LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Vantar lýsingu
 Mitt safn

Landfræðileg staðsetning


EfnisatriðiHeimavistarskóli, Héraðsskóli, Skólalíf
Ártal1962-1964
Spurningaskrá115 Minningar úr héraðsskólum

StaðurHéraðsskólinn að Laugarvatni
ByggðaheitiLaugarvatn
Sveitarfélag 1950Laugardalshreppur
Núv. sveitarfélagBláskógabyggð
SýslaÁrnessýsla
LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1947

Nánari upplýsingar

Númer2017-1-93
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
Sent/Móttekið10.11.2017/29.11.2018
TækniTölvuskrift

Kafli 1 af 9 - Haldið í héraðsskóla

Í hvaða héraðsskóla varst þú og á hvaða árum? Hvers vegna varð þessi skóli fyrir valinu?

Var í Héraðsskólanum I Reykholti Borgarfirði. 1962-1963 og1963-1964 Vegna skorts á skólaplássi fyrir nemendur frá heimilum í úthverfum vor börn send á milli skóla samkvæmt ákvörðun skólayfirvalda og yfirleitt var litið niður á þessi börn og þeim raðað í lélegustu bekkina. Börnin frá fínni heimilum voru yfirleitt sett í betri bekki burtséð frá námsgetu. Ég var orðinn þreyttur á þessum þvælingi,sem gerði það að verkum að mér tókst aldrei að mynda varanleg tengsl við nokkurn,vildi ráða því sjálfur í hvaða skóla ég færi. einnig höfðu þrjú af eldri systkinum mínum verið í Reykholti og voru mjög svo jákvæð gagnvart skólanum  


Segðu frá undirbúningi fyrir skólavistina, kveðjum og brottför að heiman.

Ég kvaddi foreldra mína, mér var síða n ekið niður á BSÍ við Kalkofnsveg þar sem ég tók rútu Magnúsi Guðlaugssyni á Akranesi sem hafði sérleyfi til aksturs í Reykholt. Það var ekki neinn  undibúningur að ég man eftir. Ég hafði verið í vinnum um sumarið og átti eitthvað skotsilfur til þess að greiða hluta af skólagjaldi og faðir minn sendi svo pening þegar síðari hluti féll í gjalddaga.


Hvað tókst þú með þér í skólann (rúmfatnaður, kassettutæki, spil, gítar, bækur t.d.)?

Ég tók með mér fatnað til skiftana, sæng og sængurver, ritföng,skólabækur, myndavél,


Hvað er þér helst minnisstætt frá fyrstu ferð þinni í skólann? Upplifðir þú eftirvæntingu eða kvíða?

Ég var ekki kvíðinn þar sem þetta var mitt val, eftirvænting hefur verið einhver ég man það ekki. Vissi að ég var að fara að hitta fólk sem ég þekkti ekki neitt,var því reyndar vanur þar sem ég var sendur í sveit til fólks sem hvorki ég né foreldrar mínir vissu hvorki haus né sporð á þegar ég var níu ára og næsta ár á annan stað með sömu formerkjum þar sem ég dvaldi næstu tvö sumur. Annars gekk ferðalagið nokkuð vel ég man nú lítið eftir smáatriðum.


Hve langt var skólaárið? Hvenær byrjaði það og hvenær endaði það? Hvenær voru frí?

Skólaárið byrjaði i september, jólafrí um jól og áramót  þá fór maður í bæinn. Lok skólaárs var í maí. Alltaf var frí um helgar, einhver kennsla laugardögum skylduútivist á hverjum degi og allir áttu að ganga ákveðna vegalengd hægt var að stunda fótbolta og einnig fengum við afnot af leikfimisal og sundlaug skólans í frítímum.


Segðu frá skólalokum ár hvert og útskrift. Varstu fegin(n) að komast í burtu eða upplifðir þú eftirsjá eftir samfélaginu í skólanum?

Það var svosem ágætt að þessu var lokið. Það má líkja þessu við fangelsi þó ég hafi aldrei kynnst slíku af eiginn raun. Agi var mikill, dagurinn byrjaði venjulegast á sálmasöng  með orgel-undirspili, ekki alveg fyrir trúlausan og laglausan. Síðan morgunmatur , skyr, hafragrautur eða hæringur og lýsi. Kennsla byrjaði kl. 8 og voru venjulegast tveir tímar eftir hádegi og leikfimi eða sund, síðan útivist og lærdómur fram að mat. Á kvöldin vorum við læst inná vistum þar til opnað var daginn eftir. Skólaslit voru með hefðbundnum hætti skólastjórinn hélt ræðu og veitt voru verðlaun fyrir námsárangur þeir sem áttu að útskrifast með gang-fræðapróf eða landspróf sátu lengur en fyrsti og annar bekkur. 


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 2 af 9 - Tengsl við fjölskyldu og heimili

Lýstu samskiptum við fjölskyldu þína meðan á skólavist stóð. Hve mikil voru þau og á hvaða formi (símtöl t.d.)? Var eitthvað um heimsóknir að heiman eða heim?

Lýstu samskiptum við fjölskyldu þína meðan á skólavist stóð. Hve mikil voru þau og á hvaða formi (símtöl t.d.)? Var eitthvað um heimsóknir að heiman eða heim? Ég var aldrei heimsóttur í skólann né fékk bréf að heiman, ég skrifaði heim ef mig vanhagaði um eitthvað, fékk það sent með mjólkurbílnum . Ef ég þá hringdi heim þá fór ég á símstöðina og pantaði collect.


Hvernig upplifðir þú aðskilnaðinn við heimili þitt og þína nánustu (heimþrá, söknuður t.d.)?

Var orðinn vanur að vera að heiman yfir sumartímann þannig að það skipti mig litlu að bæta vetrinum enda einskins að sakna.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 3 af 9 - Húsakynni og rými

Hvernig fannst þér húsakynni skólans vera svona almennt? Hvað var jákvætt og hvað var neikvætt?
Lýstu skólastofunum þar sem þér var kennt í stórum dráttum (innanbúnaður t.d.).

Skólastofur voru þrjár ein fyrir fyrsta bekk önnur fyrir annan bekk og sú þriðja fyrir þriðja bekk hægt var að opna á milli Kennaraborðið var á upphækkun, þannig að nemendur sátu neðar Stástólar fyrir nemendur voru með trésetu og trébaki ekki þægilegt. Skólaborð var með skúffu fyrir hvern nemanda, nemendur átu tveir og tveir saman. 


Hve margir voru saman í herbergi á heimavist. Hvað réði því með hverjum maður lenti? Hve lengi voru nemendur saman í herbergi (eitt skólaár t.d.)?

Við vorum fjórir í herbergi. Okkur herbergisfélögunum kom ágætlega (saman).  Við fengum ekkert að segja um hverjum við vorum með í herbergi, ætli okkur hafi ekki verið komið fyrir saman þar sem við vorum af Reykjavíkur svæðinu allir fjórir. Ekki hægt að hafa okkur með sonum stórbænda úr sveitinni. Vorum fjórir, þeir sömu báða veturna. Einn af okkur var rekinn úr skólanum báða veturna. Eftir fyrri frávísun komst hann aftur í skólann. Fínn náungi


Segðu í aðalatriðum frá innanbúnaði í þínu herbergi. Hvernig var snyrtiaðstaðan t.d.?

Við höfðum sinn skápinn hver og það var eitt skrifborð, skiptumst á að nota borðið. Dýnur voru nokkuð lélegar með einhverskonar gúmmídúk sem gerði það að verkum að maður svitnaði og einnig voru þær kaldar, svo gat verið kalt í herberginu þegar kalt var úti. Annað var barn síns tíma, aðeins tvö WC fyrir 16 manns.


Var ákveðin sæta- eða svæðaskipting í kennslustofum, matsal, heimavist eða annars staðar innan skólans? Eftir hverju fór það, ef svo var?

Það voru ákveðin sæti sömu aðilar sátu saman allan veturinn. Ég var með sama sessunaut báða veturna þar til hann var rekinn. Í matsal var skipað til borðs, tvær stúlkur og tveir piltar hvoru megin við borðið og blandað á milli árganga. Hvert borð sá um að leggja og taka af borðum og vaska upp, þ.e. setja og taka úr uppþvottavél og þurrka og ganga frá. Einn borðstofustjóri var skipaður yfir hópnum, þ.e. einn úr hópnum.  


Hvernig hagnýttu nemendur sér sameiginleg rými (setustofu t.d.)?

Nemendur gátu verið í kennslustofum við lestur eða í turnherbergi skólans, einnig í bókasafni í kjallara við lestur, svo og á lofti yfir smíðastofu við föndur. (Áður fyr hafði kjallari sem var undir smíðastofu þar sem áður hafði verið þvottahús nýtt til að fá sér smók kallað syndin) en það var bannað að reykja í skólanum eða nálægt honum þau ár sem ég var þarna þó að nokkrir stunduðu það þá.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 4 af 9 - Mötuneyti og þvottahús

Hvenær voru matar- og kaffitímar og hve langir?
Nefndu gjarnan hvað var á boðstólum, hvers konar réttir og kaffibrauð, frá ólíkum máltíðum dagsins. Var boðið upp á eitthvað til hátíðabrigða, hvaða daga og í hverju fólst þessi tilbreyting? Hvernig fannst þér maturinn (góður, einhæfur t.d.) ? Hvaða máli skipti hann (gleðigjafi, ávísun á samveru t.d.)?

