LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiHeimavistarskóli, Héraðsskóli, Skólalíf
Ártal1969-1970
Spurningaskrá115 Minningar úr héraðsskólum

StaðurHéraðsskólinn í Reykholti
Annað staðarheitiReykholtsskóli
ByggðaheitiReykholtsdalur
Sveitarfélag 1950Reykholtsdalshreppur
Núv. sveitarfélagBorgarbyggð
SýslaBorgarfjarðarsýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1953

Nánari upplýsingar

Númer2017-1-94
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið10.11.2017/6.2.2018
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 9 - Haldið í héraðsskóla

Í hvaða héraðsskóla varst þú og á hvaða árum? Hvers vegna varð þessi skóli fyrir valinu?

Héraðsskólanum í Reykholti Borgarfirði frá 1969-1970. Vinkona mín hafði verið í skólanum og sagði frá svo skemmtilegu skólalífi þaðan. Þá var líka gaman að breyta til.


Segðu frá undirbúningi fyrir skólavistina, kveðjum og brottför að heiman.

Það var spennandi. Ég var mjög vel búin að heiman og mamma og pabbi skildu vel áhuga minn með að fara en í byrjun fannst þeim þetta vera óþarfa tilstand hjá mér. Það þurfti að greiða fyrir skólann. Ég man að veturinn kostaði 33.000 krónur. 


Hvað tókst þú með þér í skólann (rúmfatnaður, kassettutæki, spil, gítar, bækur t.d.)?

Ég tók allt með mér sem að ég þurfti að nota um veturinn. Fyrir utan rúmföt, myndir, bækur og fatnað, þá tók ég með mér hárþurrku sem að ég fékk í fermingargjöf. Hún var á fótum eins og á hárgreiðslustofu og var því fyrirferðarmikil en vinsæl.


Hvað er þér helst minnisstætt frá fyrstu ferð þinni í skólann? Upplifðir þú eftirvæntingu eða kvíða?

Pabbi (...) keyrði mig á grænum Opel. Við vorum lengi á leiðinni frá Garðahreppi í Reykholt og töluðum mikið saman. Við vorum vön að ferðast upp í Borgarfjörð þar sem bróðir minn var í mörg sumur í sveit hjá vinafólki fjölskyldunnar að Stóra-Ási í Hálsasveit. Við fórum „Draghálsinn", pabbi fór alltaf þá leið. Pabbi talaði um skólavistina. Hann vildi ekki að ég væri að reykja en ég var að fikta við það. Þeir nemendur sem komu með reykingaleyfi frá foreldrum fengu að reykja í skólanum og honum fannst erfitt að gefa ungri dóttur sinni leyfi til að reykja en hann lét það eftir mér. Við vorum með 20.000 krónur í seðlum til að borga hluta skólavistarinnar og ég hafði aldrei séð svona mikið af peningum í einum bunka. Ég man það líka að okkur fannst báðum ég vera að fara lengi í burtu að heiman. Þrátt fyrir að valið væri mitt var eftirvæntingin pínu kvíðablandin. 


Hve langt var skólaárið? Hvenær byrjaði það og hvenær endaði það? Hvenær voru frí?

Ég kom í skólann í byrjun október og var fram í maí. En þegar ég kom var skólinn byrjaður. Ég svaf í herbergi sem tilheyrði ganginum á annarri hæð áður en ég fór á „vistina". Það var eitt helgarfrí fyrir áramót og annað eftir áramót. Pabbi sótti mig í bæði fríin og þegar ég kom heim í fyrra fríið var mamma búin að elda uppáhaldsmatinn minn, slátur með rófustöppu. Ég og (...NN...)  maðurinn minn voru orðnir góðir vinir á þessum tíma, má segja kærustupar. Það var því að þegar pabbi sótti mig í seinna helgarfríið, fríið eftir áramót,  tók hann (...NN ...) með sér. Það var mjög gaman og ég fann aldrei að það væri fyrirhöfn að sækja mig í helgarfrí, heldur bara gleði. Svo voru að sjálfsögðu jóla- og páskafrí.


Segðu frá skólalokum ár hvert og útskrift. Varstu fegin(n) að komast í burtu eða upplifðir þú eftirsjá eftir samfélaginu í skólanum?

Það voru tímamót þegar skólanum lauk um vorið. Þá var verið að velta því fyrir sér í hvaða skóla okkur krökkunum langaði að fara. Þarna voru breytingar frá því að vera á sama staðnum, vakna á morgnana vera saman í morgunmat og morgunstund með séra Einari Guðnasyni en sú stund var einstök. Saman í hádeginu og á kvöldin, alltaf saman. Við vorum fjórar saman í herbergi sem bar nafnið "Valhöll". Við vorum nánar enda ekki annað í boði. Herbergisfélagi minn hún Dísa ( ... NN ...) kom með mér heim að loknum skóla. Við Dísa erum vinkonur enn þann dag í dag. Það var eftirsjá eftir samfélaginu sem að ég bjó í þennan vetur. Þetta var samfélag sem hélt utan um mann og samhliða mjög þroskandi.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 2 af 9 - Tengsl við fjölskyldu og heimili

Lýstu samskiptum við fjölskyldu þína meðan á skólavist stóð. Hve mikil voru þau og á hvaða formi (símtöl t.d.)? Var eitthvað um heimsóknir að heiman eða heim?

Samskipti mín við mömmu og pabba voru mjög góð. Mamma hringdi eða ég í hana, hún sendi mér vasapening o. fl. sem vantaði. Hún bakaði handa mér súkkulaðiköku þegar ég átti afmæli og sendi hana í skólann. Ég var líka í sambandi við ömmu og ömmusystur mínar. Veru minni í skólanum var sýndur áhugi. Mamma, pabbi og systkini mín komu líka að heimsækja mig þegar fór að vora og þá fórum við saman að Stóra-Ási. Það var mjög gaman. 


Hvernig upplifðir þú aðskilnaðinn við heimili þitt og þína nánustu (heimþrá, söknuður t.d.)?

Ég saknaði þeirra alltaf ef að ég fór frá þeim, alveg sama hvaða upplifun beið mín. En ég var fljót að ná mér þar sem verkefnin voru áhugaverð og krakkarnir í skólanum skemmtilegir. Helgarfríin hafa skipt máli, þau styttu tímann.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 9 - Húsakynni og rými

Hvernig fannst þér húsakynni skólans vera svona almennt? Hvað var jákvætt og hvað var neikvætt?

Þau voru fín. Skólanum var vel við haldið. Hann var að vísu ekki nýr en ég man ekki eftir neinu neikvæðu.


Lýstu skólastofunum þar sem þér var kennt í stórum dráttum (innanbúnaður t.d.).

Skólastofan var stór og mjög rúmgóð. Uppstillingin var hefðbundin og það sátu tveir og tveir saman. Þar voru kennd bóklegu fögin. Leikfimin var í íþróttasalnum sem var líka rúmgóður og sundið í sundlauginni en hún var niðri. Uppi í turninum var kennd handavinna. Sú skólastofa var einstaklega falleg. Í matsalnum var svo kenndur dans. Á ganginum fyrir framan skólastofurnar var morgunstund á hverjum morgni. Skólastjórinn og kennararnir voru allt í öllu. Þau voru einstök, hver á sinn jákvæða hátt, viljug og fagleg.


Hve margir voru saman í herbergi á heimavist. Hvað réði því með hverjum maður lenti? Hve lengi voru nemendur saman í herbergi (eitt skólaár t.d.)?

Við vorum fjórar. Ég var bara sett með þeim. Við vorum saman yfir veturinn og vorum í fínni sambúð :) Sambúðin á vistinni var mjög góð. 


Segðu í aðalatriðum frá innanbúnaði í þínu herbergi. Hvernig var snyrtiaðstaðan t.d.?

Það voru tvær kojur í herberginu sem var mjög rúmgott með tveimur stórum gluggum. Ég var í neðri koju og Bogga (...NN...) fyrir ofan mig. Sigga (...NN... frá Akureyri) var vinstra megin niðri eins og ég og Dísa vinkona (...NN... frá Akureyri) uppi. Skápar voru fyrir endanum á kojunum. Stórt skrifborð var í miðju herberginu. Spegill var á veggnum bak við hurðina og svo voru stólar. Snyrtingin var fyrir okkur stelpurnar á vistinni og var nokkuð stór. Þar voru þrjú frekar en fjögur klósett og jafnmargir vaskar minnir mig. Sturturnar voru niðri hjá sundlauginni. 


Var ákveðin sæta- eða svæðaskipting í kennslustofum, matsal, heimavist eða annars staðar innan skólans? Eftir hverju fór það, ef svo var?

Já. ég sat alltaf hjá (...NN...) frá Egilsstöðum vinkonu minni þegar við vorum í bóklegum tímum. Í matsalnum voru "borðstofuflokkar" og vorum við sex í mínum flokki. Flokkinn mynduðu þeir sem sátu saman við borð. Við skiptumst á að sjá um í salnum. Þegar ég kom í skólann var laust sæti við hliðina á (...NN...) en ég man ekki hvernig var valið í borðstofuflokkinn.


Hvernig hagnýttu nemendur sér sameiginleg rými (setustofu t.d.)?

Til skemmtunar. Það voru kvöldvökur og böll. Þegar gestir komu í heimsókn og fluttu fyrirlestra þá var sameiginlega rýmið notað. Svo voru sýnd leikrit. Ég man að við fórum í Logaland til að skemmta okkur og sjá leikrit. Það var leikhópur, kvikmyndaklúbbur, ljósmyndanefnd, kór og hljómsveit starfandi innan skólans.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 4 af 9 - Mötuneyti og þvottahús

Hvenær voru matar- og kaffitímar og hve langir?

Ég man ekki hvað þeir voru langir en þeir voru á hefðbundnum tímum. Ég man að það var enginn að reka á eftir okkur eftir matinn þannig að tíminn til matar hefur verið rúmur.


Nefndu gjarnan hvað var á boðstólum, hvers konar réttir og kaffibrauð, frá ólíkum máltíðum dagsins. Var boðið upp á eitthvað til hátíðabrigða, hvaða daga og í hverju fólst þessi tilbreyting? Hvernig fannst þér maturinn (góður, einhæfur t.d.) ? Hvaða máli skipti hann (gleðigjafi, ávísun á samveru t.d.)?

Maturinn í Reykholti var mjög góður. Þær voru yndislegar konurnar sem sáu um hann og vel liðnar af nemendum. Það voru afmælisveislur tvisvar yfir veturinn og þá voru á borðum kræsingar af bestu gerð. Það var gerður dagamunur fyrir jólin, ég man eftir því og við önnur tækifæri. Maturinn var það vel úr garði gerður að við nutum þess að borða hann og eiga góða stund í matsalnum.


Þurftu nemendur að vinna í mötuneyti eða borðsal, við ræstingar á skólahúsnæði eða önnur störf? Hversu oft og mikið?

Já, við skiptum með okkur verkum í borðsal og byggðist skiptingin á borðstofuflokkunum. Við sáum um að hafa snyrtilegt í kringum okkur.


Var þvottahús í skólanum? Hvað var þvegið af nemendum og hve oft í mánuði ef svo var?

Já, það voru öll föt þveginn af okkur. Þvottahúsið var í skólanum.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 5 af 9 - Skóladagurinn

Hve marga daga í viku var kennt og hve langur var skóladagurinn?
Segðu frá bóklegri kennslu í stórum dráttum (námsgreinar, kennsluaðferðir t.d.).
Hvaða verklegar greinar voru kenndar? Hvað er þér helst minnisstætt? Var verklega kennslan kynjabundin á einn eða annan hátt og hvernig lýsti það sér ef svo var?
Fenguð þið einhverja aðra verklega þjálfun? Hverja ef svo var? Hvernig hefur þessi verklega kennsla eða þjálfun nýst þér í lífinu?
Hvernig var leikfimi- og sundkennslu háttað (hvað var kennt, tæki t.d.). Var kennslan mismunandi eftir kynjum og hvernig lýsti það sér ef svo var?
Hvað var helst gert í frímínútum? Var t.d. fótbolta- og körfuboltavöllur? Voru frímínútur skipulagðar eða alveg frjálsar? Hve langar voru þær og hve oft á dag?
Segðu frá heimanámi (reglur, ein[n] eða með öðrum, aðstoð, tímalengd t.d.).
Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Það var kennt alla daga nema sunnudaga. Við lærðum á milli tíma yfir daginn. Við lærðum allar hefðbundnar greinar. Það var farið með okkur í söguferðir. Íþróttir voru mjög ofarlega á baugi, göngur og hreyfing. Í skólanum var starfandi íþróttanefnd. Körfuboltalið skólans var öflugt. Við lærðum að dansa og hefur það komið sér mjög vel fyrir mig, ég hef notið þess í gegnum lífið. Það var kennd smíði og handavinna, það var kynjaskipt. Aðstaða til sundkennslu og leikfimi var mjög góð. Vilhjálmur Einarsson var skólastjóri og lagði hann mikla áherslu á hreyfingu og heilbrigði. Það var metnaðarfull kennsla í skólanum, hvort heldur í skyldu eða valfögum. Reyndar var allt skylda nema þá leiklistin og söngurinn en maður tók þátt í flestu vegna þess að maður var alltaf á staðnum. Það var mjög hvatt til félagslegrar þátttöku með setu í ráðum og nefndum nemenda í skólanum. Aðstaða til íþróttaiðkunar var góð. Það gekk alveg jafnt yfir okkur þó að um væri að ræða strák eða stelpu nema þá helst í handavinnunni og smíðum. Stelpur voru sérstaklega hvattar til að taka þátt eins og til dæmis með setu í nemendaráði. Við fórum í skíðaferð í tvo daga í Fornahvamm í Norðurárdal. Svo gengum við á Skáneyjarbungu.Kafli 6 af 9 - Hefðir

Hverjar voru helstu hefðir í skólanum að þínu mati (heiti, stund, staður, hvað var gert t.d.).

Morgunstundin hjá séra Einari Guðnasyni. Hann bauð okkur alltaf að eiga „góðar stundir“.


Manst þú eftir bröndurum eða sögum um skólann, próf, kennara og annað starfsfólk? Viltu segja frá þessu?

Vistin hjá okkur var læst á nóttunni. Einu sinni þóttist ein hafa gleypt lykilinn þegar átti að fara að læsa. Þetta uppátæki var okkur stelpunum til mikillar skemmtunar :)


Segðu frá dularfullum fyrirbærum, þjóðtrú eða hjátrú, sem þekktist innan skólans (próf, húsakynni, yfirnáttúrulegar verur t.d.).

Við vorum á fornum sögustað. Snorri Sturluson var nálægur nemendum. Styttan af honum fyrir utan herbergisgluggann hjá nokkrum stelpum á vistinni. Þetta fannst okkur unglingunum stundum draugalegt. Þrátt fyrir svona draugahugmyndir bar ég svo ung virðingu fyrir sögu og minjum staðarins.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 7 af 9 - Félagslíf

Í hverju fólst félagslíf í skólanum helst (viðburðir, skemmtanir, félög t.d.)? Hverjir skipulögðu félagslífið eða höfðu frumkvæði að því (nemendur, skólinn t.d.)? Hvernig var þátttakan (stelpur/strákar)?

Nemendaráðið var gott og hafði með skipulag á félagslífi að gera. Þar voru í forsvari bæði stelpur og strákar. Kennararnir voru líka mjög virkir í öllu starfi skólans.


Var hugsanlega litið á þátttöku nemenda sem félagslega þjálfun og því lögð áhersla á hana af hálfu skólans? Tóku kennarar þátt? Getur þú sagt frá þessu?

Já, ég myndi segja það. Já, þeir gerður það.  Já, vísa til fyrri svara.


Hvaða íþróttir voru helst stundaðar? Voru nemendur örvaðir til þátttöku? Voru haldnar keppnir innan skólans eða við aðra skóla?

Körfubolti, frjálsar íþróttir og sund. Já, svo sannarlega. Já, bæði í körfubolta og spurningakeppni. Það var mikil hvatning í þessa veru í skólanum. Þá voru samskipti á milli skóla í Borgarfirðinum góð. Við heimsóttum þá og nemendur komu til okkar í heimsókn.


Hvaða reglur giltu um neyslu áfengis og tóbaks? Var farið eftir þeim? Hvernig brást skólinn við brotum á þessum reglum? Þekktust sterkari efni og ef svo var hvaða?

Það var farið eftir reglum. Það var leyft að reykja ef nemandi hafði leyfi að heiman og vil ég meina að það hafi gert það að verkum að reglur voru síður brotnar. Við sem reyktum fengum að vera í gamla þvottahúsinu sem var kallað „smókurinn“. Ég man ekki eftir sterkari efnum í skólanum.


Hvaða reglur, skrifaðar eða óskrifaðar, giltu um heimavistina (svefntími, heimsóknir, eftirlit t.d.)?

Það var aðallega um svefntímann, það var slökkt á kvöldin, að mig minnir klukkan 22.30. Heimsóknir voru alveg leyfðar á milli vista á milli kl. 14.00 og 16.00 um helgar.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 8 af 9 - Samskipti

Hvað er þér helst minnisstætt við starfsfólk skólans og samskipti þín við það (kennarar, starfsfólk í mötuneyti t.d.)?

Í minningunni er samskiptin góð. Ég upplifði á þessum vetri hvað kennarar og starfsfólk voru tilbúin að leggja á sig vinnu á öllum tímum til að gera starfið í skólanum sem best úr garði. Fjölskyldur kennaranna og starfsfólksins sem bjó á staðnum voru óbeinir þátttakendur líka í að gera vel.


Vera á heimavistarskóla hefur í för með sér mikil samskipti við aðra nemendur. Hvaða áhrif telur þú að þetta hafi haft á líf þitt bæði þá og til langframa?

Mjög jákvæð og góð áhrif. Það ættu allir að fá að prufa að búa í heimavistarsamfélagi einhvern tíma. Mér finnst synd að þessir skólar skuli hafa verið aflagðir.


Urðu til sterk vinasambönd? Hve lengi héldust þau sambönd, jafnvel til dagsins í dag?

Já. ég á vini frá skólaárunum. Við hittumst enn þann dag í dag og eigum saman frábærar stundir. Við höfum verið nokkuð mörg sem hittumst. Þá erum við með hóp á facebook. Ég hef í gegnum árin kynnst mökum skólafélaga líka. Það er alltaf eins og við höfum hist síðast í gær.


Kanntu að segja frá samskiptum kynjanna (vinátta, kærustupör, kynlíf t.d.)?

Sumir voru að draga sig saman bara eins og gerist og gengur. 


Í heimavistarskólum hefur stundum verið talað um einstaklinga sem vilja ráða yfir öðrum nemendum (foringjar). Var um eitthvað slíkt að ræða í þínum skóla og hvernig lýsti það sér, ef svo var?

Nei, ég man ekki eftir því.


Varst þú eða einhver sem þú vissir um fyrir einelti, niðurlægingu eða kynferðislegu áreiti? Vilt þú að segja frá þessu? Hvernig var tekið á slíkum málum, ef um þau var að ræða?

Nei, ég man ekki eftir neinu svona. 


Hversu mikil tengsl eru á milli fyrrverandi skólafélaga? Er einhver vettvangur fyrir að hittast og hvernig hefur þátttakan verið?

Já og þátttakan í gegnum árin hefur verið góð. En það er yfirleitt sama fólkið sem kemur. Sumir koma sjaldan og aðrir aldrei. 


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 9 af 9 - Heildstæð frásögn

Hér getur þú haft heildstæða frásögn fyrir alla spurningaskrána eftir eigin höfði, t.d. um venjulegan skóladag eða annað.

Við vöknuðum snemma til að fara í tíma og svo að borða. Við vorum í tíma og að læra fram eftir degi. Íþróttir, sund og leikfimi blönduðust inn í skóladaginn. Dansinn var kenndur efir kvöldmat þegar matsalurinn var laus.Það var alltaf hægt að hafa eitthvað fyrir stafni. Þegar búið var að slökkva á kvöldin átti að vera komið á hljóð en við stelpurnar töluðum, flissuðum og hlógum í myrkrinu þar til við duttum út af. Það er gaman að fá tækifæri til að rifja þessa ógleymanlegu daga upp með þessum hætti.


Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana