LeitaVinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiHeimavistarskóli, Héraðsskóli, Skólalíf
Ártal1959-1961
Spurningaskrá115 Minningar úr héraðsskólum

StaðurHéraðsskólinn að Skógum
ByggðaheitiSkógar
Sveitarfélag 1950A-Eyjafjallahreppur
Núv. sveitarfélagRangárþing eystra
SýslaRangárvallasýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1944

Nánari upplýsingar

Númer2017-1-97
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið18.10.2018/9.11.2018
TækniTölvuskrift

         Lífið í Skógaskóla árin1959-1961.

 

Haustið 1959 byrjaði ég í öðrum bekk í Skógaskóla.Við fórum þangað tvær vinkonur úr Hrunamannahreppi, fimmtán ára gamlar, en höfðum árið áður lokið barnaskólanámi í Flúðaskóla. Það var samt algengara að unglingar úr okkar sveit færu í gagnfræðaskóla á Laugarvatni, en foreldrar mínir þekktu til fólks sem hafði verið á Skógum og líkað vel. Ég hafði veturinn áður verið heima og fengið tilsögn í reikningi, ensku og dönsku hjá konu á næsta bæ, en hún var stúdent. Þetta dugði mér til að fá að byrja í öðrum bekk og hafði verið talað um að ég tæki inntökupróf þangað, en það varð nú aldrei úr því. inkonan byrjaði hins vegar í fyrsta bekk. Foreldrar mínir fóru með okkur austur á Willys jeppanum, sem pabbi hafði þá líklega átt í tvö ár. Engan þekktum við þarna í byrjun og vorum ansi langt að heiman þegar pabbi og mamma sneru til baka.

 

Ég lenti í herbergi sem hét Hábær með þremur stelpum sem allar voru úr Árnessýslu eins og ég. Ein úr Gaulverjabæjarhreppi og tvær frá Selfossi, en þar var þá ekki gagnfræðaskóli. Herbergið var mjög lítið. Tveggja hæða kojur við veggi báðu megin við dyrnar og var hægt að haldast í hendur á milli þeirra. Borð undir glugganum og vaskur þar til hægri handar við kojuendann en fataskápur vinstra megin. Í þessu herbergi man ég ekki að við værum neitt að ráði, nema rétt til að sofa. 

 

Það tók mig ekki langan tíma að aðlagast samfélaginu þarna. Nemendur voru á þessum tíma rétt innan við hundrað, á aldrinum ca. 14-20 ára.  Það byrjuðu ekki allir jafngamlir í skólanum og luku því námi á ólíkum aldri. Það var kennt í fjórum skólastofum, fyrsti bekkur, annar bekkur og svo tvískiptur þriðji bekkur, gagnfræðadeild og landsprófsdeild. Í landspróf fóru þau sem ætluðu sér í menntaskóla, en aðrir tóku gagnfræðapróf, sem á þessum árum dugði bara nokkuð vel.

 

Nemendur komu alls staðar að á landinu. Vestan af fjörðum, af Snæfellsnesi og frá Hornafirði, reyndar frá öllum fjörðum hringinn í kringum landið og frá Vestmannaeyjum líka. Nokkrir úr Reykjavík og af Suðurnesjum, en flestir þó af Suðurlandi, Árnes-, Rangárvalla- og Skaftafellssýslum.

 

Stelpurnar bjuggu alveg sér á einum stórum gangi í heimavistinni, strákar á öðrum minni og svo voru þeir líka í sér húsi sem var nýlega byggt austan við skólahúsið stóra. Klósett fyrir alla voru frammi á ganginum, tvö á stelpnaganginum man ég, en sturtur voru niðri, við inngaginn að íþróttasalnum. Oftast notaðar í sambandi við íþróttir.

 

Allur samgangur á milli stelpu og stákaganga var stranglega bannaður. Skólastjóri á þessum tíma var Jón R. Hjálmarsson og var talinn strangur, en mér líkaði alltaf vel við hann. Það gat verið vegna þess að ég lenti aldrei í alvarlegum útistöðum við hann, eða kannski var ég bara vön svolítið ströngu uppeldi og vön að fara eftir reglum? Þó var ég síður en svo einhver fyrirmyndarnemandi.

 

Í Skógum var ákaflega einangrað samfélag á þessum árum. Íbúar staðarins voru eingöngu starfsfólk skólans og svo var jú “búið”, en það var sveitabærinn Ytri-Skógar, þar sem bjó bóndi með sína fjölskyldu. Eitt íbúðarhús var á milli skólans og búsins, þar sem hann Þórhallur bjó með konu og börnum, en hann var húsvörður staðarins. Þar, uppi í brekkunni voru tveir litlir sumarbústaðir, en þar sáum við aldei nokkurn mann koma, enda alltaf vetur þegar við vorum þarna.

 

Við komum í skólann á haustin, seinni hluta septembermánaðar, eftir réttir skiljanlega, svo hægt væri að hafa gagn af sveitabörnunum við smölun og réttir, og fórum svo ekki af staðnum fyrr en kom að jólafríi. Að vísu gátu þeir sem áttu heima nálægt fengið að fara heim eina helgi fyrir jól og aðra eftir jól, en þá varð að láta sækja sig eða bjargast öðruvísi á eignin spýtur, það voru engar rútur á ferðinni á þessum tíma. Bara einstaka mjólkurbíll. Einhverjir úr nærsveitunum létu sig hafa það að ganga heim. Það var bara sérstök rúta sem fór frá Reykjavík á haustin og heim í jólafrí, síðan aftur í skólann úr jólafríi og heim á vorin. Af þessu leiddi að að við urðum hvert öðru ákaflega náin og enn í dag á ég mína bestu vini í skólasystkinum frá Skógaskóla.

 

Það var gaman í þessum skóla frá upphafi til enda og Eyjafjallasveitin fallegasta og besta sveit á Íslandi. Við höfðum svo ótalmargt annað að gera en að læra. Skólabjallan vakti okkur hvern morgun og við byrjuðum á að fara í morgunmat í matsalnum sem var niðri í kjallara. Svo var kennt fram að hádegi og síðan aftur fram að miðdagskaffi, en eftir kaffið var svo útitími í klukkutíma. Hann notuðum við til gönguferða, það urðu allir að fara út, alltaf. Við löbbuðum austur í Kvernugil, niður að brú, út á bú eða að fossinum og jafnvel upp á heiði. Yfirleitt fóru nærri því allir í sömu átt. Eftir útitímann var svo lestími fram undir köldmat, þá vorum við í skólastofunum og lærðum fyrir morgundaginn. Einn kennari “sat þá yfir”, fylgdist með og aðstoðaði eftir þörfum. Á þeim tíma var líka bóksalan opin einu sinni eða tvisvar í viku, en þar gátum við fengið allt sem við þurftum af ritföngum og bókum. Í bóksölunni vorum við með reikning sem borgaður var eftir næstu heimferð eða ef foreldrar komu í heimsókn. Við þurftum ekkert á peningum að halda, eða næstum ekki. Skólakostnaðinn borguðu auðvitað foreldrarnir með sínum aðferðum, sem við vissum sjaldnast um og þarna var engu hægt að eyða. Sumir krakkar fengu að vísu leyfi til að labba í Skarðshlíð, eftir hádegi á laugardögum, það var hægt að fá svoleiðis leyfi einu sinni fyrir jól og aftur eftir jól. Í Skarðshlíð var lítil sveitabúð og hægt að kaupa öl, niðursoðna ávexti og sælgæti. En þetta var ekki mikið notað, dágóður spotti að ganga, og þeir sem fóru voru oft beðnir að kaupa fyrir aðra svo klyfjarnar gátu orðið þungar til baka.

 

Reykingar voru stranglega bannaðar, svo langt frá skólanum sem augað eygði að viðlögðum brottrekstri, enda vissi ég ekki um neinn sem tók þá áhættu. Áfengi var óþekkt.

 

Síðdegis, á lestímanum var símavakt, foreldrar gátu hringt, eða stundum nemendur heim ef mikið lá við. Þá sátu tveir nemendur hjá símanum niðri í kjallara, þeir lærðu þarna niðri og svöruðu símanum ef hringdi. Svo var hlaupið til að sækja þau sem beðið var um. Alltaf voru samtölin afgreidd í gegnum miðstöð. Skarðshlíð var símstöð sveitarinnar, og ef það kom fyrir að hringt var til mín, sem gerðist held ég bara á afmælinu mínu, pöntuðu foreldrarnir símtalið í gegnum Galtafell, sem síðan hafði samband við Skarðshlíð og svo áfram. Það var óskaplega spennandi að vera á símavaktinni, sem skiptist minnir mig á milli nemenda í eldri bekkjum, kannski einu sinni eða tvisvar á vetri hver. Þetta var eina tækifærið sem fékkst til að komast inn á stráka eða stelpugang, þangað mátti fara til að sækja í símann, en auðvitað mátti ekki stansa neitt. Símavaktin var held ég bara einu sinni í viku, á ákveðnum degi, frá fimm til sex eða sjö?

 

Kvöldin höfðum við svo til eigin ráðstöfunar, máttum vera úti ef við vildum, en urðum að vera komin inn fyrir kl. tíu, þá var öllu læst. Svo var slökkt á ljósamótornum klukkan ellefu, rafmagn frá veitu var þá ekki komið í þessa sveit.

 

Á laugardögum var kennt fram að hádegi, en eftir það var frí. Við sáum sjálf um þrif á herbergjunum okkar og til skiptis á ganginum. Laugardagarnir eftir hádegi voru notaðir til þess. Einn eða tveir nemendur höfðu umsjón með þrifunum á hverjum gangi, sáu um að útdeila efnum og tækjum sem til þurfti. Þeir voru tilnefndir af skólastjóra að hausti og sinntu þessu veturinn allan. Ég hafði þessa ábyrgð á mínum herðum seinni veturinn, líklega fyrsta ábyrgðarstaðan sem mér var falin um ævina og var heldur ánægð með.

 

Líka þurftum við að þvo sjálf þann þvott sem við gátum. Skyrtur og sokkar frá strákunum vildu gjarnan flækjast saman við þvottinn okkar stelpna, með fögrum fyrirheitum og loforðum um einhverskonar fyrirgreiðslu síðar meir. Þvottastússið mun einnig hafa hvatt suma herrana til að verða sér úti um kærustur til nytja. Meiri háttar þvottur var svo sendur heim eftir þeim leiðum sem til féllu. Mjólkurbílar voru flesta daga á ferð og svo “pakkabílar” eins og sagt var. Sennilega flutningabílar frá Kaupfélagi Rangæinga. Við fengum stundum pakka og það var stórviðburður. Sumir fengu svo flottar sendingar að vinahópurinn hélst gríðarstór í langan tíma.

 

Ég var heppin með herbergisfélaga hvað þetta snerti, stelpurnar frá Selfossi fengu marga, stóra og góða pakka. Best var að fá kökur og kex, djús, niðursoðna ávexti og sælgæti. Stundum komu líka ný föt. Við gengum mikið í fötum hvert af öðru til að auka fjölbreytni í klæðaburði. Þess vegna vorum við stelpurnar allar jafn glaðar þegar buxur, peysur eða skyrtur komu upp úr pökkunum.

 

Þegar ég fór heim í jólafríið var það mitt mesta áhugamál að biðja foreldrana endilega að senda mér pakka einhverntíman seinni part vetrarins. Þau voru nú ekki alveg með á nótunum hvað væri svona merkilegt við að fá pakka?  Gæti ég ekki bara tekið með mér úr fríinu það sem vantaði? En þetta tókst mér samt og fékk einhverntíman á útmánuðum pakka, alveg rosalega stóran og flottan. Það sem merkilegast kom uppúr honum var peysa, laxableik, sem mamma hafði prjónað úr lopa og síðan kembt með ullarkömbum. Þetta varð tískuflík og fyrirmynd margra slíkra sem prjónaðar voru í skólanum. Kambar fundust á heimili bekkjarsystur úr Fljótshlíðinni og gengu þeir þarna í endurnýjun lífdaga.

 

Á laugardagskvöldum voru dansæfingar og þá var tjaldað öllu því besta sem við áttum til af fötum og hárgreiðsla og snyrting hvers konar tók í sumum tilfellum mikinn tíma síðdegis. Nokkrir nemendur æfðu saman hljómsveit sem spilaði þessi kvöld, en líka kom fyrir að gestir komu og spiluðu fyrir okkur. Það voru helst einhverjir strákar úr sveitunum í kring. Alltaf var kennari á vakt á dansæfingum. Við máttum ekki eiga kærasta eða kærustur og alls ekki sýna kærustuleg tilþrif á dansgólfinu. Það kallaði skólastjórinn “flangs”, og var eitt af því sem ekki mátti í skólanum.

 

Kennararnir voru misjafnlega vinsælir á dansæfingavaktinni, það fór eftir því hvort þeir héngu stöðugt inni í stofunni eða litu bara inn öðru hvoru. Ég man að okkur fannst enskukennarinn mjög góður, hann stóð gjarnan frammi á gangi og spjallaði við strákadurga sem höfðu engan áhuga á stelpum eða dansi. Kallaði svo stundum úr dyragættinni…”þú eða þið, ekki dansa svona þétt saman”! “Haltu ekki svona fast utanum hana Gunnu, Gústi”!, og annað álíka, allt í mestu vinsemd. Hann var líka svo ungur að hann hefur alveg vitað hvað kom okkur best og tilbúinn til að líta framhjá smá flangsi. Okkur fannst hann auðvitað karl þá, en komumst svo að því seinna að hann var bara fáum árum eldri en við.

 

Það áttu flestir kærustur eða kærasta, en það var stranglega bannað að flangsa eins og skólastjórinn kallaði það, ef hann sá strák og stelpu of nærri hvort öðru. Þessum samböndum var flestum skipt út oft á vetri. Á tveimur vetrum var enginn vandi að eiga sex eða sjö kærasta og ekki var mér kunnugt um að neitt þessara para gengi lengra en viðurkennt siðgæði leyfði. Enda fór þessi pörun fram í miðjum hópi skólasystkinanna.  

 

Það var leiðst í útitímum og kannski kysst á bakvið klett þegar komið var langt frá skólanum. Líklega hefur “stjóri” alveg óvart stuðlað að göngugleði og ákafri útivist nemenda með þessu harða nálgunarbanni kynjanna. Hvar sem hópurinn var og hann sást koma arkandi var fjöldinn umsvifalaust búinn að umkringja pörin sem kannski voru þar í faðmlögum, svo þau hurfu í kösinni miðri. Aldrei létum við hann sjá neitt sem yrði til þess að hann gæti lagt saman strák og stelpu svo úr yrði par. Ekki undur þó við séum “vinir að eilífu” eins og stundum er sagt.

 

Skólabjallan hékk í anddyrinu, voldug handvirk bjalla, sem minnti svolítið á kirkjuklukku, nema heldur minni. Embætti “hringjara” var ábyrgðarstaða sem tveir nemendur voru skipaðir í yfir veturinn. Þeir hringdu inn í tíma, og til annarra viðburða, en sennilega var fyrsta hringing á morgnana, “uppvakningin”, á höndum kennara eða skólastjóra.

 

Kennararnir voru að mestu þeir sömu og höfðu verið þarna jafnvel frá stofnun skólans, það var lítil hreyfing á þeim, enda áttu þeir sín heimili og fjölskyldur á staðnum. Íslenskukennarinn hét Jón Jósep Jóhannesson og hann var einhleypur og mjög góður kennari. Hann var mikill áhugamaður um skógrækt og stóð fyrir því að byrjað var að planta trjám í brekkuna fyrir ofan skólahúsið. Þar unnu nemendur árlega einn dag við gróðursetningu. Jón Jósep hætti reyndar störfum á meðan ég var þarna. Hann kom ekki til starfa haustið 1960, en í hans stað kom Hreinn Ragnarsson, sem þá var held ég ekki búinn að ljúka kennaraprófi, enda lítið eldri en nemendurnir. En hann tók kennarapróf seinna og starfaði sem slíkur árum saman, síðast á Laugarvatni.

 

Dönskukennarinn hét Albert Jóhannesson, hann var ágætur kennari og hló tröllahlátri ef vel lá á honum. Hann átti stóra fjölskyldu og svo var hann hestamaður mikill. Reikningskennarinn hét William Möller og var frá Siglufirði. Hann bjó við endann á stelpnaganginum með konu og börn og var einskonar vaktmaður okkar stelpnanna. Hann var líka það sem kallað var “bryti” skólans, sem fólst í því að halda utanum reikningana fyrir mötuneytið. Þeir sem yfirleitt gátu lært reikning töldu hann góðan kennara. Ég gat ekki lært reikning. 

 

Þarna var líka handavinnukennari stúlkna, Lára hét hún, frá Siglufirði ógift kona, sem bjó í einu herbergi við stelpnagang. Hún hafði líka umsjón með verkjatöflum, hitamæli og plástrum og var þess vegna kölluð “hjúkka”, sem ég er samt ekkert viss um að hún hafi verið. Ef komu til meiriháttar veikindi var sóttur læknir, sem bjó held ég á Hvolsvelli, en það gerðist mjög sjaldan.

 

Snorri Jónsson var íþróttakennari og í tímunum hjá honum fannst mér langmest gaman. Leikfimissalurinn var mikið notaður utan skólatíma, á kvöldin og um helgar. Snorri lagði mikla áherslu á að kenna okkur körfubolta, bæði stelpum og strákum. Það voru haldin mót og líka keppt við aðra skóla, allir bekkirnir þrír áttu sín A og B lið. Í frímínútum var stöðugur fótbolti úti á vellinum fyrir framan skólann og handbolti bæði inni og úti. Snorri var með okkur í þessu öllu.

 

Seinni veturinn minn var sundlaugin tilbúin og vígð, innilaug í austurálmu stóra skólahússins. Á þessum tíma voru ekki allir krakkar syndir, það voru ekki sundlaugar í hverri sveit, t.d. í Skaftefellssýslunum. En allnokkrir höfðu alist upp við sundlaugar og kunnu þetta vel, og þau voru látin synda fyrstu sprettina í lauginni. Síðan var sundkennsla og sundæfingar það sem eftir var vetrar. Á árshátíðum var sýnt flott fimleikaprógram, sem Snorri hafði æft með okkur allan veturinn. Snorri var einstakur, hann kenndi líka strákunum smíðar.

 

Jón Einarsson var enskukennari og hann kenndi líka landafræði. Hann var innan við þrítugt og gat öðrum betur lifað sig inn í okkar hugarheim. Ég sé hann fyrir mér standa niðri í anddyri að spjalla við stóran hóp af krökkum. Hann var góður skákmaður og hafði gaman af fótbolta, en sparkaði lítið sjálfur. Jón var eini kennarinn sem ekki bjó á staðnum, hann átti konu og börn austur í Vík og fór þangað flest kvöld ef hann var ekki á vakt. Þegar farið var að byggja meira á staðnum flutti Jón með fjölskylduna að Skógum. Alltaf var einn kennari á vakt í skólanum, allan sólarhringinn var hægt að hafa samband við þá ef þurfti.

 

Skólastjórinn, Jón R.Hjálmarsson, kenndi okkur mannkynssögu, sem mér fannst ósköp lítið spennandi fag, en einhverjir strákar gátu víst lært hana nærri því utanbókar. Einn kennari er þá ótalinn en það er hann Þórður Tómasson. Hann var söngkennari, en reyndar var aldrei tekið próf í því fagi. Hann bara spilaði á orgelið og við sungum með. Líklega höfum við aðallega lært texta í þessum tímum, ekkert var raddað og lítið lagt upp úr hæfileikum hvers og eins. Við áttum bara að syngja “Blessuð sértu sveitin mín”, “Hvað er svo glatt” og mörg önnur ættjarðarlög, eins og við lifandi gátum og þá fengum við “gott” í söng. Á þessum árum var Þórður nýlega fluttur að Skógum frá Vallnatúni og í þann veginn að byrja uppbyggingu byggðasafnsins. Hann bjó með systur sinni í nýbyggðu húsi austan við skólann, nærri því sem safnið var síðar byggt.

 

Hinir kennararnir voru flestir giftir og áttu börn sem voru flest innan við tíu ára aldur. Albert og Jón “stjóri” bjuggu í nýbyggingunni þar sem strákavistin var, en Snorri, Möller og Lára í skólahúsinu sjálfu. Þetta var eins og óhemjustór fjölskylda, með nokkrum foreldrum og hundrað börnum á aldrinum eins árs til tvítugs. Enn er reyndar ótalið starfsfólk skólans, ráðskona í mötuneyti og tvær eða þrjár stúlkur í eldhúsi. Þær sáu um að fæða okkur og þurfti sennilega töluvert til að allir fengju nóg. Ráðskonan hét Jóna og var gift honum Sveini mjólkurbílsstjóra úr Fljótshlíðinni. Hann keyrði mjólkurbílinn frá Selfossi þarna austur og gisti í skólanum um nætur. Herbergi eldhúsfólksins voru niðri í kjallaranum við hliðina á matsalnum.

 

Mig minnir að á þessum árum hafi alltaf verið gott veður undir Fjöllunum og við vorum mikið úti. Kvernugilið var óhemjuvinsælt og á vorin fórum við mikið upp í heiði, þar sem við fundum skjólgóðar lautir og gátum flatmagað fáklædd í sólskininu. Strákar voru ekki leyfðir í þesslags ferðum, en það kom fyrir að þeir villtust til okkar úr öðrum lautum.

 

Það er enn svo fjöldamargt ótalið sem við gerðum í Skógum og útilokað að muna eða telja upp nærri allt. Einu sinni í mánuði voru kennarafundir. Þeir voru þó trúlega oftar, en mánaðarlega var fundur þar sem farið var yfir hegðun og skrásettar syndir nemenda. Að fundi loknum voru syndarar kallaðir fyrir og þá “lækkaðir í hegðun” eins og það hét. Við vissum alltaf af þessum sérstaka fundi og í staðinn fyrir að forða okkur og fela út um allan skóla settumst við í tröppurnar framan við kennarastofuna og biðum örlaga okkar. Hvort sem við áttum vona á refsingu eða ekki sátum við þarna öll saman skjálfandi á beinunum og biðum dóms. Það var mjög slæmt að vera lækkaður í hegðun og yfirleitt höfðum við öll gert eitthvað sem okkur fannst að mætti refsa fyrir. Flest sluppu þó alveg við slíkt alla sína skólatíð, afbrotin hafa sjálfsagt vaxið okkur í augum

 

Leikrit var alltaf æft fyrir árshátíðina, sem var haldin í mars eða apríl, en þá komu allir foreldrar sem gátu. Auk leiksýnigarinnar var fimleikasýningin, söngur undir stjórn Þórðar að sjálfsögðu og svo voru sönghópar með gítarundirleik og ýmislegt fleira. Síðast var svo kökuveisla og dans. Pabbi og mamma komu á árshátíðirnar og það var heils dags ferðalag fyrir þau á jeppanum. Reyndar langt fram á nótt því samkomunni lauk ekki fyrr en liðið var á kvöld. 

 

Þegar komið var úr jólafríi var haldin álfabrenna, með álfakóngi og drottningu, sem voru klædd í viðeigandi búninga sem skólinn átti. Allir nemendur fóru í stórri skrúðgöngu á brennustað og það var sungið “Ólafur reið með björgum fram” og annað í þeim anda. Trúlegt er að þetta hafi verið gert á þrettándanum.

 

Stundum komu gestir í skólann og þá oftast einhverjir fræðimenn með gagnlega fyrirlestra og kennslu.

 

Seinni veturinn var ég í herbergi sem heitir Stórólfshvoll, herbergin voru skírð eftir bæjum í Rangárþingi og Skaftafellssýslum. Stórólfshvoll sneri glugga til hafs og þar bjuggum við fimm saman. Auk þess sem tveggja hæða kojur voru til beggja hliða var svo eitt rúm undir glugganum. Þarna fór ljómandi vel um okkur enda samkomulagið gott. Úr gluggunum á efri hæðinni sem sneru til suðurs, sáum við út á sjó og stundum skip þar á siglingu. Mér fannst ég komin langt útí heim fyrst þegar ég kom þarna og horfði út að sjónum. Þetta voru ekki sundin með eyjunum sem ég hafði séð úr stofuglugganum á Hulduhólum (Mosfellssveit) hjá afa og ömmu, heldur sjórinn sjálfur og útlöndin voru þar fyrir handan.

 

Við veltum því stundum fyrir okkur hvar við myndum lenda ef við leggðum af stað frá Skógasandi og hvað við yrðum lengi á þeirri leið? Þá voru ferðir til útlanda sjaldgæfar, engin sólarlönd þekkt og fæst höfðum við komið upp í flugvél. Þegar leið að lokum seinni vetrar fórum við að velta fyrir okkur hvert við fengjum að fara í skólaferðalag, þriðji bekkur fór alltaf í svoleiðis ferð. Við gerðum okkur vonir um tveggja til þriggja daga rútuferð og næturgistingu á ýmsum stöðum, það höfðum við heyrt um hjá öðrum skólum. En annað kom á daginn, Þórsmerkurferðin varð skólaferðalgið okkar.

 

(...) 9. nóvember 2017

(...NN...)

 

(Tvö svör bárust frá þessum heimildarmanni, sjá ennfremur ÞÞ 2018-1-26. Þessa frásögn átti hann í fórum sínum en umskrifaði hana áður en hún var afhent ÞÞ.)


Kafli 1 af 9 - Haldið í héraðsskóla

Í hvaða héraðsskóla varst þú og á hvaða árum? Hvers vegna varð þessi skóli fyrir valinu?
Segðu frá undirbúningi fyrir skólavistina, kveðjum og brottför að heiman.
Hvað tókst þú með þér í skólann (rúmfatnaður, kassettutæki, spil, gítar, bækur t.d.)?
Hvað er þér helst minnisstætt frá fyrstu ferð þinni í skólann? Upplifðir þú eftirvæntingu eða kvíða?
Hve langt var skólaárið? Hvenær byrjaði það og hvenær endaði það? Hvenær voru frí?
Segðu frá skólalokum ár hvert og útskrift. Varstu fegin(n) að komast í burtu eða upplifðir þú eftirsjá eftir samfélaginu í skólanum?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 2 af 9 - Tengsl við fjölskyldu og heimili

Lýstu samskiptum við fjölskyldu þína meðan á skólavist stóð. Hve mikil voru þau og á hvaða formi (símtöl t.d.)? Var eitthvað um heimsóknir að heiman eða heim?
Hvernig upplifðir þú aðskilnaðinn við heimili þitt og þína nánustu (heimþrá, söknuður t.d.)?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 9 - Húsakynni og rými

Hvernig fannst þér húsakynni skólans vera svona almennt? Hvað var jákvætt og hvað var neikvætt?
Lýstu skólastofunum þar sem þér var kennt í stórum dráttum (innanbúnaður t.d.).
Hve margir voru saman í herbergi á heimavist. Hvað réði því með hverjum maður lenti? Hve lengi voru nemendur saman í herbergi (eitt skólaár t.d.)?
Segðu í aðalatriðum frá innanbúnaði í þínu herbergi. Hvernig var snyrtiaðstaðan t.d.?
Var ákveðin sæta- eða svæðaskipting í kennslustofum, matsal, heimavist eða annars staðar innan skólans? Eftir hverju fór það, ef svo var?
Hvernig hagnýttu nemendur sér sameiginleg rými (setustofu t.d.)?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 4 af 9 - Mötuneyti og þvottahús

Hvenær voru matar- og kaffitímar og hve langir?
Nefndu gjarnan hvað var á boðstólum, hvers konar réttir og kaffibrauð, frá ólíkum máltíðum dagsins. Var boðið upp á eitthvað til hátíðabrigða, hvaða daga og í hverju fólst þessi tilbreyting? Hvernig fannst þér maturinn (góður, einhæfur t.d.) ? Hvaða máli skipti hann (gleðigjafi, ávísun á samveru t.d.)?
Þurftu nemendur að vinna í mötuneyti eða borðsal, við ræstingar á skólahúsnæði eða önnur störf? Hversu oft og mikið?
Var þvottahús í skólanum? Hvað var þvegið af nemendum og hve oft í mánuði ef svo var?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 5 af 9 - Skóladagurinn

Hve marga daga í viku var kennt og hve langur var skóladagurinn?
Segðu frá bóklegri kennslu í stórum dráttum (námsgreinar, kennsluaðferðir t.d.).
Hvaða verklegar greinar voru kenndar? Hvað er þér helst minnisstætt? Var verklega kennslan kynjabundin á einn eða annan hátt og hvernig lýsti það sér ef svo var?
Fenguð þið einhverja aðra verklega þjálfun? Hverja ef svo var? Hvernig hefur þessi verklega kennsla eða þjálfun nýst þér í lífinu?
Hvernig var leikfimi- og sundkennslu háttað (hvað var kennt, tæki t.d.). Var kennslan mismunandi eftir kynjum og hvernig lýsti það sér ef svo var?
Hvað var helst gert í frímínútum? Var t.d. fótbolta- og körfuboltavöllur? Voru frímínútur skipulagðar eða alveg frjálsar? Hve langar voru þær og hve oft á dag?
Segðu frá heimanámi (reglur, ein[n] eða með öðrum, aðstoð, tímalengd t.d.).
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 6 af 9 - Hefðir

Hverjar voru helstu hefðir í skólanum að þínu mati (heiti, stund, staður, hvað var gert t.d.).
Manst þú eftir bröndurum eða sögum um skólann, próf, kennara og annað starfsfólk? Viltu segja frá þessu?
Segðu frá dularfullum fyrirbærum, þjóðtrú eða hjátrú, sem þekktist innan skólans (próf, húsakynni, yfirnáttúrulegar verur t.d.).
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 7 af 9 - Félagslíf

Í hverju fólst félagslíf í skólanum helst (viðburðir, skemmtanir, félög t.d.)? Hverjir skipulögðu félagslífið eða höfðu frumkvæði að því (nemendur, skólinn t.d.)? Hvernig var þátttakan (stelpur/strákar)?
Var hugsanlega litið á þátttöku nemenda sem félagslega þjálfun og því lögð áhersla á hana af hálfu skólans? Tóku kennarar þátt? Getur þú sagt frá þessu?
Hvaða íþróttir voru helst stundaðar? Voru nemendur örvaðir til þátttöku? Voru haldnar keppnir innan skólans eða við aðra skóla?
Hvaða reglur giltu um neyslu áfengis og tóbaks? Var farið eftir þeim? Hvernig brást skólinn við brotum á þessum reglum? Þekktust sterkari efni og ef svo var hvaða?
Hvaða reglur, skrifaðar eða óskrifaðar, giltu um heimavistina (svefntími, heimsóknir, eftirlit t.d.)?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 8 af 9 - Samskipti

Hvað er þér helst minnisstætt við starfsfólk skólans og samskipti þín við það (kennarar, starfsfólk í mötuneyti t.d.)?
Vera á heimavistarskóla hefur í för með sér mikil samskipti við aðra nemendur. Hvaða áhrif telur þú að þetta hafi haft á líf þitt bæði þá og til langframa?
Urðu til sterk vinasambönd? Hve lengi héldust þau sambönd, jafnvel til dagsins í dag?
Kanntu að segja frá samskiptum kynjanna (vinátta, kærustupör, kynlíf t.d.)?
Í heimavistarskólum hefur stundum verið talað um einstaklinga sem vilja ráða yfir öðrum nemendum (foringjar). Var um eitthvað slíkt að ræða í þínum skóla og hvernig lýsti það sér, ef svo var?
Varst þú eða einhver sem þú vissir um fyrir einelti, niðurlægingu eða kynferðislegu áreiti? Vilt þú að segja frá þessu? Hvernig var tekið á slíkum málum, ef um þau var að ræða?
Hversu mikil tengsl eru á milli fyrrverandi skólafélaga? Er einhver vettvangur fyrir að hittast og hvernig hefur þátttakan verið?
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 9 af 9 - Heildstæð frásögn

Hér getur þú haft heildstæða frásögn fyrir alla spurningaskrána eftir eigin höfði, t.d. um venjulegan skóladag eða annað.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana