjafnt á milli ára hversu vel lög ná fótfestu hjá börnunum. Sum árin eru lög sem börnunum þykja mjög skemmtileg og þá eru þau lög mikið spiluð og sungin en önnur lög njóta ekki mikilla vinsælda hjá börnunum og þá fer umræðan að mestu fram í þá veru að rætt er almennt um keppnina, hvort þau hafi horft og þess háttar. Dæmi um lag sem náði einstaklega vel í gegn er auðvitað Pollapönk lagið sem hefur náð að festast talsvert í sessi og er enn sungið öðru hverju þó svo að þau börn sem eru nú í leikskólanum séu of ung til að muna eftir því í keppninni eða voru einfaldlega ekki fædd þegar það var. Það er ekki unnið með sérstakt þema í kringum keppnina og ég veit ekki til þess að slíkt sé gert í þeim leikskólum sem ég þekki til, - það þarf þó alls ekki að þýða að það sé ekki gert einhvers staðar.
Kafli 6 af 7 - Á erlendri grundu
Hefur þú sótt keppnina heim í útlöndum? Hvernig upplifun var það og hvað er þér helst minnisstætt?
Nei, hef aldrei gert það.
Hvað annað hafðir þú fyrir stafni í ferðinni en að fylgjast með keppninni?
Aldrei farið.
Kafli 7 af 7 - Annað
Segðu frá því sem þér finnst um söngvakeppnina. Hvaða máli skiptir hún fyrir þig? Ef að þú heldur ekki upp á keppnina er eigi að síður mikilvægt að fá upplýsingar um afstöðu þína til hennar.
Mér finnst söngvakeppnin mjög skemmtileg og alltaf ákveðin jákvæð stemning sem skapast í kringum hana. Íslendingar halda alltaf að þeir séu nú loks að fara að sigra í keppninni og það finnst mér mjög bjartsýnt og indælt viðhorf! Það skapast umræður og samræður í samfélaginu, hverjum finnst sitt en þetta er alltaf spennandi og ég hlakka alltaf til þegar þessi hringekja fer í gang á vorin.