Það var venjulegast skyr, hafragrautur eða hæringur ásamt brauði með áleggi, mjólkurglas og lýsi á morgnana. Í hádegi var fiskur eða kjöt og grautur eða súpa. Í kaffitíma var mjólk, kex og brauð. Á kvöldin var venjulega létt máltíð, kjöt, plokkfiskur eða bara súpa. Matartímar voru venjulegast 1 klst. og var stjórnað af einum kennara eða skólastjóra, enginn mátti standa upp frá borðum fyrr enn viðkomandi kennari stóð upp. Alltaf var hringt inn í mat og kaffi sem var um korter. Matur var nokkuð góður, nema þegar allir fengu matareitrun eftir að hafa borðað sviðasultu sem var á borðum, það var víst fastur liður að það kom upp, gerðist báða veturna sem ég var þarna, allir sem höfðu borðað hana fengu hvínandi drullu og  gátu enga björg sér veitt tvö klósett og sextán manns með niðurgang og læstir inná vistinni, hægt var að bjarga málum með því að nýta skúringarfötur sem voru í geymslu undir stiganum. Ekki var hægt að ná í neinn, þar sem skólastjórinn sem bjó í  íbúð við hliðina á vistinni var ekki heima. Á kvöldin fengum við mjólk og hundakex. Ég kom að einum félaga sem var að maula hundakexið og drekka mjólkina og tautaði “oní það skal mig”. Eftir það hef ég notað þetta orðatiltæki þegar ég hef neyðst til að neyta ókræsilegs matar. Það var aldrei neitt gert til þess að gleðja mann þarna. Það bjargaði verunni þarna að presthjónin voru kennarar þarna. Frú Anna kennari á heimsmælikvarða með gríðarlega tungumálaþekkingu og Séra Einar skemmtilegasti kennari sem ég hef haft. Skólastjórinn og sonur hans gersamlega vonlausir kennarar gerðu í því að brjóta menn niður og leggja einstaka nemendur í einelti. Enda geri ég ráð fyrir að skólastjórinn hafi fengið starfið fyrir frændsemi og pólitík og náttúrulega sonurinn.  


Þurftu nemendur að vinna í mötuneyti eða borðsal, við ræstingar á skólahúsnæði eða önnur störf? Hversu oft og mikið?

Fjórir nemendur frá hverju borði sáu um að þjóna til borðs og vaska upp í  viku í senn. Þvottaflokkar voru skipaðir og þvottastjóri yfir hverjum flokk sem sá um þrif á húsnæðinu viku í senn, þ.e. sameigilegu rými. Á herbergjum sáu íbúar sjálfir um þrif og var reglulegt eftirlit með því. 


Var þvottahús í skólanum? Hvað var þvegið af nemendum og hve oft í mánuði ef svo var?

Allur þvottur var þvegin í þvottahúsi að Kleppjárnsreykjum, fóru nemendur sem skipaðir voru í þvottaflokk með forstöðumanni mötuneytis þangað með þvott sem safnað var saman, hver og einn varð að merkja sínar flíkur, þetta ver gert einu sinni í mánuði. 


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 5 af 9 - Skóladagurinn

Hve marga daga í viku var kennt og hve langur var skóladagurinn?

Stundum var kennt á laugardögum en frí á sunnudögum. Byrjað var kl. 8, kennt fram að hádegi, haldið áfram eftir hádegi og til kl. 3. 


Segðu frá bóklegri kennslu í stórum dráttum (námsgreinar, kennsluaðferðir t.d.).

Enska var kennd og lögð  áhersla á málfræði, framburð, þá hástéttarensku og orðaforða. Danska  einnig málfræði, framburð og orðaforða. Íslenska réttritun, málfræði og bókmenntir. Yfirleitt fór kennsla fram í fyrirlestraformi, við látin glósa og lesa upp, próf tekin reglulega. Stærðfræði. Þurrir fyrirlestra og menn teknir upp að töflu til þess að niðurlægja þá, lítið  reynt að finna út hvort skilningur á efninu væri fyrir hendi. Skólastjórinn sá um kennslu í algebru en sonurinn í reikningi. Sonurinn hafði litla stærðfræðikunnáttu og stóð sjálfur oft á gati í tímum ef um erfitt dæmi var að ræða. Landafræði fyrirlestur og kortalestur, spurningar um efnið sem var sett fyrir. Sagnfræði. Sögur um atburði og nemendur spurðir út úr efni sem sett var fyrir og athugað hvort nemendur hefðu skilning á framrás sögunar. Náttúrufræði kennsla drepleiðinleg, upplestur upp úr bók sem enginn skildi. Skólastjórinn sá um það.


Hvaða verklegar greinar voru kenndar? Hvað er þér helst minnisstætt? Var verklega kennslan kynjabundin á einn eða annan hátt og hvernig lýsti það sér ef svo var?

Piltar voru í smíði á smíðaverkstæði með ágætan kennara, lét okkur smíða húsgögn sem gekk ágætlega. Stúlkur voru í handavinnu, saumuðu og prjónuðu.


Fenguð þið einhverja aðra verklega þjálfun? Hverja ef svo var? Hvernig hefur þessi verklega kennsla eða þjálfun nýst þér í lífinu?

Það var ekkert kennt sem ég kunni ekki fyrir.


Hvernig var leikfimi- og sundkennslu háttað (hvað var kennt, tæki t.d.). Var kennslan mismunandi eftir kynjum og hvernig lýsti það sér ef svo var?

Piltar voru sér í leikfimi, hún gekk út á að hoppa yfir hest, klifra í köðlum, gera armlyftur og magaæfingar. Bringusund var kennt.


Hvað var helst gert í frímínútum? Var t.d. fótbolta- og körfuboltavöllur? Voru frímínútur skipulagðar eða alveg frjálsar? Hve langar voru þær og hve oft á dag?

Það var fótboltavöllur sem farið var á um helgar. Frímínútur voru stuttar og var yfirleitt ekki farið út fyrr en i lok kennslu.  


Segðu frá heimanámi (reglur, ein[n] eða með öðrum, aðstoð, tímalengd t.d.).

Maður nýtti eftirmiðdaginn til heimanáms og kvöldin ef friður fékkst til þess. Hægt var að vera í turninum við lestur eða á bókasafni skólans.  


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 6 af 9 - Hefðir

Hverjar voru helstu hefðir í skólanum að þínu mati (heiti, stund, staður, hvað var gert t.d.).

Einu hefðirnar voru göngurnar upp á Skáleyjarbungu.


Manst þú eftir bröndurum eða sögum um skólann, próf, kennara og annað starfsfólk? Viltu segja frá þessu?

Það voru fullt af bröndurum sem gengu um kennara skólans og ein sagan kom í sjónvarpsleikriti eftir Jónas Árnason sem var kennari við skólann síðar. Þar var átt við einn kennarann og fjósamanninn. Fer ekki nánar út í þá sálma.  


Segðu frá dularfullum fyrirbærum, þjóðtrú eða hjátrú, sem þekktist innan skólans (próf, húsakynni, yfirnáttúrulegar verur t.d.).

Það var einusinni draugur sem réðist á mig í svefni og ætlaði að kirkja mig. Ég barði hann af mér. Ég var lengi að ná mér eftir þessa aðför. Eitt sinn fóru nokkrir fyrstu bekkingar í andaglas og einn nemandi sett nafn samnemanda síns þar sem andinn í glasinu sagðist ætla að drepa hann, sá trylltist þegar hann las þetta, náði ekki andanum, það endaði með því að kalla þurfti á lækni til þess að sprauta hann niður. Drengur þessi var heljarmenni að burðum.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Stjórn nemendafélagsins sá um þá hluti, það var skemmtinefnd sett var upp, leikrit, lesin ljóð, upplestur þar sem gert var góðlátlegt grín af kennurum.Kafli 7 af 9 - Félagslíf

Í hverju fólst félagslíf í skólanum helst (viðburðir, skemmtanir, félög t.d.)? Hverjir skipulögðu félagslífið eða höfðu frumkvæði að því (nemendur, skólinn t.d.)? Hvernig var þátttakan (stelpur/strákar)?
Var hugsanlega litið á þátttöku nemenda sem félagslega þjálfun og því lögð áhersla á hana af hálfu skólans? Tóku kennarar þátt? Getur þú sagt frá þessu?

Það var aldrei hugsað út í slíkt í þá daga.


Hvaða íþróttir voru helst stundaðar? Voru nemendur örvaðir til þátttöku? Voru haldnar keppnir innan skólans eða við aðra skóla?

Það var sundkeppni, ekkert annað sem ég man eftir, jú, keppt í fótbolta þegar gamlir nemendur komu í útskrift.


Hvaða reglur giltu um neyslu áfengis og tóbaks? Var farið eftir þeim? Hvernig brást skólinn við brotum á þessum reglum? Þekktust sterkari efni og ef svo var hvaða?

Ég þurfti að fari í bæinn til læknis og fékk með mér innkaupalista frá skólafélögunum þar sem beðið var um Wisky, vindlinga, neftóbak og skro sem ég kom með og skilaði til  þeirra sem það áttu. Þetta komst aldrei (upp?). Það var stofnaður neftóbaksklúbburinn nautnin númer eitt, það árið í skólanum. Engin sterkari efni þekktust, menn voru eitthvað að fikta með skósvertu og rakspíra annað ekki.


Hvaða reglur, skrifaðar eða óskrifaðar, giltu um heimavistina (svefntími, heimsóknir, eftirlit t.d.)?

Allir komnir í ró kl.10, heimavistin læst, engar heimsóknir, Hægt var að dýrka upp hurðir og fara um allan skólann og það var gert.


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 8 af 9 - Samskipti

Hvað er þér helst minnisstætt við starfsfólk skólans og samskipti þín við það (kennarar, starfsfólk í mötuneyti t.d.)?

Mér er ekki neitt minnistætt nema þá helst að maður var tekinn fyrir ef maður neitaði að fara í kirkju. Það var haft eftirlit með því að nemendur mættu þegar messað var. Þar sem ég er trúleysingi taldi ég mig ekkert hafa þangað að sækja þó að mér líkaði vel við prestinn, ég held nú reyndar að hann hafi einnig verið trúaus.


Vera á heimavistarskóla hefur í för með sér mikil samskipti við aðra nemendur. Hvaða áhrif telur þú að þetta hafi haft á líf þitt bæði þá og til langframa?

Jú, sjálfsagt hafur það haft einhver áhrif sem maður getur nú ekki greint. Að lokinni dvöl þarna þá fór ég að vinna og hef ekki farið í skóla meir.  Ég held að sú menntun sem ég fékk þarna sé svona ígildi stúdentprófs í dag. Miðað við það hámenntað fólk sem ég hef unnið með síðan


Urðu til sterk vinasambönd? Hve lengi héldust þau sambönd, jafnvel til dagsins í dag?

Nei, ég hef varla séð nokkurn af mínum samnemendum síðan í skólanum, rekist á einn og einn. Rétt eftir skóla þá hittumst við nokkrir og fórum að skemmta okkur, síðan tvistraðist hópurinn.


Kanntu að segja frá samskiptum kynjanna (vinátta, kærustupör, kynlíf t.d.)?

Það mynduðust sambönd þarna, eitt par sem varð til eftir skóla er enn í dag. Voru saman í skólanum en þá með öðrum einstaklingum.


Í heimavistarskólum hefur stundum verið talað um einstaklinga sem vilja ráða yfir öðrum nemendum (foringjar). Var um eitthvað slíkt að ræða í þínum skóla og hvernig lýsti það sér, ef svo var?

Já, þeir voru til, höfðu smá  hirð í kringum sig. En alveg meinlausir þannig.


Varst þú eða einhver sem þú vissir um fyrir einelti, niðurlægingu eða kynferðislegu áreiti? Vilt þú að segja frá þessu? Hvernig var tekið á slíkum málum, ef um þau var að ræða?

Ég man eftir að þegar ég kom fyrst í skólann þá sagði einn við mig, þú verður sko tekinn fyrir, ég sagði jæja en það fór á annan veg. Ég var látinn í friði en hann var tekinn fyrir. Einelti var mjög grimmilegt þarna og menn teknir fyrir, ég held að þetta hafi verið helvíti fyrir suma að vera þarna. Þessir sömu strákar komu ekki á reunion. Ég hef hitt annan þeirra nokkru sinnum og hann á ekki  góðar minningar frá skólanum. Einn af þeim sem stundaði eineltið hvaða harðast er kennari, hefur kennt í framhaldsskólum og háskólum og er álitsgjafi um efnahagsmál á vefmiðlum.


Hversu mikil tengsl eru á milli fyrrverandi skólafélaga? Er einhver vettvangur fyrir að hittast og hvernig hefur þátttakan verið?

Engin tengsl hvað mig varðar. 


Hér getur þú svarað öllum spurningunum í þessum kafla í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra.

Kafli 9 af 9 - Heildstæð frásögn

Hér getur þú haft heildstæða frásögn fyrir alla spurningaskrána eftir eigin höfði, t.d. um venjulegan skóladag eða annað.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana