LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu


Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiHeimavistarskóli, Héraðsskóli, Skólalíf
Ártal1944-1946
Spurningaskrá115 Minningar úr héraðsskólum

StaðurGnúpufell
Annað staðarheitiNúpufell
ByggðaheitiAkureyri
Sveitarfélag 1950Akureyri, Saurbæjarhreppur Eyjaf.
Núv. sveitarfélagAkureyrarbær, Eyjafjarðarsveit
SýslaEyjafjarðarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1926

Nánari upplýsingar

Númer2017-1-98
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið10.11.2017/19.3.2019
TækniHandskrift

(..1..)

Haldið í héraðsskóla.
Ég var á Núpi í Dýrafirði veturna 1944-45 og 1945-46 skólinn var staðsettur í heimasveit, ég þekkti til þar.
Ég var yngst 14 systkina sem öll komust til þroska. Faðir minn f.1868 móðir mín f.1881 Þau voru árið 1944 orðin útslitin og auk þess hafði móðir mín fengið slæma blóðeitrun í hendi og var talsvert fötluð. Elsti bróðir okkar hélt heimilinu saman þegar hér var komið sögu, því engin öldrunar heimili voru þá á Vestfjörðum.


Vægt til orða tekið var ekki miklu til að tjalda, með skólaundirbúning hjá mér, ég átti nánast ekkert. Systur mínar tvær sem ógiftar voru, komu heim um haustið og voru örfáa daga hvor. Báðar gáfu þær mér kjólaefni og saumuðu kjóla á mig og mamma gaf efni í pils sem líka var saumað handa mér. Bróðir minn Sæmundur sem var sjómaður, hafði lofað að lána mér peninga fyrir skóladvöl og svo hafði ég fengið ofurlítið sumarkaup. Ég átti tvær ær og lagði lömbin þeirra inn í Kaupfélag Dýrfirðinga. En það geisaði stríð, það var skömmtun á nánast öllu og erfitt með aðflutta vöru. Samt gat ég tekið út svolítið af nauðsynjum ss. Nærfatnað og sundbol, einnig dúnhelt efni í nærver á sæng, dúnn fékkst frá æðarbændum á Mýrum, ég bjó sjálf til sængina. Lopa hafði ég fengið veturinn áður, undið hann upp mörgum sinnum( til að fá meiri snúð) og litað með leiðsögn systur minnar, sem bjó á næsta bæ. Svo prjónaði ég mér peysu með smárabekk. Þessi lopapeysa varð aðal jakkinn í skóla næstu þrjá vetur.


Eins og kunnugt er, var stór herstöð í Hvalfirði. Þar unnu bræður mínir tveir og mágur. Þar var mikið umleikis og mörgu hent. Ef nokkur minnsti galli var á flugvéladekki var engin áhætta tekin og dekkinu umsvifalaust fargað. Í þessum dekkjum voru úrvals gúmmíslöngur sem fólk mátti hirða og heima hjá systur minni og mági sem bjuggu í grennd við herstöðina, var sniðið raspað og límt og búnir til gúmmískór. Þau sendu okkur fjögur pör eitt par á heimilismann og þetta var hið besta skótau. Menn hirtu líka tómu mjölpokana frá hernum, þetta fór annars á haugana. Eitt sinn haustið áður en ég fór í skólann, þegar fiskibátur kom til Þingeyrar, frá akranesi held ég, kom frá bróður mínum til okkar, stærðar sekkur fullur af tómum svona pokum. Þetta var mikið happ fyrir okkur, við mamma vorum marga daga að þvo lagerinn. Það þurfti að sækja allt vatn í bæjarlækinn, bera út skolpið. Það þurfti að þvo með höndunum í bala, skrúbba, nudda á bretti með grænsápu og sjóða svo léreftið í potti á eldavélinni. Svo þurfti að fara með alla pokana og skola vel úr bæjarlæknum áður hægt var að hengja þvottinn til þerris. Verst var að ná rauðleitu stöfunum úr. En þarna gat heimilið endurnýjað rekkjulínið dálítið og ég fékk efni í tvö sett af sængurlíni. Svo voru búin til handklæði og þvottapokar. Haframjölspokarnir voru stærstir, þeir urðu að sængurverum, þeir minni, lök, koddaver og annað smálegt.

Tengsl við fjölskyldu og heimili
Það er haust 1944 og komið fram í miðjan okróber. Ég orðin fullra 18 ára og skólinn að byrja. Það er löng leið út að Núpi, það þarf að fara sjóleiðina. Ég er með aleiguna í farteskinu og það eru öngvir vegir eða brýr yfir árnar á þessari leið frá innstu bæjum. En bróðir minn er búin að biðja nágranna sem á góðan vélbát og býr hinumegin við fjörðinn að taka mig með, þegar hann fer með son sinn í skólann.
„Nú ert þú að fara úr þessu skjóli sem þú hefur átt hér, út í heim sem er harður, óvæginn og viðsjáll. Vertu aðgætin. Þú verður algerlega að bera ábyrgð á sjálfri þér, orðum þínum og gerðum. Vertu ávallt heiðarleg. Segðu ávallt satt, segðu heldur ekkert ef svo ber undir og passaðu þig á að skulda ekki, því sá sem skuldar er ekki frjáls maður“. Að svo mæltu blessaði hann mig og við féllumst í faðma og ég gróf andlitið í mikla hvíta skeggið hans, sem ég hafði svo oft strokið þegar ég sat sem barn á hné hans og hann var að kenna mér að lesa. Svo föðmuðust við mamma lengi og vel. Siggi bróðir fylgdi mér með farangurinn til sjávar, þar sem vélbátur nágrannans kenndi grunns í lendingunni. Ég var gripin af sterkum höndum og lyft í háaloft eins og barni og sett niður í bátinn miðskipa.
Tók með, rúmfatnað , klæðnað , snyrtidót og skriffæri. Ég var þrjá vetrarparta í barnaskóla og eftir fermingu sífraði ég stöðugt um að fá að læra meira og því gat ég nú sagt:“Gleði mín er djúp og rík“.


Nám hófst líkl. um miðjan október, prófskírteini mín eru dags.12 og 15 apríl, skólaárið hefur þá verið 6 mánuðir. Það var gott jólafrí, fólk gat farið heim, jafnvel á Patreksfjörð, Hornstrandir og Ísafjörð. Frekar stutt Páskafrí, man ekki um það.
Mér leið vel í skóla, allir voru mér góðir, ég var eldri en bekkjarfélagar og var stundum kölluð amma, það var allt í miklum góðheitum. Náin væntumþykja milli margra okkar nemendanna entist ævina út, þrátt fyrir að aðstæður mínar og fyrirætlanir breyttust skyndilega ég þyrfti að flytjast langt í burtu og samband yrði lítið.


Það var enginn sími milli bæja á þessum tíma, það var símstöð á Þingeyri og Gemlufalli svo og á Núpi, en sími var ekki út um dreifðari svæði. Það voru heldur ekki vegir eða brýr og dráttarvélar voru þá ekki komnar á hvern bæ. Símtöl og/eða smá heimsókn var útilokuð fyrir þá sem langt þurftu að ganga í allskonar færð. Og svo var ætlast til að nemendur notuðu tímann til að læra, það voru lestímar á virkum dögum eftir kvöldmat og framundir kl.22:00 að við áttum að fara í háttinn. Þessir lestímar voru undir eftirliti kennara í skólastofunum, og þetta var gott fyrirkomulag því fólk hafði þá frið til að læra undir morgundaginn. Einhver bréf fékk ég frá systrum mínum í Reykjavík og einhver bréf skrifaði ég til baka og einnig heim.


Ég var búin að þrá lengi að komast í þennan skóla, auðvitað var agalegt að fara frá mömmu og pabba svona gömlum og slitnum, en þau voru að fá elskulega tengdadóttir á heimilið.


Skólaslit
Taka þarf tillit til erfiðra samganga og ástands í landinu, það var ekki alsiða að fjölskyldumeðlimir nemenda, væru við útskrift. Alla vega var enginn nákominn hjá mér þennan dag, ekkert klapp eða óskir né veislukaffi. Vegna þess að sá bróðir sem ætlaði að hjálpa mér, fórst á jólanóttina 1944 ríkti sorg og óvissa í sál og hugurinn dapur.
Húsakynni og rými
Það fór gott orð af Núpsskóla. Aðsókn jókst eftir því sem hagur fólks batnaði. Í elstu byggingunni voru eldhús, borðstofan og annað sem að matargerð laut, einnig þvottahús og svo íbúð Björns Guðmundssonar, áður skólastjóra, einnig vistarverur þeirra sem matseld höfðu með höndum. Einhverntíma á barnsárum mínum var byggð rafstöð við Núpsána og þá var líka byggt annað skólahús þar sem kennslustofur voru og svo sundlaugin í kjallara. Síðan var byggt og lagað eins og fjármagn fékkst til og þegar ég var þarna var búið að mestu að byggja íbúð sem kennarinn Ólafur Kristjánsson frá Þambárvöllum og kona hans Sólveig áttu að fá en það var ekki búið að mála og svona. Þetta rými fegnum við stúlkur, fyrri veturinn.


Í herbergjunum voru tvær hákojur þ.e. tvö rúm hver efri og neðri, það versta við það var að þessi fjögur rúm voru sambyggð og ef einhver snéri sér í hærri koju ruggaði allt timburverkið. En maður vandist þessu. Svo var eitt rúm stakt, við vorum fimm í herbergi. Það var ekkert borð, ekki stólar, en hilla úr rúðugleri á vegg yfir vaski og spegill var líka. Við gátum setið á koffortunum okkar og rúmum. Það var hlýtt og rafljós um allt og það fór vel um okkur, engin kvartaði og samkomulag var gott. Í því herbergi sem ég var, vorum við allar fyrstubekkingar og vorum saman allan veturinn, annað man ég ekki. Ágæt snyrting fyrir herbergin, var svo frammi í enda gangs. Ég veit ekki hvað piltar voru margir saman. Seinni veturinn var búið að ganga frá efri hæðinni, Ólafur og Sólveig flutt inn niðri en við námsmeyjar úr báðum bekkjum, bjuggum í herbergjunum þar uppi yfir. Þau herbergi voru rýmri en húsbúnaður eins. Piltarnir voru í eldri byggingunni, uppaf skólastofunni. Vistarverur kynjanna, voru aðskilin rými. Þetta voru betri húsakynni en margir höfðu alist upp við og þarna var rafmagn til margra nota.
Skólastofur voru tvær samliggjandi, lokað með samanbrjótanlegri hurð, birta úr gluggum frá v.hlið skólatafla, borð sem tveir sátu við hvert, stólar og kennarapúlt. Framhaldsdeild var kennt í öðru rými í nýju byggingu. Kann ekki skil á þvi´.
Skólastjóri og kennarar með tilfallandi gesti skipuðu að sjálfsögðu innstu sæti, það er alsiða, hvort heldur í matsal eða ef voru einhverjir viðburðir. Ég held að nýnemar hafi sest meira tilviljunarkennt og fólk hélt sætum sínum allt skólaárið. Ég held að hvorki skólastjóri eða kennarar hefðu liðið neitt forgangsbrölt ef ekki var fötlun eða eitthvað annað var að.
Það var engin setustofa, við máttum nota skólastofu ef þurfti að ræða mál.


Mötuneyti og þvottahús
Það voru morgunmatur, hádegismatur, kaffi og kvöldmatur, man ekki tímalengd, en við fórum í lestíma eftir kvöldmat og þegar upp var staðið voru margir orðnir svangir, þá var farið að búrglugganum í eldri byggingunni, dumpað aðeins í rúðuna og hvít yndisleg hendi kom út með smurða rúgbrauðssneið sem hvarf í lófann á þeim sem næstur var og svo koll af kolli. Þetta skeði bara einusinni eða tvisvar í viku þegar vinnudagar voru lengstir. Ég vissi aldrei hvort kennarar vissu af þessu, en stúlkurnar í eldhúsi bökuðu öll brauð sjálfar og þetta var aldrei rætt svo ég vissi til.


Á boðstólnum var oft fiskur allavega matreiddur, soðinn steiktur o.s.frv. Kindakjöt í mismunandi útfærslum og saltað hrossakjöt, sem var soðið svo hakkað og búin til kássa og borin kartöflumús með, þetta gekk firna vel í mannskapinn. Það var þá ekki kominn kálormur á Vestfjörðum og það var oft kálmet með kjötmáltíðum og svo auðvitað kartöflur. Til hátíðabrigða var stundum heilsteikt lambalæri með rauðrófum, sultu og káli, ef það var til og sætsúpa á eftir. Og það var svolítið meira borið í brauðið með sunnudagskaffinu. Ávexti fengum við ekki, það var heimsstyrjöld og ekki hægt að fá nema lítið magn af ýmsu. Svo voru nemendur margir ekki vel fjáðir, það þurfti að taka býsna margt með í reikninginn með útgjöldin. Matar og kaffibrauð var mestalt bakað á staðnum, það leit vel út og var gott. Já maturinn. Það plægir enginn garðinn sinn með olíulausri vél. Unglingar sem eru að vaxa og vinna líkið mikið, þurfa mikla næringu, það var dásamlegt að vera vel saddur.
Nemendum, piltum jafnt sem stúlkum, var skylt að vinna í eldhúsi einn dag í senn og það fór bara eftir stafrófsröð, ef ég man rétt. Við flysjuðum kartöflur, lögðum á borð, hreinsuðum borð eftir máltíðir þvoðum upp og ýmislegt. Þetta var skemmileg tilbreyting og við lærðum margt. Svo fylgdu þau hlunnindi að kennari tók ekki þann nemanda upp þ.e. hlýða yfir, daginn eftir. Ég held að ég hafi verið þrisvar yfir veturinn. Hvað ræstingar snerti þá þurftum við að halda herberginu okkar hreinu og einhverju fleiru og ef við fengum að dansa á laugardagskvöldum var okkur skylt að skila húsnæðinu hreinu, við vorum svo mörg, að það var ekki mikið mál.


Þvottahús var í elstu byggingunni, þar þvoðu nemendur með hjálp og leiðbeiningum stúlku úr eldhúsi ég veit ekki hversu margir saman, það helgaðist af því rými sem þurkaðstaða og frágangur leyfði. Að sjálfsögðu var þvegið allt sem vatn þoldi. Ég held, eða það var almenn venja að skifta á rúmum tvisvar í mánuði. Ég var ekki í þvottakerfi skólans, það bjó í grenndinni öldruð kona sem drýgði tekjur sínar með að þvo fyrir sjómenn, og vegna mélpoka sængurlíns míns leitaði ég til hennar, það var ofraun stolti mínu að það blakti á snúrum rétt við skólabygginguna. En ég og flestar stúlkurnar þvoðum fínustu og viðkvæmustu flíkurnar okkar í stóra vaskinum frammi á baði. Það var afskaplega manneskjulegt samlíf á Núpi. Ef einhver lenti í óhappi með fötin sín og ekki var allstaðar margt til skiptanna, voru ævinlega hjálpandi hendur á lofti.


Skóladagurinn.
Skóladagur hófst með morgunverði man ekki hvort það var kl.8 eða síðar svo hófst kennslan og vinnudagurinn stóð með sínum frímínútum þar til lestími eftir kvöldverð rann út kl. að verða 10. Kennt var auðvitað 5 dagana. En ég veit ekki hvort ég man rétt að það hafi verið kennt fram að hádegi eða aðeins lengur á laugardögum. Á þessum árum var almennt unnið á laugardögum. Námsgreinar voru : Íslenska, danska, enska, munnleg og skrifleg tungumál saga, stærðfræði-algebra bókfærsla- og handavinna var 1 sinni í viku. Stúlkur lærðu að bródera, púða, dúka, koddaver og þannig en piltarnir voru við smíðar. Við fengum ekki aðra verklega þjálfun en að vinna í eldhúsi og þrífa og var bara farið eftir stafrófsröðinni. Við lásum námsbækurnar, kennarinn fór alltaf yfir kennsluefnið með okkur og við vorum tekin upp. Séra Eiríkur kenndi tungumálin ensku og dönsku, við vorum látin lesa á báðum tungumálum og okkur var kennt svolítið í framburði á dönsku, lesa og skilja og skrifa stíla, sömu aðferðir voru í ensku. Skólastjórinn var fremur strangur og ef eitthvað bar útaf kallaði hann nemendur gjarnan á sal til að lesa þeim lífsreglurnar.


Ég man að eitt sinn, annan hvorn veturinn kom Guðmundur G. Hagalín rithöfundur að Núpi og dvaldi þar líklega í hálfan mánuð, hann var að skrifa bók og las fyrir okkur á kvöldin við mikinn fögnuð.
Stúlkur og piltar fóru aldrei saman í leikfimi né í sund. Lítil sundkennsla var því sundlaugin var mjög lítil. Leikfimisalurinn var einnig lítill og þar voru bara grindur og hestur eða kista. Fyrri veturinn kom sendikennari frá ÍSÍ, hann hét Axel Andrésson. Hann kenndi okkur ögn í handbolta en húsakynni voru það þröng að það þurfti að kenna handboltann í skólastofunum og það var bara eitt mark og okkur stúlkunum var skipað í röð og við vorum látnar skjóta í mark. Það var ekki hægt að hafa alvöru handboltaleik vegna þrengslanna. Piltarnir voru þjálfaðir í fótbolta og var farið út þegar veður og aðstæður leyfðu. Alger kynjaskipting var því á milli handbolta og fótbolta. Seinni veturinn kom söngkennari. Hann hét Oddur Ólafsson ? frá Hálsi í Kjós. Hann þjálfaði okkur í rödduðum söng, bæði stúlkur og pilta. Svo var haldinn lokakóræfing og þá var öllum boðið sem störfuðu við skólann, einnig okkar aldraða séra Sigtryggi sem var mikill frumkvöðull að því að koma þessum skóla á fót og fyrsti skólastjórinn.
Við lásum inn á herbergjunum og að mestu fór tíminn um helgar í lestur því okkur var sett mikið fyrir. Allt heimanámið fór fram á heimavistinni og vann hver fyrir sig að ég hygg. Í minningunni finnst mér við alltaf hafa verið að lesa tungumálin og glósa.
Frímínútur voru stuttar og nýttust ekki til annars en að fara á salerni eða sækja bók. Stundum um helgar var farið með okkur í gönguferðir um nágrennið.


Hefðir.
Fyrri veturinn settum við upp leikinn Skugga Svein, það þurfti að útbúa búningana og skóna og allt var gert frá grunni og það var mikil vinna að safna öllum leikmunum sama. Ég man að ég var fengin til að sauma skinnskó á alla nema Ástu, og sýslumanninn ? þeirra skór voru sérlega vandaðir. Ég kunni aðferðina, lærði hana af móður minni. Leiktjöldin máluðu Björn Guðmundsson fv.skólastjóri og Sigríður Guðbjartsdóttir skólasystir mín frá Lambavatni á Rauðasandi. Hún var ákaflega listfeng og vað síðar stórbóndi á Láganúpi. Við fórum með leikritið til Þingeyrar, sýndum þar og fengum ágæta dóma. Allur hópurinn þurfti að ganga frá Núpi inn að Gemlufelli og fara þar yfir til Þingeyrar í ferju, setja upp sýninguna, sýna, taka sýninguna niður og fara til baka um nóttina. Þetta var mikið fyrirtæki enda hafa líklega bara verið sett upp leikrit annað hvert ár. Ég man að við vorum alsæl þegar heim var komið.


Innan skólans vorum við þjálfuð í framsögn og við þurftum sjálf að búa til eða finna einhver skemmtiatriði fyrir kvöldvökur. Tveir piltar voru með harmonikkur og þeir spiluðu fyrir dansi sem ekki var oft.1 desember var alltaf haldinn hátíðlegur og reynt að vanda til dagskrár. Stundum fór rafmagnið af á þessum árstíma og þá fór allt fram í myrkri.
Brandara kann ég ekki að segja. Guðmundur bróðir fæddur 1910 var nemandi á Núpi fyrir löngu. Hann gaf út bók, sem heitir Frjálsa Glaða líf, þar er ýmis fróðleikur bæði um Núp og Laugarvatn. Á þeim tíma var sr. Sigtryggur skólastjóri. Þar eru brandarar.
Ég varð ekki vör við orðræðu um dularfull mál, en ég vissi um að telpurnar voru eitthvað smálega að fikta við andaglas.


Félagslíf.
Það var reynt að hafa einhverja tilbreytingu a.m.k af og til um helgar. Nemendum var uppálagt að kjósa einhverja af skólafélögum í skemmtinefnd, þeir sem kosnir voru áttu að hafa frumkvæði að því að finna eða búa til skemmtiefni, finna stutta sögu eða ljóð til að lesa upp, búa til smáatriði eins og láta skugga af höndum eða einhverju, falla á vegg í allskonar skrítnum myndum. Seinni vetur minn á Núpi var þröstur sonur sr.Sigtryggs í skólanum, hann fékk langspil föður síns lánað á eina slíka kvöldvöku og spilaði á það nokkur alþýðulög fyrir okkur, það var svo sérstakt að heyra og sjá þetta forna hljóðfæri að það gleymist seint. Svo voru tveir skólapiltar með harmonikkur, stundum var spilað fleiri en danslög.


Ekki er vafi á að þetta var skipulögð þjálfun fyrir lífið sjálft og, sá er eldurinn heitastur sem á sjálfum brennur.“Ég var einhverju sinni í slíkri skemmtinefnd, þóttist hafa brageyra og valdi að lesa upp kvæði eftir stórskáld en man ekki hvern. Ég æfði mig af kostgæfni hvað fast að stuðlum og höfuðstöfum og að kvöldi gekk ég kotroskin í ræðustól og flutti ljóðið. Skólastjóri sat að venju á fremsta bekk og allt gekk elskulega og vel. En á næsta sal fjallaði skólastjóri um skemmtanahald efnisval og ýmsa þætti sem þyrfti aðgát við, og svo kom þessi setning.“Það er ekki nóg t.d. þegar verið er að lesa upp ljóð að vera að höggva á stuðlum og höfuðstöfum, efnið þar að njóta sín.“
Áfengi og tóbak voru alger bannvara, einhverjir reyktu smávegis, veit ekkert um viðurlög, veit ekki um sterkari efni.
Heimavist. Það var skipaður nemandi til að líta eftir að gengið væri vel um, gera viðvart ef eitthvað færi úrskeiðis t.d. krani bilaði og þannig, ekki var ætlast til að skólapiltar væru að snúast þar, fólk átti að vera háttað uppúr kl 10 að kvöldi.
Innan skólans veit ég ekki um kappleiki.


Það var ungmenna-félagsandi í héraðinu yngstu hópar voru í tóbaksbindindis félagi sem var til á barnsárum mínum. Ungmennafélögin héldu héraðsmót á hverju ári, þau voru haldin á Núpi snemmsumars. Þar kepptu ungmenni víða að, allt karlar eftir því sem ég veit best. Keppnisgreinar voru: hástökk, langstökk, þrístökk og e.t.v. eitthvað fleira þar voru skólapiltar margir þátttakendur, þeir sem komu langt að fengu gistingu í skólanum og keppendur mat, svo var almenningi selt kaffi.
Á síðustu skóladögunum vorið 1946 kom einhver frá stórstúkunni og þau okkar sem voru úr héraðinu, voru boðaðir á fund, þá var stofnuð stúkan Gyða nr. 120 nokkru seinna boðaði Björn Guðmundsson skólastjóri emerítus fund, þar var ég skipuð kapelán án þess að vita nokkuð um hvað málið snérist, en örlög réðu því að ég varð að fara seinna um vorið til Eyjafjarðar, svo að ég veit ekki enn hvað kapelán er.


Samskipti.
Minnisstætt er hversu allir voru færir hver á sínu sviði. T.d. ráðskonurnar, fyrri vetur var Hlíf Pálsdóttir þann síðari Elín Jónsdóttir. Báðar voru snilldar kokkar og þekkingarsvið beggja mjög yfirgripsmikið. Einnig voru aðstoðarstúlkur verkadrjúgar og þægilegar í viðmóti. Eins var um kennaraliðið, það var allt reglusamt öndvegisfólk.
Ég var þá ekki búin að lesa snilldarljóð Einar Ben. Eitt bros getur o.frv. En þessi gullkorn sem hrundu af tungu föður míns við skilnaðinn, seytluðu inn í sálina. Vissulega var ég nú komin í hóp fólks með mismunandi viðhorf og lífsreynslu og mér varð ljóst að allir þurfa að mæta einhverskonar áföllum. Ég reyndi að skilja, skoða og leggja mat á ólíkar skoðanir fólks á sama málefninu, ég tel að þær vangaveltur hafi fleytt mér eitthvað áfram til þroska.
Ég flutti frá heimahögum samskipti slitnuðu mjög. En vinátta við einstaka skólafélaga hefur enst ævina út.
Unglingar ársins 1944 höfðu nákvæmlega sömu þarfir og þrár eins og unga fólkið í dag en það var mjög strangur agi og eftirlit. Mér er samt kunnugt um að einhverjir félagar mínir voru í sambúð ævilangt.
Ekki varð ég vör við neina hershöfðingja tilburði.
Hafi verið um einelti eða áreiti að ræða, fór það framhjá mér.
Vegna búsetu minnar í Eyjafirði veit ég ekki hvort fólk úr dýrafirði eða nálægum sveitum hefur hist.

(..2..)


Kafli 1 af 9 - Haldið í héraðsskóla

Í hvaða héraðsskóla varst þú og á hvaða árum? Hvers vegna varð þessi skóli fyrir valinu?
Segðu frá undirbúningi fyrir skólavistina, kveðjum og brottför að heiman.
Hvað tókst þú með þér í skólann (rúmfatnaður, kassettutæki, spil, gítar, bækur t.d.)?
Hvað er þér helst minnisstætt frá fyrstu ferð þinni í skólann? Upplifðir þú eftirvæntingu eða kvíða?
Hve langt var skólaárið? Hvenær byrjaði það og hvenær endaði það? Hvenær voru frí?
Segðu frá skólalokum ár hvert og útskrift. Varstu fegin(n) að komast í burtu eða upplifðir þú eftirsjá eftir samfélaginu í skólanum?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 2 af 9 - Tengsl við fjölskyldu og heimili

Lýstu samskiptum við fjölskyldu þína meðan á skólavist stóð. Hve mikil voru þau og á hvaða formi (símtöl t.d.)? Var eitthvað um heimsóknir að heiman eða heim?
Hvernig upplifðir þú aðskilnaðinn við heimili þitt og þína nánustu (heimþrá, söknuður t.d.)?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 9 - Húsakynni og rými

Hvernig fannst þér húsakynni skólans vera svona almennt? Hvað var jákvætt og hvað var neikvætt?
Lýstu skólastofunum þar sem þér var kennt í stórum dráttum (innanbúnaður t.d.).
Hve margir voru saman í herbergi á heimavist. Hvað réði því með hverjum maður lenti? Hve lengi voru nemendur saman í herbergi (eitt skólaár t.d.)?
Segðu í aðalatriðum frá innanbúnaði í þínu herbergi. Hvernig var snyrtiaðstaðan t.d.?
Var ákveðin sæta- eða svæðaskipting í kennslustofum, matsal, heimavist eða annars staðar innan skólans? Eftir hverju fór það, ef svo var?
Hvernig hagnýttu nemendur sér sameiginleg rými (setustofu t.d.)?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 4 af 9 - Mötuneyti og þvottahús

Hvenær voru matar- og kaffitímar og hve langir?
Nefndu gjarnan hvað var á boðstólum, hvers konar réttir og kaffibrauð, frá ólíkum máltíðum dagsins. Var boðið upp á eitthvað til hátíðabrigða, hvaða daga og í hverju fólst þessi tilbreyting? Hvernig fannst þér maturinn (góður, einhæfur t.d.) ? Hvaða máli skipti hann (gleðigjafi, ávísun á samveru t.d.)?
Þurftu nemendur að vinna í mötuneyti eða borðsal, við ræstingar á skólahúsnæði eða önnur störf? Hversu oft og mikið?
Var þvottahús í skólanum? Hvað var þvegið af nemendum og hve oft í mánuði ef svo var?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 5 af 9 - Skóladagurinn

Hve marga daga í viku var kennt og hve langur var skóladagurinn?
Segðu frá bóklegri kennslu í stórum dráttum (námsgreinar, kennsluaðferðir t.d.).
Hvaða verklegar greinar voru kenndar? Hvað er þér helst minnisstætt? Var verklega kennslan kynjabundin á einn eða annan hátt og hvernig lýsti það sér ef svo var?
Fenguð þið einhverja aðra verklega þjálfun? Hverja ef svo var? Hvernig hefur þessi verklega kennsla eða þjálfun nýst þér í lífinu?
Hvernig var leikfimi- og sundkennslu háttað (hvað var kennt, tæki t.d.). Var kennslan mismunandi eftir kynjum og hvernig lýsti það sér ef svo var?
Hvað var helst gert í frímínútum? Var t.d. fótbolta- og körfuboltavöllur? Voru frímínútur skipulagðar eða alveg frjálsar? Hve langar voru þær og hve oft á dag?
Segðu frá heimanámi (reglur, ein[n] eða með öðrum, aðstoð, tímalengd t.d.).
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 6 af 9 - Hefðir

Hverjar voru helstu hefðir í skólanum að þínu mati (heiti, stund, staður, hvað var gert t.d.).
Manst þú eftir bröndurum eða sögum um skólann, próf, kennara og annað starfsfólk? Viltu segja frá þessu?
Segðu frá dularfullum fyrirbærum, þjóðtrú eða hjátrú, sem þekktist innan skólans (próf, húsakynni, yfirnáttúrulegar verur t.d.).
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 7 af 9 - Félagslíf

Í hverju fólst félagslíf í skólanum helst (viðburðir, skemmtanir, félög t.d.)? Hverjir skipulögðu félagslífið eða höfðu frumkvæði að því (nemendur, skólinn t.d.)? Hvernig var þátttakan (stelpur/strákar)?
Var hugsanlega litið á þátttöku nemenda sem félagslega þjálfun og því lögð áhersla á hana af hálfu skólans? Tóku kennarar þátt? Getur þú sagt frá þessu?
Hvaða íþróttir voru helst stundaðar? Voru nemendur örvaðir til þátttöku? Voru haldnar keppnir innan skólans eða við aðra skóla?
Hvaða reglur giltu um neyslu áfengis og tóbaks? Var farið eftir þeim? Hvernig brást skólinn við brotum á þessum reglum? Þekktust sterkari efni og ef svo var hvaða?
Hvaða reglur, skrifaðar eða óskrifaðar, giltu um heimavistina (svefntími, heimsóknir, eftirlit t.d.)?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 8 af 9 - Samskipti

Hvað er þér helst minnisstætt við starfsfólk skólans og samskipti þín við það (kennarar, starfsfólk í mötuneyti t.d.)?
Vera á heimavistarskóla hefur í för með sér mikil samskipti við aðra nemendur. Hvaða áhrif telur þú að þetta hafi haft á líf þitt bæði þá og til langframa?
Urðu til sterk vinasambönd? Hve lengi héldust þau sambönd, jafnvel til dagsins í dag?
Kanntu að segja frá samskiptum kynjanna (vinátta, kærustupör, kynlíf t.d.)?
Í heimavistarskólum hefur stundum verið talað um einstaklinga sem vilja ráða yfir öðrum nemendum (foringjar). Var um eitthvað slíkt að ræða í þínum skóla og hvernig lýsti það sér, ef svo var?
Varst þú eða einhver sem þú vissir um fyrir einelti, niðurlægingu eða kynferðislegu áreiti? Vilt þú að segja frá þessu? Hvernig var tekið á slíkum málum, ef um þau var að ræða?
Hversu mikil tengsl eru á milli fyrrverandi skólafélaga? Er einhver vettvangur fyrir að hittast og hvernig hefur þátttakan verið?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 9 af 9 - Heildstæð frásögn

Hér getur þú haft heildstæða frásögn fyrir alla spurningaskrána eftir eigin höfði, t.d. um venjulegan skóladag eða annað.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana