129 Ísbjarnarsögur
Kafli 1 af 5 - Ísbjarnarkomur
Hefur þú, eða einhver sem þú þekkir, orðið persónulega var/vör við ísbirni hér á landi? Getur þú sagt frá þeirri reynslu, m.a. hvar sást eða heyrðist til dýranna, hvenær (hvaða ár), hvernig þau hegðuðu sér og hvernig þú eða aðrir brugðust við?
Ekki ég persónulega eða neinn sem ég þekki. Hins vegar var einn þeirra sem felldu bjarndýr á Horni 1963 föðurbróðir vinkonu mömmu. Afi minn sagðist hafa verið á bryggjunni þegar mennirnir komu til Ísafjarðar með hræ dýrsins. Þar fengu þeir sem vildu kjöt af dýrinu (veit ekki hvort það var selt eða gefið) en afi minntist ekki á hvort að hann hafi fengið hjá þeim kjöt.
Hefur þú haft afspurn af ísbjarnarkomum (þ.e. án þess að hafa verið á staðnum)? Ef svo er, hvernig fréttir þú af þeim og hvernig var þeim lýst?
Hingað hafa fá bjarndýr ratað eftir að ég fæddist (1981) en auðvitað hefur vel verið fjallað um dýrin sem hafa komið 2008 og síðar, enda þá samfélagsmiðlar og internet komið til sögunnar, og ég drakk í mig umfjallanir, enda áhugamaður um hvítabirni. Ég man samt eftir að hafa lesið í blöðunum um hún sem drepinn var í Haganesvík 1988 og sá að mig minnir einnig frétt í sjónvarpinu þar sem bóndinn sem skaut húninn sat við hliðina á hræinu og Ómar Ragnarsson að taka viðtal við hann.
Af hverju telur þú að ísbirnir komi til Íslands? Hefur það ákveðna merkingu í þínum huga? Hvaða merkingu?
Hvítabirnir hafa vafalaust verið að heimsækja Ísland svo lengi sem landið hefur verið til, þó sjálfsagt í meira mæli í miklum ísárum. Þetta eru flökkudýr sem vafra um allt sitt líf í leit að æti og eru ekki talin eigna sér svæði svo að ég viti til. Ég tengi komur þeirra því ekki við loftslagabreytingar eins og sumir.
Hvað finnst þér að gera eigi við ísbirni sem koma til landsins?
Þetta er flókin spurning og veltur fyrst og fremst á því hvar þeir sjást og við hvernig aðstæður. Bjarndýr sem sést á Hornströndum mætti frekar reyna að handsama (að því gefnu að svæðið sé ekki fullt af ferðamönnum) en dýr sem sést nær þéttbýli til dæmis. En svo er það spurningin um hvar á að geyma dýrið og hvert á að fara með það. Grænlendingar vilja t.d. ekki að hvítabjörnum héðan sé sleppt á Grænlandi, sem er aðalhrindrunin að mínu mati. Að setja þá í dýragarða er spurning: bæði eiga þessi dýr ekki heima í dýragörðum að mínu mati og svo eru færri dýragarðar með hvítabirni en áður var.
Kafli 2 af 5 - Samskipti ísbjarna og manna
Hefur þú heyrt talað um að ísbirnir forðist manneskjur? Hvernig, ef svo er?
Á svæðum þar sem þeir eru veiddir forðast þeir sjálfsagt mikið manneskjur eins og heitan eldinn en vafalaust minna eða ekkert annars staðar. Annars fer það mest eftir persónuleika hvers dýrs: sum eru áræðin og hugrökk en önnur huglaus. Hvort dýrið er hungrað getur spilað inn í: hvítabjörninn lifir á ísnum, þar er nóg um bráð en hún er dreifð og erfitt að ná henni, þess vegna er besta uppskriftin að því að ná að verða saddur, alla vega annað veifið, að kanna alla lykt og það sem fyrir augu ber. Forvitni í bland við varúð er það besta sem bjarndýr getur beitt.
En að þeir drepi fólk og skepnur eða önnur dýr? Segðu frá því sem þú veist um þetta.
Hvítabirnir hafa vitanlega drepið fjölda manna víða gegnum tíðina en alls ekki eins marga og menn (sem) hafa drepið hvítabirni. Almennt drepa birnir bara það sem er þeirra náttúrulega fæða en skortur á henni getur leitt til örvæntingar. Hvort þeir hafi drepið hér búpening á árum áður er ekki útilokað í þannig tilfellum.
Hvaða tilfinningar vekja ísbjarnarkomur hjá þér eða öðrum í kringum þig (t.d. spenna, ótti eða hrifning)? Af hverju?
Smá spennu og mikinn áhuga en ég bý annars á svæði þar sem nánast útilokað er að bjarndýr gæti gengið á land. Þ.e. Grindavík. Það er að vísu til saga frá 16. öld um að bjarndýr hafi verið drepið í Herdísarvík en ein saga á 2000 árum er ekki nóg til að setja að manni neinn ótta, sérstaklega ef enginn er ísinn en sjálfsagt hefur verið nóg af honum allt í kringum landið þetta ár, eða að björninn hefur gengið á land e.t.v. á Austur- eða Suðausturlandi og náð að ferðast langa vegalengd áður en hann var drepinn.
Kannast þú við frásagnir um ísbjarnardráp? Hvaða aðferðir voru notaðar við drápið? Komu önnur dýr við sögu? Hvað var gert við skrokkinn og feldinn?
Hef heyrt margar frásagnir: misgóð skotvopn hafa verið notuð við nánast öll dráp á þeim síðustu tvöhundruð árin eða svo. Dýrið sem kom á Strandir 1932 var fellt með hálfónýtri fuglahaglabyssu ofan af húsþaki til dæmis og með bóndanum sem skaut voru vinnumenn vopnaðir eitthvers konar ljáum og beittum verkfærum. Engin dýr hafa komið við sögu við drápin sjálf svo að ég muni eftir að hafa heyrt. Öll dýr sem hafa verið felld hér eftir 1969 eru til á mismunandi söfnum. Önnur hafa varðveist sem feldir aðeins og væntanlega í einkaeigu. Bóndinn sem drap dýrið á Ströndum 1932 seldi feldinn skipstjóra úr Reykjavík ef ég man rétt. Væntanlega hefur kjötið alltaf verið étið framan af: kjötið af dýrinu sem var fellt á Horni 1963 var gefið eða selt án athugasemda yfirvalda en þeim sem felldi húninn í Haganesvík 1988 var bannað að selja kjötið af honum til veitingastaðar í Reykjavík, enda þá kominn meiri þekking á matvælaöryggi sjálfsagt.
Þekkir þú til uppstoppaðra ísbjarna eða annars konar leifa af þeim? Hvaða leifa og hvar eru þær varðveittar? Hvar og hvernig drápust þessi dýr?
Ég hef séð nokkra uppstoppaða birni hér á landi: allir voru þeir skotnir hér: Grímseyjarbjörninn á safninu á Húsavík og annan sem skotinn var á Grímseyjarsundi nokkrum árum seinna sem var allavega uppsettur á Ólafsfirði, sá hann þar sem barn en veit ekki hvort hann er enn þar. Tel svo að ég hafi séð 1-2 birni uppsetta í viðbót. Man ekki eftir að hafa séð annars konar leifar af íslenskum bjarndýrum.
Þekkir þú einhver ráð eða aðferðir til að vernda sig gegn ísbjörnum? Hvaða úrræði?
Fyrir utan skotvopn voru náttúrulega ýmiskonar húsráð til í gamla daga: misgáfuleg vissulega í eyrum nútímanmanna. Þórir heitinn Haraldsson sem manna mest vissi um hvítabirni á Íslandi (dóttir hans gaf út bók um efnið fyrir 2 árum í minningu hans) sagði að víða þar sem líklegra væri en annars staðar að búast mætti við björnum var börnum gefin nöfn á borð við Björn og Birna og var það talið þeim til verndar þar sem björn myndi ekki ráðast á nafna sinn.
Hefur þú heyrt um vinsamleg samskipti ísbjarna og manna? Hvernig lýsa þau sér, ef svo er?
Ekki nema í þjóðsögum og maður getur ekki útilokað að eitthvað í þeim eigi sér stoð í raunveruleikanum. Drengurinn sem varð fyrst var við dýrið í Grímsey 1969 horfðist í augu við dýrið en það gerði honum ekkert. Hvort það gæti flokkast sem vinsamleg samskipti er spurning sem ég treysti mér ekki til að svara.
Kafli 3 af 5 - Ísbjarnar-örnefni
Þekkir þú einhver bjarndýrs-, ísbjarnar- eða hvítabjarnar- örnefni? Viltu telja þau upp og hvar á landinu þau eru? Hvaða frásagnir kannt þú um þessi örnefni?
Ég veit að það er hellingur af þeim og sjálfsagt flest á Vestfjörðum og Norðurlandi en man í svipinn ekki eftir neinum.
Kafli 4 af 5 - Þjóðlegur fróðleikur um ísbirni
Ýmsar sögur og sagnir um ísbirni eru þekktar hér á landi. Segðu frá því helsta sem þér er kunnugt um þetta efni. Frásögnin má gjarnan vera löng og ýtarleg. Hvað hefur þú t.d. heyrt um að það boði ógæfu að drepa ísbirni eða að þeir séu menn í álögum? En að ísbirnir skilji mannamál? Hvað boðar það að dreyma ísbjörn? Þekkir þú frásagnir um samskipti ísbjarna og ófrískra kvenna? Hvað er „bjarnylur“? Getur þú nefnt dæmi um nafngjöf sem tengist þjóðtrú um ísbirni (Björn, Bjarni t.d.)? Hvaða önnur trú eða trúarviðhorf tengjast þeim?
Ég hef heyrt um allt ofangreint sökum áhuga míns á hvítabjörnum en hef í raun engu við að bæta við þær vel þekktu sögur. Hvað varðar að dreyma hvítabjörn þá er eftirfarandi á Draumur.is:
"Ef bjarndýr eltir þig í draumi, muntu verða ofsóttur af óvinum þínum. En ef þér tekst að komast undan birninum, þá muntu sigrast á örðugleikunum. Yfirleitt eru bjarndýr í draumi mjög sterk aðvörun. Átök við bjarndýr boða straumhvörf í lífi þínu. Að sjá bjarndýr í búri er tákn um að þín bíði velgengni í framtíðinni. Dansandi bjarndýr er merki um heppni í viðskiptum. Einnig er talað um að ísbjörn geti boðað heimsókn háttsetts manns."
Þekkir þú vísur, brandara eða fleira í þeim dúr um ísbirni? Geturðu sagt frá þessu?
Eini brandarinn sem ég man eftir er held ég af Ströndum. Þar var sagt að menn ættu að ganga um með öfugan hanska. Ef bjarndýr færi að elta mann skyldi maður henda hanskanum aftur fyrir sig og þá myndi björninn stoppa, setjast niður, og ekki halda áfram eltingaleiknum fyrr en hann væri búinn að snúa öllum fingrunum við.
Kafli 5 af 5 - Ísbirnir í myndlist
Þekkir þú málverk eða önnur listaverk af ísbjörnum? En veggskreytingar eða veggjakrot af ísbjörnum? Hvar á landinu eru þessi verk? Hverjir eru höfundar þeirra? Átt þú sjálf(ur) listaverk af ísbirni? Þú getur valið um að lýsa þessum listaverkum eða að senda okkur ljósmynd(ir) af þeim á vefsíðunni sarpur.is. Einnig má notast við netfangið thjodhattasafn@thjodminjasafn.is.
Ég á engin listaverk tengd hvítabjörnum sjálfur og man í fljótu bragði ekki eftir að hafa séð nein, hér á Íslandi alla vega.
Hefur þú í fórum þínum aðra gripi, muni eða myndir sem tengjast ísbjörnum? Hvað er hér helst um að ræða, ef svo er?
Ekki gripi héðan frá Íslandi en hef keypt ýmislegt á Svalbarða og Grænlandi, þó ekki raunverulega hluta af bjarndýrum svo sem skartgripi, það vil ég ekki gera enda ekki hrifinn af verslun með vilt dýr eða hluta af viltum dýrum.